Kuyt meiðist

Yndislegt. Eins og við séum ekki búnir að væla nóg yfir þriðja landsleikjahléinu á tveimur mánuðum á þessari síðu, þá gerðist í gær það sem við stuðningsmenn félagsliða óttumst alltaf þegar landsliðin leika: Dirk Kuyt meiddist í leik Hollands gegn Búlgaríu í gær.

Samkvæmt fregnum þá lenti hann illa á ökklanum sem bognaði undir hann og þurfti að fara strax útaf. Marco Van Basten, landsliðsþjálfari Hollendinga, er vonlítill um að hann verði orðinn heill fyrir leik Hollendinga gegn Albaníu á miðvikudag (ekki það að þeir þurfi á honum að halda í þeim leik, ætti að vera auðveldur sigur) en það sem verra er fyrir okkur Púllara er að hann er víst ekki öruggur um að vera orðinn heill um næstu helgi, þegar okkar menn mæta Blackburn í deildinni á Anfield.

Án þess að ég nenni að eyða fleiri orðum í yfirgang landsliðanna þegar kemur að notkun leikmanna, þá er þetta bara enn eitt dæmið í langri röð dæma þar sem illa er farið með félagsliðin. Eitt skýrasta dæmið um slíka misnotkun á stöðu sinni er mál Michael Owen, sem meiddist illa á HM í sumar eftir að hafa misst úr hálft ár með félagsliði sínu vegna meiðsla. Meiðsli hans í sumar eru svo alvarleg að hann verður sennilega ekkert með Newcastle í allan vetur og þurfti að berjast til að bjarga ferli sínum með skurðaðgerðum í Bandaríkjunum.

Fengu Newcastle einhverja sárabót fyrir þennan leikmann, sem kostaði þá átján milljónir punda fyrir ári síðan og átti að byggja allt liðið í kringum, en þeir þurfa nú að vera án í a.m.k. eitt og hálft ár þökk sé HM í knattspyrnu? Nei, þeir fá enga sárabót frá enska knattspyrnusambandinu né UEFA. G14, samtök félagsliða í Evrópu, hefur þegar lýst því yfir að þeir muni styðja Newcastle í viðleitni sinni til að fá sárabætur fyrir, og er það vel að mínu mati.

Kuyt er þó ekki alvarlega meiddur, en það er sama. Einn leikur er einum leik of mikið og Liverpool þurfa að borga honum laun á meðan. Það jákvæðasta sem ég sé við gærdaginn sem Púllari er það að Steven Gerrard skuli hafa fengið gult spjald í leik gegn Makedónum. Hann verður í banni á miðvikudag og mun því sennilega ekkert meiðast, sem betur fer. Maður er orðinn skíthræddur um leikmennina í hvert sinn sem landsliðin leika.

19 Comments

  1. Meiðsli Kuyt hafa ljósa punkta:
    -Kannski fær Crouch nú sætið í byrjunarliðinu sem hann fékk ekki í síðasta leik, en átti að fá.
    -Kannski fær Robbie Fowler að koma inn á og spreyta sig í næsta leik.

    Þar sem þetta eru ekki talin mjög alvarleg meiðsl, er engin ástæða til að kvarta undan þeim.

  2. Kristján ertu ekki svolítið tvöfaldur í roðinu, gangvart leikmönnunum? Væri ekki bara best að leikmenn Liverpool tækju sig saman og hættu að gefa kost á sér með landsliðum sínum? Ég get nú ekki glaðst yfir þessu spjaldi sem Gerrard fékk. Ég vona alltaf að Liverpool leikmönnunum gangi sem best með landsliðum sínum. En vissulega eru leikirnir of margir. Mér finnst álagið á bestu leikmönnum heimsins vera gríðarlegt. Margir eru að leika hátt í 100 leiki á ári með félags- og landsliðum.

  3. Af hverju er Kristján tvöfaldur í roðinu gagnvart leikmönnum? Get nú bara ómögulega lesið það út úr skrifum hans.

    Ég myndi persónulega ekki gráta neitt úr mér augun þótt landsleikir almennt yrðu lagðir á hilluna. Ég get ekki heldur séð af hverju við getum ekki kvartað yfir meiðslum Kuyt, eins og Guðmundur talar um.

