Undanfarin þrjú ár hef ég horft á sex leikmenn halda á þessum bikar: árið 2003 voru það Alex Ferguson og Roy Keane, árið 2004 voru það Arsene Wenger og Patrick Vieira og nú í vor voru það José Mourinho og John Terry. Ég gæfi ansi margt fyrir að geta bætt Rafael Benítez og Steven Gerrard við á þennan lista eftir tæpa tíu mánuði.
Það er alveg ljóst að í kjölfar velgengni okkar í Evrópukeppninni í vor hlýtur stefnan að vera sett á eftirfarandi velgengni í ár: að ná a.m.k. í 16-liða úrslitin í Meistaradeildinni, fara lengra en í fyrra í FA-bikarkeppninni og berjast um sigur í ensku Úrvalsdeildinni! Af þessum þremur er það síðastnefnda síðan laaaangmikilvægast. Ég þoli 4. sætið í ár ef við erum innan við 10 stigum á eftir toppliðinu, ég er ekki viss um að ég verði sáttur við 3. sætið ef við erum 20+ stigum á eftir toppliðinu. Það er erfitt að ætla liðinu að sigra deildina að lokum en ég vill allavega sjá okkur vera með í baráttunni frá byrjun, og helst lengur en fram í október.
Nú, í tilefni af því að enska Championship-deildin (gamla 1. deildin) er að fara af stað um helgina, og Chelsea & Arsenal mætast á morgun í baráttunni um Samfélagsskjöldinn, fannst mér tilvalið að hita aðeins upp með því að velta aðeins fyrir okkur hvaða möguleika á titli hin stóru liðin í deildinni hafa. Þannig að hér kemur smá samantekt um þau lið sem eru líkleg til afreka í ár:
CHELSEA (meistarar síðast)
Þeir unnu ekki deildina síðast, þeir rústuðu henni. 95 stig og nýtt met í fáum mörkum fengin á sig, það er alveg ljóst að þeir voru einfaldlega langsterkastir í ensku Úrvalsdeildinni á síðasta ári. Síðan síðasta tímabili lauk hafa þeir selt Scott Parker til Newcastle, Mateja Kezman til Atletico Madríd, Mikael Forssell til Birmingham og lánað Rússann Alexei Smertin til Charlton. Í staðinn hafa þeir keypt Asier del Horno frá Atletic Bilbao, Shaun Wright-Phillips frá Man City og endurheimt þá Hernan Crespo frá AC Milan og Carlton Cole frá Charlton.
Chelsea er sennilega eina liðið í deildinni þar sem allt mun fara í panikk ef þeir vinna titilinn ekki aftur í ár. Miðað við þá peninga sem hafa verið settir í þetta lið er sigur í deildinni lágmarkið, og ljóst er að pressan verður ekki aðeins á Mourinho að vinna í Englandi heldur einnig að fara alla leið í Evrópu, eftir að hafa dottið tvisvar í röð út í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Það er spurning hvort að aukin áhersla á Meistaradeildina í ár mun hafa einhver áhrif á spilamennskuna heima fyrir? Ég efa það, en maður veit aldrei.
Það sem mér finnst vera aðal spurningarmerkið við Chelsea er að é er ekki sannfærður um að þeir geti haldið sínu striki ef þeir lenda í meiðslum. Þrátt fyrir alla breiddina sem þeir búa yfir eru þeir bara hálft lið ef t.d. John Terry & Frank Lampard meiðast á sama tíma. Þeir voru gríðarlega heppnir með meiðsli í fyrra – aðeins Arjen Robben og Wayne Bridge af aðalmönnum liðsins voru eitthvað verulega lengi frá – en Terry og Lampard gátu leikið nánast alla leiki liðsins. Það væri spennandi að sjá þá ef t.d. Eiður Smári, Lampard og/eða Terry fara að lenda í meiðslavandræðum.
Mín Spá: 1. – 2. sætið pottþétt, allt annað og Mourinho verður rekinn.
