Íþrótta”fréttamenn”

Ég er íþróttafréttamaður.

Hvað þarf eiginlega til að maður geti kallað sig íþróttafréttamann? Þarftu eitthvað fjölmiðlapróf? Þarftu að “meika sens”? Þarftu að geta gert upp á milli góðra heimilda og slúðurs? Þarftu að vera ábyrgur orða þinna? Þarftu að hafa hundsvit á því sem þú segir? Svarið við öllum þessum spurningum er NEI. Hvað með sérstaka “sérfræðinga”? Er það eina sem skiptir máli að hafa sparkað tuðru fyrir eða stjórnað liði á Íslandi sem hefur verið að reyna að spila “knattspyrnu”? Þarna virðist svarið vera JÁ.

Ég hef átt gott samband við margan íþróttafréttamanninn og flestir, ef ekki allir þeirra, eru afskaplega góðir kallar. Ég hef passað mig í gegnum tíðina að gagnrýna þá ekki opinberlega, og þá sérstaklega vegna skyldu minnar er sneri að Liverpoolklúbbnum á Íslandi. Nú er ég frjáls ferða minna á opinberum vettvangi og því ekkert sem stoppar mann að setja hugleiðingar sínar á prent. Ég hef ekki fundið mig knúinn til þess hingað til, en undanfarið hefur alveg keyrt í þverbak. Sá viðvaningsháttur sem hefur verið í þessari stétt er með hreinum ólíkindum. Það virðist vera orðið nóg að geta brosað, slegið fram fyrirsögnum (a la gula pressan) og geta þýtt einstaka fréttir úr mestu sorpritum knattspyrnunnar. Metnaðurinn í íþróttafréttamennsku á Íslandi í dag (er snýr að mínu áhugamáli, enska boltanum) er enginn, segi ég og skrifa ENGINN. Margir hverjir virðast gjörsamlega skorta almenna skynsemi í sinni umfjöllun. Dómgreindarbresturinn þegar kemur að öflun heimilda og ábyggileika frétta er því miður oft á tíðum algjör.

Hvað er ég að meina? Á ég að ganga alla leið í pistlinum og nafngreina menn? Því ekki? Þetta er nú einu sinni BLOGG. Í mínum huga þá gengur blogg út á að greina frá sínum hugleiðingum á opinberum vettvangi. Ég ætla ekki að ráðast á einstaka persónur í þessum hugleiðingum, heldur er ég fyrst og fremst að efast um hæfni þeirra að sinna því starfi sem þeim er BORGAÐ fyrir og það í fullri vinnu. Það skal þó tekið fram að sumir sem hafa sinnt þessum störfum eru vel starfi sínu vaxnir og leggja mikinn metnað í það sem þeir láta frá sér. Því miður eru þeir þó í almennum minnihluta í þessari “stétt”. Þarna er ég að vísa í menn eins og Snorra Sturluson og Skapta Hallgrímsson meðal annars.

Hvar á að byrja? Hans Steinar Bjarnason hefur slegið gjörsamlega í gegn með sínu frábæra mati á áreiðanleika frétta. Hann tók upp frétt (veit ekki hver skrifaði hana) af www.visir.is um meint skrílslæti leikmanna Liverpool í Portúgal. Þar var vitnað beint í hið “virta” rit News of the World. Þeir hafa einmitt verið þekktir fyrir virkilega áreiðanlegar uppspunnar sögur. Þeir á Vísi höfðu þó fyrir því að tala um að þetta væri slúðurblað, en Hansi blessaður sagði frá þessu sem heilögum sannleik og talaði einmitt um að Bellamy “tók með sér golfkylfu og sparkaði hurðina á herbergi Riise niður. Hann lét höggin dynja á fótleggjum Riise er hann lá í rúminu”. Þetta var aðal fréttin hjá honum. Þetta var mun stærri frétt hjá þeim þarna á stöðinni heldur en þegar þetta fornfræga félag var keypt á sínum tíma. Jú, gott og vel, svona sögur selja, en hafa þessir “íþróttafréttamenn” enga þörf fyrir að greina á milli þess sem er hreint og klárt slúður og þess að velja fréttir af miðlum geta talist ábyggilegir?

Það virðist enginn krafa vera gerð á þessum miðlum, hvorki nú né fyrr, um að menn hafi snefil af þekkingu á því efni sem menn eiga að vera að fjalla um. Auðvitað geta menn fræðst um þetta með tíð og tíma, en ég man nú samt eins og gerst hafi í gær þegar einn ákveðinn aðili var að segja frá fræknum sigri Liverpool í Evrópukeppni í fréttum útvarpsins og tók svona til orða “…og Simon Westerfield átti stórleik í marki Liverpool”. Það er ekki gerð krafa um að menn viti neitt um boltann (í seinni tíma er Höddi Magg reyndar algjör undantekning á þessu) heldur bara að hafa spilað einhverntíman á Íslandi eða komið nálægt einhverri annarri íþrótt. Hann sagði þessa fleygu setningu þegar ég var á akstri og hann varð þar með nánast valdur að umferðarslysi, mér var svo um að heyra um þennan glænýja markvörð Liverpool. Sander Westerveld hafði einmitt staðið í markinu hjá okkar mönnum í leikjunum á undan honum Simon. Það er ekki einu sinni gerð krafa um að menn geti talað íslenskt mál skammlaust. Ég gleymi því aldrei þegar ég heyrði af því að téður maður hafi kært Skjá 1 á sínum tíma fyrir að vera með þuli á leikjum sem töluðu annað mál en Íslensku. Til hvaða tungumála teljast orð eins og “hossspyddna” og “ússspark”?

Ég ætla ekki að koma inn á “íþróttafréttamennina” á RÚV. Það er einföld ástæða fyrir því. Ég horfi ekki á RÚV. Þar er bara ekkert sem ég hef áhuga á að horfa á, og alls ekkert þar sem tengist íþróttum og ég hef áhuga á.

“Íþróttafréttaritara” á blöðunum og á hinum ýmsu netmiðlum eru nú ekki af hærri standard (eins og áður er ég að tala um heilt yfir, því sums staðar leynast hæfir menn inn á milli). Mér finnst reyndar stór munur á vefsíðum eins og fotbolti.net og svo atvinnublöðunum. Standardinn á síðum eins og fotbolti.net er fjarri því að vera hár, þvert á móti. Það starf sem þar fer fram er að mestu leiti unnið af áhugamönnum. Ungum pennum sem eru að ryðja sér braut. Sú síða er reyndar því miður að gjalda þess að ritstjórnin þar er bara ekki að virka. Alls ekki. Það væri einfalt mál að gera þá síðu bara sæmilega. Hvað þarf til? Jú, setja upp ákveðinn standard á þær heimildir sem verið er að vitna í. Þar eru sérstakar slúðurfréttir, þar sem verið er að taka saman “slúðrir” af BBC (sambærilega samantekt að ég held). Vandamálið liggur í því að allt of margar aðrar fréttir eru einmitt hreint og klárt slúður. Ég geri mér þó grein fyrir því að sumir vilja einmitt sjá það, en til þess er líka samantektin. Ef menn vilja láta taka sig alvarlega, þá velja menn úr fréttir. Gæði umfram magn, vanda þýðingar, stafsetningar og frágang. Ef þetta væri gert, þá væri fotbolti.net virkilega góð síða (það að vitna í sorpritið á Englandi í annarri hverri frétt er eitt og sér að setja stimpil á ennið á síðunni sem svipar til stimpils sem er sett á hausinn á lömbum sem búið er að ákveða að slátra). Ég ætla ekki einu sinni að minnast á gras.is, þar er ekki einu sinni hægt að vorkenna mönnum fyrir að gera þetta í frístundum, svo slæmur er fréttaflutningurinn.

