Marseille á morgun

Meistaradeildin á morgun, fyrsti heimaleikurinn í riðlakeppninni. Maður fær alltaf fiðring í magann þegar kemur að þessum leikjum, því Evrópukvöldin á Anfield eru alltaf sérstök. Þegar menn hafa upplifað slíkt, þá kemur fiðringurinn alltaf upp, þó maður sé bara að fara á pöbbinn hérna heima á Íslandi. En það virðist vera aðeins öðruvísi viðhorf gagnvart þessari keppni núna meðal stuðningsmanna. Við erum vanir afar góðu úr Evrópukeppnum undanfarin ár og núna væru flestir tilbúnir til að fórna því fyrir titill stóra í heimalandinu. Þetta er nú ekki svona einfalt og það að vera slakir í Evrópu er engin ávísun á það að ganga vel heima fyrir. Rafa og hans menn fara í allar keppnir og alla leiki með það að sjónarmiði að sigra. Ég ætla rétt að vona að engum leikmanni detti annað til hugar þegar þeir labba inn á völlinn. Ég býst því við hörku leik á morgun og að okkar menn muni berja sig saman og fara nú að sýna okkur þann góða bolta sem þeir sýndu í upphafi tímabilsins.

Marseille er sýnd veiði en ekki gefin. Á venjulegum degi á Liverpool að klára þetta lið á einfaldan hátt á Anfield. En þetta er nú ekki alltaf svona einfalt, þó svo að fótbolti sé afskaplega einföld íþrótt í eðli sínu. Við höfum margoft séð það að það getur verið ýmislegt sem kemur uppá sem breytir leikjum á augabragði. Á morgun kemur lið sem stóð sig vel á síðasta tímabili í Frakklandi, en hefur byrjað þetta tímabil illa. Þetta er eitt af stóru liðunum úr því landi og eina liðið sem hefur náð að sigra í úrslitaleik í stærstu Evrópukeppninni (þó svo að titillinn hafi svo seinna verið hirtur af þeim). Nokkrir fínir leikmenn eru þarna innanborðs og ber hæst að nefna tvo leikmenn sem einmitt áttu félagaskipti úr Liverpool og yfir í Marseille í sumar, Djibril Cissé og Bolo Zenden. Þeir tveir eru afar ólíkir verður að segja. Bolo var aldrei vinsæll meðal stuðningsmanna Liverpool, en hann var einn sá allra vinsælasti á meðal leikmanna félagsins og er einn mesti fyrirmyndar karakter sem hefur verið við æfinga á Melwood. Hann er atvinnumaður fram í fingurgóma. Djibril var umdeildur, og var annað hvort dýrkaður eða akkúrat öfugt á meðal stuðningsmannanna. Hann var fjarri því að vera jafn vinsæll meðal leikmanna liðsins, en ekki skilja það sem svo að hann hafi þó verið einhver El Hadji á meðal leikmanna. Þriðji leikmaðurinn sem ég vil nefna er svo Samir Nasri. Sá er talinn ein bjartasta von Frakka þessa dagana og er afar eftirsóttur af stórliðum Evrópu. Í síðustu viku voru einmitt Liverpool og Arsenal orðuð við þennann hæfileikaríka strák. Við ættum að fylgjast vel með honum, enda einhver sem getur gert okkur skráveifu.

