Úrvalsdeildarspá: Hin Liðin

Jæja, það er komið að þessu. Í dag er miðvikudagur og glöggir menn sjá fljótt í kjölfarið að það eru aðeins þrír dagar þangað til maður hlammar sér í eitthvert sætið með eitthvað kalt í annarri hendi og byrjar að tyggja á sér neðri vörina af stressi. Það eru sem sagt þrír dagar í að enska Úrvalsdeildin byrji að rúlla!

Við höfum að sjálfsögðu talið dagana hér á Liverpool Blogginu og farið, að okkar eigin mati, nokkuð vel yfir allt það sem hefur á daga Liverpool-klúbbsins drifið síðan að síðasta tímabili lauk. En svona rétt áður en tímabilið hefst er kannski ekki úr vegi að líta út fyrir eigin forgarð og skoða hvað nágrannarnir eru að bauka. Ég og Aggi höfum tekið okkur til og skoðað sinn hvora kristalskúluna og hér er okkar algjöra sérfræðiálit á því hvernig hinum nítján liðum Úrvalsdeildarinnar mun reiða af í vetur. Fyrir þá sem eru forvitnir er BBC-vefsíðan með góða yfirferð yfir það hverjir hafa komið og farið hjá liðunum. En hér er okkar mat:


Arsenal

Aggi: Ég tel að Arsenal verði á svipuðu reiki og í fyrra þe. í kringum 4. sætið. Henry var lítið með fyrir ári vegna meiðsla og í ár er ábyrgðin meiri á fleiri herðum. Tel óraunhæft að liðið verði í baráttunni um titillinn til þess vantar 2-3 heimsklassa leikmenn.

Kristján: Þetta tímabil gæti orðið eitt það áhugaverðasta hjá Arsenal-mönnum í mörg ár. Undanfarin ár hafa þeir misst hvern reynsluboltann á fætur öðrum en í sumar urðu hálfgerð vatnaskil; þeir misstu Thierry Henry og Freddie Ljungberg en hafa varla keypt stór nöfn í staðinn. Wenger hefur áður sett traust sitt á yngri kynslóðina og staðið uppi sigurreifur en það er ekkert öruggt að það takist í ár. Ég segi að annað hvort muni nýtt gullaldarlið Arsenal rísa í vetur og arfleifð Wenger verður örugg, eða þá að strákarnir standast ekki pressuna, missa af Meistaradeildarsæti og Wenger hverfur frá næsta sumar. Ég veðja á hið síðara.

Aston Villa

Aggi: Ég hef trú á því að O´Neill nái að lyfta Villa uppúr þeim öldudal sem liðið hefur verið í undanfarinn áratug. Þetta er annað tímabilið hans og ætti hann að vera farinn að mynda sitt lið með sínum áherslu í ár. En þetta verður langt frá því að vera auðvelt þegar lið eins og West Ham, Birmingham, Everton, Newcastle, Tottenham o.s.frv. hafa keypt inn öfluga leikmenn. Verður um 10 sætið.

Kristján: Villa-liðið eignaðist nýjan eiganda og nýjan þjálfara fyrir ári síðan en árangurinn lét á sér standa þrátt fyrir það. Í sumar verð ég að viðurkenna að ég bóst við meiru frá þeim á leikmannamarkaðnum en þegar upp er staðið eru Marlon Harewood og Nigel Reo-Coker meira og minna allt og sumt í þeim efnum. Sem gefur ekki beint tilefni til bjartsýni. Ég spái þeim svipuðu gengi og í fyrra; þetta er lið sem getur hirt stig af hverjum sem er á góðum degi (þó vonandi ekki okkur á laugardaginn kemur) en þeir munu áfram eiga í vandræðum með að leika stöðuga knattspyrnu.

Birmingham City

Aggi: Ég hef ekki séð Birmingham spila lengi en miðað við innkaupin hjá liðinu þá ættu þeir að geta haldið sæti sínu í deildinni án teljandi erfiðleika. Bruce er kominn með meiri reynslu en þegar liðið var síðast í deildinni sem og liðið hefur keypti inn fína leikmenn.

