N’castle 2 – L’pool 1

Í dag tapaði Liverpool 2-1 fyrir Newcastle á útivelli í ensku Úrvalsdeildinni. Eftir markalaust jafntefli gegn Everton um síðustu helgi má því segja að það sé komið hikst í vélina eftir tæpa þrjá frábæra mánuði í deild.

Fyrir leikinn var ekki víst hvort af honum yrði vegna úrhellis í Newcastle en á endanum stytti aðeins upp svo að hægt var að hefja leik. Rafa gerði nokkrar breytingar á liðinu frá því um síðustu helgi, en Xabi Alonso var í leikbanni í dag. Liðið var sem hér segir:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Sissoko – Zenden

Bellamy – Kuyt

Bekkur: Dudek, Hyypiä, Arbeloa, Guthrie, Crouch.

Strax frá upphafi leiks var greinilegt að blautur völlurinn yrði í aðalhlutverki en menn áttu erfitt með að fóta sig. Það skilaði strax marki en aðeins örfáar mínútur voru liðnar þegar Steve Harper markvörður Newcastle klúðraði frásparki, Jermaine Pennant tók boltann og lék framhjá varnarmanni og inní teiginn, gaf hann þaðan út á Craig Bellamy sem skoraði í tómt markið. 1-0 fyrir okkar menn og maður bjartsýnn á framhaldið.

Restin af fyrri hálfleiknum var frekar villimannslega leikin, en þó var leikurinn aldrei grófur. Menn hentu sér í tæklingar og börðust grimmilega og bæði lið reyndu að sækja hratt og nýta sér hröðu leikmenn sína, Bellamy og Obafemi Martins, á blautum vellinum. Okkar menn höfðu þegar uppskorið með marki Bellamy en um miðjan hálfleikinn fengu Newcastle-menn jöfnunarmarkið á silfurfati. Boltinn kom innfyrir vörn Liverpool og Daniel Agger barðist við Martins og náði að skýla honum frá boltanum svo að Pepe Reina gæti hreinsað frá. Reina kom askvaðandi út úr vítateignum en í stað þess að hreinsa boltann fram völlinn eða upp í stúku skaut hann í Agger og þaðan lak boltinn inn í vítateiginn þar sem Martins skaut óvaldaður í tómt markið. Sérlega kómískt mark og sjaldséð mistök hjá hinum sparkvissa Reina.

Í kjölfarið á jöfnunarmarkinu kom ótrúlegur leikkafli hjá okkar mönnum. Craig Bellamy slapp þrisvar í gegnum vörn Newcastle-manna með boltann; í fyrsta skiptið gaf hann slaka sendingu á Kuyt sem Harper markvörður greip inní, í annað skiptið var hann búinn að leika á Harper en hitti ekki boltann fyrir opnu marki og í þriðja skiptið skaut hann í þverslána úr opnasta færinu. Stuttu síðar slapp Bolo Zenden einn innfyrir en Harper varði slakt skot hans úr dauðafæri og því var enn jafnt þegar Mark “Headlines” Halsey dómari flautaði til leikhlés, heimamönnum til mikils léttis.

Síðari hálfleikur var svo alveg jafn opinn og hraður og sá fyrri og okkar menn fengu haug af sóknum til að gera út um þetta. Dirk Kuyt og Steven Gerrard klúðruðu báðir skotum og fyrirgjöfum úr kjörstöðum á meðan Craig Bellamy hélt áfram að láta Steve Harper verja frá sér.

Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka dró svo til tíðinda. Steven Taylor, bakvörður Newcastle, lék með boltann inní teiginn og framhjá John Arne Riise sem rétti út löppina til að reyna að ná til boltans. Taylor hljóp framhjá honum án snertingar, steig eitt skref í viðbót og renndi sér svo til jarðar. Í endursýningunni sást að hann gerði sér grein fyrir að þetta var of augljós leikaraskapur því hann stóð upp án þess að biðja um nokkuð og virtist alveg jafn hissa og varnarmenn Liverpool þegar Mark “Headlines” Halsey dæmdi fáránlega vítaspyrnu. Sannarlega skelfileg dómgæsla hjá dómara leiksins. Úr vítinu skoraði svo Nolberto Solano sigurmark leiksins.

