Okkar menn komu sterkir undan landsleikjahléinu og unnu í dag sinn annan útileik í röð, **0-2 gegn Sunderland** í miklum baráttuleik. Fyrir vikið eru okkar menn komnir með 7 stig eftir þrjá leiki og aðeins dómaraskandall síðustu helgar kemur í veg fyrir að liðið sé með fullt hús stiga. Þetta er einfaldlega byrjunin sem við vorum að vonast eftir, frábær byrjun í deildinni sem gefur tóninn fyrir titilbaráttu á komandi vetri. Þar að auki var einfaldlega hrein unun að horfa á liðið í dag; menn voru flest allir að leika fantagóða knattspyrnu, nær allt sem Rafa lagði upp með gekk upp og þetta var svona klassískur útisigur sem við höfum síðustu tímabil horft öfundaraugum á Chelsea og Man Utd innbyrða. Ekki lengur, í dag voru það okkar menn sem létu ljós sitt skína.
Rafa Benítez stillti liðinu upp svona í dag:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Arbeloa
Pennant – Alonso – Sissoko – Babel
Torres – Voronin
**BEKKUR:** Itandje, Agger, Riise, Mascherano, Kuyt.
Liverpool varð fyrir blóðtöku í þessum leik en liðið missti báða miðherja sína útaf meidda; Hyypiä fékk olnbogaskot í upphafi leiks og fór útaf eftir 15 mínútna leik með það sem virtist vera brotið nef og kom Daniel Agger inná í hans stað. Eftir rúmlega 60 mínútna leik fékk Carragher svo slysaspark í rifbeinin frá Pepe Reina í úthlaupi og þurfti að fara útaf. Það verður að koma í ljós hversu alvarleg meiðsli þeirra eru, en við vonum það besta. Undir lokin tók Rafa svo Babel útaf fyrir Dirk Kuyt.
Leikurinn:
Fyrri hálfleikurinn var einfaldlega stórkostlegur hjá okkar mönnum. Það var vart liðin mínúta þegar Andriy Voronin slapp í gegn en Craig Gordon varði vel frá honum og hélt Sunderland-liðinu á jöfnu. Hann átti eftir að reynast erfið lokahindrun fyrir okkar menn en hann var klárlega maður leiksins hjá báðum liðum og án hans hefði Torres sennilega skorað þrennu og Liverpool unnið svona 6-0. Það er þó ekkert nýtt að markverðir Sunderland eigi stórleiki gegn Liverpool. 🙂
Það er einfaldlega langt síðan ég sá Liverpool spila jafn vel á útivelli í deildinni. Sérstaklega í fyrri hálfleik var pressan á vörn Sunderland algjör; um miðjan hálfleikinn sá maður tölfræði á skjánum sem sagði að Liverpool voru búnir að vera með boltann 79% leiksins, sem eru náttúrulega sláandi miklir yfirburðir, enda komust Sunderland-menn vart fram yfir miðju fyrir hálfleikshléið.
Pressan var mikil; auk dauðafæris Voronin í byrjun voru hann, Torres og Alonso drjúgir upp við mark Sunderland en Gordon sá við öllu sem kom að marki. Á köntunum sýndu bæði Babel og Pennant góða takta – Pennant skilaði kannski meiru af sér inn í teig og sýndi manni enn og aftur að hann er orðinn með hættulegustu kantmönnum í deildinni í dag, en Babel var einnig stórgóður og fyrirgjafnirnar og framleiðnin hjá honum eiga bara eftir að batna. Framtíðin er björt með þessa ungu stráka á köntunum.
Það var svo á 37. mínútu að fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós, og það kom sko úr óvæntustu mögulegu átt. Liðið átti góða sókn upp hægri kantinn og boltinn barst inn á teiginn þar sem Torres lét hann fara og Voronin náði honum utarlega, renndi honum út úr teignum þar sem **MOMO SISSOKO** kom aðvífandi og negldi þrumufleyg niðri í hægra hornið, óverjandi fyrir Gordon og Liverpool komið í 1-0! Þetta var fyrsta mark Momo fyrir Liverpool og miðað við að það hefur verið hálfgerður brandari að horfa á skottilraunir hans fyrstu tvö árin hjá félaginu verður að segjast að það var heldur betur óvænt að sjá hann skora svona glæsimark. En hann er allavega kominn á blað, loksins, og nú er bara að vona að hann geti byggt á þessu og skorað nokkur í viðbót í vetur.
