Þetta er orðin ein ofnotaðasta klisjan hjá nokkrum okkar hér á Liverpool Blogginu, en það skal aldrei sagt að það sé leiðinlegt að fylgjast með og styðja Liverpool FC. Nú þegar þrír mánuðir rúmir eru liðnir af tímabilinu, eða um einn þriðjungur leiktíðarinnar, má segja að Liverpool-liðið standi á ákveðnum krossgötum sem vert er að skoða.
Umræðan á þessari síðu hefur verið marglit síðustu vikur. Eftir frábæra byrjun í deildinni í ágúst og september kom jafnteflahrina í október, auk tveggja tapleikja í Meistaradeildinni sem setti þátttöku liðsins í þeirri keppni í uppnám, en eftir að liðið setti met með 8-0 sigri á Besiktas fyrir um þremur vikum síðan hafa bæði spilamennskan og úrslitin komist aftur á réttan kjöl.
Það má lengi saka Liverpool-aðdáendur um ofsóknaræði, en eins og staðan er í dag má lesa tvær útgáfur af raunveruleikanum úr umfjöllun fjölmiðlunga og annarra „sérfræðinga“. Þeir finnast enn spekingarnir sem horfa á tölfræðina og sjá að Liverpool-liðið er ekki svo illa statt, að því gefnu að októberlægðin hafi ekki reynst verri en raun bar vitni. Liðið er enn taplaust í deildinni, komið í 8-liða úrslit Deildarbikarsins og hefur örlögin í riðlakeppni Meistaradeildarinnar enn í eigin höndum. Slíkir spekingar eru þó í miklum minnihluta, svo vægt sé til orða tekið.
Staðreyndin er sú að á meðan maður keppist við að halda fótunum á jörðinni og munninum fyrir neðan nefið, rembist við að gagnrýna á þessari síðu aðeins það sem er gagnrýnivert en verja liðið annars gegn þeirri ósanngjörnu gagnrýni sem oftast kaffærir umræðunni, gera sparkspekingar á Englandi og víðar sig seka um klára hysteríu. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi; Manchester United eru með besta hópinn í stjórnartíð Ferguson, sá skoski er óskeikull sem þjálfari, á meðan Wenger vinnur betur með krökkum en Steven Spielberg og hefur aldrei gert mistök. Arsenal-liðið er að spila betri fótbolta en Brasilía gerði árið 1970, það stoppar ekkert lið Rooney og Tévez, og meira að segja Manchester City og Portsmouth virðast vera með betri lið en Liverpool þessa dagana. Fyrir hálfum mánuði var það sama sagt um Blackburn, en þeir virðast litlu máli skipta núna. Samt sverja „sérfræðingarnir“ fyrir núverandi skoðanir sínar, alveg jafnt og þeir sóru fyrir ári síðan að Sam Allardyce væri miklu betri knattspyrnustjóri en Rafa Benítez.
Í gær töpuðu Manchester United öðrum leik sínum í deildinni á leiktíðinni og fyrir vikið getur Liverpool-liðið náð þeim að stigum með sigri í leiknum sem okkar menn eiga til góða. Það er nú öll lægðin hjá okkar mönnum; taplausir út nóvembermánuð og búnir að tapa *jafn mörgum stigum* í Úrvalsdeildinni og ríkjandi meistarar. Síðast þegar Liverpool hóf desembermánuð sem taplaust lið í efstu deild Englands vann liðið titilinn.
Sir Alex Ferguson tók sénsa gegn Bolton í gær; þrátt fyrir meiðsli Rooney og Vidic ákvað hann að taka Cristiano Ronaldo alveg út úr hópnum og setja menn eins og Anderson og O’Shea, sem hafa leikið vel fyrir United, á bekkinn. Táningurinn Gerard Pique fékk að byrja inná á útivelli í deildinni og hóf leikinn á því að gefa andstæðingunum mark. Ferguson, sem tölfræðin sýnir að róterar alveg jafn mikið og Benítez, tók sénsa í gær – róteraði liðinu og hvíldi lykilmenn þrátt fyrir meiðsli – og uppskar tap fyrir vikið.
Getum við þá búist við því að umfjöllun fjölmiðla og annarra spekinga eftir helgina muni snúast um hvers vegna Ferguson er svo vitlaus að rótera? Ég bíð vart í ofvæni.
Hvað þá um Arsenal-liðið sem hefur verið í óstöðvandi formi í haust? Þegar 83 mínútur voru liðnar af leik þeirra á heimavelli gegn Wigan í gær var staðan 0-0. Tíu mínútum síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Arsenal fögnuðu tæpum 2-0 sigri. Wigan-liðið, sem hefur leikið svo illa að undanförnu að þeir fóru stjóralausir inn í þennan leik á útivelli gegn „best spilandi liði allra tíma“, var nokkrum mínútum frá því að hanga á jöfnu gegn stórkostlegum sóknum lærisveina Arsene Wenger.
Fyrir tveimur vikum unnu Liverpool nánast eins sigur á heimavelli gegn Fulham. Þegar um tíu mínútur lifðu af þeim leik var staðan enn markalaus – rétt eins og í gær hjá Arsenal – en tvö mörk frá Torres og Gerrard innsigluðu verðskuldaðan sigur heimaliðsins. Í kjölfar þessa leiks kepptust blöðin í Englandi um að gera lítið úr sigri Liverpool; við vorum heppnir, við erum bitlausir án Torres, Gerrard ber þetta lið uppi einsamall, og svo endalaust framvegis.
Getum við þá búist við sams konar umfjöllun um Arsenal-leik helgarinnar á næstu dögum? Ég held ekki niðri í mér andanum.
Fyrst við erum að þessu skulum við fjalla um þriðja stórliðið sem jafnan keppir við Liverpool á toppi deildarinnar. Chelsea unnu í gær 2-0 útisigur gegn Derby og virðast, eins og okkar menn, vera komnir aftur á beinu brautina eftir misjafnt gengi í september/október. Auðvitað má benda á brotthvarf José Mourinho sem ástæðuna fyrir lélegu formi Chelsea á tímabili, en staðreyndin er samt sú að liðið var að gera talsvert af jafnteflum áður en hann hætti, auk þess sem annar af tveimur tapleikjum þeirra í deildinni kom undir hans stjórn. Avram Grant tapaði fyrsta leik sínum með liðið, á útivelli gegn Man Utd, en er annars taplaus með Chelsea síðan hann tók við.
Hver er þá ástæðan fyrir slælegu gengi Chelsea? Fjölmiðlar hafa verið duglegir að svara því fyrir okkur: meiðsli! Terry, Carvalho, Drogba og fleiri hafa átt erfitt með að ná að spila alla leiki og vissulega hefur fjarvera slíkra lykilmanna komið niður á leikforminu. Það tekur það enginn af Chelsea að þeir hafa átt í erfiðleikum með meiðsli lykilmanna, og því í raun gott hjá þeim að vera jafn ofarlega og raun ber vitni þrátt fyrir áföll haustsins.
Þeir eru samt ekki eina liðið sem hefur barist við meiðsli. Listinn yfir þá leikmenn Liverpool sem hafa misst úr fleiri en þrjá deildarleiki með liðinu vegna meiðsla eða veikinda er langur: Kewell, Aurelio, Agger, Carragher, Alonso, Gerrard, Pennant, Benayoun, Gerrard (aftur), Torres, Torres (aftur) auk þess sem Sami Hyypiä nefbrotnaði í september og missti úr einn leik á sama tíma og Agger var meiddur, ef ég man rétt.
Það eru rúmir tveir mánuðir síðan Liverpool gat síðast stillt upp sínu sterkasta liði í nokkrum leik. Hefur umfjöllun fjölmiðla um gengi liðsins á þeim tíma tekið tillit til meiðslavandræðanna? Svo sannarlega ekki.
