Arsenal á morgun – aftur…

rosicky_wtf.JPG.jpg

Á morgun eigum við leik gegn Arsenal í Deildabikarnum. Leikurinn hefst klukkan 19.45 og verður í beinni útsendingu á Sýn.

Ég tel mig vera nokkuð dagfarsprúðan dreng. Ég tel mig líka vera harðan stuðningsmann Liverpool. Ég eyði samt sem áður yfirleitt ekki miklu púðri í að pirra mig á hlutum, eins og því hvort Liverpool hefði unnið leikinn gegn Arsenal á laugardaginn ef Dudek hefði ekki verið í markinu. Það skiptir mig engu máli, leikurinn er búinn og þessu verður ekki breytt. Auðvitað er pirrandi að tapa fyrir liði eins og Blackburn en ég læt þetta samt ekki eyðileggja fyrir mér daginn.

Það skiptir mig heldur engu máli hvort ég horfi á leik heima í stofu, á einhverjum klúbbi, með einhverjum eða ekki, hvort ég sé örugglega í happatreyjunni minni (á reyndar enga sérstaka þrátt fyrir nokkrar treyjur), í Ecco inniskónnum mínum eða hvort að kanínufóturinn sé á sínum stað. Það sem ég geri, eða ekki, hefur engin áhrif á úrslit Liverpool. Ég er því ekki mjög hjátrúafullur.

Eins og ég sagði áðan þá reiðist ég sjaldan þegar liðið fær á sig mark, það bara gerist. Ég nenni ekki að velta mér upp úr því lengur, en ég tek það fram að ég hef ekki alltaf verið barnanna bestur í þessum efnum. Ég reiddist þó alveg ótrúlega mikið þegar Rocicky skoraði annað mark sitt í leiknum gegn Arsenal á laugardaginn, eitthvað sem okkar menn þurfa að læra af fyrir leikinn á morgun í deildabikarnum. Ég sendi Kristjáni Atla meðal annars orðið SKANDALL í sms-i, með hástöfum þegar Tékkinn skoraði.

Ég skil ekki af hverju Kuyt og Garcia gerðu ekki betur, af hverju Alonso stóð bara og horfði á eftir að Henry sendi framhjá honum, af hverju Carra fór ekki út á móti, af hverju Finnan gerði ekkert og sama má segja um Gerrard en þessi tímamótamynd sem ég setti sig saman útskýrir sig nokkurn vegin sjálf 🙂 Þetta gerði mig pirraðan. Við megum ekki við því að gera svona fáránleg mistök á móti liði eins og Arsenal, sem er með mjög gott lið eins og allir vita.

Fyrsta markinu kenni ég engum sérstaklega um, nema kannski Riise (ég sé að ég er ekki sá eini, sem betur fer, af því hann er farinn að bögga mig smá, sá norski). Ég held að Reina hefði ekki varið þennan bolta frekar en Dudek. Minni líka á að um daginn sagði ég að Dudek yrði líklega seldur í sumar og Carson yrði markmaður númer tvö á næsta tímabili. Ég stend við það!

Carragher hef ég mikið verið að hugsa um undanfarið. Honum var boðinn góðgerðarleikur fyrr í vikunni þar sem hann er á sínu tíunda ári í aðalliði Liverpool og nálgast nú óðfluga 450 leiki. Hann er svona “no-nonsense” varnarmaður sem hefur það mottó að ef boltinn er ekki nálægt eigin marki þá er andstæðingurinn ekkert að fara að skora. Ég negli þessum bolta bara í burtu, ekkert mál, við höldum áfram. Hann klikkaði illa á því í síðasta leik gegn einum besta leikmann heims sem gerði grín að honum og skoraði frábært mark.

Carragher er ekki besti varnarmaður ensku úrvalsdeildarinnar en hann er einn sá hliðhollasti og fáir spila af meiri ástríðu og hann. Carra mun aldrei fara frá Liverpool, aldrei. Honum óx ásmegin á síðari hluta tímabilsins, á þessu ári, eftir dapra byrjun þar sem hann gerði mörg mistök (eins og svo margir í liðinu). Hann er einn af mínum uppáhaldsmönnum og hann lærir auðvitað af þessum mistökum sem hann gerði.

