Í kvöld hefjast undanúrslit Meistaradeildarinnar með stórleik AC Milan og Barcelona á Ítalíu. Á morgun heimsækja Arsenal-menn svo spútniklið Villareal frá Spáni í hinum undanúrslitaleiknum. Þannig að í ár gætum við fengið alveg spænskan úrslitaleik, Villareal gegn Barcelona, og svo gætum við líka fengið nánast endurtekningu á úrslitaleiknum í fyrra, AC Milan gegn ensku liði sem er komið miklu lengra en búist var við í Meistaradeildinni. Í fyrra mættu AC Milan okkar mönnum í Liverpool en nú gætu það orðið Arsenal sem verða mótherjar þeirra.
Nú þegar undanúrslitin hefjast er líka annað sem situr í mér, nefnilega það að nú er ár síðan við **sigruðum Chelsea** í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Það var, fyrir utan úrslitaleikinn sjálfan, glæsilegasta frammistaða okkar manna á tímabilinu í fyrra og ég hugsa að það standi ennþá uppúr á ferli Rafael Benítez sem stjóra Liverpool, ásamt Istanbúl að sjálfsögðu.
Það vill líka svo skemmtilega til að nú á þessu ársafmæli eru okkar menn einmitt að búa sig undir annan stórleik gegn Chelsea. Í þetta sinn er það líka undanúrslitaleikur, nema hvað nú er ekki leikið heiam og heiman. Nú er leikinn einn leikur á laugardaginn næstkomandi á hlutlausum velli (Old Trafford – nær Bítlaborginni en London, en eins mikill antí-Liverpool völlur og hægt var að velja) og allt er lagt undir í þessum eina leik.
Við höfum mætt Chelsea-liðinu níu sinnum alls síðan José Mourinho og Rafael Benítez tóku við stjórn liðanna. Fjórum sinnum hefur orðið jafntefli (þó vann Chelsea einn þeirra í framlengingu) og fjórum sinnum (alltaf í deildinni) hafa Chelsea-menn haft sigur. Þessi tölfræði er klárlega þeirra megin. Okkar megin er þó að þeir hafa aldrei unnið okkur í Meistaradeildinni, þar sem okkar eini sigur gegn José Mourinho vannst fyrir ári síðan. Enska bikarkeppnin, sú sem nú er keppt í, er eina keppnin sem þeir Mourinho og Benítez hafa enn ekki mæst í með liðum sínum, þannig að úr því verður bætt um helgina. Þeir unnu í Deildarbikarnum og hafa unnið alla fjóra leikina í deildinni, en hafa aldrei unnið okkar menn í Evrópu.
Þá fannst mér einnig, þegar ég rifjaði upp sögu þessa tveggja þjálfara í dag, merkilegt að sjá að við höfum aðeins skorað þrjú mörk gegn þeim í níu leikjum (ef framlengingin í Deildarbikarnum er ekki talin með). Riise skoraði í Deildarbikarnum, García í Meistaradeildinni og svo Gerrard í deildinni í haust. Á móti hafa þeir skorað heil átta mörk gegn okkur í níu viðureignum, en þar af eru þó fjögur mörk í leiknum á Anfield í haust þar sem þeir jörðuðu okkur, 4-1.
Ég hef horft á Chelsea-liðið í síðustu tveimur leikjum aðeins öðrum augum en venjulega. Ég sá þá gegn Bolton á laugardag og svo gegn Everton í gær og hugsaði aðeins um eitt: **Hvaða veikleika í þessu liði geta okkar menn nýtt sér?**
Svarið er einfalt: **Ekki margir, en þeir eru þó þarna.**
Það augljósasta er að Petr Cech meiddist í leiknum gegn Everton í gær og varð að fara útaf. Ef hann spilar á laugardaginn gæti vel verið að hann sé ekki upp á sitt besta, en ef Carlo Cudicini kemur inn í markið gæti það haft í för með sér óöryggi í varnarlínu þeirra sem fylgir alltaf þegar lið skipta um markvörð. Þá er ég ennþá á sömu skoðun og í öllum leikjum gegn þeim í vetur; þeir Paulo Ferreira og Asier del Horno eru óstöðugir bakverðir og ef við ákveðum að spila með Harry Kewell og Steven Gerrard á köntunum ættum við að geta sótt mikið upp í gegnum bakverðina.
Hins vegar er líka að mörgu að dást við þetta Chelsea-lið þessa dagana. Þeir Didier Drogba og Frank Lampard virðast vera að detta aftur í gang á hárréttum tíma, auk þess sem endurkoma Michael Essien í liðið hefur verið mikill styrkur. Í kringum þá hafa hins vegar aðrir menn verið að missa flugið undanfarna mánuði; ég hef t.d. miklu minni áhyggjur af Arjen Robben, Joe Cole, Eiði Smára og Hernan Crespo í dag en ég hefði haft fyrir þremur mánuðum síðan.
Þeir eru einu stigi frá því að tryggja sér enska meistaratitilinn, annað árið í röð. Okkar menn eru búnir að vinna sjö deildarleiki í röð og koma því líka fullir sjálfstrausts í þennan leik.
Ég held að okkur sé óhætt að gera ráð fyrir enn einum jöfnum og spennandi leik milli þessara nýju erkifjenda. Hvernig sem fer þá verður þetta örugglega í járnum fram á síðustu mínúturnar.
Frekari upphitun kemur eftir því sem líður á vikuna.