Liverpool 2 – Fulham 0

Það var sérstakur leikur á Anfield á laugardag því Rafael Benítez var að stýra liðinu í 200. skipti. Hann hélt upp á það með að stilla óvænt upp óbreyttu byrjunarliði frá því í Meistaradeildinni gegn Besiktas. Gamla keflið Danny Murphy var mættur á Anfield en hann lék vel með Liverpool í sjö ár á sínum tíma og sérhæfði sig í að setjann gegn Man Utd.

Byrjunarlið Liverpool var eftirfarandi:

Reina

Arbeloa – Carragher – Hyypia – Aurelio

Benayoun – Gerrard – Mascherano – Riise

Voronin – Crouch

Bekkurinn: Martin, Babel (inn fyrir Riise 62. mín), Torres (inn fyrir Voronin 70. mín), Lucas (inn fyrir Mascherano 81. mín).

Fulham byrjaði með markskoti eftir einungis 13 sekúndur, það var gamli refurinn Danny Murphy. Liverpool tók leikinn föstum tökum og stjórnuðu öllu sem fram fór á vellinum (öryggisgæslunni og öllu saman! Æjæj, slappur…). Á 6. mínútu kom Sami nokkur Hyypia öllum að óvörum og átti gott langskot en Niemi varði vel, gaman að sjá að Hyypia er farinn að átta sig á að hann á að setjann í mark andstæðinganna. Hyypia átti svo skalla að marki 2 mínútum síðar og gamli gaukur greinilega staðráðin í að skora. Á 12. mínútu átti Liverpool frábæra sókn sem endaði með þrumuskoti Gerrard, rétt yfir. Skömmu síðar fékk Danny Murphy gott færi eftir að Arbeloa tapaði skallaeinvígi við vítateigslínuna, en eins og oft áður bjargaði Jose Reina með góðri vörslu. Liverpool stjórnaði öllu eftir þetta og Voronin slapp m.a. inn fyrir vörn Fulham en var dæmdur rangstæður. Mikill vandræðagangur var á vörn Fulham og þeir voru heppnir að Liverpool nýttu ekki tækifærið og refsuðu þeim. Rétt undir lok fyrri hálfleiks var brotið á Aurelio eftir góðan sprett töluvert fyrir utan vítateig. Aurelio tók spyrnuna sjálfur og Crouch skallaði í þverslánna. En það var alveg ljóst að heimamenn þurftu að mæta í seinni hálfleikinn með fleiri og betri hugmyndir á síðasta þriðjungi vallarins. Yossi bjó til margt í fyrri hálfleik og gaman að sjá hvað hann er kominn með mikið sjálfstraust. Liverpool voru miklu meira með boltann en það vantaði alltaf örlítið upp á til að fullkomna sóknarloturnar. Líkt og á Anfield í fyrra var staðan 0-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði vel og Voronin átti gott skot sem Niemi varði vel eftir magnaða sókn. Liverpool hélt boltanum vel en sóknirnar líkt og í fyrri hálfleik full hægar. Gerrard vann boltann á miðjunni á 53. mínútu en fyrrum félagi hans Danny Murphy braut á honum með lélegustu tæklingu sem undirritaður hefur séð. Aurelio tók aukaspyrnuna en Niemi varði glæsilega og svo klikkuðu Poolararnir á frákastinu. Miðað við leikstíl Fulham þá komu þeir á Anfield til að spila upp á 0-0 jafntefli, hræðileg spilamennska og skelfilegt að horfa upp á þennan bleyðugang. Það var reyndar einn leikmaður í þeirra liði sem sýndi eitthvað og það var Dempsey, en hann er virkilega sprækur og var svo tekin útaf. Voronin átti sem fyrr gott skot að marki en Niemi bjargaði. Fulham voru klaufar í hreinsunum sínum og það var hægt að hlægja af mörkum “tilþrifum” leikmanna í þessum leik. Ryan Babel kom inn á fyrir Riise og þá fagnaði undirritaður mikið. Babel kom með meiri hraða í sóknina og lagði boltann á Þrennayoun sem átti gott skot en enn sem fyrr varði Niemi. Skömmu síðar átti Voronin glæsilegt þverhlaup, Benayoun kom boltanum á hann en Voronin klikkaði enn og aftur í fínu færi. Liverpool áttu allt í leiknum og við þurftum að bíða eftir því að snillingurinn Fernando Torres kæmi inná til að redda okkur og á 81. mínútu kom Torres okkur yfir með frábæru marki. Torres sýndi þarna og sannaði að hans hefur verið sárt saknað. Á 84. mínútu átti Ryan Babel frábæra sendingu á Crouch og dómarinn dæmdi víti. Steven Gerrard fór á punktinn og kláraði vítið örugglega. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og mjög sanngjarn sigur Liverpool gegn slöku liði Fulham 2-0 staðreynd.

