Hef ég sagt það hér áður hvað landsleikjahléin eru ógeðslega glötuð? Ég á erfitt með að ákveða mig, hvort mér þykir verra að þurfa að þola 2ja vikna hlé eftir sigurleik eða eftir rassskellingu eins og þá sem við máttum þola á sunnudaginn. En allavega, hér erum við með Liverpool-síðu og verðum að halda henni gangandi á meðan ekkert er að gerast. Þannig að ég ætla að viðra smá pælingu hérna, í von um að umræða skapist.
Áður en ég byrja finnst mér rétt að taka fram að ég er með þessari grein ekki að gagnrýna Peter Crouch á neinn hátt. Ég er fyrir löngu búinn að éta orð mín á þessari síðu frá því í vor, Crouchie er frábær leikmaður og ótrúlega lunkinn. Hann hefur leikið reglulega vel fyrir okkur í haust og átti stóran þátt í sigrinum gegn Real Betís í Meistaradeildinni. Staðreyndin er hins vegar sú að hann er mjög illa nýttur sem eini framherjinn okkar, á meðan vængmennirnir eru jafn daprir og raun ber vitni.
Þannig að ég er eiginlega kominn á þá skoðun að hann sé ekki okkar besti kostur sem framherji eins og staðan er í dag. Ef ég fengi að ráða myndum við svissa yfir í 4-4-2 strax í gær, en aftur á móti þá heiti ég ekki Rafa Benítez. Hann vann Meistaradeildina, La Liga tvisvar og Evrópukeppni félagsliða – ekki ég. Þannig að ég hef fulla ástæðu til að áætla að hans skoðun sé réttari en mín. Og það er orðið fullljóst að Rafa ætlar sér að spila 4-5-1, 4-3-3, 4-2-3-1, hvað sem þið kallið það.
Einn í marki. Fjórir í vörn. Þrír á miðju, Gerrard þar fremstur. Tveir á vængjunum. Einn frammi. Kallið kerfið hvað sem þið viljið, en þetta eru þær stöður sem í boði eru.
Hvað er þá til bragðs að taka? Við erum flest sammála um að Djibril Cissé sé langbesti framherjinn í herbúðum Liverpool í dag. Við erum líka flest sammála um að hann sé ekki besti kosturinn til að spila einn frammi. Er það ekki?
Ég hef allavega verið á þeirri skoðun, en hún er samt annmörkum háð. Ef við erum með gott vængspil eru Crouch og Morientes betri kostir í framherjastöðuna. Ef við erum að sækja á fleiri miðjumönnum en bara Gerrard og García, þá eru Crouchie og Nando betri kostir.
Við erum hins vegar ekkert með gott kantspil og við erum ekki að sækja á fleiri miðjumönnum en Gerrard og García. Og, í hreinskilni, þá eru þeir tveir ekkert eins duglegir að koma sér inní teiginn og þeir gætu verið þessa dagana.
Með öðrum orðum, Rafa ætlar að spila 4-5-1 sama hvað það kostar, en við erum með gjörsamlega glataða leikmenn í 4-5-1. Eða hvað?
Þegar ég hugsa um 4-5-1 hugsa ég yfirleitt um tvö lið sem viðmiðun, Chelsea og AC Milan. Chelsea nota Drogba eða Crespo frammi eftir því sem við á, Duff og Robben á vængjunum og Essien, Lampard & Makelele á miðjunni. Milan nota Schevchenko oftast einan fremstan, með Kaka og Gilardino þar fyrir aftan, og Gattuso, Pirlo & Seedorf á miðjunni.
En í kvöld datt mér í hug annað lið sem spilar 4-5-1 með góðum árangri. Lið sem mér hefði átt að vera löngu búið að detta í hug, í rauninni. Lið sem notar sama og ekkert kantspil, og ef eitthvað þá bara hægra megin. Lið sem hefur náð ótrúlegum árangri og var sennilega skemmtilegasta lið Evrópu í fyrravetur. Liðið er BARCELONA:
Belletti – Puyol – Oleguer – Gio
Giuly – Deco – Marquez – Xavi – Ronaldinho
Eto’o
Einn í marki. Fjórir í vörn. Þrír á miðjunni. Tveir þar fyrir framan, hvort sem er á væng eða milli sóknar og miðju. Einn frammi.