Það er alveg ljóst að Liverpool þarf EKKI að leika betur gegn Arsenal á morgun til að vinna leikinn. Við þurfum bara smá heppni með okkur, það er allt og sumt. Við stjórnuðum þessum leik, nánast frá A til Ö, en því miður skorti okkur þessa síðustu snertingu til að skapa dauðafærið. Það kemur vonandi á morgun. Það sem skildi á milli á laugardaginn voru einstaklingsframtök af bestu gerð.

Þessi leikur á morgun gæti orðið skemmtilegur, ég veit ekkert um það, en ég hef það á tilfinningunni að Wenger stilli upp einhverju kjúklingaliði. Þessir kjúklingar eru samt sem áður góðir og það er spurning hvað Rafa gerir.

Staðreyndin núna er sú að liðinu okkar hefur farið fram á hverju ári eftir að Benítez tók við því. Ef það á að halda áfram þarf liðið að vinna Meistaradeildina aftur, svo einfalt er það, “bikaralega séð” auk deildarkeppninnar. Ég held að það efist enginn um það að liðið er miklu, miklu, já miklu betur mannað en þegar Houllier var með það og er að spila betri bolta.

Ég gef ekki ýkja mikið fyrir þennan Deildabikar en samt sem áður yrði gaman að vinna hann, engu að síður yrði það bara sárabót. Það er mín skoðun. Mér er satt best að segja alveg sama um hvernig Arsenal stillir upp á morgun, ég nenni ekki að pæla í því. Ég nenni heldur ekki að vera að finna til einhverja tölfræði um leiki þessara liða og svo framvegis, þessi keppni er aukaatriði í huga flestra, á þessu stigi amk. Þetta verður allt annar leikur en á laugardaginn…..

Hópurinn okkar er ágætlega breiður núna. Það er erfitt að segja til um hvað Benítez gerir á morgun. Ef Riise verður ekki hvíldur og Aurelio kemur inn yrði ég mjög undrandi. Rafa er ekkert heimskur, hann sér alveg eins og við hin að Riise hefur átt í erfiðleikum undanfarið. Af hverju veit ég ekki. Kannski skortir hann sjálfstraust eða kannski varð hann fyrir áfali í fjölskyldunni nýlega, í það minnsta er hann ekki upp á sitt besta.

Ég ætla bara að tippa á þetta lið, en stuðullinn er ekki ýkja hár hjá mér:

Dudek

Finnan – Hyypia – Agger – Aurelio

Pennant – Gerrard – Guthrie – Gonzalez

Bellamy – Fowler

Bekkurinn: Reina, Carra, Alonso, Riise, Kuyt.

Dudek var lofað að hann spili alla bikarleiki á tímabilinu. Peltier gæti komið inn fyrir Finnan en mér finnst það ólíklegt. Paletta gæti líka verið í miðvarðarstöðunni fyrir annanhvorn. Ég veit ekki hvort Paul Anderson sé tilbúinn til að byrja á hægri kantinum og líklegt er að Rafa reyni að gefa Alonso eða Gerrard smá pásu. Guthrie lærir mikið af því að spila með manni eins og Gerrard.

Gonzalez á vinstri, þarf ekkert að bakka það upp svosem og svo hlýtur Fowler að fá tækifæri, hvenær á hann annars að fá það? Bellamy hefur verið að ná sér vegna meiðsla en það er bara kjaftæði að hann hefði ekki getað spilað, komið inn á, á laugardaginn útaf meiðslum. Af hverju setti Rafa hann þá á bekkinn? Hann er ready og kemur sér vonandi í leikform í þessum leik.

Mér er alveg sama hvernig Arsenal stillir upp…

Mín spá: Kristán Atli sagði að við myndum vinna tvo leiki gegn Arsenal af þremur á Anfield á þessu tímabili. Eitt tap komið í hús, næst er það því sigurleikur enda trúi ég Kristjáni alveg! Við vinnum þetta 2-1 og Fowler skorar annað markið, Bellamy hitt.