Eftir þetta setti Rafa Arbeloa (í sínum fyrsta leik), Guthrie og Crouch inná fyrir Pennant, Zenden og Finnan en allt kom fyrir ekki, Newcastle-menn pökkuðu í vörn og héldu forskotinu nokkuð auðveldlega út leikinn og lokatölur urðu því 2-1.

Eins pirrandi og það er að tapa með tveimur jafn kómískum mörkum og í dag (ein jólagjöf í febrúar og einn blindur vítaspyrnudómur) þá er ekki hægt að kenna óheppni eða dómgæslu um tapið í dag. Þessi leikur átti að vera kominn í svona 4-1 eða 5-1 áður en flautað var til leikhlés og það er hreint skelfilegt að horfa upp á liðið klúðra jafn ótrúlegum dauðafærum og það gerði í dag. Fyrir viku síðan gegn Everton gat liðið ekki skapað sér eitt einasta færi til að sigra leikinn – í dag voru færin jafn mörg og regndroparnir en mönnum virtist bara fyrirmunað að nýta þau. Newcastle-menn áttu fjögur skot á rammann og skoruðu tvö, okkar menn áttu níu skot á rammann og skoruðu bara eitt. Niðurstaðan = verðskuldaður sigur heimamanna. Þeir vinna sem nýta.

Maður leiksins: Ef Craig Bellamy hefði drullast til að skora úr einhverjum af færum sínum eftir jöfnunarmark Newcastle væri hann hiklaust maður leiksins, því hann var alveg jafn góður og hættulegur í dag og Kuyt var litlaus og glataður. En af því að hann klúðraði nokkrum af dauðafærum ársins fær hann þann titil ekki.

Þess í stað ætla ég að velja Jermaine Pennant, sem var eini leikmaður liðsins fyrir utan Bellamy sem spilaði af einhverri sóknargetu í dag, lagði stórvel upp markið fyrir Bellamy og hefði getað átt svona þrjár stoðsendingar í dag ef framherjarnir hefðu nýtt sín færi betur. Pennant stóð upp úr annars miðlungsgóðu Liverpool-liði í dag.

31 Comments

  1. HVERNIG FÆR MAÐUR ÞAÐ ÚT AÐ TAKA PENNANT ÚTAF FYRIR DANNY GUTHRIE OG ANTONIO NUNEZ?

    HVERNIG FÆR MAÐUR ÞAÐ SVO ÚT AÐ SKIPTA FINNAN ÚT ÞEGAR RIISE STENDUR BARA EINS OG BJÁNI?

    HVAÐ Á PETER CROUCH AÐ GERA Á 9 MÍNÚTUM? HVAÐA FETISH ER ÞETTA MEÐ AÐ SKIPTA ALLTAF INNÁ ALLT OF SEINT? MENN KOMAST EKKERT INN Í LEIKINN.

    HVAÐ ER BENITEZ AÐ SPÁ????

    HVAÐ ER AÐ ÞESSU LIÐI???

    ER EKKI ALLT Í LAGI HEIMA HJÁ ÞEIM???

    HVERNIG DETTUR MÖNNUM Í HUG AÐ DREYMA UM 1. EÐA 2. SÆTIÐ MEÐ ÞETTA RUGLLIÐ???

    MENN VERÐA HEPPNIR AÐ KOMAST Í CHAMPIONS LEAGUE MEÐ ÞESSU BÖLVAÐA ANDLEYSI, METNAÐARLEYSI OG HRÆÐILEGRI TAKTÍK!!!

    VIÐ VERÐUM SVÍNFLENGDIR AF BARCELONA OG MAN U MEÐ ÞESSU ÁFRAMHALDI.

    FIMM STIG GLÖTUÐ GEGN ÖMURLEGUM FÓTBOLTALIÐUM Á EINNI VIKU OG Á MEÐAN RÚLLA CHELSEA OG MAN U ÁFRAM ÁN VANDKVÆÐA.

