Með rúmlega milljón á dag

Afabróðir minn, Bjarni Guðnason fékk ungur að árum tilboð um að spila fyrir Chelsea. Hann afþakkaði pent þar sem launin sem hann var að ljúka kennaranámi og launin sem kennari á Íslandi væru líklegri til að framfleyta fjölskyldu hans heldur en það sem Chelsea gat boðið.

Í dag eru sex leikmenn Chelsea sem þéna yfir 10 milljón króna á viku. Þeir eru vandfundnir kennararnir á Íslandi sem eru með slík árslaun hvað þá á viku.

Árið 1961 voru hámarkslaun afnumin í enska boltanum en fram að því höfðu þau verið £20 á viku. Johnny Haynes varð hæstlaunaði leikmaðurinn með £100 á viku. Næstu áratugina jukust laun leikmanna jafnt og þétt en samt sem áður var farsæll knattspyrnuferill ekki ávísun á öryggi út lífið eins og í dag. T.d. voru margir leikmenn úr gullaldarliði Liverpool sem vann fjóra Evrópubikara á árunum 1977-1984 sem urðu að fá sér “alvöru” vinnu eftir að skórnir voru komnir á hilluna.

En með tilkomu Úrvalsdeildarinnar og aukningu peninga í deildinni fóru launin hratt uppávið. Fyrsta árið voru meðalárslaun í deildinni £75.000. Í dag eru þau £1.1 milljón. Það þýðir að meðalleikmaður er með £146 milljónir króna í árslaun.

Steven Gerrard er launahæsti leikmaður Liverpool með tæpar sextán milljónir króna á viku. John Terry er hæstur í deildinni með tæpar átján milljónir. Á ári þéna þessir herramenn 830 og 930 milljónir hvor fyrir að sparka í bolta, og stundum í aðra fullorðna karlmenn á meðan 1.6 milljón landa þeirra eru án atvinnu. Og þetta eru grunnlaun fyrir utan árangursbónusa og ímyndartekjur.

Gerrard og Terry eru svo langt frá því sem við myndum kalla langskólagengnir. 🙂

En fyrir sumum eru þetta lúsarlaun. Næstu fimm ár mun David Beckham fá $250 milljónir fyrir að spila með LA Galaxy. Það eru 16.75 milljarðar íslenskra króna og gera hann að launahæsta íþróttamanni heims. Aðeins Tiger Woods kemst nálægt honum en svo kemst enginn knattspyrnumaður á topp 20 lista yfir launahæstu íþróttamenn heims.

Launahæstu leikmenn Úrvalsdeildarinnar:

1. John Terry Chelsea £135,000

2. Andriy Shevchenko Chelsea £121,000

3. Michael Ballack Chelsea £121,000

4. Steven Gerrard Liverpool £120,000

5. Cristiano Ronaldo Man Utd £119,000

6. Wayne Rooney Man Utd £110,000

7. Michael Owen Newcastle £110,000

8. Frank Lampard Chelsea £100,000

9. Rio Ferdinand Man Utd £100,000

10. Fernando Torres Liverpool £90,000

11. Didier Drogba Chelsea £90,000

12. Jamie Carragher Liverpool £90,000

13. Michael Essien Chelsea £80,000

14. Kieron Dyer West Ham £80,000

Á þessum lista má finna:

  • Þrjá Liverpool leikmenn
  • Sex Chelsea leikmenn
  • Þrjá Manchester United leikmenn
  • Tvo frá liðum sem eru ekki í “topliðunum fjórum”, einn Newcastle leikmann og einn leikmann frá West Ham. Annar þeirra er nýfarinn frá Newcastle.
  • Engan frá Arsenal sem er mjög athyglisvert
  • Engann markvörð
  • Þrjá varnarmenn
  • Sex miðjumenn
  • Fimm framherja
  • Átta Englendinga
  • Þarna eru Þjóðverji, Spánverji og Portúgali frá stórþjóðum í boltanum.
  • En líka Úkraínumaður og tveir Afríkumenn, einn frá Ghana og hinn frá Fílabeinsströndinni.

Það tekur alla þessa leikmenn eitt og hálft ár í að vinna saman upp í samning Beckhams við LA Galaxy. Og fyrir samanlögð árslaun þeirra má kaupa 20 Grímseyjarferjur og samt eiga klink til að kaupa sér snekkju í Karíbahafið. Það væri líka hægt að kaupa áskrift að Sýn 2 með 12 mánaða bindingu fyrir rúmlega 202.000 íslendinga.