Það furðulega við þetta misræmi í umfjöllun um stóru liðin fjögur er samt sú staðreynd að það eru ekki bara svokallaðir *hlutlausir* fjölmiðlar sem eiga erfitt með að horfa raunsæjum augum á gengi Liverpool-liðsins í haust. Það furðulega er að þetta virðist gerast á meðal stuðningsmanna liðsins líka. Þeir eru fjölmargir aðdáendur Liverpool, að minnsta kosti hvað lesendur þessarar síðu varðar, sem láta ekki sjá sig í umræðum þessarar síðu svo dögum og vikum skiptir á meðan liðið er að leika vel, en um leið og næsta tapleik ber að garði fer fjöldi heimsókna og ummæla á þessari síðu upp úr öllu valdi. Við sem stjórnum síðunni höfum í stjórnkerfinu aðgang að því að fletta upp hverjum einasta manni sem skrifar ummæli á þessa síðu og við getum skoðað hvern spjallara fyrir sig og séð lista yfir öll ummæli viðkomandi langt aftur í tímann. Og það bregst ekki, þeir eru fleiri en tíu og fleiri en tuttugu spjallararnir sem láta *eingöngu sjá sig þegar Liverpool tapar leikjum* og þá nær undantekningarlaust til að kvarta.
Án þess að ég sé að taka einhvern einn þeirra út þá hefur t.a.m. einn ákveðinn spjallari verið duglegur að koma inn á þessa síðu *eftir tapleiki* og lýsa því yfir að klúbbnum sé hollast að reka Benítez strax-í-gær og ráða José Mourinho í hans stað, úr því að sá umdeildi maður sé á lausu. Þessi umræddi spjallari, sem ég leyfi að njóta nafnleysis í þetta sinn, kom síðast inn á síðuna á föstudag þar sem hann lýsti því yfir að liðið ætti ekki séns gegn Newcastle og sagði að það væri vegna þess að Benítez væri of mikið að rífa kjaft þessa dagana til að geta stýrt liðinu til sigurs. Eða eitthvað þannig.
Og hvernig fór svo? Jú, liðið kafsigldi Newcastle á útivelli, og þessi spjallari á enn eftir að láta sjá sig á þessari síðu. Ég geri ekki ráð fyrir að sjá hann næstu daga, en fari svo að liðið tapi leik á næstunni mun hann eflaust birtast aftur eins og hendi væri veifað.
Ég tek hér aðeins eitt dæmi, það nýlegasta, en því miður er ég alls ekki að tala um einn spjallara. Þetta er því miður bara eitt dæmi af mörgum um menn sem vilja bara tjá sig um liðið þegar þeir hafa eitthvað slæmt að segja. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en stórundarlega hegðun frá mönnum sem þykjast fá gleði út úr því að fylgjast með og styðja Liverpool FC.
Málið er það að þessi fyrsti þriðjungur leiktíðarinnar hefur verið einstaklega kaflaskiptur hjá Liverpool FC. Liðið hóf leiktíðina af krafti og var á toppi deildarinnar í september, en í októbermánuði fylgdu óþarflega mörg jafntefli í deildinni og tvö slæm töp í Meistaradeildinni. Fyrir þá lægð vann liðið Derby 6-0, eftir hana vann liðið Besiktas 8-0, svo Fulham 2-0 og loks Newcastle í gær 3-0. Markatala liðsins í síðustu þremur leikjum er 13-0, og má segja að liðið hafi á þessum þremur mánuðum leikið bæði besta og versta fótboltann undir stjórn Rafa Benítez. Ég man allavega ekki eftir betri frammistöðum en sigrunum gegn Derby og Besiktas, og ég man alveg örugglega ekki eftir meira getuleysi í liðinu undir stjórn Benítez en það sýndi gegn Marseille.
Staðan er samt ekki slæm. Eins og ég hef sagt milljón sinnum áður, þá gæti hún bæði verið betri og verri. Við gætum hafa haft heppnina með okkur gegn Marseille og Besiktas og sloppið með jafntefli, og þá væri liðið ekki í þeirri stöðu að verða að vinna síðustu tvo leikina í riðlinum til að eiga séns á að komast áfram. Við gætum líka hafa notið sannmælis gegn Chelsea á heimavelli í deildinni, og unnið allavega annan af jafnteflisleikjunum gegn Tottenham og Birmingham, og þá værum við fyrir ofan Man Utd í deildinni í dag og alveg í hálsmálinu á Arsenal. Liðið gæti líka hafa tapað gegn Tottenham og Arsenal á heimavelli í deildinni, sem og leiknum gegn Everton á útivelli, svo dæmi sé tekið, og þá væri liðið í svipaðri stöðu og síðustu ár; úr leik í baráttunni um titilinn. Leikurinn á útivelli gegn Porto hefði getað tapast, en þá væri staða liðsins í dag vonlaus þrátt fyrir metsigurinn gegn Besiktas.
Ég kýs að horfa á raunveruleikann og mér finnst hann jákvæður. Útkoma riðils A í Meistaradeildinni er enn í höndum okkar manna. Ef liðið getur unnið síðustu tvo leikina fer það áfram, ef ekki þá situr það eftir. Þetta er kannski ekki jafn góð staða og liðið hefur verið í undanfarin ár í riðlakeppninni, en ég sé ekki hvernig menn geta kvartað yfir því að ráða eigin örlögum.
Í deildinni er baráttan um titilinn í fullum gangi. Liðið er stigi á eftir Chelsea og þremur á eftir Man Utd með leik til góða á bæði lið. Það þýðir að eftir 13-14 umferðir hefur liðið *tapað færri stigum en Chelsea* og *jafnmörgum og Man Utd*. Aðeins Arsenal hafa forskot á okkur í deildinni, heil sex stig, en ef við skoðum aðeins tölfræðina yfir leiki liðanna í deildinni undanfarið fæst auðveldlega útskýring á því hvers vegna Arsenal eru mögulega með sex stiga forskot á okkur og Man Utd og átta stig á Chelsea:
- Arsenal: markatala 29 – 10 eftir 8 leiki heima og 5 úti. 0 töp.
- Man Utd: markatala 23 – 7 eftir 7 leiki heima og 7 úti. 2 töp.
- Chelsea: markatala 21 – 9 eftir 6 leiki heima og 8 úti. 2 töp.
- L’pool: markatala 22 – 6 eftir 6 leiki heima og 7 úti. 0 töp.
Sjáið þið mynstrið? Arsenal hefur þegar einn þriðjungur mótsins er liðinn leikið áberandi fleiri leiki á heimavelli en hin liðin. Af þessum átta heimaleikjum þeirra hefur aðeins einn verið gegn toppliði en hinir nær allir verið auðveldir leikir gegn slakari liðum. Ef þið skoðið leikjaprógram liðanna er augljóst hvaða lið hefur átt auðveldasta prógrammið. Arsenal hafa leikið frábærlega í haust og gerðu vel í að hanga á jafnteflum gegn bæði okkar mönnum á Anfield og Man Utd á heimavelli sínum, en þeir eiga eftir erfiðara prógram en hin þrjú toppliðin.
Manchester City kemur á óvart með því að eiga besta heimaleikjaárangurinn í vetur, en þeir hafa unnið alla átta heimaleiki sína. Á útivelli er Liverpool hins vegar með langbesta árangurinn, fimm sigrar og tvö jafntefli í sjö leikjum. Það eru heimaleikirnir sem hafa gert okkar mönnum eilitla skráveifu; Chelsea voru stálheppnir að sleppa með jafntefli en Arsenal-jafnteflið var sanngjarnt, hins vegar má alveg segja að liðið hafi tapað fjórum stigum á heimavelli gegn Tottenham og Birmingham í leikjum sem hefðu átt að vera sigurleikir miðað við getumuninn á þessum liðum og Liverpool.
Þetta er ekki slæmt samt. Sex stig á Arsenal þegar nóvember er rétt að ljúka er langt því frá að vera heimsendir, sér í lagi þegar liðið getur staðið jafnfætis Man Utd í töflunni og ofar en Chelsea. Þessi deildarkeppni er rétt að byrja og ég sé enga ástæðu til annars en að líta svo á að okkar menn séu enn í sama séns og hin stórliðin hvað enska meistaratitilinn vorið 2008 varðar.
Framundan eru spennandi leikir hjá Liverpool. Vissulega hafa deilumál eigenda klúbbsins og knattspyrnustjórans verið í brennidepli síðustu þrjá daga og hver veit nema Rafa Benítez muni verða annar stjóri toppliðs í Englandi sem hættir óvænt störfum vegna ósættis við eigendur. Ég vona ekki. Rafa veit hvað þarf til að vinna titla, hefur gert það með Liverpool og aðeins þeir sem hafa horft á síðustu leiki liðsins með lokuð augun myndu reyna að halda því fram að hann kunni ekki að láta liðið spila sóknarknattspyrnu.