Kristján: Lið Steve Bruce vann sig beint upp í Úrvalsdeildina á ný eftir að hafa fallið fyrir rúmu ári síðan og hafa ekki setið auðum höndum á leikmannamarkaðnum í sumar. Nærri því nógu margir menn í nýtt 11-manna lið hafa komið til þeirra bláu í sumar svo að Bruce hefur klárlega úr mikilli breidd að spila í vetur. Hins vegar finnst mér þeir varla hafa verið að kaupa neina gæðinga, þetta eru flest allt menn eins og Franck Quedrue eða Oliver Kapo sem hafa varla slegið í gegn í Úrvalsdeildinni eða öðrum sambærilegum deildum. Ef þú kaupir meðalmenn endarðu með meðallið og ég held að Birmingham muni berjast við að halda sér uppi í vetur.

Blackburn Rovers

Aggi: Liðið kom á óvart í fyrra og stóð sig vel. Liðið er vinnusamt líkt og stjórinn var sem leikmaður og með öfluga leikmenn eins og Gamst Pedersen og McCarthy sem geta unnið leiki uppá einsdæmi. Spurning hvort Santa Cruz nái sömu hæðum og McCarthy. Liðið verðum um miðja deild og ávallt erfitt heima að sækja.

Kristján: Hér er komið lið sem ég hef trú á að berjist í efri hlutanum í vetur. Blackburn-liðið var mjög sterkt í fyrra og þeim tókst hið ómögulega, að halda í allan helsta mannskap sinn í sumar. Það var mjög sterkt hjá þeim að halda Benni McCarthy og ekki skemmir fyrir að þeir bættu við klassamanni á borð við Roque Santa Cruz í sumar. Ég býst við þeim að minnsta kosti jafn sterkum og í fyrra, og ef Santa Cruz nær að halda sér meiðslalausum gætu þeir jafnvel klórað í Evrópusætin.

Bolton Wanderers

Aggi: Þetta getur verið tímabilið sem liðið nær hæstu hæðum eða fellur. Það hefur sýnt sig undanfarið þegar þjálfarar hætta sem hafa verið lengi sbr. Charlton þá fer allt fjandans til. Ég vona Sammy Lee vegna að þetta gangi upp en það er klárt mál að þetta verður mjög erfitt tímabil og kæmi mér ekki óvart að liðið verði við fallsætið undir lokin.

Kristján: Liðið hans Guðna Bergs á langt tímabil fyrir höndum, það tel ég alveg víst. Brotthvarf Sam Allardyce gerir liðið hálf óútreiknanlegt, þar sem arftaki hans og Liverpool-goðsögnin Sammy Lee er óskrifað blað sem knattspyrnustjóri. Hann gæti reynst himnasending eða bölvun. Þá hafa orðið talsverðar breytingar á leikmannahópi þeirra, auk þess sem mér skilst að Lee ætli að láta liðið leika ögn sókndjarfari knattspyrnu en forveri hans gerði. Ég sé fyrir mér lærdómsríkt ár fyrir Lee í fallbaráttunni en þar sem hann er nú gamall Púllari og þar sem Danny Guthrie gæti leikið stórt hlutverk sem lánsmaður hjá þeim í vetur ætla ég að halda með Bolton í fyrsta skipti í mörg ár. Vonandi gengur þeim vel.

Chelsea

Aggi: Verða í toppbaráttunni líkt og undanfarin ár og ef þeir sleppa við meiðsli þá eru þeir ásamt Man Utd þau lið sem við þurfum að vera ofar til að verða meistarar. Malouda virkar vel og ef Andrei og Ballack ná fótfestu í Englandi þá er þetta óhugnanlega öflugt lið.

Kristján: Það sem Chelsea-menn þurfa helst að hafa áhyggjur af er byrjun tímabilsins. Þeir lentu í miklum meiðslavandræðum um mitt tímabil í fyrra sem gerði út um vonir þeirra á að verja Englandsmeistaratitilinn og fréttir síðustu daga um að hátt í tíu manns séu á sjúkralista þeirra við upphaf mótsins í ár gefa vart ástæðu til bjartsýni. Með stórleik við Liverpool strax eftir rúma viku gætu þeir lent illa í því og verið í eltingarleik í allan vetur fyrir vikið. En þó er aldrei hægt að afskrifa þetta Chelsea-lið, undir stjórn Mourinho virðist það vera ódrepandi. Þá verður að hafa í huga að þeir munu missa menn eins og Essien, Drogba og Mikel í mánuð eftir áramót vegna Afríkumótsins. Þeir verða í toppbaráttunni en vegna meiðsla og Afríkumótsins er titillinn ekki þeirra í ár.