Með öðrum orðum, nákvæmlega sama leikskipulag og við höfum í dag. Hjá Barca er boltinn spilaður með jörðinni, gengur manna á milli fyrir utan teig andstæðinganna og þeir eru sérfræðingar í að þræða boltann inn í allar glufur í vörnum hinna liðanna, sérfræðingar í að koma boltanum í fæturna á Eto’o í góðu færi.
Nú spyr ég ykkur: er Samuel Eto’o ekki minni en Djibril Cissé? Eru þeir ekki svipað fljótir? Eru þeir ekki svipað grimmir – fæddir til að skora mörk? Eru þeir ekki svipað góðir/sæmilegir skallamenn? Man einhver lesandi þessarar síðu eftir að hafa séð Eto’o skora fyrir Barca með skalla?
Ég er mikill Barca-maður og horfi á nær alla leiki þeirra á Sýn. Ég man ekki eftir að hafa séð Eto’o skora með skalla undanfarið … en þið megið bóka það að ef hann fær séns á skotinu þá er hann stórhættulegur. Sennilega bara Schevchenko í Evrópu í dag sem er hættulegri í dauðafærunum.
Ég veit að við höfum engan Deco og engan Ronaldinho í okkar liði, en við erum samt ekki með neitt slor á miðjunni. Um leið og við frelsum “vængmennina” okkar frá þeirri byrði að þurfa að komast upp að endalínu og gefa fyrir, þá er ljóst að við erum með andskoti góða miðlínu hvað varðar það að halda bolta innan liðsins, láta hann ganga milli manna og finna glufur á vörn andstæðinganna:
García – Gerrard – Alonso – Sissoko – Zenden
Og þar fyrir framan … Djibril Cissé.
Gæti það ekki alveg eins gengið? Við vitum að Rafa ætlar sér að leggja upp með sterkt kantspil, við vitum að Crouchie og Nando eiga að leika stórt hlutverk – þ.e. að skalla allar fyrirgjafirnar í netið. En þangað til í janúar (í fyrsta lagi) … þangað til við fáum menn í liðið sem geta hlaupið upp að endalínu með boltann og gefið fyrir, af hverju þá ekki að reyna nýja nálgun? Af hverju ekki að mæta á Anfield með tvo bakverði sem sækja hátt upp – Finnan og Warnock myndu duga alveg jafn vel og Belletti og Gio van Bronckhorst – fimm miðjumenn sem geta haldið bolta innan liðsins og fundið glufur á vörn andstæðinganna, og svo einn grimmasta framherjann í deildinni þar fyrir framan?
Ég verð að viðurkenna að ég bara skil ekki af hverju Djibril Cissé fær ekki fleiri sénsa. Hann er með 7 mörk á tímabilinu, og það hefur ekkert þeirra verið skorað með skalla eða eftir fyrirgjafir. Crouch hins vegar þarfnast fyrirgjafanna til að skora mörk. Hvor þeirra á að fá að spila … í liði sem ekki getur gefið fyrir? Segið þið mér það.
Ég treysti Rafa alveg og þrátt fyrir tapið á sunnudag – sem var óþarflega stórt miðað við spilamennsku okkar manna – þá er ég alveg bjartsýnn á að hann sé á réttri leið með þetta lið. En það eru augljósir gallar í liðinu, vandamál sem þarf að laga í janúar. Hins vegar er Rafa ekkert undanþeginn gagnrýni frekar en aðrir, þótt hann hafi unnið Meistaradeildina í fyrra, og það skilur það sennilega enginn nema bara hann og Paco Ayesteran hvers vegna þeim lá meira á að setja Sissoko inn fyrir Hamann á miðjuna, Pongolle inn fyrir Traoré á vænginn (og Riise niður í bakvörð) í stöðunni 3-1 og svo 4-1 … og bíða samt þangað til 10 mínútur voru eftir með að setja Cissé inná völlinn.
