Charlton á morgun

Charlton á morgun og það á útivelli. Erum við búnir að hrista útivallardrauginn af okkur? Við sýndum það á móti Wigan að við getum þetta alveg, og ættu menn að taka slatta af sjálfstrausti með sér í þennan leik úr síðustu tveimur leikjum í deildinni. Markaþurrðin virðist vera víðs fjarri núna. En það er þó ljóst eins og alltaf að þú ferð ekkert með úrslit úr öðrum leikjum yfir í þann næsta. Það er ótrúlegt, en engu að síður satt að þessi leikur á morgun byrjar 0-0. En eins og áður sagði, þá hafa menn vonandi meiri trú á sjálfum sér eftir að hafa brotið ísinn svona hressilega.

Byrjun Charlton á tímabilinu hefur verið vægast sagt hræðileg fyrir þá. Hvernig mæta þeir þá til leiks? Vængbrotnir? Eða eins og illa særð ljón? Þetta er tvíeggja sverð, það er alveg ljóst. Enginn leikur er unninn fyrirfram og það sama á við á morgun. Ég var einmitt staddur á leik þessara liða síðasta vor á Anfield, þar sem ekkert gekk upp og menn fóru svekktir heim með jafntefli í farteskinu. Þar var það Thomas nokkur Myhre sem varði allt sem á mark Charlton kom og tryggði þeim stigið. Hann mun væntanlega standa á milli stanganna á morgun, þar sem þeirra besti maður tímabilsins, Scott “okkar” Carson, má ekki spila leikinn.

Vörn þeirra hefur verið gjörsamlega hriplek á tímabilinu. Þeir hafa fengið heil 28 mörk á sig, þrátt fyrir marga stórleiki hjá Scott. Hermann Hreiðarsson og hans félagar hafa sem sagt verið að standa sig verulega illa. Þeir hafa þó ekki verið að standa sig svo illa á heimavelli. Þeir hafa ekki tapað þar síðan í lok september gegn Arsenal. Það er fyrst og fremst útivallarformið sem hefur verið að koma þeim í vandræði. Á heimavelli hafa þeir lagt lið eins og Blackburn, Man.City og Bolton (í deildarbikarnum), en tapað fyrir Arsenal, Portsmouth og Manchester United.

Við munum væntanlega sjá kunnuglegt andlit í vörninni þeirra, sem hefur verið lengi frá vegna meiðsla. Djimi Traore á sem sagt að vera orðinn góður af meiðslum sínum. Jimmy Floyd á einnig að vera búinn að ná sér eftir sín meiðsli, en menn eins og Andy Reid og Radostin Kishishev eru sagðir vera tæpir. Jerome Thomas er aftur á móti ekki talinn leikfær. Það er nokkuð ljóst að góðar gætur þarf að hafa á Darren Bent, sem er þeirra lang hættulegasti sóknarmaður.

Þá að okkar mönnum. Ekkert nýtt af meiðslamálum á þeim bænum. Bolo, Kewell og Momo eru allir frá að vanda. Steven Warnock og Aurelio eru ennþá að jafna sig eftir sín meiðsli og eru ólíklegir til að ná þessum leik. Annað hefur ekki heyrst af meiðslamálum Liverpool. Þetta þýðir að Rafa gæti hæglega komið okkur í opna skjöldu með því að byrja með sama lið og vann Fulham á afar sannfærandi hátt um síðustu helgi. Við höfum haft heila viku til æfinga og hvíldar, eitthvað sem ekki gerist oft hjá okkur, og því ættu menn að koma ferskir til leiks á morgun. Ég ætla mér að spá því að Rafa breyti engu. Það eina sem ég var að spá í var uppstilling á framherjunum. Mig langar agalega að spá því að Crouch komi inn í liðið fyrir Bellamy, og þá sérstaklega vegna þess að ég held að Charlton stilli liðinu upp mjög aftarlega á vellinum, þannig að hraði Bellamy nýtist síður og hæð Crouch mun betur. Ég ætla samt að spá óbreyttu liði. Það yrði því svona:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Xabi – Garcia

Bellamy – Kuyt

Bekkurinn yrði því: Dudek, Hyypia, Gonzalez, Crouch og Fowler.

