Undanúrslit FA Bikarsins

Í kvöld gerðu Middlesbrough og Charlton 0-0 jafntefli og þurfa því að mætast aftur til að úrskurða það hvort þeirra fer í undanúrslitin. Engu að síður verður dregið í hádeginu á morgun, og eru eftirfarandi lið í pottinum:

LIVERPOOL
Chelsea
West Ham
Charlton/M’boro

Nú spyr ég: **eiga menn sér einhverja óskamótherja?**

Ég á mér óskamótherja: Charlton. Einfaldlega af því að við höfum tapað fyrir þeim á útivelli í vetur, og svo gerðum við bara 0-0 jafntefli á Anfield þrátt fyrir ótrúlega yfirburði. Ef Rafa skuldaði Birmingham rasskell þá skuldar hann Charlton-mönnum einn slíkan líka. Mig langar í Charlton.

Auðvitað horfa menn samt til *Chelsea* – hvernig er annað hægt? Síðan Mourinho og Benítez tóku við þessum tveimur klúbbum höfum við mætt þeim *níu sinnum* á einu og hálfu ári, í þremur mismunandi keppnum! En mig langar ekki til að mæta þeim, allavega ekki strax, einfaldlega af því að mig langar í úrslitaleik og okkar menn eiga betri líkur á því gegn einu af hinum þremur liðunum. Ef við mætum Chelsea í úrslitaleiknum sjálfum mun ég ekkert óttast, heldur bara hlakka til þess leiks, en mér þætti það frekar súrt ef þau myndu mætast í undanúrslitunum.

Mig langar í Charlton. **En ykkur?**

14 Comments

  1. Jammm, sammála, vonandi verður það Charlton til að hefna fyrir ófarirnar (við höfum verið góðir í því undanfarna daga, svo sem Fulham og Birmingham).

    Vona innilega að við lendum ekki á móti Chelsea. En það er alveg ljóst að til þess að vinna þessa keppni *munum* við þurfa að vinna Chelsea, því ef þeir mæta okkur ekki í undanúrslitum, þá er ég sannfærður um að þeir klári sinn leik og fari í úrslit.

  2. Mínir óskamótherjar eru Chelsea.

    Það er alveg ljóst að til þess að vinna þennan bikar þá þurfum við að fara í gegnum þá, reyndar vildi ég ekki hafa það öðruvísi. En að fá þá í undan úrslitum er að mínu mati aðeins betra. Ef við töpum þá þurfum við ekki að horfa á þá taka við bikarnum. Það er nóg að þurfa að ganga í gegnum það einu sinni.

  3. Eitt stk. Charlton takk. Þeir eiga eitt tap inni hjá okkur, það gleymdist alveg að segja þeim það þegar liðin mættust síðast.

    Ég vill ekki fá Chelsea einu sinni enn í undanúrslitum. Eeennn það er eitthvað sem segir mér að svo verði, það er bara eitthvað svo týpískt.

  4. Chelsea og henda þeim út úr enn einni bikarkeppninni í undanúrslitum :laugh:

  5. Sammála, Charlton vil ég.

    Vil taka Chelsea í úrslitaleiknum því það yrði svo æðislegt…Þá værum við að tala um hefnd!!!

  6. Eru allir svona vissir um að Charlton vinni Boro á útivelli? Ég er ekki svo viss um það, hefði kannski verið það fyrir 2 mánuðum síðan þegar Boro var að drulla uppá bak en ekki lengur, ég vill fá West Ham og svo Chelsea í úrslitum takk 🙂

  7. Ég vildi fá chelsea á heimavelli. Skuldum þeim rasskell eftir 4 – 1 leikinn.

  8. Drauma úrslitaleikurinn væri West Ham vs Liverpool því West Ham spilar skemmtilegan fótbolta. Ég hef engan áhuga á að sjá enn einn hundleiðinlegan taktískan Liverpool vs Chelsea leik.

  9. Hafið í huga að undanúrslitaleikir í FA bikarkeppninni eru háðir á hlutlausum velli, nú til dags er það yfirleitt í Cardiff. Þannig að það þarf ekkert að pæla í heima- eða útivöllum, við verðum á hlutlausum velli hvernig sem er.

    Og ég er ekki að segja að ég vilji Charlton af því að þeir séu öruggir áfram, þvert á móti. Boro eru bikarlið og líklegri til að komast áfram á Riverside Stadium, en mig langar samt í Charlton og mun því lúmskt vona – ef við drögumst gegn þessum tveimur liðum í dag – að þeir vinni endurtekningarleikinn.

    Annars er það satt sem Einar Örn sagði; ef við ætlum að vinna þennan bikar þurfum við mjög líklega að fara í gegnum Chelsea fyrr eða síðar, þannig að þótt við lendum gegn þeim í dag er það ekkert til að panikka yfir.

    Sjáum til … ég er orðinn spenntur.

  10. Held að ég myndi vilja fá Boro eða Charlton. Held að það séu veikustu liðin af þessum liðum. Held líka að West Ham gæti átt ágætis möguleika að slá út Chelsea, þó svo að líkurnar séu ekki miklar.

    Liverpool eru búnir að yfirspila bæði Boro og Charlton í leikjum á þessu tímabili þó svo að úrslitin gefi annað í ljós. Tími til kominn að klára dæmið og sýna í eitt skipti fyrir öll muninn á stórliði og miðlungsliði

Getur Sissoko orðið einn af þeim bestu?

Everton á Anfield á morgun!