Framtíðin er samt í óvissu á meðan þessi deilumál vara á milli Benítez og eigendanna tveggja. Þeir eru væntanlegir yfir til Liverpool-borgar til viðræðna við Benítez þann 16. desember næstkomandi, en þann dag leikur liðið við Man Utd á Anfield í deildinni. Það er nokkuð ljóst að þessi tímasetning er ekki úr lausu lofti gripin; síðasti leikur riðlakeppni Meistaradeildarinnar fer fram gegn Marseille á útivelli fjórum dögum áður, þannig að það er ljóst að niðurstaða riðilsins og það hvort Liverpool fer í 16-liða úrslitin eftir áramót eða ekki, mun hafa áhrif á það hversu mikinn stuðning Rafa Benítez fær á leikmannamarkaðnum í janúar.
Leikirnir sem liðið á eftir að spila áður en Benítez og eigendurnir setjast og ræða málin eru sem hér segir:
- Porto (heima)
- Bolton (heima)
- Reading (úti)
- Marseille (úti)
- Man Utd (heima)
Þetta eru þeir fimm leikir sem liðið mun spila næstu þrjár vikurnar. Þarna eru tveir deildarleikir sem eiga að geta unnist og svo stórleikur gegn United á heimavelli, auk þess sem leikirnir tveir sem munu ráða úrslitum í Meistaradeildinni eru þarna á milli.
Sem sagt, fimm mikilvægir leikir sem munu örugglega bjóða upp á alla heimsins flóru af dramatík, spennu, tilfinningasveiflum og almennri skemmtun. Síðan munu forráðamenn liðsins setjast niður og (vonandi) hreinsa loftið, og *síðan hefst jólatörnin í ensku Úrvalsdeildinni fyrir alvöru*.
Fyrstu þrír mánuðir tímabilsins hafa verið þrælspennandi og áhugaverðir, og miðað við upptalninguna hér að ofan er ljóst að það eru ekki minna spennandi tímar framundan hjá Liverpool FC. Þannig að ég spyr ykkur, yfir hverju erum við að kvarta?
Tímabil í knattspyrnu er ekki eins og tölvuleikur þar sem liðið vinnur alla sextíu leiki sína, hirðir fernuna og Torres skorar sjötíu mörk í öllum keppnum. Það gerist aðeins í tölvuleikjum. Raunveruleikinn er sá að tímabil er meira eins og áætlunarflug á milli tveggja fjarlægra staða. Vélin kann að lenda í ókyrrð nokkrum sinnum, og jafnvel hrapa um nokkur hundruð metra í lofttæmi eins og einu sinni, en ef hún skilar sér og farþegum sínum heilum og höldnum á áfangastað að lokum, skiptir ókyrrðin þá svona miklu máli?
Mátt ekki gleyma að þegar við tókum tyrkina í bakaríið þá var helsta deiluefnið yfir því að Rafa brosti ekki nóu mikið að mati sumra,þetta er gott dæmi um hversu umfjöllunin um Liverpool getur verið klikkuð.Met sigur í CL og menn vældu yfir því að Rafa brosti ekki????????ruglað lið…
En annars spyrðu yfir hverju maður er að kvarta fyrst það er svona mikill drami og spenna við að halda með Liverpool…Þá vil ég seigja að spennan og draminn í kringum þetta lið er einum of mikill,allir leikir sem við spilum eru oftast must win leikir og taugarnar þola ekki mikið meira.Þetta er mitt kvörtunar efni gagnvart liðinu;)..En annars eru þeir aðeins farnir að laga þetta,núna undanfarið höfum við klárað leikina á skikkalegum tíma en ekki vera að hanga á einhverju 1 marki allann leikinn
Afar góður pistill og hughreystandi.
Þetta sagði ég fyrir Newcastle-leikinn:
“Það er vonandi að þessi meinta “deila” á milli eigendanna og Rafa, sem virðist augljós, verði til þess að leikmennirnir þjappi sér á bakvið Rafa. Ég mun túlka hlutina þannig á morgun að ef menn verða eitthvað andlausir og almennt ekki grimmir þá sé eitthvað að á milli leikmanna og Rafa. En ég vona að svo sé ekki.”
Ég gat ekki betur séð en að menn berðust eins og ljón á vellinum í gær með Gerrard í fararbroddi. Það var gríðarlega jákvætt og ég túlka það sem stuðningsyfirlýsingu á Rafa. Gaman að menn brostu mikið líka því hvað er fótbolti annað en skemmtun?
Ég tel þó að ástæðan fyrir undarlegri hegðun Liverpool-aðdáenda í stuðningi sínum við liðið sé einföld, þú veist hver ástæðan er jafnvel og ég:
Liðið hefur ekki unnið efstu deild á Englandi síðan 1990. 17 ár síðan takk fyrir. Ég er alveg sannfærður um að “attitude” aðdáenda og fjölmiðla myndi stórbætast ef sá titill kæmi í höfn.
Það er ljóst að aðdáendu þrá árangur. Jú liðið hefur verið að vinna titil hér og þar síðan 1990 og þar ber hæst að sjálfsögðu European Cup árið 2005. En ef ekki er árangur þá má bæta árangursleysið upp með skemmtilegum fótbolta en Liverpool hefur ekki boðið almennilega upp á skemmtilegan fótbolta í mörg ár. Slaka aðeins, auðvitað hafa komið frábærir leikir inn á milli en ég er að tala um heildina. Andstæðingar Liverpool hafa kallað okkur morðingja fótboltans og annað slíkt og það hefur ekki verið úr lausu lofti gripið oft á tíðum.
Nú er sjálfsagt einhver að pissa í sig af illsku út í mig og hugsar að ég sé mikið vondur maður og lélegur stuðingsmaður. En að mínu viti er ég besti stuðningsmaður í heimi, hvers vegna? Ég geri kröfur um árangur og/eða skemmtun. Því eins og ég sagði áðan þá er fótbolti fyrst og fremst skemmtun.
Leikurinn á móti Newcastle var mjög skemmtilegur. Það hafa aðrir leikir verið skemmtilegir á þessu tímabili. Keep’em coming.
Snilldarpistill!
Mikið vildi ég að hægt væri að skipta orðinu rótera út fyrir eitthvað annað, eitt ljótasta orð sem hægt er hleypa í íslenska tungu.
Góður pistill…
Það er alveg sama hvað ég get orðið pirraður yfir leik liðsins á stundum… mér dettur ekki í hug að koma hingað inn og fara að segja að það eigi að reka þjálfarann eða selja leikmenn, því ég veit að það leysir engann vanda…
Nú er ég bjartsýnn maður að eðlisfari… og það hjálpar mér kanski við að yfirstíga þá reiði sem brýst út yfir einum og einum leik…,,
En það er líka bara þannig að á þessu tímabili eru skemmtilegir leikir með Liverpool sennilega orðnir fleiri en þeir voru samtals undir stjórn Houlier, þannig að mér hefur fundist ég hafa fleiri ástæður til að vera bjartsýnn…
Y.N.W.A.
Hvernig væri að nota orðið HRÆRA? Hann er alltaf að hræra í liðinu.Annars er ég rosalega glaður yfir leik okkar manna og að M U hafi tapað.Tvöföld gleði
Góður pistill að mínu mati fyrir utan mér finnst alltaf hættuleg þessi umræða um góða og slæma stuðningsmenn!!
Við sem stuðningsmenn erum bara svo mismunandi. Sumum okkar lætur vel að setja reiðina og pirringin bara á blað en aðrir vilja líka setja gleðina og hamingjuflóðið sem fylgir sigrum einnig á blað. Eitthvað segir mér að þeir sem þeisast aðeins um ritvöllinn þegar brösulega gengur, hoppa og “tjúllast” af ánægju þegar vel gengur heima í stofu eða á barnum.
