Marseille 0 – Liverpool 4!

Bjuggust menn við einhverju öðru? Ég bara spyr.

Fyrir tveimur mánuðum kom þetta Marseille-lið á Anfield og lék gegn okkar mönnum í Meistaradeildinni. Í þeim leik gekk bókstaflega allt upp fyrir Frakkana, á meðan Liverpool-liðið lék sinn lélegasta leik undir stjórn Rafa Benítez. Samt var bara eitt sem skildi liðin af eftir þann leik, óverjandi langskot Valbuena sem kom upp úr engu var það sem þurfti til að þeir gætu unnið Liverpool FC á sínum besta degi, og okkar lélegasta degi.

Þess vegna ætti það ekki að koma neinum á óvart að í kvöld, með bæði lið að leika af „eðlilegri getu“, hreinlega pökkuðu okkar menn franska liðinu saman og lokaniðurstaðan var **4-0 útisigur** í leik sem hafði fyrirfram verið kallaður brjálaður úrslitaleikur, en var í raun þegar á daginn kom ekkert annað en taktísk aukaæfing fyrir Rafa og lærisveina hans.

Benítez stillti þessu liði upp í kvöld:

Reina

Arbeloa – Carragher – Hyypiä – Riise

Benayoun – Gerrard – Mascherano – Kewell

Torres – Kuyt

**BEKKUR:** Itandje, Hobbs, Finnan, Aurelio, Lucas, Babel, Crouch.

Leikurinn var vart byrjaður þegar Kuyt átti glæsilega, háa sendingu innfyrir vörn Marseille þar sem Gerrard kom aðvífandi, náði þeim köldum og var einn á auðum sjó. Einhver varnarmaður þeirra náði að hlaupa Gerrard uppi og skutla sér á hann inní teig og dómari leiksins, Terje Hauge frá Noregi, gat ekkert annað en dæmt vítaspyrnu. Reyndar gat slakur dómari kvöldsins ekki sleppt því að senda Marseille-varnarmanninn útaf með beint rautt fyrir að vera síðasti maður, en hann gerði það nú samt.

Allavega, **Gerrard** tók vítaspyrnuna sjálfur en markvörður Marseille varði slaka spyrnu frá honum. Gerrard fékk boltann þó strax aftur og skoraði örugglega úr frákastinu og staðan orðin 1-0 fyrir Liverpool.

Rétt fimm mínútum síðar kom glæsilegasta mark kvöldsins. Torres tók glæsilega við háum bolta á vallarhelmingi Marseille og sendi hann á Kewell í fyrstu snertingu. Kewell lék honum inn að teig Frakkanna en í stað þess að leika á andstæðing sinn, eins og flestir bjuggust við, gaf hann hárfínan bolta inná Torres sem kom á fluginu inná teiginn. Sá spænski, sem er sennilega besti framherji í heiminum *í dag* miðað við núverandi form, spratt framhjá einum með boltann og lék svo glæsilega á annan, inn að markteig þar sem hann lagði boltann auðveldlega í fjærhornið framhjá varnarlausum markverði Frakkanna. Staðan orðin 2-0 eftir tíu mínútur og Frakkarnir hreinlega strax búnir að tapa fyrir klassísku „sucker punch“-i okkar manna.

Um gang leiksins þarf í raun ekkert að fjölyrða. Rafa stillti þessu hárrétt upp og vann enn einn taktíska stórsigurinn í Evrópukeppni í dag. Okkar menn stjórnuðu leiknum, drógu sig aðeins aftar eftir annað markið og létu sér nægja að halda Marseille í hæfilegri fjarlægð frá eigin teig. Marseille-menn blésu og blésu en steinhúsið stóð sem fastast á sínu, og það segir sitt að þeirra hættulegasta færi kom þegar Hyypiä skallaði háan bolta lengst utan af kanti í öxlina á Carragher og þaðan rétt framhjá marki Liverpool, um miðjan seinni hálfleik. Fleiri voru færi Marseille í kvöld varla.

Í upphafi seinni hálfleiks gerðu okkar menn út um leikinn. Markvörður Marseille hreinsaði stungubolta frá marki sínu en hreinsunin var slök og endaði beint hjá Harry Kewell úti á vinstri kanti. Sá ástralski sendi boltann strax aftur inná teiginn þar sem hann flaug framhjá Torres og sofandi varnarmönnum Marseille og endaði í fanginu á **Kuyt**, sem þakkaði fyrir sig og skoraði örugglega úr opnu færi inná miðjum teig. Staðan orðin 3-0 eftir 47 mínútur og restin af leiknum orðin nánast tilgangslaus.

Eftir þetta létu okkar menn tímann bara líða í rólegheitunum, þetta minnti að vissu leyti á útisigurinn gegn PSV í 8-liða úrslitum keppninnar á síðasta tímabili, nema hvað í þetta sinn fengum við rúsínu í pylsuendanum. Rafa hvíldi menn þegar leið á leikinn og tók þá Torres, Kewell og loks Kuyt útaf fyrir Babel, Aurelio og Lucas og þegar komið var eina mínútu fram yfir venjulegan leiktíma átti Aurelio stórgóða stungusendingu frá vinstri vængnum innfyrir þar sem **Babel** náði fyrstur til boltans, lék honum sniðuglega framhjá markverði Marseille og renndi honum svo í autt markið. Lokatölur **4-0 fyrir Liverpool** og annað sætið í A-riðli Meistaradeildarinnar staðreynd!

**MAÐUR LEIKSINS:** Það eru margir til kallaðir sem maður leiksins í þetta sinn. Í fyrsta lagi þá kenndi Rafa Benítez Eric Gerets, belgískum þjálfara Marseille, taktíska lexíu í kvöld en auk þess að vera með taktíkina á hreinu nutu okkar menn þess að vera með yfirburðamenn í hverri einustu stöðu á vellinum. Í fullri alvöru, þá var gæðamunur liðanna í kvöld svo mikill að maður hálf trúir því varla hvernig heimaleikurinn gegn þessu liði gat tapast, en það er alveg klárt í mínum huga að þau úrslit kostuðu okkur sigur í þessum riðli.