En eiga þessir menn launin sín skilin? Á viku þéna þeir árslaun 2-3 kennara og það hefði ekki verið spurning fyrir afabróður minn að hlaupa útúr skólastofunni með bros á vör til Stamford Bridge. Það væri óðs manns æði fyrir mig að koma með eitthvað svar og ég velti þessari spurningu því hér upp fyrir ykkur til að svara lesendur góðir. En hvað ætli Forrest Gump finnist?

“I struggle comprehending what I make. But am I supposed to take less so Rupert Murdoch can get more?”
– Tom Hanks

21 Comments

  1. Fínn pistill Daði, en ein spurning samt. Hvaðan eru þessar tölur fengnar? Eitt af því erfiðasta í öllum útreikningum hjá þessum liðum er einmitt vikulaun þeirra og þegar maður sér leikmann skrifa undir nýjan samning, þá sér maður þvílíkan fjölda af mismunandi upphæðum nefndar. Það hafa líka nokkrum sinnum komið fram leikmenn sem hafa sagt að þær upphæðir sem nefndar eru í fjölmiðlum séu yfirleitt 30-40% hærri en þær eru í raunveruleikanum. Ekki það að ég ætli að discredit-a greinina, bara fyrst og fremst forvitinn að vita hvaðan tölurnar eru fengnar.

  2. ég get ekki fengið það út að þessir menn, hvað svo sem þeir eru góðir í fótbolta eigi það skilið að fá 120.000 + í vikulaun á meðan heilaskurðlæknar þéna minna en þeir fyrir að bjarga lífum, svo er talað um láglaunaða leikmenn sem þéna 50-60 þúsund pund, mér finnst að það ætti að smella launaþaki á evrópuboltann, svo sem 90 þús topp, sem er samt rosaleg upphæð. því það er búið að sanna sig að sumir leikmann, ef ekki flestir, fara þangað sem peningarnir eru en fylgja ekki fótboltalegum metnaði, líkt og lucas nokkur neill.
    mitt álit…….
    góður pistill, gaman að sjá tölurnar svona svart á hvítu

  3. SSteinn alveg hárrétt að svona tölur eru á reiki og erfitt að vita hverju á að treysta. Þessi list er tekinn úr nokkrum áttum og virtist mér vera mest samræmi í þessum tölum. Þetta eru allt tölur og uppröðun sem Times, MSN Money ofl. hafa birt síðustu tvo mánuði.

    Ég held að það sé erfiðara að reikna út meðalleikmanninn, t.d. að segja hversu mikið Michael Brown hjá Fulham eða El Hadji Diouf hjá Bolton fá í laun með fullri vissu þar sem það eru ekki jafn “áhugaverðar” upplýsingar fyrir blöðin. Þar geta tölurnar verið meira á reiki og talaðar upp af umboðsmönnum.

  4. Eiga þessir menn launin sín skilin? Allavega ekki Kieron Dyer. Mynduð þið ráða mann í vinnu sem væri veikur 15-20 daga í mánuði í mörg ár 🙂

  5. Eru menn ekki að grínast með það að Kieron Dyer sé 14. launahæsti? Hann, Ballack og Owen hljóta að hafa gert minnst til að vinna fyrir laununum sínum.

  6. Dyer, Ballack og Owen eru allavega í leiðinlegustu störfunum, að vera í þreksalnum og hjá læknum og sjúkraþjálfurum, í staðinn fyrir að vera að leika sér í fótbolta! 🙂

  7. Hehe það er rétt Hannes.
    Shevchenko er samt svo sannarlega að standa undir þessum svimandi háu launaupphæðum. Skorar og skorar, eeeekkkiii!

  8. Ég tek undir með mönnum hér að ofan; það sem slær mig mest er að lið eins og Newcastle og West Ham hafi verið nógu “desperate” til að bjóða Michael Owen og Kieron Dyer, með þeirra meiðslasögu, þau laun sem þeir fá í dag. Það hlýtur að teljast með eindæmum lélegt viðskiptavit.

