Og þar með er þátttöku leikmanna Liverpool á HM lokið, eftir að Englendingar töpuðu í vító fyrir Portúgal í dag. Peter Crouch spilaði síðasta hálftímann og framlengingu og var margfalt nær því að skapa mark eða skora sjálfur heldur en Wayne Rooney hafði verið fyrsta klukkutímann. Steven Gerrard lék allan leikinn og lét verja hjá sér spyrnu í vító, á meðan Jamie Carragher var settur inná á 117. mínútu til þess eins að geta tekið víti, en hann lét Ricardo líka verja frá sér, sem og Chelsea-maðurinn Frank Lampard sem fullkomnaði martraðarmót sitt með sínu víti.
Ég var tilbúinn með reiðipistil um Sven Göran Eriksson, sem lætur nú af störfum sem landsliðsþjálfari Englendinga eftir sex ár sem hafa lofað miklu en skilað nákvæmlega engu. Ég hef verið ósammála flestu sem hann hefur gert í þessari keppni og fundist nær ótrúlegt að, eftir sex ár skuli hann enn hafa verið að prófa sig áfram með leikaðferðir í 16-liða úrslitum þessarar keppni. Á endanum var það þó ekki honum að kenna að þeir duttu út í dag.
Vafalítið munu ensku blöðin fjalla um þá Lampard, Gerrard og Carragher sem létu allir Ricardo verja frá sér víti í bráðabananum. Þeir verða eflaust málaðir sem skúrkar dagsins og talað verður um að þeir hafi brugðist trausti ensku þjóðarinnar. Svo munu þeir eflaust eftir ár leika í auglýsingu fyrir Pizza Hut með bréfpoka á höfðum sínum, eins og Stuart Pearce og Gareth Southgate gerðu eftir EM fyrir 10 árum síðan.
En ég er nánast fullviss um að Englendingar munu hlífa manninum sem var virkilega sökudólgurinn í dag. Því þótt hann hafi fengið erfitt hlutverk, einn frammi, og jafnvel þótt Englendingar hafi verið með fín tök á þessum leik, þá er alveg ljóst í mínum huga (og Einars, sem ég ræddi við eftir leikinn og orð hans sannfærðu mig um sök málsins) að ungstirnið/ofurhetjan/undrabarnið WAYNE ROONEY skeit á sig í dag. Upp á bak!
Hvað var hann að hugsa? Að traðka á fjölskyldudjásnum Ricardo Carvalho, eftir að búið var að dæma aukaspyrnu á þann síðarnefnda? Og að innsigla svo brottvísunina með því að hrinda Cristiano Ronaldo, sem nota bene kom aðvífandi bara til þess eins að reyna að mana Rooney upp í frekari vitleysu? Það var mikið traust lagt á Rooney af hálfu ensku þjóðarinnar í ár, og jafnvel enn meira eftir að Owen haltraði meiddur af velli gegn Svíum, en í stað þess að leyfa Peter Crouch, sem hafði ekki brugðist trausti Englendinga svo mikið sem einu sinni, að axla hluta af ábyrgðinni og um leið gera Rooney auðveldara fyrir þarna frammi, þá tók Sven Göran þann stóra bara út úr liðinu algjörlega í síðustu tveimur leikjum og lét þetta allt saman standa og falla með Rooney.
Og á daginn kom að Wonder-Wayne stóð engan veginn undir þessari pressu, þessu áliti ensku þjóðarinnar eða því trausti sem hafði verið lagt á hann. Jú, hann var ekki í fullu leikformi í þessari keppni en hann var heldur ekki nægilega klókur leikmaður til að spila einn frammi, og á endanum hljóp skapið með hann í gönur.
