Enn af leikmannakaupum

Eins og væntanlega allir vita, þá er liðum nú frjálst að kaupa og selja leikmenn á ný. Þrátt fyrir að ekki sé búist við að miklar breytingar verði gerðar á leikmannahópi Liverpool, þá virðist Rick Parry hafa í nógu að snúast þessa dagana. Hann er búinn að sitja sveittur við samningaborðið gagnvart yfirtöku á félaginu, og er það nú það langt komið að hægt er að snúa sér enn betur að leikmannaviðskiptum. Lucas Neill er ekki nýtt nafn sem poppar upp í þeim efnum og ég held að engum ætti að koma á óvart þótt hann yrði orðinn liðsmaður Liverpool FC innan skamms. Þetta er fyrst og fremst spurning hvernig um semst um kaupin á honum.

Blackburn hafa ennþá áhuga á að fá Steven Warnock í staðinn og er það möguleiki sem Rafa er frekar til í að skoða núna heldur en hann var í ágúst. Svo gæti farið að skipt yrði á þessum leikmönnum á sléttu. Ástæðan fyrir þessu er sú að Riise og Aurelio geta báðir spilað í vinstri bakverði, og svo er einnig kominn ungur strákur frá Argentínu sem menn telja að geti vel fyllt stöðuna ef liðið verður mjög óheppið með meiðsli. Það er því alls ekkert ólíklegt að Steven hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Liverpool og að Lucas Neill klæðist rauðu treyjunni innan tveggja vikna. Lucas er í leikbanni um helgina þegar bikarleikirnir fara fram, og því yrði hann gjaldgengur í þá keppni fyrir Liverpool ef okkur tekst að slá Arsenal út á laugardaginn. Hann yrði einnig gjaldgengur í Meistaradeild Evrópu, þrátt fyrir að hafa spilað með Blackburn í UEFA Cup. Reglunum var nefninlega breytt nýlega og hljóða nú upp á það að lið í Meistaradeildinni mega nota einn leikmann sem hefur spilað í hinni keppninni á sama keppnistímabili. Lucas Neill yrði því gjaldgengur í allar keppnir nema Deildarbikarinn.

Ég viðurkenni það fúslega að Lucas hefur ekki verið einn af mínum uppáhalds knattspyrnumönnum. Ég geymi ennþá í minningunni líkamsárás hans á Jamie Carragher forðum daga. Ég veit þó einnig að þetta er frábær varnarmaður og hefur verið lengi. Hann gjörsamlega sprakk út á HM í sumar og það er ljóst að það er mikil barátta um krafta hans. Það sem sagt verður hart barist og talað er um Barcelona, AC Milan, Newcastle og Tottenham í því sambandi. Barca eru nýlega búnir að missa þá Thuram og Zambrotta í meiðsli og vilja því auka breiddina, hin liðin þrjú hafa verið í mismiklu bulli á tímabilinu, þannig að það er ekki allt í hendi hérna. Það sem hjálpar þó mikið og gleður mitt litla hjarta, er að hann er í flokki með mönnum eins og Pennant og Bellamy að því leiti að þeir hafa verið stuðningsmenn Liverpool verulega lengi. Það finnst mér alltaf stór kostur og gerir mig enn jákvæðari gagnvart þessu öllu saman. Sumir knattspyrnumenn hafa komið fram og sagt ýmislegt á þessa vegu þegar þeir eru að bjóða sig félögum og reyna að ganga í augun á stuðningsmönnum, en þegar kemur að leikmönnum á Englandi, þá hafa þeir verið hreinskilnir í gegnum tíðina með þetta og flestir viðurkennt það strax ef þeir hafa ekki með sanni verið stuðningsmenn liðsins frá barnæsku. Ég er því tilbúinn að horfa framhjá voðaverkinu á sínum tíma og segi því að ef Carra hefur fyrirgefið honum, þá er ég til í að gera það líka ef það má verða til að við fáum klassa mann til að berjast um stöðuna við Finnan.

Annað nafn sem orðað hefur verið við okkur undanfarið er Javier Mascherano. Sá hefur verið á mála hjá West Ham á tímabilinu og vakti það mikla athygli þegar hann fór þangað ásamt Carlos Tevez undir lok ágúst. Þeir sem fylgdust með Argentínu á HM í sumar geta væntanlega vottað um að þessi strákur er feykilega góður knattspyrnumaður. Hann hefur þó engan veginn fengið tækifæri hjá West Ham á tímabilinu og hefur gengið ákaflega erfiðlega að koma sér fyrir hjá þeim. Af hverju ætti hann þá að gera það neitt frekar hjá okkur? Það er akkúrat ekkert sem bendir til þess, en það er heldur ekkert sem segir að hann geti það ekki. Félög eru misjöfn eins og þau eru mörg. Knattspyrnumaður getur átt erfitt uppdráttar hjá einu liði en blómstrað hjá því næsta. Þetta er bara svo einstaklingsbundið. Við höfum mý mörg dæmi um þetta og það innan sama lands. Staðreyndin er sú að þetta er afar góður knattspyrnumaður og áhættan með að taka hann er nánast engin. Talað er um lánssamning fram á vorið og svo kauprétt á honum í kjölfarið. Því ekki? Hafa menn ekki verið að býsnast yfir því að þurfa að nota Bolo Zenden? Ef Javier kemur, þá myndi ég telja að það væri fyrst og fremst Bolo sem þyrfti að hafa áhyggjur. Ég er allavega til í að taka áhættuna fram á vorið. Ef hann nær að sýna sitt rétta andlit, þá frábært. Ef ekki, þá er honum einfaldlega skilað, simple as that. Koma hans byggist þó á því að málið fari rétta leið í gegnum FIFA, en það ættu engin vandræði að vera með það, þar sem hann spilaði bara með West Ham á tímabilinu. Ef ég skil þetta allt rétt, þá kláraðist tímabilið í Suður Ameríku þann 31. desember.

