Í dag tilkynnti Steve McClaren, nýbakaður þjálfari enska landsliðsins, að John Terry fyrirliði Chelsea sé nýr fyrirliði landsliðsins. Okkar maður, Steven Gerrard, þótti koma sterklega til greina en hefur verið gerður að vara-fyrirliða landsliðsins. Gerrard var fljótur að óska Terry til hamingju.
Að mínu mati skipti eiginlega engu máli hvor þeirra fékk “djobbið” að endingu. Breska pressan, eins og henni einni er lagið, hefur gert fáránlega mikið úr “kapphlaupinu um armbandið” síðustu vikurnar og það var orðið hálf hjákátlegt á þriðjudag að lesa fyrirsögnina “Gerrard tekur forystu í fyrirliðakapphlaupinu” eftir að McClaren hitti hann og aðra Púllara á Melwood-æfingasvæðinu um helgina.
John Terry er að mínu mati frábær fyrirliði; hann er þegar orðinn andlegur leiðtogi Chelsea-liðsins á vellinum og maður sá það skýrt á HM í knattspyrnu í sumar að það er hann en ekki Rio Ferdinand eða Gary Neville sem stjórna ensku vörninni. Það er hann sem gargar á menn og lætur menn hafa það óþvegið þegar það er við hæfi, ekki þeir hinir.
Ef það er einhver ástæða fyrir því að ég hefði viljað sjá Gerrard vera gerðan fyrirliða væri það helst sú að Terry er þegar orðinn leiðtogi í vörn liðsins, en mér finnst vanta skýra valdaskiptingu á miðjunni. Lampard og Gerrard hafa núna í þrjú ár rembst hlið við hlið sem jafningjar og einfaldlega ná ekki að vinna saman. Þá hefur Eriksson einnig prófað að láta Gerrard sitja fyrir aftan Lampard sem varnarsinnaðan miðjumann, og það virkaði ekki heldur. Að mínu mati er ljóst að það er kominn tími á að Gerrard fái það frelsi á ensku miðjunni sem hann á skilið, og hefði fyrirliðabandið getað verið fyrsti liður í því að hann taki yfir spilamennsku liðsins á sama hátt og hann gerir hjá Liverpool. Rétt eins og hjá Liverpool gæti ég ímyndað mér framtíðarmiðju Englands þar sem Gerrard situr á toppi þriggja manna miðju, með Lampard og Carrick fyrir aftan sig.
Þetta gæti enn gerst svo sem og það verður vissulega athyglisvert að sjá hvernig McClaren leysir þetta undarlega Gerrard/Lampard vandamál, en á meðan finnst mér auðvelt að játa það að John Terry er vissulega vel að fyrirliðabandinu kominn. Hann er nýr fyrirliði og ég vona, Englendinga vegna, að þeir geti fylkt liði að baki sínum nýju leiðtogum, McClaren og Terry. Engu að síður er mér alveg ljóst að það skiptir engu þótt Gvuð Almáttugur þjálfi þetta lið og Jesú Kristur sé fyrirliði þess, ef menn finna ekki leið til að leyfa Steven Gerrard að njóta sín á miðjunni mun þetta lið halda áfram að valda vonbrigðum.
Ég er svo ánægður með þetta að það hálfa væri nóg. Get hreinlega ekki hugsað þá hugsun til enda að horfa á blaðamannafundi hjá Liverpool þar sem breska pressan er ávallt að spyrja hann að einhverju tengdu landsliðinu. Nóg er það nú samt. Nei, held að hann eigi eftir að verða miklu fókusaðri á það sem skiptir máli með því að vera ekki í miðjum þessum enska sirkusi, þ.e. Liverpool FC.
Þetta er að mínu mati arfavitlaus ákvörðun hjá McClaren. Ég ákvað að fá pistlahöfun the Guardian til að setja niður [hugsanir mínar um þetta mál](http://football.guardian.co.uk/comment/story/0,,1841849,00.html).