ARSENAL (2. sætið síðast)
Arsenal rústuðu deildinni fyrir rúmu ári síðan og, þrátt fyrir að ná aðeins öðru sætinu síðast voru þeir áfram að spila langbesta boltann. Þeir eru með efnilegasta liðið í deildinni, besta leikmanninn í deildinni (Henry) og sennilega besta þjálfarann – að okkar manni frátöldum (er hlutdrægur þar þannig að ég ætla ekki að bera þá saman) – þannig að á pappírnum bendir flest til þess að þeir muni halda áfram að vera skemmtilegastir í deildinni.
Stóra spurningarmerkið er að sjálfsögðu Patrick Vieira, fyrirliðinn sem þeir seldu í sumar. Menn virðast almennt telja að þetta muni veikja þá en ég er ekki eins viss. Wenger hefur misst burðarása úr liði sínu fyrr (Tony Adams, Lee Dixon, Nigel Winterburn, Steve Bould, Martin Keown, David Seaman, Ian Wright, Paul Merson, Nicolas Anelka, listinn er laaangur) og yfirleitt hefur liðið einhvern veginn bara orðið betra fyrir vikið. Það mæðir mikið á ungum strákum eins og Flamini og Fabregas í kjölfar brotthvarfs Vieira en ef þeir standa undir því er engin ástæða til að ætla annað en að Arsenal verði sterkir í vetur. Þá hafa þeir fengið Hvít-Rússann frábæra Alexandr Hleb frá Sutttgart og hann mun vafalítið styrkja þá mikið í vetur.
Einnig er rétt að minnast á það að síðan Wenger tók við – fyrir 10 árum næsta vor – hafa Arsenal aldrei endað neðar en í 2. sæti í deildinni. Menn ættu að hafa það í huga áður en þeir fara að afskrifa þetta lið…
Mín Spá: 1. – 2. sætið pottþétt.
MANCHESTER UNITED (3. sætið síðast)
Ég er reyndar með mjög ákveðna skoðun hér. Ég held að United sé lið á niðurleið, og ég skal útskýra af hverju:
Þeir hafa enn ekki styrkt það sem ég tel vera veikustu stöðuna þeirra. Í fyrra sást greinilega hversu illa mannaðir þeir eru inni á miðjusvæðinu og því hélt ég að þeir myndu pottþétt kaupa a.m.k. tvo menn í það svæði í sumar. Roy Keane er að eldast, Djemba-Djemba fór í janúar og nú er Phil Neville líka farinn, þannig að þeir eru gríðarlega þunnskipaðir inni á miðjunni. Þeir keyptu frábæran væng-sóknarmann í hinum kóreska Park, en þú getur ekki stoppað upp í gat í vegg með því að setja blómvönd þar í. Þeir eru hættulega undirmannaðir á miðjunni og ef Ferguson kaupir ekki a.m.k. tvo menn á næstu 25 dögum þá sé ég lítið annað fyrir mér en hrun í vetur. Sjáiði til.
Spurningin er bara, eftir að Malcolm Glazer keypti klúbbinn er engin leið að segja fyrir víst hvort Ferguson fær yfirhöfuð pening til að kaupa leikmennina sem hann svo augljóslega þarfnast.
Mín Spá: 4. – 6. sæti.
EVERTON (4. sætið síðast)
Þeir voru óheppnir og fengu Villareal í 3. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Að mínu mati klára þeir það ekki, það áfall sem gæti fylgt því að komast ekki í riðlakeppni Meistaradeildarinnar gæti gert útaf við tímabil þeirra áður en það hefst.
Þetta lið – svo það sé alveg á hreinu – náði 4. sætinu í fyrra nær eingöngu sökum þess hversu miklir aular Liverpool voru í deildinni. Bara svo það sé á hreinu, þetta lið er ekki einu sinni 7. besta lið í deildinni, hvað þá 4. besta liðið. Þeir töpuðu sjö-núll fyrir liðinu í 2. sæti, Arsenal, á vormánuðunum.
Þeir reyndu og reyndu að kaupa menn í sumar en ekkert gekk, það var engu líkara en að menn vildu ekki ganga til liðs við þá (hmmm…) Á endanum voru þó verslaðir þeir Phil Neville, Mikel Arteta (sem var á láni hjá þeim í fyrra), Per Koldrup, Simon Davies og að sjálfsögðu James Beattie.