Englendingar eru dottnir úr leik. Allt í lagi með það, mér hefur yfirleitt verið nokk sama um þá. En Gerrard og Carragher klúðruðu vítaspyrnum og verða örugglega hundeltir af fjölmiðlum fyrir vikið, sem er neikvætt fyrir okkur Púllarana. Það neikvæðasta af öllu saman þó er það að Portúgal – og þá sérstaklega Cristiano Ronaldo – eru komnir í undanúrslit. Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur, þurfi einhver staðfestingu á því eftir að hafa horft á þessa leiksýningu í dag: PORTÚGALIR ERU LEIÐINLEGASTA FOKKING FÓTBOLTALIÐ Í HEIMINUM!
Cristiano Ronaldo. Luis Figo. Simao Sabrosa. Maniche. Pedro Pauleta. Petit. Tiago Mendes. Helder Postiga. Hugo Viana. Og til að toppa þetta er Luis Boa Morte, einn mesti leikari í enska boltanum, á bekknum hjá þeim.
Er til leiðinlegra fótboltalið í heiminum? Ég held ekki. Og alveg burtséð frá því hvort Frakkar eða Brasilíumenn vinna í kvöld, þá mun ég styðja fyllilega við bakið á sigurliðinu úr þeim leik gegn Portúgal í undanúrslitum. Mér er sama hverjir vinna HM í knattspyrnu, svo lengi sem það er ekki mesta leikaralið í heiminum, Portúgal. Þeir einfaldlega mega ekki vinna þessa keppni!
En já, þið lásuð það fyrst hér: Rooney var óheppinn í dag en Gerrard, Carragher og Lampard ættu að skammast sín. Þannig mun enska pressan fjalla um þennan leik, því að Wayne Rooney gerir aldrei mistök. Er það nokkuð?!?
Það tók ekki langan tíma. Trúður mótsins, Sven Göran Eriksson, tekur af skarið með ummælum sem er hægt að túlka á tvo vegu:
1. Hann minnist varla á Rooney, enda var þetta ekkert honum að kenna.
2. “Við æfðum vítaspyrnur svoooooo vel, ég veit ekki hvað þeir voru að hugsa! Hvernig gat þetta klikkað?!?”
Bjáni. Steve McClaren er kannski ekki besti þjálfari í heimi, en hann getur ekki gert verr en SGE með þennan mannskap!
Ég skal bjóða mig fram í það að kenna Englendingum að taka vítaspyrnur fyrir næstu keppni. Fyrir sirka milljón pund væri ég tilbúinn að lofa því að margbæta nýtingu á vítaspyrnum.
Grunn þemað í þeirri kennslu væri eftirfarandi:
* Það eru mun fleiri vítaspyrnur, sem eru varðar, heldur en þær sem fara yfir markið.
* Markmenn verja nánast aldrei spyrnur, sem eru meira en 1 metra frá jörðinni.
* Ef þú skýtur föstu skoti neðarlega eru 50% líkur á að markvörðurinn verji spyrnuna, nema þú náir að hitta boltanum alveg upp við stöng.
* Ef þú skýtur boltanum hins vegar hátt, þá ver markvörðurinn nánast aldrei.
* Líkurnar á því að markvörður verji ef þú skýtur lágt á markið eru umtalsvert meiri en líkurnar á því að þú skjótir yfir þegar þú miðar fyrir ofan miðju á markinu.
Að þessu gefnu, AF HVERJU Í ANDSKOTANUM SKUTU ALLIR ENGLENDINGAR LÁGUM SKOTUM? Var það ekki tekið fram á þessum víta æfingum Englendinga að þú ÁTT að skjóta hátt á markið til að skora úr víti?
Æ, þetta fer bara afskaplega mikið í taugarnar á mér. Gerrard og Lampard voru ekki óheppnir í dag. Þeir voru einfaldlega heimskir. Samt ekki alveg jafn heimskir og Wayne Rooney og Sven Göran. Þeir voru í algjörum sérflokki.
