Lýsingin á Enska Boltanum

enskiboltinn.gifVið höfum áður á þessari síðu gagnrýnt lýsingu á leikjum á Skjá Einum og á Enska Boltanum. Þó held ég að við höfum ekki gert það í langan tíma. Það er athyglisverð tilviljun að í síðasta skiptið, sem ég skrifaði um slíka lýsingu, þá var það í kjölfar [leiks á milli Liverpool og Arsenal]( http://www.kop.is/gamalt/2005/05/09/18.04.45/), sem að Rikki Daða lýsti.

Ég hef þolað lýsingarnar í vetur án þess að vera að gera mikið veður útaf þeim. Ég hef þolað aulabrandara Loga Ólafs og malið í öðrum lýsendum án þess að kvarta mikið á þessum vettvangi.

En eftir leikinn í gær fékk ég nóg. Lýsing þeirra Willum Þórs og Snorra Más varð þess valdandi að ég horfði í 10 mínútur á leikinn án hljóðs. Ég þoldi einfaldlega ekki meira og ég hef ýmislegt við lýsinguna að athuga. Ég vil þó taka það fram að ég vil ekki sjá þennan pistil verða vettvang fyrir eitthvað ómálefnalegt diss á lýsingarnar á enska boltanum eða lýsendurnar sjálfa.

Fyrir það fyrsta, þá er hljóðvinnslan á enska boltanum afleit. Hljóðið af vellinum er allt, alltof lágt og hljóðið í íslensku þulunum alltof hátt. Það gerir það að verkum að maður missir algjörlega af stemingunni, sem var eflaust á Highbury.

Ofan á lág umhverfishljóð bætist svo sú staðreynd að þeir Willum og Snorri eru alveg einstaklega rólegir í lýsingunni. Ég er ekki fylgismaður þess að menn séu með einhverja Suður-ameríska takta í lýsingunum, en þegar lækkað er svona í vallarhljóðunum þá hlýtur maður að ætlast til þess að þulirnir séu sæmilega hressir og byggi upp steminguna. Af einhverjum ástæðum þá talar Willum einstaklega rólega í lýsingunum sínum, líkt og hann væri að lýsa snóker og væri hræddur við að trufla leikmennina. Núna vil ég taka það fram að ég þekki Willum Þór, hann er sennilega besti þjálfari sem ég hef haft og hann er langt frá því að vera svona rólegur dags daglega, heldur er hann afar skemmtilegur náungi. Þess vegna skil ég ekki alveg hvers vegna hann hljómar svona dapur í lýsingum.

Líkt og í [lýsingunni fyrir ári]( http://www.kop.is/gamalt/2005/05/09/18.04.45/), þá einkenndist allt tal af alveg magnaðri neikvæðni útí allt, sem tengist Liverpool. Já, ég veit að Liverpool voru hræðilegir í fyrri hálfleik og þeir hafa ekki skorað mikið. En Liverpool hefur hins vegar verið að spila mikinn sóknarbolta og að halda öðru fram hlýtur að þýða að menn hafi ekki horft á Liverpool, heldur rýni einungis í tölfræði tengdu liðinu. Liverpool eru einnig EVRÓPUMEISTARAR og í þriðja sæti í ensku deildinni. Varla merki um lélegt lið.

Fyrri hálfleikurinn var nánast stanslaus gagnrýnispistill á Liverpool. Ef að einhverjir voru að horfa á sinn fyrsta leik í enska boltanum á þessu tímabili, þá hefði sá hinn sami eflaust geta dregið eftirfarandi ályktanir af lýsingunni:

1. Liverpool fer aldrei fram fyrir miðju í leikjum.
2. Arsenal hlýtur að vera sirka 20 stigum fyrir ofan Liverpool í deildinni, svo miklu betri telja lýsendur Arsenal vera.
3. Enginn leikmaður Liverpool getur gert neitt skapandi.
4. Sendingar Liverpool, sem skapa marktækifæri eru ekki nógu góðar því þær hefðu hugsanlega verið betri ef þær hefðu verið gefnar alveg upp við endamark. Peter Crouch klúðraði skalla úr opnu færi, en samt sáu lýsendurnir tilefni til þess að gagnrýna það að sendingin hafði ekki verið gefin upp við endamark og því hefði snúningurinn á boltanum sennilega verið óþægilegur fyrir Crouch.
5. Allt, sem Liverpool gerir er “hægt”, “fyrirsjáanlegt”, “augljóst” og svo framvegis.
6. Ef að leikmaður Liverpool skapar hættu uppvið markið, þá er það samt lélegt hjá honum, því hann hefði getað farið til vinstri í stað þess að fara til hægri og hann hefði sennilega átt að skjóta í stað þess að gefa.

Hvað eftir annað var gert lítið úr Liverpool og allar þeirra sendingar sagðar vera “fyrirsjáanlegar”, allir leikmenn voru sakaðir um að vera “hægir” og svo framvegis. Á Anfield spiluðu þessi tvö lið og þar yfirspilaði Liverpool lið Arsenal. Þrátt fyrir það þótti þulunum engin ástæða til svipaðra yfirlýsinga gagnvart Arsenal.

Íslenskir lýsendur mættu taka sér lýsingu enskra þula til fyrirmyndar. Til dæmis þá staðreynd að þögn er ekki neikvæð. Stundum er gott að leyfa leiknum aðeins að “anda”. Ég efast ekki um að margir þulanna hafa yfirgripsmikla þekkingu á fótbolta. En það þýðir ekki að það þurfi að greina leikinn niður í öreindir. Það er ágætt að benda stundum á athyglisverða punkta (einsog Guðjón Þórðar var frábær í að gera) en það er óþarfi að gera það allan leikinn.

Og svo þurfa íslenskir lýsendur allavegana að *reyna* að vera hlutlausir í lýsingum sínum. Það er ekki hægt að bjóða fólki uppá lýsingar, sem eru 90 mínútur af dissi á eitt lið, sérstaklega ekki ef það lið er vinsælast enskra liðið á Íslandi. Ég þoli alveg að liðið mitt sé gagnrýnt, en ég vil hins vegar geta notið þess að horfa á liðið mitt spila án þess að þulirnir eyði hverri sekúndu í að finna galla í leik þess. Er það furða að maður píni sig stundum til þess að eyða leikjunum í reykjarmekki á börum bæjarins?

**p.s.** Ég þarf nú oftast ekki að biðja þetta, en vinsamlegast haldið ummælum á málefnalegum nótum, en ekki láta það snúast um eitthvað skítkast í einstaka lýsendur. Við viljum endilega fá málefnalega umræðu um þessar lýsingar.

