Blackburn á morgun

Jæja, loksins, loksins, loksins og loksins.

Það er orðið alltof langt síðan maður skrifaði síðustu upphitun. Manni finnst þetta hafa verið hrein eilífð. En núna er fjörið að byrja og landsleikjahlé munu ekki trufla okkur á næstunni. Nú er lag og algjör nauðsyn að komast á gott skrið í deildinni. Á morgun fáum við lið Blackburn í heimsókn á Anfield. Sem betur fer erum við á heimavelli, því maður fær alltaf hnút í magann orðið fyrir leikina á Ewood Park. Við höfum misst ansi marga í fótbrot á þeim velli undanfarin ár.

Blackburn eru sem stendur í sætinu fyrir ofan okkur með 11 stig, stigi meira en við. Eftir slaka byrjun hafa þeir verið að koma til baka, enda með nokkuð sterkt lið. Þeir eiga ekki í teljandi meiðslavandræðum, einungis þeir S.Reid og R.Nelson eru taldir alls ekki ná leiknum. Augu margra munu beinast að “félaga” okkar honum Lucas Neill. Eins og flestir eflaust vita, þá reyndum við mikið að kaupa hann í ágúst, en það gekk svo að lokum ekki upp. Blackburn vildu ekki selja. Hann hefur í gegnum tíðina verið mikið á milli tannanna hjá stuðningsmönnum Liverpool, eftir að hann fótbraut Jamie okkar Carragher. Hann mun væntanlega leggja sig allan fram við að sýna Rafa Benítez fram á það hversu góður hann í rauninni er. Robbie Savage er prímus mótor þeirra á miðjunni og er einn af þeim al óvinsælustu sem spila í Úrvalsdeildinni, hvort sem um er að ræða hjá mótherjum hans inni á vellinum, sem og í stúkunum. Þeirra hættulegasti maður verður að teljast vera Norðmaðurinn Morten Gamst Pedersen.

En þá að okkar mönnum. Menn komu til æfinga aftur í dag eftir landsleikjahlé, og það í afar misjöfnu ásigkomulagi. Stevie G ætti nú að vera nokkuð ferskur, enda ekki spilað í tæpa viku, en menn eins og Momo, Kuyt og Agger komu heim lemstraðir. Ekki er talið að meiðslin hjá Agger haldi honum frá því að spila. Hann mun væntanlega fá veglegar umbúðir á hendina, en ég held nú engu að síður að Rafa komi ekki til með að byrja með hann inná. Sömu sögu er að segja af Momo. Hann er talinn vera leikfær þrátt fyrir meiðslin, en ég held engu að síður að Rafa komi ekki til með að spila honum. Dirk Kuyt verður þó pottþétt ekki með liðinu.

Eins og áður sagði þá er þetta heimaleikur og allt annað en sigur er algjörlega óásættanlegt. Ég gæti alveg trúað því að Rafa myndi reyna að stilla sem flestum upp í liðið sem hafa verið á æfingasvæðinu í þessu landsleikjahléi. Menn eins og Fowler, Pennant, Zenden og Gonzalez (þó ég telji nú ekki að þeir byrji allir leikinn). Með The Kop að baki sér, þá er ég ekki í nokkrum vafa með að við vinnum leikinn. Við bara verðum. Það eru nokkrir erfiðir útileikir framundan og því algjörlega nauðsynlegt að hirða öll stig sem í boði eru á heimavelli. Hvernig ætlar kappinn þá að stilla upp liðinu? Hef akkúrat ekki hugmynd um það frekar en fyrri daginn. Það aftrar manni þó ekkert í að spá í spilin. Hér kemur mín spá:

Reina

Finnan-Carragher-Hyypiä-Riise

Pennant-Gerrard-Xabi-Gonzalez

Bellamy-Crouch

Bekkurinn: Martin (ef bannið hjá Dudek hefur þegar tekið gildi), Agger, Garcia, Zenden, Fowler.

Bellamy mætir þarna sínum gömlu félögum og ég spái því að hann verði þeim afar erfiður. Ég giska á að Crouch byrji við hlið hans, þar sem Fowler hefur verið tæpur á meiðslum. Margir hafa viljað sjá Xabi og Stevie G saman á miðjunni, og giska ég á að sú ósk rætist hjá mörgum. Stóra spurningin í mínum huga er aftur á móti vinstri kanturinn. Þar held ég að valið standi á milli Gonzalez og Garcia. Manni sýnist sem svo að Rafa horfi á Zenden meira sem miðjumann nú orðið. Svo gæti Aurelio líka komið inn í myndina þarna.

Spáin? Jú, ég ætla að giska á 3-1 sigur okkar manna. Bellamy setur eitt, Stevie G einn og Crouch læðir inn einu. Þar hafið þið það.

5 Comments

  1. Sama lið nema Aurelio verður í stað Speedy. 2-0, Crouch og Pennant með mörkin 🙂

  2. Þessi leikur leggst vel í mig. Ég held að við sjáum Fowler inni í stað Crouch og Aurelio jafnvel á vinstri vængnum, fyrir framan Riise.

    1-0 eða 2-0 sigur fyrir okkar mönnum, og Guð skorar það fyrsta … 😉

  3. verðum í vandræðum í þessum leik, 2:1. Crouch og Garcia með mörkin.

  4. Einhversstaðar las ég það að Dudek verði í banni Deildarbikarnum, þar sem hann hefði eflaust fengið að spila.

Kuyt ekki með um helgina.

Rafa ber fullt traust til Reina.