Sem sagt engin breyting, hvorki á byrjunarliðinu né á bekknum.

Nú er lag fyrir okkar menn. Ef menn ætla sér að hella sér á fullt í baráttuna um efstu sætin, þá verða svona leikir að vinnast. Flóknara er það ekki. Við verðum að ná þremur stigum gegn botnliðunum, það dugar ekkert minna. Við getum ekkert gert í því sem önnur lið eru að gera, heldur bara tryggja það að við söfnum stigum og vonum að hinir samkeppnisaðilarnir fari að tapa sínum. Það er mikill meðbyr með Liverpool þessa dagana, það þarf að nýta og í fyrsta skipti á tímabilinu er maður kominn með mikla bjartsýni í brjóstið. Ég spái því að við sigrum þennan leik, þó ekki verði það létt. Ég spái því að 0-2 verði lokastaðan og það verði þeir Gerrard og Kuyt sem sjái um að framkvæma verknaðinn.

7 Comments

  1. Smá update, svo virðist sem Fabio Aurelio sé orðinn klár í slaginn á ný, hvort það dugi honum til að komast í sjálfan hópinn eða ekki, það kemur bara í ljós. Hann er allavega í 18 manna hópnum sem fer til London.

  2. Gott að heyra að Aurelio sé orðinn heill. Hann er vonandi orðinn vanari hlutunum hjá liðinu og getur komið sterkari inn en hann gerði í haust. Það veitir allavegana ekki af samkeppni í þessari stöðu einsog málin eru þessa dagana. :confused:

  3. Góð upphitun. Mér líður hálf skringilega fyrir þennan leik, get ómögulega ákveðið mig hvort við eigum auðveldan sigur í vændum eða tap eins og venjulega. Á annan bóginn hefur Charlton-liðið leikið allra verst á tímabilinu, vörnin verið hriplek og menn eins og Bent og Hasselbaink ekki spilað skv. getu. Við þetta bætist að Carson má ekki spila í markinu og þá sér maður lítið annað fyrir sér en auðveldan skyldusigur á botnliði deildarinnar.

    Hins vegar höfum við vanið okkur óþægilega á það að tapa fyrir Charlton í The Valley síðustu árin. Það er ástæða fyrir því að Liverpool-aðdáendur hafa meira álit á Kevin Lisbie en aðdáendur annarra liða, til dæmis. Charlton-menn, sem jafnan liggja í meðalmennskunni í deildinni, hafa einstakt lag á að spila sinn besta leik gegn okkar mönnum, sem á móti hafa einstakt lag á að spila sinn versta leik.

    Skynsemin segir manni að við munum sigra á morgun, en í ljósi síðustu leikja þessara liða (í fyrra náðu þeir jafntefli á Anfield og sigri á The Valley) mun ég ekki reikna með neinum stigum fyrr en lokaflautan gellur á morgun.

  4. Megum alls ekki við að tapa stigum á morgun. Eigum að vera með miklu sterkara lið og þurfum að sýna það. Tippa á að Bellamy haldi áfram að skora. Hef trú á að hann sé að detta í gang.

  5. Tad er nu svo skritid (sorry by erlendis) ad leikir vid Charlton eru i miklu uppa haldi hja mer ,seasonid 88-89 sa eg leik Charlton-LIVERPOOL a selhurst park (teirra vøllur var i vidgerd ,who cares)ALDRIGE med hat trick og RUSH kom inna (held eg hafi enn gæsahud)eftir ad hafa verid hja Juventus um tima.Eg var a ANFIELD tegar LILLI skoradi a moti chelsea.Og eg var a stadnum tegar dætur minar fæddust.Og ja eg man enn FA cup final a moti everton.VIÐ erum bestir

  6. Byrjunarliðið komið.

    —Reina–

    Finnan—-Carra—-Hyypia—-Riise–

    Pennant–Alonso–Gerrard–Gonzalez

    KuytBellamy—

    Breytingar frá því í síðasta leik:

    Agger út fyrir Hyypia?!(kannski vegna þess að þetta er Charlton, en einhver sagði að það ætti aldrei að vanmeta andstæðingana)
    Gonzalez inn fyrir Garcia.

16-liða úrslit: BARCELONA!!!

Byrjunarliðið gegn Charlton