Er það nóg hjá þeim til að halda 4. sætinu, hvað þá að bæta það? Að mínu mati er það ekki nærri því nóg, en Everton hafa svo sem stungið ofaní við mig áður. Ég get samt ekki að því gert, ég hef bara nákvæmlega enga trú á þessu liði. Ég verð þá bara að standa og falla með því mati, þeir verða þá bara að láta mig éta orð mín, en ég er nokkuð viss um að Everton munu enda í ströggli í vetur.
Mín Spá: 11. sæti eða neðar…
BOLTON (6. sætið síðast)
Þeir keyptu Dioufy loksins í sumar og hafa einnig fengið til sín Mexíkóann Jared Borghetti, sem er snjall framherji sem á eftir að reynast þeim góður í vetur.
Það þarf svo sem ekki að fjölyrða um Bolton, það vita flestir hvers þeir eru megnugir. Sam Allardyce er í raun búinn að vinna frábæra vinnu fyrir nánast engan pening hjá þessu liði og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þeir haldi áfram að gera það sem þeir gera best; stríða stóru liðunum og lenda ofarlega í deildinni.
Mín Spá: 4. – 6. sæti, vonandi fyrir ofan United 🙂
NEWCASTLE (14. sæti síðast)
Það er mikið fjallað um þetta Newcastle-lið í ár eins og fólk búist virkilega við því að Graeme Souness muni gera eitthvað af viti með þetta lið. Þeir misstu Patrick Kluivert í sumar og hafa í raun ekki fengið neinn framherja í staðinn, en þeir hafa á móti keypt Emre og Scott Parker á miðjuna. Framlínan og vörnin eru samt ennþá frekar þunnskipuð og með Souness á hliðarlínunni – mann sem hefur í raun aldrei afrekað neitt af viti sem þjálfari í Englandi – er ég nokkuð öruggur um að toppliðin þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim í vetur.
Mín Spá: 10. sætið eða í nágrenni við það.
TOTTENHAM (9. sætið síðast)
Ég hef fulla trú á þessu Tottenham-liði. Þeir hafa keypt skynsamlega og staðið vel að öllum sínum málum síðasta árið, sem þýðir að nú hefur Martin Jol (sem auk Rafa Benítez hlýtur að vera viðkunnalegasti þjálfari deildarinnar) úr frábærum hópi ungra og efnilegra leikmanna að velja. Með tilkomu Edgar Davids fá þeir síðan mikilvæga reynslu og góða kjölfestu á miðjusvæðinu sem mun koma þeim til góða í vetur. Ég hef hrifist af Tottenham síðasta árið, þeir reyna jafnan að spila spennandi sóknarbolta og skemmta fólki, og ég spái því að í ár muni þeir uppskera fyrir góða vinnu sína og berjast um sæti í Meistaradeildinni.
Mín Spá: 4. – 6. sæti.
Önnur lið þarna fyrir neðan gætu öll komið sterk inn – Middlesbrough, Charlton, Blackburn, Birmingham, Manchester City og Fulham hafa öll átt góð tímabil á undanförnum árum. Þá er spurning hvort að David O’Leary muni loks gera eitthvað úr þessu Aston Villa liði eða hvort að hann og Doug Ellis muni enn og aftur valda vonbrigðum.
Allavega, hvað sem þeim líður þá er ég nokkuð viss hvaða lið munu skipa sex efstu sæti deildarinnar í ár – ég er bara ekki eins viss hverjir verða í hvaða sæti. En mín spá er allavega svo hljóðandi:
1. Arsenal
2. Chelsea
3. Liverpool
4. Tottenham
5. Bolton Wanderers
6. Manchester United
7. …
Þannig spái ég þessu. Auðvitað vona ég að við náum ofar en í 3. sætið en í sannleika sagt verð ég sáttur við þetta tímabil ef við erum í 3. sæti og nálægt toppnum í maí n.k.