Reyndi ekki Beckham t.d. að skjóta hátt á markið í fyrstu spyrnu gegn Portúgal á EM ´2004? Þú sást nú hvernig það endaði! :rolleyes:
Sama hvað Englendingar æfa vítaspyrnur mikið fyrir leiki þá verða þeir alltaf hörmulegir í þeim. Enskir leikmenn hafa flestir nánast enga tækni í fótunum og þola aldrei neina pressu.
Þetta lið er alltaf sami brandarinn hverja stórkeppnina á fætur annarri og vinna auðvitað aldrei neitt með svona heiladauðan þjálfara sem þorir aldrei að taka áhættur, hvað þá ofmetið undrabarn sem kiknar undan pressunni og lætur reka sig útaf.
>Reyndi ekki Beckham t.d. að skjóta hátt á markið í fyrstu spyrnu gegn Portúgal á EM ´2004? Þú sást nú hvernig það endaði! 🙂
Jú, en hversu margar vítaspyrnur fara yfir versus það hversu margar eru varðar. Þetta er í raun grundvöllurinn fyrir því af hverju menn taka niðri. Það eru nefnilega allir svo hræddir við að skjóta upp í stúku. Mun þægilegra að láta verja frá sér heldur en að lenda í því að skjóta uppí stúku. Ég var akkúrat að minnast á Beckham spyrnuna þegar ég talaði við Kristján Atla um þetta mál.
Fyrir hvern bolta, sem fer svona uppí stúku, þá er haugur af boltum, sem markmenn verja.
>Enskir leikmenn hafa flestir nánast enga tækni í fótunum
Þetta hefur ekkert með tækni að gera. Það getur hvaða knattspyrnumaður, sem hefur æft í meira en tvö ár, sett boltann ofarlega í markið.
Wayne Rooney er frábær fótboltamaður. Vissulega svolítið ofmetinn en engu að síður hörku snjall leikmaður.
Hann er hinsvegar algjör vitleysingur. Sem hann sannaði enn og aftur í dag.
Ég vil á engann hátt verja Rooney (enda heimskan uppmáluð þegar hann hrinti Ronaldo) en mér sýndist takkinn hjá honum festast (eða flækjast) í stuttbuxunum hjá Carvalio og fóturinn á honum lenda þess vegna svona óheppilega…
Það sjónarhorn sem mér sýndist ég sjá það frá var aftur á móti aldrei endursýnt þannig að ég get ekki verið viss…
Ég hef aldrei sett neitt á þessa síðu sem er reyndar alveg frábær síða. Ég get samt ekki orða bundist þegar mennn eru svona rosalega blindir og sjá ekki nema helm. af fótboltaleiknum. England var vissulega óheppið að tapa og það var ferlegt. Rooney átti ekki að fá rauða en tapið er Sven að kenna – hann gat unnið þetta með þennan mannskap með réttri uppsetningu. Síðan var ekkert sárara en hörmuleg víti hjá okkar mönnum sem við ættum að skammast okkur fyrir. Ég hefði misst mig ef þetta hefðu verið ManUtd menn. Það þýðir ekki alltaf að kenna öðrum um og þarna réðist þetta á Liv. mönnum og þeir klikkuðu hrikalega!
Jákvæða við þennan leik er kannski það að Ronaldo er mjög líklega hættur að spila með ManUtd.
skeit upp á bak? Er Gillzenegger byrjaður að skrifa á síðuna 😉 Get annars alveg tekið undir að Portúgalir eru ekki þeir skemmtilegustu þessi misserin en þeir eru samt alls ekki leiðinlegasta lið í heimi – það er liðið sem þeir voru að spila við.
Ekki veit ég til þess að Gillz hafi fundið uppá orðtakinu að skíta uppá bak.
Ég veit ekki hvað menn halda eiginleg en Sven a.k.a. Mr. Burns klúðraði mótinu fyrir enskum. Ef einhver skeit upp á bak þá var það hann.
