T.N.S. á morgun! (+viðbót)

Vá. Í dag er 12. júlí og ég er að skrifa upphitun fyrir fyrsta alvöruleik tímabilsins. Liverpool byrjar tímabilið mánuði á undan hinum toppliðunum að þessu sinni, en á morgun taka Evrópumeistararnir á móti liðinu með skemmtilega nafnið, Total Network Solutions sem eru velskir meistarar. Liðin mætast svo á þriðjudag í næstu viku í síðari leik þessarar fyrstu umferðar forkeppni Meistaradeildar Evrópu (allt of langur titill á þessari keppni) …

Ég var reiðubúinn að skjóta á líklegt byrjunarlið okkar áðan, og fannst líklegt að Rafa myndi hreinlega stilla upp sterkasta liði sem hann hefði völ á núna – fyrir utan það að Dudek og Baros spila nær örugglega ekki – en það lið hefði litið einhvern veginn svona út:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

García – Gerrard – Alonso – Zenden

Cissé – Morientes

En svo horfði ég á blaðamannafundinn fyrir þennan leik, þar sem Rafa sagði nokkuð athyglisvert. Aðeins helmingur hópsins sem við höfum til umráða í dag hefur verið að æfa í tvær vikur með liðinu. Landsliðsmenn sem fengu aukið frí, eins og Carra, Gerrard, Alonso, García, Baros, og fleiri, mættu ekki til æfinga fyrr en á mánudag í síðustu viku!

Að fá að æfa í átta daga eftir sumarfrí og eiga svo að spila 90 mínútur … ??? Það er náttúrulega fáránleg tillaga! En þar sem leikurinn á morgun er alvöru, þ.e. aðeins þrjár skiptingar leyfðar, þá er ljóst að af ellefu leikmönnum þurfa átta að spila allan leikinn.

Hvernig velur Rafa þá í liðið? Setur hann gæja sem hafa ekki verið með landsliðum – eins og Hamann, Warnock, Welsh, Le Tallec, Raven, Potter – í liðið á morgun í stað manna eins og Carra, Gerrard, Alonso og Cissé?

Ég held ekki. Ég held að Rafa vilji forðast að menn brenni út of snemma í vetur, og því er ljóst að t.d. Gerrard mun aldrei spila 180 mínútur gegn T.N.S. Og það sama gildir um fleiri. En ég held að Rafa muni engu að síður stilla upp sínu sterkasta liði á morgun – liðið sem ég taldi til hér að ofan – og muni freista þess að klára þetta einvígi á Anfield. Ef við erum 4-0 yfir í hálfleik á morgun er ekkert því til fyrirstöðu að skipta þremur þreyttustu mönnunum út snemma í seinni hálfleik, klára öruggan sigur, og síðan setja Welsh, Whitbread, Potter, Le Tallec og aðra slíka í byrjunarliðið í seinni leiknum.

Gleymum því heldur ekki að það er uppselt á Anfield á morgun – og leikurinn er í beinni á sjónvarpsstöðvum um alla Evrópu (þ.m.t. SÝN hér heima) … það er bókstaflega búist við að Evrópumeistararnir haldi flugeldasýningu á morgun. Rafa er örugglega meðvitaður um það, og mun því ekki vanmeta T.N.S. á morgun heldur stilla upp sínu sterkasta liði!

MÍN SPÁ: Ég veit að leikmenn Liverpool mega ekki vanmeta andstæðinginn, en þeir mega heldur ekki ofmeta hann. Ég geri það ekki. Á meðan Rafa hefur úr Evrópumeisturum að velja í liðið sitt var þjálfari T.N.S. að auglýsa eftir leikmönnum fyrir helgi. Það segir manni það eitt að þeir eru langt frá því að vera í sama klassa og okkar menn, sama hvað sumarryðgun líður.

Ég veit því að við fáum að sjá öruggan sigur á morgun. Ef ekki fyrir aðrar sakir en þær að ég býst við að áhugamennirnir í T.N.S. muni stirðna upp þegar þeir ganga út á völlinn og mæta 47,000 hávaðasömum Púllurum. Það hafa stærri lið bliknað frammi fyrir The Kop áður! 😀

Lokastaða? Eigum við að segja 5-0 sigur? Þrjú mörk í fyrri hálfleik og að sjálfsögðu skorar fyrirliðinn það fyrsta með þrumuskoti! Morientes mun skora tvö á morgun, hann fær loksins LOKSINS að spila Evrópuleik fyrir Liverpool! Cissé skorar líka, og hver veit nema Carragher setji eitt úr vítaspyrnu? 😉

Það er ekki ætlun mín að vanvirða þetta T.N.S.-lið hér, þeir munu eflaust mæta reiðubúnir í slaginn á morgun og berjast grimmt fyrir sínu. Og hver veit, eins og með AK Graz í fyrra þá gætu þeir alveg komið á óvart gegn okkur. En ég bara stórefa það … ef maður er einhvern tímann sigurviss, þá hlýtur það að vera fyrir morgundaginn!