Ég vissi allan tímann að mörkin ættu eftir að koma þó þau hafi komið seint. Fulham menn vildu ekkert nema að halda fengnum hlut og fara frá Anfield með stigið. Sóknarleikur þeirra var skelfilegur og það leit ekki út fyrir að sjálfstraustið væri mikið hjá þeim. Liverpool voru einfaldlega sjálfum sér verstir fyrir framan ramman alveg þangað til “El Nino” kom inná og sýndi hversu megnugur hann er.

Jose Reina átti góðan leik að venju í markinu.

Vörnin var að spila fínan leik. Carragher og Hyypia voru fínir og ekkert hægt að kvarta yfir þeim. Aurelio var færður á kantinn fyrir Riise í fyrri hálfleik og Arbeloa lék vel. Vörnin hafði ekki mikið og gera og það reyndi lítið á fjórmenningana í dag en ég hlakka mikið til þegar Agger kemur aftur inn í byrjunarliðið og fer að bera boltann upp fyrir okkur.

Miðjan spilaði vel. Reyndar fannst mér Riise okkar slakasti maður í dag og það er ekkert nýtt svo sem. Þrennayoun átti góðan leik og gaman að horfa á þennan skemmtilega leikmann, hann er búinn að koma á óvart og virðist vera að bæta sig með hverjum leiknum. Mascherano og Gerrard voru solid á miðjunni, en ég hefði þó viljað sjá Maskarann skila fleiri sendingum á samherja.

Framherjarnir spiluðu ágætlega, Crouch átti fínan leik og var ógnandi. Voronin var var fínn, en það var synd að sjá hann fara jafn illa með góð færi og raun bar vitni, hann og Kuyt eru mjög svipaðir leikmenn að mínu mati. Báðir sterkir, hraðir og vinna vel fyrir liðið en þeir fara báðir tveir illa með dauðafæri.

Skiptingarnar hjá Rafa í dag breyttu leiknum og komu með ferskan blæ inn í spilið hjá okkur. Fyrstan skal nefna Ryan Babel sem kom með með mikinn kraft og var gríðarlega ógnandi allan tímann sem hann var inná.
Fernando Torres þarf ekki að hafa mikið fyrir hlutunum. Hann kom inná og kláraði leikinn fyrir Liverpool. Þetta er það sem öll topplið þurfa, mann sem getur gert út um leikina þegar enginn á von á því. Torres er með frábærar hreyfingar, góðar móttökur og er öskufljótur og virðist ekki eiga í miklum vandræðum með að plata menn og skora mörk.
Lucas kom ekki mikið við sögu því Liverpool einbeitti sér bara að því að halda boltanum innan liðsins síðustu mínúturnar og Lucas stóð sig vel í því að vanda.

Maður leiksins: Það er ekki svo auðvelt að velja mann leiksins í dag því mér fannst enginn skara beint framúr. Torres kláraði náttúrlega leikinn fyrir okkur og gerði það sem þurfti, ef ekki hefði verið fyrir hans þátttöku í leiknum hefðum leikurinn alveg eins getað endað 0-0.
En ég ætla að velja Steven Gerrard sem mann leiksins. Hann skoraði mikilvægt mark úr vítaspyrnu, mjög örugglega, barðist vel og átti magnaðar sendingar á félaga sína. Hann er að koma upp eftir mikla lægð og það er vel.

En mjög mikilvæg 3 stig í dag í skyldusigri á Anfield og nú er bara vonandi að Torres byrji inná í næsta leik og að liðið fari á siglingu!

YNWA.

19 Comments

  1. Velkomir aftur. Góð skýrsla. Finnst allt annað að sjá leik liðsins. Meira spil og sjálfstraust hjá piltunum. Var aldrei neitt stressaður um að þeir myndu ekki skora eins og svo oft hefur hrjáð mig áður. Vonandi heldur það áfram.