31 Comments

  1. Eins og talað frá mínu hjarta!

    Sáttur við þennan pistil, Einar, og ef eitthvað er myndi ég vilja bæta tveimur punktum við:

    1. Ég hlustaði á Valtý Björn í dag og þar hringdi Arsenal-maður inn og kvartaði undan lýsingunni. Hann sagði að sér hefði ekkert þótt leiðinlegt að hlusta á lýsendurna gagnrýna Liverpool, en að þeir hefðu nær allan leikinn ekki talað um neitt annað en Liverpool. Hann vildi minna lýsendurna á það góðfúslega að það væru TVÖ lið að spila, ekki bara eitt. Komandi frá Arsenal-manni finnst mér þetta renna talsverðum stoðum undir kvörtun þína, Einar.

    2. Leikurinn gegn Charlton fyrir rúmri viku. Ég man ekki hvort það var Gummi Ben eða Kristinn Kjærnested sem lýsti þeim leik, en hann var að gera mig brjálaðan. Djibril Cissé átti svona 10-15 fyrirgjafir í þeim leik og þær komu flestar á sama hátt; hann notaði hraðann til að taka einn “dummy” og gefa svo í upp hægra megin við varnarmann Charlton. Nema hvað, þetta var búið að gerast svo oft (og virka í flestöll skiptin, nota bene) að þulurinn var farinn að gera grín að þessu. “Og boltinn núna út á Cissé, sem fer eflaust sömu leið og venjulega … jájá einmitt og svo kemur fyrirgjöfin en þar er enginn sem fyrr.” Ég var að verða brjálaður á þessu. Það sem Cissé var að gera í þeim leik var að virka og engin þörf hjá “hlutlausum” þuli að gera lítið úr því.

    Annars er ég orðinn hundleiður á þessum gæjum, stundum svo mjög að ég vonast til að þeir velji aðra leiki sem aðalleiki sína svo að við fáum enska þuli á Liverpool-leikinn. Ian Wright, Andy Gray og hinir geta verið óttalegir þursar stundum en þeir eru þó aldrei jafn leiðinlegir og sumir af þessum gæjum sem kunna ekki einu sinni að vera hlutlausir.

    Og svo tek ég fyllilega undir þetta með hljóðvinnsluna. Og af hverju er Snorri Már látinn lýsa leikjum? Hann er yfirlýstur Leeds-aðdáandi en mundi samt ekki hér í haust hvaðan Liverpool keyptu Harry Kewell … það er álíka viturlegt og að biðja mig um að lýsa Formúlu 1 í beinni!

    Það er ekki ætlun okkar hérna að vera andstyggilegir eða með níð, en við verðum að fá að viðra óánægju okkar með lýsinguna þar sem hún er stór hluti af áhorfi enskrar knattspyrnu.

  2. Vá hvað ég er sammála þessum pistli hér hjá þér.
    Þetta var svakalegt í gær og ég var bókstaflega að verða brjálaður.

    Og hvað var þetta með Willum og að “skapa rútínu” í sóknarleik og að Liverpool vantaði “rútínu”

    Á maður sem sagt bara að skapa rútínu og halda henni t.d. alltaf að gera þríhyrning vinstra megin á vellinum og svo senda boltann inn í boxið.

    Endilega einhver sem veit þetta betur að útskýra það fyrir mér

    Ekki fatta ég það amk. 🙂

  3. Já ég er að mestu leiti sammála þessu. En það er ekkert grín að finna hinn gullna meðalveg, til dæmis er Höddi Magg kannski of æstur, Gaupi fyrirsjáanlegur, Benedikt Bóas slakur og svo framvegis, en það er bara erfitt að finna góðan lýsenda í dag!

    Að mínu mati var einmitt einn Guðjón Þórðarson sá allra besti sem ég hef heyrt í. Hann hélt sig bara til hlés og kom svo með sínar skoðanir, sem maður var kannski ekki alltaf sammála, en samt voru þær vel rökstuddar og sýna þá gríðarlegu vitneskju sem hann hefur á fótbolta.

    Góður punktur með þögnina… hún er ekki alltaf slæm 🙂

    Annars finnst mér Snorri Sturluson einn besta lýsandinn í dag….

  4. Veistu, Kristján. Ég gæti ekki skrifað þetta á betri hátt en þú gerir þarna!
    Ástæðan fyrir því að ég fékk mér Sky Digital var sú að ég vildi sjá professional nálgun á lýsingum sem og fleiri leiki sýnda beint. Nú hef ég haft Sky í næstum 2 ár og sá um daginn leik á SÝN í meistaradeildinni (LFC vs Benfica). Það var nóg að LFC tapaði en að fá þessa aulabrandara frá Loga allan tímann og óþolandi öskrin í Guðjón eða Hafnfirðingnum ofaná allt. Hljóðið er alltaf deyft svo niður að maður heldur að með því að kaupa heyrnaskjól og plögga því í sjónvarpið væri maður að heyra betur. Á SKY fær maður val á milli hvort maður vil hlusta á þetta með eða án þula, fanzone sem áðdáandi hvors liðs er að lýsa leiknum á skemmtilegan hátt og hljóðið heyrist! Svo eru menn að ræða um hvað menn hefðu geta gert í stöðunni í staðinn fyrir að vera að tala um eitthvað tæknirugl og kenningar um hvort JFK hafi virkilega verið drepinn af einum eða tveimur mönnum.
    Ég sá ekki leikinn gegn Arsenal en ég er sammála þér með plammeringarnar sem LFC fær hjá mönnum á SÝN. Það er í lagi að vera á móti LFC eða einhverju liði en þú átt ekki að setjast í þularstólinn og koma úr honum eftir 90.mínútna lýsingu eins og þú hatir LFC. Þú átt að láta áhorfendur um að dæma það sem er og ekki vera að sýna hatur þitt á liðinu. Við erum ekki að borga fyrir hvað Logii getur sagt góða brandara, Guðjón eða Hafnfirðingurinn geta öskrað hátt eða hinir þulirnir geta verið gáfulegir við að brjóta niður leikatriði á 10 mínútum í leik sem fullur er af slíkum atvikum.

    Svo vildi ég koma með smá spurningu varðandi enska boltann og SKY hérlendis. Afhverju eru þeir hjá SMÁÍS að skammast yfir því að menn séu að borga SKY í gegnum aðila hérlendis til að fá enska boltann? Við vitum að við getum séð boltann hjá símanum/Skjá einum á ákveðnu verði og því var rétt forðað að um einokunarstarfsemi hjá símanum var að ræða með tengingu ogsfrv. En nú eru þeir hjá SMÁÍS að láta skjóta niður íslensk kreditkort sem borgað er með áskrift af SKY. OK, lög í Englandi banna að SKY sé sýnt út fyrir England en þetta næst útfyrir England fyrir mistök á gervihnetti en afhverju geta þeir hjá SMÁÍS ekki látið þetta vera???? Ísland og samkeppni fer ekki saman í setningu. Það er eitt sem víst er.

