Nýr penni á Liverpool blogginu

Jæja, það er með mikilli ánægju, sem við kynnum núna til leiks nýjan penna á Liverpool blogginu. Flestir, sem hafa fylgst með starfi Liverpool klúbbsins hérna á Íslandi kannast vel við hann, en hann hefur verið formaður klúbbsins undanfarin ár. Einnig hefur hann verið duglegur við að tjá skoðanir sínar inná Liverpool.is og hérna á Liverpool blogginu. Við bjóðum Sigurstein Brynjólfsson velkomin í hópinn! Ég leyfi honum að kynna sjálfan sig:


Ég heiti Sigursteinn Brynjólfsson og hef verið mikill stuðningsmaður Liverpool FC frá því ég man fyrst eftir mér. Það ku hafa verið í kringum 4 ára aldurinn sem ég límdist fyrir framan sjónvarpið á laugardögum og hreifst mjög svo af þessu nafni á félaginu (mér er allavega tjáð það af móður minni sem ávallt hefur verið algjörlega laus við fótboltaáhuga). Liverpool FC hefur allar götur síðan, verið stór partur af mínu lífi. Það er í raun merkilegt hvað knattspyrnufélag úti í heimi getur haft mikil áhrif á manneskjur svona langt í burtu. Núna eru sem sagt liðin 30 ár og áhuginn er akkúrat ekkert að minnka, hann virðist hreinlega aukast með hverju árinu sem líðu.

Það eru margir hápunktar hjá mér þegar kemur að atburðum tengdum Liverpool. Suma hverja upplifði maður á pöbbnum í góðra félaga hópi, en aðra á vellinum. Auðvitað standa leikir meira upp úr þegar maður er staddur í eigin persónu á sjálfum vellinum. Það er orðið erfitt að gera upp á milli einstaka leikja, þegar leikir sem maður hefur farið á standa einhversstaðar í kringum fimmta tuginn. Það er þó alveg á tæru að það er ekkert, og mun væntanlega ekkert, toppa það að hafa upplifað Istanbul ævintýrið. Það næsta sem kemst því var ferðin í vor til Cardiff. En það eru svo mörg augnablik og leikir í viðbót sem vert er að minnast á, þannig að ég ætla að sleppa því svo menn sofni hreinlega ekki við þennan lestur.

Það er einnig erfitt að skýra frá því hvaða leikmenn Liverpool FC í gegnum tíðina hafa verið í mestu uppáhaldi. Þrír skipa þó ávallt stóran sess í huga mínum. Ég hef aldrei farið leynt með það hversu mikill aðdáandi Robbie Fowler ég er. Hann hafði, hefur og mun alltaf eiga vissan sess í mínum huga. Það er heldur aldrei hægt að tala um Liverpool og goðsagnir, án þess að minnast á menn eins og King Kenny Dalglish og Ian Rush.

Mikið af mínum tíma undanfarin 8 ár, hafa farið í störf fyrir Liverpoolklúbbinn á Íslandi. Fyrstu mánuðina eftir að vefsíðan liverpool.is fór í loftið, sá ég um nánast allt sem sneri að fréttaflutningi á síðunni. Núna, eftir að hafa lagt stjórnarstörf fyrir klúbbinn á hilluna, hefur aukist sá tími sem ég hef aflögu, og því þurfti maður að finna sér vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Er til betri mögulegur staður en Liverpoolbloggið? Held ekki. Áfram munu væntanlega slæðast inn fréttir frá mér á liverpool.is, en núna mun þessi síða verða minn vettvangur til að koma skoðunum mínum á framfæri, og vil ég þakka þeim góðu mönnum sem stýra þessari síðu fyrir að bjóða mér þetta tækifæri. Eitt er víst, ég mun ekki liggja á skoðunum mínum þegar kemur að Liverpool FC.

15 Comments

  1. Frábærar fréttir, velkomin til starfa og takk fyrir að taka þetta að þér, okkur til skemmtunar.

  2. Ohh, er þessi kominn, dísús!!! …. :laugh: :tongue:

    Ég segji nú bara svona. Hjartanlega til hamingju með þetta Steini minn og ég er ekki í nokkrum vafa um að þú eigir eftir að skrifa ófáa áhugaverða pistlana. Hlakka til að lesa skrifin þín.

  3. Velkominn til starfa SSteinn. Ég hef verið mikill aðdáandi skrifa þinna á Liverpool.is og hlakka til að lesa meira eftir á Liverpool blogginu.

    Steven Geir Helgason

  4. Þetta er hin fínasta viðbót við annars frábæra síðu. SSteinn á trúlega eftir að koma með marga skemmtilega pistla og skapa lifandi og skemmtilegar umræður. Það er ánægjulegt að sjá bloggið lokka til sín jafn fínann penna og Steina.

    Það verður gaman að fylgjast með í vetur á besta bloggi landsins.

  5. Velkominn til starfa, það er frábært að hafa alla þessa góðu penna á einum stað. 🙂

  6. Mig langar til að bjóða nýjan aldursforseta síðunnar hjartanlega velkominn. :laugh: Það er svo sannarlega fengur í manni eins og Steina á þessa bloggsíðu og ég hlakka mikið til að byrja að hnakkrífast við hann í ummælakerfunum þegar hann skrifar fyrsta umdeilda pistilinn hér inn.

    Vertu velkominn. 🙂

  7. velkominn… alltaf gott að fá fleirri hliðar á góðum málum 🙂

  8. velkominn … fleiri pennar, öflugri síða, meira liverpool, betra samfélag.

    kv ..

  9. Glæsilegt mál. Þetta er orðinn snilldarsíða og ég er farinn að koma hingað nokkrum sinnum á dag. Good Job og velkominn SSteinn.

  10. Vertu velkominn til starfa, SSteinn. Frábær penni í viðbót við frábæra síðu. Hlakka til komandi veturs!!

  11. Ánægjulegt að fá fleiri penna á þessa góðu síðu en ég vona að SSteinn tali ekki niður til þeirra sem hafa aðrar skoðanir en hann og að hann skilji að skoðanir hans eru ekki endilega þær einu réttu þó svo að hann hafi starfað mikið í hinum íslenska Liverpoolklúbb.

  12. Þakka góð orð í minn garð, mun gera mitt allra besta til að fylgja í fótspor þeirra ofurpenna sem hér hafa ritað pistla hingað til.

    Best að hætta þessu blaðri og reyna að setja fyrsta pistilinn niður á blað :biggrin:

Fellur Watford? Hverjir koma mest á óvart? Hverjir vinna?

Kuyt loksins að koma? (uppfært)