En hinar síðurnar (mbl.is, visir.is og blöðin) hafa einfaldlega ekki þessa afsökun. Þ.e. þar eru menn að fá fullt borgað fyrir þetta. Þeir eiga sem sagt að teljast atvinnumenn í faginu. Þeir eru samt í gjörsamlega sama fari og hafa sér mun minna til málsbóta en þeir sem eru að grípa í þessi skrif á milli annarra verka. Hvar er metnaðurinn? Er hann bara ekki til staðar? Maður hefði haldið að hann ætti að liggja þarna einhversstaðar ef mið er tekið af því hversu gríðarlegur áhugi er fyrir enska boltanum á Íslandi. Sjónvarpsstöðvarnar eru að borga stjarnfræðilegar upphæðir fyrir sjónvarpsréttinn, en svo er metnaðurinn enginn þegar kemur að þeim mannskap sem fjalla á um þetta.

Lítum á “sérfræðingana”. Þar eru kvaddir til uppgjafa knattspyrnumenn, þjálfara, vinir og vandamenn. Meistaradeildin í síðustu umferð. Þar horfði maður á tvo aðila sitja í þeim “frábæra” þætti “Boltinn með Guðna Bergs” og ausa úr viskubrunnum sínum. Flott mál, enda liðið þeirra að spila. Líklega fáir Lille stuðningsmenn á landinu og því um að gera að fá menn með hjartað á “réttum” stað í settið til að fjalla um aðal leik kvöldsins og því tveir stuðningsmenn Man U kallaðir til. Gott og vel og afar skiljanlegt. Kvöldið eftir var svo STÓRLEIKUR umferðarinnar. Liverpool – Barcelona og allir spenntir. Nóg af Barca stuðningsmönnum (eða Eiðs stuðningsmönnum) til á landinu til að fá einn frá hvoru liði. Þar sem einungis “frægir” aðilar eru fengnir í þennan þátt, þá hefði samt ekki verið mikið mál að redda því. Neibbs, aðrir tveir Man U menn í settið. Hversu fáránlegt er þetta? Hinn “viðkunnanlegi” Maggi Gylfa og hinn “hlutlausi” Óli Þórðar. Frábært! Til að toppa þetta allt var aðal aulahúmoristinn og Man U stuðningsmaðurinn, Logi Ólafs að lýsa leiknum með Adda Björns. Og hversu lengi voru þeir félagar Arnar og Logi búnir að bíða eftir því að geta komið með Dudek brandarann sinn: “nei, Reina var þetta að sjálfsögðu … Dudek er ekki inná, hann er sennilega ennþá í handjárnum”. Logi má þó eiga það að hann smellti sér ekki í sama þunglyndi og þeir Man U félagar hans í settinu gerðu. Þeir voru nánast óhugganlegir yfir því að Liverpool skyldi vinna þennan leik. “Sérfræðingar” í setti eru bara af skornum skammti greinilega, en af hverju ekki að fá bara Ladda eða einhvern til að lýsa ef þetta snýst um að koma að sem flestum fimmaurabröndurum?

Nei, ég er ekki hættur. Þetta er uppsafnað og þeir sem hafa ekki áhuga á þessum hugleiðingum eru hvort sem er löngu hættir að lesa. Þið hin sem ennþá eruð að lesa, þið eruð vonandi að gera það af áhuga frekar en hneykslun á viðhorfi mínu. Hvort sem það er, þá ætla ég samt að halda áfram. Er þó alveg að vera búinn að hleypa út öllu þessu uppsafnaða ergelsi.

Liðið mitt var þáttur sem Enski Boltinn byrjaði með. Öðruvísi þáttur þar sem stuðningsmenn sem lifðu og hrærðust í því sem gerðist hjá þeirra félögum komu og spjölluðu saman um liðin og boltann. Þeir voru hreinlega ekki nógu frægir og í þeirra stað þurfti að finna einhverja sem betur hæfðu Bödda Bergs. Hemmi Gunn og fleiri sem aldrei er hægt að fá nóg af (þeir sem ekki náðu því, þá er þetta kaldhæðni). Sumir reyndar ágætir, en þátturinn oft á tíðum farinn að fjalla um hinn einstaklega skemmtilega íslenska bolta. Liðið mitt, give me a break. Mér finnst reyndar Snorri Már hafa verið að gera góða hluti í því að fá til sín alls konar menn í “Á völlinn”. Eitthvað aðein öðruvísi en þessi gömlu hunda sem flestir eru komnir með hundleið á, enda hafa þeir ítrekað sýnt að þeir hafa ekkert meira vit á því sem verið er að fjalla um heldur en þeir sem sitja fyrir framan kassann. Það er reyndar stundum fróðlegt að fylgjast með greiningum þeirra Willum og Gumma Torfa, en þeir eru álíka líflegir í útsendingu eins og tré sem nýbúið er að fella. Það sem ég hef gaman að þar er að loksins er byrjað að nýta sér tæknina við að brjóta upp og skoða leikatriði.

Gummi Torfa náði nú reyndar að slá í gegn í beinni útsendingu á leik Fulham og Man U um daginn. Þar fór hann í upptalningu á því af hverju Liverpool var ekki að blanda sér í baráttuna við Man U , Chelsea og ARSENAL! Stórkostleg komment og það þarf ekki að fara nánar út í þau, Einar Örn hefur gert það vel á þessari síðu og þau eru bara svo fáránleg að það tekur því ekki að eyða fleiri orðum í það.

Ég hef stundum spáð í því hvort um sé að ræða æviráðningar í störf íþróttafréttamanna. Það er einn mjög efnilegur norðan heiða sem ég held að menn ættu að fara að líta hýru auga til. Hann er meira að segja að mennta sig í fræðunum. Hann líka veit muninn á sora heimildum og þeim sem stólandi er á. Hann er bráðgáfaður og lítur ákaflega vel út, má eiginlega segja að hann sé sá efnilegasti sem fram hefur komið norðan Suðurskautslandsins. Hann heitir Hjalti og síminn hans er…

Nei annars, það sem ég hreinlega skil ekki er metnaðarleysi það sem almennt virðist vera í gangi þegar kemur að umfjöllun margra fjölmiðla um enska boltann. Illa uppsettar fréttir, lélegt fréttaval, lélegt val á viðmælendum, stjörnudýrkum á útbrunnum Íslendingum, hræðilegt mat á áreiðanleika heimilda og bara almennt algjör “amatör”mennska. Fréttir um enska boltann mun ég í framtíðinni eingöngu lesa á ábyggilegum erlendum síðum, lýsingar mun ég fá á pöbbnum og enskum rásum SkjáSports og næsta skref verður svo að láta gamlan draum rætast og fá mér gervihnattardisk og þar með Sky pakkann í heild sinni.

54 Comments

  1. ef þú ert með EnskaBoltan,Sýn og Stöð2 er eina vitið að segja því upp og fá þér Sky disk. mánaðagreiðslan er minni en stofnkostnaðurinn að vísu 70-100þús

    en aðrar góðar rásir vilgja einnig

  2. Engin smá uppsöfnuð frústerasjón í gangi hér. Margt til í þessu. Reyndar kemur upp í hugann mjög skemmtileg lýsing Gaupa (Liverpoolmanns) á einhverjum leik fyrir einhverjum árum. Þegar hann var að lýsa leik með JimmY Floyd Hasselbaink. Þegar leikmaðurinn var að hlaupa með boltann missti Gaupi út úr sér; “Sjáiði þessi læri, þetta eru eins og olíubornir símastaurar!”. Svo kom smá þögn þar sem hann hefur eflaust verið að huxa, hvað í andskotanum var ég að segja. Sérdeilis prýðis lýsing það. Gaupi er náttúrulega bara legend. YNWA.