Derby County

Aggi: Það er klárt mál að Derby verður í botnbaráttunni allt tímabilið og það lið sem ég tel líklegast til að fara sömuleið og þeir komu þe. í Championsship. Burnley er reynslumikill stjóri en bilið er of mikið milli efstu og næstefstu deildarinnar í Englandi, of litlir fjármunir og slakur leikmannahópur.

Kristján: Eitt rótgrónasta lið enskrar knattspyrnu er komið aftur þangað sem það á að vera; í efstu deild. Í þetta sinn skarta þeir reyndum þjálfara, George Burley, en liðið hjá þeim hefur hálf ótrúlega nánast veikst í sumar, frekar en hitt. Sá þá bara spila einu sinni í fyrra og þetta virðist vera sókndjarft lið en þeir hljóta samt að vera líklegastir til að verma botninn í vetur. Mín spá: beint niður aftur.

Everton

Aggi: Ég veit að margir Liverpool stuðningsmenn verða ekki ánægðir að heyra þetta en þetta lið sem David Moyes hefur búið til hjá Everton er farið að líta afar vel út. Góð innkaup og gott unglingastarf hefur gert það að verkum að Everton eru á góðri leið að vera gríðarlega öflugt lið. Ég sé Everton vera með sem getur vel blandað sér í baráttunna um meistaradeildarsæti.

Kristján: Eins illa og mér er við að segja það, þá hef ég trú á að Everton-liðið geti blandað sér í baráttuna við Arsenal og Tottenham um Meistaradeildarsæti í vetur. David Moyes hefur búið til sterkt og stöðugt lið síðustu árin og mér líst virkilega vel (eða illa, eftir því hvernig á það er litið) á leikmannakaup þeirra í sumar. Leighton Baines, Phil Jagielka og Steven Pienaar eiga eftir að styrkja þetta lið mikið og ég spái þeim góðu gengi í vetur. Vona samt ekki.

Fulham

Aggi: Fulham er lið sem mun vera í neðri helming deildarinnar en Lawrie hefur keypt leikmenn sem hann þekkir frá því hann var landsliðsþjálfari N-Írlands, ekki bestu leikmennirnir en duglegir og hann veit nákv. hvað hann er að fá fyrir peninginn. Verður lið sem siglir lygnan sjó rétt fyrir ofan botnbaráttuna.

Kristján: Hvað hefur Fulham gert í sumar til að gera menn bjartsýna? Ég skal segja ykkur það: ekki neitt. Þeir létu Chris Coleman fara og fengu í staðinn þjálfara sem hefur ekki sannað sig í næstefstu deildinni, hvað þá þeirri efstu. Þeir létu leikmenn á borð við Quedrue og Heiðar Helguson fara og fengu í staðinn menn á borð við David Healy og Diomansy Kamara. Svo eru þeir með ógeðslegustu búninga í heimi, ég horfði á þá í Asíumótinu gegn Portsmouth fyrir tveimur vikum og þetta var eins og að horfa á blautbolskeppni. Þetta lið fellur í vetur, ég er nánast pottþéttur á því.

Manchester City

Kristján: Hér er komið lið sem verður spennandi að fylgjast með í vetur. Hinn litríki og umdeildi Thaksin Sinawatra hefur keypt liðið og ráðið Sven Göran Eriksson sem stjóra og sá sænski beið ekki boðanna heldur henti sér af fullum krafti á leikmannamarkaðinn. Það er ljóst að liðið verður talsvert sterkara í vetur en undanfarin ár, spurningin er bara hversu mikið sterkara. Ég spái því að þeir verði í efri hlutanum og berjist jafnvel um Evrópusæti, sem gæti orðið ágætis stökkbretti fyrir meiri árangur á komandi leiktíðum.

