Ertu þá faaaaarinn, ertu þá farinn frá mér?

[5.júlí 2005](http://www.kop.is/gamalt/2005/07/05/) er sennilega dagur sem við Liverpool menn gleymum seint. Það er dagurinn sem við Liverpool menn vöknuðum upp við þá martröð að fyrirliðinn og okkar besti leikmaður síðustu árin var að fara frá okkur. Besti miðjumaður í heimi, sem hafði bara mánuði fyrr tekið við Meistaradeildarbikarnum í Istanbaúl, var að fara.

Það er sennilega auðvelt að gleyma hversu vonsvikinn maður var. Í tengslum við fótbolta hef ég aldrei upplifað annan eins tilfinningarússíbana einsog í kringum Steven Gerrard þessa tvo daga, en einsog við munum þá ákvað Gerrard að vera áfram [daginn eftir](http://www.kop.is/gamalt/2005/07/06/).

Mitt í þessari atburðarrás skrifaði ég reiðipistil um Gerrard og ákvörðun hans. Það fór á endanum svo að Gerrard hætti við að fara áður en ég gat birt þennan pistil. Þessi pistill hefur verið inní kerfinu hjá okkur síðan og hann kom upp í umræðu á milli okkar Kristjáns fyrir nokkrum dögum og ákvað ég í kjölfarið að birta hann núna rúmum tveimur árum eftir að hann var skrifaður. Það er ágætt að sjá hversu mikið betur hlutirnir líta út í dag en þeir gerðu þá.

Það fyndna við þetta eftirá er hvaða leikmenn við sáum fyrir okkur koma í stað Gerrard. Í einni færslunni er talað um **Jenas**, Ballack, Scott Parker og fleiri snillinga. En það mikilvægasta er að eftir að Gerrard ákvað að vera áfram, þá hefur slúðrið alveg horfið. Ég man að þegar ég var að reyna að sjá jákvæðu hlutina við þetta, þá var það að sleppa við allt talið um Gerrard og Chelsea. Í dag þurfum við ekki lengur að hafa áhyggjur af slúðrinu í kringum Gerrard, sem var farið að pirra okkur óendanlega mikið. Nei, í dag getum við einfaldlega notið þess að sjá besta miðjumann í heimi spila af ástríðu fyrir uppáhaldsliðið okkar.

He’s big and he’s fucking hard, Steve Gerrard Gerrard.

*Upprunalegi pistillinn, skrifaður 5.júlí 2005 klukkan 15.00:* **Gerrad er að fara!**

Hvað getur maður sagt um þetta [mál](http://www.kop.is/gamalt/2005/07/05/13.26.38/)? Hvað getur maður sagt eftir öll skiptin, sem ég hafði áhyggjur af Gerrard. Eftir öll skiptin, sem ég fagnaði með honum, eftir öll skiptin sem ég hélt því fram að hann væri framtíð Liverpool og Englands, besti miðjumaður í heimi. Eftir öll skiptin, sem hann kyssti skjöldinn, [beit](http://www.nos.nl/sport/Images/2003_ap_gerrard_tcm7-157592.jpg) í skjöldinn. Eftir öll skiptin, sem hann sagði að það að vera fyrirliði Liverpool væri það besta, sem hann gæti hugsað sér.

Þetta eru stærstu svik nokkurs leikmanns við Liverpool. Svo miklu verra en Macca og Michael. Annað árið í röð er uppalinn Liverpool maður að fara frá okkur til ríkara liðs. Síðast voru peningarnir notaðir til að kaupa Xabi Alonso og Luis Garcia. Það er vonandi að við verðum jafn heppin núna.