Eins og fyrr sagði þá ætti þetta að vera sigur hjá okkar mönnum ef allt er eðlilegt. Við höfum einungis fengið á okkur 3 mörk á tímabilinu úr þessum tveimur helstu keppnum, ensku deildinni og Meistaradeild Evrópu, og öll hafa þau komið úr vítaspyrnum eins og eflaust flestir vita. Rafa hefur svo sannarlega náð að halda áfram að spila mjög öflugan varnarleik, en því miður hefur sóknarleikurinn ekki verið upp á sitt besta í undanförnum 3 leikjum liðsins (þá tek ég ekki Carling Cup leikinn inní). Það væri því afar gott fyrir liðið að ná að setja í smá gír sóknarlega á heimavelli gegn Marseille. Menn verða að passa sig vel, því við vitum jú öll yfir hversu miklum hraða Djibril Cissé býr yfir. Ég segi nú samt að þetta sé algjör skyldusigur, því sigri menn alla heimaleiki sína í Meistaradeildinni og ná eins og einu jafntefli á útivelli, þá eru menn hreinlega komnir áfram upp úr riðlakeppninni. Fyrsti áfanginn í þá átt ætti að nást á morgun.

Ekki heyrist mikið úr okkar herbúðum af meiðslamálum. Harry Kewell er búinn að vera að æfa í einhverjar vikur, en það virðist þó enginn vita hvenær hann snýr tilbaka í liðið. Þetta er ekkert nýtt hjá okkar mönnum, því hann gæti dúkkað upp allt í einu í byrjunarliði. Sama er uppi á teningnum með meiðslin. Oft fréttir maður ekki af þeim fyrr en eftir leikina, þ.e. þegar maður er að spá í af hverju einhver var ekki í hópnum, þá kemur í ljós að viðkomandi var meiddur. Rafa heldur spilunum ákaflega nærri sér í þessum efnum og þetta hjálpar ekkert við að geta sér til um liðsuppstillinguna, og var það þó ekki létt fyrir. Eitt er þó alveg víst og það er að Pepé Reina stendur í markinu. Það er að verða það eina sem maður getur gengið útfrá sem vissum hlut. Reyndar spilar Carra líka ef hann er heill, en ég yrði ekkert hissa á að sjá mann eins og Arbeloa í miðverðinum til að reyna að vega upp á móti hraðanum hjá Cissé. Það er alveg sama hvað menn reyna að stilla upp liðinu án Arbeloa, Rafa finnur ALLTAF pláss fyrir hann í liðinu. Finnan hefur vikið úr stöðu, sem og Riise og spurningin er hver mun víkja núna?

Ég er þó handviss um að Rafa muni nýta sér Evrópureynslu Finnan og hafi hann hægra megin. Ég ætla líka að giska á það að hann haldi áfram með þá Carra og Hyypia í hjarta varnarinnar. Þá er það spurningin um vinstri vænginn. Mér finnst líklegast að Arbeloa byrji í vinstri bakverðinum og Riise verði þar fyrir framan hann (vona þó að Aurelio fái áfram séns á að spila sig inn). Hægra megin verður svo Benayoun, þar sem Pennant tók sér frí frá leiknum og á miðjunni verða svo þeir Gerrard og Mascherano. Xabi og Agger eru ennþá frá vegna meiðsla og ég reikna ekki með Kewell inn í þennann leik. Vel gæti svo farið að Babel kæmi inn í myndina á annan hvorn kantinn, en ég reikna frekar með honum inn af bekknum. Það er ákaflega erfitt að spá með framherjana og það eina sem ég er pottþéttur á er að ég held að Crouch verði í byrjunarliðinu. Hver verður með honum? Ekki gott að segja en það er eitthvað sem segir mér þó að Torres byrji ekki inná. Eigum við ekki bara að segja að Voronin byrji með honum í framlínunni (gæti svo sem orðið Kuyt, eða Torres, eða…).

Svona er því mín spá um uppstillinguna:

Reina

Arbeloa – Hobbs – Agger – Aurelio

Pennant – Sissoko – Alonso – Babel

Torres – Kuyt

Nei, annars smá grín. Væri samt sterkt lið og með Kewell og fleiri á bekknum. Það er nefninlega nokkuð ljóst að það vantar ekkert upp á breiddina hjá okkur. Hérna kemur sem sagt mín spá með uppstillingu:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Arbeloa

Benayoun – Gerrard – Mascherano – Riise

Crouch – Voronin

Bekkurinn: Itandje, Aurelio, Lucas, Sissoko, Babel, Torres og Kuyt.