    PS: Missti mig aðeins… :biggrin:

  5. Ég get allavega ekki beðið eftir að verða nógu ríkur til að geta keypt mér gervihnattadisk og verið áskrifandi af Sky. Ég hreinlega þoli ekki íslensku lýsendurna, ekki bara á enska boltanum heldur líka á Sýn.

    Ég átti t.d. ekki til orð yfir það hvað þeim fannst dómararnir ósanngjarnir í garð Chelsea í rimmunum gegn Barcelona í Meistaradeildinni. Þeir voru alveg á því að dómararnir hefðu skemmt rimmuna með því að dæma gegn Chelsea en gleymdu alveg að þeir slepptu að dæma tvö víti á Chelsea. Mér fannst dómararnir í leikjunum bara standa sig vel – í það minnsta alls ekki dæma gegn Chelsea.

  6. ……gleymdi að minnast á að ég ég sé/heyri engan mun á lýsendunum á SÝN eða enska boltanum. Þetta eru sömu lýsendur og voru er þetta var frítt á Skjá Einum og hafa ekkert breyst. Bara til að fá það á hreint að þetta eru eflaust fínir menn allt saman en gagnrýni á að eiga sér stað til að bæta hluti.

  7. Alltaf jafn hlægilegt þegar menn eru að tala um einhver 2 víti gegn Chelsea í Barcelona-leiknum.

    Það var búið að gefa rangt rautt spjald og það breytti leiknum. Þessi “víti” hefðu aldrei átt sér stað hefði rauða spjaldið ekki komið.

  8. Hehe..gaman að sjá hvað Nonni er duglegur að heimsækja okkur hérna! 🙂

    Mér fannst allavega magnað hvað lýsendurnir voru hliðhollir Chelsea í leikjunum tveim, það er nú mergurinn málsins! 🙂

  9. Það er allveg ótrúlegt hversu smámunasamt fólk getur verið, er ekki sátt nema það fái allt upp í hendurnar! Er ekki nóg að geta horft á alla leiki úrvalsdeildarinnar fyrir c.a. 2-3000 kr. á mánuði? Hvað með það þó svo að nokkrir af lýsendum enska boltans eru hlutdrægir enda eru örfáir af þeim “prófessional” lýsendur en er það ekki bara skiljanlegt miðað við þeim litlu peningum sem að dælt er í þessa stöð?

    Mér finnst framtak Snorra Más við að reyna fá fyrrverandi íslenska knattspyrnumenn eða stjóra sem að höfðu þetta að atvinnu og reyna að fá innsæi þeirra í leikinn mjög gott. Íslensk knattspyrna er allt önnur frá þeirri ensku en amk eru þeir að reyna að varpa skýru ljósi á hlutina. Þeir voru t.d. mjög ósáttir með það að Alonso var rekinn af velli. Reyndar hafði Willum meira að segja rétt fyrir sér með það hversu fyrirsjáanlegir Liverpool menn voru þegar að þeir voru með boltann að hann var farinn að segja hvar boltinn endaði áður en sendingarnar og hreyfingarnar hófust og það var hárrétt hjá kallinum.

    Ef að fólk heldur að grasið sé eithvað grænna hinumegin við atlantshafið þá getur þeim ekki skjátlast meira. Þar sem að ég hef haft Sky digital í rúm 5 ár þá get ég sagt þér það að það eru margir hálvitar til í bransanum.

    Maður hefði haldið að BBC væri “prófessional” stöð en, samt sem áður, þegar að þeir sýna leiki þá er Alan Hansen eini maðurinn með eithvað vit og “óhlutdrægni”, John Motson getur verið ágætur en hann er alltaf svo hlutdrægur í garð Englendinga að í hvert skipti sem að englendingur gerir eihvað með boltann þá heillar hann honum óspart osf. Síðan er Mark Lawrenson hræðilegur, allt sem að viðkemur Liverpool eða Steven Gerrard samkvæmt honum er snilld þegar að þeir sigra en ömurlegt ef að þeir tapa. Síðan eru þeir með menn á borð við Greame Le Saux, Ian Wright og til að toppa allt saman þá stjórnar Gary Lineker MOTD!!!!!! Hver með réttu viti mundi hafa þessa menn saman í stúdíói?

    ITV hafa Andy Townsend og þú þarft bara að hlusta á Istanbul lýsinguna hjá kauða og þú áttar þig á því að vit hans á fótbolta er mjög takmarkað og lítið sem ekkert gáfulegt kemur uppúr honum. Ally McCoist er örlítið skárri en samt er ófyrirgefanlegt að Gabby Logan er aðal kynnir CL! Og þetta fólk eru þeir kynnar sem að ITV velur fyrir stóru leikina!

    Það eru einungis tveir þulir á Sky Sports sem að ég ber virðingu fyrir, því miður man ég ekki í augnablikinu nafn annars en hinn er Martin Tyler. Andy Grey er mjög misjafn, stundum talar hann af viti en svo oft er hann hlutdrægur í garð Everton og ManU að það fær mann næstum til að æla. Hann er anti Liverpool no. 1 og fengu sumir hjartaáfall þegar að hann öskraði “you beauty” þegar að Gerrard skoraði það mark gegn Olympiakos. Annars er stöðin með gaura á borð við Charlie Nicholas, Phil Thompson, Jeff Stelling, George Graham, JAmie Redknapp, Ray Wilkins, Ruud Gullit, Vialli ofl. enuff said!

    Þessir gaurar eru lítt skárri en Willum og Snorri en samt kalla þeir sig “professional” og maður er að borga helling fyrir þetta! Ég held að fólk hefur ekkert efni á því að setja neitt mikið út á lýsendur Enska boltans hjá skjánum þrátt fyrir hlutdrægni lýsenda. Ef að þú vilt fá lýsingu sem að er á borð við þína hlutdrægni þá skaltu bara hlusta á Steve Hunter á Liverpoolfc.tv, hann segir allt sem að þú vilt heyra.

  10. Fínn pistill og ég tek undir með honum. Hins vegar er ég af þeirri gerðinni að ég hef mest gaman af lýsendum sem lifa sig inn í leikina. Sem gjörsamlega missa sig þegar eitthvað merkilegt kemur, og einn hápunkturinn sem ég man eftir er Hörður Magnússon á HM 2002 í leik Portúgals og S-Kóreu, þegar hann talaði um helvítis dómarafíflið sem hafði eyðilagt leikinn … okey, þar fór hann yfir strikið og nokkur ummæli hans og annarra hafa verið á gráu svæði. En þarna finnst mér leikurinn færast mér nær.

    Ég held í Barca-Chelsea rimmunni hafi hin íslensku tengsl við Chelsea eitthvað blandast inn í þetta, en ég vil ekki dissa þessa lýsendur. Ég er sammála pistlahöfundi með umhverfishljóð og þekkingu lýsenda, sem verður að vera einhver (t.d. að vita hvaðan Kewell var keyptur …) – og nefni svo í lokin að ég hef mest gaman af leikjum sem Höddi Magg eða Arnar lýsa.