  3. Djöfull er ég algjörlega 100% sammála þér SSteinn , frábær pistill!! :biggrin2:

  4. Frábær pistill og kominn tími á að einhver segi þetta. Fyrir mér er vandamálið með fréttaumfjöllun og lýsingar af enskri knattspyrnu á íslandi margþætt, en þó má tína til tvo helstu punktana:

    1. Áreiðanleikamat. Það er vissulega sorglegt að allir stóru miðlarnir skuli hafa apað upp ýkjufrétt News of the World af Riise/Bellamy-málinu sem heilagan sannleik, en ENGINN ÞEIRRA skuli svo hafa fylgt því eftir degi síðar með orðum Rafa Benítez um að málinu væri lokið og liðið að fókusera á leikinn við Barca. Halda menn að ef Bellamy hefði “látið höggin dynja á fótum Riise” að hann hefði verið valinn í liðið gegn Barca? News of the World var augljóslega að ljúga í frétt sinni.

    2. Hinir svokölluðu sérfræðingar. Ég hef lítið út á íþróttafréttamennina sjálfa að setja, menn eru misjafnir og allt það en á heildina litið pirra þeir mig ekki mikið. Ég persónulega er t.d. hrifnari af Arnari Björns og Hödda Magg en Gaupa og Þorsteini Guðmunds, en það er bara ég. Sama gildir um þá á RÚV og SkjáSport. En sérfræðingarnir eru allt annað mál.

    Dæmi 1: Guðni Bergsson og Willum Þór Þórsson hafa heilmikið vit á knattspyrnu og maður tekur mark á því sem þeir segja. Þeir ná líka báðir að halda sér hlutlausum, þótt annar þeirra beri alkunnar taugar til Bolton og Tottenham og hinn sé yfirlýstur stuðningsmaður Chelsea. Munurinn er hins vegar sá að Guðni Bergsson er ekki steindauður fyrir framan myndavélina. Eins fróður og Willum er verða menn að muna að þetta er sjónvarpsefni, og sem slíkt verður það að vera skemmtilegt jafnt og fræðandi.

    Dæmi 2: Hlutleysi, eða skortur á því. Til dæmis, þá hef ég oft horft á umfjöllun Sýnar í kringum Meistaradeildina og ég veit ekki enn með hvaða liði Heimir Karlsson heldur. Það virðist ekki skipta máli, því hann má eiga það að hann er mjög fagmannlegur í þessu og mjög hlutlaus fyrir framan myndavélarnar. Þegar slökkt er á þeim má vel vera að hann bölvi því að Liverpool eða United eða Arsenal hafi tapað stigum, en hann er hlutlaus fyrir framan vélarnar. Sama gildir um sérfræðinga á borð við Heimi Guðjóns, Gylfa Orra, Bjarna þjálfara og fleiri.

    HINS VEGAR … eiga menn eins og Óli Þórðar, Maggi Gylfa, Hemmi Gunn, Logi Ólafs og Gummi Torfa ekkert erindi á skjáinn. Þetta eru menn sem halda flestir eða allir með Manchester United, en þeir eiga það sameiginlegt að geta ómögulega verið hlutlausir í útsendingu. Þunglyndið á andlitum Óla og Magga eftir sigur okkar manna á Barcelona, sem og tregi þeirra til að hrósa Liverpool, var átakanlega móðgandi á að horfa og það þurfti fyrrum dómarann Gylfa Orra til að segja að Liverpool ætti hrós skilið fyrir að VINNA EVRÓPULEIK Á NOU CAMP, eins og einhver vafi léki á því.

    Þetta er einfaldlega óþolandi. Það er sama hvort um er að ræða mál eins og Bellamy/Riise, slagsmál Arsenal- og Chelsea-manna á sunnudag eða slúður í kringum menn eins og Thierry Henry og Steven Gerrard sem eru alltaf “á leiðinni í burtu” frá sínum klúbbum, þá er umfjöllun stóru miðlanna langt því frá að vera ábyrgur. Og að bjóða manni svo upp á óvönduð og augljóslega hlutdræg vinnubrögð á skjánum í hverri einustu fokking viku er nóg til að hver maður froðufelli.

    Í alvöru, hvernig gátu tveir yfirlýstir Manchester United aðdáendur fengið að segja sitt sérfræðiálit á leik Barcelona og Liverpool, á meðan stuðningsmenn þessara tveggja feykivinsælu liða áttu engan fulltrúa? Þetta er óverjandi að mínu mati.

    Jæja nóg komið, þetta komment er að verða jafn langt og pistill SSteins. En eins og hann hefur þetta verið innbyrgt töluvert lengi hjá manni.

  5. Ég er gjörsamlega sammála!

    Ég les ekkert nema þessa síðu og erlendar. Segir það ekki soldið mikið um íslenska fjölmiðla að þetta blogg sé áreiðanlegra en þeir?

    Svo liggur við að ég taki mér bara lán fyrir startkostnaðinum á Sky og borgi það að loknu námi eftir nokkur ár! Er til “gervihnattadiskalán”? 🙂

  6. Góður pistill og þörf umræða.

    Ég veit um marga sem eiga þann draum að gerast íþróttafréttamenn. Þess vegna skil ég engan veginn hvers vegna það er svona lítið “turnover” í þessari stétt. Ég stend alltaf í þeirri meiningu að þeir bestu fái að halda sínum störfum og þeir sem valdi ekki sínu jobbi þurfi að fjúka. Ég neita hreinlega að trúa að það séu ekki til einhverjir úti í þjóðfélaginu sem geti staðið sig betur.

    Annars langaði mig að benda á óafsakanlegt dæmi sem gerðist í íþróttafréttum S2 í gærkvöldi (reyndar tengist fótboltanum ekki neitt). Grípum niður í fréttatímann:

    Edda Andrésar:
    “Snorri Steinn að fara frá Þýskalandi, af hverju er það?”

    Hans Steinar:
    “Já einn okkar sterkustu handboltamönnum ætlar að fara frá sterkustu deild í heimi til Danmerkur sem er svolítið skrýtið. Hann segir það fullreynt að komast að hjá sterkustu liðunum í Þýskalandi þannig að hann ætlar að komast í Evrópukeppnina frá Danmörku”

    Innslagið endar að þau tvö, ásamt Sigmundi Erni, flissa að þessari ákvörðun.

    Látum vera að þetta sé einhver della hjá Snorra. Er orðið atvinnumennska fjarskylt á fréttastöð stöðvar tvö? Segið okkur fréttirnar og látið okkur um að ákveða hvað sé rétt og rangt.

  7. Ég er kannski vanhæfur að fjalla mikið um þetta þar sem ég er búsettur erlendis en…

    Ég var ávallt hrifinn af Gauja Þórðar við skjáinn og fannst oft gaman að lesa pistla Óskars Hrafns en þeir eru víst ekki mikið við skjáinn eða í prentmiðlum þessa dagana.

    Hvað varðar innslagið sem Makkarinn talar um þá tel ég þetta skref uppá við fyrir Snorra Stein að fara frá lélegu liði í Þýskalandi til toppliðs í Danmörku og með möguleika á Meistaradeildinni ár hvert.

    Vonandi mun þessi frábæri pistill SSteinn vekja einhverja umræðu um “íþróttafréttamenn” og þeir jafnvel hringja í SSteinn, Einar Örn, Kristján Atla eða Hjalta næst þegar Liverpool mætir Barcelona 🙂

  8. frábær póstur og ég gæti ekki verið meira sammála um þér um marga af þessum íslensku íþróttafréttamönnum, Ég elska enska fótboltann og finnst ekkert skemmtilegra að horfa á heldur en flest sem tengist honum en Það leiðinlegasta og þreyttasta sem ég hef séð í sjónverpi er þátturinn að leikslokum sem er daufasta sjónvarpsefni í heimi held ég, ég er alltaf kominn með æluna uppí háls af ógeði af hverju marki sem skorað er helgina áður eftir að hafa horft á þennan þátt því hvert atriði í kringum markið er endurtekið minnst fjórum sinnum af daufustu sjónvarpsmönnum landsins…

    Takk fyrir

  9. Flottur Steini, flottur 🙂

    Ég man þegar við kynntumst fyrst, þá varstu að tala um lélegan fréttaflutning og því er þetta svo sannarlega uppsafnað hjá þér!!