Á köntunum voru Benayoun, Arbeloa og Riise mjög góðir en Harry Kewell var alveg frábær og lagði upp tvö mörk. Á miðjunni var Mascherano algjörlega einvaldur og gerði Gerrard lífið mjög auðvelt með því að vinna allt sem datt niður í kringum hann. Gerrard sjálfur er bara klassi og sá sem sagði í einhverri blaðagrein sem ég las nýlega að hann og Torres væru eins og Dalglish og Rush 21. aldarinnar hafði talsvert til síns máls. Vörnin steig ekki feilspor í kvöld, né Reina, á meðan Torres hélt í kvöld áfram að sanna að það er vart til betri framherji í heiminum í dag, miðað við spilamennsku.

Ég ætla hins vegar að velja **Dirk Kuyt** sem mann leiksins í kvöld. Sá hollenski hefur átt ansi misjafna daga í Liverpool-liðinu það sem af er tímabilinu en í kvöld minnti hann okkur á það hvernig hann getur spilað og hvernig við ætlumst til að hinn svokallaði „afturliggjandi framherji“ (second striker á ensku) á að spila. Vinnslan í þeim hollenska var alveg mögnuð og það var fyrst og fremst pressan frá honum út um allan völl og mjög góðar sendingar í allar áttir sem gerðu það að verkum að Kewell, Benayoun, Gerrard og sérstaklega Torres fengu boltann iðulega í góðu plássi. Kuyt átti stoðsendinguna á Gerrard í fyrsta markinu og skoraði svo þriðja markið sjálfur, sérlega góður leikur hjá honum og hann stóð að mínu mati uppúr í annars stórgóðu liði Liverpool í kvöld.

**HVAÐ ER NÆST?** Það er ekki laust við að maður sé hálf vantrúaður á þá staðreynd að það er virkilega hægt að hugsa um Meistaradeildina í vor með tilhlökkun. Alveg síðan við horfðum á liðið tapa gegn Marseille og Besiktas, og koma sér í stórkostlega vond mál í þessum riðli, hefur maður blótað því í hljóði að þurfa líklega að forðast að horfa á Meistaradeildina eftir áramót en eftir að liðinu tókst með stæl að vinna síðustu þrjá leikina örugglega og tryggja sér annað sætið í riðlinum getum við spáð aðeins í framhaldinu.

Staðan er þessi: Liverpool endaði í öðru sæti á eftir Porto og fer því í seinni pottinn fyrir dráttinn í 16-liða úrslit á föstudag. Eins og reglurnar gefa til kynna getur Liverpool ekki mætt liðinu úr sínum riðli (Porto) né liðum frá eigin landi í 16-liða úrslitunum. Eins og staðan er í dag eru þessi átta lið á leið í fyrri pottinn fyrir dráttinn:

Porto, Chelsea, Real Madrid, AC Milan, Barcelona, Man Utd, Internazionale og Sevilla.

Fjögur fyrstu liðin tryggðu sér sigur í sínum riðlum í kvöld og í síðustu viku en í þeim fjórum riðlum sem klárast á morgun er bara Sevilla-liðið enn í einhverri baráttu um sigur í sínum riðli, hafa tveggja stiga forskot á Arsenal fyrir lokaumferðina.

Við getum því mætt eftirfarandi liðum: Real Madrid, AC Milan, Barcelona, Internazionale og Sevilla, að því gefnu að þeir klári sinn riðil.

Það er alveg ljóst, hvernig sem drátturinn í 16-liða úrslit fer, að við eigum rosalega rimmu fyrir höndum. En það er bara gaman, við viljum vera á meðal þeirra bestu og það hafðist í kvöld. Ég segi, við óttumst ekkert lið – BRING THEM ON! 🙂

92 Comments

  1. Þetta var frábærlega gert!

    Maður leiksins? Kewell? Lagði upp tvö …. og mikið er gaman að sjá (kant) mann sem þorir að fara á menn, og tekst það yfirleitt.

    Allt liðið að spila glimrandi vel og djöfull eru Torres og Babel magnaðir leikmenn 🙂

    Þetta gefur tóninn fyrir sunnudaginn!

  2. Marseille – Liverpool 0-4
    0-1 Steven Gerrard 4
    0-2 Fernando Torres 11
    0-3 Dirk Kuyt 48
    0-4 Ryan Babel 91
    mín spá var 1-5
    75 Ummæli við “Marseille á morgun”
    1. þann 10.12.2007 kl. 19:361Sævar Sig
    Marseille 1 / Liverpool 5
    Cisse-1
    ……………
    Arbeloa -1
    Yossi -1
    Gerrard -1
    Torres -1
    Babel-1
    ……………………………
    Ræða þetta eitthvað frekar Nei held ekki!
    ……………………………………………………………………………………………….
    Jæja ekki svo langt frá

  3. Já, þetta var frábært. Markið frá Torres var ótrúleg snilld og þetta var aldrei í hættu.

    Annaðhvort eru varnarmenn Marseille hrikalega hægir eða Ryan Babel er alveg fáránlega fljótur.

    Ég vil fá Milan í 16 liða úrslitum. Við unnum Evrópumeistarana í 16 liða úrslitum í fyrra og getum alveg gert það núna, plús það að Liverpool liðið hefur bætt sig (við spiluðum með Pennant, Zenden og engan Torres í leiknum í fyrra) en Milan hefur varla bætt sig að neinu ráði.

    Ég vil bara sleppa við Barcelona og Inter.