Ég ætla að spá okkar mönnum 2-0 sigri þar sem Crouch á eftir að setja eitt kvikindi og Benayoun á eftir að halda markaskorun sinni áfram.

25 Comments

  1. Hvernig væri að smella inn annarri könnun á þessa heimasíðu til að athuga hverjir stóðu við stóru orðin og sniðgengu 365 ehf. Gaman að sjá hve margir eru með Sýn, Sýn 2, Sýn og Sýn 2, Stöð 2, Sýn og Sýn2 eða allan pakkann hjá 365 ehf. Ég blessunarlega sagði upp Sýn og keypti mér ekki aðgang af Sýn 2. Mig langar bara að vita hvort ég sé sá eini sem gerði það.

  2. Ætlaði að benda á það að Samir Nasri er víst með vírus og verður ekki með á móti okkur, hefði samt verið til í að sjá hann spila á móti alvöru miðjumönnum.

  3. ér er enn að rölta pöbbana og eyði meiri pening í það heldur en ég myndi gera ef ég væri með áskrift að öllu draskinu…en geri þetta fyrir málstaðinn. Fanns sýnarmenn sýna okkur mikla óvirðingu með ummælum og viðtölum..bara spurning um hve lengi ég heæd þetta út

  4. Liverpool vinnur 3,0

    Benayoun (6 mín)
    Riise (42 mín)
    Crouch (58 mín)

    já svona annað ég var að reyna að muna hvenær ég fór á Anfild
    Síðast
    Það var víst 19 nóv 1984 farið með lest 1eða 2 dögum síðar til Liverpool
    Ja strákar varð bara að deila þessu með ykkur er svo rosa spenntur fyrir leikin Liverpool -Tott er alveg að tapa mér fékk ferðina nefnilega í afmælisgjöf
    Sjáumst

  5. Ég tek líka pöbbinn á þetta, enda ekki mikill kærleikur á milli mín og stjórnenda sýn. Fínt líka að fá fri frá konunni af og til.

  6. Sævar Sig, ertu að fara á völlinn um helgina í fyrsta skipti síðan 1984? FRÁBÆRT! Þú átt eftir að skemmta þér konunglega, og vonandi sjá einhver Liverpool-mörk. 🙂

    Annars leggst leikurinn á morgun ágætlega í mig. Þetta verður baráttuleikur og sennilega opinn og skemmtilegur, vegna boltans sem Marseille spila. Ég hef trú á að við vinnum, en einhverra hluta vegna er ég líka alveg handviss um að Djib skorar gegn okkur. Sjáum hvað setur.

  7. Ég er 100% viss um sigur og það verður 3-1 sigur. Cisse mun setja einn þrumufleyg snemma leiks en okkar menn munu ekki láta það á sig fá… því við skorum 3.

    Marseille mun fá að kynnast alvöru stemmingu þar sem Sævar Sig. mun halda uppi stemmingunni.

  8. Cissé er víst tæpur fyrir leikinn, þannig að það er spurning hvort hann verði í byrjunarliði eða ekki.

  9. Magnús ég held að Sævar sé að tala um að hann verði á Liverpool-Tottenham um helgina, ekki á Marseille leiknum en annars er ég nokkuð rólegur fyrir þennan leik, held að við tökum þetta með 2-3 mörkum 🙂

  10. Sælir félagar.

    Ég er sammála Óla hvað varðar sýn 2. Var einmitt að enda við að senda þeim eftirfarandi bréf:

    Mér er nú orðið það ljóst að ef ég vill fylgjast með mínu liði á Englandi þá verð ég annað hvort að borga 8.890 kr. eða fara á pöbbinn eða til ”vel tengdra” vina til að sjá alla leiki.