Aggi: Ég hélt að Stuart Pearce myndi ná að berja saman öflugt lið hjá City en það mistókst. Núna er kominn nýr eigandi sem og nýr stjóri í brúna, Sven-Goran. Hann hefur keypt 8 nýja leikmenn, allt stór nöfn en enginn sem hefur spilað áður í Englandi og það er stór munur á. Lið sem hefur alla burði til að vera í top 8 en gæti alveg eins endaði í botnbaráttunni. Stórt spurningarmerki.

Manchester United

Kristján: Rauðu djöflarnir verða hiklaust það lið sem hin liðin þurfa að standast snúning í vetur. Þeir unnu deildina sannfærandi í fyrra og hafa styrkt sig með fjórum stórum nöfnum í sumar, þannig að það er engin ástæða til annars en að gera ráð fyrir áframhaldandi toppbaráttu. Þeir munu berjast við Liverpool og Chelsea um titilinn og ég spái því að ef við náum ekki að stöðva þá geti það enginn.

Aggi: Það sama og með Chelsea; liðin sem vilja vinna deildina þurfa að vera fyrir ofan Man U og Chelsea. Hefur keypt inn gríðarlega öfluga leikmenn í Tevez og Hargreaves og síðan efnilega drengi frá Portúgal. Liðið var öflugt í fyrra og verður einungis öflugara í ár.

Middlesbrough

Kristján Atli: Hér er komið annað lið sem ég hef takmarkaða trú á. Þetta hefur síðustu árin verið eitt leiðinlegasta lið Úrvalsdeildarinnar en í kjölfar komu þeirra Sanli Tuncay, Jeremie Aliadiere (!) og Luke Young virðist einhver undarleg bjartsýni hafa gripið um sig nyrðra. Ég spái því að rétt eins og í fyrra verði Middlesbrough-menn á lygnum sjó fyrir ofan fallbaráttuna, en ekki mikið meira en það.

Aggi: Lið sem verður í vandræðum og varla að þeir ná inní topp 10. Ég gæti vel séð þetta lið lenda í vandræðum (líkt og City) og vera í óvæntri botnbaráttu. Ég hef ekki mikla trú á Southgate og tel að mikið þurfi að gerast til að Boro verði lið sem er í toppbaráttunni. Brotthvarf Viduka getur orðið þeim dýrtkeypt.

Newcastle United

Kristján: Til hamingju, Newcastle-aðdáendur. Þið hafið eignast stjóra sem kann að vinna knattspyrnuleiki, stjóra sem kann að skipuleggja vörn og leikmenn sem myndu sóma sér í flestum liðum Úrvalsdeildarinnar. Njótið þess að vera í baráttu um Evrópusæti með liði sem vinnur oft, tapar sjaldan og ALLIR HATA. The new Bolton.

Aggi: Geta ekki orðið slakari en í fyrra. Loksins er Freddy Shepard farinn sem formaður og það gæti verið jákvætt fyrir félagið. Byrja á núllpunkti með gríðarlega reynslumikinn þjálfara í Big Sam. Koma til með að spila jafnleiðinlega og Bolton en þar sem Newcastle hefur meiri gæði í leikmannahóp sínum en Bolton. Ef liðið losnar við meiðsli lykilmanna þá hefur þetta félag alla burði til að vera í topp 6.

Portsmouth

Kristján Atli: Harry Redknapp vann kraftaverk á þessu liði þegar hann tók við. Þeir voru meira og minna öruggir niður í janúar 2006 en hann kom inn og breytti öllu með sniðugum leikmannakaupum og styrkri stjórn. Í fyrra var liðið lengi vel spútniklið ársins í toppbaráttunni en gáfu aðeins eftir eftir áramót og enduðu fyrir utan Evrópusætin. Í sumar hafa þeir hins vegar styrkt sig mikið og því sé ég ekki annað en að liðið berjist aftur um Evrópusæti.

Aggi: Lið sem koma gríðarlega á óvart á síðasta tímabili og hefur hinn geðþekki Harry bætt við liðið nokkra öfluga leikmenn. Reyndar held ég að það verði erfitt fyrir Portsmouth að vera í topp 6 en þeir hafa alla burði til að vera í topp 10. Mjög spennnandi tímar framundan.