Þetta verður allavega spennandi vetur, það er alveg á hreinu. Ég get ekki beðið eftir næstu helgi!!!
**Viðbót (EÖE):** Jamm, ég hef svo sem ekkert alltof miklu við þetta að bæta.
**Chelsea**: Þrátt fyrir að liðið sé með fáránlega breidd, þá held ég að ef þeir myndu missa Lampard og/eða Terry, þá myndi virkilega sjá á spilamennskunni. Chelsea liðið getur varla farið í gegnum tímabilið án meiðsla líkt og þeir gerðu í fyrra. Það er bara ekki hægt.
**Arsenal**: Ég hef minni trú á þeim en Kristján. Ég held að við eigum eftir að sjá Fabregas, Flamini og co hiksta verulega. Núna er ábyrgðin á þeim að halda miðjunni uppi og ég held að það eigi eftir að reynast þeim vel. Fabregas er bara 18 ára, svo að pressan á honum er gríðarleg.
**Man U**: þarna er ég nokkuð sammála. Hef ekki jafnmikla trú á van der Saar og ég hafði áður, og svo hefur allt ruglið í kringum Rio Ferdinand eflaust haft áhrif. En þeir eru með besta framherjaparið í ensku deildinni í van Nilsteroy og Rooney (ég tárast nánast þegar ég skrifa þetta), svo það er ekki hægt að afskrifa liðið. Ef að Nilsteroy verður jafngóður og hann var áður en hann meiddist, þá verður liðið alltaf í toppbaráttunni.
Mín spá
1. Chelsea
2. Liverpool
3. Arsenal
4. Manchester United
5. Tottenham
Ég get ekki beðið!
Ég er algjörlega sammála þér með Man Utd Kristján.
Mér finnst alveg fáránlegt að Sörinn hafi ekki keypt alvöru miðjumann ennþá og ætlar í staðinn að gera Alan Smith að miðjumanni.
Þeir segja að vilji Sörinn bjóða í Owen séu peningar til staðar, en eru þá ekki peningar til staðar ef að hann vill góðan miðjumann ?
Skrítnir þessir Man Utd menn…
mín spá
1.Liverpool
2.Chelsea
3.Arsenal
4.Manchester United
5.Tottenham
slökum aðeins á Sævar Sig….það er allt í lagi að vera bjartsýnn fyrir hönd síns liðs. En við verðum að vera svolítið raunhæfir hérna, Liverpool er ekki að fara að vinna deildina í ár, topp 3 yrði frábært og ég sem harður púllari byð bara ekki um meira strax frá Rafa. Við vinnum okkur hægt og þétt upp töfluna á næstu árum og tökum þessa deild í framtíðinni engin spurning. En ég vill frekar vera lengi að byggja stórveldi heldur en að taka eina dollu á 2. – 3. ára fresti. Liverpool verður orðið stórveldi innann 3. ára…áfram LFC! 🙂
Af hverju segirðu að það sé laaaaang mikilvægast að vinna ensku deildina? Er ekki alveg jafn mikilvægt að verja evróputitilinn það finnst mér þó svo að það séu kominn u.þ.b. 15 ár síðan við unnum deildina síðast. Auðvitað vilja allir fá titilinn sem við höfum ekki fengið síðastliðin 15 ár aftur á Anfield.
Mín spá.
1. sæti – LIVERPOOL FC.
hitt skiptir bara ekki máli.
Rökstuðningur – hvað hefðuð þig sagt um Evrópumeistaratitilinn fyrir ári síðan!!!
Keep The Faith Men!