Það er auðvelt að tala um hversu mikil svik þetta er. Hversu mikil hræsni allar yfirlýsingarnar hjá Gerrard eftir Istanbúl voru. Hversu ömurleg yfirlýsingin í dag var, þar sem hann gaf í skyn að þetta væri liðinu *okkar* að kenna. Það er náttúrulega tómt kjaftæði. Gerrard er að fara vegna þess að hann hefur aldrei haft sömu trú á þessu liði og við höfum. Hann hefur alltaf haft efasemdir. Þegar við aðdáendur fórum bjartsýnir inní Meistaradeildarleiki, þá var Gerrard alltaf svartsýnn. Hann var byrjaður að trúa öllu ruglinu um að þetta væri *eins manns* lið og að hann væri þessi eini maður. Við vissum betur, en hann byrjaði að trúa bullinu í ensku pressunni.

Það er ekki einsog Gerrard sé að fara frá litlu liði í slæmu ástandi. NEI, Gerrard er fyrirliði Liverpool, sigursælasta liðs Englands fyrr og síðar. Gerrard tók við stærstu verðlaunum í evrópskri knattspyrnu fyrir mánuði síðan. Verðlaunum, sem mönnum einsog Ronaldinho, Lampard, Vieira, Henry, Van Nilsteroy, Eto’o og fleirum hefur bara dreymt um að taka á móti. Verðlaunum, sem öllum knattspyrnumönnum dreymir um að taka á móti. Gerrard er að fara frá Liverpool liðinu þegar það er á réttri leið. Gerrard er búinn að vinna ALLA titla nema meistaratitilinn með Liverpool. Hann hefur orðið bikarmeistari, deildarbikarmeistari, unnið UEFA cup, Meistaradeildina, Super Cup og Góðgerðarskjöldinn. Fáir leikmenn geta státað af öðru eins bikarasafni. Frank Lampard kemst ekki nálægt því! Gerrard er að yfirgefa lið, sem var að styrkja sig fyrir komandi átök í deildinni. Gerrard hefði getað verið partur af einhverju merkilegu hjá Liverpool, en hann velur annað.


Ég verð þó að játa að fyrst og fremst er ég feginn þessum tíðindum. Það er búið að byggja þetta upp í svo langan tíma að þegar ég fékk SMS-ið frá Kristjáni (ég var á fundi í allan morgun), þá var þetta ekkert sjokk. Mér leið einsog ég hefði verið í vonlausu sambandi í marga mánuði, sambandi sem ég vissi að myndi enda og að stelpan hefði verið að senda mér SMS til að segja mér upp. Hefði SMS-ið komið uppúr þurru, þá hefði það verið sjokk, en einsog það kom núna, þá var það léttir. Léttir að vera laus við Gerrard og öll hans vandamál.

Ekki misskilja mig, Gerrard er stórkostlegur leikmaður. Það hafa verið forréttindi að horfa á Gerrard spila fyrir Liverpool síðustu ár. En allt þetta tímabil hefur hann verið meiri byrði fyrir liðið. Hann átti ótrúlega leiki á mörgum stærstu stundunum og tókst því alltaf að grípa fyrirsagnirnar (Olympiakos, Milan) en þess á milli þurfti liðið að líða fyrir stanslausar sögusagnir og dulbúnar hótanir frá *fyrirliðanum okkar*. Það var yndislegt að sjá hann taka á móti bikarnum í Istanbúl. Að upplifa það er sennilega stærsta stund, sem ég mun nokkurn tímann upplifa á fótboltavelli. Gerrard mun ávallt eiga sérstakan stað í hjarta mínum útaf því kvöldi. Við hefðum ekki unnið bikarinn án hans, þannig að fyrir það mun ég alltaf vera honum þakklátur.

En ég skal líka ábyrgjast það að Gerrard mun aldrei upplifa stærri stund en í Istanbúl. Hann mun aldrei upplifa það að 40.000 manns í ókunnu landi muni syngja nafnið hans stanslaust. Hann mun *aldrei* verða jafn dáður og hann hefur verið sem Liverpool leikmaður. Ef hann fer til Chelsea, þá verða Frank Lampard eða John Terry hærra skrifaðir í huga Chelsea manna. Ef hann fer til Real, þá mun hann aldrei koma í staðinn fyrir Raúl.