    En mikið afskaplega var það gaman að okkar menn kláruðu þetta og nú þarf maður ekki að kvíða miðvikudagskvöldum eftir áramót. 🙂

  4. Jæja, flott. Hvernig gátum við tapað á móti þessum köllum á Anfield?

    Eina sem mér fannst vanta var “overlap” frá bakvörðum, þá hefði þetta farið í tveggja stafa tölu 🙂

    Kewell flottur, Hyypia kóngur og svo mætti lengi telja. Óþarfi að tala um Stevie og Torres. Mikið rosalega hlakkar mér til að fá Agger og Alonso líka, þá verðum við óárennilegir strákar mínir!

    Sevilla, Real Madrid, Inter, AC Milan eða Barcelona. Hvað viljiði? Við fáum Barca, þið lásuð það hér fyrst.

    En jæja, reka Meistara Benítez? 😉

  5. Veit einhver af hverju það voru ekki auglýsingar á búningunum í kvöld?

  6. Flottur og öruggur sigur … algjör klassamunur á þessum liðum. Ég sagði það í leikskýrslu eftir tapið gegn Besiktas, að miðað við spilamennsku liðanna í riðlinum fram að því, þá færu þar tvö slakari liðin, meðan Marseille og Porto voru í góðum málum. En það er ljúft að sjá síðari umferð (síðari þrjá leikina) vinnast með markatölunni 16:1 – og bera saman liðið núna og þá. Torres er besti framherjinn í dag, Gerrard er kóngurinn … svo er það bara litla liðið frá Manchester næst! 🙂

    Menn leiksins hjá mér eru Torres og Kewell.

  7. Góður leikur í kvöld og sigurinn aldrei í hættu, helst að maður hafi verið pínu stressaður í lok fyrri hálfleiks að marseille næði kanski að lauma inn einhverju grísamarki og gera seinni hálfleikinn óþarflega spennandi. Kewell og Kuyt kláruðu svo leikinn í upphafi seinni hálfleiks og maður gat einfaldlega notið þess að vera liverpool aðdáandi án nokkurs votts af stressi það sem eftir lifði leiksins.

    Satt best að segja óttast ég ekkert lið í 16. liða úrslitunum, þó svo að við þurfum að mæta einhverju liði sem vann riðilinn sinn. Draumamótherjinn er annað milan liðanna, hefndin er alltaf sæt og því væri gaman að mæta AC Milan auk þess sem árangur Inter í meistaradeildinni undanfarin ár er arfaslakur og ég einhvern veginn óttast þá nákvæmlega ekki neitt. Sevilla væri svo sennilega skárst af spænsku liðunum en eitthvað innst inni segir mér að Barca verði mótherjinn sem er að mínu mati versti mögulegi andstæðingur.

  8. Ingi: Það er bannað að auglýsa áfengi í Frakklandi.

    Kristján Atli: Það að vera síðasta maður og brjóta af sér er ekki eitt og sér rautt spjald, Givet átti að fá gult þar sem Gerrard var ekki að stefna afgerandi á markið, en Terja Hauge sleppti/gleymdi því.

  9. Aldrei hætta á ferðum, gaman að sjá hvernig allt liðið gaf sig 100% í þennan leik.

    Maður leiksins var að mínu mati Harry Kewel

  10. Nokkur sögulegt í kvöld í góðum leik. Gerrard er búinn að skora meira en Owen í evrópuleikjum eða 22 stk. Fyrsti sigur ensks liðs í Frakklandi staðreynd og fyrsta skiptið sem lið sem er með aðeins eitt stig eftir 3 leiki fer áfram úr riðlakeppninni….bara snilld eins og allt í kvöld. Gaman að mæta Barca eða AC Milan í útslætti.

  11. Gaman að sjá líka að hvorki Leifur Garðarson né Tómas Ingi Tómasson voru í stúdíóinu á sýn, heldur einhverjir sem vissu hvað þeir voru að segja. Talandi um turn-around markatalan 16-1 í síðustu þremur meistaradeildarleikjum. Síðan er það bara Manchester á sunnudaginn, sama uppstilling? Er þetta ekki besta uppstillingin úr þeim leikmönnum sem við höfum úr að moða?

  12. EINAR, NEI RAFA FÆR EKKI HRÓS FYRIR EITT NÉ NEITT Í READING, eða varstu kannski að grínast?

  13. Frábær sigur. Mikið sjálfstraust og sigurinn öruggur frá byrjun. Lið með Torres innanborðs er alltaf líklegt til að skora, það er bara þannig. Frábært mark hjá honum. Nú er bara að spýta í lófanana og klára þetta man u lið á sunnudaginn. Nú er lag. Liverpool klárar þetta 3-1 á sunnudaginn og þetta verða bjútífúl jól.

  14. Þetta var þægilegt. Ég vil sjá Liverpool spila við bestu liðin hverju sinni í Meistaradeildinni og vil þess vegna sjá Liverpool gegn Real Madrid í 16 liða úrslitum.

  15. hum ætli við hefðum getað auglýst rauðvín í kvöld??
    viðkvæmir þessir frakkar, af öllum þjóðum
    þeir voru nú ekkert að að spara kveikjarana þarna í byrjun.