1.sæti á þetta að vera
Þetta með að scums eru á niðurleið er eitthvað sem í raun flestir sjá sem fylgjast með fótbolta og réttilega athugað hjá þér, Kristján. Það vantar meira en bara miðjuna í þetta lið því þeim skortir breidd núna eftir að þeir hafa verið að selja og selja og selja og keypt lítið til baka. Alveg furðulega rekinn klúbbur ef við tökum tillit til þeirrar staðreyndar að önnur lið styrkja sig með miklum peningaeyðslum, á meðan Saur Alex (sem er stjóri næst ríkasta liðs í heimi) fær afskaplega lítið til að eyða í leikmenn. Ég fagna þessari þróun og vona að Glaseygðu-feðgarnir frá “US of the F*cking A” klári dæmið algjörlega og skilji eftir Hiroshima-sár þar sem Old Shiteford situr nú! Fari þessi klúbbur til helvítis og vel það! :biggrin2:
…og já…Liverpool á að vera í 1-3.sæti á þessu tímabili. Allt neðar en það tel ég vera slakur árangur. Við eigum að vera fyrir ofan öll liðin í deildinni nema kannski Arse-anal og Chel$ki en við nálgumst þau! Hver veit….kannski getum við það í ár…munið evrópumeistaratitilinn sl tímabil með varaliðið okkar? :tongue:
Maður er sammála sumu af því sem er sagt þarna en ekki alveg öllu.
1. Arsenal: Fólk virðist hafa gleymt því, að þegar þeir voru að rústa öllum liðum í ágúst og byrjun september í fyrra, að þá var Vieira meiddur. Síðan er Gilberto náttúrulega gríðarlega sterkur miðjumaður. Og rétt eins og Wenger sagði eftir að hann seldi Vieira: “Trust me… I know what I’m doing”, þá hef ég tröllatrú á honum. Vieira er ekki búinn að vera jafn góður síðustu 1-2 árin eins og hann var 1998-2000. Persónulega held ég að Arsenal vinni þetta í ár.
2. Everton: Allir voru á því í fyrra, að Everton myndi falla nema David Moyes. Hann seldi Rooney, keypti Tim Cahill (sem ég hélt að myndu vera grínkaup ársins… miðjumaður úr Championship á 2m punda). Þeir hafa orðið óheppnir í félagaskiptunum (Missa af Parker, Liverpool rænta Sissoko o.s.frv.). Þó svo að þeir nái ekki endilega 4.sætinu aftur þá held ég að þeir verði í Topp 10.
3. Newcastle: Mitt lið. Ég hef ennþá ekki fyrirgefið stjórnarmönnum Newcastle fyrir að hafa rekið Sir Bobby, og ráðið Souness. Eina sem Souness hefur afrekað fyrir mér, er að uppgötva Damien Duff, og vinna League Cup með Blackburn sem þá voru nýliðar í deildinni. Enginn efast hins vegar um hæfileika Scott Parker, og félagi minn sem er Inter maður, hefur tjáð mér það að eftir 2-3 mánuði muni ég elska Emre, vegna þess hversu góður og skemmtilegur leikmaður það sé. Ég hef engar áhyggjur af sóknarmönnum í liðinu, því að ég hef alltaf sagt að Kieron Dyer myndi sóma sig sem ágætur sóknarmaður (maðurinn er jú álíka fljótur og Michael Owen). Ef ég ætti að vera raunsær þá myndi ég segja að þeir endi í svona 6.sæti.
4. Varðandi Chelsea og þeirra mál, þá hef ég ekki miklar áhyggjur þótt Terry meiðist, því þeir hafa líka Gallas sem að væri byrjunarhafsent í örugglega öllum öðrum liðum í deildinni. Einnig hafa þeir núna a.m.k. tvo menn í nánast öllum stöðum á vellinum (Duff/Robben vinstri kantur, Cole/SWP hægri, Crespo/Drogba/Gudjohnsen frammi).
5. Hvað Bolton varðar, þá eru allir þessir gömlu leikmenn orðnir árinu eldri, auk þess sem að Hierro er hættur. Ég myndi spá þeim svona 11.sæti.