  2. Fokk já! Maður heldur að maður sé ekki háður þessari síðu, en svo þegar hún lokar algjörlega í tæpa fjóra sólarhringa breytist það álit heldur betur.

    Elsku Liverpool Bloggið, mín fagra, ég saknaði þín. 🙂

  3. Vá.. ég sá ekki leikinn á laugardaginn, en það er greinilega nóg að lesa leikskýrslunar hjá ykkur. Þetta er náttúrulega snilldarlega skrifað, og farið út í öll smáatriði. Ég verð bara að þakka ykkur kærlega fyrir, að hafa þessa síðu gangandi.
    You’ll Never Walk Alone!

  4. Sáttur með Babel, sýndi hraða og áræðni í sínum leik en Torres, þvílíkur snillingur. Svona leikir eru vanir að enda 0-0 en hann gerði það sem þarf … klára færin !!!

    Áfram Liverpool FC og bloggið 🙂

  5. Er það ekki rétt hjá mér að Benitez stillti upp óbreytti liði einmitt í 100. leiknum líka.
    Ég get ekki gert af því að stundum fæ ég svona “Im gona play with your mind” tilfinningu frá þessum snillingi.

  6. Benitez stillti upp óbreyttu liði þegar hann var búinn að breyta liðinu í 99. leikjum í röð en það var ekki 100. leikur hans.

    Já gott að þið séuð komnir aftur og mjög svo gott að sjá Torres koma inn aftur. Hann er maður sem Liverpool hafur vantað. Að hafa einhvern sem getur klárað leik úr ekki neinu er eitthvað sem meistaralið verður að hafa.

  7. Góð skýrsla og góður sigur. Chelsea tapaði í gær og Arsenal gerir vonandi bara jafntefli í dag.
    Ég ætla að nota tækifærið og bjóða Gerrard velkominn aftur 🙂

  8. Sælir/ar
    Vá hvað maður varð var við fráhvarfseinkenni síðustu daga, greinilega orðinn háður þessari síðu, enda skoðar maður hana nokkrum sinnum á dag.
    Flottur leikur hjá okkur, gaman að sjá sama byrjunarlið 2 leiki í röð, eftir frábæra frammistöðu í leiknum á undan, þó svo ég hefði alveg viljað sjá eina breytingu, þið megið alveg giska á hverja.
    Varðandi mann leiksins þá get ég alveg verið sammála skýrsluhöfundi, en ég sá góða samantekt á frammistöðu leikmanna á þessari síðu: http://aliverpoolthing.blogspot.com/2007/11/good-game-bad-game-vs-fulham.html
    Kann ekki að gera link

    YNWA
    Ninni

  9. Sammála mönnum með söknuð á síðunni. Var með þessa líku svakalegu upphitunina sem ég las bara fyrir konuna og vinnufélagana í staðinn!!!
    En að leiknum. Sammála Olla um flest. Var pirraður yfir því að sjá Riise á kantinum, fannst leikurinn breytast verulega þegar Babel kom inná, við vorum í raun með 6 varnarsinnaða leikmenn inná fram að því og ENGAN sem var líklegur að komast á bakvið vörnina. Svona leikir vinnast ekki svo glatt nema að það takist. Pennant og Kewell þurfa að vera tilbúnir í svona leiki.
    En liðið var að spila vel, náði hröðum köflum og átti auðvitað að vera löngu búið að skora áður en snillingurinn Torres kom á völlinn. En þvílík innkoma. Drengurinn er snillingur, hraður, grimmur og frábær klárari! Kom mér reyndar á óvart að Voronin hefði verið tekinn útaf, en treysti því að hann verði með Torres á St. James Park.
    Fór glaður að elda fyrir konuna um kvöldið og bara kátur með liðið mitt.
    Ætla þó enn einu sinni að setja spurningamerki við Mascherano. Mér finnst hann tapa boltanum of oft. Neita að trúa því að af því að hann tapi boltanum sjaldnar en Sissoko sé hann rosa leikmaður. Ég vill sjá gegn liði eins og Fulham Benitez taka sénsa og láta urrandi sóknarmiðju inná, alger óþarfi að spandera einum miðjumanni að hjálpa vörn og hreinsa. Hann er engin ógnun sóknarlega og tvær af hættulegustu sóknum Fulham komu eftir skelfilegar sendingar frá honum á mótherja. Ég veit ekki hvort ég vill eyða 17 milljónum punda í hann ef rétt er.
    En aftur jákvæður takk, Hyypia var minn maður leiksins. Besti leikur Finnans fljúgandi í marga mánuði, sóknarlega og varnarlega. Benayoun er flottur spilari með auga fyrir stoðsendingum og Voronin er betri fótboltaútgáfan af Duglendingum Kuyt sem blessunarlega fyrir mig var ekki í hóp. Crouch að standa sig ágætlega, en þarf að fá sendingar inní af köntunum til að nýtast almennilega. Þá er komið að landsleikjahléi sem endar með hádegisleik á St. James Park. Sigur þar og gleðin ræður ríkjum!