    Annars er það klárt frá minni hendi að knattspyrnumenn þéna of mikið í dag. Sú skoðun á samt lítið skylt við það hversu mikið er hollt hverjum manni að eiga, heldur tengist það félögunum frekar. Ég verð að viðurkenna að ég einfaldlega bíð eftir að sá dagur komi upp þar sem enska Úrvalsdeildin tekur upp svipuð lög og eru í bandarískum íþróttum. Þar er launaþak á hverju liði og því dreifast bestu leikmennirnir á milli liða og fyrir vikið haldast deildirnar opnar og spennandi frá ári til árs.

    Ef slíkt þak væri kynnt til sögunnar á Englandi myndi lið eins og Liverpool vissulega ekki eiga jafn “greiða” leið inn í topp fjóra í deildinni og Meistaradeildina á ári hverju, en í alvöru … haldið þið að það verði spennandi að horfa á þetta eftir tíu ár í viðbót þar sem United, Liverpool, Arsenal og Chelsea hafa alltaf raðað sér í fjögur efstu sætin, með kannski einni eða tveimur undantekningum?

    Sem Púllari vill ég sjá mínu liði ganga vel, en sem unnandi knattspyrnu vill ég sjá launaþak kynnt til sögunnar til að sporna við þróun sem er að drepa íþróttina, hægt og rólega. Það er hins vegar klárt mál að England eitt og sér getur ekki stigið skrefið, enda yrðu menn þar aldrei sáttir við að þurfa að lúta öðrum reglum en hin evrópsku stórliðin. Þetta er því undir FIFA komið, að mínu mati, að koma launaþaki í gegn um allan heim. Í öllum deildum yrði launaþak þar sem árangur liðs í deildinni á síðasta ári myndi segja til um það hversu mikil laun það má borga á næsta ári. Og þakið yrði bæði nógu rúmt til að rúma eins og tvær eða þrjár ofurstjörnur innan um hina “góðu” leikmennina, en þó ekki svo rúmt að Wigan, Derby og Bolton geti leikið í þessari deild stórstjörnulaust á meðan Chelsea, Liverpool og United hafa stórstjörnur utan 16-manna hópsins hjá sér og landsliðsmenn í varaliðinu.

    En það er bara mín skoðun. 😉

  9. Góðar umræður. Leikmenn með of há laun? Jú kannski, en mér finnst nú afskaplega hæpið að vera að bera þau saman við heilaskurðlækna verð ég að segja. Þessir knattspyrnumenn eru gríðarlega frægir vegna vinsælda fótboltans. Við getum horft til leikara, sem eru margir á svimandi launum, golfara, ökuþóra, körfuboltamenn, tennisspilara, hafnaboltaleikmenn, pókerspilara, fjárfesta, kóngafólks…

    Listinn er endalaus og allt þetta lið á það sameiginlegt að vera á ofurlaunum vegna hæfileika sinna (nema í tilviki kóngafólksins, þar er spurning um að fæðast inn í rétta fjölskyldu). Þeim mun vinsælli sem þú ert og betri í þínu fagi, þeim mun meira þénar þú. Þetta helst allt í hendur, knattspyrnumennirnir eru það sem gerir það að verkum að menn kaupa sér sjónvarpsáskrift dýrum dómum eða borga fúlgur fjár til þess að komast á völlinn. Hvert ættu peningarnir að fara? Ég er nú á því að mér finnst alveg eins gott að leikmennirnir sem skapa þessar vinsældir, fái talsverðan hluta af innkomunni, fremur en eins og þetta var áður þegar þetta lenti meira og minna allt í vasa eigendanna og leikmennirnir fengu lítið sem ekki neitt.

    Þessi launaþaksumræða hefur verið lengi í gangi og ég verð að viðurkenna það að ég sé bara ekki svona launaþak ganga upp. Mér finnst USA t.d. ekki gott dæmi, því ef við tökum NBA deildina sem dæmi, þá eru alls konar sveigjur og beygjur á þessum reglum til að geta sett saman stórstjörnulið (on N.B. í þeim deildum falla lið aldrei). Við megum heldur ekki gleyma því að fótboltinn er ekki bara í samkeppni sín á milli (á milli deilda í heiminum) heldur er hann líka í samkeppni við aðrar íþróttir. Nei, ég kaupi ekki þessa jafnaðarstefnu sem virkar eins og Ögmundur Jónasson nokkur kom fram með á sínum tíma, þar sem hann vildi að bankarnir færu úr landi svo aukinn jöfnuður yrði. Liðin skapa sér aukið svigrúm með velgengni og þetta gengur ávallt upp og niður í bylgjum. Hin fjögur fræknu munu ekki eiga þessi 4 sæti vís öll næstu 10 árin, ég er pottþéttur á því.