Það er erfið staða fyrir Rafa og leikmennina að þurfa að keppa alvöruleik þann 13. júlí, en fyrir okkur aðdáendurna er þetta bara gleðiefni. Við sitjum þó kátir og horfum á liðið okkar spila á meðan stuðningsmenn flestra annarra liða þurfa að bíða í a.m.k. 2-3 vikur áður en þeir sjá sín lið í aksjón! 🙂


**Viðbót (EÖE)**: já, þetta verður fróðlegt á morgun. Ég er orðinn umtalsvert spenntur fyrir leiknum. Ég er búinn að sakna Liverpool þessar síðustu vikur og get ekki beðið eftir því að sjá okkar menn spila á morgun.

Auðvitað er þetta algjört no-win ástand fyrir Liverpool. Eina leiðin til að liðið komi vel útúr leiknum er að vinna 6-0. Allt annað og þá munu einhverjir dæma þetta sem ósigur fyrir Liverpool. Ef við töpum, þá er það mesta sjokk í sögu liðsins. Ef við vinnum 2-0, þá hefðum við átt að vinna stærri sigur. Ef við fáum á okkur mark, þá er það ósigur.

Það er erfitt að fara inní svona leiki vitandi að menn munu túlka allt nema risasigur sem áfall. En menn verða bara að gleyma því og spila bara eðililegan bolta. Ef að Liverpool spilar eitthvað nálægt eðlilegum leik, þá eiga þeir að klára þetta auðveldlega.

Ég er sammála með byrjunarliðið. Þetta er okkar besta lið í dag (fyrir utan Kewell, sem er meiddur). Einhvern veginn grunar mig þó að Rafa muni koma okkur einhvern veginn á óvart.

8 Comments

  1. Hehe já mig grunar það líka, Rafa kallinn kemur manni oft á óvart. Hinsvegar held ég að leikurinn fari 5-0 fyrir Liverpool, Morientes með 3 og Zenden með 2 :biggrin2:

  2. Að fá að æfa í átta daga eftir sumarfrí og eiga svo að spila 90 mínútur ? ??? Það er náttúrulega fáránleg tillaga!

    Við skulum samt ekki gleyma því að þessir menn gera þetta að atvinnu 🙂

  3. Ég held að menn muni ekki túlka 2 til 3 – 0 sigur fyrir liverpool einhvern magnaðan ósigur. Menn átta sig á því að liðið er að koma saman og þarf tíma. Leikmennirnir hafa líklega átt náðuga daga við að fagna titlinum og ekki búist við því að þurfa að taka á því svona snemma. Ef Liverpool kemst áfram þá gleymist fljótt hvernig leikurinn fór svo lengi sem þetta verða ekki 4-3 hörkuleikir eða 10-0 sigrar.

  4. Annars voru þetta talin líkleg byrjunarlið á morgun að mati Guardian Guardian

    Liverpool (4-4-2, probable):
    Reina;
    Finnan, Carragher, Hyypia, Riise;
    Potter, Gerrard, Hamann, Zenden;
    —-Morientes, Cissé.

    Total Network Solutions (4-5-1, probable):
    Doherty;
    Baker, Evans, Jackson, Ruscoe;
    Beck Leah, Ward, Lawless, Toner;
    Wood.

  5. Hvernig er þetta fyrirkomulag annars. Ef þeir vinna TNS þá spila þeir við FC Kaunas eða HB Torshavn ekki satt. Síðan hvað ? Er þá annað útsláttareinvígi eða eru þeir komnir í riðlakeppnina þar með ? :confused:

  6. Kristinn J – það eru þrjár umferðir i forkeppninni. Ef Liverpool klárar TNS mæta þeir annað hvort HB eða Kaunas. Ef þeir klára það einvígi verða þeir settir í sterkari helminginn í þriðju umferðinni – sem þýðir að þeir geta ekki mætt liðum á borð við Man U eða Everton, né Villareal, Internazionale og öðrum af sterkari liðunum í þriðju umferð forkeppninnar.

    Þar myndum við sennilega fá lið af svipuðum styrkleika og Graz AK, sem við kepptum við í þriðju umferðinni í fyrra.

    Ef við klárum það einvígi svo, í þriðju umferðinni, erum við komnir inn í riðlakeppnina … og þá mun ég anda töluvert léttar. 🙂

  7. Liverpool vinnur 8-0
    og aftur 7-0 í síðarileik liðana

    og þá eru bara 4 leikir eftir og svo riðla Bingo
    annar Meistaratillilin í röð?

    og rúlum enskudeildini upp
    og bikar
    sem sagt 3 tittlar í ár. :biggrin:

Reina & Momo kynntir + aðrar fréttir

Liverpool bjóða í Milito! (uppfært)