Eftir hlé jafnaðist leikurinn aðeins; okkar menn höfðu áfram yfirburði á miðsvæðinu og stjórnuðu leiknum algjörlega í seinni hálfleik en sóttu ekki af jafn miklum þunga og Sunderland-menn fóru smám saman að koma framar á völlinn. Það verður að segjast þessu liði Roy Keane til hróss að þeir börðust frábærlega í dag og léku í raun alls ekki illa. Okkar menn voru ekki að vinna lélegt lið í dag, þetta Sunderland-lið sýndi það fyrir tveimur vikum að þeir geta velgt toppliðum eins og Tottenham undir uggum með baráttugleði sinni og ákveðni á heimavelli, en gæði Liverpool-liðsins í dag var einfaldlega of stór biti fyrir þá.
Allavega, áfram héldu yfirburðir Liverpool og Torres var í tvígang óheppinn að skora ekki eftir að hafa sloppið í gegn. Eins og ég sagði áður hefði hann átt að skora allavega eitt í dag en klaufagangur hans og stórleikur Gordon í marki Sunderland kom í veg fyrir það.
Á 89. mínútu innsigluðu okkar menn svo sigurinn. Þá áttu Babel og Sissoko góða sókn upp völlinn og Babel gaf svo boltann inná Torres við vítateiginn og hann renndi honum áfram á **ANDRIY VORONIN** úti við vinstri hlið vítateigsins. Hann lék að marki og sneri á varnarmanninn fyrir framan sig og sendi svo hnitmiðað skot í fjærhornið, óverjandi fyrir Gordon. Staðan orðin 2-0 fyrir Liverpool og þrjú stigin í höfn!
**MAÐUR LEIKSINS:** Sko, það lék ekki einn maður illa í þessu liði í dag. Reina þurfti ekki að verja skot í allan dag en greip vel inní það litla sem þurfti, á meðan Agger og Carragher voru öryggið uppmálað í vörninni og Finnan og Arbeloa bæði vörðust og sóttu vel upp völlinn líka. Babel og Pennant voru sem fyrr segir hættulegir á köntunum og Alonso stjórnaði spilinu eins og hann gerir best. Frammi voru Torres og Voronin svo í fantagóðu formi; Torres er fyllilega að standa undir væntingum okkar og ef hann spilar í allan vetur eins og hann hefur gert í fyrstu þremur leikjum vetrarins á hann eftir að raða inn mörkum. Hann skoraði ekki í dag en það kemur, á betri degi hefði hann skorað þrennu með þessum færum sem hann fékk í dag. Þá er alveg ljóst að Voronin er kominn til að vera í þessu liði. Þvílíkur leikmaður, hann er þegar búinn að skora í báðum þeim leikjum sem hann hefur leikið frá byrjun og hann er einfaldlega að spila það vel að Dirk Kuyt getur ekki verið bjartsýnn á stöðu sína við hlið Torres í okkar sterkasta byrjunarliði.
En maður leiksins var klárlega **MOMO SISSOKO**. Þessi ungi malíski miðjumaður lenti í mikilli leiklægð þegar hann kom inn úr meiðslum í vor og sumir héldu jafnvel að framtíð hans hjá Liverpool væri búin, en svo er nú aldeilis ekki. Eftir að hafa verið utan hóps í upphafi tímabils kom hann inn í byrjunarliðið í dag og minnti okkur algjörlega á það hvers vegna Rafa stal honum frá Everton fyrir tveimur árum. Hann gerði það sem hann gerir best; vann endalaust af boltum, var alls staðar út um allan völl að angra Sunderland-menn, setti gríðarlega pressu á þá ofarlega á vellinum sem var oftar en ekki ástæða þess að okkar menn náðu að halda sóknarpressu langtímum saman, og svo var hann duglegur að mata þá Pennant og Babel á köntunum á góðum boltum. Þar í ofanálag skoraði hann stórglæsilegt mark í dag sem setti liðið á leið að þremur stigum. Frábær dagur hjá þessum miðjumanni sem á fáa sína líka þegar hann spilar svona vel.
Næst er leikur gegn Toulouse á Anfield á þriðjudag og svo heimaleikur gegn Derby County um næstu helgi. Gæti þetta tímabil byrjað betur? 🙂
Flottur leikur, Voronin lýtur betur út í hverjum leiknum á fætur öðrum..