  10. Ég held nú reyndar að það sé ekki nein ósköp af sveigjum og beygjum í NBA. Það er deild í einkaeigu þar sem hann David Stern hefur alræðisvald. Þar er ekki mikið um keypt félagsskipti (ef eitthvað) en menn þurfa að skipta leikmönnum sín á milli. Það er líka áhugavert að taka eftir því að valdahlutföllin í NBA róterast á milli ára. Lakers er svona næst því að hafa haldið dampi í gegnum árin en þeir fá alltaf einhver dry spell þar sem þeir hafa ekki getað fengið til sín góða leikmenn, bæði vegna persónuleika og launa kobe bryant. Houston Rockets átti tvö meistaratímabil, svo hætti olajuwan og eftir það hafa þeir verið í vandræðum. Þá voru þeir líka með leikmenn innanborðs sem voru ekki að þiggja nein ofurlaun þrátt fyrir að vera stjörnur vegna þess að þeir vildu ná árangri. Það hefur gerst marg oft í NBA.
    En sammála þessu með launaþakið almennt ef það næði yfir allan evrópuboltann, eða yrði bara Fifa tilskipun þá gæti það gengið upp. Þessir leikmenn fá líka það mikið af sínum launum í gegnum auglýsingasaminga að stóru liðin myndu ekki endilega falla af stalli sínum en þetta myndi gefa minni liðum aukin sjéns á að keppa við stærri liðin ásamt því sem þessi lið hefðu ekki efni á því að halda stórstjörnum í hópnum hjá sér án þess að nota þær.

  11. Kosturinn við launaþak er að það verðlaunar liðin sem eru snjöll, en ekki bara þau sem eiga mestan pening einsog vill gerast í fótboltanum. Sjáið bara lið einsog New York Knicks, sem á nóga peninga en er stjórnað af hálfvita.

  12. Biðst afsökunar á þráðráni, en fyrst ég komst hingað þá verð ég að spyrja :
    Er mikið vesen með serverinn sem geymir þessa síðu ?
    Ég er að lenda í bullandi leiðindum bæði heima og í vinnutölvuni við að sjá síðuna : (

  13. Þetta er áhugaverð pæling varðandi hvort knattspyrnumenn séu að fá of há laun en er ekki aðalatriðið að á meðan félögin (atvinnuveitandinn) er tilbúinn að borga leikmanninum (launþegi) þá hlýtur þetta að ganga. Félögin eru að græða mikið af peningum og það kannski sem er jákvætt er að allir launþegarnir njóta góðs að því (þe. leikmennirnir í liðinu) á meðan t.d. hjá Kaupþing eða FL Group eru það eingöngu topparnir og eigendur hlutabréfa en ekki oftast ekki hinn almenni starfsmaður fyrirtækjanna.

    Ég er algjörlega mótfallinn launaþaks hugmyndinni og má hún alls ekki koma yfir Atlantshafið. Ef félag býður leikmanni samning sem það getur ekki staðið undir þá þarf það A) að selja leikmanninn eða B) fer á hausinn. Þetta er á endanum fyrirtæki og liðin geta ekki lofað meira en þeir eiga fyrir.

    Á endanum er náttúrulega fáránlegt að Dyer sé þarna á þessum lista, ekki bara út af meiðslum heldur einnig alls ekki topp leikmaður. En greinilega með góðan ráðgjafa sem fær góða samninga fyrir hann.

  14. Fyrir þá, sem eru algjörlega á móti launaþaki, hvað viljið þið gera til þess að við endum ekki með það ástand að sömu fjögur liðin verði að berjast um enska titilinn næstu 30 árin?

  15. Látum markaðinn sjá um þetta. Það eru örugglega til fleiri Roman og Björgólfur sem hafa áhuga á því að fjárfesta í bestu deild í heimi. Ætli það sé ekki bara þróunin? Þar með eiga lið eins og West Ham, Aston Villa, Porstmouth ávallt möguleika.