Ég get skilið gagnrýni þína Kristján Atli en ég er ekki sammála henni. Viltu losna við þá af Liverpool-blogginu sem aðeins finna ritþörfina hjá sér þegar illa gengur? Liverpool-bloggið er ekkert einsdæmi með þetta að þegar brasið er í gangi þá eru fleiri að fylgjast með og segja sitt álit. Eitthvað í mannlegu eðli.
Ég get tekið heilshugar undir þetta með bresku pressuna. Liverpool liggur bara eitthvað svo vel við höggi. Stóri titillinn lætur standa á sér og meðan það ástand varir þá verður gagnrýnin vægðarlausari gagnvart Liverpool en hinum liðunum.
Stuðningsmenn eru orðnir óþolinmóðir. Þar á meðal ég!!! Þess vegna sveiflast ég hægri vinstri… fram og til baka og alla vega. Stundum elska ég liðið mitt út af lífinu og stundum langar mig að gera mér ferð á Anfield og öskra mig hásan á leikmenn og þjálfara. En þrátt fyrir að ég missi stundum móðinn þegar brösulega gengur lít ég ekki á mig sem eitthvað verri eða betri en næsti stuðningsmaður. Það er bara ég!! Svona er bara ég sem stuðningsmaður.
YNWA
“Þessa stundina hef ég mestar áhyggjur að eigendum liðsins. Þeir hafa að minu viti ekki enn sýnt þann stuðning sem þarf og ég hræðist ,,ameríska” hugsun þeirra um enskan fótbolta og leikmannamarkaðinn. Þó búið sé að undirbúa og ganga frá flestu verðandi nýjan leikvang finnst mér að þeir þurfi að fylgja Rafa í hans pælingum og uppbyggingu. Ég hræðist það síðan mest að síðasta uppákoma hafi verið alvarlegri en almennt er haldið. Þetta eru menn sem eru ekki vanir að taka við gagnrýni frá eigin starfsmönnum og það verður fróðlegt að sjá hvað gerist eftir 16. desember. Ég held nefnilega að staða Rafa sé orðin mjög veik og Mourinho er á lausu. Á því hef ég illar bifur.”
Sammála hverju orði… Deili þessum áhyggjum.
Frá bær pistill sem segir í raun allt sem segja þarf. Gagnrýni á rétt á sér ef hún er rökstudd og sett fram án slagorða og stundum finnst mér að þeir sem gagnrýna mest geri sér enga grein fyrir því að stundum gengur vel og stundum illa – hjá ÖLLUM liðum. Í heildina er ég sáttur við Rafa og hans kerfi. Hann er hægt og sígandi að skipta út þeim leikmönnum sem hann telur að gangist liðinu ekki nógu vel og fá aðra í staðin. Það er líka loksins að gerst að það koma peningar í kassann fyrir þessa leikmenn eins og sást í sumar. En það er ákveðið einelti í gangi af hendi fjölmiðla og við það er erfitt að eiga.
Þessa stundina hef ég mestar áhyggjur að eigendum liðsins. Þeir hafa að minu viti ekki enn sýnt þann stuðning sem þarf og ég hræðist ,,ameríska” hugsun þeirra um enskan fótbolta og leikmannamarkaðinn. Þó búið sé að undirbúa og ganga frá flestu verðandi nýjan leikvang finnst mér að þeir þurfi að fylgja Rafa í hans pælingum og uppbyggingu. Ég hræðist það síðan mest að síðasta uppákoma hafi verið alvarlegri en almennt er haldið. Þetta eru menn sem eru ekki vanir að taka við gagnrýni frá eigin starfsmönnum og það verður fróðlegt að sjá hvað gerist eftir 16. desember. Ég held nefnilega að staða Rafa sé orðin mjög veik og Mourinho er á lausu. Á því hef ég illar bifur.
LOL — 🙂 Hvernig var þetta hægt!! Var að vitna í komment #8 og kem samt á undan sem komment #7…. 🙂
Það væri nú rosalegt ef kanarnir myndu nú reka Rafa sem að virðist sé bara nokkuð vinsæll meðal stuðningsmanna Liverpool og ráða svo mourinho sem er örugglega einn sá verst liðni maðurinn af stuðningsmönnum Liverpool..Þetta væri svakalegt útspil hjá þeim,held að þeir yrðu að reisa eitthvað stærra og meira en einn leikvang til þess að komast í mjúkinn…Og ef þessi frétt á fótbolta.net eigi sér einhverja stoð í raunveruleikanum þá held ég að kanarnir þurfi að fylgjast aðeins betur með því sem er að gerast í kringum félagið…….Þú rekur ekki Rafa og ræður mourinho????er það???
http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=55200..linkurinn á fréttina um að Rafa verði rekinn
Vel mælt KAR og verður ekki sagt annað en að maður fær að upplifa allan tilfiningaskalann ef maður heldur með Liverpool. Ég hef spurt mig hvort liðið sé að þróast í rétta átt, sérstaklega eftir næstum sanngjarnt tap heima gegn Marseille og síðan jafnteflið gegn Birmingham og í raun ekkert af því að efast og spyrja. Á endanum hefur bæði LFC og Rafa svarað allri þeirri gagnrýni sem þörf er á með frábærum leikjum að undanförnu.
Hvað varðar þessar gróusögur um að José sé næsti stjóri LFC þá eru þær næstum hlægilegar. Ég er fullviss um að Rafa er og verður stjóri Liverpool um komandi ár.
Góðar stundir.
Þetta er mjög góður pistill. Ef mér hefði verið sagt í byrjun tímabils að staða liðsins yrði svona 1.des þá hefði ég tekið því. Árangurinn í deildinni er bara ágætur, eins og Kristján skrifar skilmerkilega, og Liverpool er í toppbaráttunni. Það hefur ekki gerst í nokkuð mörg ár. Vonandi heldur liðið áfram á sömu braut, nær í þessi 3 stig í stað endalausra jafntefla og klárar þessa tvo leiki í Meistaradeildinni. Ef lægðin er að baki þá held ég að flestir stuðningsmenn geti sammælst um að vera bjartsýnir.
Ég gleymdi að nefna að mér finnst þetta svolítið “Tomkinslegur” pistill hjá þér Kristján. Allt í fínu með það 🙂
Kristján Atli hefur skrifað þá nokkra pistlana hér, sem hafa verið góðir. Þessi pistill slær þó þá alla út. Snilldarlesning og vel af verki komist, Kristján Atli.
Kúdós Kristján Atli, vel mælt og ekki gæti ég verið meira sammála þér.
Ég mun einfaldlega brjálast ef kanarnir láta Rafa fara, hann er klárlega maðurinn fyrir okkur og það mun koma í ljós ef menn finna hjá sér smá þolinmæði.
Jón H. Eiríksson, að sjálfsögðu vill ég ekki losna við neikvæða stuðningsmenn liðsins af þessari síðu. Ef allir hér væru alltaf sammála og voða jákvæðir væri þessi síða ekkert skemmtileg. Ég kem sjálfur inn eftir slæma leiki og tappa af reiðinni á þessa síðu og hef gaman af. Munurinn er bara sá að ég get líka glaðst þegar vel gengur, á meðan sumir kjósa að láta bara sjá sig þegar illa gengur.
Það er eins og menn leggi mannorðið að veði með því að segja að Rafa sé getulaus stjóri, komi svo hér inn til að hrósa sigri og hampa eigin ágætum fyrir að hafa alltaf vitað að hann væri glataður, eftir tapleiki, en þegja svo þögninni löngu þess á milli því það er erfitt að hafa rangt fyrir sér. Það er bara mitt mat að þetta sé undarleg hegðun. Það þýðir ekki að ég sé að reyna að fæla slíka spjallara í burtu, síður en svo, en ég má hafa þessa skoðun á hegðun þeirra.
Annað sem ég vil bæta við pistilinn er að ég er ekki jafn viss um að Rafa klári þetta tímabil nú og ég var fyrir viku síðan. Það er ljóst að hann nýtur stuðnings leikmannanna, er að ná árangri með liðinu og er að mínu mati okkar besti kostur á að vinna Úrvalsdeildina í ár eða á næstu árum.
Hins vegar skal ósætti við eigendurna ekki tekið sem léttvægum hlut. Við sáum það síðast með Mourinho, sem menn héldu að væri nánast tryggður í starfi, að hann gat ekki lifað af rifrildin við stjórann sinn. Þannig að þangað til ég sé fréttir þess efnis að Rafa og eigendurnir hafi hist, hreinsað loftið og sæst um öll deiluatriði mun ég ekki taka því sem gefnu að Rafa verði áfram hjá Liverpool.
