W.B.A. á morgun!

Jæja, þá er komið að þriðja deildarleiknum í þessari fjögurra leikja hátíðarhrinu, og í þetta sinn eru það fyrrverandi nýliðar W.B.A. sem mæta galvaskir til leiks á Anfield og reyna að stöðva þetta Liverpool-lið, sem fátt virðist geta stöðvað þessa dagana. Á annan í jólum fyrir ári síðan tókum við þetta W.B.A.-lið létt á útivelli, 0-5, og höfðum áður unnið þá 3-0 á Anfield. Þá sá maður lítið annað í framtíð W.B.A. en fall beint niður í Championship-deildina á ný, en Brian Robson kom til skjalanna þegar leið á vorið og vann eitthvert ótrúlegt kraftaverk, og W.B.A. björguðu sér ævintýralega á síðasta degi Úrvalsdeildarinnar.

Í síðasta leik unnu W.B.A. góðan heimasigur á Tottenham, og gerðu okkur fyrir vikið góðan greiða. Nwankwo Kanu er að vakna af einhverjum dvala því hann skoraði bæði mörkin í þeim sigri, en á morgun er hætt við að hann fái ekki mikið að athafna sig. Til að gera hlutina enn erfiðari fyrir W.B.A. þá verður aðalmarkvörður þeirra, Chris Kirkland, ekki með á morgun þar sem hann er lánsleikmaður frá Liverpool, og má því ekki spila.

Um okkar lið þarf varla að fjölyrða. Við höfum unnið níu deildarleiki í röð og erum í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir Man U og eigum tvo leiki til góða. Ef við vinnum á morgun erum við búnir að vinna tíu deildarleiki í röð, sem mér skilst að hafi ekki gerst í nær heila öld eða svo. Sem sagt, glæsilegur árangur ef það gengur eftir.

Rafa mun örugglega rótera liðinu eitthvað lítillega á morgun. Eins og kom fram hjá Einari Erni í morgun er Fernando Morientes lítillega meiddur, þannig að Cissé heldur væntanlega sæti sínu við hlið Peter Crouch, og Flo-Po kemur þá líklega inn í hópinn. Að öðru leyti sé ég tvær breytingar á byrjunarliðinu fyrir mér:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Gerrard – Sissoko – Alonso – García

Cissé – Crouch

Kewell hefur leikið vel að undanförnu og á skilið smá hvíld, og García gæti komið inn ferskur eftir sína eigin hvíld. Þá bara *hlýtur* Jonny Riise að koma inn í liðið þar sem hann skoraði tvö glæsimörk gegn W.B.A. síðast þegar við mættum þeim, og hefði í rauninni átt að skora svona fimm í þeim leik.

Og svo verður Sissoko þarna, eða **Mulligan** eins og ég er farinn að kalla hann. Nú eru okkar menn nefnilega farnir að búast við því, ef þeir reyna eitthvað sem gengur ekki, að fá boltann aftur til að reyna á nýjan leik. Momo sér um slíka hluti. 🙂

**MÍN SPÁ:** 4-0 sigur fyrir Liverpool og ekkert annað. Riise og Finnan skoruðu báðir gegn W.B.A. í fyrra og gera það aftur í ár, og svo spái ég því að Sami Hyypiä negli einum skalla inn og Kewell komi svo inn og skori eitt undir lokin. Ég sé allavega lítið annað fyrir mér en skemmtilega gaml’ársgleði á Anield Road í Liverpool. 😉

11 Comments

  1. úff 4-0 spár….. ekki góður fyrirboði, þegar menn gera ráð fyrir þvílíku yfirspili veldur liðið oftast vonbrigðum 🙁

  2. Það er greinilegt að Kristján kann skil á þeirri góðu íþrótt sem golfið er 🙂

    Ég segi 3-0. Gerrard, Garcia og Finnan.

  3. Ég get ekki að því gert en mér finnst alltaf hálf kjánalegt að vera að spá fyrir um það hverjir skora. Á hverju byggja menn slíkar spár? Berdreymi? Einhverju mynstri? Reikniformúlum? Hreinni ágiskun? Eigum við ekki bara að segja að líklegast sé að framherjarnir skori, svo miðjumenn og svo koll af kolli? Alltént mun einhver af þeim mönnum sem spila á morgun skora…eða ekki. 🙂 Hins vegar verður að teljast líklegt að Liverpool vinni leikinn á morgun. Slíkt er í raun hægt að spá um því holningin á liðinu er slík og þvílík. 😉

  4. Ég get svo sem upplýst það að ég byggi þessa spá mína á hreinni ágiskun, hafi leikið einhver vafi á því :laugh:

  5. Ég byggi spár mína um markaskorara á tánum. Tærnar á hægri fæti tákna hægri hlið vallarins (fram að fremsta manni) og þær vinstra megin vinstri hlið vallarins. Í morgun klæjaði mig í báðar litlu tærnar (bakverðir) og meiddi mig í litla putta við að klóra mér (varamaður).

    “Ellefta táin” (eða “þriðji fóturinn”, eftir því hvernig menn eru vaxnir) táknar svo Pepe Reina í markinu. En ég fæ gríðarlega sjaldan sting í þann stutta … en ef ég spái Pepe Reina einhvern tímann marki þá vitið þið hvað það þýðir. :blush:

    Hyypiä-markið byggi ég síðan bara á líkum. Það er orðið allt of langt síðan hann negldi eitt inn með skalla, þannig að ég myndi þora að leggja pening undir að hann fari að skora eitt bráðum. Stóru tærnar á mér eru í fínu lagi, en ég hunsa þær að þessu sinni.

  6. Ég les ávallt í Tarot spil fyrir leiki og fæ þar út markaskorarana. Ef ég er nýbúinn að fá mér kaffi, þá spái ég í kaffibolla.

    Svo er ég með ákveðna tengingu við æðri máttarvöld. Mér er illa við að tala um þetta svona, en víst að þið spurðuð.

  7. stjáni stjáni stjáni…

    Crouch skorar 2 og Cisse 1 :blush:

  8. Ha? Ég tala um tærnar á mér og liminn í dágóða stund … og þú setur út á að ég nefni tærnar á mér?

    Ertu haldinn einhverji fóbíu eða? 😯

  9. Þetta er orðið rugl. Förum að tala um fótbolta hérna…

    Liverpool 4-0 West Brom

    Alveg sammála Kristjáni Atla í því hvernig þessi leikur endar, sjáiði bara á morgun, ég er eiginlega pottþéttur á þessu. Dreymdi nú reyndar að þetta færi 7-0 en það er önnur saga. Okkar menn byrja að krafti eins og þeir hafa gert upp á síðkastið, og staðan verður orðinn 3-0 í hálfleik, svo kemur eitt eftir hlé. Liðið er á svo rosalegri siglingu að maður einhvernveginn trúir ekkert að það sé að fara að tapa einhverju.

Rafa tjáir sig um Kromkamp og Josemi

Le Cisse