Lána, selja, gefa?

Þá er komið að því að setja saman fyrsta formlega pistilinn sinn á Liverpoolblogginu. Ég hef lengi haft áhuga á að setjast niður og skrifa pistil er varðar leikmenn okkar sem mikið hefur verið talað um að eigi litla sem enga framtíð hjá okkur. Menn hafa mikið verið að spá í því af hverju við erum að lána leikmenn okkar, í stað þess hreinlega að selja þá. Ætli það séu ekki ákveðnar ástæður fyrir því. Þeir vita það væntanlega einna best sem um þessi mál sjá, en engu að síður hefur maður átt spjall við umboðsmenn sem hafa sagt að oft fái liðin ekki minni pening í hendurnar út úr lánssamningunum, sér í lagi þegar gengur illa að selja leikmennina fyrir þá upphæð sem menn telja vera réttmæta. Stundum er þó um að ræða að félögin láni leikmennina bara til að þeir fái meira að spila og öðlist reynslu, eins og í tilviki Scott Carson. Oftast þegar um lán er að ræða, þá tekur hitt félagið yfir launapakka leikmannsins. Oft er einnig um að ræða eingreiðslu fyrir þjónustu hans, sem bætist við um leið og skrifað er undir lánssamninginn.

Ef félög ákveða að selja leikmann, og hann hefur sjálfur ekki farið fram á sölu, þá á hann rétt á greiðslu frá félaginu sem er oft prósenta af samningi hans eða söluverði. Þarna getur verið um umtalsverðar upphæðir að ræða. Sé leikmaður samningsbundinn, þá getur hann hreinlega farið fram á að samningur hans verði greiddur upp og oftast þurfa þessir aðilar að komast að samkomulagi um uppgreiðslu samningsins. Leikmenn með háan samning sem ekkert annað lið vill taka yfir, þurfa því oftast að semja við leikmanninn um eingreiðslu upp á ákveðinn hluta af samningnum. Það getur því verið meiri sparnaður í að losa hann af launaskrá og borga honum slatta af milljónum, heldur en að sitja uppi með hann eða þurfa að borga prósentur af því með því að lána hann til annars liðs. Lið hafa nefnilega stundum þurft að borga áfram hluta launa manna til að losna við þá, sbr. Robbie Fowler og Leeds. Man.City buðu honum ákveðna upphæð á viku og hann var hreinlega ekki tilbúinn að taka á sig launalækkun. Leeds ákváðu því að borga mismuninn sjálfir vikulega.

Félög sem minna fjármagn hafa á milli handanna eiga oft erfiðara með að kaupa leikmennina beint í stað þess að fá þá lánaða. Þau þurfa að greiða leikmanninum svokallað ?signing on fee? ásamt því að þurfa að borga kaupverðið. Það er því oft þannig að bæði lið græða þegar leikmaður er lánaður í stað þess að um sé að ræða endanleg kaup. Leikmaðurinn græðir kannski minnst á þessu (fjárhagslega) en oft er ávinningur hans helst fólginn í því að hann fær aukin tækifæri á að sanna sig og hækka þar með virði sitt þegar kemur að næstu samningaviðræðum (hvort sem það er núverandi félag eða eitthvað allt annað félag). Þetta hefur því gert það að verkum að þessir lánssamningar hafa aukist mjög mikið síðustu árin. Margir hafa furðað sig á þessu, en ef menn spá í málunum til mergjar, þá er þetta fullkomlega skiljanlegt. En snúum okkur að þessum leikmönnum sem virðast alltaf vera á leiðinni í burtu. Ég tek það fram að þetta er aðeins mitt álit á þessu, það getur vel verið að þetta sé bara algjörlega út í loftið:

Jerzy Dudek: Kappinn sá er orðinn goðsögn í Liverpoolborg (eftir Istanbul frammistöðuna) og á væntanlega ekki mikið eftir af ferlinum. Ég er á því að hann sé afar ánægður þar sem hann er, búinn að koma sér vel fyrir, er á góðum launum og hjá einum stærsta klúbbi í veröldinni. Ég sé fyrir mér að hann gæti alveg sætt sig við að vera númer tvö um stund og klára samning sinn við liðið. Betri varamarkvörð er varla hægt að fá.

Niðurstaða: 1-2 ár í viðbót hjá okkur.

Jan Kromkamp: Þessi strákur er eiginlega mesta spurningamerkið af þeim öllum. Alveg klárt í mínum huga að þetta er góður leikmaður, en maður hefur heyrt að hann sé mikill einfari og með heimþrá. Félagi hans, Dirk Kuyt, er nú á leiðinni til liðsins og ætti hann þá að fá góðan félagsskap. Ég er á því að við fáum ekki mikið betra ?back-up? fyrir Steve Finnan heldur en þennan hollenska varnarmann. Ef hann nær að aðlagast á þessu tímabili, þá vænti ég þess að hann verði áfram í nokkur ár og berjist fyrir sínu sæti í liðinu.

Niðurstaða: Fer ekki.

Salif Diao: Það er búið að reyna allt til að losa okkur við þennan kappa. Fjárhagslega hefur það hreinlega ekki verið viturlegt hingað til og því hefur lánssamningur verið skynsamlegasta lausnin til þessa. Vandamálið er að nú eru menn orðnir hræddir við að fá hann að láni vegna þess hversu oft hann meiðist. Nú á hann eitt ár eftir af samningi sínum við liðið og því fer þessi martröð að enda. Ég efast um að hann verði leystur undan samningi úr þessu, en það verður vafalaust reynt að finna félag til að taka yfir launin hans, að hluta til allavega.