Ég skil það ekki. Ég veit þið skiljið það ekki. Ég bara neita að trúa því að jafn hæfileikaríkur piltur og Djibril Cissé geti ekki með nokkru móti gert sóknarleik okkar beittari og hættulegri. Hugsið ykkur Newcastle í fyrra án Alan Shearer, Arsenal í vetur án Thierry Henry, Man U í fyrra án van Nistelrooy, Tottenham án Jermain Defoe. Ef að hættulegasti leikmaðurinn er tekinn úr þessum liðum, þá eru þau strax töluvert bitminni. Það bara sést á þessum liðum þegar hættulegasti leikmaðurinn, mesti markahrókurinn, er fjarri góðu gamni.
Hvers vegna er þá laaaang hættulegasti leikmaðurinn okkar alltaf á bekknum?
Satt…sammála þér í einu og öllu þarna! Cissé og Eto´o er skugglega líkir! En samt með Cissé…kannski er ástæðan fyrir því að þegar hann kemur inn á virkar hann áhugalaus og hreint latur! Kannski það sé ástæðan fyrir því að Rafa sé ekki að velja manninn! Væri til í að sjá Cissé eins og hann var áður en hann brotnaði! Kannski þetta sé bara eitthvað andlegt hjá drengnum!
Alveg nákvæmlega sammála þessum pælingum, Kristján. Ég er alls ekki sannfærður um að Cisse sé neinn messías, EN það er hins vegar alveg fáránleg synd að hann skuli ekki allavegana fá tækifæri með liðinu.
Er það til of mikils ætlast að hann fái að spila sem framherji tvo leiki í röð hjá okkur? Crouch hefur fengið sitt tækifæri, leikið ágætlega en ekki skorað. Af hverju fær Cisse ekki slíkt tækifæri?
Fullkomlega óskiljanlegt. Farið að minna ískyggilega á útilokun Milan Baros undir stjórn Houllier.
Líka það að í flestum leikjum sem hann er búinn að spila er hann á kantinum, gefa honum 2-3 leiki frammi.
Ég ætla ekki að vera neinn svartsýnisböllur en ég tel að þetta kerfi sem við erum að nota hentar bara engan veginn. Það hefur marg oft verið sagt (og þið líka hér á síðunni) að það eru engir kantmenn í LFC og þetta 4-5-1 kerfi er kerfi sem byggist upp á líflegum kantmönnum. Ronaldinho og Giuly eru líflegir kantmenn sem lífga upp á taktík Barca og Marques er í raun Makelele í þeirra liði þar sem hans vinnusvæði er á milli varnar og miðju til að éta upp það sem sókndjarfir miðjumenn Barca skilja eftir sig. Alonso ætti að vera “étarinn” okkar og Sissoko og Gerrard “box to box” leikmennirnir okkar í raun. En það virðist vera eins og þegar þeir þrír spila saman að Gerrard sé sá eini sem sækir og aðstoðar “píluspjaldið” í framlínunni með takmarkaðri hjálp “kantmannanna”. Sissoko og Alonso virðast báðir detta aftur sem segir okkur eitt að okkur skortir meira á sóknina bæði frá miðju og köntum.
Ég get varla beðið eftir að Harry Kewell verður heill heilsu því það er AKKÚRAT það sem vinstri kanturinn vantar hjá okkur. Þeir sem hafa verið að pissa uppí þann dreng vegna meiðsla hans eru vitleysingar og ættu að vita betur. Þannig að ég tel að okkar besta lið sóknarlega er þessi:
— Pepe
Finnan —- Carra —-Hyypia Warnock/Riise
–Alonso
Garcia– Gerrard – Sissoko—- Kewell
Cissé/Pongolle
Síðan í janúar HEIMTA ég Juaqin eða einhvern slíkan, varnarmann til að fylla uppí Hyypia og sókndjarfan miðjumann til að spila með Gerrard (Mintal eða Mintak í þýska boltanum?). Okkur skortur svo gjörsamlega sókndjarfan miðjumann með Gerrard til að halda uppi árásunum frá miðjunni. Við getum ekki spilað með 2 varnarsinnaða miðjumenn og einn sókndjarfann allan helvítis veturinn.