  11. Ég get nú ekki sagt að ég geri mikið af því að kryfja hvað misvitrir lýsendur leikja míns liðs eru að láta út úr sér. Er yfirleitt of upptekinn við að skammast eða hrósa mínu Liverpool fyrir fyrir lélegan/góðan leik, nema ef vera skyldi þegar ekkert er að gerast og maður dettur í spjall við félagana. En eitt verð ég þó að minnast á með lýsinguna á sunnudaginn, þ.e. það sem ég tók eftir. Þeir höfðu alveg rétt fyrir sér með hversu ?fyrirsjáanlegt? og ?hægt? Liverpool var í fyrri hálfleik. Auk þess að okkar menn eru ekki mikið í að ryðjast upp að endalínu og senda út í teig heldur kemur þetta oftast frá vítateigshorni, að því er mér hefur fundist. Hvort er skárra eða hvort meira jafnvægi mætti vera á milli þessara sendingagerða ætla ég öðrum að dæma um. Enda lítt inni í verklegum fræðum fótboltans. Meira svona gasprandi tóma vitleysu með bjórglas í hönd ?í reykjarmekki á börum bæjarins?. 🙂

  12. Aron, þakka þér fyrir málefnalegt svar. En ég hef nokkrar athugasemdir:

    • Þú segir:

      Það er allveg ótrúlegt hversu smámunasamt fólk getur verið, er ekki sátt nema það fái allt upp í hendurnar! Er ekki nóg að geta horft á alla leiki úrvalsdeildarinnar fyrir c.a. 2-3000 kr. á mánuði?

      Fyrirgefðu, en 2-3000 kall á mánuði er hellings peningur. Það þýðir um 25.000 krónur yfir leiktímabilið. Fyrir það hef ég fullan rétt til að kvarta. Í fyrra þegar við kvörtuðum var svarið bara: “þetta er ókeypis”. Núna er þetta ekki ókeypis, svo ég leyfi mér að kvarta eins mikið og ég vil á meðan ég geri það á uppbyggilegan hátt.

    • Þú mátt alveg vera ósammála mér um gæði enskra þula, en ekki kalla mig “smámunasaman” fyrir að vilja almennilega lýsingu á leikjum. Lýsingin er einfaldlega stór hluti af leiknum.
    • Þú talar ekkert um efni pistilsins, og mínar athugasemdir við lýsinguna. Ég var ekkert að segja að bresku þulirnir væru fullkomnir, en þeir gera marga hluti rétt og af þeim hlutum, sem ég benti á í pistlinum, þá gera þeir flesta betur – t.d. hljóðvinnslu, ekki ofgreina leiki, ekki eyða öllum tímanum í að rakka niður annað liðið, o.s.frv.
    • Svo segir þú:

      Ég held að fólk hefur ekkert efni á því að setja neitt mikið út á lýsendur Enska boltans hjá skjánum þrátt fyrir hlutdrægni lýsenda.

      Af hverju hef ég ekki efni á því? Þarf ég að fara í stúdíó og lýsa leikjum betur en núverandi lýsendur til að ég megi gagnrýna þá? Plíííís!

    • Og einnig:

      Ef að þú vilt fá lýsingu sem að er á borð við þína hlutdrægni þá skaltu bara hlusta á Steve Hunter á Liverpoolfc.tv, hann segir allt sem að þú vilt heyra.

      Þetta er svo fáránlegur útúrsnúningur að það er ekki fyndið. Ég sagði ALDREI að ég myndi vilja horfa á leiki þar sem lýsandinn eyddi 90 mínútum í að dásama Liverpool. Alveg einsog ég hefði ekki fílað lýsinguna á sunnudaginn ef ég væri Arsenal aðdáandi. Ég vil að menn geri sér grein fyrir því að það eru tvö lið á vellinum og sleppi þessum hæðnisummælum um að allt í okkar leik sé “fyrirsjáanlegt” og svo framvegis. Ef að Liverpool er svona “fyrirsjáanlegt, þá væri liðið væntanlega ekki Evrópumeistarar.

    Annars þakka ég þér fyrir samantektina á ensku þulunum.

  13. Missti af þessu. horfði á leikinn á pöbb á ensku. En alltaf þegar þessi umræða kemur upp þá hugsa ég um skíði. Íslenskur kynnir er svona:
    Já, já, já, já og góður tími.
    útlenskur þulur myndi segja:
    Hægri, vinstri- ekki góður, og hægri og vinstri mjög gott.
    Maður veit fjórfalt meira hvað er að gerast.
    Ísland -Trinidad. Seinni hálfleikur fór í svona 40 greiningar á leiknum.
    ég dett bara útúr leikjunum. Taka englendingana til fyrirmyndar. Hálfleikir eru til greiningar og hvað liðin eiga að bæta. Lýsingar eru til að segja hvað er að gerast og bæta svo við – vel gert eða illa gert.

  14. Ég er svo hjartanlega ósammála þessari gagnrýni. Sérstaklega á þá Snorra og Willum sem mér fannst mjög góðir í leiknum á móti Arsenal.

    Það vill svo til að Liverpool eru fyrirsjáanlegir í ölllum sóknaraðgerðum sínum og afar fáir skapandi leikmenn í liðinu.

    Við erum með fullt af varnarsinnuðum leikmönnum í liðinu. Carrager og Hyypia eru heimsklassa varnarmenn. En … hvorugur þeirra beitir sér mikiðo fram á við og þeir skora alls ekki nógu mikið af mörkum.

    Finnan fer aldrei lengra inn á vallarhelming andstæðingana en til móts við miðjuhringinn. Willum benti réttilega á að þetta sé fyrirfram glatað og að við getum svo gott sem pakkað í vörn þegar fallhlífarsendingarnar koma.

    Liverpool liðið er afar sterkt og fær á sig fá mörk. En ég held að við getum allir samþykkt að það sé lélegt sóknarlið. Staðreyndirnar tala sínu máli.

    Ég verð líka að viðurkenna að ég verð alltaf svoltið hissa þegar menn fara að mæra einhverja lýsendur út í heimi sem maður heyrir sárasjaldan í. Þetta er svona svipað og að menn vilja að Cisse fái að spila meira…. og að Pongolle sé frábær leikmaður.

    Ástæðan fyrir því að þessir menn spila og spiluðu lítið er að þeir geta og gátu akkúrat ekkert þegar fengu sénsinn. Svo einfallt er það. Pongolle getur komið til ef hann fær að spila mikið með Blackburn en Cisse er margbúinn að sanna að hann er lélegur knattspyrnumaður.

    Ég vona svo að við höldum áfram að fá faglega umfjöllun og greiningu á leik Liverpool því liðið á svo sannarlega langt í land með að ná bestu liðunum í deildinni.