    Sem sagt, ég er hæstánægður með spjaldið hjá Gerrard, hann fær þar með dýrmætan tíma til að koma sér í sem best stand fyrir Liverpool. Það væri gott ef Liverpool landsliðsmenn yrðu bara dæmdir í ótímabundið bann í landsleikjum :rolleyes:

  4. hmm ef á að leggja landsleiki á hilluna þá verður ekkert HM á 4 ára fresti, vilja menn það virkilega? Vissulega er slæmt að Kuyt hafi meiðst en þetta er nú ástæðan að við höfum stóran hóp svo núna fær Fowlerinn kannski tækifæri 🙂

  5. Kannski er Gerrard bara sáttur við þetta spjald? Annað les maður reyndar í fjölmiðlum. Það að segja að þetta spjald sé bara jákvætt lýsir að mínu mati vanvirðingu í garð leikmannsins. Og það stendur þarna skýrum stöfum; “Það jákvæðasta sem ég sé við gærdaginn sem Púllari er það að Steven Gerrard skuli hafa fengið gult spjald í leik gegn Makedónum”, þó að SSteinn geti ómögulega lesið það.

    Ég reyndar skil alveg afstöðu ykkar, en ég kýs að standa með leikmönnunum sjálfum,,, og legg ekki samasem merki með því að leikbann Gerrards þýði betri frammistöðu með Liverpool í næsta leik.

    Varðandi meiðsli Kuyt sé ég auðvitað ekkert jákvætt, en það er lítið við þessum landsleikjahléum að segja. Flest allir leikmenn leika af fúsum og frjálsum vilja við þjóð sína og það finnst mér alveg í lagi að virða. Annað er vanvirðing í garð leikmanna.

    Svo ber auðvitað að virða að margir hlakka til þessara landsleikja, þó ég sé reyndar í þeim hóp að finnast þeir flestir frekar óspennandi.

  6. Hvað segiði strákar, eigum við að leggja niður landsleiki eða hætta að senda bestu leikmennina í þá ?? Á ég að trúa því að þið hafið ekki gaman af að horfa á landsleiki ?? HM, EM og allt það ?? Einhvernvegin á ég nú bágt með að trúa því.

    Meiðsli eru óhjákvæmilegur fylgifiskur fótboltans og ástæðan fyrir því að menn vilja hafa stóran hóp er til að geta brugðist við meiðslum. Menn meiðast jú líka í leikjum og jafnvel á æfingum með sínum félagsliðum þannig að það er ekki hægt að klína þessu öllu landsleiki. Of mikið álag, ókei eigum við þá ekki að hætta að senda lið í deildarbikarinn og önnur álíka leiðindi ?

    Vissulega er svekkjandi að menn meiðist en svona er þetta bara og persónulega finnst mér doldið langsótt að ætla að halda mönnum frá því að spila fyrir land sitt og þjóð og ég er alveg 110% viss um að það er enginn eins fúll yfir að geta ekki spilað næsta landsleik fyrir þjóð sína eins og Steven Gerrard.

  7. Ég er ekkert tvöfaldur, langt því frá. Ég styð landsliðin og ég skil vel að leikmennirnir skuli vilja spila fyrir þjóð sína, sé ekkert að því, en það réttlætir ekki að knattspyrnusambönd stærri landanna skuli skíta uppí kokið á félagsliðum sínum, sem ljá þeim leikmenn sem þau hafa eytt í sumum tilfellum milljörðum króna í.

    Í mér, eins og flestum öðrum knattspyrnuunnendum, býr tvenns konar aðdáandi:

    1. Ég held með FH á Íslandi af því að ég bý í Hafnarfirði, ólst hér upp og spilaði með FH sem ungur polli. Þá held ég með Liverpool og hef gert alla ævi af því að (a) pabbi hélt með Liverpool og ég er því alinn upp við það og (b) þeir spila skemmtilega knattspyrnu.

    2. Hin hliðin er sú sem snýr að landsliðum. Að mínu mati er ekkert um neitt að velja hér. Ég er Íslendingur, því styð ég íslenska landsliðið. Ég hef hitt Íslendinga sem segjast vera alveg sama um landsliðið okkar en þykjast vera eldheitir stuðningsmenn Ítalíu, Brasilíu eða Englands eða eitthvað álíka. Það viðhorf skil ég ekki.

    Þannig að, hvað snýr að Liverpool þá er Steven Gerrard (svo ég taki hann sem dæmi) einn af mínum allra uppáhalds leikmönnum og mín hamingja frá einni viku til þeirrar næstu er bókstaflega háð því að hann spili vel. En hvað snýr að landsliðum er mér slétt sama hvernig Gerrard og hans landsliði gengur. Gæti ekki verið meira sama. Það eina sem ég hef áhuga á varðandi Liverpool-leikmenn er það að þeir snúi ekki til baka til félagsliðsins síns, sem ég lifi fyrir, með meiðsli eða ónýtt sjálfstraust. Kuyt snýr til baka meiddur = slæmt fyrir Liverpool. Gerrard fær spjald og missir úr leik fyrir England = gott fyrir Liverpool. Hvorugt þessara tengist landsliðinu sem ég held með, því íslenska.