Lýsi samt eftir Babel, spurning að fá björgunarsveitarmennina okkar til að leita að honum þegar/ef þjóðverjarnir finnast..
Torres þarf ekket að aðlagast enskum bolta, hann er ready
Frábær leikur. Torres er heitur. Vonandi er allt í lagi með Carra!
Sannfærandi sigur og jú Voronin finnst mér vera að skapa mun meiri hættu en Kuyt hefur verið að gera. Sammála því að Torres er hreinlega klár í slaginn, hefði mátt setja eitt eða tvö 😉 sérstaklega í dauðafærinu undir lok fyrri hálfleiks en aftur á móti átti markvörður Sunderland STÓRLEIK í dag. Vonandi verða meiðsli Carragher ekki alvarlega en það er ljóst að bæta þarf við einum manni sem getur leyst þessa stöðu ef eitthvað kemur upp á líkt og í dag þó Arbeloa hafi náð að halda sóknarmönnum Sunderland í skefjum út leikinn þá er ég ekki viss um að hann sé nægilega traustur gegna sterkari sóknarmönnum. En 3 stig í safnið og útivallardraugurinn hefur ekki gert vart við sig so far.
Frábær leikur fyrir utan smá kafla um miðjan seinni hálfleikinn þegar að Sunderland setti smá pressu.
Mér fannst sérstaklega gaman að sjá hversu skapandi Babel og Pennant voru í leiknum og þá sérstaklega Pennant. Torres át náttúrulega þessa varnarmenn Sunderland í leiknum og með hreinum ólíkindum að hann hafi ekki náð að skora.
Rosalega skemmtilegur og jákvæður leikur. Það hefði verið glæpur að missa þetta niður í jafntefli, einsog maður hafði smá áhyggjur af, en Voronin bjargaði okkur. Hann virkar líka rosalega vel á mig.
Já, og eftirfarandi menn spiluðu ekki í dag: Steven Gerrard, Harry Kewell, Peter Crouch, Yossi Benayoun og Javier Mascherano.
Vel gert hjá okkar mönnum !
Gaman að sjá hvað við aðdáendur ætlumst mismikið af leikmönnum okkar, Jón Bjarni lýsir eftir Babel sem mér fannst standa sig prýðilega !
Gaman að þessu : )
Eftir sigurleikinn gegn Derby næstu helgi verður orðið spennandi að sjá stöðuna í deildinni : )
Góður sigur. Enginn einn sem stendur upp úr eftir þennan leik, þetta var heilt yfir góð frammistaða hjá flestum. Nema kannski Babel sem komst ekki í takt við leikinn, en átti þó þátt í seinna markinu. Voronin er svo sannarlega að stimpla sig inn af miklum krafti.
Craig Gordon er áhugaverður markvörður og verður forvitnilegt að fylgjast með honum sem og öllu Sunderland liðinu í vetur.
Nú er bara að taka Toulouse í vikunni og valta síðan yfir nýliða Derby á heimavelli um næstu helgi 🙂
Fræbær byrjun hjá okkar mönnum…. samt ekki sammála Johnny með að Arbeloa eigi ekki eftir að geta staðið í sterkustu sóknarmönnum deildarinnar… man nú hvað hann fór ýlla með Messi í leikjunum á móti Barcelona…messi átti ekki séns á móti honum og Messi er talinn einn allrabesti kanntmaður í heimi… En allir mega hafa sýnar skoðanir 😉
En verður gaman að sjá Liverpool liðið í vetur.
Já, kannski að skýra þetta með Babel. Ég skil vel að menn séu pínku svekktir yfir því að hann hafi verið lítið áberandi á köflum. En mér fannst bara að í hvert einasta skipti sem hann fékk boltann, þá væri möguleiki á að það skapaðist hætta. Sama á við um Pennant. Ég man ekki eftir að hafa séð jafn spennandi kantspil hjá Liverpool í langan tíma.
Ég er sammála þeim sem lýsti eftir Babel sem og Einari hér að ofan. Mér fannst Babel slakur í leiknum, hann sýndi þó smá spretti endrum og eins, sérstaklega þarna í eitt skiptið þegar hann plataði varnarmann algjörlega uppúr skónum með ýmsum kúnstum sem Christiano Ronaldo hefði verið stoltur af. En gallinn er sá að það kom aldrei neitt útúr þessu hjá honum. En það er klárlega bolti í stráknum og maður er alltaf með á tilfinningunni að hann geti gert eitthvað þegar hann fær boltann, það er bara eins og það vanti eitthvað uppá áræðnina eða eitthvað hjá honum. Vonandi kemur það þó, og ég vona að hann byrji aftur í vikunni gegn Toulouse.