    Mér finnst tæpar 9 þús á mánuði allt of mikið verð fyrir boltan og því er það ljóst að ég mun þurfa að leita útfyrir heimili mitt til að sjá leiki í Meistaradeildinni, Enska deildarbikarnum og Enska bikarnum. Þar með er alveg eins gott fyrir mig að fyljgast bara með öllum leikjunum annarstaðar en heima.

    Af þeim sökum ættla ég hér með að segja upp áskrift minni að Sýn 2.

    Að lokum vill ég benda á að mér finnst ansi þunnt að auglýsa; ”Enski boltinn á Sýn 2” og Enski deildarbikarinn er ekki einu sinni sýndur (sem er jú eins enskur bolti og hægt er).
    Einu kostir 365 sem ég hef tekið eftir er góð þjónusta og elskulegt viðmót starfsmanna en því miður eru þeir ekki að selja góða vöru.

    Ég þakka fyrir viðskiptin að sinni sem munu þó ekki verða meiri meðan 365 reynir að gaffla fótboltaáhugamenn til að kaupa áskrift af tveim, alltof dýrum stöðvum

    Sjáumst svo bara á Íþróttabörunum

  11. Ég er nokkuð viss um að Sissoko byrji inná, eins hlýtur Babel að fá séns eftir alla þessa hvíld. Mín spá; Finnan hægri bakk, Carragher og Hyppia miðverðir og Arbeloa vinstri bakk, Sissoko og Gerrard á miðjunni, Babel á vinstri en Benayoun á hægri (þeir munu svo svissa af og til) og svo Kuyt og Crouch frammi.

  12. Svona vil ég hafa byrjunarliðið:

    Reina, Finnan, Carra, Hyypia, Arbeloa, Benayoun, Sissoko, Mascherano, Babel, Crouch, Torres.

    Hvíla Gerrard í þessum leik. Hann er búinn að vera slappur og hefði hugsanlega gott af setu á bekknum eins og einn leik. Ég er á báðum áttum með Torres, hvort hvíla eigi hann líka. Þeir báðir eiga allavega að vera í liðinu gegn Tottenham næstu helgi ef þið spyrjið mig.

  13. Að hafa Sissoko með Mascerano á miðjunni er bara áskrift að 0-0 leik enda geta þeir lítð í að búa eitthvað til fyrir hina og eru bara varnarsinnaðir naglar.

  14. Ég get ekki verið sammála að 365 bjóði upp á góða þjónustu. Að bíða í hálftíma bara til þess að komast í samband við þjónustuver þeirra er rugl. Auk þess sem að það er alltaf endalaust vesen í þessu fyrirtæki í sambandi við alla þjónustu, ég pantaði mér áskrift hjá þeim og þurfti að bíða í heilar 2 vikur eftir því að fá stöðvarnar(fékk þær eftir að hafa beðið í hálftíma í símanum, engar ýkjur). Annars má vel vera að símafólkið þar hafi elskulegt viðmót en það fær jú borgað fyrir það.

  15. sammála mönnum hér á síðuni við vinnum já já,en í sambandi við umræðuna eftir síðasta leik að liv spili illa, vil ég segja engin spilar betur en andstæðingurinn leyfir ,sammála að liv hefur ekki verið að spila vel sendingar lélegar og margt fl.en mótherjar hafa verið duglegir að fara í þann sem hefur boltan og þar af leiðandi eru sendingar upp og ofan liv hefur gert þettað líka og andstæðingurinn hefur líka verið að klikka á sendingum ÁFRAM LIVERPOOL

  16. Hvað leikinn varðar er ég einfaldlega ekki of spenntur miðað við frammistöðuna í síðustu leikjum… vonandi að ég sé einn um það og að þetta verði hörkuleikur.

    Hvað varðar það sem Óli lét falla í 1. kommentinu:
    Ég er sammála því að taka upp könnun og athuga hvort að menn hafi staðið við stóru orðin. Persónulega sagði ég öllu draslinu upp í sumar og mun ekki kaupa áskrift á næstunni (þ.e. þangað til að verðið verður samkeppnishæft).