8 Comments

  1. Flott upphitun.
    Aumingjaskapur í öllum mörkunum hjá Arsenal í fyrri leiknum.

    Það verður gífurlega athyglivert að sjá hvort Dudek eða Reina spili, þó að Rafa hafi lofað Dudek að spila þá var hann eins og algjör ræfill á sunnudaginn og Reina hefði varið öll þessi skot leyfi ég mér að fullyrða.

    Alonso og Kuyt voru bestir á sunnudaginn og vonandi spila þeir enn betur og fá kannski víti? :laugh: Nei Bennett dæmi ekki, það mun vera Martin Atkinson.

    Ég myndi stilla liðinu upp svona;
    Reina

    Finnan – Hyypia – Agger – Aurelio
    Pennant – Gerrard – Alonso – Gonzalez
    Bellamy – Kuyt

    Við hreinlega verðum að vinna þetta. Ef að Carling, FA og PL eru dottnir úr augsýn, tja CL, maður yrði reyndar sáttur með að sigra CL í vor en við þurfum þá að styrkja okkur í janúar með bakvörðum og kantmönnum sem hafa þetta extra. Jafnvel einn framherji á borð við David Villa.

  2. :tongue:Ég ætla ekki að horfa á þennan leik og alls ekki ef Dudek verður í marki. Hann er búin að gera allt sem hann getur fyrir LFC og ég vil ekki sjá hann meir. Ég þakka honum það sem hann hefur vel gert og ber þar hæst framlag hans til Evrópubikarsins. En menn eiga að hætta hverjum leik þá hæst hann ber og ekki meiri Dudek fyrir mig. Ég er þess fullviss að Reina hefði varið öll þau skot sem fóru inn í síðasta leik og þarf ekki meira en sjá viðbrögð hans í markinu undanfarið sem eru ljósárum sneggri en hjá Dudek sem er beinlínis hægur miðað við Reina. Það var að auki bikar sem skiptir máli en þessi helv… deildarbikar er ekki einusinni smá sárabót. Ég kenni benites algjörlega um þetta og er það ekki í fyrsta skipti sem hann klúðrar BIKARNUM. Það er nú þannig. En mér er nokkuð sama hvernig þessi leikur fer og held að best sé að tefla fram algjöru b-liði til að létta leikálagi af byrjunarliðsmönnum og einhenda sér í baráttuna í deildinni. Ég vona að benites fari ekki að leggja einhverja áherslu á þennan leik til að klóra yfir skítinn sinn eins og sagt er á góðri íslenku 😉

  3. Flott samantekt og get tekið undir flest þarna nema þessa setningu.

    “Það er alveg ljóst að Liverpool þarf EKKI að leika betur gegn Arsenal”

    Mér finnst menn gleyma því að það spilar enginn betur en andstæðingurinn leyfir. Þrátt fyrir að Arsenal var ekki að spila glimrandi sóknarbolta þá spiluðu þeir frábæran varnarleik og gáfu ekkert eftir í tæklingum, létu virkilega finna fyrir sér. Menn mega alveg segja að þeir hafi verið grófir, en þeir spiluðu einfaldlega eins fast og dómarinn leyfði. Beið lengi eftir að einhver Liverpool maðurinn færi í alvöru tæklingu við einhvern Arsenal-manninn, það hefði mátt gerast í öðru markinu til dæmis. Ég man ekki eftir að Liverpool hafi fengið eitt einasta dauðafæri í leiknum nema þegar þeir skorðuðu.

    Skyndisóknir Arsenal voru mjög hættulegar og þeir nýttu færin sín nánast fullkomlega.
    Leikurinn þróaðist þannig að það lið sem myndi skora fyrsta markið myndi fara með sigur af hólmi. Arsenal skoraði það og við það brotnaði sjálfstraust Poolaranna. Það sem pirrar mig þó mest eftir þennan leik er augljós vítaspyrna sem Liverpool átti að fá dæmda.