  16. Minni fólk á að dregið verður í 16-liða úrslitin föstudaginn 21. desember kl. 11:00.
    Beint á uefa.com.
    Og flottur sigur, hamingju púllarar 🙂

  17. Þetta var snilld! Kewell var maður leiksins að mínu mati. Frábært að sjá að það sé ennþá líf í kappanum! Nú er bara að telja niður dagana til sunnudags 🙂

  18. Svona vil ég sjá liðið framvegis eins og það var í kvöld. Og því eru þulir og aðrir spekingar að tala um að það ætti að gefa eða selja ódýrt þá HYYPIA og RIISE, mér fanst þeir standa sig fanta vel eins og allt Liverpool liðið.Strákar þeir hjá 365 ættu að vanda betur orð sín ,þeir tala eins og smábörn,og eru verra en sólheima fólkið, sem væri eflaust betra að lýsa þessum leikjum

  19. Einar ég ætla ekki að hrósa Rafa fyrir að taka Gerrard og Torres útaf í leiknum gegn Reading, mér fannst það og finnst rangt.
    En ég ætla hrósa honum fyrir það hvernig hann laggði upp leikinn í dag, þétta vörn, Mascherano vann gríðarlega góða vinnu, sjá hann mínútu eftir að Hyypia tæklaði hann á sprettinum út um allan völl, þvílikur leikmaður, Kuyt duglegur og hjálpaði miðjumönnunum mikið sem var mikilvægt, og svo hraðar skyndisóknir með Torres eldfljótann og sprækann frammi. Marseille átti ekki séns og Eric Gerets átti engin svör.

    Rafa hefur greinilega unnið sína heimavinnu og gerði vel eins og næstum alltaf.

  20. Anton Tómasson þú mátt ekki gleyma að Liverpool vann Tolouse 1-0 í Frakklandi eftir þrumufleyg frá Voronin.
    En annars geggjaður sigur í kvöld þetta var snilld!!!!!

  21. Hmmm… Ég var svartsýnn fyrir leik og spáði Liverpool tapi – ég biðst auðmjúklega afsökunar, þetta kemur ekki fyrir aftur – ég veit ekki hvað kom yfir mig.
    Annars virðist sem svo að Liverpool sé ekki nógu lélegt til að vera ekki meðal þeirra bestu í Evrópu.

  22. Ætlaði að segja = fyrsti sigur á þessum velli hjá ensku liði og hann aldrei í hættu!

  23. Anton fannst þér þeir í studionu alltaf vita hvað þeir voru að segja .Ég var ekki ánægur með þá og ekki þeir sem voru á þessum pöbb sem ég var á. En Liverpool er og eru líklegir að vinna tvöfallt ef ekki eitthvað meira

  24. Já frábær spilamennska í kvöld. Það eru nokkur atriði sem mig langar að impra á í sambandi við leik kvöldsins.

    1) Allir leikmenn liverpool, og þá meina ég allir, hjálpuðu hvor öðrum, menn voru út um allan völl og coveruðu fyrir félaga sína sem var frábært að sjá. Ég var aldrei í vafa með þennan leik því ég sá frá fyrstu mínútu að menn ætluðu virkilega að selja sig dýrt.

    2) Steven Gerrard er í fáránlegu formi og sá er að eiga hvern toppleikinn á fætur öðrum. Ég trúði því varla þegar ég sá þá staðreynd að hann hefur skorað í síðustu 7 leikjum fyrir okkur. Og það er ekki eins og hann hafi ekkert átt í þessu marki og bara skorað af stuttu færi eftir vítið, heldur fiskaði hann vítið sjálfur. Frábær tíðindi að sjá hann leik eftir leik skora og brillera.

    3) Fernando Torres hefur ekkert fyrir þessu! Hann labbar í gegnum menn! Þvílíkur hraði, tækni og hann hefur allt, fyrir mér er hann besti strikerinn í boltanum í dag. Það er mjög auðvelt að rökstyðja það, horfið á leiki hans með Liverpool 🙂

    4) Harry Kewell var að mínu mati maður leiksins gegn Reading og svei mér þá ef hann var ekki aftur maður leiksins í kvöld. Það er yndislegt að sjá hann aftur og hann sýnir getu sína og styrk með því að vera svona oft í byrjunarliðinu í síðustu leikjum, ég er rosalega ánægður með hann.

    5) Babel kann alveg að hlaupa hratt….Og svo Dirk Kuyt, hann kom mér á óvart í kvöld því hann spilaði skruggu vel kallinn. Hann hefur ekki verið að spila mikið undanfarið og ég bjóst ekki við miklu af honum í kvöld, en hann setti eitt og barðist eins og ljón að venju.

    frábært að vera komnir áfram því þá verða þetta ekki fýlujól. ég vill fá real madrid í 16 liða úrslit og taka þessar barbie dúkkur í *********….

  25. Olli 5) með Babel, spáðu í það hversu “mikið sneggri” hann væri ef hann myndi nýta hraðann og tímasetja hlaupin?

    Annars þá hlakkar manni agalega til United á sunnudag, óbreytt lið nema Riise út, Finnan inn og Arbeloa fer úr vinstri í hægri er eina sem ég sé fyrir mér breytast. Agger og Alonso eiga að vera klárir þá en langt því frá match-fit.

    Ánægður með kónginn, Gerrard, loksins er hann kominn aftur. Vinnslan, krafturinn og tæklingarnar horna á milli og gleðin skín af gamla.

    Ánægjulegt að sjá þetta svo: ..“I’m really proud to manage this Liverpool team,”
    Benitez reveals Liverpool pride

  26. Eitt orð… Stórkostlegt.

    Marseille menn mættu með kolvitlausa dagskipun í leikinn. Voru í því að reyna að pirra okkar menn með lymskulegum olnbogaskotum. Veit einhver hvað gerðist þegar Gerrard lá á vellinum eftir byrjunarflautið? Ég gat ekki betur séð að hann hafi fengið högg í andlitið. En frönsku sjónvarpsmennirnir voru ekkert að endursýna það.

    Sem betur fer svöruðu okkar menn á þann eina hátt sem hægt er að svara svona ruddaskap. Skora mörk. Torres fékk að finna ótæpilega fyrir því en mikið djöfull er ég hrifinn af “El Nino”. Hann stendur alltaf upp og rúllar varnarmönnum upp svo þeir vita hvorki hvað snýr upp né niður. Málið er að hann býr ekki bara yfir ótrúlegum hraða og tækni heldur er hann sterkur og skýlir bolta vel. Eina sem ég get sett út á strákinn er að mér finnst hann verða stundum eilítið kærulaus upp við mark andstæðingana. En það rjátlast af honum.