    ER ennþá verulega “pisst” og mun vera það þangað til að þeir koma til móts við okkur áhorfendur/áhangendur og aðra sem horfir á þær íþróttir sem þeir bjóða upp á og lækki þetta skaðræðisverð !

    YNWA

  17. Þetta verður létt hjá okkar mönnum í kvöld, 4-1 og Cisse skora að sjálfsögðu fyrir þá frönsku.

    Annars undarleg tilviljun með hann Sævar, held ég hafi verið samferða honum og mági hans þarna aftur í fornöld 1984. Ég er viss um að Sævar man ekkert eftir þeim leik enda útgangurinn á honum all-hrikalegur……….Eða Sævar varst þú ekki annars þessi fulli – eða var það mágurinn?

  18. Ætla að skjóta á þetta lið:
    Reina
    Finnan Hyypia Carragher Arbeloa
    Benayoun Gerrard Mascherano Babel
    Crouch Voronin

    Kæmi mér ekki á óvart ef Siskó yrði í liðinu á kostnað Masch… síðan er lífsins ómögulegt að spá fyrir um hverjir verða í framlínunni 🙂

    2-0
    Gerrard og Voronin

  19. Fer alltaf á pöbbinn, töluvert dýrara örugglega en kemur ekki til greina að borga. Betra að eyða milljón í bjór og mat á pöbbnum en þúsund kalli í okurstöðina sýn2.

  20. Þvimiður þa er eg hukt a enskaboltanum og er þvi með bæði syn og syn2..En verð samt að seigja að eg se ekki þessa bættu þjonustu sem þeir lofuðu okkur i grið og erg…Eina sem þeir koma með er 4-4-2 strax eftir laugardagsleikina sem er svo sem agætt nema ef liðið þitt er að spila a sunnudegi,þa græðirðu ekkert a þessu……
    En að leiknum þa seigi eg að við vinnum þetta 3-1 og þeir skora að sjalfsögðu ur viti (hvað annað)

  21. Mín skýrsla varðandi Sýn/Sýn2:
    Ég sagði ekki upp Sýn enda var ég ekki með Sýn, ég keypti heldur ekki áskrift að Sýn2.
    Ég horfi á leikina í tölvunni og marga Meistaradeildarleiki sé ég á ITV sem ég næ í gegnum gervihnattadisk – ég hef ekki einu sinni þurft að fara á pöbbinn í haust.

    Elko var einmitt að bjóða diska með öllu á 15000 kall núna í vikunni, þar eru stöðvar eins og ITV og BBC og nást fjölmargir leikir (landsleikir Englendinga, valdir Meistaradeildarleikir með ensku liðunum sem og Evrópukeppni félagsliða, auk FA-cup.

    Annars er spáin mín 3-1, skyldusigur þar sem Frakkarnir skora úr víti (hvað annað). Ég er sammála þeim sem sagði að Benayoun skori, Riise lætur vaða af fjörtíu metrunum og Carra skorar með skalla af vítateigslínu. Bingó!

  22. Liðið: Reina, Finnan, Aurelio, Carragher, Hyypia, Sissoko, Gerrard, Benayoun, Leto, Torres, Crouch.
    Varamenn: Riise, Voronin, Arbeloa, Kuyt, Babel, Itandje, Mascherano.

    Ágætis lið, kemur á helst á óvart að Leto byrjar

  23. Forvitnileg uppstilling, engin Arbeloa og Leto í liðinu. Vonandi mun Leto sýna Benitez að hann sé traustsins verður. Í leiknum gegn Reading sýndi hann ágætis spretti og vonandi sýnir hann enn betri takta í kvöld.

  24. mágurinn sem var svona útúr drukkinn……og bróðir þinn alltaf til vandræðna

Wigan 0 – Liverpool 1

Crouch, Leto og Aurelio í byrjunarliðinu!