Jahæhaaa, það er bara komið að því! Eftir sex sumarleiki í öllum þremur umferðum forkeppninnar erum við komnir á þann stað sem við áttum með réttu að fá að byrja: í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu! Í ár drógust okkar menn í riðil F ásamt Chelsea, Anderlecht og spænska liðinu Real Betís. Á morgun verður svo leikin fyrsta umferð í þessum riðli; Anderlecht frá Belgíu sækja Chelsea heim en okkar menn í Liverpool mæta til Seville-borgar á Spáni og leika þar gegn heimamönnum í Betís.
Það skal enginn efast um það að þetta Betís-lið er hörkugott. Við erum mjög líklega að fara að sjá jafnan og spennandi leik þar sem sigurinn getur dottið hvorum megin sem er. Svipað og með leikina gegn Deportivo la Coruna í fyrra, þá gætum við hæglega farið með sigur af hólmi en við gætum líka tapað illa. Þetta Betís-lið er vel mannað og með góðan þjálfara, sterkan heimavöll og jafnan talið eitt best studda liðið á Spáni (ásamt kannski Athletic Bilbao og Atletico Madríd).
Auðvitað munu augu allra beinast að kantmanninum Joaquín á morgun, sem er stærsta stjarna þeirra Betís-manna, en gleymum því samt ekki að þeir eru með marga góða leikmenn. Til að mynda eru þeir með miðverðina Melli og Juanito, sem eru í spænska landsliðshópnum. Þá er á miðjunni að finna hinn skemmtilega Assuncao, sem er harður í horn að taka og mun láta Steve Gerrard og félaga finna fyrir sér. Þá er Assuncao sennilega einhver allra mesti aukaspyrnu sérfræðingur í heiminu – það standast honum fáir snúning á því sviði, og því ljóst að við megum ekki við því að gefa honum margar aukaspyrnur á hættulegum svæðum. Frammi eru síðan tveir brasilískir sóknarmenn sem eru báðir í landsliðshóp Brassanna, þeir Edú og Ricardo Oliveira. Oliveira er iðinn við markaskorunina og varð þriðji markahæsti leikmaður La Liga í fyrra með 22 mörk, á meðan Edú er lykillinn í sóknarleik Betís: hann er sá sem á stoðsendingarnar, spilið fer jafnan í gegnum hann. Þá er hann einnig þekktur fyrir að skora mikilvæg mörk, svo sem sigurmarkið á heimavelli gegn Barcelona í deildinni í fyrra, en Börsungar höfðu þá ekki tapað í rúmt ár í deildinni.
En eins og áður sagði þá er það Joaquín, þessi eldfljóti hægri kantmaður sem öll stóru lið Evrópu girnast, sem mun fá mesta athyglina. Það mun einfaldlega gríðarlega mikið velta á því á morgun, hvernig Stephen Warnock gengur að halda Joaquín niðri. Ef Warnock stendur sig verður eftirleikurinn strax mun auðveldari fyrir restina af Liverpool-liðinu.
Eftir meiðsli Dietmar Hamann og góða innkomu Momo Sissoko um helgina ætla ég að spá því að Rafa Benítez stjóri muni gera tvær breytingar á liðinu. Hann þekkir spænsk lið betur en flestir og mun sennilega skella sér í kerfið sem virkaði svo vel hjá Valencia, 4-4-1-1, og þá væntanlega á kostnað Djibril Cissé. Þá held ég að Dietmar Hamann muni einnig víkja og inn muni koma þeir Momo Sissoko og Xabi Alonso. Liðið á morgun ætti því að líta einhvern veginn svona út:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock
García – Alonso – Sissoko – Riise
Gerrard
Crouch
BEKKUR: Carson, Josemi, Traoré, Hamann, Zenden, Cissé, Sinama-Pongolle.
Mig grunar nokkuð sterklega að þetta verði raunin, og er í raun ekkert hægt að kvarta yfir því þótt þetta reynist rétt. Vissulega eru margir sem myndu vilja sjá Cissé inná – ég er einn þeirra – og þá ekki síst vegna þess að hann og Crouch virtust ná vel saman í framlínunni á laugardag, en ef ég þekki Rafa rétt velur hann frekar kerfi sem hann veit að virkar gegn spænskum liðum.
MÍN SPÁ: Þessi leikur leggst ágætlega í mig. Ég er ekkert sigurviss eða neitt slíkt, en svipað og fyrir Tottenham-leikinn um sl. helgi þá hlakka ég til að sjá þetta. Það verður spenna í þessu og ég geri ráð fyrir að bæði lið muni byrja leikinn af mikilli varkárni, en eins og gegn Tottenham þá munu bæði liðin á morgun geta kálað andstæðingunum ef þeir fá tækifæri til þess. Ég geri ráð fyrir að bæði lið sæki til sigurs, Betís-menn verða sterkir á heimavelli og munu eflaust ná einhverjum pressuköflum, þannig að þessi leikur gæti hæglega tapast.