  2. :mad:Ætli Benites sé búin að ná hátindi ferils síns á Englandi með framkvæmdastjóratitli janúarmánaðar. Ætli Gerrard sé búinn að ná hátindi ferils síns eftir frammistöðu síðustu tveggja leikja. Ætli það mundi eyðileggja þetta lið ef keyptur hefði verið heimsklassa framherji í janúar. Þá væri ef til vill hægt að hvíla Kuyt eins og einn leik. Ég skil það vel að menn nenni ekki að skrifa leikskýrslu eftir leik þar sem Riise er í liðinu manns. En ég veit það að í svona leikjum og í leiknum gegn Everton á dögunum kemur í ljós hvort lið eins og Liverpool getur gert tilkall til að vera í hópi hinna fjögurra stóru. Það stendur greinilega ekki undir því og ef það verður ekki orðið breytt eftir þessa leiktíð mun ég krefjast þess að RB verði látin fara fyrir næstu jól. 😡 😡 😡

  3. Kristján minn, þetta var augljós vítaspyrna, þó að þú sért pirraður, þá er óþarfi að vera með svona bull.

  4. Gaman að sjá að þessir neikvæðu eru ennþá lifandi. Svartnættið er hafið. Rekum Rafa!

  5. Takk Kristján Atli fyrir greinagóða leikskýrslu.

    Úff…ég er hálf feginn að missa af þessum leik.
    Blóðþrýstingurinn þolir ekki svona leiki. Svo ótrúlega ergjandi að tapa og eiga bunka af marktækifærum.

    Það er greinilegt að við eigum ennþá töluvert í land að komast á toppinn. Ég verð sáttur eftir þessa leiktíð að lenda í 3-4 sæti. Það var komin smá von í mig að við myndum ef til vill skáka Chelsea þessa leiktíð. En eftir síðustu tvo leiki, þá er sú von dauð. Nú er bara fyrir okkar menn að taka sig saman í andlitinu og vinna næsta leik.

    Hvernig var Gerrard í dag? Einhverjir á Liverpool spjallinu að tala um að hann hafi verið andlaus. Eitthvað til í því?

    YNWA

  6. Sjaldséð mistök frá Reina? Eru þetta ekki fjórðu eða fimmtu mistök hans á þessu tímabili?

    Ég hefði haldið að fimm mistök (skelfileg mistök) á ferlinum væri kannski ásættanlegt. En drengurinn er bara rétt að byrja.

    Jeppalegar kveðjur.

  7. Menn mega nú ekki alveg tapa sér þó það tapist einn leikur. Held að mönnum ætti það að vera ljóst að liðið er ekkert betra en að vera berjast um 4 sætið. Skoðum bara liðið, hvað eru margir miðlungsleikmenn í liðinu???

    Finnan, Riise, Zenden. Bellamy, Pennant og Sissoko (Enn og aftur kemur í ljos hvað Sissoko vantar mikið til þess að teljast klassa miðjumaður, eina sem hann getur er hlaupið og tæklað, engin sköpun, lélegar sendingar, lélegur skotmaður og lítill leikskilningur, gef honum þó sénsinn sökum aldurs)….

    Heilir 6 leikmenn!!! og eru menn hissa á að lið sem er skipað svo mörgum miðlungsleikmönnum geti tapað fyrir öðru eins miðlungsliði.

    Maður bíður bara spenntur eftir sumrinu og vonar að liðið nái 4 sætinu. Vona svo innilega að það verði gerðar almenniglega sumarhreingerningar í herbúðunum…..og í Guðanna bænum ekki byrja með það rugl að það eigi að reka Benitez.

  8. Það er fyndið að sjá að neikvæðnin er svo yfirgengileg að mönnum finnst við vera í baráttu um 4. sætið – þegar við verum í því þriðja!?!

    Vissulega er maður ógeðslega pirraður yfir þessum leik, og sennilega sýnir hann svart á hvítu (eins og svo margir leikir í vetur) að okkur vantar klassaframherja sem klárar öll þessi helv. færi sem við fáum. En höldum þessu í perspektívi, plís… :confused:

  9. Nonni… þetta var ekki augljós vítaspyrna! Þetta var ansi kryddað – horfðu vel á endursýninguna!

    Annars er ekki hægt að kenna því um tapið … þetta er spurning um að nýta færin og í dag gerðum við það ekki. Refsingin er “sanngjarnt” tap, að því leytinu til að mér finnst við hæfi að refsa liðum sem ekki nýta dauðafærin sín. Það hefur sosum ekkert breyst hvað varðar stöðu Liverpool í deildinni – þetta verður aldrei annað en baráttan um 3. sætið!

  10. Það er ótrúlegt að Liverpool skyldi tapa þessum leik. Liðið óð í færum í fyrri háfleik og lék sér að handónýtri vörn Newcastle sem Titus Brambolt fremstan í flokki.Newcastle nýtti færin, við ekki.