    Því miður hef ég ekki tíma til að svara þessu eins og ég vil en við höfum þá bara eitthvað til að ræða þegar við förum saman til Liverpool á föstdaginn :biggrin2:

    Bendi samt sem áður á að Fótbolti.net ákvað fyrstur allra fjölmiðla að birta heimildir við ÖLLUM fréttum sem hann skrifar. Þannig getur þú bara ákveðið hverju þú trúir eða ekki. Þú sérð hvaðan allt er komið, þú ræður síðan hverju þú trúir og hverju ekki. Mest er tekið frá Reuters, BBC og Sky.

    Ég er reyndar ekkert hrifinn af Sky en það kæmu inn mun færri fréttir ef það mætti bara taka af þessum áreiðanlegustu miðlum. Samt mætti skoða stefnuna “gæði umfram magn,” en það er svoooo margt sem spilar inn í þetta.

    Já og kannski ein spurning Steini, fyrir mig og aðra, hvaða miðlar finnst þér vera áreiðanlegastir af þeim sem ekki eru opinberar heimasíður? 🙂

  10. Mér finnst nú algjör óþarfi að blanda Loga Ólafs inní þetta, bara því hann á það til að segja misfyndna fimm-aura brandara. Ég trúi því hreinlega ekki að þessi Dudek brandari hafi farið svona hrikalega í taugarnar á einhverjum.

    Að öðru leyti er ég fyllilega sammála þessum pistli. Eitt sem mér fannst gleymast. Það er þegar lýsendurnir nafngreina leikmenn vitlaust. Stundum er það útaf því að leikmennirnir eru líkir útlits (báðir ljóshærðir, báðir dökkir hörunds, etc.) sem er nógu slæmt, en svo hafa komið tilvik þar sem þessir lýsendur (oftast Þorsteinn) eru að ruglast á gjörólíkum einstaklingum. Man eftir einu atviki þar sem Ryan Giggs var á hlaupum með boltann og það var sagt “og Paul Scholes með boltann…”

  11. Allt þetta uppsafnaða hjá mér hvarf eftir þessa lesningu. Minnir að Snorri Steinn, eftir spurningu fréttamanns “hvort hann væri að taka á sig launalækkun?” hafi svarað “nei miklu betri samningur”
    En annars takk fyrir góða síðu keep it up

    Ynwa

    monsi mascherano :tongue:

  12. Smá forvitnis-spurning til SSteins… hvaða menn viltu fá í stað allra þessara vonlausu manna? Vil að þú nefnir þá nokkra, hefur þegar nefnt þennan mikla sparkspeking og sérfræðing norðan heiða.

  13. Þeir aðilar sem ég “held mest upp á” eru Höddi Magg og Arnar Björnsson – þetta eru klárir menn og skemmtilegir. Elska það þegar Höddi fer úr límingunum af æsingi yfir einhverju í leik.

    Þó ég sé sammála mörgu sem SSteinn segir, þá fara þessir spekingar alls ekki svona illa í mig. Sorrí gæs, en fyrir mér er þetta skemmtun og fótboltinn er aðalatriðið. Blaðrið í spekingunum er ekki að fara illa með mig.

    Ég er alls ekki að verja Magga Gylfa eða Óla Þórðar (þó svo að Óli sé núna þjálfari míns íslenska liðs… ehemm!) sem framúrskarandi fræðinga … en hef gaman stundum af þessu skotum Man U mannanna eða annarra … Sýn er að gera frábæra hluti með útsendingum frá meistaradeildinni, og ég læt ekki smámál eins og leiðinlega spekínga bögga mig mikið.

    Svo er líka svo gaman að kvarta og kveina yfir þeim daginn eftir ef þeir hafa gert einhvern skandal.. :biggrin2:

    Það væri gaman að sjá lista yfir alla lýsendur og fræðinga, og gera svo skoðanakönnun á því hverjir eru skemmtilegastir og bestir – og hvaða tveir virka best saman o.s.frv. … kannanir eru svo skemmtilegar.

  14. Til dæmis, þá hef ég oft horft á umfjöllun Sýnar í kringum Meistaradeildina og ég veit ekki enn með hvaða liði Heimir Karlsson heldur.

    Menn eru nú ekkert mikið að flagga því þegar menn halda með Derby County. En varðandi pistilinn þá er ég sammála nánast hverju einasta orði. Eina undantekningin eins og Hjalti minnist á þá finnst mér fotbolti.net eiga hrós skilið fyrir að linka í heimildirnar.

  15. Virkilega þörf umræða, mikið hefur verið rætt um þessi mál yfir enska boltanum í okkar hópi. Engu við þetta að bæta, pistillinn segir allt sem segja þarf um þessi mál, vonandi að við sjáum einhverjar úrbætur.

  16. Flott grein og þótt þetta sé víðlesin heimasíða þá ættir þú að koma þessu í blöðin, senda á Týra(er ekkert minnst á hann)
    Áfram Liverpool

  17. ensku mörkin með Bjarna Fel á mánudagskvöldum er reyndar frábær þáttur og Bjarni gerir þetta betur en aðrir. Reyndar hefur hann aldrei verið skýrari en einmitt nú. Svo er líka unun að hlusta á Einar Loga fjalla um spænska boltann.

  18. Mjög sammála flestu sem fram hefur komið. Ég man sérstaklega eftir einum leik sem fram fór fyrir stuttu og fór sérstaklega í þær fínustu, Norður Írland – Ísland. Þar var Gaubi að lýsa einn og hann talaði stanslaust í 90 mínútur án þess að anda inn, og það sem verra var er að það var um ekki neitt. Fyrir utan að hæla Eiði Smára upp undir 100 sinnum í leiknum, þá voru þetta 90 mín fullar af frösum eins og; Þetta er náttúrulega gargandi snilld, þeir eru miklu mun betri og svo videre.

    Það mætti gjarnan linka á umfjöllun Einars um hvað Gummi Ben var að tjá sig í leik Fulham og manchester united, missti af því.

  19. Mér finnst vanta eitt í pistilinn hjá SSteina, það er þessi endalausa tölvunotkun hjá þeim sem eru að lýsa leikjunum, þetta á bæði við um Sýnar- og Skjásportsmenn, hef ekki orðið var við þetta hjá Rúv ennþá.
    Það koma stundum langar þagnir þegar að þeir eru að “leika” sér í tölvunni og ég vil meina að þegar að þeir eru að rugla saman mönnum á vellinum sé það vegna þess að þeir eru að reyna að lesa af tölvuskjánum og um leið að horfa á leikinn, það vita það allir að karlar geta ekki gert tvennt í einu. Spurning um að fá fleiri konur í stéttina? 😯

  20. Garðar, greinin sem ég skrifaði um Gumma Torfa og framherjana hjá Liverpool er [hér](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2007/02/24/13.08.22/).

    Annars er ég sammála þessu öllu. Það sem mér finnst svakalegt er að það er fullt af fólki þarna úti sem fær sínar einu fréttir af enska boltanum í Mogganum og á sjónvarpsstöðvunum. Þetta er kannski allt í lagi fyrir okkur sem eru fársjúkir aðdáendur Liverpool, en fyrir þá sem eru svona casual og fylgjast með fréttum í sjónvarpi, þeir halda sennilega allir að Bellamy hafi barið í lappirnar á Riise og að þessi eða hinn leikmaðurinn sé að koma til liðsins.