Það er því morgunljóst af þessu að dæma, þá er ekki verið að fara að ausa miklu af fjármunum út úr félaginu í janúar og er ég bara nokkuð sáttur við það. Ég vil bíða með slíkt fram á sumar. Ef tekst að bæta þessum mönnum við liðið og þeir geti bætt það á einhvern hátt, þá er það stór plús. Ef ekki, þá var áhættan ekki stór. Menn geta hreinlega ekki búist við einhverjum kraftaverkakaupum í janúar. Ef þessir tveir koma, þá tel ég okkur vera komnir með eina mestu breiddina í leikmannahópi af öllum liðum Úrvalsdeildarinnar, því þessir menn eru engir meðalmenn, þetta eru klassa spilarar. Spurningin er bara, hversu fljótt og hvort þeir ná að aðlagast liðinu í tíma til að setja mark sitt á þetta tímabil.

10 Comments

  1. Það litla sem ég hef séð til Javier Mascherano er nóg til að sannfæra mig um að hann er vel þess virði að prófa. Hver svosem munurinn er þá tvent ólíkt að spila fyrir Liverpool í dag og hinsvegar West Ham.

  2. Fínar pælingar…

    Með Mascherano, þá er hann ósáttur hjá West Ham af því hann fær lítið sem ekkert að spila. Hann myndi koma sterkur inn í að gefa Alonso og Gerrard smá hvíld en svo þarf hann að berjast við stöðu á miðjunni um Sissoko (og jújú, Zenden)… Spurning hvernig það gengur og hvort hann myndi sætta sig við það.

    En það væri vissulega frábært að fá hann að láni fram á vor, og ef vel gengur, þá er hægt að selja Zenden bara í sumar. Þá er miðjan okkur orðin ótrúlega vel mönnuð!!

  3. Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju Mascherano fær ekki að spila fyrir West Ham? Ég hreinlega get ómögulega skilið það. Það er ekki einsog að aðrir leikmenn í liðinu séu að blómstra.

  4. Ef við fáum Javier, Lucas og síðan einn hægri kantara (helst þá ungan dreng) þá lítur þetta vel út tímabilið.

    Hins vegar skilst mér að það sé afar flókið mál að semja um kaupinn á Javier þar sem þriðji aðili á basicly leikmanninn (sama gildir um Tevez hjá West Ham). Þeir eru í rauninni í láni hjá WH og ef Eggert og co. vilja kaupa drengina þá kosta þeir saman um 40 millj. punda. M.a. á argentínsk sjónvarpsstöð helmingshlut í Tevez (eðlilegt?).

    Þetta flókna fyrirkomulag er m.a. víst ástæðan fyrir því að Juve hætti við kaupinn á Javier.

    Ef við fáum hann fyrir 5-6 millj. punda þá erum við frábærlega vel settir á miðjunni og er ég þess fullviss að hann myndi standa sig vel fyrir okkur þar sem þessi drengur er afar frambærilegur knattspyrnumaður.

  5. En Aggi, það er nefninlega það góða í þessu ef þetta gengi í gegn. Þetta er bara lánssamningur og því hafa menn nægan tíma til að leysa úr flækjum varðandi kaup á honum fram á sumarið, þ.e.a.s. ef hann stendur sig það vel að við viljum kaupa.

    Er alveg sammála Einari Erni hérna með tækifærin hans hjá West Ham. Það er ekki eins og að þeir hafi verið að brillera leikmennirnir sem þar eru fyrir. Hver væri ekki svekktur að komast varla á bekkinn hjá liði í fallbaráttunni, þegar rétt áður voru menn aðal kallarnir á miðjunni hjá Argentínu á HM? Svo er einnig spurning hvort hann henti einfaldlega ekki þeirri spilamennsku sem lögð er upp hjá West Ham. Hvort hann henti okkar, það er svo líka alveg spurning. En Rafa hefur eflaust sínar skoðanir á því og væri varla að fá hann (ef hann er á annað borð að reyna það) nema að hann telji að hann henti því kerfi sem hann ætlar að leggja upp með.