Já, og Gummi Halldórs, ég ætla að taka þessu Tomkins-tali þínu sem hrósi. 🙂
Flottur Kristján Atli. Sammála nær öllu þarna og ætla ekki að mótmæla neinu.
Ég veit ekki neitt erfiðara þessa stundina heldur en það að hlusta á sögur um brottrekstur Benitez og daður Mourinho. Það mun verða næst því sem ég kemst að hætta að halda með liðinu.
Ég sagði í nótt og segi aftur að Benitez er kominn með sitt handbragð á þetta lið, hann pressar hátt og heldur svo boltanum í drep. Með Torres, Babel, Gerrard og Kewell lyklana að því að stúta liðum, líkt og t.d. Aimar var hjá Valencia.
Ég get ekki hugtsað þá hugsun til enda að sjá glottandi Mourinho á Anfield.
Ég aftur á móti hef alltaf haft áhyggjur af eignarhaldi ríkra Ameríkana á liðinu mínu. Þeirra íþróttaheimur er algerlega himinn og haf frá evrópskum og ég er alveg sannfærður um það að Rafa hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að þeir skilji ekki félagaskipti fótboltans í Evrópu. Í Ameríku eru engir leikmenn keyptir. Þeir koma í skiptum eða eru fengnir sem frjálsir samningslausir leikmenn (free agents) og mega þá ekki byrja viðræður fyrr en samningur þeirra við fyrri vinnuveitendur rennur út.
Þarna er grundvallarmunur. Ef þessir ágætu menn ætla að nota ameríska viðskiptahætti getum við gleymt því að ná í bestu bitana á markaðnum.
Ef þeir reka nú Rafael Benitez eftir bestu byrjun liðsins í 17 ár vita þeir ekki neitt.
Í Ameríku sætta lið sig nefnilega við að eiga 3-4 slök ár, því þá ná þeir oft í feita bita á unglingamarkaðnum. Við munum aldrei gera það í Evrópu.
Áhyggjur mínar snúast því ekki um Benitez, heldur fyrst og fremst eigendurna, þarna eru fyrstu árekstrar þeirra við Evrópu og fróðlegt verður að sjá hvert framhaldið er. Nú þarf Rick Parry að sanna sig fyrir mér…….. Strax!
Rafa verður ekki látin fara hann er að gera ágætis hluti. Liv og Ars eru einu liðin sem hafa ekki tapað og ef svo færi að Rafa færi þá er etthvað stórkostlegt að á milli bandarísku herrana og Rafa
Þessi pistill er góður á margan hátt. Byrjaði vel og endaði vel, en þessi kafli þar sem Kristján er að reyna draga í dilka stuðningsmennina fannst mér í besta falli lélegur. Hvað með það þó sumir skrifi bara þegar illa gengur? Eru þeir veirri aðdáendur? Ertu að setja sjálfan þig á háan hest gagnvart t.d. mér Kristján afþví að ég skrifa mun meira þegar illa gengur? Það er bara ástæða fyrir því að ég skrifa meira þegar illa gengur, þá liggur mér bara meira á hjarta. Þegar vel gengur er maður bara sáttur við lífið og tilveruna og því er maður ekki eins skrifglaður. Að þessu sögðu skal ég hins vegar taka undir með þér um þá sem koma hérna inn og drulla yfir allt og alla og láta ekki sjá sig þess á milli. Menn verða að vanda skrif sín.
Ég veit ekkert hvort þú varst með mig eða mína líka í þessu dæmi hjá þér, og hreinlega efa það. Ég vildi samt með þessu benda þér og öðrum á að þeir sem skrifa meira þegar illa gengur eru ekkert í einhverri brjálæðislegri tilhlökkun yfir tapleikjum og fá uppreisn æru hér eftir þá. Þeir eru langt frá því verri stuðningsmenn en einhver annar, t.d. Pollyönnu liðið. Það er til fullt af fólki, eins og t.d. ég, sem einfaldlega liggur meira á hjarta þegar illa gengur, og það eðlilega að ég tel.
Heil Liverpool.
Þetta var frábær pistill með öllu.
En Samt sem áður tel ég að sannur Poolari myndi ekki vera að seta eitthvað útá liðið, því ég kalla það alls ekki að vera sannur Poolari. Maður sér oft viðtöl við aðdáendur fyrir leiki, og það Breta og eru þeir spurðir um liðið sitt, og þrátt fyrir að það er í lægð, segja þeir að það mun rífa sig upp og gera eitthvað gott eftir það. Það finnts mér vera sannur andi gagnvart liði sínu.
Persónulega langar mig að sjá Benites vera áfram, hef tröllatrú á honum og lagið okkar á að vera sungið til hans “You’ll never walk alone”!
Flott grein í Echoinu:
http://icliverpool.icnetwork.co.uk/0500liverpoolfc/0100news/tm_headline=a-phrase-that-lifted-the-lid-on-anfield-8217-s-inner-turmoil%26method=full%26objectid=20151477%26page=3%26siteid=50061-name_page.html
Svo skil ég ekki útaf hverju það er mikilvægara Benni Jón að gagnrýna tapleiki en gleðjast yfir sigurleikjum. Mér finnst miklu skemmtilegra að tala um liðið mitt þegar það vinnur en þegar það tapar. En við erum bara ólíkir og auðvitað er það í lagi. Mér leiðast mest menn sem koma hér og nota niðrandi orð um liðið, stjórann og aðra áhangendur. Eins og t.d. Stb sem kom með þvílíkar dómsdagsyfirlýsingar um Benitez á föstudaginn og öruggt tap okkar í Newcastle! Ég skora á menn að lesa sem mest um þessa deilu og ég er sannfærður um það að ef að við værum í Championship manager og fengum slík ummæli frá stjórninni segðum við: Ultimatum. Orðsendingin á official síðunni frá þeim fannst mér skelfing!!!
En er það ekki þannig að við drögum allir í dilka, þú t.d. býrð til hóp og dilk, “Pollýönnuliðið”….
Ég hélt eftir sigurinn í gær að Rafa myndi róast, en viti menn – í dag eru enn fréttir af deilum hans og eigendanna. Það er ekki gott. Rafa hefur hingað til ekki verið vanur að gagnrýna fólkið sitt opinberlega – mér hefur alltaf fundist hann vera rólegur og yfirvegaður maður; eitthvað sem ber að dást að. En núna er hann að deila opinberlega hvað ofan í annað – eða eru menn bara að búa til fréttir um hann? Ég er logandi hræddur við þessa stöðu. Vona að Rafa haldi áfram þó ég hafi verið hundóánægður með hann síðustu vikurnar (ég vil kenna honum um dýfuna sem liðið tók – og að sama skapi skal ég þakka honum ef liðið fer hærra). Allt er þetta spurning um þolinmæði í löngu móti. En eigendurnir fyrir vestan eru fjárfestar. Peningar hafa litla þolinmæði.
Long time reader, first time commenter.
Maður hefur hoggið eftir því síðustu ár að breska pressan á sín uppáhaldslið. Borgarliðin koma þar sterkust inn og þar á eftir Manchester utd., en þeim virðist vera eitthvað í nöp við Liverpool. Ef úrslitin eru okkur ekki í hag er talað um niðurægingatímabil og eitthvað drastískt þurfi að gerast innan félagsins til þess að árangur eigi að nást, aldrei talað um að þjálfari þurfi tíma til þess að aðlagast félaginu. Svo þegar árangurinn næst og liðið spilar vel eru bresku fjölmiðlarnir fljótir að finna eitthvað nýtt til þess að klekkja á Liverpool, að eitthvað sé að á milli þjálfara og liðs, eða eigenda og þjálfara/stjóra.
Umræðan síðustu daga hjá aðdáendum og “stuðnings”mönnum liðsins hefur stjórnast af fjölmiðlunum eins og hún gerist allt of oft. Menn kokgleypa við öllu því sem pressan skrifar og skiptir þá litlu máli hvort fréttastofan heitir BBC eða News of the World. Menn mega ekki gleypa við allri þeirri vitleysu sem fram kemur í þarlendum fjölmiðlum og passa sig á því að greina kjarnann frá hisminu. Sérstaklega þurfa menn að passa sig á því hvar menn lesa hlutina.