    Að sama skapi mætti segja að mér hafi verið slétt sama um það hvernig Eiður Smári stóð sig hjá Chelsea. Mér stóð á sama, að öllu leyti nema því að ég vildi ekki sjá hann meiðast með þeim og missa fyrir vikið úr landsleiki. Ef hann lék illa og Chelsea töpuðu gat ég glaðst, þar sem Chelsea eru keppinautar Liverpool, en ef hann meiddist varð ég fúll því hann er fyrirliðinn okkar og við eigum að styðja hann með landsliðinu, burtséð frá því hvaða liði við höldum með í félagsliðakeppnum.

    Sjáið bara stuðningsmenn Man U – sem við höfum gagnrýnt oft hér. Þeir áttuðu sig á því sem flestir Englendingar skilja ekki, að það er munur á landsliði og félagsliði. Þessir sömu menn og blótuðu og bölsótuðust útí Cristiano Ronaldo fyrir að fiska Wayne Rooney útaf í leik Portúgals og Englands í sumar á HM gátu samt sem áður klappað fyrir honum og stutt við bakið á honum þegar hann hóf leik með Man U í haust, enda vissu menn þar á bæ að þetta tvennt á lítið sem ekkert skylt.

  8. “Flest allir leikmenn leika af fúsum og frjálsum vilja FYRIR þjóð sína og það finnst mér alveg í lagi að virða.” Átti að þetta að vera.

    Svo er finnst mér alveg viðeigandi að minna á að helstu keppinautar okkar eru líka með alla sína bestu menn í landsleikjum,, þannig að það er ekkert á Liverpool hallað frekar en Arsenal, M.Utd eða Chelsea í þessum efnum. Og mögulega myndu einhverjir glotta út í annað ef John Terry eða Wayne Rooney fótbrotnaði í landsleik.

    Reyndar finnst mér alveg nóg komið af þessu landsleikjavæli hérna á síðunni. Sem mér finnst reyndar alveg frábær í alla staði, og enda eruð þið líklega bestu Liverpool pennar landsins.

  9. Gott og vel en talandi um gildi þess að leikmenn snúi ekki til baka með ónýtt sjálfstraut. Því ber þá að fagna þessu leikbanni? Gerrard snýr til baka hundfúll vegna ömurlegra úrslita gegn Makidóníu og leikbannsins. Myndi Gerrard ekki snúa til baka með eflt sjálfstraust ef hann t.d. skoraði sigurmarkið gegn Króötum? Og varðandi meiðsli þá gæti Gerrard líka meiðst á æfingu með Liverpool á miðvikudaginn, þó að líkurnar séu auðvitað mun meiri á að hann meiðist í alvöru landsleik. Og þrátt fyrir gallana má líka finna sitthvað jákvætt varðandi landsleikjahlé.

    Vissulega er þetta sterkur punktur hjá þér Kristján varðandi Ronaldo. Ekki er maður að vonast eftir stórleik frá Garcia og Alonso gegn Íslendingum.

    Það eina sem maður getur gert er að vona það besta. En mér finnst bara engin ástæða að fagna því að okkar maður, Gerrard, skuli vera dæmdur í leikbann, það finnst mér óneitanlega bera vott um tvöfeldni gagnvart leikmanninum sjálfum, þó að það muni mögulega reynast félagsliðinu til tekna. Svo ég vitni aftur í hversu mikilvægt sé að menn snúi ekki heim með brotið sjálfstraust.

    Jú vissulega er það súrt þegar leikmenn meiðast í landsleikjum og félagsliðin þurfa að gjalda þess dýru verði, varðandi laun og fráveru. Ég skildi afstöðu Ferguson mjög vel varðandi Rooney í sumar. Hins vegar voru bæði Rooney og Owen æstir í að spila á HM,,, og þá voru þeir allteins með yfirgang eins og leikmennirnir. Svo finnst mér alveg við hæfi að G14 styddi að sama skapi Liverpool, varðandi meiðsli Harry Kewell. Ekki er hann á mikið lægri launum en Owen.

  10. “þá voru þeir allteins með yfirgang eins og leikmennirnir”, leiðréttist:EINS OG LANDSLIÐIN.