    Það virðist nefninlega vera sem svo að stjórinn (þá) hjá West Ham, hafi einfaldlega ekki verið mikið með í ráðum þegar þessir drengir voru fengnir til liðsins. Ef það eru einhverjir stjórnarkallar sem ákváðu að gera dílinn, þá getur það nú aldeilis haft áhrif á stjórann hverju sinni. Efast ekki um að ef Pardew hafi í raun viljað fá þessa kalla sjálfur og séð þá smell passa inn í sín plön, þá hefði hann notað þá mun meira.

  6. ok gott mál. Fá drenginn á lánssamning út tímabilið með 6 millj. punda kaupmöguleika í lok tímabilsins.

    Og já sammála varðandi WH og hans möguleika þar. Alveg á kristal tæru að Pardew var ekki hafður með í ráðum þegar WH fékk þá Javier og Carlos til liðsins enda var lengi gert ráð fyrir því að eigendur þeirra myndu taka félagið yfir þangað til KR-ingurinn og Valsarinn mættu á svæðið og sannfærðu Terence Brown um ágæti sitt og sinna peninga 🙂

  7. Það væri fróðlegt að vita hvað er að gerast á æfingum hjá West Ham. Það var talað um Mascherano sem einn af efnilegustu miðjumönnum í heimi áður en hann kom þangað, en núna kemst hann ekki í lið hjá botnliði í Úrvalsdeildinni.

    Ef við hefðum verið að tala um hann síðasta sumar, þá hefðu sumir migið í sig af spenningi, en núna vekur hann ekki jafn mikla spennu.

    Miðað við það, sem ég hef séð af Mascherano (sem er lítið) þá leit hann verulega vel út.

    Ég hreinlega get ekki skilið hvað er í gangi. Þeir tveir voru keyptir og hampað sem hetjum, Mascherano fær 5 leiki í Úrvalsdeildinni (þar sem hann spilaði að margra mati vel og barðist fyrir liðið skv. því sem maður hefur lesið á spjallborðum) og er svo bara algjörlega settur á bekkinn (hefur spilað 5 mínútur alla nóvember og desember mánuði.

    Og það undir tveim mismunandi stjórum. En ég er sannfærður um að Mascherano hefur ekki gleymt því hvernig á að spila fótbolta hjá West Ham og ef að Rafa telur hann geta spilað hlutvark hjá Liverpool þá er ég sannfærður um að hann yrði góður kostur.

    Mascherano er búinn að spila í UEFA cup, þannig að ef við keyptum Neill og Mascherano, þá gæti bara annar þeirra spilað í Meistaradeildinni skv. þessari nýju og furðulegu reglu.

  8. Samkvæmt einhverjum á YNWA spjallinu þá á einhver félaga sem er West Ham season ticket holder og hann hefur þetta um Mascherano að segja:

    M has failed at W Ham because he cant play fast tempo game, plus what he needs is lots of good options so he can move the ball to players of quality. at west ham often teams let him have possession and his main options were the full backs who would then lose possession. he thinks he’d be best for a team who push players forward – he’d have plenty of passing options and is very good at plugging defensive gaps even though not extremely fast or big. good in tackle, very disciplined. very much like makelele in terms of strengths. he has not had a proper run in the team though.

    Ef þetta er satt gæti ég haldið að hann mundi henta gríðarlega vel fyrir leikskipulag Liverpool sem byggir mikið á hreyfingu og staðsetningu án bolta og hann ætti að hafa mikið af sendingarmöguleikum fram á völlinn, eins og Gerrard, Luis Garcia, Pennant auk þess sem framherjar eins og Crouch og Kuyt eru duglegir að bjoða sig og ávalt möguleikar á stungusendingum inn á Bellamy.

    Þessi lýsing hljómar eins og leikmaður sambærilegur og Sissoko sem kann að senda boltann og ég verð að viðurkenna að hann leit ekki ósvipað út á HM í sumar sbr. þátttöku hans í ótrúlega markinu þegar voru hvað 27 sendingar áður en markið kom. Í fyrstu hélt ég að þetta væri alger vitleysa að vera að pæla í þessum manni en eftir því sem ég hugsa þetta betur þá lýst mér alltaf betur og betur á þetta. Eina problemið verður að losa undan eignarhaldi þessa MSI-umboðsfyrirtækis, þ.e. ef hann stendur sig en þess vegna lýst mér alveg ljómandi vel að fá hann að láni fyrst.

  9. Jamm, akkúrat Þröstur – ég var búinn að lesa þetta komment á YNWA.

    Kannski ekki úr vegi að rifja upp markið.

    Hvernig fara menn frá því að vera lykilmenn í stórkostlegu liði Argentínu í það að komast ekki í hópinn hjá West Ham?

    West Ham hefðu átt að byggja upp í kringum Mascherano, hann er það góður. Það verður fróðlegt að heyra hans hlið þegar hann fer frá West Ham.

Blackburn búnir að fá tilboð í Neill!

Mascherano til Liverpool eða ekki?