    Áfram Liverpoool!

  15. Hér hef ég á tilfinningunni að menn séu kanski aðeins að fara yfir strikið. Að mínu mati eru þessar lýsingar hjá Snorra og félögum bara ljómandi fínar. Reyndar verð ég að segja að Rikki Daða og Þórhallur Dan fara í mínar fínustu en það verður bara að hafa það.

    Hvað voru þeir félagar, Snorri og Willum, að segja? Það sem ég man eftir var mikið til í:

    1. Liverpool liðið er í þversendingunum.
    2. Liverpool liðið hefur ekki góða sóknarrútínu.
    3. Djúpir krossar eru erfiðari en þeir sem koma frá endalínu að skalla.
    4. Rauða spjaldið á Alonso var kjaftæði.
    5. Það vantar hraða í sóknarlínu Liverpool liðsins.

    Þetta eru bara blákaldar staðreindir.

    Liverpool notar mikið af þversendingum, þær eru áhættusamar, þær geta skilað mörkum en menn geta líka tapað boltanum á leiðindarstöðum.

    Liverpool liðið hefur ekki góða sóknarrútínu, liðið er búið að skora 34 mörk í 29 leikjum!! Chelsea er búið að skora 58!! Þetta eru 24 mörk sem skilja þessi 2 lið að og 20 stig!!

    Það er erfiðara að skalla djúpa krossa, skallinn verður sjaldnast jafn fastur og ákveðinn. Ég skora á menn að láta reyna á það ef menn eru á öðru máli.

    Brottrekstur Alonso var kjaftæði, það ættu flestir að gera sér grein fyrir því.

    Aftur á móti er ég sammála því að umhverfishljóð mættu vera hærri, nota lýsinguna sem uppfyllingu til fróðleiks. Ég er áskrifandi að enska boltanum og er gríðar sáttur, loksins get ég horft á hvern einasta Liverpool-leik í deildinni heima hjá mér, tær snilld. Nú ef það er bikarleikur eða meistaradeildarleikur fer ég bara á pöbbinn og fæ þeim mun meiri stemmingu.

    Ein hugmynd fyrir Snorra Má: Ráða Bjarna Fel í lýsingu á einstaka leik. Var að horfa á ensku mörkin á RÚV og þótti einstaklega gaman að sjá Glenn RÖDER knattspyrnustjóra Newcastle á Old Trafford. Karlinn er snillingur.

    Lifið heilir kæru Liverpool menn og lifi liverpoolbloggið!

    Liverpool lengi lifi,
    kv Magnús G

  16. Finnan fer aldrei lengra inn á vallarhelming andstæðingana en til móts við miðjuhringinn.

    Það er bara alls ekki rétt Hössi.
    Finnan er virkilega duglegur í því að koma upp kantinn í “overlappið” og taka þátt í sóknarleiknum.

  17. Tek undir með Aroni, afhverju eru menn að væla. Mér þótti Snorri og Willum ágætir, þó engin sé fullkominn að þessum lýsendum þá eru þeir oft með góða punkta og skemmtileg komment. Margir af þeim hafa einungis lýst leikjum í eitt eða tvö ár og geta því bara bætt sig. Bjarni Fel varð ekki til á einni nóttu (jú sennilega).

    Það getur verið sárt að heyra sannleikan frá lýsendum, spilamennska Liverpool í leiknum á móti Arsenal var mjög svo fyrirsjáfanleg. Þessir háu boltar frá varnarmönnum okkar eru ekki að skila neinu, samt þráast menn við og reyna þetta trekk í trekk í hverjum einasta leik (þegar Crouch er í sókninni). Willum benti réttilega á það að þetta er ekki að skila okkur neinu. Ef Crouch nær að flykka boltanum þá er enginn mætur í eyðuna til að taka við honum, eins ef Crouch tekur boltann á kassan og nær valdi á honum þá hleypur hann yfirleitt með hann til baka og sendir síðan aftur á Carra eða Finnan. Þetta er sorgleg staðreynd sem blasir við okkur Liverpoolmönnum.

    Getur verið að gremja ykkar í garð þulana hafi eitthvað með dapra spilamennsku og lélega nýtingu færa að gera. Ég veit að fyrir mitt leiti þá fer þessi nýting okkar á hornum og dauðafærum rosalega í mig sem verður til þess að allt í kringum mig fer líka í taugarnar á mér.

    Kveðja
    Krizzi 🙂 🙂

  18. Ég er sammála þér með þetta Einar. Þetta var orðið virkilega pirrandi á sunnudaginn (fyrir utan lélega framisstöðu).

    Er ekki bara spurning um að fá Hemma Gunn aftur í lýsingarnar?

  19. >Tek undir með Aroni, afhverju eru menn að væla

    Svona komment þoli ég ekki. Hvað í þessum pistli var “væl”? Þetta var bara einföld gagnrýni á verk þessara manna. Af hverju þarf að túlka það sem væl?

    Og Hössi, þú færð sérstakt hrós fyrir að takast að snúa þessum pistli yfir í gagnrýni á Steve Finnan. Einsog ég hef áður sagt, þú þarft að leita þér aðstoðar í þessu hatri þínum á leikmanninum.

    Ég hélt því aldrei fram að þetta væri allt vitleysa hjá þulunum (þrátt fyrir að sumt hafi verið það). En tökum Liverpool útúr þessu og segjum að þeir hafi verið að lýsa leik hjá Sunderland. Ættu menn þá að eyða 90 mínútum í að lýsa því hversu ömurlegir Sunderland eru? Hversu lélegir þeir eru í vörn og sókn og svo framvegis? Finndist ykkur það skemmtilegt eða sniðugt?

    Mynduð þið vilja horfa á leik þar sem aldrei væri minnst á Liverpool, heldur aðeins talað um hvað hitt liðið væri lélegt? Einsog Kristján benti á:

    >Ég hlustaði á Valtý Björn í dag og þar hringdi Arsenal-maður inn og kvartaði undan lýsingunni. Hann sagði að sér hefði ekkert þótt leiðinlegt að hlusta á lýsendurna gagnrýna Liverpool, en að þeir hefðu nær allan leikinn ekki talað um neitt annað en Liverpool. Hann vildi minna lýsendurna á það góðfúslega að það væru TVÖ lið að spila, ekki bara eitt. Komandi frá Arsenal-manni finnst mér þetta renna talsverðum stoðum undir kvörtun þína, Einar.

    Jammm…

  20. Hössi, Cissé er allavega knattspyrnumaður sem skorar mörk, alveg óháð því hvort hann sé lélegur eða ekki. Það sama er ekki hægt að segja um Crouch og Morientes.