Enn og aftur FRÁBÆR SÍÐA.
Mig langar samt sem áður að kasta því fram sem ég heyrði útundan mér en það er: Hvaða leikaðferð ætli Rafa notist við þegar Morientes er orðin klár og þá hvaða framherja? (virðist hafa mikið dálæti á Nando og Crouch) :confused:
Af hverju er honum svona illa við Cisse…. Þetta leikkerfi er ekki að ganga upp, miðað við mannskapinn sem til staðar er, það sjá allir heilvita menn….. er það ekki !
Innilega sammála þér Kristján og þetta er mjög pirrandi ástand með Cisse.
Hvað svo sem gerist í janúar þá verðum við að nota þá leikmenn sem við erum með í höndunum núna og ef sú leikaðferð er ekki að ganga upp (sem ég tel augljóst) þá verður þjálfarinn að skoða fleiri möguleika.
Þegar Morientes er heill þá tel ég að hann sé fyrsti kostur. Crouch síðan og Cisse nr. 3. Þessi þróun þýðir aðeins eitt… hann verður seldur!
Takk fyrir frábæra síðu, ein besta síðan í boltanum. Frábær grein og góðar pælingar. Cissé er top framherji og á skilið að fá að spila miklu, miklu meir er hann fær í dag. Hundfúllt að sjá hann notaðan á kantinum. Auðvitað þarf að stilla upp liðinu misjafnlega eftir því við hvern er spilað. Ég skil ekki heldur af hverju Djibril Cissé fær ekki fleiri sénsa og vildi helst sjá tvo framherja sem oftast, allavegna þangað til alvöru kantmenn koma. Liðið er betra en í fyrra en betur má ef duga skal. Okkur vantar fleiri mörk, meiri ógn af framherjunum, þá fylgja mörkin frá miðjumönnunum í kjölfarið af og til. Fá Gerrard í gang.
Ég er algerlega ósammála þessari grein. Cissé og Eto eru ekkert líkir leikmenn fyrir utan að vera kannski báðir snöggir. Eto getur tekið menn á öðruvísi en að sparka boltanum langt fram völlinn og taka svo 100 metranna.
Cissé hefur ekki sýnt mér neitt sem sannar að hann sé top striker. Ég hef aldrei séð hann búa sér til mark einn og sér með því að taka menn á, hann er ekki yfirvegaður þegar hann fær færi (oftast lætur hann bara vaða og vonar það besta). Mörkin á móti Moskva voru dæmi um það. Hann er með ekkert touch og er ekki góður í að halda bolta og tengja miðju og sókn. Staðsetningar eru ekki til hjá honum og maður sem á að vera þetta snöggur á ekki að vera sífelt í rangstöðu sem hann er ítrekað.
Ég væri alveg til í að hann væri svarið við vandamálum okkar en hann er það bara ekkert enda enginn toppleikmaður. Og sú er ástæðan fyrir því að Rafa heldur hann útúr liðinu enda sér hann Cissé á æfingum á hverjum degi.
Hann fer í janúar og farið hefur fé betra.