  16. Aggi, með fullri virðingu, þá er það fáránleg lausn á þessu að vonast til að fleiri milljónamæringar kaupi litlu liðin.

  17. Er þetta ástand ekki þegar orðið að veruleika? Það eru engin lið að komast upp á milli Chelsea, Utd, Liverpool og Arsenal og ekkert sérstaklega líklegt að einhverjum takist það í ár.

  18. Einar Örn það má vel vera fáránleg lausn en samt sem áður líkleg staðreynd.

  19. Það er annað varðandi launaþökin sem ég gleymdi að minnast á en menn mega ekki gleyma: auglýsingatekjur.

    Í NBA, svo við tökum þá deild áfram sem dæmi, er launaþak þannig að þrátt fyrir stjarnfræðilega frægð getur t.d. leikmaður eins og Shaquille O’Neal aldrei verið með miiiiiklu meiri laun en liðsfélagar sínir, sem eru minna frægir. Allavega ekki eins og hjá David Beckham og restinni af L.A. Galaxy, þar sem ekkert launaþak er og Galaxy borgar honum meira en öllum hinum leikmönnum liðsins til samans.

    Shaquille O’Neal hefur hins vegar aðra leið til að græða ofurmikla peninga og það er í auglýsingatekjum. Ef við settum t.d. þak sem segði að leikmaður eins og John Terry þyrfti að lækka laun sín úr 135 þús. pund niður í 25 þús. pund (bara sem dæmi), haldið þið þá að hann færi á hausinn? Hann er með auglýsingasamninga til hægri og vinstri sem tryggja það að hann þarf varla launaseðilinn. Auglýsingatekjurnar flykkjast alltaf að þeim sem eru frægastir og/eða bestir, þannig að þeir sem skara fram úr eru samt sem áður verðlaunaðir með ríkidæmi, þrátt fyrir launaþakið. Hins vegar koma Brynjar Björn-arnir til með að þéna svipað áfram og þeir myndu gera þrátt fyrir launaþak.

    Eina lausnin á þessu sem þið hafið nefnt er það sem Aggi talaði um – að láta fleiri múltímilljónamæringa kaupa fleiri lið. En það leysir ekki vandann í heild sinni. Ef öll tuttugu liðin í deildinni í ár væru í eigu margmilljónera, hvaða von í helvíti á þá lið í deildinni fyrir neðan? Undanfarin ár hafa lið eins og Reading, Wigan, West Ham og Portsmouth getað komið upp úr næst efstu deildinni og verið spútniklið sem nær sér jafnvel í Evrópusæti á fyrsta tímabili. En eins vel og þeim gekk var aldrei raunhæft að þau gætu skotið Arsenal, United, Liverpool eða Chelsea aftur fyrir sig, því þau fjögur voru einfaldlega of sterk, of rík og of góð til. Og ef það gerðist einhvern tímann að eitt þeirra missti úr Meistaradeildarsæti, eins og þegar Everton náði fjórða sætinu fyrir tveimur árum, þá einfaldlega eyddu menn meira og stukku aftur fram úr þeim.

    Þannig að ef t.d. Wigan gat komið upp og verið spútniklið alveg upp að svona fimmta sætinu, þar sem fjármagnsmunurinn var orðinn of mikill til að þeir gætu klifrað hærra, hvernig væri það þá ef þeir hefðu verið nýliðar í deild þar sem öll liðin væru moldrík?

    Launaþak virkar einfaldlega af því að, eins og Einar Örn, það verðlaunar þau lið sem eru vel skipulögð, vel rekin og vel þjálfuð. Það jafnar leikvöllinn; í stað þess að bestu leikmenn hinna liðanna endi hjá annað hvort Chelsea, United eða Liverpool geta lið haldið í sína bestu leikmenn (heldur t.d. einhver að Kevin Nolan verði enn hjá Bolton eftir þrjú ár, nema þeir eignist milljónamæring í stúkuna?) og byggt upp lið í kringum þá. Lið eins og t.d. Sunderland gæti átt séns þegar það kæmi upp bara með því að byggja upp sitt lið og eiga sinn góða þjálfara, án þess að það væri nauðsynlegt að kaupa nýja menn í nær hverja einustu stöðu sumarið sem það kemur upp bara til þess að eiga séns á að komast upp fyrir fallsvæðið. Hvað hafa Sunderland og Birmingham eytt í marga leikmenn í sumar?