Gerrard mun aldrei upplifa aðra eins stund. Hann á eflaust eftir að vinna aðra titla á ferlinum, en þeir munu aldrei verða jafn stórkostlegir og Evrópumeistaratitillinn 2005. Ekkert jafnast á við Istanbúl. Engir peningar í heiminum munu geta keypt aðra eins stund. Engir peningar geta keypt annan eins stuðning. Engir peningar geta fengið aðdáendur til að dýrka leikmann á jafn ákafan hátt og við Liverpool stuðningsmenn höfum gert við Gerrard undanfarin ár. Gerrard mun átta sig á að hann er að skilja eftir sig bestu stuðningsmenn í heimi. Við styðjum okkar menn, en við fyrirgefum seint þeim sem svíkja okkur. Gerrard verður ríkari eftir félagaskiptin, en hann verður aldrei jafn dáður og hann var hjá Liverpool.


[Samkvæmt](http://skysports.planetfootball.com/list.asp?hlid=285216&CPID=8&CLID=&lid=1389&title=Opta+****yse+the+G-factor&channel=football_home) þessari síðu, þá er vinningshlutfallið okkar *með* Gerrard í liðinu 40%, en án hans þá er það 62%. Það segir ansi margt. Gerrard var oft besti maður liðsins, en þetta snýst ekki bara um hann, heldur líka mennina í kringum hann. Takiði til dæmis muninn á Igor Biscan. Teljiði upp alla bestu leikina hans Biscan og líkurnar eru í því að þið séuð að tala um leikina, þar sem Gerrard var ekki inná. Bestu leikmennirnir skína ekki bara sjálfir, heldur gera þeir mennina í kringum sig líka betri. Ég ætla ekki að draga það í efa að Gerrard hafi verið okkar besti maður síðustu tímabil, því hann *var* það, en það er spurningin hvort allt þetta neikvæða frá honum hafi ekki skyggt á þetta góða. Því enginn leikmaður er stærri en Liverpool FC.

Ég er 110% viss um að Liverpool-liðið á næsta tímabili verður betra en Liverpool liðið á síðasta tímabili. Það er allt, sem skiptir máli. Það kemur maður í manns stað. Munum bara Dalglish fyrir Keegan, Dalglish fyrir Keegan, Dalglish fyrir Keegan! Í allri alvöru, þá er það ágætt að við erum lausir við þetta. Lausir við fyrirliða, sem hefur ekki trú á okkur (hafði ekki einu sinni trú á að við myndum vinna Meistaradeildina), lausir við fyrirliða, sem er stanslaust með dulbúnar hótanir. Núna fáum við fyrirliða, sem myndi ganga í gegnum veggi fyrir Liverpool, einhvern sem myndi ekki detta í hug að svíkja liðið.

Fannst ykkur það sætt að sjá Gerrard lyfta Meistaradeildarbikarnum, eftir allt, sem hafði gengið á? Ímyndið ykkur þá hvernig það verður að sjá **Carra** taka við Englandsmeistaratitlinum næsta vor.

Lífið heldur áfram. Liverpool er þarna ennþá. Við erum enn besta lið í Evrópu. Við erum ennþá bestu aðdáendur í heimi og við munum halda áfram að elska uppáhaldsliðið okkar.

**Áfram Liverpool!**

**YNWA**

13 Comments

  1. Hressandi upprifjun! Ég man að ég var á þessum tíma einn af ritstjórum Fótbolta.net og var gjörsamlega að missa mig. Ég var búinn að skrifa frétt um að hann væri farinn, og hann Hafliði skrifaði frétt um að hann yrði áfram. Svo þegar tilkynningin kom fór sem betur fer hans frétt inn en ekki mín….. Ég reyndi að stimpla þau fleygu og sönnu orð að enginn leikmaður var eða verður nokkurn tímann stærri en Liverpool, en þetta voru erfiðustu dagar sem ég hef upplifað sem stuðningsmaður félagsins okkar… 🙂

  2. Þetta er hiklaust besti pistill sem hefur verið skrifaður á þessu bloggi. Enda eina skiptið sem þessi síða hefur komist nálægt því að bráðna af skjánum hjá manni, slíkur var múgæsingurinn hér inni.