Niðurstaða: Fer endanlega næsta sumar, en allt verður reynt til að koma honum út á lánssamning.

Florent Sinama-Pongolle: Þetta er strákur með mikla hæfileika en líklega alls ekki í framtíðarplönum Rafa Benítez. Ég tel að hann verði boðinn liðum til sölu fljótlega (líklega nú þegar búið að því), enda einn af fáum leikmönnum sem við eigum sem er ágætis söluvara sem hægt er að taka góðan pening inn á (af þeim sem Rafa er til í að láta). Ef hann fer ekki núna á næstu dögum, finnst mér líklegt að hann fari út á lánssamning, með fyrirfram ákveðið kaupverð.

Niðurstaða: Verður seldur.

Anthony Le Tallec: Hinn ?demanturinn? og sá sem kom með ranga hugarfarið. Alveg ljóst að dagar hans eru löngu taldir og hefur liðið reynt að losa sig við hann mjög lengi. Bara spurning hvernig gengur að koma honum út.

Niðurstaða: Fer á næstu dögum.

Neil Mellor: Sættir hann sig við að vera framherji númer 8 eða 9 í röðinni? Það er ekki hægt að tala lengur um að vera efnilegur. Aðeins erfið hnémeiðsli hafa komið í veg fyrir að hann hafi verið seldur og ef hann kemst í form fyrir janúar, þá mun hann verða seldur þá. Ef ekki, þá næsta vor.

Niðurstaða: Hans Liverpool dagar eru taldir.

Darren Potter: Enn einn sem enga framtíð á hjá félaginu. Ekki fæst mikill peningur fyrir hann, en það er hægt að auka þó nokkuð innkomuna fyrir hann með því að senda hann út á lánssamningi. Ef hann stendur sig vel, þá mun verða hægt að skoða það að selja hann. Það fer því alveg eftir honum sjálfum hvort hann finnur sér framtíðarfélag í vetur.

Niðurstaða: Seldur næsta sumar.

Djibril Cissé: Allir þekkja hans sögu. Er fótbrotinn og mun ekki eiga afturkvæmt til Liverpool. Er í miklum metum í Frakklandi og ef Marseille nýta sér ekki forkaupsréttinn á honum, þá mun eitthvað annað franskt lið gera það.

Niðurstaða: Hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Liverpool.

Chris Kirkland: Sama má segja um Chris og Djibril. Spilaði sinn fyrsta landsleik í gær og eru fullt af liðum sem væru til í að kaupa hann. Liverpool hefur haft meira upp úr því að lána hann hingað til, en með góðu tímabili gæti hann hækkað sig í verði og gert sjálfum sér og okkur stóran greiða.

Niðurstaða: Verður seldur næsta sumar.

5 Comments

  1. Góð grein. Ég hef oft pælt í þessu sjálfur og þótt maður upplifi þessi vonbrigði á hverju sumri þegar maður sér haug af leikmönnum á frjálsri sölu og/eða lánaða frá félaginu en sáráfáa selda fyrir beinharðan pening þá hef ég ekki æst mig yfir því, því ég skil hvaðan þetta kemur.

    Diao er gott dæmi, því við höfum lánað hann nokkrum sinnum. Hann er víst á góðum launum hjá okkur og það fælir minni liðin frá að þurfa að mæta launagreiðslum hans, á meðan hann hefur því miður ekki náð að spila nógu reglulega til að laða að sér stærri klúbbana. Diouf var þó alltaf ómeiddur þannig að Bolton hrifust af honum á þeirra láni. Ef Diao hefði getað spilað allt tímabilið með Portsmouth fyrir rúmu ári hefði hann kannski verið seldur þangað.

    Annars held ég að flestir þessara leikmanna sem þú telur upp fari frá liðinu annað hvort í sumar eða í janúar. Kromkamp gæti verið kyrr fram í janúar eða næsta sumar, sennilega á meðan Rafa safnar pening og orku í að reyna aftur að kaupa Daniel Alves, og Dudek gæti klárað þetta tímabil með okkur. En hinir held ég að fari pottþétt, það sé bara spurning um hvenær en ekki hvort.

  2. Flottur pistill en ég efa það að Dudek vilji vera númer tvö. Hann á kannski 2-3 ár eftir af ferlinum og þá vill hann auðvitað fá að spila reglulega. Spá því að hann fari um jólin eða næsta vor þegar Carson snýr aftur úr láni.

    Hvað Salif Diao varðar þá ættum við bara að gefa hann til góðs málefnis eins til Liverpool borgar þar sem hann getur aðstoðað við að gera borgina fallegri með kúst í annari, þar allavega er hægt að nota ann eitthvað :laugh:

    Pongolle væri gott að losna við fyrir 3 millur plús.

  3. ég veit ekkert um fótbolta en ég held að Dudek eigi meira eftir af ferlinum en 2-3 ár.

  4. Frábær grein, áhugaverð og fræðandi. Til hamingju Liverpool-blogg með nýjan góðan penna.

Kuyt kominn!!

Liverpool: væntingar fyrir tímabilið