Wigan í hádeginu á morgun!

Jæja, eftir **fimm** sigurleiki í röð í deildinni, og þar af þrjá á útivelli, er komið að næsta leik. Okkar menn mæta spútnikliði Wigan Athletic á Anfield Road í Liverpool-borg á morgun, en með sigri getum við komið okkur upp í *annað sætið* í deildinni, þó ekki sé nema í nokkra tíma. Manchester United taka á móti Portsmouth og vinna þann leik væntanlega síðar sama dag, og fara þá aftur upp fyrir okkur, en Arsenal eiga erfiðan útileik gegn Bolton og gætu því hæglega endað helgina fyrir neðan okkur. Þannig að ef við vinnum á morgun er ekki ólíklegt að okkar menn verði í þriðja sætinu eftir helgina. Sem væri frábært! 🙂

En fyrst þarf auðvitað að vinna þennan leik, og það er ekkert gefið í þeim efnum. Við erum sem stendur í fjórða sæti, með einu marki betra í markatölu en liðið í fimmta sæti … sem er einmitt, jú, lið **Wigan Athletic**. Þeir eru með jafnmörg stig og við, eftir jafnmarga leiki, og hafa meira að segja skorað marki meira en við í vetur (en fengið tveimur fleiri á sig). Allir sem hafa séð þetta Wigan-lið spila í vetur vita sem er að þeir eru stórhættulegir, og að þeir geta hæglega farið með öll þrjú stigin í burtu frá Bítlaborginni á morgun.

Paul Jewell tók við Wigan-liðinu fyrir þremur og hálfu ári, en þá voru þeir í fjórðu efstu deild Englands. Hann kom þeim strax upp um tvær deildir, staldraði svo í eitt ár í næst-efstu deildinni (sem hét þá 1. deildin en heitir nú Championship-deildin) og svo í fyrra unnu þeir þá deild frekar auðveldlega. Eru nú komnir upp í Úrvalsdeild og virðast ætla að taka hana með svipuðu trompi – þannig að við getum alveg eins búist við að þetta lið sé komið til að vera og muni blanda sér í toppbaráttuna á næstu árum. Það er ekki ólíklegt, en eigandi liðsins, Dave Whelan, hefur dælt peningum í klúbbinn og ætlar að halda áfram að gera það sem til þarf til að koma liðinu fyllilega í fremstu röð.

Wigan-menn töpuðu fyrsta leik sínum í deildinni, gegn Chelsea í ágúst, en voru svo taplausir þangað til í miðjum nóvember þegar Arsenal tóku þá, 3-2 í stórskemmtilegum leik. Svo töpuðu þeir gegn Tottenham í síðasta deildarleik, og misstu okkur fyrir vikið upp fyrir sig, en náðu þó að rétta úr kútnum á miðvikudag þegar þeir lögðu Newcastle, 1-0 í deildarbikarnum, og eru þar með komnir í 8-liða úrslit þar.

Okkar menn á móti hafa unnið fimm leiki í röð í Úrvalsdeildinni, og er markatalan í þeim leikjum 10-0. Já, við höfum engin mörk fengið á okkur í nóvember, unnið alla okkar leiki í deildinni og virðumst *loksins* vera komnir á það ról sem við aðdáendurnir viljum sjá liðið á: að sækja á efstu liðin í deildinni og berjast jafnvel um titilinn!

Hvernig ætli Rafa stilli svo upp á morgun? Á miðvikudag unnum við Sunderland, 2-0, í leik sem vakti athygli fyrir þær sakir að hvorki Djibril Cissé né Dietmar Hamann voru í leikmannahópnum. Það er því spurning hvort þeir komi aftur inn í hópinn fyrir helgina, en ég hef ekki mikla trú á að þeir fari inn í byrjunarliðið.

Ég ætla að spá því að Rafa stilli upp óbreyttu liði frá því á miðvikudaginn – fyrir utan það að Momo Sissoko er í leikbanni – og er það vel því þessi kjarni sem hefur verið nokkuð óbreyttur í undanförnum leikjum hefur staðið sig vel og er sennilega grunnurinn að góðu gengi liðsins:

Reina

Finnan – Hyypiä – Carragher – Riise

García – Alonso – Gerrard – Kewell

Morientes – Crouch

Óbreytt lið, og vonandi líka áfram óbreytt úrslit leikja. 🙂

MÍN SPÁ: 2-1 fyrir okkar mönnum. Já, við fáum á okkur mark gegn hressum Wigan-mönnum sem munu sækja til sigurs á morgun, en höfum þó á endanum sigur. Og í svona tíunda skiptið í röð ætla ég að spá því að Peter Crouch muni loksins skora … en ef hann gerir það ekki á morgun, ætla ég að íhuga það alvarlega að spá honum markaskorun á næstunni. En við vinnum þennan leik á morgun, ég er eiginlega frekar sannfærður um það!