Ég hef hins vegar meiri áhyggjur af því hvað Liverpool menn munu gera ef Carragher eða Hyypia meiðast, því að þeir hafa jú engan svona natural hafsent sem gæti leyst þá af hólmi (Traore yrði þá væntanlega troðið þangað), og maður veit ekki hvort Carragher nái 50 leikjum annað árið í röð.
pft Sverrir…… 🙂
Zak kemur sterkur inn ef að Carra eða Hypia meiðast…
ekki spurning.. :tongue:
Ég er nú nokkuð sammála mörgu sem kemur hér fram. Ég held að Chelsea taki þetta örugglega og Arsenal í 2 sæti, en mér finnst menn afskrifa united menn annsi fljótt. Ég er nokkuð viss um að united verða í baráttu við okkur um 3 sætið. Svo koma erfið lið einsog middlesborough, tottenham verða sterkir, bolton og newcastle. En hver veit kannski verðum við að fagna deildarsigri eftir 10 mánuði, ekki bjóst maður við að LIVERPOOL væru evrópumeistarar núna. :biggrin:
ÞVÍLÍKUR OG ANNAR EINS PISTILL !
Ég er hjartanlega sammála með MU, þeir hafa ekki verið að bæta mannskapinn og eru hreinlega að vona að þeir geti endað á svipuðum slóðum og vanalega vegna þess sem hefur verið í fortíðinni (MG hefur sennilega eitthvað þar að segja).
Arsenal selja einn af betri mönnum sínum og kaupa Hleb ??????? Veit ekki hvað það á að vera !
everton ????? Voru MJÖG HEPPNIR í fyrra – “to say the least”. Eru búnir að bæta mannskapinn mikið og verða eflaust skænuhættir. Stór spurning ???
Chelsea – mesta féð! Það er nú alltaf þannig að það er erfiðara að verja það sem þú átt en að eignast það ?
Bolton – hafa bætt í mannskap sem og misst einhverja sökum aldurs – verða neðarlega.
Liverpool – ef við verðum neðar en 4. sætið þá munum við fá aðra leiktíð eins og síðast, þe. allir í meiðslum og við spilum 50 leiki með þar til séð sömu leikmönnum. 3. sætið er líklegast þar sem að margir hafa farið og aðrir nýir komið í staðinn.
SPÁIN:
1. CHELSEA
2. ARSENAL
3. LIVERPOOL
4. – 10. MAN. UTD og ??, ???, ??, ??
Everton og Bolton sem voru í 7 efstu sætunum munu lenda í undir 10. sæti – því miður eður ei !
Góð grein en ég er ekki sammála henni að öllu leyti. Sérstaklega hvað varðar Arsenal. Þrátt fyrir að ég hati (já hati!) ekkert lið eins mikið og Arsenal – bannað að rifja upp ástæðuna hér – þá hef ég getað sagt að þeir væru skeinuhættir og alltaf með í baráttunni. En þrátt fyrir að hafa ekki lent neðar en í 2. sæti síðustu 9-10 ár, þá segir það ekkert endilega um þetta ár. Allir þjálfarar geta átt slæm tímabil og kíkið þá bara t.d. á Manchester United. Eða hvað kallar maður slæmt tímabil þar? Ferguson hefur unnið enska titilinn 8 sinnum síðan úrvalsdeildin var stofnuð 1992. Wenger 3 sinnum. Árangur er ekki mældur í sæti nr. 2! Þrátt fyrir að hafa farið í gegnum deildina ósigraðir fyrir tveimur árum, þá slógu þeir ekki stigamet. Það gerði Chelsea hins vegar í fyrra.
Ég get ekki tekið undir að Wenger sé besti þjálfarinn og Henry besti leikmaðurinn. Ég er auðvitað Benitez maður. Segi samt, að leiðindanöldrarinn Mourinho sé besti þjálfarinn. Lampard, Terry og Carragher fundust mér betri leikmenn en Henry í fyrra. Henry fyrirliði? Verður það til bóta fyrir Arsenik?
Sama hvernig leikurinn um góðgerðarskjöldinn fer á eftir, þá hef ég miklu meiri trú á Chelsea heldur en Arsenal. Trúi samt á að allt geti gerst. Af hverju ætti Liverpool ekki alveg eins að geta unnið í ár eins og t.d. Leeds og Blackburn gerðu hér um árin óvænt?
Mín spá í dag:
1. Chelsea
2. Liverpool
3. Arsenal
4.-6. Tottenham, Manchester United, (Everton eða Aston Villa… eða surprise eitthvað lið)