  11. Það er ágætt að fá frí frá ensku deildinni.. Þetta bara frestar skemmtuninni. Maður fær alltaf sama magn af Liverpool!!
    Annars er þetta kannski bara ágætis tól til að hjálpa litlu liðunum lítillega. Td. mættum við Everton um daginn þar sem þeir voru töluvert betur hvíldir en Liverpool vegna landsleikja.
    Skora á menn að hætta að svekkja sig á þessum hléum.

    Frekar væri ég til í að lesa pistla þar sem spáð er í spilin. Td. að við erum 6 stigum á eftir toppliðunum. Hvaða lið af þessum fjórum stærstu er búið með erfiðasta prógrammið. Ég tel Liverpool í ágætum málum. Erum aðeins 6 stigum frá toppnum og ekkert hefur gengið upp nema kannski þegar við tókum þrjú stig gegn Sheffield með langskotsmarki Aggers.
    Áfram Liverpool og leyfum Benitez að sjá um landsleikja-svekkelsið.

  12. “Annars er þetta kannski bara ágætis tól til að hjálpa litlu liðunum lítillega. Td. mættum við Everton um daginn þar sem þeir voru töluvert betur hvíldir en Liverpool vegna landsleikja. ”

    akkúrat þetta kallast mismunun milli liða 🙁

    Ekki nóg með að leikmenn stærri liðanna séu að taka þátt í meistaradeildinni og UEFA Cup heldur þurfa þeir líka að taka þátt í tilgangslausum (vináttu)landsleikjum.

    Hvers vegna geta landsliðsþjálfarar ekki bara valið þá leikmenn sem spila með minni liðunum (sem eru ekki í Evrópukeppnum) í vináttulandsleiki (sem þjóna minna en engum tilgangi) í stað þess að auka álagið á leikmönnum liðanna í Evrópukeppnum enn frekar :rolleyes: Það á ekki að þurfa að mismuna leikmönnum/liðum fyrir að standa sig of vel :rolleyes:

    Annars vil ég að leikmenn Liverpool (Milan og Barcelona) spili sem minnst með landsliðunum sínum. Væri nokkuð sama þótt þeim mundi ganga illa með landsliðunum. Vil bara ekki að þeir sýni óviðeigandi hegðun eða meiðist. Því þá mundu liðin þurfa að borga meiddum leikmönnum laun 🙁

    Aðdáun mín á liðum á sér líka nokkrar hliðar eins og hjá flestum.

    1. Held með Stjörnunni hér heima.
    2. Ég hef verið gagnrýndur fyrir það en ég held meira með Liverpool en bæði íslenska landsliðinu og íslenskum félagsliðum. Þegar Spánverjarnir komu hingað hélt ég meira með Liverpool-mönnunum en íslenska liðinu.

    Ein spurning að lokum: Ef fjölskyldumeðlimir ykkar væru að keppa gegn Liverpool með hvoru liðinu munduð þið halda ?

  13. Það er mjög einkennileg tegund af þrælahaldi sem pistlahöfundur boðar hér. Gerir einnig lítið úr þeim þætti sem heitir frjáls vilji.
    Ef að ég slasast utan vinnu þá fæ ég borguð laun. Vinnuveitandinn hefur samt aldrei reynt að loka mig inni á vinnustaðnum.
    Deilan milli Newcastle og knattspyrnusambandsins snýst um pening. Samböndin tryggja leikmenn illa þegar þeir eru að spila fyrir landsliðin. Það vita það allir. Menn geta reynt að breyta því en liðin geta sjálf keypt tryggingar fyrir leikmennina og tryggt sig gegn launatapi þangað til því hefur verið breytt.

  14. Fyrir mig persónulega er mér nokk sama um þessi landslið. Ég til að mynda horfði á England – Makedónía um helgina því þar voru nokkrir leikmenn Liverpool að spila. Síðan horfði ég á Svíþjóð – Spánn í stað Eistland – Ísland því þannig gat ég séð nokkra leikmenn Liverpool…þó reyndar hafi aðeins einn komið við sögu. Ég er lítill aðdáandi íslenska landsliðsins(eða nokkurs landsliðs), ég hef bara gaman afþví að horfa á “mína” leikmenn spila.

    Ég horfði ekki á HM í sumar nema bara rétt með öðru auganu og varla það. Mér er bara alveg nákvæmlega sama um þessi landslið og þessar landsliðskeppnir. Ég tek því 100% undir með Kristjáni og fagna því að Gerrard hafi fengið spjald og verður í banni gegn Króötum. Þá þarf hann ekki að leggja á sig langt ferðalag og koma heim rétt fyrir leik, þreyttur og óundirbúinn. Þess í stað hefur Rafa góðan tíma til að vinna með honum fyrir Blackburn leikinn.