    Bring on Barcelona, eh??

  11. Við erum með nokkra miðlungsleikmenn já en ég set alls ekki Finnan í þann klassa. Það er alveg klárt í mínum huga.

    Pennant, Bellamy, Zenden, Riise eru miðlungsleikmenn. Sissoko hefur möguleika á því að vera toppleikmaður en í dag á hann ennþá langt í land.

  12. Svo má ekki horfa framhjá því að Sissoko átti sennilega bestu sendinguna í leiknum og hefði með öllu réttu að verða stoðsending!!!

    Áfram Liverpool!!!

  13. Það ætti að leysa riise og zenden undan samningi!!!!!!!!!!!! 😡 🙁 😡

  14. Sælir félagar.

    Ég nenni ekki að fara að velja úr þá leikmenn sem eiga að heita miðlungsleikmenn hjá klúbbnum núna, það er alveg ljóst að Benitez hefur hug á því að styrkja hópinn enn frekar á næstunni og hlakka ég afar mikið til að sjá hvað gerist í sumar.
    En… Staðan í dag er því miður sú að ég hef allt of sjaldan gaman af því að sjá liðið spila, í dag yfirgaf ég Players þegar 10mín voru eftir vegna þess að ég hafði bara ekki trú á því að við værum að fara skora!
    Ég sakna þess að njóta þess að sjá Liverpool leika klassabolta marga leiki í röð, sýna stöðugleika og sjálstraust á vellinum.
    Hef ég trú á því að Benitez muni byggja upp feiki sterkt lið á næstu árum og ég og við allir munum njóta þess að sjá liðið okkar landa Englandsmeistaratitlinum 🙂

    Þessi leikur er búinn og lítið við því að gera núna.

    Áfram Liverpool

  15. jæja ekki góður dagur í dag…. var að lesa skýrsluna og allar athugasemdinar og vá hvað það er altaf fyrsta sem kemur.. rise burt… rise klúðraði þessu.. rise á ekki að leika í treyju.. hvað er málið… rise átti t.d ekkert verri dag í dag en leikmaður í treyju númer 8 sem sýndi í dag að hann er ekkert betri en hver annar.. og ekki fyrsti leikurinn á þessu tímabil sem hann gerir það… sjá líka hvað mótlæti fer rosalega í skapið á honum.. brjóta af sér eins heimskulega og hann gerði á 92 mínútu og uppskera gult spjald.. kanski að það verði bara gott að hann geri það oftar svo hann verði nú tekinn út af í 1 leik.. æ veit ekki.. nei gerard er frábær leikmaður en það er eithvða sem segir mér að benni æti að hafa hann á beknum í næsta leik og setja alanso og sisoko á miðjuna…. held að það sé það eina sem lækni hann…
    en leikur inn í dag var nátlega ekki fótbolti.. mikið af lélegum sendingum erfiðum aðstæðum.. með smá hepni hefði verið 1-2 í hálfleik… það hefði orðið alt annar leikur… víti og ekki víti.. sumir hefðu kanski ekki flautað.. en dómarinn í dag flautaði og það alveg skiljanlegt.. þetta var víti… hann fór í hann en ég tel hann hafa ekki átt séns á að ná boltanum… og því var svo sem ekki verið að ræna hann tækifæri… en brot er brot.. dómarinn var svo sem ekkert lélegur, þó svo í hita leiksins fanst mér hann vera varnamaður newcastle.. þegar hann hindraði að gerard tæki hraða aukaspyrnu… en annars ágætur.. línuverðirnir fanst mér ekki eiga góðan dag.. voru að flagga á hluti sem voru löglegir.. og t.d er það nú bara til að kóróna daginn hjá öðrum þeirra að flagga og kippa því niður… svona gerir maður ekki… ef maður flaggar þá flaggar maður alveg sama þó svo að það sé rangt…

    niðurstaða pælingana hjá mér er bara sú að þetta var leikur færa hjá okkur en eins og oft áður þá nýttum við þau ekki… hefði vilja sjá breytingu í framlínuni í hálfleik… eða fljótlega eftir hann.. hollendingurinn okkar var bara ekki með í dag ásamt mörgum öðrum… og þannig fór…
    sárt en svona er lífið…

