Mikilvægi undirbúnings

Það er ekki oft sem maður er hreinlega andlaus þegar kemur að skrifum um Liverpool FC. Þegar það gerist, þá er það nánast undantekningalaust á þeim tímum sem þessi “æðislegu” landsleikjahlé eru. Það er hreinlega ekkert að gerast. Jú, leikmannaglugginn lokaðist og aðal spennan var fólgin í því hversu mikið af “deadwood” (eins og það er kallað) við næðum að losa út. Ágætis árangur þar, þó ekki hafi allt tekist sem skyldi. Ekki nóg með að maður sé búinn að vera í algjöru Liverpool svelti, heldur hefur þessi tími ekki hjálpað liðinu heldur.

Hversu mikið eða lítið menn dýrka Rafa Benítez, þá held ég að allir þeir sem eitthvað vit hafa á hans starfsaðferðum, viðurkenni það að hans helsti styrkleiki er sá að hann er mjög taktískur í hugsun. Hann leggur gríðarlega mikið upp úr því að grandskoða mótherjana og koma svo inn ákveðnum skilaboðum hjá sínum mönnum til að reyna sem best að eiga svör við öllu því sem mótherjinn reynir. Taktík á æfingavellinum er allsráðandi 2-3 daga fyrir leiki. Vitaskuld tekst það ekki alveg alltaf, en við höfum greinilega séð mikla breytingu á liðinu eftir því sem hann fær lengri tíma með liðinu. Núna fer að ljúka einu af þessum marg umræddur landsleikjahléum og hvað ætli Rafa fái langan tíma til að undirbúa lið sitt undir einn mikilvægasta leik tímabilsins? Það er heill EINN DAGUR. Hvers vegna í ósköpunum voru þessir ******** landsleikir ekki leiknir á þriðjudegi? Fyrri landsleikirnir fóru fram á laugardegi, hvers vegna er verið að bíða með þá fram á miðvikudag? Þetta gerir það að verkum að landsliðsmennirnir eru að snúa tilbaka á fimmtudagskvöldi. Spila á miðvikudagskvöldi, ferðast heim á fimmtudegi, fá einn föstudag til undirbúnings og svo leikur klukkan 12:45 á laugardegi (11:45 að íslenskum tíma). Þetta er bara akkúrat engin tími og greinilegt að það eru landsliðin sem ganga fyrir hjá UEFA og FIFA og verð ég að viðurkenna það að það fer alveg hreint óþyrmilega í taugarnar á mér.

Ekki skilja þetta blogg sem svo að ég sé að reyna að finna einhverja fyrirfram afsökun fyrir slökum úrslitum gegn þeim bláu á laugardaginn. Síður en svo. Allt annað en sigur okkar manna er úr myndinni. Það að gera jafntefli við Everton kemur með sömu tilfinningu hjá mér eins og þegar liðið tapar fyrir öðrum liðum. Sigur er það eina sem kemur til greina og það er ekkert til í þessum heimi sem afsakar tap gegn þeim. Þetta landsleikjarugl er bara svo fáránlegt í boltanum í dag að það hálfa væri nóg. Ég meina, menn eru varla búnir að taka upp úr töskunum eftir HM.

Vonandi að Rafa nái að koma sem mestu til skila til okkar manna fyrir leikinn og svo byrjað að undirbúa næsta leik strax seinnipart laugardags.

8 Comments

  1. Frábær síða, vildi að það væri einhver Manu maður sem vildi gera sambærilega síðu.
    En hvað er máli með þetta landsleikjavæl hjá ykkur? Í guðanna bænum hættið þessu, það sama gengur yfir öll lið. Fyrir utan það að landsleikir eru góð skemmtun, að fylgjast með íslenska liðinu standa sig vel er frábært.
    Allavega, þetta væl hérna er komið út fyrir öll velsæmismörk.

  2. Ég held að við séum aðallega að kvarta yfir leiðindum. Það er þó ágætt í landsleikjahléum þegar að Ísland er að keppa alvöru leiki, sem gerir þetta hlé aðeins bærilegra.

    En að halda að þetta lendi jafnt á öllum liðum er fásinna. Þetta lendir t.a.m. mun verr á Liverpool en Everton, einfaldlega útaf fjölda landsliðsmanna hjá Liverpool.

  3. Já þessi hlé eru þreytt. Ég mundi vilja hafa það aðeins seinna. Núna vill maður bara svo ólmur sjá liðið sitt spila að biðin minnir á aðventuna þegar maður var átta ára. Annars er ég sammála Einari að þetta eru bara smá leiðindi og væri lífið nú einn dans á rósum ef þetta væri manns helsta vandamál..