    En sem betur fer fór þetta allt saman vel og nú getur maður stoltur sagt að það er aðeins einn Steven Gerrard, og hann spilar fyrir okkur! Nanananana! 🙂

  3. hehe,,þetta rifjar upp erfiða tíma. Held að enginn Liverpool aðdáandi gleymi þessum tíma og því sem fór í gegnum huga manns þegar maður las að Gerrard væri að fara. Vissulega var margt búið að skrifa um brotthvarf hans en maður tók það ekki alvarlega, ekki síst eftir að liðið vann CL. Hins vegar þegar brotthvarf hans var staðfest á official Liverpool síðunni helltust yfir mann tilfinningar sem maður hafði ekki kynnst áður. Allur tilfinningaskalinn reið yfir, reiði, söknuður, örvænting, vonleysi, just name it. Maður fór að spyrja spurninga, bölvaði Gerrard, Benitez, stjórninni og Chelsea.
    Þá fór maður að velta fyrir sér hver gæti fyllt skarðið hans á miðjunni og ég skal játa það að ég hef ekki enn fundið þann mann sem gæti hans skarð.
    Hins í dag erum við hins vegar betur settir með miðjuna en fyrir tveimur árum. Munar þar mestu um Mascherano sem ég tel að eigi eftir að verða lykilmaður á næstu árum.
    Það er hins vegar rétt eins og Einar bendir á að ofan að enginn leikmaður er stærri en LFC. Það tæki vissulega tíma fyrir Liverpool að ná jafna sig á brotthvarfi hans en liðið kæmi pottþétt aftur tilbaka. Liverpool hefur orðið fyrir áföllum og komið sterkara tilbaka. Liðið hefur misst stjörnur á borð við Owen, McManaman, Rush, Keegan o.fl. og alltaf stigið sterkara upp. Sama má segja um önnur lið eins og Arsenal (Viera, Henry, Anelka) Man Utd (Beckham, Ince, Stam, Cantona, Lee Sharp;) ) Everton (Rooney), öll hafa þau misst mikilvæga leikmenn en þó haldið sínum status.

  4. gaman að fá að lesa þennan pistil…þegar öll þessi vitleysa var í gangi þá vissi ég ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga, aðra stundina elskaði ég hann og vildi ekki láta hann fara hina stundina óskaði ég þess að hann bara færi og menn gætu einbeitt sér að því að halda áfram í því að byggja lið sem gerði atlögu að titlinum. Svo gat ég ekki hugsað mér hann í örum búningi og það að þurfa kannski að sjá hann í Chelsea búningi og koma á heimaslóðir að spila var eitthvað sem ég höndlaði ekki.
    En sem betur fer fór sem fór og hann virðist vera að njóta sín og kominn á miðjuna þar sem hann á heima og gaman að sjá að liðið spilar vel með og án Gerrard

  5. Everton þurfti nú ekki mikið til að halda sinum status 🙂

    En þetta Stevie G mál er eitthvað sem maður vill varla rifja upp, og mikið er ég glaður að þessi frábæri pistill skuli vera eitthvað sem þurfti ekki að fara í loftið og sé núna bara til lestur okkur til ánægju og yndisauka.

  6. Afsakið að ég breyti um umræðuefni en hafið þið séð þetta?

    Þettaer alveg hreint ótrúlegt og sýnir glöggt hversu siðblint þetta FIFA-batterí er. Maður veit ekki alveg hvort maður á að trúa þessu svona en þetta kemur beint frá dómara sem var að dæma á HM 2006.