Ég er sammála BFI með Cissé að mestu leyti og hann lifir dálítið á því hversu snöggur hann er. Hann virðist taugastrekktur og virðist ekki nýta færin sín sem hann fær sem oft eru í raun á allra færi að reka tána í boltann og skora. Hinsvegar á hann inni séns í liðinu hvað sem Rafa segir og ef hann ætlar að halda áfram að horfa fram hjá Cissé þá vona ég að Cissé biðji um að fá að fara. Mér finnst ekkert leiðinlegra en þegar framkvæmdastjóri er með X mikinn hóp og notar bara hluta af honum út af eigin þrjósku/fásinnu. Það er ljóst að ef formið hjá okkur heimafyrir breytist ekki til batnaðar og komi okkur í þannig stöðu að við getum barist um eitthvað þá tel ég okkur fyrir bestu að fá annan mann í brúnna. Stór orð já og eflaust væl hugsa margir, en satt best að segja verðum við að standa okkur heima til að fá evrópubolta. Með liðið sem við vorum með í fyrra fannst mér við vera sókndjarfari en oft á tíðum þetta árið. Skrítin tilhugsun en samt sönn. 😡
Ég er sammála BFI að einu leiti, cisse virðist ekki hafa of góða boltatækni og tekur því menn á með því að sparka boltanum fram og taka svo 100 metrana (vel orðað BFI). Þetta er eitthvað sem hann þarf að bæta.
Engu að síður er ég einnig sammála Kristjáni, Cisse er okkar besti sóknarmaður í dag (nema Moro fari að spila af eðlilegri getu), hann er graðastur upp við markið og sá duglegasti í að koma sér í færi.
En auðvitað sér Benitez hann á hverjum degi á æfingum og því er hann í mun betri stöðu en við til að meta hver hentar LFC best í sókninni.
Annars er það alveg augljóst að Benni er búinn að ákveða sig með Cisse, hann verður seldur í jan eða næsta sumar. Og auðvitað er hund fúlt að kallin gefi honum ekki séns í nokkra leiki, því það gæti verið akkurat það sem Cisse vantar, leikform og smá sjálfstraust.
BFI hvað finnst þér þá um Riise, hann notar sömu aðferð þ.e. að sparka boltanum fram og taka svo 100 metrana, nema að hann hefur ekki sama hraða og Cisse, því er árangurinn ekki sá sami.
Fyrir mitt leiti ættu nokkari aðrir leikmenn að vera seldir áður en að röðin kemur að Cisse: t.d Riise, Le Tallec, Pongolle, Josemi, Bruno Cheyrou, Dudek, Diao, það hlýtur að fást einhver peningur fyrir þessa leikmenn, jafnvel nóg til að borga fyrir nýjan miðvörð eða kantmann.
Krizzi
Miðað við nýlega fregn á mbl.is þá er Cisse eðlilega óánægður. Ég tek undir með Krizza að ég myndi sjálfur selja nokkra leikmenn áður en það kæmi að Cisse. Það eru ekki allir leikmenn sem Houllier keypti slæmir!!
Satt best að segja er ég ekki ennþá dolfallinn yfir sóknarmönnum og -tilburðum okkar hingað til. Hver er það? Crouch sýndi í Betis leiknum hvað hann getur og einnig í CL-leiknum við Chelsea. Lampard og fleiri færu ekki að mæla með honum í enska landsliðið bara upp á djókið! Cisse hefur sýnt snilli sína með franska landsliðinu. Þó svo að heppnisstimpill hafi verið nokkur á mörkum Cisse í Super Cup, þá var það hungrið fyrst og fremst sem knúði hann áfram. Við þurfum það og þess vegna tel ég að við þurfum að hafa Cisse alltaf frammi. Crouch og Cisse í byrjunarliðinu og skipta svo Nando inná eða svissa við Crouch.
Af þeim mönnum sem ég hef séð leika frammi með Liverpool þetta tímabilið þá er Cisse langbestur og Nando á eðlilegri getu/Crouch væru næstir. Ef Cisse er seldur þá er ég smásmeykur varðandi sóknartilburðina. Hann hefur ekki verið að fá sömu tækifæri og Crouch. Ég vil alls ekki skipta út Rafa á þessum tímapunkti!! En ein af mínum óskum væri að setjast niður með honum spyrja karlinn út í Cisse-leysið og kerfið eins og það er núna.
Ég vil meiri sóknarbolta og meiri stöðugleika. Fyrri hálfleikurinn á móti Betis… það er sú viðmiðun sem ég hef og þannig vil ég sjá Liverpool alltaf spila.