  4. Ég tek undir með Einari að það munar miklu að íslenska landsliðið sé að spila þessa dagana. Leikurinn gegn N-Írum og svo Danaleikurinn í kvöld lina þjáningarnar eitthvað aðeins.

    Mér persónulega er slétt sama hvort það eru fleiri landsliðsmenn eða færri í Liverpool eða andstæðingunum um næstu helgi. Það er ekki málið að þetta sé eitthvað ósanngjarnt gagnvart stóru liðunum, að mínu mati. Þetta er bara ósanngjarnt gagnvart klúbbunum almennt, því jafnvel þótt eitthvað lið í Úrvalsdeildinni hafi ekki einn einasta landsliðsmann á sínum höndum þá væri viðkomandi lið samt búið að þurfa að þola tveggja vikna stopp á tímabilinu sínu. Í ANNAÐ SINN Á INNAN VIÐ MÁNUÐI, og það rétt rúmum mánuði eftir að HM lauk!

    Það er það sem ég hef út á að setja. Það er ekkert annað en yfirgangur og frekja hjá FIFA og undirsamböndum þess að heimta TVÖ landsleikjahlé í ágústmánuði. Ekkert nema frekja og yfirgangur.

    En já, á meðan maður lætur yfir sig ganga hugsar maður bara til íslenska landsliðsins. Spái okkur 3-0 sigri gegn Dönum í kvöld … :tongue:

  5. Held þú ættir að lesa færsluna aðeins betur Snorri. Þar er ég t.d. að tala um tímasetninguna á leikjunum fyrst þetta “blessaða” landsleikjahlé er sett inn á svona heimskulegum tíma (að mínum dómi). EPL setur þennan Merseyside Derby á í hádeginu á laugardegi, það er einn dagur sem leikmenn ná með liðum sínum til undirbúnings. Landsliðin fá sína menn 5 dögum fyrir landsleik til æfinga.

    Eins og Kristján kemur inná, þá er þetta ANNAÐ landsleikjahléið á þessu tímabili og liðin eru búin að spila heila 2-3 leiki í deildinni. HM er rétt ný búið.

    Annars var þetta landsleikja “væl” bara svona almenn leiðindi. Ég er t.d. afskaplega lítið spenntur yfir þessum landsleikjum öllum og geri ég mér fulla grein fyrir því að það geta verið menn þarna úti sem hafa virkilega gaman að þeim, menn eins og þú. Það er bara gott mál, þér finnst þetta skemmtilegt, mér finnst þetta óskemmtilegt. Þetta er blogg, og þegar menn blogga, þá eru menn yfirleitt að lýsa sínum skoðunum, ekki satt? Þannig að ég skil ekki af hverju þú ert að biðja menn að hætta þessu “væli”. Farðu bara og horfðu á þína landsleiki og hafðu gaman af, ég ætla mér að “væla” þangað til deildin byrjar á ný 😉

  6. Heyr heyr Sigursteinn, ég ætla að “væla” með þér því að þetta nær ekki nokkuri átt liðið aðeins búið að spila 2 leiki í deildinni og svo svona leiðinda gúrkutíð.
    Hjartanlega sammála þér með það að leika seinni landsleikina á þriðjudegi, gefur leikmönnum meira frí, sem minnkar líkur á meiðslum og þjálfara meiri tíma í undirbúning.
    Annars hefur Diao haft nógan tíma í taktískar æfingar. :biggrin: :biggrin2:

  7. veit nú ekki afhverju en ég finn það allsvakalega á mér að fowler byrji inná um helgina og eigi eftir að gera aðdáendur everton brjálaða :biggrin2:

  8. Tók kannski fullhart til orða, þetta er auðvitað bara skoðun hjá þér og alls ekkert væl.
    Ekkert mál, þú þjáist af fótboltaskorti, en þetta er bara hluti af boltanum, gerir leiktíðina ekki alveg slétta og fellda, að liðin fái ekki alltaf nákvæmlega sama undirbúning og fullkomin undirbúning. Já, erfiður leikur hjá þínum mönnum á dagskránni, en fjandinn hafi það þetta munu öll aðalliðin þurfa að díla við oft og líka þegar meistaradeildin byrjar aftur. Og jú, þegar allt kemur til alls er þetta hálfgerður væll í þér fyrir hönd þinna manna, hvað þeir eiga nú bágt 😉

Chelsea “fjölskyldan”

McFadden = Gerrard