Ég ætla að spá 1-1 jafntefli eftir að Liverpool kemst óvænt yfir í leiknum. Betís-menn munu í kjölfarið pressa mikið og ná að jafna, en ekki ná að innbyrða sigur. Á sama tíma munu Anderlecht vinna óvæntan 5-0 útisigur á Chelsea í London 😉
Nei en í alvöru talað, þá er þetta gríðarlega sterkt lið sem við erum að mæta, og það virðast flestir halda að Chelsea muni vinna þennan riðil og baráttan um annað sætið muni standa á milli okkar og Betís-manna. Þannig að ef við sleppum með eitt stig frá Spáni á morgun erum við í góðum málum, að mínu mati, þar sem við getum þá gengið frá þeim á Anfield og tryggt okkur farseðil í 16-liða úrslitin seinna í vetur. En fyrst þarf að lifa af morgundaginn, vonandi náum við að sigra en ég mun prísa mig sælan með jafntefli.
Meistaradeildin er að byrja, og við erum meistarar og höfum titil að verja! Áfram Liverpool!!! 😀
Viðbót (Kristján Atli): Á morgun munum við víst leika í nýrri treyju í fyrsta sinn, en þessi búningur verður notaður í Meistaradeildinni í vetur. Sem sagt, Carra og lærisveinarnir tíu verða í þessu hér í Evrópu í vetur:
Savvy!
Þegar við drógumst gegn liði frá Englandi og Spáni var ég ánægður. Við þekkjum Chelsea og VITUM hvernig við eigum að vinna þá 🙂 og síðan þekkir Rafa þetta Betis lið mjög vel.
Við vinnum þennan leik auðveldlega 3-0 á morgun með mörkum frá Cisse sem setur 2 og Gerrard með eitt.
Chelsea vinnur riðill, við verðum í öðru sæti og Anderlecht nær óvænt 3ja sætinu. Betis situr eftir. Joaquín kemur í janúar til okkar og málið er látið.
Jamm. Þess má bæta við að í þessari grein hér á UEFA.com segir að þeir Luis Fernández og Edú séu meiddir og Alberto Rivera sé í leikbanni, þannig að þeir verða ekki með fullskipað lið gegn okkur. Mæli annars með þessari grein, hún er mjög góð.
klukkan hvað byrjar aftur leikurinn? Er hann ekki örugglega sýndur á Players? Ef einhver veit!!
Þessi nýja meistaradeildartreyja virkar flott að sjá en er hún komin í sölu? ‘Eg fór inn á offical síðuna, http://www.liverpoolfc.tv og hún er ekki komin á online store hjá þeim svo ef hún er ekki þar þá er hún varla komin í sölu eða veit einhver um það? En varðani Betis leikinn þá spái ég okkar mönnum sigri 1-2 og Crouch og Sissoko skora mörkin eftir að Betis menn komast yfir og leiða í leikhléi, munið Istanbul 🙂
Þessi líka geðveika treyja kemur ekki á markað fyrr en snemma í nóvember, segja þeir á anfield online. Spurnig hvort ekki sé hægt að leggja inn pöntun strax 🙂 :biggrin2:
Strumpalína – leikurinn byrjar kl. 18.45, eða þá hefst útsendingin allavega.
Líst vel á baráttuandann hér fyrir leikinn. Hef ekki trú á 3:0 sigri okkar manna en það væri gaman ef það gerðist… býst við spennandi leik auðvitað!
Annars var ég að velta fyrir mér Aggi… ef Rafa þekkir Betis liðið vel og við vitum hvernig á að vinna Chelsea… af hverju þá ekki að gera ráð fyrir að við vinnum riðilinn, því ef við vitum hvernig á að vinna…. munum við þá ekki gera það? :biggrin2:
Góða skemmtun á leiknum – !!!
Doddi… ég hugsaði það sama þegar ég skrifaði þetta… líklega vegna þess að ég tel að þeir verði fyrir ofan okkur á markatölu 🙂
Ég hlakka til í kvöld!!!!
Hefur einhver heyrt eitthvað um hvort að sýn sé í opinni dagskrá í kvöld í einhverju kynningarskyni?
Nei Hannes, ég hef nú ekki heyrt neitt um það … ég stórefa að þeir hafi þessa fyrstu leiki í opinni. Hins vegar gætu þeir haft þáttinn hans Guðna Bergs sem er á undan í opinni dagskrá, til að auglýsa hann, en ég efa að leikurinn sjálfur verði opinn…