Er alveg sammála Krizza. Út með þessa menn, nema þá Pongolle. Riise vil ég ekki sjá í liðinu. Hann getur vissulega dúndrað einu og einu inn, en hæfileikar hans eru bara ekki nógu miklir fyrir Liverpool. Vil helst sjá hann fara aftur til Noregs.
Þetta Cisse mál er algerlega óskiljanlegt. Auðvitað er maðurinn taugatrekktur þegar hann spilar. Hann verður að skora svo han fái að spila næsta leik. Þannig er það bara. Hann veit að hann fær ekki sénsinn ef hann skorar ekki. Manninum er alltaf stillt upp við vegg. Crouch getur spilað 5-7 leiki í röð án þess að skora.
Það verður klárt mál að þegar Morientes byrjar fær hann sinn séns. Það skiptir engu máli hvort hann geti ekki neitt og skori ekki, hann fær sinn séns. Vona þó innilega að hann standi sig og verði eins og hann getur verið.
Eins og Krizzi segir er lítið sem getur bjargað því að Cisse verði ekki seldur. Það eina er að hann skori óeðlilega mikið af mörkum. Það mun hann ekki gera vegna þess að hann mun ekki fá þann séns sem hann á skilið.
Milan spilar reyndar 4-3-1-2 oftast :
Dida
Cafu, Stam, Nesta, Maldini
Gattuso, Pirlo, Nesta
Kaka
Shevchenko, Gilardino/Vieri
Ég veit að það er ekkert að marka undurbúningstímabil mikið, en þá var LFC að skora 3 mörk í leik (og fengum á okkur c.a. 2), þá var Crouch ekki kominn þá sáu þeir Baros, Gerrard, Cisse um þetta …
ég hélt Crouch myndi vera svona D.Ferguson sem kæmi inná í lok leiks þegar Cisse væri búin að þreyta vörnina hjá andstæðingnum héldi boltanum og skapaði hætti frammi í föstum leikatriðum …
Mér finnst lifna við liðinu þegar Cisse kemur inná, hann hefur kraft og áræðni. Þegar hann kom inná á móti Chelsea þá fannst mér Crouch og Cisse flottir saman, loksins einhver aðeins ógnun …… mmmm
ehh.. Cisse með fullri virðingu er engin Shearer, Henry né Van Nistelroy. Þrátt fyrir marga ágætis kosti þá hefur mér enn ekki fundist hann nógu sannfærandi. Spilar reyndar oft úr sinni stöðu og þyrfti eflaust fleiri sénsa til að sanna sig.
Það er eitt sem mig langar til að benda á og hefur vantað í þessa umræðu.
VÖRNIN OKKAR ER HÆG!
Þetta bitnar á sóknarmönnum liðsins hvað sem þeir heita. Á meðan vörnin vill ekki færa sig hratt fram á völlinn gerist ekki neitt. Þið sjáið bara hvað gerist þegar sótt er hratt á okkur. Hyppia, Finnan og Carra líta allir illa út. Þetta sást svo bersýnilega á móti AC Milan í úrslitaleiknum og svo á móti Chelsea núna.
OK. Gott og vel. Það getur hentað liðum vel að spila aftarlega og sækja svo hratt. Við, því miður höfum ekki getuna í það. Riise á móti flótum bakverði – hrikalegt að horfa upp á það. Sama með Finnan hinu meginn. Étinn um leið. Traore – er raunverulega haffsent eins og Carrager. Vonlaus fram á við.
Kewell getur leyst vandann og svo einhver nýr kantmaður á hægri vænginn.
Hvað gerist svo þegar við komumst upp að endamörkum og getum sent inn í. Ekkert. Af hverju? Jú það er enginn inn í. Af hverju? Vegna þess að miðjumennirnir treysta sér ekki að skilja vörnina eftir eina.
Stóra, stóra vandamálð er svo það að við erum með mjög gott lið. Bara ekki nógu gott.