  7. Ég er nú á því að þessi sirkus sem Gerrard bjó til séu og munu (vonandi) verða stærstu mistök sem Gerrard hefur gert á ferlinum, hann var tilbúinn og svo nálægt því að svíkja Liverpool og alla stuðningsmenn Liverpool á þriðjaversta mögulegan hátt á tíma þar sem liðið virtist loksins vera á uppleið og var nýbúið að vinna stærsta bikar evrópu. (einu svikin sem ég gæti séð sem verri væri auðvitað að fara til United……… eða auðvitað Everton:))

    Þannig að miðað við hvað ég var fúll þennan tíma sem Gerrard “var” í Chelsea þá hefði ég líklega tekið vel undir þennan pistil. Gerrard missti slatta af trúverðugleika sínum þarna því að sama hvaða ástæður liggja að baki og alveg nákvæmlega sama hvað mikið meiri peningar voru í boði þá vilja stuðningsmenn Liverpool að sínir bestu heimamenn fylgi fordæmi Carra og hreinlega fari að hlæja þegar þeir eru bendlaðir í burtu frá klúbbnum. Menn sem segja og láta okkur trúa því að þeir verði áfram eftir að þeir eru dauðir

    En sem betur fer var Gerrard á endanaum ekki jafn vitlaus/óheppinn og Owen vinur sinn og ég er ekki lengur eins mikið á því að Carra ætti að vera fyrirliði þessa liðs mikið frekar heldur en Gerrard eftir uppákomuna 2005 😉

    Hvernig maðurinn ætlaði að svíkja Liverpool svona illa mánuði eftir stuðninginn sem hann sá liðið fá árið 2005 mun ég aldrei skilja, allra síst fyrir Chelsea.

  8. Vá þó svo að það séu 2 ár síðan þá tárast ég nánast við að lesa þetta núna ! Bara að lesa neikvæð orð í garð Gerrards á liverpool spjallinu…. úff, þetta er mesta martröð sem ég gæti upplifað. Þetta sýnir líka hversu þakklátur maður er að hafa þennan mann í sínum röðum.

  9. En vá, muniði svo bara vorið eftir þegar Carra tók við Englandsmeistaratitlinu….. Ha, nei það gerðist víst ekkert 🙂

  10. Man þegar Macca fór og það var skelfileg tilfinning og það varð svona hálfgert flashback þegar Gerrard ætlaði að fara..Þvílíkt þunglyndi þegar maður sofnaði og þegar maður kíkti á netið daginn eftir og sá að Gerrard ætlði ekki að fara fór um mann mikil gleðitilfinning annað en þegar fokking Mcmannaman og Owen sögðust ætla að fara og fóru.(Greyjið Owen Where were you when we whent 2 Istanpool)…Einnig man ég að það byrtust myndir af mönnum kveikja í Liverpool búningum sínum merktum Gerrard og eitthvað álíka..En allavega fyririgaf ég honum þetta strax og hann minkaði ekkert í áliti hjá manni á eftir eins og gerðist víst hjá sumum,hækkaði ef eitthvað var(staðfesti ást sína á liðinu með orðunum I JUST COULDNT LEAVE).

  11. Rosalegar tilfinningar í þessum pistli, frábært lesning svona eftir á litið, ég man hvað ég hugsaði ekki um annað lengi, ég vaknaði og fór með hálfann huga í vinnu! ROSALEGT tímabil!!

  12. Í þættinum hans Gerrard, the story of my life þá horfði hann víst á það í sjónvarpinu heima hjá sér að fólk var búið að safnast saman fyrir utan Anfield og var að kveikja í búningunum og viðurkenndi þá að hann átti alls ekki von á þessu og greinilega fór eitthvað í gang í hausnum á honum. Sagan segir að familían hans sem og góðir púllarar, lesist Carrager, hafi bankað upp á og átt við hann nokkur vel valin orð og svo snérist honum hugur. Sem betur fer. Vonandi eyðileggur svo Fergie Jr. [McClaren] ekki svo endanlega tærnar á honum á laugardaginn … helv.. melurinn..

15 landsliðmenn á ferð og flugi.

Dæmið á Crouch!