Sumarskap

Jæja, kominn aftur í bæinn. Skellti mér norður í Höfuðstaðinn um helgina vegna einkamála og missti fyrir vikið af leiknum á sunnudag. Það var þó ekki vegna viljaskorts – hvað er málið með pöbbana á Akureyri? Mangó var allur af vilja gerður en náði ekki Liverpool-leiknum á gervihnettinum (var ekki með SkjáEnska), lokað var á Parken/Strikinu vegna einkasamkvæmis og hálfvitinn sem rekur Ali Sportbar (Góði Dátinn, fyrir ofan Sjallann) auglýsti að hann myndi sýna “annað hvort Liverpool-leikinn eða Man Utd-leikinn, eftir því hverjir verða í meirihluta á staðnum” en þegar allt kom til alls og *ein mínúta* var í leik skipti hann frá Liverpool-leiknum og yfir á United-leikinn. Ég og nokkrir aðrir áhugasamir þutum upp að barnum og spurðum hann á hverju stæði, hann leit grafalvarlegur á okkur og sagði: “Mér sýnist þetta vera mestmegnis United-aðdáendur hérna inni. Svo er ég sjálfur United-maður.” Og þar við stóð. Gaur við hliðina á mér hrópaði yfir salinn, “hann ætlar að sýna United-leikinn” og það stóðu **ALLIR NEMA TVEIR** upp … um 15 manns eða svo gengu út, tveir voru eftir inni. Hálfviti.

Þannig að ég sá ekki leikinn. Missti víst af miklu, en samt ekki. Liverpool-liðið gerði það sem þeir hafa gert oft í vetur; unnu auðveldan sigur án þess að spila neitt rosalega vel. Fowler skoraði og Cissé fór víst á kostum í þær 15 mínútur sem hann var inná skv. Chris Bascombe. Ég tek undir með Bascombe að þó ekki sé annað ætti að reynast auðvelt að selja Cissé í sumar, þar sem mörkin hans í vetur ættu að auðvelda mönnum að setja saman hörkuflotta ‘highlights’-spólu fyrir kallinn. Ímyndið ykkur að þið hafið aldrei séð Cissé spila og fengjuð í hendurnar hálftíma langa spólu með hans flottustu mörkum/augnablikum í boltanum á þessu tímabili. Mynduð þið ekki slefa yfir slíku myndbandi?

Úps. Við höfum víst gert það áður … fyrir tveimur árum.

Talandi um slúður. Það var fróðlegt að kíkja á miðlana í kvöld og spjallborðin og sjá hvað verið er að ræða. Nú þegar síðasta umferð deildarinnar er búin mega liðin á Englandi opinberlega byrja að kaupa/selja sín á milli aftur og þegar er farið að tala um ýmsa möguleika. Meðal þess sem ég hef séð nefnt á fréttayfirferð minni í kvöld er:

1. Við ætlum að kaupa Shaun Wright-Phillips á 14m punda.
2. Harry Kewell er til sölu.
3. Við ætlum að kaupa Mikel Arteta og/eða Tim Cahill af Everton.
4. Við ætlum að skipta á Fernando Morientes og Obafemi Martins hjá Inter.
5. Við ætlum að selja Scott Carson og Jerzy Dudek og hafa Chris Kirkland sem annan markvörð okkar næsta vetur.
6. Riki hjá Getafe er að koma til okkar.
7. Fabio Aurelio er að koma til okkar.
8. Andy Johnson, Darren Bent og/eða Jermain Defoe eru að koma til okkar.
9. Matthew Upson og Jermain Pennant frá botnliði Birmingham eru að koma til okkar.
10. Luis García gæti verið á leiðinni aftur til Spánar.
11. Duncan Ferguson er á lausu … 😉

Og við erum að tala um slúðurpakkann fyrir **EINN DAG** gott fólk. Ef allt það sem er talað um myndi rætast yrðum við að kaupa þrjú heil lið í sumar og selja tvö þeirra strax aftur áður en 1. september rennur upp. Slúðrið er yndislegt, og við erum ekki einu sinni byrjaðir að pæla í spútnikstjörnum HM í Þýskalandi.

Talandi um. Sven Göran Eriksson valdi í dag hópinn sinn fyrir HM og meðal þess sem kom á óvart var að þeir Jermain Defoe, Shaun Wright-Phillips og Darren Bent voru allir skildir eftir heima. Og þar sem þetta eru augljóslega allt væntanlegir leikmenn Liverpool þá er ég *brjálaður fyrir þeirra hönd*! Annars kom lítið á óvart við þennan hóp; Eriksson velur Aaron Lennon fram yfir SWP af því að Lennon hefur verið að spila betur (og miklu, miklu meira) en hann virðist líka hafa mikla trú á okkar manni, **Peter Crouch**. Ég meina, hann skilur Defoe og Bent eftir heima en velur þá Owen, Rooney, Crouch og svo unglinginn Theo Walcott hjá Arsenal sem fjóra framherja sína. Sem þýðir að:

… ef Wayne Rooney er ekki heill í tæka tíð fyrir HM er Peter Crouch fyrsti kostur inn í enska liðið …
… ef Michael Owen nær ekki að verða heill sjálfur, auk meiðsla Rooney, er Crouch *nánast sá eini* sem Englendingar eiga í hópnum …

Annars líst mér vel á Theo Walcott. Auðvitað er hann ungur og skrýtið að hann sé valinn án þess að hafa spilað leik fyrir Arsenal, en ég hef alltaf haft trú á að gefa ungum strákum séns. Eflaust var einhver þarna úti á móti því að taka táninginn Michael Owen með á HM ’98, en við munum öll hvernig það fór. Og ég er viss um að einhverjir voru mjög svo á móti því að leggja alla þessa byrði á herðar táningsins Wayne Rooney fyrir EM 2004 … en enn og aftur reyndist áhættan vera þess virði. Hvað vitum við nema að Theo Walcott verði nýstirni ársins á HM? Ég myndi allavega ekki gráta það að sjá hann skora eftir að Crouchie hefur sent hann einn í gegn með góðum skallabolta … 🙂

Annars er að sjálfsögðu einn leikur eftir, sjálfur bikarúrslitaleikurinn gegn West Ham um næstu helgi. Stórleikur þessa fáránlega langa tímabils og það er vonandi að okkar leikmenn endi tímabilið með stæl, svo að við getum brosað eyrna á milli í allt sumar.

Annars er það af þessari síðu að frétta að tölvan hans Agga framdi sjálfsmorð um helgina, ég er að fara að mála nýju íbúðina mína og Hjalti stendur í ströngu hjá þræla… nei ég meina vinnunni sinni. Og Guðfaðirinn sjálfur, Einar, er úti (nema hvað) fram að helgi þannig að það verður kannski eitthvað minna um uppfærslur fram að helginni. Vonandi verður það fyrirgefið.

Góðar stundir.

23 Comments

  1. Bara þetta. Hann var svartsýnn eftir leikinn á sunnudag en er núna bjartsýnni á að ná leiknum.

    Þetta kemur væntanlega endanlega í ljós eftir því sem líður á vikuna. Vonandi verður hann heill, þótt ég efist ekki um að Momo og Didi geta alveg tekið West Ham miðjuna og snýtt henni einir … 😉

  2. Þið fjórir fræknu pistlahöfundar síðunnar hafið það bara gott í vikunni og málið vinnuveitendurna eða hvað það er sem þið eruð að gera. Ég veit að ég met hverja einustu línu sem þið skrifið hingað mikils og skoða alltof oft á hverjum degi :blush: :biggrin:

    En hvað með orð Erikson um að Cole sé “fifth striker” ætli hann sé farinn að velta fyrir sér Gerrard vinstra megin? Ég hef annars fulla trú á því að hann eigi eftir að koma manni skemmtilega á óvart í sumar með liðsuppstillingum og verði ekki feiminn við að leyfa “minni spámönnum” að spreyta sig ef tækifærið gefst.

  3. Það er nú ekki beint hægt að bera Walcott saman við Michael Owen fyrir HM 1998. Þá hafi Owen nýlokið sinni fyrstu leiktíð í efstu deild og endað sem markahæsti maður (ásamt Sutton og Dublin). Walcott hefur einungis leikið með B deildar liði á þessari leiktíð, hefur aldrei leikið í efstu deild og hefur reyndar ekki spilað eina einustu mínútu á þessu herrans ári 2006!

    Nú er ég ekki að gera lítið úr Walcott. Ég hef aldrei séð hann spila en það virðist öllum bera saman um að hann sé hæfileikaríkur. Mér finnst samt sem áður stórfurðulegt að velja hann fram yfir menn eins og Defoe, Harewood, Ashton og þá sérstaklega Darren Bent sem er markahæsti enski leikmaður í efstu deild – Hann er ekki einu sinni á biðlista Sven Göran!!! Sá hlýtur að vera þokkalega hissa og fúll yfir þessu. Svei mér þá ef Teddy gamli Sheringham á ekki meira erindi í þennan hóp, hann er þó allavega í leikformi!

    Af fjórum framherjum í hópnum er einn á hækjum, einn nýkominn af hækjum og sá þriðji hefur enga leiki spilað í efstu deild né spilað á árinu. Aðeins Crouch er heill og í leikformi. Er furða þó manni finnist Sven Göran hafa misst vitið því mér finnst allavega ekki mikið vit í þessu!

  4. Silly Season er að detta inn og spurning hvaða leikmaður verður ekki linkaður við okkur…

    Ég bíð eftir því að Vieri verði linkaður við okkur eftir “frækið” tímabil með Monaco… hhmmm

    Annars finnst mér persónulega óskiljanlegt hvernig hægt er að velja leikmann í enska landsliðið án þess að hafa spilað EINN leik í ensku úrvalsdeildinni… ÓTRÚLEGT.