Dæmi. Hyppia vantar hraða. Frábær varnarmaður að öðru leiti, leiðtogi og allt.
Carrager frábær að öllu leiti nema… ja, hann er ekki Campell, Ferdinant eða Terry. Því miður þá er 4 besti aðeins ávísun á 4 sætið ekkert betra.
Svo skora þessir menn ekki nóg af mörkum. Haffsentar verða að skila nokkrum mörkum á seasoni.
Fjalla ekkertu um bakverðina. Mér finnst þeir bara ágætir. Warnock er promising. Gæti orðið frábær.
Miðjan. Gerrard. Frábær að öllu leiti nema að hann virðist leiðinlegur. Stundum eins og hann sé að spila fyrir sjálfan sig. Það er samt varla hægt að gagnrýna hann. Hann væri bestur alveg sama hvaða stöðu hann myndi spila. Ég vil samt sjá hann framarlega og inn í teig að taka við fyrirgjöfum. Hann er bara sá eini í dag sem sendir góðar sendingar inn í. No win situatiion.
Sissoko. Látum hann spila. Hann er að sóla menn og láta finna vel fyrir sér. Gæti orðið á heimsmælikvarða þessi.
Alonso. Frábær en samt ekki alveg. Vantar eitthvað. Kannski grimd og tuddaskap. Ég veit ekki alveg. Sé samt ekki snilldina.
Hamann. Myndi spila honum frekar en Alonso. Er bestur í heimi að binda saman vörn og sókn … eða var það.
Stóra vandamálið er svo einnig það að við eigum of mikið af góðum miðjumönnum. Það er ekki hægt að spila þeim öllum í einu. Nema þá að vera með Gerrard fyrir framan miðjuna eða þá út á kannti. Ég væri alveg til í að sjá hann út á hægri kannti. En það á kannski það sama við hann og aðra að hann þarf að fá að spila sína stöðu og ekki hringla mikið í honum.
Kantarnir. Við eigum fína kantara vinstra megin. Mér finnst Kewell og Zenden fínir leikmenn. Kewell þarf bara að ná sér alminnilega af meiðslunum. Hálf meiddur maður er oft verri en enginn og Zenden þarf bara fleiri leiki. Klassa leikmaður á besta aldri. Riise. Góðan vinstri fót og búið. Þú þarft að hafa allt ef þú ætlar að spila á þessu leveli. Svo fer hann að einhverjum ástæðum í taugarnar á mér. Sýndarbaráttan, magavöðvarnir o.sv.frv.
Hægra meginn þá er ég hrifinn af Garcia. Hann er bara enginn kantari meiri framlínumaður. Sinama of veikburða til að verða eitthvað. Skil svo ekki af hverju við seldum Nunes. Alveg hreint hinn ágætasti leikmaður.
Framlínan. Moro. Frábær á góðum degi. Þeir dagar munu koma.
Crouch. Komið mér mikið á óvart, sterkur, leikinn og með gott auga fyrir samspili. En leikurinn gengur út á að skora mörk og meðan þau koma ekki frá honum er erfitt að spila honum.
Cisse. Hvað getur maður sagt. Örugglega frábær markaskorari. Ég held bara að hann sé eins og svo margir leikmenn sem geta skorað helling í neðri deildum gegn slökum vörnum (Franska deildin er það miðað við þá ensku.) en þegar hraðinn og tæknin verða meiri deyja þessir leikmenn oft hreinlega út. Cisse á aldrei eftir að verða leikmaður annars stórliðs en Liverpool – þannig að hann verður seldur í janúar eða vor. Ég verð þó að viðurkenna að ég vona að ég þurfi að éta þessi ummæli oní mig. Hann þarf kannski bara að fá meiri séns kallinn.
S.s. við erum með mjög gott lið. Bara ekki nógu gott. Tveir heimsklassa leikmenn gætu gert gæfumuninn til að við komumst á toppinn.
Jæja, þetta átti alls ekki að vera svona langt. Nú tek ég mér pásu frá Liver fram að næst leik. Kíki samt á síðuna annað slagið. Frábær síða.
