Sheffield United á morgun

Þá er komið að því. Fyrsti deildarleikurinn á tímabilinu 2006-2007. Liverpool og nýliðar Sheffield United munu ríða á vaðið og opna tímabilið formlega og má með sanni segja að þetta sé athyglisverður leikur. Að mínum dómi er ávallt verst að mæta nýliðum í byrjun tímabilsins. Þá koma þeir til leiks fullir eldmóðs og staðráðnir í að sýna sig í sínum fyrsta Úrvalsdeildarleik. Ég held því að þetta verði ekkert ?Walk in the Park? fyrir okkar menn. Það er ekki þar með sagt að hægt sé að réttlæta fyrir fram eitthvað annað en sigur. Sigur er það eina sem til greina kemur í þessum opnunarleik. Leikmenn Liverpool verða frá fyrstu mínútu að sýna það að þeir séu klárir í slaginn og ætli sér að berjast til þrautar um enska titilinn. Það er einungis hægt að gera með sigri í fyrsta leik. Auðvitað er titilbaráttan ekkert úr sögunni þó leikurinn vinnist ekki, en það er þó á tæru að brekkan mun verða hærri og erfiðari og einnig koma þá fram þau skilaboð að menn geti komið í leikina gegn okkur með það í huga að ná stigum. Það viljum við ekki.

En það er vægt til orða tekið að segja að maður sé orðinn spenntur. Hvað Liverpool liðið varðar þá er ég á því að við höfum ekki verið með jafn sterkan hóp síðan 1989. Meira að segja þá, þá þurfti ekki jafn mikla breidd og í dag. Það eru 2 landsliðsmenn nánast um hverja stöðu á vellinum. Það hefur marg oft verið farið yfir það hvað þessir nýju leikmenn okkar geta fært okkur. Það fyrsta er hraði. Okkur hefur skort mikinn hraða í sóknarleikinn undanfarið, og þá er ég ekki að tala um það hvort menn geti hlaupið 100 metrana undir einhverjum sekúndufjölda. Það er svo sjaldan sem menn taka svona langa spretti í leik, þetta eru styttri sprettir og aðal málið er það hversu fljótir menn eru með boltann. Djibril Cissé er einn fljótasti maðurinn sem hefur spilað á Englandi. Það nýttist bara stundum, því hann var ekki sérlega fljótur að rekja boltann. Gárungarnir segja til dæmis um Craig Bellamy að hann sé fljótari að hlaupa með boltann heldur en án hans.

En hvernig lið er þetta Sheffield United lið? Verð að viðurkenna það að ég veit nú ekki mikið um þá. Veit að stjórinn þeirra er mjög litríkur, þó vægt sé tekið til orða. Liðið hefur einkennst af mikilli baráttu og hafa þeir verið nálægt því að fara upp nokkrum sinnum áður en þeim tókst það loks í vor. Liðið hefur keypt hvorki meira né minna en 9 leikmenn í sumar. Margir refir sem eru með reynslu úr Úrvalsdeildinni, svo sem Geoff Horsfield (Reyndar lánuðu hann út strax aftur), Rob Hulse, David Sommeil og Li Tie. Þar fyrir utan hafa þeir bætt við sig mönnum úr neðri deildunum eins og Claude Davis og Chris Lucketti frá Preston, Ian Bennett frá Leeds, Mikele Leigertwood frá Crystal Palace og Christian Nade frá Troyes. Fyrir í liðinu er svo hinn frægi Ade Akinbiyi og hinn stórskemmtilegi Paul Ifill. Talsvert mun svo mæða á þeim Michael Tonge, Keith Gillespy og Phil Jagielka. Í vörninni eru svo tveir jaxlar sem vonandi koma til með að eiga í erfiðleikum með okkar hröðu menn, en þar eru þeir David Unsworth og Craig Short.