  21. Jæja, góð viðbrögð við þessu og þakka þeim sem nenntu að staula sig í gegnum þetta allt :biggrin:

    Best að svara nokkrum kommentum hérna:

    Sammála punkti eitt Kristján. Meira að segja þegar fleiri kurl voru komin til grafar í fréttum kvöldið eftir, þá var fyrri frásögnin ítrekuð. Þá voru samt komnar myndir opinberlega af liðinu á æfingu og sá sem var barinn ÍTREKAÐ í lappirnar með golfkylfu, var þar ómeiddur.

    Einnig sammála Makkarunum með þetta Turnover. Eins og ég sagði í pistlinum, þá virðast menn fá lífstíðarráðningu, alveg sama hversu illa menn standa sig. Þarna er stærsta metnaðarleysið. Það virðist engu máli skipta fyrir stjórnendur þessara miðla hversu slakir starfsmennirnir eru.

    Sammála öllum hérna með Gumma Torfa. Þetta er sjónvarp for crying out loud. Það að horfa á hann og hlusta er eins og að gróðursetja fræ í blómapott og fylgjast með því vaxa. Eflaust fínn náungi, en lífsins ómögulegt að halda sér vakandi við að hlusta á hann.

    Mér finnst nú algjör óþarfi að blanda Loga Ólafs inní þetta, bara því hann á það til að segja misfyndna fimm-aura brandara. Ég trúi því hreinlega ekki að þessi Dudek brandari hafi farið svona hrikalega í taugarnar á einhverjum.

    Þetta hefur ekkert með Dudek brandarann að gera. Mér finnst samt alveg sjálfsagt að blanda Loga inní þetta. Þó svo að hann sé líflegri en Gummi Torfa (reyndar erfitt að vera það ekki) þá virðist bara vera eitt markmið hjá honum og það er að koma með fimmaurabrandara. Hann þarf hreinlega að gera grín að öllu og öllum og mörgum stekkur ekki bros á vör við þessa brandara (þó auðvitað sumum finnist hann fyndinn). Ég segi því, af hverju ekki að ráða bara atvinnuspaugara í þetta ef þetta er aðal málið? Ég horfi á gamanþætti til að hlægja, fótboltinn er eitthvað sem ég sit gríðarlega spenntur yfir og oft á tíðum getur svona aulaskapur gert mig sjóðvitlausan fyrir framan skjáinn. Fáum þá bara alvöru uppistandara sem “sérfræðing” ef sérhæfingin er að reyna að vera fyndinn. Svo sem allt í lagi að hafa létt yfir þessu inn á milli, en annað að hafa þetta að aðal markmiði og halda sjálfur að maður sé óstjórnlega mikill brandarakall.

    Eitt sem mér fannst gleymast. Það er þegar lýsendurnir nafngreina leikmenn vitlaust.

    Tók nú frægt dæmi um Simon Westerfield, sem er reyndar ekki það sama og að rugla saman leikmönnum. En er sammála þér með þetta, lágmarks krafa að þessir kallar hafi örlítið meira vit á því hver er hvað, heldur en almenningur inni í stofu fyrir framan imbann.

    Smá forvitnis-spurning til SSteins… hvaða menn viltu fá í stað allra þessara vonlausu manna? Vil að þú nefnir þá nokkra, hefur þegar nefnt þennan mikla sparkspeking og sérfræðing norðan heiða.

    Hjalti er auðvitað tipp topp kostur, engin spurning um það 🙂 Svo nefndi ég tvo mjög góða þarna líka. Veit alveg að Höddi leggur metnað sinn í sínar fréttir og svo eflaust fleiri. Ég held að stóra vandamálið sé ekki skortur á mönnum, held að það sé fullt af ungum og sprækum mönnum með common sens sem eru þarna úti. Vandamálið er meira Risaeðlutengt, þ.e. að það virðist vera ráðið til lífstíðar og svo þeir sem eru ráðnir eru fengnir í gegnum einhvern klíkuskap. Hver man ekki þegar Gunnar Helgason var fenginn á Enska Boltann? Var það vegna þess að hann hafði eitthvað vit á boltanum? Eða…

    Bendi samt sem áður á að Fótbolti.net ákvað fyrstur allra fjölmiðla að birta heimildir við ÖLLUM fréttum sem hann skrifar. Þannig getur þú bara ákveðið hverju þú trúir eða ekki. Þú sérð hvaðan allt er komið, þú ræður síðan hverju þú trúir og hverju ekki. Mest er tekið frá Reuters, BBC og Sky.

    Það er gott og blessað að birta heimildir, en það er ekki mitt point hérna. Mér finnst til dæmis ódýrt að tlaa um að menn ráði hverju menn trúa og hverju ekki. Ef Sky og BBC og fleiri gerðu það, þá væru þeir hreinlega ekki jafn ábyggilegir. Traust á miðlinum byggist á því hversu menn vanda sig í að vera áreiðanlegir. Taki menn fréttir upp úr sorpritinu sem kennt er við sólina í jafn miklum mæli og fotbolti.net, þá festist rusl stimpillinn á síðunni. Simple as that, alveg sama hvort það sé hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort þeir trúi fréttum eða ekki.

    Ég er reyndar ekkert hrifinn af Sky en það kæmu inn mun færri fréttir ef það mætti bara taka af þessum áreiðanlegustu miðlum. Samt mætti skoða stefnuna “gæði umfram magn,” en það er svoooo margt sem spilar inn í þetta.

    Reyndar sammála þér með Sky, en þeir eru þó mörgum sólkerfum fyrir ofan þessar téðu síður er áreiðanleika varðar. Þetta er nákvæmlega sama með sjónvarpið, ef Hansi heldur áfram að byggja fréttir sínar á rusl miðlum, þá verður útkoman rusl. Sama með fotbolti.net og því miður hefur mér fundist framþróun þeirrar síðu er varðar fréttir og fréttaskrif verið enginn og jafnvel afturábak. Kannski tengist það því að Hjalti er ekki lengur einn af ritstjórunum þar lengur :biggrin:

    Já og kannski ein spurning Steini, fyrir mig og aðra, hvaða miðlar finnst þér vera áreiðanlegastir af þeim sem ekki eru opinberar heimasíður?

    Ég kaupi ekki þá flugu að lítið væri um fréttir ef slúðurmiðlarnir væru ekki teknir með. Fullt af áreiðanlegum fréttum sem menn eru bara ekkert að birta, því lygarnar og slúðrið er svo miklu meira krassandi. BBC eru ábyggilegir, sama gildir með Reuters. Telegraph og Sky eru ágæt líka og svo hafa hvert og eitt lið sína ábyggilegu miðla. Þegar kemur að Liverpool FC, þá er það official síðan (sem er reyndar oft sein með fréttirnar) og svo besta heimild frétta um Liverpool FC, The Liverpool Echo. Það eiga öll lið sína ábyggilegu miðla, menn nenna bara ekki að leggja vinnuna á sig, þó þeim sé borgað fyrir það. Það er jú auðveldara að fara bara og cópera lygar og slúður af vafasömum síðum. Gott og vel, en þá ertu í sama pakka og þau og hann er ekki hátt skrifaður sá pakki.

    Fyrir utan að hæla Eiði Smára upp undir 100 sinnum í leiknum, þá voru þetta 90 mín fullar af frösum eins og; Þetta er náttúrulega gargandi snilld, þeir eru miklu mun betri og svo videre.

    Það væri að æra óstöðugan að fara að tala um íslenska fjölmiðla og Eið Smára. Ætla mér ekki út í þá hringavitleysu núna því ég hreinlega veit ekki hvort ég geti haldið aftur af beislinu er það varðar. Við skulum bara orða það sem svo að ég var hæstánægður með að hann fór úr enska boltanum, fyrst og fremst vegna fjölmiðlaumfjöllunar.