    Varnarleikurinn var listaverk í kvöld. Listaverk. Marseille áttu ekki möguleika.

    Maður leiksins…..
    Það átti enginn slappan dag í dag. Í dag spiluðum við sem lið í vörn og sókn. Erfitt að taka einhvern einn út úr. En ég ætla að velja Harry Kewell. Hann var alltaf ógnandi og nær undantekningalaust er hann að búa eitthvað til þegar hann er með boltann í sókn. Þvílík ógnun af honum. Kuyt kemur vel til greina líka. En mér finnst bara svo frábært að við skulum vera að fá Kewell til baka. Hann styrkir liðið alveg ótrúlega mikið.

    Koma svo Liverpool….. Eitthvað lið sem ég man ekki heitið á kemur í heimsókn um helgina og Rauði herinn mun rúlla yfir það á eldrauðum skónum!!! 🙂

    YNWA

  27. það besta við kvöldið var að sjá kewell ná sér á strik!! frábær leikmaður þar á ferð…vona bara að hann haldi sér heilum út tímabilið!

  28. Já gleymdi… lítill fugl hvíslaði því að mér að við munum mæta Real Madrid í 16 liða úrslitum… 🙂

  29. Frábær leikur…einn af þeim skemmtilegri… En ég skil ekki val á manni leiksins!!!! Harry Kewell var fínn, en guð minn góður voru menn ekki að horfa á sama leik og ég ?? Sáu menn ekki S.Gerrard ????????????????????? Hann var hreint út sagt ótrúlegur í þessum leik og fyrir utan að leiða okkur áfram í átt til sigurs, þá var hann beinlínis geðveikur í þessum leik!!!

    það skal ekkert af H.Kw tekið í þessum leik…alls ekki…en menn mega ekki litast um of,af þeirri staðreynd að hann hafi verið að koma til baka úr meiðslum… að mínu mati var bara einn KÓNGUR á þessum velli og það var Stefán Geirharður…. þvílíkur leikmaður….

    Kv, Carl Berg

  30. Góður leikur að frá okkar mönnum í kvöld 🙂 nú er maður farin að gera kröfur um að Gerrard og Torres séu fastamenn í þessu liði ununn að horfa á þá þessa daganna 😉 en annarrs um leikinn ég fann aldrei þessa stress tilfinningu leiknum var lokið eftir 10 mins því við erum ekki líklegt til að fá á okkur 2 mörk í svona leik 😉 annarrs gat maður varla beðið um meira í leikslok, öruggur sigur og liðið spilaði eins og það gerir best 😉

  31. tær snild áttum að vera mann fleiri í 80 mín norska viðundrið sem dæmdi fékk 2 sénsa til að reka einn frakkan af velli í vítinu og fyrir 2ja fóta tæklingu skömmu síðar. Svona fara leikir ef við höfum kanntmenn og bara einn varnarsinnaðann miðjumann. Ég ljóma í kvöld.

  32. nú er maður farin að gera kröfur um að Gerrard og Torres séu fastamenn í þessu liði

    Eh, ég leyfi mér að halda því fram að Rafa sé þegar búinn að ganga að þessum kröfum þínum. 🙂

  33. Gaman að sjá Torres raða inn mörkunum. Þá er ansi ánægjulegt að Kewell sé farinn að sýna gamla Leeds takta, það er e-ð sem okkur vantað síðan Steve Mc Manaman fór, góðan dripplara sem er líklegur að skora mörk. Annars er ég farin að hallast að því að það væri réttast að prófa Babel í senternum í næstu leikjum og gefa smalahundinum Kuyt frí. (Þó svo að hann skoraði í kvöld; hvernig gat hann annað í þessu færi) . Babel hefur hraðann og snerpuna og er greinilega með meira sjálfstraust en í byrjun tímabilsins. Það verður svo að hafa vídeokennslu fyrir bakverðina hvernig á að taka overlap. Ég mæli með leikjum Brasiíska landsliðsins frá heimsmeistarakeppninni 2002.

  34. Er alls ekki að reyna stofna til einhverra leiðinda en það væri afskaplega gaman að fá eins og eitt comment frá Sigtryggi Karlssyni, þeim hinum sama sem var svo duglegur við að drulla yfir Benitez og Liverpool eftir Reading leikinn 🙂

    Annars frábær sigur og það verður MUN auðveldara að mæta í vinnuna á morgun eftir þennan leik. Vinn með eintómum Mannaskítum og þeir hafa verið erfiðir undanfarnar vikur, enda að rifna úr stolti yfir því að liðið þeirra sé að geta eitthvað í CL

  35. Eftir svona leik veltir maður fyrir sér B liði Liverpool 🙂

                   Itandje
    

    Finnann – Agger – Hobbs – Aurelio
    Pennant – Alonso – Lucas – Babel
    Crouch – Voronin.

    Og það er afgangur !

    Maður leiksins þó er Harry Kewell. Kristján, ekki reyna að halda öðru fram.

    Spennan magnast þó man jure þann 16. Bring them on !

  36. Já þetta er alveg satt hjá þér Carl Berg #34

    Eins og ég sagði…. þá fyrir mína parta var mjög erfitt að velja einhvern einn út úr í kvöld. Steven Gerrard er náttúrulega búinn að vera sannkallaður Super Gerrard undanfarna leiki. Hann var út um allan völl. Sannkallaður fyrirliði í kvöld. Ég hafði einmitt á orði við sessunauta mína að það er ótrúlegt að horfa á sjónvarpið ..maður sér skot af Gerrard taka skot rétt utan vítateigs andstæðinga og næsta sjónvarpskot er af honum að tækla sem aftasti varnarmaður. Hreint ótrúleg yfirferð á manninum.