Hjartanlega sammála Hössa, okkur vantar meiri hraða í vörnina. Varnarmann eins og Gallas sem getur hlaupið uppi þessa hröðu sóknarmenn sem eru í öllum toppliðum í dag.
Krizzi
Já Hössi þessu verð ég að vera sammála að flestu leiti.
Vörnin er of hæg og þú rekur það vel. Það er nákvæmlega þarna sem ég tel að rót vandans liggi. Þetta er svo rétt hjá þér Hössi, vörnin þorir ekki upp. Við töpuðum jú nokkrum leikjum í fyrra þar sem við stjórnuðum leikjunum og vörnin vogaði sér fram undir miðju og hvað gerðist, stunga innfyrir og mark.
Þú segir að stóra stóra vandamálið sé að við séum með gott lið en bara ekki nógu gott. Rétt! Við erum með góða leikmenn en hvað erum við með marga heimsklassa leikmenn í sínum stöðum? Gerrard, Carra, Morientes (í réttu formi) og Kewell (í réttu formi). Sissoko á síðan eftir að verða það á komandi árum. (Mín skoðun)
Það vantar einfaldlega fleiri heimsklassa leikmenn í þetta lið!
Djöfull sem það hlýtur að vera pirrandi fyrir Zenden að horfa upp á einfættan mann spila fleiri leiki en hann sjálfan. Því skil ég ekki afhverju hann gerir ekki meira þegar hann fær tækifærin. Hann verður að fara að sýna okkur eitthvað og sjá til þess að norska löppin spila ekki í þessari stöðu framar fyrir LIVERPOOL.
Varðandi hálfbróður minn Nunez þá tel ég það lán að hann skuli hafa farið. Sorry, en hann var ekki meir en miðlungs miðlungsmaður. Þurfum meiri klassa!
Sorglegt þetta dæmi með Cisse og eins og flestir ykkar þá bara skil ég þetta ekki.
Að lokum langar mig að beina orðum mínum til þeirra sem eru að tala um að losa sig við RAFA :laugh:. Eruð þið ekki pottþétt að tala um hann BENNA okkar? Hvar ætlið þið að fá betri mann i starfið en BESTA þjálfara EVRÓPU?
Sælir og takk fyrir fr+aæbra síðu, Mér finnst að hann eigi bara að taka sig til að spila með 3-5-2 og hafa Cissé eða Crouch/Nando saman frami og spila með Sissoko og Alonso sem DMC og svo Garcia/Flo-Po Gerrard og Riise/ Kewell þegar hann er orðinn góður af meiðlsunum og Traore Carra og Hyypia í vörninn og svo þarf hann nauðsinlega að kaupa varnamann og klassa vængmann í janúar, En þetta með Cissé ég er alveg 100& sammmála því sem er sagt að hann sé okkar lang besti Sóknarmaður og mér finnst að hann eigi að vera númer Eitt á blað þegar Liðið er valið, því ég er nokkuð viss um það að þegar hann fær tæknifæri og þá meina ég nokkra leiki í röð ekki ein leik á kantinum og svo 15-20 min í leikjum þar á eftir heldur alvöru tækni og þá sem Striker þá fer hann að sýna afhverju hann fékk Bronsskóinn í Evrópu áður en hann kom til okkur og þá fer hann að sýna sitt rétt aldlit og ég er viss um að hann skorar 20 mörk ef ekki fleiri á þessu tímabili svo framlega sem hann fær að spila nóg og fær að byggja upp sjálfálitið aftur og traustið. Og um leið og það skeður þá fáum við sjá mörk í öllum regnbogas litum og þá getum við farið að taka Gleði okkar á ný og svo eitt af lokum mér finnst líka kannski kominn til að gefa Carson tækifæri í markinu og svo þegar Dudek er orðinn góður af meiðlsu leyfa honum að fá tækifæri líka því mér finnst Reina ekki jafn góður og það var sagt að hann væri.