  10. Ágætis leikur, fannst Crouch reyndar slakur. Að öðru leiti spilaði liðið ágætlega, frábært fyrir Torres að skora strax eftir meiðslin.

    Annars er ég ánægður með að síðan sé kominn í gangnið, agalega er ég búinn að sakna hennar

  11. Góð skýrsla, þokkalegur leikur. Vil sjá sama lið og þetta nema Riise í varaliðið og Babel inn fyrir hann og Torres fram fyrir Crouch. Þá er þetta held ég helvíti solid.

    Fannst flestir standa sig vel, Mascherano verður þó að fara að sýna mér að hann getur spilað sóknarleik líka – hann hefur skorað mark og annað fyrir Argentínu.

    Riise er samt sem áður í ruglinu enn og aftur. Hann er fínt backup í bakvörðinn en byrjunarliðskantmaður hjá stórveldinu LFC er hann ekki. Langt því frá. Getur ekki krossað, ekki tekið menn á, kemur boltanum ekki frá sér og ótrúlegt en satt ekki skotið.

    Síðan verð ég að hrósa Alvaro Arbeloa, þvílíkur toppmaður. Góður dribblari, kemur boltanum vel frá sér, klókur, teknískur og síðast en ekki síst hörkuvarnarmaður. Hann er fyrir mér fyrsti kostur í hægri bak og annar í vinstri bak. Aurelio er að koma upp þar og hann virkar vel á mig.

  12. Fráhvarfseinkennin horfin núna, aftur gaman að lifa, sennilega hefur heimiliskarpið um helgina stafað af fjarveru síðunnar 🙂 … nei nei, segi svona. En góð skýrsla, góð klárun á leiknum og öruggur sigur!

  13. Þetta var fyrsta skiptið í langan tíma þar sem Liverpool var að gera 0-0 jafntefli fram á 80.mín þar sem ég var ekki aðallega pirraður út í hvernig Liverpool var að spila. Þetta var mun jákvæðara en oft áður þó að skiptingar hefðu etv mátt koma aðeins fyrr. Það var t.d. löngu ljóst að það var enginn þörf fyrir Mascherano inn á og jafnvel ekki fyrir fjórða varnarmann enda hafði Fulham enga ambition að einu sinni reyna að sækja hratt. Það er svo alveg ljóst að í svona leikjum á móti liðum sem ætla að “leggja liðsrútunni” fyrir framan markið þá eigum við að byrja með sóknarbakverði eins og Arbeloa og sérstaklega Aurelio, spilið er allt annað með þá í liðinu.

    Gaman að því svo eftir væl margra hér yfir Hyypia að hann var sennilega maður leiksins í gær, sýndi það og sannaði að hann kann þetta betur en flestir!

  14. Sammála, Riise var okkar slakasti leikmaður. Hann gerði samt ekkert af sér greyið. Hann getur bara ekkert að því gert að hann er ekki vængmaður. Hann er frekar stirður, einfættur, ekkert sérlega teknískur og bara með miðlungshraða. Hann er hinsvegar ágætur bakvörður(þegar við eigum ekki í höggi við worldclass sóknarmenn), virkilega duglegur og frábær þrumari. Hann á bara að vera í vörninni og fá svo að taka rispur fram á völlinn annað slagið til að dúndra. Hann smellpassar í þessa ,,vinnu-deildarleiki” þegar við erum ekki að spila við toppliðin. Hvers vegna sér Rafa þetta ekki???? Þvílíkur munur þegar Babel, Youssi eða Kewell eru þarna í stað Riise. Já væri líka betra að hafa bara Voronin þarna í stað þess að hafa hann á bekknum, ef það er game planið að hafa hann ekki í strikernum.