    Þjálfari Marseille sá ástæðu til að nefna Gerrard á nafn eftir leikinn. Fannst erfitt að hafa hann að spila á móti!!! Lái honum það hver sem vill.. 🙂

    Oooooooooo hvað ég vona að vinnum þetta …. æji hvað heita þeir.. liðið sem kemur í heimsókn um helgina?? Það væri ljúfara en allt sem ljúft er.

  37. Ekki sammála með Kuyt sem mann leiksins. Klárlega Gerrard, Torres eða Kewell… Torres var alltaf hættulegur. En held ég velji Gerrard.
    Kuyt gat ekkert í fyrri hálfleik og virkar frekar þungur og hægur. Babel í framherjann !!! Carlsberg er ekki eingöngu bjór ! Þetta er fyrirtæki sem framleiðir einnig vatn og ýmsa drykki… Eins og góður vinur minn benti á í kvöld.

  38. Vá. Ég ákvað að kíkja hvað á andfotbolti.net og sjá hvað þeir höfðu nú að segja um leikinn og ég hér koma nokkrar setningar úr greininni:

    “Leikurinn endaði 0-4 og og hefði sigurinn getað orðið stærri ef, og aðeins ef Kuyt og félagar hefðu spilað sóknarleikinn markvissara heldur en þeir gerðu.”

    “Marseille virkuðu á stundum eins og algjörir byrjendur, meðan Liverpool vörðust og spörkuðu boltanum útaf í gríð og erg og ætluðu sér greinilega að halda fengnum hlut.”

    “Spilamennskan hjá liðunum var ekki sérstaklega góð, og ástæðan fyrir því að Marseille voru á löngum köflum einvaldir á miðjunni var sú að Liverpool menn einfaldlega leyfðu þeim það.”

    “Liverpool menn voru ekki sannfærandi í heildina”

    Já þeir eru hressir haha

  39. Er ekki best að Babel byrji á bekknum og komi inná og skori, 5 af 6 mörkum hans fyrir Liverpool eru eftir að hafa komið inná sem varamaður. 🙂

  40. Yyyyyyyyyyyyyyyyyyyyyyndislegt! Hrein sæluvíma sem helltist yfir mann eftir seinna markið! Frábært hjá okkar mönnum og megi þessi sigurbraut halda sem lengst áfram!

  41. Frábær frammistaða okkar manna í kvöld, þvílíkur leikur. Ég sendi sms á strákana eftir 1-0 : Gleðileg jól og það rættist!

    Minn maður leiksins: Harry Kewell. Ég lofa að útskýra það frekar ef það þarf.

    Takk fyrir mig.

  42. Þegar liðið manns er búið að drulla gjörsamlega upp á bak og komið með bakið þræl nelgt upp við vegg og í stöðu sem aðeins þrír sigrar geta bjargað því frá því að falla úr leik er ekki hægt annað að vera ÓTRÚLEGA ánægður með hvernig liðið vann sig út úr þessari stöðu, vááá 16-1 í síðustu þremur leikjum í MEISTARADEILDINNI og það var mjög mjög mikil pressa á liðinu fyrir þá alla. Mjög ólíkt Liverpool reyndar að halda manni ekki á mörkum geðveikinnar út leikinn, en góð tilbreyting.

    Munurinn á leiknum í kvöld og síðasta leik sem við spiluðum við Marseille fannst mér vera svipað og í mörgum öðrum góðum leikjum, það var enginn Sissoko til að klúðra boltanum frá okkur.

    Þó fannst mér liðið langt í frá einhvað frábært í kvöld þannig séð, þ.e. við eigum mikið meira en nóg inni og “rétt rúmlega” það sem við þurftum, vorum einfaldlega allt of stórt númer fyrir frakkana í kvöld og þetta var afar góð tímasetning til að byrja að sigra á þessum velli, fyrstir enskra.

    Varðandi mann leiksins þá hafði ég það á orði yfir leiknum að í kvöld væri Kuyt að spila einn sinn besta leik fyrir Liverpool, og satt að segja fannst mér hann ekki alveg nógu góður (miðað við sinn besta leik), þ.e. ég vil að standardinn sé hærri, virkar frekar hægur og hefur ekki verið að slútta neitt svakalega sannfærandi síðan hann kom, þó markið í kvöld hafi vissulega verið gott og margar sendingarnar góðar þá var ógnin ekki neitt ógurleg af honum.
    Eins og ég hef sagt áður, fátt hægt að segja slæmt um manninn þannig og hann er með FRÁBÆRT hugarfar, en bara ekki alveg nógu góður í þetta leið, því ver og miður.

    Að velja hann mann leiksins finnst mér því vera hálfpartinn svona pitty verðlaun vegna þess að væntingarnar eru alls ekki miklar, Gerrard var svakalegur, Torres líka, Kewell mjög fínn og þeir áttu ekki roð í Mascerano. Einhver af þessum fjórum er maður leiksins hjá mér.

    En til lengri tíma litið vil ég nú fá betri striker en Kuyt eða Voronin, væri t.d. til í að fara sjá Babel meira hugsaðan þarna uppi og held að það muni stafa mikið meiri ógn af honum, virðsit líka að vera fá það “leiðinda” ávana að skora alltaf þegar hann kemur inná.