Áfram Liverpool!!!

18 Comments

  1. Sissoko er í leikbanni er það ekki eftir að hann fauk útaf í seinasta leik

  2. Reina í markinu.
    Finnan – Hyypia – Carragher – Riise
    Garcia – Gerrard – Alonso – Kewell
    Cisse – Morientes

    Varamenn: Carson – Crouch – Traore – Sissoko/Hamann – ónefndur.

    Við vinnum þennan leik.

  3. Jú, þetta eru mistök hjá Kristjáni.

    Eigumv við ekki bara að segja að þetta verði draumamiðjan mín: García – Alonso – Gerrard – Kewell? 🙂

  4. Jú heyrðu ég gleymdi rauða spjaldinu! :blush:

    Búinn að breyta þessu … segir sig sjálft að Kewell kemur inn í liðið í staðinn fyrir Momo. 😉

  5. Fer leikmaður sjálfkrafa strax í bann þegar hann fær 2 gul spjöld?

    Leikmaður fer sjálfkrafa í leikbann í einn leik ef hann fær beint rautt og síðan er það tekið fyrir af aganefndinni hvort bætt verði við bannið.

    Fær Sissoko eins leikjabann eða tveggja?

    Þekkið þið þetta?

  6. Hann fær 2ja leikja bann þar sem fyrra gulaspjaldið var hans 5 á tímabilinu sem er jafnt og 1 leiks bann og síðan það seinna sem varð að rauðu og þá fær hann sjálfkrafa annan leik. Hann mun því missa af heimaleikjunum gegn Wigan og Middlesbrough. Tel hæpið að knattspyrnusambandið bæti við bannið.

    Áfram Liverpool

  7. Þetta verður sjötti sigur okkar í röð á morgun, það er klárt mál. Sama lið og síðast nema þá Kewell inn fyrir Sissoko og jafnvel Cisse inn fyrir Morientes. Moro var eins og sprungin blaðra í síðasta leik, mjög slakur. Hefði hann bara spilað þokkalega hefði það líklega verið nóg til að halda Cisse áfram fyrir utan byrjunarliðið. En Cisse gæti sennilega ekki verið mikið slakari en Moro var í síðasta leik.

    Ef Cisse verður ekki tekinn fram yfir hann vona ég bara að Pongolle fá aðeins að spila. Það þjónar ekki miklum tilgangi að hafa Mori þarna frammi, hann finnur sig alls ekki í þessu liði.

    GO LFC

  8. Ég bara skil ekki af hverju menn vilja taka Gerrard af kanntinum og setja inn á miðjuna. Bæði hann og liðið hafa verið meiriháttar með hann á kanntinum.

    Ég vona að liðið verði svona.

    Reina

    Finnan, Carrager, Hyypia, Warnock
    Gerrard, Alonso, Hamann, Garcia
    Kewell, Morientes

    Vil svo benda á striker hjá Wigan (ekki Camara) sem mér finnst alveg meiriháttar góður. Stór og svartur gaur. Man ekki hvað hann heitir. Tók Campbell í nefið á móti Arsenal.

  9. Þegar menn fá annað gult í leik, þá er fyrra spjaldið fellt niður og aðeins rauða spjaldið skráð.

  10. Reina- Finnan-Hyypia-Carra-Traore
    Gerrard-Hamann-Alonso-Riise
    Cisse-Crouch,
    held ég að þetta verði.
    Spennandi leikur framundan!! Þori bara alls ekki að spá

  11. við nánari íhugun held ég að Garcia verði frammi/laus með Crouch og Cisse á bekknum

  12. Þetta verður erfiður leikur. Ég held að við fáum á okkur mark í þessum leik og jafntefli kæmi mér ekkert á óvart.

    En samt spái ég okkur 2-1 sigri þar sem Alonso og Cissé sjá um mörkin.

  13. 1-0, 35mín. Alonso með þrumufleyg í slánann og inn(sparkar í Crouch).

    Er samt ekki líklegt að Hamann byrji þennan leik?

  14. unnu sunderland ekki championship deildina en ekki wigan???
    0-0 á morgun, crouch óheppinn að skora ekki einsog svo oft áður.

  15. Þetta Wigan lið hefur sýnt að það er erfitt að eiga við. Chelsea , Arsenal og fleiri hafa lent í miklu basli með þá og allar líkur á að okkar menn þurfi virkilega að hafa fyrir hlutunum í dag.

    Ég spái 1-0 fyrir okkur og markið verður misheppnuð markspyrna hjá markmanni
    wigan þar sem hann þrumar í afturendann á Crouch og í netið. 😯

  16. Framkvæmdastjóri nóvembermánaðar hlýtur þá að vera Rafa Benitez.

Jewell á leiðinni með sitt lið

Mark, Jerzy og Flo-Po