En leikurinn sjálfur, mér fannst við ekki spila jafn æðislega og menn hér vilja meina. Þetta var svona pro sigur en mér finnst sóknarspilaið alltaf voðalega tilviljunarkennt hjá okkur. Menn geta gert helling uppá eigin spýtur eins og Torres gerði nokkrum sinnum í leiknum, en mér finnst vanta vel skipulagðar og útfærðar sóknir. Auðvitað koma þær stundum, eins og t.d. í öðru markinu, en allt allt of sjaldan finnst mér við sjá þetta.
Fyrir mér stóðu Torres, Voronin og Sissoko uppúr. Hefði valið Torres mann leiksins hefði hann skorað, en það er ekki hægt annað en að velja Momo þegar hann loksins skorar(var búinn að afskrifa hann sem hugsanlegan markaskorara eftir sláarskotið gegn Barca í fyrra). Hverjum hefði dottið þetta í hug, Momo Sissoko myndi skora 7000. deildarmarkið okkar 😀
Atvik leiksins klárlega þegar Carra steitti hnefanum að Rafa þegar hann fékk ekki skiptingu og lét hann svo heyra það þegar hann kom útaf yfir því að hafa ekki fengið skiptingu fyrr….priceless moment 😀
Gífurlega fyndið að aðeins 2 sekúndum eftir að ég var búinn að segja systur minni að sissoko hafi aldrei skorað fyrir liverpool og skottilraunir hanns væri hlægilegar þá kemur þessi meistari og þaggar niðri í mér eins og sönnum leikmanni sæmir!! frábær leikur og ótrúlega skemmtilegt að sjá liðið byrja svona vel!
Áhorfendur voru okkar 12 madur og sköpudu tennan sigur frá fyrstu mínútu.
Já, Sunderland aðdáendur eiga það til að vera gjafmildir.
En atvikið þegar Carra skammaði Rafa var PRICELESS og ég brosti út að eyrum í þónokkurn tíma.
Menn leiksins að mínu mati voru Pennant, Sissoko, Voronin, Torres og Carra fyrir að skamma Rafa :).
http://video.google.com/videoplay?docid=-1781618443830590754&q=liverpool+vs+sunderland&total=92&start=0&num=10&so=0&type=search&plindex=7
Totii – fyndið að við vorum 4 félagarnir að hlægja að því að Sissoko hafi verið framherji þegar Rafa keypti hann til Valenca.. þegar hann stakk uppí okkar í miðri setningu
Rosalega væri nú gaman að fá alla á blað sem hraunuðu mest yfir MOMO hér í fyrra… munið að maðurinn er bara 22 ára og því er nóg eftir að taka !
Glæsilegur sigur, sá því miður ekki leikinn þannig að ég læt það vera að tjá mig um hann. Til hamingju Púllarar með sigurinn.
YNWA
Frábær leikur og góður sigur á spræku liði Sunderland.
Hann Torres á eftir að vera drjúgur fyrir okkur í vetur 🙂
Einnig er ég viss um að Babel eigi bara eftir að verða betri þótt að
hann hafi týnst nokkrum sinnum á köflum í dag.
En… var ég sá eini sem fannst hann Alonso vera svolítið mikið misjafn í sendingum í dag?? Einnig finnst mér hann vera að missa boltana á hættulegum stöðum á vellinum..
Já fanta góður leikur hjá okkar mönnum. Með Momo líka gaman að sjá hvað hann hefur bætt leikskilning og tæknilegu hliðina mikið. Maður er farinn að sjá virkilega góðar og markvissar sendingar hjá honum og þetta skot var auðvitað bara að hætti Gerrard, ekkert minna en það.
Svo er Torres auðvitað bara frábær. Sáu menn t.d. hraðabreytinguna þegar hann skildi eftir varnarmenn Sunderland í fyrri hálfleik. Cissé var kannski hraðari en Torres en hafði ekki þennan leikskilning og tækni sem Torres hefur og gerir hann einfaldlega að frábærum leikmanni. Svo er Voronin greinilega ekki kominn til að sitja bara á bekknum. Þvílíkur töffari og algjör nagli. Kemur töluvert meira út úr honum en Kuyt einfaldlega vegna þess að hann er ekki að hanga inn á miðjunni heilu og hálfu leikina. Er bara að hugsa um að sækja á markið eins fljótt og hann getur.