Það er fáránlegt hvernig hann spilaði úr þessu vali sínu sem og leikaðferðum og uppstillingu. Þeir voru GRÍSARAR að ná svona langt og áttu ekki meira skilið.
Hinsvegar er ég hundsvekktur með að Carra og Gerrard skuli ekki hafa skorað úr vítunum en við vitum jú allir að ef þeir hefðu verið í rauðum búningi þá hefði þetta farið öðruvísi. :tongue:
Stuðningsmenn Englands geta ekki horfst í augu við þær staðreyndir að þeir eru ekki með nægilega gott lið til þess að fara alla leið í svona keppni. Þess vegna reyna menn alltaf að finna einhverja sökudólga sem varð þess valdandi að liðið datt út. 1998 var það Beckham, 2000 var það Phil Neville sem gaf víti (reyndar var það heimskulegt), 2002 var það David Seaman sem var orðinn of gamall til að standa í markinu, 2004 var það dómarinn fyrir að dæma “löglegt” mark af Sol Campbell, og núna er það Rooney sem þarf að taka á sig sökina.
England getur unnið ALLT, það er bara alltaf einhver sem klúðrar því. :laugh:
P.S. Ég hata Portúgal
Ítalía eru með leiðinlegasta liðið á HM og það ekki í fyrsta sinn á stórmóti…
Vonbrigði hm2006 er Rooney… Fáviti!
Ég var á ættarmóti í dag og þar var glatt á hjalla. Auðvitað var fylgst með leiknum og um 50-60 manns gerðu það. Meirihlutinn hélt með Englendingum, veit ekki af hverju. En ég veit að ég hélt með Englendingum og fannst yfirhöfuð úrslit þessa dags hræðileg. Ég sannarlega bjóst við Englandi og Brasilíu í undanúrslitin, en svona fór þetta.
Það er eflaust endalaust hægt að finna sökudólga, en ég vil ekki kenna vítaspyrnunum um. Fyrir mér eru það Sven Göran og Rooney sem klúðruðu þessu! Leikskipulag Svens var ömurlegt, enska liðið spilaði betur þegar Beckham var farinn af velli … af hverju var Lennon ekki notaður meira? Og af hverju að notast við Rooney einan frammi? Skap Rooneys er þekkt og hann var aldrei í takt við liðið. Ein vonbrigðin enn eru Lampard, sem skaut manna mest í keppninni en skoraði ekkert.
Af þessum fjórum liðum sem núna eru eftir, þá mun ég halda með Þýskalandi og vona sannarlega að þeir hampi bikarnum 9. júlí. After all, þá fæddist ég í Þýskalandi 🙂
Ég hef sjaldan eða aldrei æst mig eins mikið yfir einum landsleik á HM eins og þessum leik….
Mig langaði að hverfa af yfirborði jarðar þegar vítaspyrnukeppnin var búin..þvílíkur bömmer.
Ég held að þetta sé hugarfarið..Englendingar voru bara gjörsamlega fölir í framan af stressi..og þegar ég hugsa um muninn á þjóðverjum og Englendingum í sínum vítaspyrnukeppnum þá kemur aðeins eitt í huga mér…Ég þrái ekkert heitar en Jurgen Klingsman sem þjálfara fyrir Englendinga…Sven hefur ekki verið maðurinn fyrir þetta lið og sá sem er að taka við…omg..ég hef enga trú á honum. Ég vona að þjóðverjar verði heimsmeistar svo Klingsman vanti nýja áskorun eftir mótið.
Og…..Ég hataði leikaraskap í fótbolta fyrir þennan leik en núna hef ég megna ímugust á þeim leikmönnum sem stunda þennan óþvera…sama í hvað liði þeir eru. Ég hata Portúgalska landsliðið af ákafa eftir þennan leik … þvílíkir hörmungas vælukjóar… Ronaldo fór í pirrurnar á mér áður en núna er þetta bara trúður í mínum augum og ekkert annað. Frakkland verður bara að vinna þessa vitleysinga.