    En ég vona það besta og ef Owen og Rooney ná HM þá getur allt gerst… eitt er víst að Walcott mun ekki breyta neinu.

    Síðan styttist á FA Cup Final… uuusssss vonandi að Xabi verði með.

  5. Ég meina, það er ekki einu sinni hægt að bera þetta Walcott dæmi saman við Owen og Rooney dæmið. Þeir voru búnir að slá í gegn í Úrvalsdeildinni korn ungir og mikill spenningur í kringum þá. Þeir voru líka valdir inn í hópinn hjá Englandi talsvert áður en það kom að stórmóti, þannig að þeir kynntust öllu setup og slíku. Þetta var er bara out of the blue, simple as that. Sven er greinilega sama um þetta allt, hann ætlar að reyna einhverja sénsa, ef þeir ganga upp, þá lítur hann vel út, ef ekki, þá er hann hvort sem er hættur og þá er það bara England sem þetta bitnar á. 🙂

  6. Einhvers staðar las ég að Liverpool myndi bjóða í Nistelrooy. Þá hvíli ég enska boltann í eina leiktíð… a.m.k. í mánuð.

  7. Þar sem “silly season” er byrjað, og Aggi var að tala um að einn í enska landsliðshópnum hefði aldrei spilað leik í ensku úrvalsdeildinni datt mér í hug að einhver hefði kannski gaman af því að velta fyrir sér smá getraun um enska landsliðshópinn. Bið aðra afsökunar á að þetta tengist færslunni lítið.

    Spurning eitt.
    Tveir leikmenn í enska landsliðshópnum hafa aldrei leikið í ensku úrvalsdeildinni. Annar þeirra hefur heldur aldrei búið á Englandi. Hver er það?

    Spurning tvö.
    Einn leikmaður í enska landsliðshópnum hefur síðan hann fæddist búið samanlagt tæplega eitt ár á Englandi. Hver er það?

  8. Ég skýt á að Owen Hargreaves og Theo Walcott hafi aldrei spilað í úrvalsdeildinni og Hargreaves hafi aldrei búið í Englandi. Ég giska á að spurning 2 sé Nigel Reo Coker, hef samt ekki hugmynd um hvort það sé rétt.

  9. Bjöggi er með rétt svar við spurningu eitt.

    Hargreaves er fæddur í Kanada, sonur enskra hjóna, og flutti frá Kanada til Þýskalands þar sem hann hefur búið síðan. Hann hefur aldrei búið á Englandi.

    Svar Bjögga við spurningu tvö er hins vegar rangt.

  10. Owen Hargreaves var svarið við spurningu eitt, en er ekki svarið við spurningu tvö.

  11. Átti Owen ekki alltaf heima í Wales? Var að skoða yfir hópinn og mér fannst það eini möguleikinn í stöðunni.

  12. Benni Jón er með rétta svarið.

    Michael Owen bjó í Hawarden í norð-austur Wales (rétt hjá “landamærunum” við England og rétt hjá Liverpool) frá fæðingu og þangað til hann flutti til Madrid. Það var ekki fyrr en hann skrifaði undir hjá Newcastle að hann flutti til Englands. Hann hefur því frá fæðingu búið innan við eitt ár á Englandi þótt hann hafi verið í enska landsliðinu í langann tíma. Foreldrar hans eru reyndar báðir enskir “innflitjendur” í Wales og hann er sjálfur fæddur á Englandi (næsta sjúkrahús frá Hawarden er í Chester, Englandsmegin við “landamærin”) þannig að hann hefur aldrei verið gjaldgengur í wellska landsliðið.

  13. Þetta með Jermain Pennant held ég að sé meira en slúður. Ég fór á Villa leikinn, og á herberginu fyrir ofan mig á hótelinu var enginn annar en Jermain Pennant, daginn eftir að Birmingham féllu minnir mig. Svo þegar ég kíkti á YNWA.TV spjallið daginn eftir voru sögur um að Pennant væri í viðræðum við Liverpool…..

  14. Ég hef aldrei vitað hver er í herberginu fyrir ofan mig á hóteli. 🙂

  15. hvaða rugl er þetta með að Kewell og Garcia…. Þetta eru burðarstólpar í þessu liði, allaveganna Harry Kewell… já ég er ekki sáttur.

    Krissi

  16. Strikið/parken er “official” liverpool staðurinn á Akureyri og leikurinn var sýndur þar!!!

  17. Sko, annað hvort er ég að misskilja eitthvað eða þið. Ég gekk inn á Parken/Strikið og það stóð hvítum stöfum á skilti, **LOKAÐ VEGNA EINKASAMKVÆMIS** … eina fólkið sem var þarna sat úti á svölum og sötraði kaffi. Þannig að ég fór aftur í lyftunni niður.

    Ekki eyðileggja boltareynsluna meira fyrir mér með því að afsanna þessa trú mína. Ef þið vitið betur, viljið þið bara gera það fyrir mig að halda því fyrir ykkur? Hmmm? :confused:

Smá tölfræði yfir tímabilið

Slúðurvika