….og af hverju er Jermaine Pennant ekki í enska landsliðinu ?! Maður spyr sig…
flottur sigur, fannst e-r deyfð vera yfir þessum leik þrátt fyrir að Liverpool hafi fengið dass af færum… 7 stig af 9 mögulegum (9/9 ef ekki hefði verið fyrir R.Styles) í tveimur útileikjum og erfiðum heimaleik er mjög gott… maður vonar bara að meiðsli þeirra Hyypia og Carragher séu ekki alvarleg
Frábær leikur en ekki alveg nógu sáttur með Torres… Frábært hjá honum að koma sér í þessi færi en skelfileg nýting hjá honum:/ En samt sem áður frábær leikur til hamingju með byrjunina Liverpool menn:D
Þetta var gríðarlega öflugur útisigur gegn vinnusömu Sunderland liði. Alls ekki sjálfsagt að taka 3 stig þarna. Voronin heldur áfram að koma á óvart með góðum leik, lagði upp fyrra markið og skoraði það síðara. Torres er klárlega tilbúinn í enska boltann og markið hjá Sissoko… LOKSINS skoraði drengurinn og þvílíkur þrumufleygur.
Þetta var í alla staði jákvæður sigur og fór ég heim á leið glaður í bragði.
sorrý miðherjar ? eru það ekki miðjumenn varnamenn eru í vörn( hyypia og carrager)hvort sem þeir spil á miðju eða vinstri kanti eða????? miðherjar eru þeir sem sækja frá miðju vallarins , en skipti ekki máli við unnum
Mig langaði bara að deila þessu með einhverjum, þ.e. fallsætunum
Ég held að Voronin sé búinn að slá Jóhann úr liðinu.
Maður leiksins….ekki spurning –> Andrei Voronin.
Ég get ekki annað en brosað út að eyrum þegar ég hugsa til þess að hann kom frítt..:-) Tær snilld.
Ég var farinn að yggla mig við Rafa líkt og Carra þegar hann fékk ekki skiptingu. Þvílíkt hörmungas klúður. Ef Carra biður um skiptingu þá er eitthvað að. Hann hefur örugglega fundið fyrir andnauð..týpiskt ef um rifbeinsmeiðsli er að ræða. Ekki gott að spila og ná varla andanum. Carra hefði hrist þetta af sér ef hann hefði bara fundið til. Þetta á Rafa að vita.
Frábær sigur í höfn. Svo gaman að sjá hvað gerist á næstu vikum og mánuðum. .-) Gaman að vera til í dag.
YNWA
Helgi, takk fyrir að benda á þetta. 🙂
einsi kaldi.
miðherjar, eru svo ég best veit, framherjar. strækerar, sóknarmenn.
Liverpool var betra og átti þetta skilið.
Vill bara láta vita að Reyna bjargaði okkur vel einu sinni og hefði það geta verið vendi punkturinn í leiknum, svo að ég er ekki samála að það ver ekkert að gera hjá honum(það var s.s smá 🙂
ég er ósammála því að sissoko sé búinn að stimpla sig inn í eitt eða neitt. þetta er leikmaður sem hefur ekki sendingagetu né tækni sem þarf til að lifa af enska boltann, og allra síst hjá liverpool. mér finnst mjög pirrandi sem liverpool manni að horfa upp á skyndisóknir hreinlega deyja út því að einn maður er ekki nógu frjór og hefur ekki nóga boltatækni til að losa boltann fyrir framan menn í lappirnar, hann sendir roooosalega oft háa fifty fifty bolta, þegar að augljósir kostir eru í stöðunni, það er mjög óþolandi!
Hann er hraustur strákur og lappalangur með afbrigðum sem hjálpar honum að krækja í boltann í tæklingum sínum en hann mun aldrei ná að stimpla sig inn á miðju liverpool sem e-r fastamaður, því miður. gerrard er nr.1, alonso og mascherano koma svo, og svo koma sissoko og lucas leiva. ok hann skoraði gott mark í dag, en hann er ekki miðjumaður í neinum liverpool klassa, það sé ég og allir aðrir.
sissoko átti ágætan leik í dag, en ef maður horfir á þennan leikmann og er kröfuharður í mati sínu á honum og hans knattspyrnulegu getu, þá sér maður það strax að hann er mjög óöruggur með boltann í sóknaruppbyggingum og er því miður hálfgeldur fram á við.
