Jæja, 16-liða úrslitin hófust með háværum hvelli í dag þar sem heimamenn Þjóðverjar og Argentínumenn tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitunum, en þessar tvær þjóðir munu mætast á föstudaginn kemur.
Þjóðverjar unnu stórgóðan 2-0 sigur á Svíþjóð í leik sem var einhver mesta einstefna mótsins hingað til. Á pappírnum átti þetta að verða hörkuleikur en eftir ellefu mínútna leik var Lukas Podolski búinn að skora tvisvar, eftir þrjátíu og fimm mínútur voru Svíar orðnir einum færri og áttu aldrei séns í þessum leik. Henrik Larsson skaut yfir úr vítaspyrnu (sem var rugl dómur) í seinni hálfleik en að öðru leyti var sigur heimamanna aldrei í hættu og ef þeir geta spilað svona gegn Argentínumönnum eru þeir til alls líklegir.
Í seinni leik dagsins unnu Argentínumenn svo 2-1 sigur á Mexíkó í stórskemmtilegum leik, þar sem Maxi Rodriguez skoraði sigurmarkið í fyrri hluta framlengingar með sannkölluðu draumaskoti, eftir að Rafael Marquez hafði komið Mexíkóum yfir og Hernan Crespo jafnað á fyrstu tíu mínútum leiksins. Mexíkóar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik en í þeim seinni jafnaðist þetta aðeins út og einkenndist leikurinn yfir heildina af mikilli stöðubaráttu, mikilli refskák. En á endanum voru Argentínumenn vel að þessum sigri komnir, og Maxi Rodriguez er hetja þeirra í dag.
Sem sagt, fyrsti leikur 8-liða úrslitanna verður viðureign **ÞÝSKALANDS og ARGENTÍNU.** Það verður klárlega rosalegur slagur, tvær af stærstu knattspyrnuþjóðum allra tíma berjast um sæti í undanúrslitum keppninnar. Ég hélt ég myndi aldrei segja eftirfarandi orð, en Þjóðverjar eru með eitt skemmtilegasta liðið í þessari keppni og Argentínumenn hafa verið að spila frábærlega og virðast með ofursterkt lið sem er líklegt til að fara alla leið. Það verður flugeldasýning á föstudaginn!
Á morgun mæta Englendingar svo Ekvador í fyrri leik dagsins og svo mætast Hollendingar og Portúgalir í leik sem er algjörlega ómögulegt að spá fyrir um. Mótið verður meira spennandi með hverjum deginum, enda er það yndislegt að horfa á HM! 🙂
átti Heinze ekki að fá rauða í lok fyrri hálfleiks þegar hann braut á Mexíkóanum sem var að sleppa innfyrir? Held að það hefði breytt leiknum. 🙁 🙁
Um leið og Argentínumenn voru jú heppnir á köflum í fyrri hálfleik, þá fannst mér t.d. markið sem var dæmt af Messi vera löglegt. Það er hægt að tína út atriði … en af þessum brottrekstrum sem hafa verið í keppninni, þá virðist liðsmunurinn ekki hafa verið ráðandi faktor. Maður veit aldrei hvað hefði gerst.
Tel úrslitin sanngjörn í dag og Argentína-Mexíkó var frábær leikur. Ég tek undir með Kristjáni, að Þjóðverjarnir eru með eitt skemmtilegasta liðið í keppninni, og þetta er stórbreyting frá því sem áður var – miklu meiri gleði! Mér datt bara aldrei í hug frá því að ég fór að fylgjast með HM (man eftir 1978, 7 ára pollinn…) að Þjóðverjar gætu verið svona skemmtilegir. Þeir hafa svo oft verið rútínulegir og leiðinlegir, en það var unun að sjá þá – ég er líka stórhissa á því að segja þetta 🙂
Argentína-Þýskaland verður rosalegur!!!! leikur. Úff, það verður sárt að sjá á eftir annarri hvorri þjóðinni en ég held að það lið sem sigrar í þeirri viðureign fari alla leið í úrslitin.
Djö… er fótbolti skemmtilegur!
Ég vonast eftir sigri Englendinga og Portúgal á morgun.
Flestir virðast spá Hollendingum sigri gegn Portúgal sem ég skil ekki alveg. Hollendingar hafa alls ekki verið sannfærandi og eru ekki að spila neitt sérstaklega skemmtilegan bolta. Svo má minna á það að Scolari hefur unnið alla leiki á HM sem hann hefur stjórnað liði í og Hollendingar hafa ekki sýnt mér neitt sem fær mig að halda að sigurgöngu Scolari ljúki á morgun.
En ég óska Portúgal góðs gengis aðallega því ég þoli ekki Arjen Robben og hans “soloferil” með liði Hollendinga!
Smá spá
Undanúrslitin:
Þýskaland – Ástralía
England – Spánn (finnst þetta “the riskiest bet” hjá mér út af því að maður veit aldrei hvort Spánverjarnir séu nægir menn í það að komast í undanúrslit eftir 56 ára fjarveru þó þeir séu líklega sterkara og samheldnara lið en over-hype-uðu Brassarnir.
Þýskaland vinnur keppnina eftir sigur á Spáni eða kannski Brasilíu (smá varkærni). Englengdingarnir tapa báðum seinustu leikjum sínum og Ástralir lenda í 3. sæti.
Annars er ég að fara á Holland – Portúgal og legg af stað eftir 4 tíma til Keflavíkur. Vona að þetta verkfall tefji ferðina ekki mikið. Annars spái ég lærisveinum Scolari sigri í leiknum. Þá geta Portúgal og England mæst aftur í 8. liða úrslitum (einsog á EM).