Eitt af því sem verður ákaflega erfitt að gera á þessu tímabili og það er að reyna að ráða í það fyrirfram hvernig Rafa Benítez komi til með að stilla upp liðinu. Svo mikil breidd er orðin í hópum að það er orðinn nánast ógjörningur að hitta á rétt lið. Það breytir þó engu um það að flestir munu halda áfram að spá og reyna að giska á rétt lið. Ég er þar engin undantekning og ég reikna með liðinu svona:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Sissoko ? Gerrard – Zenden

Crouch – Bellamy

Hyypia meiddist víst eitthvað í landsleik í vikunni og Agger stóð sig vel gegn Chelsea, þannig að ég held að hann fái sénsinn áfram. Finnan er víst eitthvað tæpur og ef hann nær því ekki, þá kemur Kromkamp inn fyrir hann. Xabi hefur líka verið eitthvað tæpur með meiðsli og ég held að Rafa taki enga sénsa með hann í þessum leik. Ætli ég spái ekki að Dudek, Kromkamp, Alonso, Gonzalez og Garcia myndi svo bekkinn hjá okkur. Hugsið ykkur að ef þetta verður svona, þá eru eftirtaldir menn fyrir utan hópinn: Hyypia, Paletta, Aurelio, Kewell, Fowler, Kuyt, Warnock og Pongolle (og auðvitað Salif Diao líka 🙂 ).

Hvernig fer svo? Ég ætla að gerast svo kaldur að spá 0-2 sigri okkar manna. Crouch er sjóðheitur þessa dagana og svo setur Bellamy fyrsta deildarmark sitt fyrir sitt heittelskaða félag. Leikurinn hefst klukkan 11:45 í fyrramálið og verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu. Hver verður fyrstur til að skora mark í Úrvalsdeildinni á þessu tímabili? Byrjum þetta af krafti og gefum tóninn fyrir það sem koma skal.

Áfram Liverpool

15 Comments

  1. Ég held nú að García, Aurelio og Gonzalez séu allir á undan Zenden í goggunarröðinni á vinstri kantinn. Svo hlýtur hann að hafa einn pjúra sóknarmann á bekknum, Fowler eða Kuyt.

    Þetta verður gaman! Biðin loks á enda! :biggrin:

  2. ég ætla að tippa á að Garcia fái að byrja. Ég alla vegana vona ég það.

  3. Bolo verður ekki á vinstri kantinum. Gonzalez eða Aurelio myndi ég halda.

  4. Já, gæti verið rétt hjá ykkur með Bolo. Enda eins og ég sagði, afar erfitt að ráða í þetta. Það sem lá að baki þessu hjá mér er að hann hefur verið að nota Bolo mjög mikið, hvort sem hann verður á miðjunni og Gerrard á kantinum (vinstra megin) eða öfugt, þá held ég að Rafa komi til með að nota hann í leiknum.

    Held hreinlega að hann vilji ekki henda Speedie beint út í djúpu, heldur noti hann sem option líkt og hann gerði gegn Haifa (bara fyrr jafnvel ef ekki gengur vel). Varðandi framherjastöðurnar, þá tók ég Luis út bara vegna þess að Bellamy og Crouch virtust vera að ná vel saman sem skilaði sér í marki gegn Chelsea.

    Rafa hefur nefninlega sagt að hann muni fara með varkárni með þessa stráka sem hafa ekki spilað á Englandi.

    Svo getur þetta líka verið allt öðruvísi eins og gegn Chelsea :biggrin:

  5. Ég held að hann komi til með að spila 4-5-1 í þessum fyrsta leik, ef Xabi er heill heilsu, með Gonzalez og Pennant á köntunum og Crouch frammi.

    Andstæðingarnir pakka væntanlega í vörn til að ná sínum fyrstu stigum og því vænlegra að fara upp kantanna en beint upp miðjuna. Með Sissoko á miðjunni getur Gerrard svo notið sín en frekar í sókninni.

  6. Ég er pissa á mig úr spenningi og væntingum fyrir þetta tímabil! Þvílíkt lið, þvílíkur mannskapur, þvílíkur þjálfari og þvílíkir stuðningsmen, meistaraformúla!