  16. Menn mega kannski ekki alveg missa sig þótt liðið tapi einum leik, langt síðan það hefur gerst, og benti fátt til þess eftir fyrri hálfleikinn þar sem markið sem við fengum á okkur var algerlega tilviljunarkennt. Hins vegar þá var þessi síðari hálfleikur alveg jafn ömurlega andlaus eins og Everton leikurinn. Það vantar tilfinnanlega einhvern skapandi leikmann í þetta lið og ekki bætir úr skák að Sissoko komi inn í stað Xabi. Það er vísindalega sannað að það er ekki hægt að spila fótbolta með hann í liðinu (og já, þrátt fyrir stunguna á Bellamy þegar hann skaut í slá).
    Eins og er verð ég bara að taka undir með þeim sem sagði að hópurinn er bara ekki betri en þetta og þess vegna kannski ósanngjarnt að búast við einhverju meira. Alveg klárt að lið sem er með Pennant, Riise, Sissoko, Zenden, González og Crouch í byrjunarliðinu er ekki að fara að verða meistari. :rolleyes:

  17. Sá reyndar ekki leikinn í dag en ég held að það sé alveg ljóst að við erum ekki í sama flokki og Man U og Chelsea. Getum bara einfaldlega ekki borið okkur saman við þessi lið. Við erum bara einfaldlega með of mikið af miðlungsleikmönnum til þess. Þar til við förum að kaupa einn og einn 20 millj. punda leikmann verðum við örugglega á sama stað. Þetta er bara raunveruleikinn í boltanum í dag. Nú er bara að vona að Gillet og co séu sammála.

  18. Þetta var ótrúlega svekkjandi leðjuleikur. Vallaraðstæður gerðu það að verkum að lítið var um spil. Menn náðu í mesta lagi að senda boltan 4-5 sinnum innan liðsins. Í svona leikjum er þetta spurning um heppni. Tek undir með Kristjáni að við hefðum átt að vera komnir í 3 eða 4-1 í hálfleik. Að mínu mati var Bellamy maður leiksins, hann var síógnandi og kom sér í helling af færum. Þó færin hafi ekki öll nýst breitir það því ekki að hann var okkar sprækasti maður í dag.

    Gaman að sjá Sissoko aftur á vellinum, þetta var ekta leikur fyrir hann tæklingar og læti enda fannst mér hann komast vel frá honum.

    Áttaði mig ekki á skiptingum hans Benna, afhverju að taka Pennant útaf þegar hann var einn af okkar sprækustu leikmönnum. Ekki kom mikið út úr Arbeloa né Guthrie. Skiptingarnar í stöðunni 2-1 ollu vonbrigðum og voru ekki vænlegar til árangurs.

    Nú verða menn að taka sig á og klára næstu leiki til að tryggja 3 sætið. Til að fá klassaleikmenn í sumar verður liðið að vera öruggt með að spila í Meistaradeildinni næsta vetur.

    Ekki vera með þetta bull að reka Benitez, hann mun leiða Liverpool inn í nýja gullöld.

    Krizzi

  19. Riise var klaufi að bjóða upp á þetta.Gæinn var klókur að fiska víti.Klárlega vítaspyrna.Okkar menn mega nú gera meira af þessu :rolleyes: :tongue:

    En…það er dýrt að nýta ekki færin.
    Fannst við óheppnir og……..klaufar að vinna ekki þennan leik.

    kv Stefano

  20. Alveg fáránlegt af Riise í vítinu…dómarinn var fínn…Pennant og Bellamy voru mjög góðir…hvar var Kuyt allan leikinn, skrítið að sjá hann svona lítið dominerandi en mjög gaman að sjá Sissoko aftur spila…elska þennan leikmann sem er eini leikmaðurinn sem leggur sig meira fram en Gerrard þó það megi alveg gagnrýna hann fyrir síðustu leiki þá er það alveg eðlilegt að hann sé ekki alltaf bestur. Sjáið þið Lampard…hann var alltaf bestur hjá Chelsea en núna hefur hann ekki átt góðan leik í næstum því 2 ár. Slökum á gagnrýninni….nema kannski á Riise 🙂