    Afsakið, aðeins kominn út fyrir efnið hérna..en ég bara varð! 🙂

  21. Dóri – þetta er ekki rétt hjá þér. Finnan fer afar sjaldan í “overlapp” heldur er að reyna að senda boltann inn í teig frá miðjum vallarhelmingi andstæðingana. Ég er alveg til í að fara í gegnum alla leiki leiktíðarinnar með þér til að staðfesta þetta. Svo vildi svo skemmtilega til að þetta var akkúrat það sem Willum var að segja að væri stórt vandamál hjá liðinu. Hann benti á að einmitt þetta sé það sem er AÐ í liðinu. Liðið sækir ekki nógu mikið upp kantana – er að dæla boltanum frá miðju – sem gerir það svo að verkum að senterarnir okkar eru þeir sem líta illa út.

    Einar – mér er ekkert sérstaklega vel við Finnan sem leikmann. Finnst hann meðal maður sem fær hrós fyrir ekki neitt. Ég hef margoft sagt að leikmenn sem valda aldrei úrslitum eru mér ekki að skapi. Ég leyfði mér meira að segja að bera Finnan saman við Babbel sem upp á sitt besta gerði oft gæfu muninn fyrir liðið þegar hann lagði upp eða skoraði sjálfur mark. Ég get líka sagt þér að mér var meinilla við Riise þegar hann spilaði á kantinum. Mér er alls ekki jafn illa við hann í bakverðinum og meira að segja sakna hans nú þegar hann er meiddur.

    Hannes – Cisse er ekkert að skora mörk frekar en aðrir sentarar í liðinu. Hann er meðalspilari sem getur virkað í lélegri deild þar sem varnarmenn eru seinni og ekki eins sterkir líkamlega. Cisse hefur alveg fengið sín tækifæri frammi. Mér fannst hann lakastur af þeim senterum sem hafa fengið sénsinn í sentersstöðunni okkar. Hann er skömminni skárri á kantinum að mínu viti og meira að segja átti ágætis leik á móti Charlton um daginn. Mér finnst fáránlegt að menn vilji allt í einu að hann spili í senternum þar sem enginn hefur séð hann spila frammi í nokkurn tíma. Ég segi bara að það sé ástæða fyrir því.

    Áfram Liverpool!

  22. Fyrirgefðu, en 2-3000 kall á mánuði er hellings peningur. Það þýðir um 25.000 krónur yfir leiktímabilið.

    Nei, þetta er nefninlega ekki mikill peningur. Ef að þú kannar hversu mikið sýn og sky sports rukka fyrir áskrift þá muntu komast að því að þeir kosta hérumbil 90.000 kr. yfir tímabilið! 25.000 kr. er bara ekki neitt miðað við það að þetta er eina sjónvarpstöðin sem að ég veit um sem að sýnir ALLA leiki ensku úrvalsdeildarinnar, ALLA! Veist þú um einhverja aðra stöð sem að býður upp á þá þjónustu í heiminum?

    Þú mátt alveg vera ósammála mér um gæði enskra þula, en ekki kalla mig “smámunasaman” fyrir að vilja almennilega lýsingu á leikjum.

    Allir vilja almennilega lýsingu en hún er bara nánast ófáanleg í íslensku sjónvarpi og hefur verið það síðan að þeir byrjuðu að sýna sunnudagsleikina á 7. áratugnum á RÚV. En fyrir þennan pening þá ætti fólk ekkert að búast við snilldar lýsingu en samt finnst mér að Snorri eigi hrós skilið fyrir að REYNA að fá utanaðkomandi menn eins og Willum og leyfa honum að skilgreina taktík og leikaðferðir, hvort að það heppnast hverju sinni er misjafnt en mér fannst hann standa sig nokkuð vel á sunnudaginn. Þannig að þegar að fólk fer að setja út á staðreyndir (jú, Liverpool voru fyrirsjáanlegir og bakverðirnir fóru afar sjáldan framyfir miðju og Liverpool hafa mjög fáa skapandi leikmenn í 16 manna hópnum) þá er best að gerast annaðhvort áskrifandi af liverpoolfc.tv eða einfaldlega stilla á radio 3 (Lancaster) og hlusta á John Aldridge.

    Lýsingin er einfaldlega stór hluti af leiknum.

    Hvað geriru þá þegar að þú ert á leikjum?

    Þú talar ekkert um efni pistilsins, og mínar athugasemdir við lýsinguna.

    Ég hélt að ég hefði komið því á framfæri í byrjun að ég væri ósammála pistlinum?

    Af hverju hef ég ekki efni á því? Þarf ég að fara í stúdíó og lýsa leikjum betur en núverandi lýsendur til að ég megi gagnrýna þá? Plíííís!

    Nei, það sem að ég átti við með þessu var það að ég setti það í samhengi við erlenda þuli og að margir þeirra eru lítt skárri en þeir sem heima liggja. Skil ekki hvernig það er hægt að hrósa “enskum” lýsendum óspart bara vegna þess að þeir tala ensku en segja ekkert af viti en eru með frábæra HLJÓÐVINNSLU?

    Ég sagði ALDREI að ég myndi vilja horfa á leiki þar sem lýsandinn eyddi 90 mínútum í að dásama Liverpool.

    En samt semt ertu að ýja að því að það er það sem að þú villt. Hvort sem að þér líkar það betur eða verr, á sunnudaginn var aðeins eitt lið á vellinum sem að spilaði fótbolta og Liverpool áttu ekkert í leikinn þangað til að þeir skoruðu mark á 76. mín! Fram að þeim tíma þá var Arsenal búið að eiga fjöldann allan af færum og spiluðu glimrandi fótbolta. Hvað áttu lýsendurnir að segja annað um Liverpool nema það að þeir voru einfaldlega lélegir? Það var sannleikurinn og ef að hlutdrægni þín getur ekki höndlað það þá áttu bara að hlusta á lýsendur sem að eru 100% pro Liverpool.

    Ég veit ekki með þig, en mér finnst mjög áhugavert að fá álit utanaðkomandi um Liverpool, það kryddar aðeins tilveruna að hlusta á óhlutdrægin comment.

    Annars þakka ég þér fyrir samantektina á ensku þulunum.

    Ákvað að setja stutt yfirlit þar sem að einhverjir gátu víst ekki beðið eftir að fá sér sky pakkann og þar með hlusta á lýsendur með “viti.”

  23. Ertu ekki að tala um gæjann sem lýsir oft Premiership Plus leikjunum Aron? Man ómögulega hvað hann heitir en sé hann alveg fyrir mér í mynd og hljóði. Hann og Martin Tyler eru flottir. Svo er Green á Radio 5 Live góður. Peter Brackley líka. Margir eru mjög fínir en sumir slappari einsog gengur gerist

    Er annars alveg sammála þér Aron, Enski Boltinn er að reyna, gleymum ekki að ekkert verður verra en Ásgeir Elíasson á sunnudögum að lýsa einhverjum 0-0 leik í ítalska boltanum með Gaupa eða Týra. Menn eru ekkert betri ef þeir mæla á enska tungu. Sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem hver þverhausinn á fætur öðrum er að lýsa leikjum, sérstaklega Bill Walton í NBA og Morgan held ég að hann heiti í hafnaboltanum, sorglegir gæjar. Við erum eftir allt Íslendingar og verðum að standa vörð um tungumálið. Enski Boltinn er að reyna hafa þetta ‘pro’ og það mun taka tíma að slípa þetta saman.