ég hef líka tekið eftir kostum hans, tæklingar ágætar og baráttan er gríðarleg en með hann á miðjunni getur andstæðingurinn einbeitt sér að hinum miðjumanni liverpool til að líma sig á þegar liverpool fer að sækja, því sissoko er ófær um það!
Ef hann ætlar sér að eiga eftir að spila í stórum leikjum með liverpool, þá þarf hann að fara að taka á tækninni, móttökunni og hugmyndum í sóknarleik!
Olli, bara að biðja þig um einn hlut. Í guðanna helvítis andskotans bænum ekki vera að segja hvað ég sé og hvað ég sé ekki. Þú getur fullyrt hvað þú vilt frá þínu sjónarhorni en ekki voga þér að alhæfa út frá þínu þrönga sjónarmiði hvað allir aðrir sjá. Bara svona hrikalega kurteisisleg ábending.
Gríðarlega góður sigur, sáttur við hvað liðið var massíft og töff, Sunderland líkamlega sterkir, fastir fyrir og harðir í návígjum, svoleiðis lið hafa oft reynst okkur erfið. En ekki í dag, við einfaldlega mættum þeim af krafti og brutum þá á bak aftur. Sammála Varginum, koma nú þeir sem hafa hraunað hér yfir Sissoko hvað eftir annað!!, þessi drengur er náttúrulega gull, klikkaði ekki sending, vann 4332 bolta og skoraði. Þeir sem virkilega hafa vit á bolta sja hvað hann hefur bætt sig og aðeins 22 ára, þetta gerði hann í öllum æfingaleikjunum fyrir tímabilið, þe, klikkaði ekki sending, vann 4332 bolta (en skoraði reyndar ekki 🙂 ),
Annað eins rugl hef ég sjaldan lesið eins og hjá Olla ,
“en hann er ekki miðjumaður í neinum liverpool klassa, það sé ég og allir aðrir.”,
þvílíkt bull!!!! ? Eða Voronin, er hann að koma á óvart eða hvað?? Torres, drengurinn er ótrúlega góður, hann á eftir að raða mörkum inn fyrir okkur í vetur, duglegur, sterkur, leikinn og hraður, Váaaa………
Sælir félagar.
Hvað sem má segja um einstaka leikmenn og hvað sem menn eru sammála og ósammála um það málefni þá var þetta frábær sigur í dag. Allir stóðu sig vel en auðvitað misvel eins og gengur. En sem sagt gott og meira af slíku. Staðan í deildinni (í neðri eða á maður að segja neðsta hluta hennar) er athygliverð svo ekki sá meira sagt. Hinsvegar er ógeðslegt að horfa á lið R. Styles tróna á toppnum algjörlega óverðskuldað. En það á eftir að breytast sanniði til.
YNWA
maggi þar af leiðandi meistum við ekki miðherja í meiðsli
Góður sigur hjá okkar mönnum í dag ,gaman að sjá vinnslunaí liðinu ,allt annað en áður.Voronen frábær og er að sanna sig ég sá það í undirbúnings leikjunum að þar fer betri framherji heldur en Kuit .allir sem hafaf leikskilning á knattspyrnu hljóta að sjá það (með fullri virðingu með Kuit sem er góður )en þá er bara Voronen betri .Að stilla uppliðinu án hans lýsir bara fákunnáttu á leiknum ,það sjá það flestir sem hafa leikskilning á knattspyrnu að byrjunar senterpar er Torres og Voronen….Takk fyrir og áfram Liverpool……
15Vargurinn
“Rosalega væri nú gaman að fá alla á blað sem hraunuðu mest yfir MOMO hér í fyrra… munið að maðurinn er bara 22 ára og því er nóg eftir að taka !”
Ég er einn af þeim sem er ekki mesti aðdáandi Momo í heimi. Málið er að mér hefur fundist og finnst hann enn takmarkaður leikmaður. Fyrir mér er ekki nóg að hann sé inná vellinum til að hann fái hrós (sumir líta á hann sem guð) þótt hann eigi það skilið fyrir fyrsta markið sitt og frammistöðu dagsins.