  22. Góð grein hjá þér SStein. Gaman væri að fá þig eða einhvern höfundanna á þessari síðu til að vera í þættinum um meistaradeildina á þriðjudaginn en þið hafið víst annað betra að gera!! :biggrin2:
    Góða skemmtun á Anfield, öfunda ykkur mikið. Vonandi setjið þið ferðasöguna hér inn.

    Kv. Chris

  23. Þú hittir naglann algjörlega á höfuðið þarna, Ssteinn. Einig sammála Hólmari. Fáið ykkur Sky disk þar sem stofngjaldið borgast upp á ekki svo mörgum mánuðum.

  24. >Fáið ykkur Sky disk þar sem stofngjaldið borgast upp á ekki svo mörgum mánuðum.

    Það búa ekki allir í einbýlishúsi.

    Má bjóða þér að reyna að sannfæra gamlar konur í stjórn húsfélags í Vesturbænum um að það sé sniðug hugmynd að setja gervinhattardisk á svalirnar hjá mér?

  25. Það má líka benda á að það er ekki hlaupið að því að mennta sig í fjölmiðlafræðum hér á Íslandi. Ég flutti til Akureyrar eingöngu vegna námsins sem er ekki boðið upp á í Reykjavík, nema til 30 eininga, ég er hér í fjölmiðlafræði til BA gráðu. Auk þess er erlendis kennt sérstaklega íþróttablaðamennska, eitthvað sem hefur auðvitað ekki tíðkast hér.

    Steini, við höfum greinilega margt að tala um í ferðinni, sem ef ég man rétt við erum að fara í á föstudaginn… :biggrin2:

  26. Einar Örn sagði:
    >”Má bjóða þér að reyna að sannfæra gamlar konur í stjórn húsfélags í Vesturbænum um að það sé sniðug hugmynd að setja gervinhattardisk á svalirnar hjá mér?”

    Ég skal mæta á þinn húsfund með golfkylfu ef þú mætir á minn húsfund með golfkylfu. We’ll make them an offer they can’t refuse. :tongue:

  27. Kristján og Einar, það var í einhverju slúðurblaðinu frétt um að Craig Bellamy ætlaði með ykkur báðum á húsfund með golfkylfu.

    Er þetta satt?
    :laugh: :laugh: :laugh:

  28. Það er margt til í þessu en ég gjörsamlega þoli ekki svona comment eins og SSteinn kom með á íslenska boltann.

    Það að bera saman íslenska boltann og þann enska er vitleysa. Það verður að horfa á þetta með mismunandi augum. Svo er líka spurning hvort sé skemmtilegra að sitja á Players með bjór í hönd eða vera á vellinum og fá boltann í æð? Þá kynnast menn knattspyrnu og skilja leikinn betur. Menn halda stundum að SSteinn sé alvitur um boltann og hann virðist stundum halda það sjálfur.

    Þú nefnir “Á völlinn” og “Liðið mitt”. Síðarnefndi þátturinn var orðinn slakur þáttur því þú varst ekki fenginn lengur í þáttinn og sá fyrrnefndi var hins vegar fínn þar sem svona “pöbbagaurar” eins og þú fenguð að mæta í Liverpool treyjunni og ausa úr “visku” sinni.

    Er þetta ekki nærri lagi?

    Veit SSteinn hvað það er þegar menn gefa á “blindu hliðina”?

    Þegar stórt er spurt?

  29. Þvlíkt endemis bull er þetta, eitt er að gagnrýna mína skoðun en annað að snúa algjörlega út úr henni. Þú hefur greinilega ekki náð aðal pointinu og það var fréttaflutningurinn, það var aðal punkturinn. En best að svara hinu.

    Það að bera saman íslenska boltann og þann enska er vitleysa

    Hvar í andskotanum er ég að bera saman enska boltann og þann íslenska? Það sem ég er að segja að það er ekki nóg að hafa sparkað í tuðru á Íslandi til að teljast sérfræðingur um enska boltann. Enda hefur það marg oft komið í ljós með þessa “sérfræðinga” sem hefðu aldrei verið fengnir til skrafs og ráðagerðar nema hafa rekið tánna í tuðru hér heima.

    Svo er líka spurning hvort sé skemmtilegra að sitja á Players með bjór í hönd eða vera á vellinum og fá boltann í æð? Þá kynnast menn knattspyrnu og skilja leikinn betur

    Ach, já mikil lifandis skefling er maður nú heimskur. Auðvitað verður skilningurinn miklu meiri á að standa úti á túni á Íslandi og horfa á tuðruspark þar, heldur en að sjá leiki í sjónvarpinu. Hefur þú sjálfur farið á leik á Englandi? Ég fullyrði það að þú færð meiri skilning á fótbolta af því að horfa á góðan fótbolta í sjónvarpi en að hýrast á Fylkisvellinum t.d. Var ekki í samanburði á þeim íslenska og enska, en þú gerir manni ekki annað kleyft. Það er engin spurning að það er skemmtilegra að vera á sjálfum vellinum, heldur en með bjór í hönd á Players. Þar er ég að vísa til muninum á leiknum sem verið er að horfa, það er t.d. betra að vera á Anfield heldur en á Players. En er það í boði á hverjum leik? Eða varstu að halda því fram að þú fengir meiri skilning á því að sitja í stúkunni í Grindavík heldur en að horfa á góðan leik í sjónvarpinu? Ég veit allavega hvort mér fyndist skemmtilegra.

    Menn halda stundum að SSteinn sé alvitur um boltann og hann virðist stundum halda það sjálfur

    Ég veit ekki hvað gengur að hjá þér kæri vinur, en það er fjarri því að ég telji mig vita allt um boltann. Þú virðist aftur á móti telja að það eitt að hafa sparkað tuðru í efstu deild á Íslandi, þá sértu alvitur um boltann (þ.e.a.s. ef við höldum okkur við svona fáránlega fullyrðingar eins og þú hefur grýtt fram hérna).

    Þú nefnir “Á völlinn” og “Liðið mitt”. Síðarnefndi þátturinn var orðinn slakur þáttur því þú varst ekki fenginn lengur í þáttinn og sá fyrrnefndi var hins vegar fínn þar sem svona “pöbbagaurar” eins og þú fenguð að mæta í Liverpool treyjunni og ausa úr “visku” sinni.

    Ja hérna. Þetta var nú meiri tímaeyðslan hjá þér að lesa þessar hugleiðingar mínar. Þú virðist allavega ekki hafa skilið eitt einasta atriði í þeim, svo mikið er víst. Sé þetta núna, við “pöbbagaurarnir” eigum bara að halda okkur við bloggið og þið stóru kallarnir sem hafið nú verið á leikskýrslu á Íslandi, þið ausið úr viskubrunnum ykkar áfram í gegnum tækin. Díll, ég hætti að kvarta og hætti að horfa, og þú hættir að lesa pistla sem þú greinilega skilur ekki hvort sem er. Díll?

    Bara svona í restina til að fræða þig, þá var “Liðið Mitt” verkefni sem var sett í gang á sínum tíma, samvinnuverkefni stuðningsmannaklúbbanna á Íslandi og Enska Boltans. Það var ákveðið að setja í gang þátt til að efla starf þeirra, koma á framfæri það sem þeir væru að gera, hvíla hina “sérfræðingana” og koma með nýja hlið í þetta og frábrugðið öðru. Virkilega gott verkefni sem studdi við klúbbastarfið og var að beggja frumkvæði. Upp úr áramótum voru viðmælendur ekki orðnir nógu “frægir” fyrir Bödda og félaga hans, þannig að það var bara hreinlega hætt að hafa samband við klúbbana. Í stað þess kom enn einn þátturinn þar sem Hemmar Gunn þessa lands ofl. gátu haldið áfram að ausa úr sínum viskubrunnum yfir því hversu mikill marathon hlaupari Darren Fletcher er.