    Held að Liverpool þurfi meira en heppni til að vinna Arsenal. Þeir þurfa að ná fyrsta markinu, spila fastar og vera nær mönnum í varnaleiknum, fækka mistökum (töpuðum boltum)inná miðjusvæðinu, vera hreyfanlegri í sóknarleiknum og vera miklu hungraðari í sigur.

  4. Ég kenni benites algjörlega um þetta og er það ekki í fyrsta skipti sem hann klúðrar BIKARNUM. Það er nú þannig.

    Æi, er þetta nú ekki fullmikið? Jú, mikið rétt, á fyrsta tímabilinu hjá Benitez klúðraðist FA bikarinn hrapallega – en hvað gerðist aftur á tímabili nr. 2?

    Það er ekki eins og Dudek hafi verið að gera gjörsamlega í buxurnar, misst boltann í gegnum klofið eða eitthvað og algerar getgátur að segja að Reina hefði komið í veg fyrir eitthvað af þessum mörkum.

    Það er alveg eins hægt að segja að ef dæmd hefði verið vítaspyrna eða ef skotið frá Alonso eftir hornspyrnuna rétt fyrir fyrsta mark Arsenal hefði verið nokkrum sentimetrum nær markinu hefðum við komist yfir og þar með náð yfirhöndinni – sem hefði svo sennilega leitt til sigurs. Og þá hefði Benitez verið hetja dagsins. Þetta var einfaldlega einn af þessum leikjum sem hefði getað dottið á hvorn veginn sem var. Og Benitez á nú svolítið betra skilið en að menn gleymi síðustu leiktíð og fari að tala um klúðrið 2004-2005 og gefa í skyn að hann beri ekkert skynbragð á FA-bikarinn.

  5. “Það er alveg ljóst að Liverpool þarf EKKI að leika betur gegn Arsenal”

    Ég er nokkuð sammála þessu. Það er spurning um að skora fyrsta markið. En vandamálið er að Arsenal koma brjálaðir í leikinn líka. Held að þetta verði hörkuleikur þar sem báðir þjálfararnir þykjast gera lítið úr mikilvægi leiksins en við vitum að þeim langar mikið til að vinna þennan leik.
    Ef það er ekki fyrir Worthless cup, þá er það fyrir heiðurinn.

  6. Viljiði í guðanna bænum sleppa því að segja þessi orð:
    “við lékum miklu betur” en , en , en ,
    en við sköpuðum okkur varla færi. Ég gat bara ekki séð betur en að Arsenal var bara að leifa okkur að eiga miðjuna og gera svo hraðar árásir. Þetta tókst mjög vel hjá þeim og þess vegna unnu þeir og áttu það svo sannarlega skilið. Hvernig geta menn sagt það að við þurfum EKKI að spila betur en þetta. Við vorum lesnir eins og opin bók vegna einhæfni í sóknarleik. Við verðum að leika miklu betur ef við ætlum að fara að gera eitthvað af viti.

  7. Fyrst að menn eru að tala um EF þetta hefði verið svona eða hinsegin þá hefðú úrslitin orðið öðruvísi en enginn hefur bent á að EF það hefði ekki verið þoka í Liverpool 20 desember þegar leikurinn í deildarbikarnum átti að fara fram þá hefðum við örugglega unnið þann leik enda á miklu skriði þá og Wenger ætlaði að nota hálfgert varalið og þá hefðum við sært þá svo illilega að við hefðum líka unnið seinni leikinn í FA bikarnum, er þetta ekki góð kenning en núna eru Arsenal menn komnir á bragðið eftir sigurinn um helgina og ætla að mæta með sterkara lið í kvöld heldur en þeir hefðu gert 20 desember
    en ég er samt nokkuð viss um að sigur minna manna, ég trúi því hreinlega ekki að við förum að tapa 2 sinnum á heimavelli í röð eftir að hafa verið taplausir þar í rúmt ár!

Lið ársins hingað til að mati Guardian

Stutt um JM