Reading

Kristján: Hið margumtalaða annað tímabil í efstu deild bíður Steve Coppel og lærisveina hans. Þeir misstu Steve Sidwell til Chelsea í sumar en fengu lítið af viti í staðinn. Ég sé þá fyrir mér taka svona nettan Wigan-pakka á þetta og rétt sleppa við fall næsta vor.

Aggi: Ívar og félagar komu mjög á óvart í fyrra og náðu ótrúlegum árangri með ekki ”stærri” nöfn en í hópnum var. Minnir svolítið á Charlton um árið. Ég tel hins vegar ljóst að tímabilið í ár verði þeim erfitt og jafnvel að falldraugurinn muni svífa yfir hausamótunum á Brynjari og Ívari þetta tímabilið.

Sunderland

Kristján: Hér er komið lið sem verður áhugavert að fylgjast með í vetur. Síðustu tvö eða þrjú skiptin sem Sunderland hafa komið upp hafa þeir farið jafnharðan niður eftir einhverja verstu frammistöðu í sögu Úrvalsdeildarinnar. Það verður áhugavert að sjá hvort að Roy Keane getur gert betur, en leikmannakaup hans í sumar benda til þess að hann setji markið hátt. Ég sé annað af tvennu fyrir mér gerast: þeir verða aftur langneðstir og Roy Keane verður orðinn atvinnulaus um áramót, eða að þeir verða spútniklið ársins. Ég veðja á hið síðara, ég hef trú á þessu Sunderland-liði.

Aggi: Sunderland er í úrvalsdeildinni útaf tveimur mönnum, Roy Keane og Niall Quinn og ég kann vel við báða. Þrátt fyrir að Keano sé fyrrum fyrirliði erkifjanda okkar og þeirra stærsta stjarna undanfarin áratug þá hef ég “soft spot” fyrir honum sem stjóra. Virkar öflugur og hreinskilinn. Tel að Sunderland gæti vel komið á óvart í vetur þar sem Keane nær að kreista meira út úr sínum hóp heldur en aðrir stjóra með lið á svipuðu reki. Tel að Sunderland haldi sínu sæti í deildinni.

Tottenham Hotspur

Kristján: Þeim er spáð mikilli velgengni í vetur eftir að hafa enn og aftur styrkt sig á leikmannamarkaðnum í sumar. Darren Bent á eftir að reynast mikill happafengur og ef Arsenal-liðið dalar eins og ég býst við af þeim í vetur held ég að Tottenham séu líklegastir til að hirða af þeim Meistaradeildarsæti. Verða sterkir í vetur.

Aggi: Góður vinur er mikill stuðningsmaður Spurs og hefur hann sagt eftir áramót undanfarin 15 ár, næsta tímabil! Og hver veit? Núna gæti það í raun ræst því Tottenham er með gríðarlega öflugan hóp og hefur eingungis bæst í hann. Góður þjálfari, góður hópur, flottur völlur, hvað þarf meira? Þetta er lið sem getur vel blandað sér í topp 4 að mínu viti.

West Ham United

Kristján: Það þarf vart að fjölyrða um málefni Íslendingaliðsins West Ham á þessari síðu. Þið vitið öll hvað hefur gengið á þarna, hverjir hafa komið og hverjir farið. Ég held hins vegar að menn séu aðeins að tapa sér í spenningnum og gera sér of háar væntingar til leikmanna á borð við Craig Bellamy og Scott Parker. Þeir verða sterkari en í fyrra en ég sé þá ekki fyrir mér halda í við lið á borð við Everton, Tottenham, Newcastle og Blackburn í baráttu um Evrópusæti. Verða um miðja deild, jafnvel aðeins fyrir ofan miðju en ekki mikið meira.

Aggi: Það er alveg á hreinu að liðið verður í miklu betra sæti í ár en í fyrra. Curbisley búinn að vera lengur með liðið sem og félagið hefur keypt in gríðarlega öfluga leikmenn. Það kæmi mér ekki á óvart að liðið tryggi sér sæti í UEFA Cup að ári. Að fá Ljungberg, Parker og Bellamy mun auka gæði liðsins gríðarlega. Mjög spennandi tímabil framundan.