    Þátturinn hjá Snorra hefur nú bara í gegnum tíðina verið fínn og þá sérstaklega þar sem hann er að fá allan skalann í þáttinn sinn. Alþingismenn, manninn af götunni, presta og allar stéttir til að ræða boltann. Þar er bara verið að tala saman út frá hjartanu og nýr vinkill í umræðuna. Menn ekkert að þykjast vera sérfræðingar. Kemur því bara ekkert við hvort “pöbbagaurar” eins og ég hafi fengið að mæta þar í Liverpool treyjunni. En þetta er líklega of flókið fyrir þig kúturinn minn, skilur eflaust ekki þessi svör mín fyrst þú skildir ekki orð af upphaflega pistlinum.

    En Guðmundur góður hvað minnimáttarkenndin er gífurleg ef einhver dirfist að tala um tuðruspark á Íslandi í sama pistli og verið er að ræða enska boltann. Sparkið sjálft kom þessu ekki einu sinni við, heldur val á “sérfræðingum”.

    Ef þig langar að ræða þessi mál við mig, þá þýðir ekkert að reyna að hitta mig á Players á næstu leikjum, því ég verð að drekka í mig vitneskju á því að standa í stúkum Anfield :biggrin:

  30. Ég er með disk og hafa margir mínir vinir hneygslast af því að ég sé að góna á leiki með erlendum þulum sem ég skil ekki…..ég hef svarað því, að ég skilji hvort sem er ekkert bullið í þeim íslensku.

    En hvað varðar Skjásport, þá finnst mér ansi lélegt að gerður sé 10 mánaða samnignur upp á 1995 krónur á mánuði en svo hækka þeir þetta í 2495 krónur og enginn segir neitt…..hvað er að ykkur sem eruð með Skjásport….ekki láta taka ykkur í görn.

    Kveðja
    Eiki KR

  31. “En hinar síðurnar (mbl.is, visir.is og blöðin) hafa einfaldlega ekki þessa afsökun. Þ.e. þar eru menn að fá fullt borgað fyrir þetta.”

    Ég var nú eini sinni í því að skrifa inn knattspyrnu og formúlu fréttir á visir.is og fékk ekki krónu borgaða, reyndar komin nokkur ár síðan, gæti hafa breyst eitthvað síðan þá.

  32. Kristinn, má ég spyrja af hverju? Vísir.is er fyrirtæki og ég skil ekki alveg af hverju menn vinna í sjálfboðaliðavinnu fyrir fyrirtæki.

  33. Það er einn maður sem vinnur við að setja það að setja inn fréttir á Vísi.is. Hann er í fullri vinnu við það og er góður vinur minn… Ég vona að hann fái borgað fyrir það!

    Eitthvað hefurðu verið að láta fara illa með þig Kristinn…

  34. ég er hjartanlega sammála þessu… mér finnst alveg óþolandi að þurfa að hlusta á fótboltaleik sem lýstur er af tryggva guðmundssyni, mér er drullusama hvað hann hefur gert og í hvað marga fótbolta hann hefur sparkað mig langar bara ekki að heyra í honum á meðan ég horfi á mitt lið!.. svo er það gras.is… það að hafa comment-system þar er alveg útí hött.. þar commenta engir nema 13-16 ára strákar sem eru annaðhvort að drulla yfir lið og leikmenn eða þá að deila vitneskju sinni úr FM (football manager, sem ég spila en tel mig ekki vita meira um fótbolta) þeir reindu að redda þessu með því að leifa aðeins skráðum einstaklingum að commenta… það eina sem þeir græddu á því var 500 13-16 ára drengir sem hafa ekki hundsvit á fótbolta. góður pistill!!

  35. ég er hjartanlega sammála þessu… mér finnst alveg óþolandi að þurfa að hlusta á fótboltaleik sem lýstur er af tryggva guðmundssyni, mér er drullusama hvað hann hefur gert og í hvað marga fótbolta hann hefur sparkað mig langar bara ekki að heyra í honum á meðan ég horfi á mitt lið!.. svo er það gras.is… það að hafa comment-system þar er alveg útí hött.. þar commenta engir nema 13-16 ára strákar sem eru annaðhvort að drulla yfir lið og leikmenn eða þá að deila vitneskju sinni úr FM (football manager, sem ég spila en tel mig ekki vita meira um fótbolta) þeir reindu að redda þessu með því að leifa aðeins skráðum einstaklingum að commenta… það eina sem þeir græddu á því var 500 13-16 ára drengir sem hafa ekki hundsvit á fótbolta. góður pistill!!

  36. Ég skirfaði reyndar fréttirnar í aðra síðu, sport.is, en þær birtust einnig á visir.is, ég átti að fá einhverja ferð á formúlu keppni, en það varð svo aldrei af því.

  37. YNDISLEG GREIN!!!!!!! :biggrin: Ég er gjörsamlega sammála þessu það mætti fara reka nokkra af þessum “frétta” mönnum!!!! 😡

  38. Vá… ég nennti að lesa þetta alltsaman!

    Ágætis pælingar þó að ég sé ekki sammála öllu… Vissulega eru alltof margir ófagmannlegir pésar í þessum bransa en ég er bara ekki að láta þessa gaura fara svona mikið í taugarnar á mér…

    Annars vona ég bara að SSSteinn skemmti sér vel um helgina og passi að Baldvin drekki ekki of mikinn bjór! :tongue:

  39. Doddi Pönk, til hvers póstarðu ummæli hérna? Til að sýna fólki hvað þú ert gáfaður og við hin öll vitlaus? Eða bara af einskærri þörf fyrir að mennta okkur, sauðheimskan lýðinn?

    Ef þú ætlar ekkert að leggja til málanna í umræðunni ætla ég að biðja þig að sleppa því að setja inn svona ummæli eins og hér að ofan. Þau eiga ekkert erindi hér.

  40. Glæsilegur pistill og þörf umræða og mér finnst vanta að gagnrýni Valtýr Björn hann veit ekkert hvað hann er að tala um flissar bara og bullar

  41. Ekki veit ég hvernig þú fékkst það út að ég hefði verið einhvern tímann á leikskýrslu hér á landi enda ekki spilað knattspyrnu síðan í 3. flokki. Menn fá hins vegar vissulega miklu meiri leikskilning á að spila knattspyrnu sjálfir.

    Ég var ekkert að tala um sérfræðingana. Þú settir út á íslenska boltann.

    “Sumir reyndar ágætir, en þátturinn oft á tíðum farinn að fjalla um hinn einstaklega skemmtilega íslenska bolta”.

    Ég var nú bara að vitna í þetta. Nenni ekki að svara þessari grein þinni en þú ert best settur á Players með bjór í hönd. Getur leikgreint leikinn þar fyrir viðstadda.

    Skemmtu þér á Anfield og sjúgðu í þig viskunni á Anfield svo þú getir framreitt hana fyrir okkur hina við tækifæri.

  42. he he, þetta er nú meira en lítið fyndið Friðjón minn. Var það sem sagt hálf setning í öllum þessum pistli sem fékk þig til að reyna þessa yfirdrullun :laugh:

    MÉR FINNST ÍSLENSKI BOLTINN HUNDLEIÐINLEGUR og so what? Stend við það sem ég segi og það var að ég var ekki að bera þann enska og íslenska saman. Sagði bara mína persónulegu skoðun og þú breytir henni ekki kúturinn minn, það er alveg sama hvað þú reynir og hvaða nöfnum þú reynir að henda á mig.

    Þú staðfestir með þínu seinna svari að þú skildir ekki orð af pistlinum. Bara svona þér að segja, þá var hann um íþróttafréttamenn og “sérfræðinga” um enska boltann.

    P.S.
    Hef ekki farið á Players lengi, en þar sem það virðist vera þitt helsta áhugamál (Players ferðir mínar og hvort ég fái mér bjór eður ei) þá get ég upplýst þig um það að ég fékk mér eitt stykki bjór heima hjá mér á laugardagskvöldið. 😯

  43. Reyndar mæli ég ekki með því að fólk fái sér Sky Sports þar sem það er ólöglegt í Bretlandi að sýna laugardagsleikina sem eru klukkan þrjú (til að fá fólk á leikina).