  21. Verulega pirrandi leikur, og margt hægt að gagnrýna, en ég er mest pirraður út í fyrirliðann okkar og þá ekki bara í þessum leik heldur mjög mörgum á tímabilinu.
    Ég veit að það er fáránlegt að ætlast til að einn maður dragi liðið uppúr meðalmennsku spileríi eins og í þessum leik en Gerrard hefur verið aðeins skugginn af sjálfum sér á þessu tímabili, svona eins og þar sem áður var eldur er aðeins glóð.
    Auðvitað er ekki hægt að kenna honum einum um hvernig fór en ég held að hann hafi gott af því að vera á bekknum í einn til tvo leiki og láta Alonso og Sissoko sjá um miðjuna.
    Júlli spyr í kommentinu á undan mér “hvar var Kuyt allan leikinn” og það er alveg rétt að hann var útúr kú í þessum leik, en þetta er í fyrsta skipti í laaangan tíma sem að hann er ekki að gera neitt, hann er vanalega út um allt að reyna og þó að hann hafi dottið út úr leiknum í þetta skiptið á ég auðvelt með að fyrirgefa honum.
    Annars er víst hlé í deildinni um næstu helgi og það er auðvitað hundfúllt að vera með þessi úrslit á bakinu í 2 vikur en næsti leikur okkar manna í deildinni er gegn Sheffield United á Anfield og þá fáum við kjörið tækifæri til að koma okkur í gírinn fyrir leikinn gegn Manure 🙂

  22. jæja þá er arsenal 1 stigi á eftir okkur og einum leik færra… tökkk sé bæði góðum og slökum línuverði leiksins í dag að þakka… en bæði mörk arsenal í dag voru rangstöður… og því skömm að þeir hafi sigrað annars baráttuglatt lið wigan í dag… og okkar gamli striker, emil nokkur hersky.. átti nú að koma þeim í 2 núll…
    vakt athigli mína hversu lélegur þulur snorri már er… að geta ekki gagrínt dómarann þegar stóra liðið á í hlut á móti mun minna liði.. í jöfnunarmarkinu var sínt með línu að hann hafi verið rangstæður og snorri már sagði ekki neitt… bara jájá…

    en auðvita á maður ekkert að vera að skrifa þetta hér…

    og já hafliði. vonandi getum við unnið sheffield.. getum alveg eins tapað ef við verðum alveg jafn andlausir og í everton leiknum..

  23. Að tala um að reka rafa benitez er ótímabær umræða. En hins vegar er eftirfarandi setnig aldrey of oft kveðin: ” Þau lið sem nýta ekki færin(dauðafærin í þessu tilfelli) vinna ekki leiki ” . Svo einfalt er það. Meira hef ég ekki að segja um leik gærdagsins.

  24. Að Bolo Zenden, skuli komast í þetta lið segir meira en mörg orð. Nýstiginn upp úr meiðslum og í engu leikformi í þokkabót.

    Rafael fær líklega eitt tímabil í viðbót, plús gríðarlegt frjármagn í sumar, svo maður verður bara að styðja manninn líka, þrátt fyrir allar efasemdinar.

  25. Sýnist augljóst að við náum 4. sætinu. En ég held samt að við klárum Barca en dettum samt út í 8 liða úrslitum meistaradeildar. Alltaf gaman að vera púllari.

  26. Hæ, neikvæðir. Við söknuðum ykkar á sigurgöngunni. Sigtryggur, þú ert m.a.s. kominn aftur í barnaskapinn sem þú sagðist ætla að hætta.

    Ég sá bara fyrri hálfleikinn og þetta var vissulega gríðarlega svekkjandi. Skil ekki alveg hvernig menn fá það út að Bellamy sé meðalmaður eftir svona leik. Hann skapaði sér gríðarlega góð færi og þetta var einfaldlega einn af þessum dögum þar sem boltinn lá ekki fyrir honum (nema í markinu).

    Ég hef umtalsvert meiri áhyggjur af Kuyt, sem hefur verið afleitur í síðustu þrem leikjum.

    En allavegana, við getum gleymt öðru sætinu.

    En hefði bara Bellamy skorað úr einhverju af þessum færum, þá værum við að fagna glæsilegum sigri. Við vorum óheppnir á laugardaginn, en Arsenal heppnir gegn Wigan. Svona er þetta bara.

    En hvar er Aurelio???

  27. Aurelio hlýtur bara ennþá að hafa verið meiddur, spurning hvort hann komi inn fyrir Riise gegn Barca.

Newcastle í dag frestað? Já? Nei?

Sagan endalausa