Vissulega er greinilegt að eitthvað er nú að á milli Rafa og kananna en eigum við ekki að leyfa okkur að bíða og sjá hvað gerist eftir fund þeirra og treysta Benitez og öðrum innan liðsins til þess að koma vitinu fyrir ameríska eigendur þess.
Ég nefndi hóp Maggi, en ég dró ekki í neina dilka.
Benni Jón. Er “Pollýönnuliðið” hópur en ekki dilkur? Hvað er þá dilkur???
er virkilega raunhæft að reka Benitez? getur virkilega verið að kanarnir séu svo gjörsamlega lausir við alla almenna skynsemi að þeir reki manninn sem er á góðri leið að gera Liverpool að meisturum, og að endurbyggja unlinga- og varalið Liverpool. Þeir hljóta að hafa a.m.k. googlað Rafa Benitez áður en þeir keyptu liðið og vitað hvernig týpa hann er. Hef enga trú á því að Benitez sé á leiðinni út, þetta verður alveg bókað í öllum fjölmiðlum fram að 17.des þ.e.a.s. daginn eftir að þeir hittast. Þá verður einhver súper blaðamannafundur þar sem menn fallast í faðma og tilkynna að allt sé í fínu lagi. Síðan verða eftirlifandi Bítlarnir fengnir til að stjórna fjöldasöng á You’ll never walk alone.
Frábær pistill, næstu fjórir leikir eiga ekki að vera neitt vandamál fyrir okkur því að mínu mati eigum við að vinna alla heimaleiki gegn minni liðum og við ættum bara að vera of stór biti fyrir Reading. Eini leikurinn þarna sem raunverulega ætti að vera vandamál er Man Utd leikurinn og ég hef fulla trú á okkar mönnum þar, sá leikur fer í sigur fyrir okkur eða jafntefli. Sennilega sigur ef við sleppum vel við meiðsli. Áfram Liverpool!
Bjóst nú ekki við að þurfa útskýra jafn augljósan hlut en jæja.
Hóparnir eru t.d. Pollyönnuliðið, gagnrýnendurnir og ósangjörnu gagnrýnendurnir. Dilkarnir eru síðan eftir því hve mikill stuðningsmaður þú ert, eða átt að vera, eftir því hvaða hóp þú tilheyrir.
Dæmi: Ef þú ert pollyanna ertu mjög góður stuðningsmaður(dilkur 1). Ef þú ert gagnrýnandi ertu meðal stuðningsmaður(dilkur 2) og ef þú ert ósangjarn gagnrýnandi þá ertu lélegur stuðningsmaður(dilkur 3). Ertu að ná þessu núna?
Ég veit að t.d. Kristján er mjög gjarn á að taka pollyönnu á hlutina og er það bara mjög vel. Ég veit líka að hann er mikill stuðningsmaður Liverpool. Ég sjálfur aftur á móti á það til að taka pollyönnu, en yfirleitt gagnrýni ég það sem mér finnst að betur mætti fara, en reyni þó að vera sangjarn í þeirri gagnríni. Ég er samt mikill stuðningsmaður Liverpool og það veit t.d. Kristján. Þess vegna finnst mér alltaf svo kjánalegt að draga í dilka eftir því hvaðaa “hóp” þú tilheyrir.
Don´t get me wrong, mér fannst pistillinn hans heilt yfir mjög góður og var sammála flestu, en þetta atriði fannst mér gagnrýnivert.
Flottur pistinn og gaman að sjá menn horfa á þetta frá fleiri hliðum en fjölmiðlar….
áfram Liverpool
Frábær pistill. Nennirðu að skrifa alltaf svona pistla þegar ég er þunnur?
Benni Jón, ég á ekki að þurfa að útskýra þetta oft þannig að vinsamlegast taktu eftir orðum mínum í þetta sinn: ég hef ALDREI sagst vera betri en aðrir Liverpool-stuðningsmenn. Það er einfaldlega rangt af þér að túlka orð mín þannig.
Hins vegar, þótt ég telji mig ekki vera neitt betri, áskil ég mér rétt á minni vefsíðu til að gagnrýna ákveðinn hóp aðdáenda sem kemur reglulega hingað inn. Það þýðir ekki að ég telji þá minni áhangendur Liverpool en aðra, bara að mér þyki hegðun þeirra skrýtin. Þú getur verið mesti og heitasti stuðningsmaður Liverpool í heimi og samt hagað þér skringilega. Þannig að vinsamlegast hættu að reyna að leggja þann skilning í orð mín að ég sé að halda því fram að ég, eða einhverjir, séu betri en aðrir. Það er EKKI, ég endurtek EKKI, það sem ég er að segja.
Hins vegar þykir mér það nánast lykta af hræsni hjá þér að saka mig um að draga fólk í dilka/hópa/hvaðsemþúviltkallaþað, í einni málsgrein en tala síðan um „Polýönnu liðið“ í þeirri næstu. Mátt þú sem sagt flokka Liverpool-aðdáendur í hópa en ekki ég?
Hvað varðar það sem þú tókst persónulega, þá hafði ég þig reyndar ekki í huga sem slíkan þegar ég skrifaði pistilinn. En það að þú hafir tekið hann til þín persónulega segir kannski það sem segja þarf. 🙂
Allavega, ég skrifaði þennan pistil ekki bara til að koma af stað enn einni leiðindaumræðunni um það hverjir séu hrokafullir, hverjir heimskir og hverjir ekki. Ég var einfaldlega að benda á, í gagnrýni minni á hlutdræga umfjöllun fjölmiðla, að það eru ekki bara fjölmiðlarnir sem eiga erfitt með að leyfa Liverpool að njóta sannmælis heldur stuðningsmenn liðsins líka. Þannig að vinsamlegast ekki hleypa þessari umræðu upp í eitthvað annað en hún átti að vera. Ég skrifaði þennan pistil svo að menn gætu kannski rætt hina raunverulegu stöðu Liverpool í dag, hvað tímabilið í heild sinni varðar, ekki til að menn gætu byrjað (enn einu sinni) að metast um það hvor stuðningsmaðurinn sé betri en hinn.
En það er líka magnað hvernig menn hafa túlkað orðin í gær. Sumir fjölmiðlar slá því upp sem meiriháttar árás á Kanana að Rafa hafi sagt:
En svo “gleyma” þessir fjölmiðlar að láta fylgja með næstu setningar, sem birtust í viðtalinu á Sky.
Jamm
Virkilega góður pistill Kristján Atli, er sammála þér að öllu leyti.
Er sammála þér með umræðuna um þá áhangendur Liverpool á þessari síðu sem koma einungis inn til að ausa úr skálum reiði sinnar og þá eingöngu til þess. Vissulega koma allir lesendur hér inn eftir slæma leiki og tjá sig á neikvæðan hátt um spilamennsku liðsins, það er eðlilegur hluti af því að teljast áhangandi liðs, léleg spilamennska fer fyrir brjóstið á mönnum og guði sé lof fyrir að maður geti fengið útrás fyrir þessa þörf á síðu eins og hér því ég held að konan sé alveg búin að missa alla þolinmæði fyrir þessum umræðum á mínu heimili 🙂 Fyrir mitt leyti er líka ákveðinn partur af því að maður fái útrás fyrir reiði sína yfir lélegri spilamennsku hér sá, að ég mun aldrei viðurkenna lélega spilamennsku liverpool við utd, arsenal eða chelsea áhangendur 🙂
En það er líka partur af því að vera stuðningsmaður liðsins að gleðjast þegar vel gengur og sjá björtu hlutina við leik liðsins. Ef maður sér þá ekki hver er þá tilgangurinn að styðja liðið? Ég tek því undir með þér varðandi þessa umræðu og er ekki sammála Jóni H. #6 um að þessi umræða sé hættuleg. Þvert á móti hef ég tekið eftir þessum hlutum á blogginu og þetta hefur pirrað mig í hvert skipti að sjá sömu nöfnin einungis í neikvæðum færslum eftir leiki.