  44. Ég verð nú að byrja á því að hrósa ssteini fyrir þennan pistil. Einn sá besti sem ég hef lesið í langan tíma. Ég er einn af þeim sem get orðið sjóðandi brjálaður yfir mali íslenskra þula yfir leiknum. Þá fer það í taugarnar á mér hvernig þeir velja þessa sérfræðinga eins og Steini hefur lýst og hvað margir þeirra eiga erfitt með að halda hlutleysi sínu.

    En það er annað sem truflar mig ansi oft og Steini nefndi ekki. Það er endalausa blaðrið í lýsunum. Þeir virðast vera skíthræddir við þögn í útsendingu og blaðra því allan tíman um fáránlegustu hluti í stað þess að lýsa leiknum. Auðvitað er þögn ekki gott sjónvarpsefni per se en yfir fótboltaleik er hún í góðu lagi sé hún í hófi. Lætin á vellinum skila sér vel til áhorfenda og betri stemming næst.

    Það væri rannsóknarefni útaf fyrir sig að telja settningar, orðafjölda eða atkvæði sem íslenskir lýsendur láta útúr sér í útsendingu yfir leik og bera það saman við enska þuli. Tjallinn er mun rólegri í lýsingum sínum og lætur það vera starf sitt að lýsa leik en ekki mala um allt og ekkert í 90 f***ing mínútur.

  45. Þeir sem eiga langerfiðast með að halda hlutleysi sínu í sjónvarpinu að mínu mati eru Gaupi og Höddi Magg… svo er Hansi að koma sterkur inn.

  46. Það er alveg merkilegt hvað þið poolarar geta vælt út af fréttaflutningnum af Portúgalsferð LFC. Hvernig þið getið vælt yfir því að Óli Þórðar og Maggi Gylfa skyldu vera í fílu yfir ósigri Barcelona.

    Hvernig nennið þið þessu?

    Annars get ég ekki annað en verið sammála því að íslenskir íþróttalýsendur eru flestir arfaslakir en ég verð þó að taka fram að þó að að Logi þykir vera með aulahúmor þá hefur hann vit á knattspyrnu.

    Talandi um gæði lýsenda í útlöndum þá eru sjaldan fleiri en einn lýsandi nema í stórleikjum eins og þegar keppt er í CL, HM og EM og þá eru menn oftar en ekki að slá á létta strengi.

  47. Mér finnst skondið að sjá að menn haldi að þetta sé eitthvað mun verra á Íslandi en annars staðar.

    Það er alls staðar til fólk sem vinnur sína vinnu vel og það er líka alls staðar til fólk sem vinnur sína vinnu illa. Íþróttafréttamenn eru ekki undanskilnir.

  48. En snorri, hvernig nennir þú að vera að væla yfir því hverju við vælum yfir :biggrin:

    OK Nonni, þá þýðir ekkert að kvarta yfir þessu, sætta okkur bara við þetta. Ef þjónustufulltrúinn þinn í bankanum stendur sig illa trekk í trekk, þá kvartar maður. Ef afgreiðslumaðurinn í búðinni gefur þér margoft vitlaust tilbaka, þá kvartar þú.

    Er ekki allt í lagi að kvarta þegar svona stór hluti stéttar sinnir vinnu sinni illa?

  49. Að sjálfsögðu á að gagnrýna ef maður er ósáttur. Mér finnst bara skrýtið að þú sért að kvarta yfir þeim íslensku og endar svo pistilinn á að þú ætlir að láta drauminn rætast og fá þér SKY. Þar með ertu að ýja að því að þeir bresku séu betri en þeir íslensku. Það var nú bara mitt point. Margir breskir og bandarískir eru betri en íslenskir íþróttafréttamenn, en þeir eru líka margir sem eru miklu verri. Mér fannst með þessari síðustu setningu þinni þú vera að setja þá bresku á hærri sess, þar er ég þér bara einfaldlega ósammála.

    En haltu endilega áfram að gagnrýna, í fínu lagi með það 🙂

  50. Sammála SStein í þessari grein. Og áhugavert að sjá hvað margir eru með skoðanir á þessu.

    Sýn ruddi brautina fyrir sérstakri íþróttastöð og var það vel. Skjásport á svo hrós skilið fyrir fjölda leikja sýnda. Frábært framtak hjá þeim en því miður fær maður of oft í magann þegar maður sér hverjir eru að lýsa.

    Það að Snorri Már skuli vera í farabroddi á þessari stöð er álíka gáfulegt og þegar Þorsteinn J. nær að snapa sér ferðir á stórmót í íþróttum og lýsa “stemningunni og mannlífinu sem er svo stórbrotið”. Algjör hörmung. Mín tilfinnig af þeim tveimur hefur alltaf verið sú að þeir séu í þessu til að fá fríar utanlandssferðir.

    Margt gott sem Willum segir en hann eins og Gummi Torfa eru gjörsamlega mónótónískir og stundum þarf maður að hækka úr öllu valdi til að þeir heyrist. Þeir eru gjörsamlega sofandi.

    Mér finnst Kristján Guðmundsson, Keflavík vera mjög góður. Margt vitrænt sem hann segir um boltann, leikkerfi og leikmenn. Snorri Sturlu greinilega vandar sig og reynir að koma með vitrænan fróðleik sem og Heimir Karls. Snorri þorir svo að segja ef honum finnst eitthvað hafa verið að t.d. að dómarinn hafi sleppt aukaspyrnu þá segir hann að það hafi verið slappt af honum. Ég meika ekki Bjarna Fel sem segir í svipuðum atvikum, “það þýðir ekki að deila við dómarann”

    Gummi Ben, Kristján Kærnested, Tryggvi Guðmunds eru á Skjásport útaf einhverjum klíkuskap og eru ekki að auka neitt við útsendingar. Burtséð frá því hvaða liði Óli Þórðar og Maggi Gylfa á Sýn halda með eru þeir einstaklega ósjónvarpsvænir menn.

    Hans Steinar Bjarnason skeit uppá bak með fréttinni um daginn. Burtséð frá því að maður haldi með Liverpool en þetta er svo sem í stíl við aukna sensalísjon stefnu fréttastofu Sigmundar Ernis, flytjum fólki upphrópanir en látum innihaldið skipta minna máli. Þessi frétt var þeim til skammar sem marktækum fréttamönnum.

    Að tala um íþróttir RÚV er erfiðara en tárum taki. Að þeir hafi fengið HM 2010 hvetur mann helst til að flytja úr landi það sumar. Þau eiga að halda sig við allt annað en fótbolta…en fá plús fyrir að ráða stundum konur og þora því.

    Það eru nokkrar mjög góðar konur sem gætu verið álitsgjafar í Meistaradeildinni eða enska. Guðrún Inga Sívertsen, stjórnarmaður í KSÍ, Helena Ólafsdóttir, Íris Björk Eysteinsdóttir fyrrverandi á Mogganum og svo liggur Elísabet Gunnars sjaldan á skoðunum sínum.

    Maður þarf ekkert að kaupa sér Sky, þjónustan í framboði á leikjum er hvergi jafn góð og hér… og ber að hrósa Sýn og Skjásport fyrir það. Það er lítið átak sem þarf til að bæta það sem uppá vantar, betri þuli.

    Minni svo á viskukorn sem margir eigendur fótboltaliða hafa oft flaskað á, góðir fótboltamenn verða ekki endilega góðir þjálfarar. Sama þurfa sjónvarpsstöðvarnar að hafa í huga. Góðir fótboltamenn eru ekki endilega góðir sjónvarpsmenn.

Paul Merson étur hattinn sinn

Samuel? Uppfært: Fowler?