    3 menn standa þó upp úr, Bjarni Fel, Gaupi og Guðjón Þórðarson. Bjarni klassískur, Gaupi húmoristinn og Guðjón fræðingurinn. Arnar Björnsson áberandi slakastur með svona ca. 50 staðreyndavillur í leik. Sakna þó Jóns Arnar Guðbjartssonar frá Stöð 2 og auðvitað svo má ekki gleyma Ingólfi Hannessyni, ekki kannski fyrir kunnáttu sína, en maður gat alltaf hlegið að þeim.

    Ég verð þó að hvetja Enska Boltann til að hafa meiri valmöguleika í þessu, þ.e. að leyfa fólki að ráða hvernig það vill hlusta á boltann, enskt, íslenskt eða án hljóðs. Það er allt orðið interactive í dag, af hverju geta þeir ekki gert þetta?

  24. Ég tók eftir einum skemmtilegum fítus um daginn þegar ég horfði á einn Liverpool leikinn í gegnum forrit sem heitir TvAnts. Þar var hægt að stilla stereo hljóðið þannig að þú getur t.d. bara hlusta á vinstri rásina eða þá hægri. Leikurinn var sendur þannig út að á öðrum helmingnum voru þulirnir og svo hinum soundið frá vellinum. Þannig að ég stillti auðvitað bara vinstri rásina í botn og köttaði þannig út þulina (sem voru frá asíu). Algjör snilld.

    Þeir hjá Enska boltanum ættu kannski að prófa þetta. Þá gætu menn valið hvort þeir vildu þulina með eður ei.

  25. Eitt er það að sama hversu íslensku þulirnir reyna þá eru þeir aldrei á vellinum og hafa því ekki víðara sjónarhorn en það sem kemur í sjónvarpsmyndinni. Og þess vegna munu ensku þulirnir eða hver sem er annar sem er á þeim velli þar sem leikurinn fer fram vera með forskot framyfir mann sem lýsir leik af sjónvarpsskjá. Besti íslenski þulurinn slær aldrei út meðal þul sem staddur er á vellinum! þannig er það nú bara

  26. Mjög góð og oftast málefnaleg umræða hér á ferð. 🙂

    Ég er svo ótrúlega heppinn að vera með Sky. Með því færðu pottþétta íþróttaumfjöllun og einnig almennilega þætti þar sem spáð er í fótboltann o.fl. Má til dæmis nefna THE LAST WORD – Super Sunday á Sky þar sem að Andy Gray tekur fyrir vafasöm atriði í leikjum og bendir á eitt og annað merkilegt sem gerist í sóknar og varnarleik liðanna.

    Svo ekki sé talað um þegar kemur að hljóðmixinu. Þegar leikur er í gangi, þá er stillt jafnhátt í vallarhljóðum og þulum(nokkuð viss um það). Þetta gerir það að verkum að þegar mikil stemming er á vellinum getur maður útilokað lýsendurna í huganum. Þeir eru ekki jafn yfirgnæfandi og hér á Íslandi. Svo þegar þeir eru að segja eitthvað gáfulegt þá heyrir maður það vel.

    Ég ætla nú ekki að fara jafn ítarlega í ensku stöðvarnar eins og einhver gerði hérna áðan en ég verð að segja að Match of the day sem er alltaf sýndur á kvöldin á laugardögum er hrikalega leiðinlegur þáttur. Þeir ná ekki að skapa neina umgjörð og auk þess eru sparkspekingar sem eiga að segja eitthvað um leikina svo daufir og leiðinlegir að miðað við lýsingar ykkar gætu þeir minnt á Willum.

    ITV er ágætis stöð þegar kemur að fótbolta. Sparkspekingarnir eru kannski ekki fyrsta flokks en þeir ná að skapa umgjörð t.d. í hálfleik þegar þeir eru með menn niður á velli sem spjalla um leikinn. Ekki eitthvað sem er lokað inni í stofu og engin vallarhljóð í kring.

    Sky Sports ber af í þessu. Það er alveg haugur af góðum lýsendum þar og einnig góðir umfjöllunarþættir. Ef þú hefur aðgang að SkySportsNews en ekki að leikjunum á laugardögum þá mæli ég með því að fylgjast með. Þá er tekið “action” úr öllum leikjum og lýst munnlega. ATH. engar myndir sýndar.

    Hef ekki meira að segja….

    Jóhann Atli

    P.S. http://www.skykort.com

  27. Ég er að nokkru leyti sammála þessari gagnrýni á þulina og hérna eru nokkrir punktar:

    1. Þeir töluðu alltof mikið um Liverpool sem mér fannst pínu gallað og örugglega ekki gaman fyrir Arsenalmenn þar sem lítið var fjallað um hversu ótrúlega vel þeir voru að spila í leiknum heldur frekar einblínt á hversu ótrúlega lélegir Liverpool væru.

    2. Þeir höfðu fátt gott að segja um Liverpool en aftur á móti voru okkar menn að spila hræðilega og lítið gott um þeirra leik að segja.

    3. Manni hefur stundum fundist einhver óvild lýsenda í garð Liverpool og oft meira talað um það sem miður fer heldur en það sem gott er. En ég er nú harður Liverpool maður og því er þetta kannski ekki alveg hlutlaust hjá mér. Að því sögðu þá hafa þulirnir eftir því sem ég best man keppst um við að hrósa varnarleik og aga Liverpool liðsins á leiktíðinni.

    4. Þulirnir (Snorri Már, Willum o.fl.) ERU (og ég trúi ekki að menn vilji eitthvað rífast um þetta) ótrúlega hlutdrægir í garð Chelsea og finnst mér oft spaugilegt að fylgjast með Chelsea leikjum á enska boltanum. Ég hef ekkert á móti því að þeim sé hlýtt til Chelsea og vilji sjá Eið ganga vel o.s.frv. og Chelsea gengur að sjálfsögðu fantavel þessa dagana og margt gott að segja um þeirra leik en stundum finnst mér þeir ganga of langt hvort sem mönnum finnst það gott eða slæmt að hlusta á svoleiðis lýsingu. Þar sem ég er gallharður Liverpool maður finnst mér það auðvitað hundleiðinlegt.