    Að lokum vil ég taka undir með einhverjum hérna að framan, það var frábært að þurfa ekki að hlusta á “viskuna” sem vellur upp úr þeim Tómasi Inga og Leifi Garðars í kvöld og lækkar pirringinn um heilan helling. Fínt sett í kvöld hjá Sýn í alla staði og Logi Ólafs átti auðvitað setningu kvöldsins
    – “Þetta er bara eins og kveðjustund þegar hann fer af stað”
    (um Torres og viðskipti hans við varnarmenn Marseille)

    …………og varðandi bjórauglýnsgarnar, þá held ég að það hafi nú bara verið frábær auglýsing fyrir Carlsberg að hafa þær ekki á búningunum. Að það sé bannað að auglýsa bjór í landi vínsins er svona svipað gáfulegt og að það sama sé bannað í landi fyllibyttunnar (Íslandi;))

  43. Gaman að sjá hvernig við erum að höndla þessa leiki sem allt er undir.reynslan er orðin svo mikil að við erum að taka þessa leiki og valta yfir þá…Langbestir undir pressu

  44. 44 tekur því að pirra sig á þessum neikvæðu bjánum? Það er ekkert óeðlilegt að “halda fengnum hlut” þegar maður er kominn í 3-0 og á erfiðan leik fyrir höndum.

    Svo man ég ekki betur en að við höfum verið að skora mörk alveg fram á síðustu mínútu, annað en frakkarnir sem sáu varla markið.

  45. Enda var ég ekki að pirra mig á þessu. Finnst þetta bara stórfyndið

  46. Frábær sigur og liðið allt virðist í vera að smella saman. Nú er bara að taka þetta ról yfir í deildina og klára jólatörnina með stæl. Fáránlega gaman að sjá líka Kewell koma til baka. Þetta er auðvitað bara meistari.

    Torres. Hvar á maður að byrja ?! Það sem ég elska mest við hann er hvað það skiptir engu máli hversu oft hann er negldur niður eða straujaður, hann heldur alltaf bara áfram og svarar með hárréttum hætti. Vanalega þeim að setja bara nokkur kvikindi á þá. Eitthvað sem t.d. Ronaldo gerir ekki. Man t.d. eftir atviki gegn Bolton þar sem hann var straujaður að hætti hússins af Faye held ég en samt reyndi að hann að standa upp og halda áfram áður en dómarinn flautaði. Hann er einfaldlega með toppstykkið í 100% lagi og það er það sem gerir hann að eins frábærum leikmanni og hann er.

  47. Varðandi val mitt á Kuyt sem manni leiksins, þá tók ég það sérstaklega fram í leikskýrslunni að ég hefði átt erfitt með að velja mann leiksins því svo margir sköruðu fram úr. Ég hefði getað valið hvern sem er af Kuyt, Gerrard, Torres, Kewell og Mascherano og það hefði samt verið umdeilt vegna þess hve vel hinir fjórir léku. Restin af liðinu var líka virkilega góð. En ég valdi Kuyt ekki af því að hann lék betur en fólk bjóst við – ég, ólíkt flestum ykkar, hef enn tröllatrú á Dirk sem framherja Liverpool – heldur af því að hann gerði í raun allt það sem seinni framherjinn þarf að gera:

    • Hann átti eina stoðsendingu.
    • Hann skoraði eitt mark.
    • Hann sá um nær alla varnarvinnu framlínunnar einsamall, sem gerði Torres kleift að hanga í „vösunum“ á vörn Marseille og bíða færis.
    • Hann var auk alls þessa nánast eins og þriðji miðjumaður okkar, varnarlega, svo mikil var vinnslan í honum.

    Það er auðvelt að horfa á Torres vs. Kuyt og komast að þeirri niðurstöðu að Kuyt geti ekki verið maður leiksins af því að Torres sé miklu hæfileikaríkari leikmaður. Torres er hæfileikaríkari og hann sýndi það enn og aftur í kvöld. En hlutverk hans og hlutverk Kuyt voru ekki þau sömu í kvöld, þótt þeir væru báðir titlaðir Framherjar á liðsuppstillingunni. Annar þeirra átti að vinna undirbúningsvinnuna, hinn átti að njóta góðs af og skila sínu. Þeir stóðu sig báðir frábærlega.

    Næst þegar Kuyt byrjar inná með Torres skuluð þið pæla í því hversu oft sá síðarnefndi er að fá boltann í skyndisóknum og virðist vera nánast eini Liverpool-maðurinn í sókn en er samt auður og óvaldaður. Það gerðist nokkrum sinnum í kvöld að Torres fékk boltann, annað hvort beint út úr vörninni eða með viðkomu hjá Kuyt/Benayoun/Gerrard/Kewell, og þótt hann væri fremsti maður hjá okkur voru Marseille-menn hvergi nærri honum. Þetta var af því að Kuyt vinnur svo mikilvæga vinnu áður en að Torres fær boltann. Endalaus hlaup Kuyt valda því að varnarmennirnir fara að elta hann út úr stöðum og þar er Torres jafnan mættur til að nýta sér eyðurnar.

    Bendi bara á eitt dæmi: sjáið brot úr leiknum hér. Á u.þ.b. 1mín 40sek í þessu myndbandi sjáið þið færi sem Torres fékk í fyrri hálfleiknum. Benayoun nær að pota boltanum frá miðjumanni Marseille, Kuyt kemur aðvífandi úr sókninni og hirðir boltann rétt fyrir innan miðlínuna. Varnarmenn Marseille dragast að Kuyt og skilja eftir svæði sem Torres hleypur beint í … og Kuyt finnur hann nær samstundis, býr til einn-gegn-einum færi og auðvitað eru fáir betri en Torres í því. Ef hann hefði náð að halda skotinu niðri hefði hann skorað tvö í kvöld og Kuyt átt aðra stoðsendingu.