  15. Þegar maður horfir á Riise í dag þá veltir maður því fyrir sér. HVAÐ GERÐIST?!
    Ég á spólu með öllum mörkum Liverpool tímabilið 2001 þegar hann var nýkominn frá Monaco. Þá var hann í hreint ótrúlegu formi og hljóp þindarlaust upp og niður vinstri vænginn eins og að drekka vatn. Skoraði minnir mig 15 mörk það tímabil og nokkur (t.d. gegn Everton) þar sem hann sólar 4-5 á 60m spretti og leggur boltann stórglæsilega í fjær hornið.
    Í þá daga var hann meira segja með sæmilegt touch og gat sent boltann skammlaust fyrir.
    Hvað varð um þennan leikmann sem þá var einn langbesti vinstri bakvörður ensku deildarinnar? Eyðilagði Houllier hann alveg?
    Í dag er hann meira segja hættur að hitta á markið í þessu þrumuskotum sínum. Eftir stendur mikill agi og sæmilegur varnarleikur sem kostir Riise.

    Annars sjá menn sem telja Kuyt 4-5 sóknarmann Liverpool hlutina kannski í stærra samhengi eftir þennan leik. Voronin og Crouch voru mjög bitlausir þarna frammi. Crouch eins og venjulega getur bara spilað á fullu í mesta lagi 20 mín í hverjum leik. Voronin klúðrandi hálffærum vinstri hægri og missandi boltann frá sér án þess að ná possession hærra á vellinum. Ef Torres hefði ekki komið inná þá hefðu þeir geta spilað langt frammá nótt án þess að skora.

    Við sjáum núna hvað við höfum saknað Torres mikið. Rétt sæmilegir enskir varnarmenn kunna orðið á EuroCrouch og Liverpool er pínu fyrirsjáanlegt lið ef það vantar gott kantspil og hraða sóknarmenn sem geta bæði pressað og nýtt svæðin sem skapast fyrir aftan. Torres-Kuyt saman er ennþá okkar besta framlína í dag.
    Á heimavelli gegn svona skúnkaliðum eins og Fulham vil ég sjá Liverpool spila 3-4-1-2 með Babel spilandi fyrir aftan 2 sóknarmenn.

    En góður sigur og ég hef trú á því að þetta landsleikjahlé reynist okkur betur síðast. Liverpool Risinn er að rumska…

  16. Sammála Arnóri með Riise, ekki einu sinni lengur að henda löngum innköstum almennilega!
    Svo ósammála með Kuyt. Talandi um einhvern sem að gæti spilað fram á nótt án þess að skora og/eða sparka boltanum í innkast eða missa hann frá sér.

  17. Fanta fínn leikur þrátt fyrir að skortur hafi verið á opnum færum.
    Liðið var að hreyfa boltan vel, fram og aftur, nema þegar Riise átti að gera eitthvað. Persónulega fannst mér ósanngjarnt að taka Voronin út af á þessum tímapunkti í leiknum fyrir Torres en það skilaði víst marki og maður getur ekki kvartað, tja eiginlega 2 mörkum.
    Það er að verða allt annar bragur á leik liðsins sem er mjög gott. Samt fannst mér sóknartilburðirnir ekki nægjanlega hraðir á köflum og varnarmenn (8 talsins) hjá Fulham voru komnir i dekkun. E.t.v. smá slípun sem þarf til, en stundum þarf að draga þá fram til að sprengja þá svo og þá nærðu yfirleitt að búa til opið færi.
    Fannst meira um þetta þegar Massi fór útaf fyrir Lucas enda þá datt Gerrard aftar, ef þið skiljið hvað ég meina.
    Allt á réttri leið.
    Varðandi svo Riise, þá legg ég til að honum verði skipt útaf sem mest, helst fyrir Kewell sem ég held að sé maðurinn á þessum kanti, svei mér þá. Líklega má nota þó Babel líka, en hann er ekki eins góður krossari og Kewell.
    Svo er það landsleikjapásan …. zzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz

Krakkaklúbburinn

Síðan komin í loftið á ný