YNWA
Já, og hér er upphaflega fréttin um það að það eigi að reka Rafa. Aðalástæðan fyrir því menn eru að stressa sig yfir frétt í blaði einsog News of the World er að fréttin er skrifuð af Chris Bascombe, sem vann auðvitað mjög lengi á Liverpool Echo. En einnig hafa margir bent á að hann hafi ekki haft mikið “inside information” eftir að Houllier hætti.
+
Ég er hins vegar á því að G&Hicks séu ekki algjörir hálfvitar, þannig að ég trúi þessu varla. Þegar að Roman rak Mourinho þá hafði hann allavegana átt klúbbinn í nokkur ár og vissi eitthvað um fótbolta. Ef að G&H myndu reka Rafa eftir að hafa átt klúbbinn í örstuttan tíma og á meðan Rafa er enn gríðarlega vinsæll meðal aðdáenda – og það útaf einhverri barnalegri deilu – þá eru þeir algjörir fávitar.
Sem betur fer er umræðan á þessari ,,þroskuð ” í heildina og lítið um fullkomið bull eins og er því miður reyndin á annarri síðu Liverpoolaðdáenda hér á landi.
Nei Kristján nú er ég hissa. Þú greinilega last ekkert það sem ég sagði eða tekur bara það sem þér hentar og notar gegn mér…sem ég skil ekki alveg ástæðuna fyrir. Hélt að þú værir meiri maður og betri penni en þetta…og veit að þú ert það. Ég var sammála um að pistillinn hafi heilt yfir verið mjög góður og að ég hafi verið sammála honum af mestu en ekki einum hlut. Óþarfi að missa legvatnið þó þú sért aðeins gagnrýndur. Hugsanlega misskyldi ég þetta hjá þér, en þetta er þó alls ekki í fyrsta skipti sem mér finnst þú vera setja “pollyönnuliðið” á hærri hest en aðra. Ég er búinn að útskýra muninn á hópum og dilkum. Það er flestum held ég nokk sama þó þeir séu settir í ákveðinn hóp, en þegar þeir eru svo dregnir í dilk sem er merktur vælukjói, lélegur stuðningsmaður eða eitthvað álíka, þá fer það í taugarnar á fólki. Eins og ég sagði, hugsanlega misskyldi ég þetta eitthvað aðeins, en þetta var þó sú tilfinning sem ég fékk við að lesa þetta hjá þér, og ekki í fyrsta skiptið.
Lestu það sem ég skrifaði yfir aftur, helst tvisvar, þá sérðu hvað svarið þitt var kjánalegt.
Ekkert illa meint Kristján minn, en nú ert þú bara að hoppa upp á nef þér að ástæðulausu.
Frábær pistill!
Ég vil meina það að öll þessi umræða um þessar deilur sé bara sirkhús sem settur var upp í kjölfar tap enskra um daginn,draga athygglina frá fyrirliðanum.Svo núna kemur Liverpool maðurinn Chris Bascombe og kemur með frétt um að reka eigi Rafa,allt mjög svo undarlegt og kemur á mjög svo krítískum tíma þar sem gagnrýnin á Steve G á að vera sem mest í fjölmiðlum og þá allt í einu sprettur upp svona saga??kaupi þetta ekki….Vil allavega trúa því að þetta sé bara leikrit sem er vísvitandi sett upp þangað til annað kemur í ljós
Svolítið magnað með þessa frétt hjá Chris Bascombe. Í fyrsta lagi vil ég og trúi að Rafa verði áfram. En mér finnst samt áhugavert að sjá hvort Bascombe sé kominn í bullið eftir að hafa fært sig um set eða hvort hann sé ennþá nafn sem hlustandi er á. Það er deginum ljósara að það hefur eitthvað komið uppá milli hans og Rafa því fljótlega eftir að Rafa kom missti Bascombe allt inside info. Hvort sem það var deila eða bara Rafa bannaði hann á æfingasvæðinu strax í upphafi. Allavega, spennandi að sjá hvort Chris Bascome sé penni sem vert er að gefa gaum áfram eða hvort hann sé kominn í ruglið með hinum á NOTW.
Kristján: Algjörlega frábær og þarfur pistill hjá þér. Sjálfur var ég í jólagleði vinnunnar í gærkvöldi og hef ekki verið manna aktívastur framan af degi. En þetta er bara snilldarpistill. Algjörlega sammála.
Persónulega þá trúi ég ekki að Rafa sé í hættu … hann á eftir að vinna deildina með liðið, og gerir það!
Benni: Kristján gefur það aldrei í skyn að sumir stuðningsmenn séu betri en aðrir í þessum pistli sínum. Samt svarar þú með þessum orðum:
Og Kristján svarar tilbaka að hann hafi “ALDREI sagst vera betri en aðrir”. Það er ekkert kjánalegt við það svar.
Ég neita að trúa því að menn ætli útí þessa “ég er betri aðdáandi en þú” umræðu aftur. Það að gagnrýna hegðun annara aðdáanda er ekki það sama og að gera lítið úr þeim sem aðdáendur. Ég get gagnrýnt manninn sem mætir í Kop stúkuna í hvern leik og á hvern einasta útileik ef hann segir að Ryan Babel kunni ekki að spila fótbolta. Með því er ég ekki að segja að ég sé meiri eða minni stuðningsmaður en hann, ég er bara að gagnrýna skoðanir hans eða hegðan.
Og svo færði ég umræðuna um Rafa og NOTW greinina yfir í nýja færslu – ef þið viljið ræða þá frétt, gerið það þá vinsamlegast við þá færslu.
Ég get alveg tekið undir það að umfjöllun um Liverpool liðið hafi oft verið undarleg í fjölmiðlum en ég get þó ekki sagt að mér finnist þetta halla svo mikið á okkur, eins og KAR vill meina. Við spiluðum t.a.m einhverja 10 leiki í röð þar sem allir leikmenn virtust með allt niður um sig. Algert andleysi og lánleysi fyrir framan markið. Arsenal hafa verið mjög sannfærandi í spilamennsku sinni þar til í gær og því finnst mér ekkert skrítið að fjölmiðlar hafi horft á þann leik öðrum augum en okkar leik gegn Fulham um daginn.
Mér finnst reyndar enn nokkuð ótrúlegt að við séum ekki lengra á eftir ef tekið er mið af leik liðsins síðustu tvo mánuðina eða svo. Ég er mjög ánægður að sjá að við erum enn taplausir en ég get þó ekki horft til baka á þessa mánuði og sagt að ég hafi verið ánægður með liðið, reyndar langt því frá.
En það var eitthvað nýtt uppá teningnum gegn Newcastle í gær og maður sá það frá fyrstu mínútu að strákarnir voru ákveðnir að láta til sín taka. Frábært mál og vonandi er þetta upphafið að einhverju hjá liðinu okkar. Ég vill sjá þessa baráttu hjá þeim í hverjum leik.
magnaður pistill hjá þér kristján og hann kemur á hárréttum tíma. það er ótrúleg umfjöllun sem lfc hefur fengið síðustu vikur. svo er maður nú löngu búinn að sætta sig við “fjölmiðla-verndinda” sem ferguson fær, algjörlega óþolandi. liðið tapar fyrir bolton um helgina og það er eins og það sé eðlilegt.
en liverpool er á flottu skriði þessa dagana og eru að sýna gæðaknattspyrnu, ég get varla beðið eftir að sjá agger og alonso aftur í liðinu. þegar liverpool hefur fullskipað lið þá er ekki EITT EINASTA lið sem ÉG get séð að sé sterkara en við og geti sigrað okkur sannfærandi.
en það er alveg ljóst að til að berjast um titilinn þá er vor-seasonið miklu miklu miklu mikilvægara heldur en haust-seasonið. ég býð enn spenntur, þetta er svo langt frá því að vera búið! þó við virðumst hafa fjölmiðla á móti okkur og að það hafi vissulega áhrif á liðið þá er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn á framhaldið. svo er líka til eitt gott ráð við þessu, “sleppa því að lesa þessi helvítis blöð”…..
Sem starfandi flugumferðarstjóri þá get ég sagt með nokkuri vissu að ef vél hrapar um nokkur hundruð metra í lofttæmi þá er það frekar slæmt fyrir þann aðskilnað sem við þurfum að hafa milli flugvéla á flugi.