    Launaþakið er einfaldlega gott, en til þess að af því verði verður FIFA að taka skrefið. Það mun ekkert land gera það eitt og sér, vegna þess að ólíkt bandarísku íþróttadeildunum eru knattspyrnudeildir heimsins ekki bara í samkeppni við sjálfar sig heldur aðrar deildir og önnur lönd líka.

    Ef við sæjum ensku Úrvalsdeildina með þeim reglum að það yrðu að vera ákveðið margir heimamenn í hópi hvers liðs og að það mættu t.d. bara tveir leikmenn fá borgað yfir 50 þús. á viku og að launaþakið væri í kringum 500-750 þús. fyrir hópinn, þá yrði ég mjög sáttur því það myndi opna deildina mikið upp og gera hana skemmtilegri en hún er. En það er bara mín skoðun.

  20. Mér finnst menn vera svolítið búnir að týna þræðinum hérna. Hver er ástæðan fyrir að menn vilji launaþak? Er hún:

    a) Af því að mönnum finnst leikmennirnir fá of há laun
    b) Af því að menn vilja jafna hlut félaga á Evrópuvísu

    Ok gott og vel, en ég hreinlega kaupi þetta engan veginn. Varðandi laun leikmanna, þá er það bara þannig að lög landa eru misjöfn, skattar, fríðindi og annað. Að ætla að setja eitt allsherjar launaþak á fótboltann í heiminum er að ég held algjörlega útilokað og myndi hreinlega stuðla að því að G14 myndu láta verða af hótun sinni og draga sig út. Mér finnst hreinlega fáránlegt þegar verið er að bera þetta saman við deildir í USA og launaþökin þar. Ef við tökum NBA sem dæmi, þá er það fyrirtæki. Það falla engin lið úr deildinni og afar sjaldgæft að lið komi inn í hana. Þar ganga lið kaupum og sölum milli borga. Það er að mínum dómi enginn möguleiki á að bera saman NBA og svo fótboltann in general.

    Varðandi þessa jöfnun, þá er ég á því að launaþak muni ekkert gera til þess að jafna það. Og hvað vilja menn jafna? Eru menn bara að hugsa um að Leyton Orient eigi möguleika á titlinum? Erum við að því til að úrvalslið Kópaskers eigi möguleika á að hampa Evróputitlinum? Eða snýst þetta bara um þessi “fjögur fræknu”? Ég er alveg handviss um það að það hefur lítið breyst ef menn horfa á söguna. Jú einhver lið sem áður voru að taka titla eru hætt því og önnur komin í staðinn. Það er alveg sama hvaða deild er horft á. Lið byggja sig upp með árangri og það eru Man.Utd, Liverpool og Arsenal búin að gera til mjög langs tíma. Man.Utd unnu ekki titilinn góða í ein 26 ár að mig minnir og nú höfum við ekki unnið hann í ein 17 ár. Leeds og Blackburn eru bæði búin að vinna titilinn síðan við unnum hann síðast. Þetta gengur allt í bylgjum og það sýnir sagan.

    Það eru bara all nokkur lið (bæði miðlungslið og minni) búin að eyða fúlgum fjár í leikmenn í sumar. Liverpool eru einhvers staðar á bilinu 4-6 sæti yfir þau lið sem hafa eytt mestu í sumar af Úrvalsdeildarliðunum, en samt er verið að tala um big spending. Fulham er mjög ofarlega á þessum lista. Dæmið um Brynjar Björn var afar gott, en viljum við þetta. Eiga Brynjar Björn og Jamie Carragher að vera á sömu launum vegna þess að allir eiga að vera jafnir? Skiptir engu máli hvort menn séu góðir eða ekki? Ég er reyndar á því að þetta muni alls ekkert jafnast við launaþakið, síður en svo. Þar sem mönnum er svo tíðrætt um alla þessa landsliðsmenn á bekkjum stóru liðanna, haldið þið að þeir yrðu ekki áfram á bekkjum þeirra þrátt fyrir þessa breytingu (miðað við tvær launaháar stjörnur í hverju liði)? Nei, látið fótboltann vera, ég elska hann eins og hann er og ég vil alls ekki meiri Platini-isma inn í boltann 🙂

Gerrard frá í nokkra daga

Blaðamannafundur