    HINS VEGAR:

    1. Snorri og Willum höfðu margt að segja um leik Liverpool á móti Arsenal og því miður þá var bara mikið til í því sem þeir höfðu að segja. Liverpool liðið leikur ekki sérlega góðan sóknarleik. Hann er fyrirsjáanlegur á köflum og gagnrýnin á þessar löngu sendingar frá miðju átti að mínu mati fullan rétt á sér þar sem þetta er full einhæft og andstæðingum okkar gengur mjög vel að pressa okkur á einhvern ákveðin hátt vitandi nákvæmlega hvaða svör við höfum sem eru þessar sendingar og þessi einhæfi sóknarleikur. Þetta gerir þeim mun auðveldara að kljást við sóknarleikinn okkar og framherjarnir okkar líta fyrir vikið út eins og kartöflupokar meiripart leiksins. ATH! Þetta sást mjög vel á móti Arsenal og eins leiðinlegt og það var að hlusta á Snorra og Willum tala um það þá var þetta rétt hjá þeim. Markið okkar kom svo að lokum þegar við slepptum þessum sendingum og náðum spili inn á miðjuna og skoti á markið.

    2.Nú Liverpool liðið í dag býr yfir engum hraða. Allar okkar aðgerðir í sóknarleik eru mjög hægar og hraðar skyndisóknir líkt og Arsenal og Man Utd stunda eru sjaldséðar hjá okkar mönnum. Vissulega eru menn sem búa yfir snerpu og hraða (Cissé, Gerrard, Kewell) en þrír af fjórum framherjum okkar eru MJÖG svifaseinir og alls engir spretthlauparar. Það er sjaldan sem maður sér okkar menn “sprengja” upp varnir andstæðingana og skapa mörk þannig. Helsti styrkur Liverpool í mínum augum er þegar við erum mjög fastir afast, nánast órjúfanlegir, og náum svo hægt og bítandi að byggja upp ákveðinn sóknarþunga og pressu að á endanum hlýtur eitthvað að láta undan (nema undanfarið þar sem skotnýting hefur verið 0%).

    Þannig að í mínum augum eru þulirnir hjá enska boltanum að standa sig ágætlega en vissulega nokkrir punktar í þessari gagnrýni sem þeir gætu tekið til sín.

    Takk fyrir mig og áfram Livepool!

  28. Verð nú bara að fá að kommenta aðeins. Sá ekki þennan leik í íslensku sjónvarpi, en eftir að hafa lesið kommentin hérna þá get ég ekki orða bundist. Aron, lest þú ekki það sem verið er að svara þér með? Kristján Atli kom með punktinn afar snemma. Þetta snýst ekki bara um það hvort menn hafi haft rétt á að gagnrýna Liverpool í leiknum, menn eru að tala um að þessir blessuðu “spekingar” gleymdu að hrósa Arsenal því þeir voru svo uppteknir við að “greina” leik Liverpool. Get it?

    Svo kemur nú Chelsea kallinn hann Nonni með brandara ársins. Ég er rétt að ná að stíga upp úr gólfinu eftir hláturskastið. :laugh:

    Talar fyrst um “pro” lýsendur og notar svo orðin Bjarni Fel, Gaupi og Guðjón Þórðar í næstu setningu. Ok, Guðjón veit hvað hann syngur og samþykki ég það. Bjarni Fel veit ekki hvað leikmenn í enska boltanum heita sem hafa spilað þar eftir 1980. Og það kallar þú PRO. Og svo bætir þú Gaupa við af því að hann hefur húmor!!! Varstu ekki að tala um PRO? Svo ferð þú að tala um staðreyndarvillur hjá Arnari Björns!!! Hvers lags veruleika firring er þetta hjá þér kallinn minn? Þó að Arnar kæmi með 550 staðreyndarvillur, þá væri hann samt 790 metrum á undan hinum ef um væri verið að ræða 800 metra hlaup í þekkingu á enska boltanum.

    Að lokum er ég sammála þessu með Chelsea. Ég horfi ekki lengur á Chelsea leik með íslenskum lýsendum. Vonlaust dæmi, og þó svo að þeir spili á köflum hundleiðinlega og eigi ekkert skilið út úr leikjum (eins og með okkur á sunnudaginn) þá eru þeir samt alltaf stórkostlegir.

    Mér þykir miður samt hvað Snorri og co eru dottnir ofan í þann fúla pytt sem aðrir hafi verið á kafi í. Það er að halda að það sé nóg að menn hafi birst einu sinni í Séð og Heyrt eða einhverju álíka og þá eru þeir orðnir nógu góðir til að fá í lýsingar og í sjónvarpsal til að “greina” leikina. Oj bjakk. Mér finnst jú 25.000 kallinn bara slatti þegar ég horfi á vitleysinga eins og dregnir eru í settið vera að reyna að segja alþjóð eitthvað um hvað er að gerast í leiknum.

  29. Steini, vissulega les ég þau orð sem að beind eru að mér, en samkvæmt ákveðni vitneskju, minni eigin, þá var upphafs póstur minn beindur að Einari Erni, ekki Kristjáni Atla. Þegar að Einar Örn minnist á þá “staðreynd” að lýsendurnir fjölluðu eingöngu um Liverpool, ekki Arsenal, í upphafs pistli þá máttu endilega láta mig vita, en þangað til þá skulum við láta þetta gott liggja.

    Aron, lest þú ekki það sem verið er að svara þér með?

    Held að þú ættir að láta ritara klúbbsins fara yfir þessa setningu hjá þér, hún hljómar hálf einkennilega.

  30. Sigursteinn :

    Hvenær talaði ég um að þessir 3 væru ‘pro’ ? Lestu betur takk.

    Ég sagði að þeir stæðu upp úr. Gaupi er brandarakall, Bjarni klassískur og Gaui fræðingurinn.

    Arnar er konungur staðreyndavillanna, svo einfalt er það bara.

    Man vel eftir leik Liverpool og Blackburn árið 1995 þegar Blackburn varð meistari á Anfield. Prófiði að renna spólunni í tækið ef þið hafið hana og hlustið á ‘snilldina’. Ian Pearce var Ian Andrews, Ian Rush var að spila og ég veit ekki hvað og hvað, sá leikur var ótrúlegur og er þó bara einn af mörgum. Leikur Middlesbro og Liverpool sem fór 2-1 fyrir einhverjum 10 árum síðan kannski, þegar Walsh var í marki Middlesbro og Nicky Barmby skoraði sigurmarkið strax eftir að Liverpool jafnaði í 1-1 er annar. Þar kom Arnar Björnsson með hinn ótrúlega frasa sem ég hef ekki jafnað mig enn á : “Ef þessi leikur hefði verið á Lengjunni hefði þetta verið gult spjald”. Hvað sem maðurinn meinaði með því veit ég ekki, auk þess var leikurinn á Lengjunni. Hann Arnar er kannski að rembast við að vera einhver rosakall, en það er hann ekki, ekki fyrr en hann fer að vera með staðreyndir á hreinu.

Xabi fer í eins leiks bann.

Fulham á morgun!