Annars mjög góður pistill.
Bara svona til að taka allan vafa um hverjir eru góðir stuðningsmenn og hverjir eru lélegir stuðningsmenn……….þá er ég besti og heitasti stufningsmaður Liverpool FC:)
Slakiði á strákar og stelpa.
YNWA
Jóninn, þetta er nú bara bölvuð smámunasemi í þér!!! 😉
Neinei, ég tek það á mig að ég veit ekkert um flugferli flugvéla í millilandaflugi. Ekki beint mín sérgrein. En það er gaman að sjá að jafnvel flugumferðarstjórar lesa síðuna. 🙂
Tilvitnun. Vangavelta #17
“……en ég má hafa þessa skoðun á hegðun þeirra.”
Auðvitað Kristján Atli! Hvergi sagði ég að þú mættir ekki hafa skoðun. Hvergi. Og ég vona að þér finnist allt í lagi að ég sé annarri skoðun.
Ég held þú vitir líka að ég ber ómælda virðingu fyrir þér sem Liverpool penna og ég hef margoft lagt þig og Paul Tomkins að jöfnu fyrir mína parta…. 🙂
Ég stend við fyrri ummæli mín í Vangaveltu #6 Mér finnst það vera á hálum ís að deila á áhangendur fyrir að vaða aðeins inn á ritvöllinn þegar illa gengur. Sumir eru bara svona. Finna sig minna knúna að skrifa þegar vel gengur. Það er bara minn punktur. En… ó guð minn góður..auðvitað virði ég þinn rétt 100% til að gagnrýna áhangendur fyrir þetta atriði. En ég má hafa skoðun á því…. ekki satt?
Tilvitnun Vangavelta #32
“……Hins vegar, þótt ég telji mig ekki vera neitt betri, áskil ég mér rétt á minni vefsíðu til að gagnrýna ákveðinn hóp aðdáenda sem kemur reglulega hingað inn.”
Já… svo sannarlega er þetta þín vefsíða Kristján Atli. Efast um að nokkur dragi það í efa. Liverpool-bloggið er sértækur og gagnvirkur fjölmiðill.
En það er vert að hafa það í huga Liverpool-bloggið væri lítið án þeirra sem lesa það og taka þátt í umræðum.
YNWA
hehehehhe #47 “Bara svona til að taka allan vafa um hverjir eru góðir stuðningsmenn og hverjir eru lélegir stuðningsmenn……….þá er ég besti og heitasti stufningsmaður Liverpool FC:)”
Þú ert svo sannarlega heitasti STUFNINGSMAÐUR Liverpool FC hohohohohoh
og er ég þá bestur á eftir þér heheheheheh
AVANTI Liverpooooooooooooooooool
“It’s not the destination… it’s the ride”
… eða hvað?
Vá hættið þessu besti stuðningsmaður versti stuðningsmaður sandkassa væli, það er önnur Liverpool síða hér á landi sem sérhæfir sig í svona sandkassaleikjum.
En þetta er flottur pistill hjá þér Paul Kristján Tomkins og tekur saman í einn góðan pistil skoðun ansi margra poolara bæði hér á landi og erlendis. Umfjöllun fjölmiðla, bæði bresku pressunnar og t.d. þeirra á sýn hefur í besta falli verið á löngum köflum ansi skrítin og trekk í trekk hefur verið stungið upp í þá með rökum….en það er bara hunsað og haldið áframað röfla.
Dæmi um það sem ég er að meina er ENDALAUST röfl fjölmiðla um rotation skiptikerfið sem aðeins Rafa virðsit nota (þó sýnt hafi verið fram á annað) og eins hvað zonal – marking kerfið var rosalega “lélegt” þrátt fyrir að við höfum ekki fengið á okkur mark úr föstu leikatriði í um sjö mánuði. Um leið og við fáum mark á okkur næst úr föstu leikatriði mæli ég með því að sá “sérfræðingur” sem fer að úthrópa zonal marking verði “krossfestur”.
Það er oft þannig að þegar neikvæð umræða er kominn á stað þá virðist vera ansi erfitt að snúa henni við og það er nánast sama hvað er gert. Það getur oft tekið ansi mikið á að hlusta á “sérfræðinga” þvaðra um Liverpool, oft án þess að hafa horft sérlega mikið á liðið.
Það að það sé MIKIÐ meira líf hérna þegar illa gengur er að mínu mati frekar sorglegt heldur en eðlilegt. Ég væri t.d. mikið til í að heyra jafn mikið núna talað um það hvað zonal marking kerfið hans Rafa er gott eins og það var sagt vera slæmt þegar hann var að innleiða það. Eins væri ég til að heyra mikið meira af því hvað vörnin er góð hjá liðinu heldur en heimskulegt röfl um það hvað Hyypia er lélegur. Liðið hefur fengið á sig sex mörk í deildinni og það með vara miðvörð, sem sama hvað hver segir, er bara tussu góður og hefur reynst okkur svo sannarlega betur en enginn það sem af er ári.
En þrátt fyrir allt þetta neikvæða röfl og þessa “miklu” lægð sem Liverpool lenti í þá erum við ennþá í hreint ágætis málum og atburðir síðustu daga virðast vera að sýna að þrátt fyrir allt þá njóti Benitez ennþá trausts poolara og gríðarlegra vinsælda. Við viljum ekki missa hann, lang flest okkar allavega.
Rafa er svona pirrandi týpa sem er líklega langt í frá skemmtilegasti maðurinn í heiminum, en á móti þá held ég að hann sé líka týpa sem þegar allt er komið til alls hafi alveg afskaplega sjaldan mjög rangt fyrir sér. Til dæmis eru þessui dæmi sem ég tók fram áðan um zonal marking og rotation ágæt, því bæði virðast virka vel þegar búið er að innleiða þau og hann gerði einmitt það, innleiddi þessar nýjungar. Ekki það léttasta í íhaldsömu lendi eins og Englandi, þ.e. að innleiða miklar breytingar.
Ég er ekki að segja að það sé allt í blóma né að Rafa sé óskeikull, ég er hinsvegar á því að Rafa sé svo sannarlega á réttri leið með liðið og oftast tiltölulega fljótur að leiðrétta/viðurkenna mistök.
vá frábær póstur hja þér 😉 mikið til í þessu sem þú talar um, langt síðan ég hef lesið svona góðan pistill um liverpool 😉
Það fer mjög í taugarnar á mér þegar menn eru óbeint að drulla yfir Liverpool.is og kalla hana vettvang fyrir sandkassaleiki. Þetta er opinber heimasíða Liverpoolklúbbsins á Íslandi og það er mikil vinna sem fer í að halda henni uppi. Það er mikill fróðleikur þar inni og líflegt spjallborð. Gæðin á spjallinu fara auðvitað eftir því hverjir þar skrifa. Þeir menn sem halda þeirri síðu uppi vinna mikið og gott starf(þó auðvitað sé alltaf hægt að gera betur) og ber ég persónulega mikla virðingu fyrir þeim mönnum og kann þeim bestu þakkir.
Mér finnst þessi síða mjög góð og pennarnir sem hér skrifa heilt yfir mjög góðir. En að drulla yfir opinbera heimasíðu klúbbsins finnst mér lélegt, mjög lélegt.
Liverpool.is er fín síða en spjallið þar hefur bara alls ekki verið spennandi þar í dágóðan tíma, alls ekki. Enda fer hver færslan á fætur annari í einhvern barnalegan sandkassaleik og oftar en ekki um sömu hlutina. Líklega of mikið af börnum þarna inni fyrir minn smekk.
Það finnst mér verða aðalmunurinn á þessari síðu og Liverpool.is. Líklega á þessi vettvangur bara betur við mig heldur en Liverpool.is.
En ekki taka það þannig að mér finnist allt slæmt við Liverpool.is, ég tek nú sjálfur alveg þátt í spjallinu þar og t.d. eru upphitanir þeirra fyrir leiki allajafna mjög góðar. Eins detta stundum þar inn góðar og vel skrifaðar upphafsfærslur sem í kringum skapast mjög misjafnlega gáfulegt spjall. Reyndar er nokkuð góður metnaður settur í að upphafsfærslurnar séu vandaðar þarna inni.