    Vilja leikmannanna til að spila með landsliðum sínum skil ég af mörgu leiti, en það breytir því ekki að ég vil það sem best er fyrir Liverpool og ef einhver leikmaður fær meiri tíma til að vinna með Rafa fyrir leik með Liverpool í stað þess að vera í ferðalögum með landsliði, þá fagna ég því.

  15. Varðandi Owen málið milli Newcastle og FA þá ku það víst vera partur af þessu að Rooney var víst tryggður fyrir fáránlega háa fjárhæð þar sem að hinn sífreki Alex Ferguson var brjálaður yfir því að hann skyldi fara á HM. Þannig að ef Rooney hefði meiðst þá hefði Man Utd fengið eitthvað í líkingu við þá upphæð sem Newcastle er að biðja um.

    Verð svo að segja að mér finnst fáránlegt að menn séu að gleðjast yfir því að Gerrard sé í banni gegn Króötum, svo hann sé úthvíldur með Liverpool. Það má ekki gleyma því að þessir menn eru í besta formi í heimi (ekki síst Gerrard) og það gerir þeim stundum m.a.s. gott að spila þessa aukaleiki. Og á meðan Liverpool er ekki að missa menn á Afríkukeppnina eða Copa America eins og sum lið þá finnst mér þetta varla vera neitt annað en væl. Bolton-aðdáendur höfðu kannski tilefni til að kvarta, þegar þeir misstu einhverja 3-4 menn alla í Afríkukeppnina á sínum tíma (Okocha, Diouf, Jaidi ef ég man rétt). Þá voru þeir með landsliðum sínum í rúman mánuð, og misstu þ.a.l. af svona 4-5 leikjum!!!

    Síðan eru lið eins og Everton sem lenda í því að Tim Cahill þarf að fara yfir hálfan hnöttinn í sólarhringsferðalag til að spila fyrir Ástralíu, sem gerir það að verkum að hann verður ekki kominn aftur til Liverpool-borgar fyrr en í fyrsta lagi á föstudaginn, og nær því ekki einni æfingu fyrir leikinn næstu helgi.

    Sjálfur verð ég að viðurkenna að auðvitað er fúlt þegar menn koma meiddir úr landsleikjunum, en að sama skapi er gaman að sjá leikmenn sinna liða brillera þar.

    Það er t.d. ekki langt síðan að Kristján Atli var að mæra Peter Crouch fyrir góðan árangur í landsleikjum. Hefði Kristján Atli verið þvílíkt sáttur ef Crouch hefði verið ónotaður varamaður í öllum þessum leikjum? Ég held (eða a.m.k. vona) ekki.

    En ég mæli þá með því að það verði það sama yfir alla línuna ef menn eru sáttir með bann Gerrard, og pennar þessarar ágætu síðu bölsótist þá jafnan yfir því þegar menn eru valdir í landslið sín. 🙂

    *Veit að ég er dálítið öfgakenndur stundum í athugasemd minni, en vona að fólk nái hvað ég er að fara.

  16. Er það virkilega svo að einhverjir hérna lifa fyrir Liverpool ? Ég finn til með þeim sem lifa svo innihaldslausu lífi að þeir þurfi fótboltalið til að lifa fyrir.

    Það er líka hálf skrítið að sjá menn endalaust hallmæla landsleikjum og því að menn komi bara til baka þaðan meiddir og fleira í deim dúr. Ég held nú að fótbolti væri ekki það sem hann er nema fyrir það hve marglaga hann er, alveg frá 4-5 ára sem tilbiðja sína landsliðsmenn (Eið Smára á Íslandi) uppí að fá að vera þess heiðurs aðnjótandi að spila fyrir sína þjóð og jafnvel að verða heimsmeistari sem hljóta að vera æðstu verðlaun sem nokkur knattspyrumaður getu fengið.

    Að vera valinn besti knattspyrnumaður heims hefur mér alltaf þótt hjákátlegt enda getur knattspyrna seint talist eintaklingsíþrótt og legg ég til að sú vitleysa að kjósa besta þetta og hitt verði lögð af, enda kjánalegur amerískur blær yfir því sem gefur mér vænan aulahroll. MVP my ass.

  17. Þetta er hræðilegt hann er búinn að spila vel unafarið en auðvitar hefur þetta sína kosti Crouch er náttúrulega alveg frábær og er alltaf tilbúinn að koma inná. En það væri líka fínt að fá Robbie Fowler eða aftur en auðvitað er vont að missa góðan leikmann á borð við Kuyt :sad:.

Ekkert á morgun

Erfið byrjun hjá Reina.