  7. Ég er að hugsa um að gerast svo grófur og spá 0:3 fyrir okkar mönnum. Sheffield mun jú koma grimmt af ákafa inn í keppnina, en það eigum við eftir að gera líka. Spennan er í hámarki og að öllu jöfnu er þetta hópur hjá okkur sem ætti að “rústa” þessu liði. En fyrir sakir spennunnar, þá munu þessi mörk koma seint. Bellamy fyrst, svo Crouch og Gerrard neglir góðu langskoti niður við hægri stöngina – óverjandi algjörlega á 89. mínútu.

    Ég er ekki alveg að pissa á mig, en ég er spenntur 🙂 Og það að gera væntingar um 1.-2. sætið í deildinni er ekkert óraunhæft – við erum með mannskapinn og þjálfarann og áhorfendur og stuðningsmennina. Ég tel okkur hafa hjartað, það mun fleyta okkur langt!

  8. Úff, rétt um 14 klukkustundir í fyrsta leik! Ég get varla beðið … þetta verður svakalegt!

    Ég spái 2-0 sigri fyrir okkar mönnum, eins og Sigursteinn, en ég er hreinlega hneykslaður á því að það skuli enginn spá því að Momo skori á morgun! Hafið þið enga trú á The Boss?!? 😉

  9. Sheff U – Liverpool 0:2 Bellamy og Gonzalez skora. Bæði mörk verða skoruð í seinni hálfleik, Bellamy á 50. – 52. og Speedy á 77. – 80.

  10. Ekki það besta að fá nýliðana í fyrsta leik. Þeir mæta sjálfsagt dýrvitlausir til að sanna tilverurétt sinn. Ef allt er eðlilegt vinnum við þetta með 2 mörkum en held þó að þetta gæti orðið basl og spái þessu jafntefli 1-1. Gerrard jafnar eftir að SU komast óvænt yfir í upphafi síðari hálfleiks.

    Það eru þó nákvæmlega svona leikir sem sýna hversu tilbúnir okkar menn eru í alvöru atlögu að titlinum. Útileikir gegn liðum sem eflaust pakka í vörn.

    Koma svo Liverpool gerum þetta að öðrum ógleymanlegum Rafa Benitez vetri.

  11. Sammála Kristinn með að þessir leikir reyna virkilega á hvort liðið okkar sé tilbúið í alvöruna, við viljum engin jafntefli í þessum leikjum sem reynast síðan dýrkeypt þegar mótið er gert upp í lokin!

    0-2 Bellamy(54) og Gerrard(86).

  12. Já það styttist í þetta og sammála SSteinn að þetta verður alls ekki auðveldur leikur. Hins vegar reikna ég með sigri okkar, 0-2 eða 1-3 er eitthvað sem mér dettur í hug.

    Vona að Fowler fái sæti á bekknum, spilaði víst fantavel í æfingaleik í vikunni.

    Ég vil helst ekki sjá Zenden á kantinum, hann fer svo oft út úr stöðunni. Aurelio eða Gonzalez hljóta að vera á undan. En annars rétt að það er hrikalega erfitt að segja til um hvernig liðið mun verða hjá Rafa í vetur. Margir möguleikar og flestir góðir.

  13. Jæja drengir og stúlkur þá er það að skella á.
    Fínn póstur BTW. :biggrin:
    En ég spái erfiðum leik sem við vinnum á endanum 1-0

  14. Byrjunarliðið…?

    Reina
    Kromkamp
    Carragher
    Hyypia
    Riise
    Gerrard
    Sissoko
    Zenden
    Aurelio
    Fowler
    Bellamy

  15. “Ekki það besta að fá nýliðana í fyrsta leik. Þeir mæta sjálfsagt dýrvitlausir til að sanna tilverurétt sinn. Ef allt er eðlilegt vinnum við þetta með 2 mörkum en held þó að þetta gæti orðið basl og spái þessu jafntefli 1-1. Gerrard jafnar eftir að SU komast óvænt yfir í upphafi síðari hálfleiks.”

    Spáði þessu í gær, maður ætti kannksi að fara að tippa ?

Liverpool: væntingar fyrir tímabilið

Sheffield United 1-1 Liverpool