Wigan Athletic

Kristján: Þeir seldu Leighton Baines í sumar og fengu Titus Bramble í staðinn. Þarf ég að segja meira? Þetta lið er á leiðinni beint niður.

Aggi: Gríðarlega breytingar á leikmannahópnum og á ég erfitt með að sjá leikmenn eins og Bramble styrkja eitthvað lið í úrvalsdeildinni. Ég sé eitt, fall.


Og þannig er nú það, svona spáum við þessu í vetur. Við Aggi teljum báðir að Tottenham muni brjóta upp hin fjögur stóru í vetur og eins teljum við báðir að Wigan og Derby séu á leiðinni niður. Aggi hefur meiri trú en ég á West Ham og Fulham, ég á móti hef meiri trú en hann á Blackburn og Sunderland. Það verður spennandi að sjá hvort við erum sannspáir. 🙂

10 Comments

  1. Þjálfari Derby County heitir reyndar Billy Davies. George Burley þjálfar lið Southampton í championship deildinni. Annars er ég nokkuð sammála ykkur, það verða Derby, Fulham og Wigan sem fara niður og Tottenham nær meisttaradeildarsæti.

  2. Já þetta er víst rétt hjá þér. Einhver hugsanaskekkja í gangi hjá okkur Agga. 😉 En fyrir vikið segi ég að Derby séu enn líklegri til að fara niður, þar sem Davies er ekki jafn reyndur og Burley.

  3. “Að fá Ljungberg, Parker og Bellamy mun auka gæði liðsins gríðarlega.”

    Eru Ljungberg, Parker og Bellamy betri kostur en gömlu leikmennirnir í sömu stöðum, þ.e. Benayoun, Reo-Coker og Tevez? Ég held ekki. Jafnvel veikari ef eitthvað er.

    Tek samt að ofan fyrir ykkur fyrir að nenna að skrifa meira en 5 orð um Fulham, Middlesbrough og Derby 🙂

  4. Halldór: Ég held að Parker, Ljunberg og Bellamy geti nýst West Ham vel. Parker er ekki síðri miðjumaður en Reo-Coker fyrir West Ham. Ljunberg er ekki síðri kantmaður en Benayoun. Tevez er MIKLU betri leikmaður en Bellamy hins vegar tók það Tevez óra tíma að komast í gang á síðasta tímabili og þess vegna tel ég að Bellamy muni nýtast West Ham í vetur betur en Tevez gerði ALLT síðasta tímabil.

  5. var að lesa á sky að liverpool væru á eftir cicinho hjá real. Annars skemmtileg útekt á liðunum hjá ykkur

  6. Fréttin um Cicinho er hérna. Þetta yrðu vissulega áhugaverð kaup, ef af þeim yrði, því það eru tvö ár síðan Rafa var fyrst sagður hafa áhuga á þessum brasilíska bakverði. En eftir að hann fór til Real virtist Rafa snúa sér í staðinn að Daniel Alvés, sem er mjög svipaður leikmaður og Cicinho, en það er spurning hvort Rafa sé orðinn þreyttur á að reyna að díla við Sevilla-menn og hafi því snúið sér aftur að Cicinho.

    Væri til í að fá hann. Mjög.

  7. Skemmtileg samantekt og nú er ég farinn að hlakka mikið til komandi leiktíðar. Ljóst að það verður áhugavert að fylgjast með liðum eins og West Ham, Man City og Sunderland svo dæmi séu tekin.

    Varðandi Cicinho þá vil ég ekki fá hann til liðsins, finnst hann ofmetinn. Við erum líka með þá Finnan og Arbeloa sem eru toppleikmenn. Ef hann myndi spila vinstri bakvörð þá hefði ég kannski meiri áhuga…

  8. Ekki get ég borið virðingu fyrir manni sem viljandi reynir að fótbrjóta einstakling. Roy Keane er fáviti.

  9. Og já, annars skemmtileg spá. Er sammála flestu þarna, bara eitt og eitt atriði sem maður hefur aðra skoðun á.

One Ping

  1. Pingback:

Sýn2 og fjölmiðlaþögnin

Verðlagning Sýnar í Kastljósinu