    Það er bara oft erfitt að meta í tölfræði vinnsluna í manni eins og Kuyt, og ég viðurkenni að hann hefur verið misjafn í haust, en þegar hann spilar eins og í kvöld er ekki að spyrja að leikslokum. Ég hefði getað valið úr mörgum leikmönnum þegar ég útnefndi mann leiksins en ég valdi Kuyt til að leggja smá áherslu á, og benda mönnum á, hversu mikilvægt framlag hans til sigursins í kvöld var. Það að vera góður í fótbolta snýst ekki bara um að hlaupa hratt. 🙂

    Annars að Babel, þá er ljóst að sá drengur er algjört súperefni. Þvílíkur leikmaður að geta komið inn á hvorn kantinn sem er eða frammi og jafnan sett sitt mark á leikinn sem varamaður. Hann verður fastamaður í þessu liði á næstu árum en Rafa virðist vera að gera einstaklega vel í því að mjaka honum hægt og rólega inn í hasarinn. Bæði hjá honum og Lucas sér maður að karlinn ætlar ekki að láta þá spila of marga hápressuleiki í röð og taka sénsinn á að þeir fari á taugum í vetur og missi dampinn (sem gæti mögulega verið það sem kom fyrir Momo, sem var jú bara tvítugur þegar hann kom til okkar, nota bene).

    Frábær innkoma hjá Babel og frábært mark hjá honum. Með stráka eins og hann, Lucas, Hobbs, Insúa, Agger og að sjálfsögðu Torres getur maður ekki annað en brosað yfir bjartri framtíð. 🙂

  48. Einhvern veginn tel ég víst að ekkert toppliðanna hafi snefil af áhuga á að mæta Liverpool í 16-liða úrslitum CL. Alvöru karlmenn hér á ferð með stáltaugar og getu til að vinna hvaða lið sem er, hvenær sem er.
    Mér þætti best að fá AC Milan eða Real Madrid.

    Þessi frammistaða í kvöld er eins og lið sem er 5-faldur Evrópumeistari á að framkvæma reglulega. Liðsheildarfótbolti þar sem mikil hætta kemur úr öllum áttum, kantspil, stutt og hratt spil, góð pressa þegar við átti og frábær varnarleikur sem byrjar á fremsta manni. Stjórnun leiksins frá a-ö. “Total Football” 21.aldarinnar.

    Gott að sjá Dirk Kuyt loksins sýna sitt rétta form. Missti aldrei trú á honum. Hans þrotlausa vinna og leikskilningur gerir Liverpool að miklu betra liði en Crouch og Voronin geta nokkurn tímann. Kuyt og Torres er langbesta framherjapar Liverpool í dag. Ef Kuyt er ekki að hendast á milli kanta bjóðandi sig í svæði og samspil, eða pressandi varnarmenn og búandi til svæði fyrir Torres að hlaupa í þá er hann stingandi sér sjálfur innfyrir líkt og í 3.markinu sem var vel klárað.

    Kuyt á eftir að spila mikið eftir áramót og ef kantmennirnir Kewell, Benayoun og Babel haldast heilir þá verður Kuyt lykilmaður ásamt Gerrard í að tengja spil liðsins og skapa hættur úr öllum áttum. Án góðra kantmann og fljóts framherja getur Kuyt hinsvegar litið út eins og meðalmaður líkt og gegn Blackburn. Þegar hann þarf að vinna of langt aftur og hefur ekki fljótan framherja með sér. Þegar allir eru heilir á Kuyt þó að vera fastur byrjunarliðsmaður.

    Hvað getur maður síðan sagt um sjálfan Torres? 🙂 Þó hann geti enn bætt langskotin og ákveðin smáatriði þá er ljóst að Liverpool er með þvílíkan gullmola í þessum dreng! Þetta 2.mark minnti smá á Thierry Henry en Torres er samt öðruvísi týpa en hann. Meiri complete striker finnst varla á þessari jörð.

    Riise var bara ágætur í kvöld. Menn verða að hrósa þegar vel er gert. Finnan og Hyppia líka. Allir eru þessir leikmenn gríðarlega reyndir en geta lent í vandræðum með fljóta og tekníska sóknarmenn. Okkar miðja vann bara hreint frábærlega við að vernda þá. Mascherano virðist henta ótrúlega vel í CL. Engin furða að Barcelona og Inter vilja stela honum frá okkur.
    Segir ýmislegt um frábæra liðsheild Liverpool að maður á enn eftir að minnast á Gerrard, Benayoun, Carragher, Kewell og Reina sem allir stóðu sig vel. Sérstaklega munar um að fá Kewell tilbaka í svona frábæru formi.

    Nú er það bara sunnudagurinn. Sigur þar og Rafa verður fyrirgefið mistökin gegn Reading. Áfram Liverpool!

  49. Kuyt átti reyndar ágætan leik í kvöld þó að Kewell og Gerrard hafi klárlega verið betri. Það sér það samt hver maður að Kuyt er Heskey í dulagervi. Eða hvað? Ok. Hann er vinnusamur. Gott. Ég tek reyndar hæfileika og markaskorun sem eiginleika í framherja fram yfir vinnusemi á hverjum degi, t.d finnst mér Nistelrooy tíu sinnum betri framherji en Kuyt. En Kuyt er vinnusamari. Ef Kuyt gegnir því hlutverki að draga í sig menn væri honum nær að gerast línumaður í handbolta. Ég held að flestir heimsklassa framherjar dragi í sig menn, allavega gera Rooney og Tevez það en sýna þó snilldar tilþrif og ná að skora af og til. Þá skil ég ekki þá pólitík að verja menn alltaf fram í rauðan dauðan ef þeir eru að skíta upp á bak. Tilgangurinn hlýtur að helga meðalið.

  50. Já mér finnst þú orða þetta betur en ég Stefán, er samt nokkurnvegin að meina það sama.

  51. Mér finnst senior Benites vera maður leiksins. Hann var búin að lesa þetta Marseille lið eins og opna bók og lét liðið spila þétt fyrir aftan miðju, þó ekki of aftarlega, og leifði þeim frönsku að dútla með boltan á miðjunni. Ef þeir komu of nálægt þá voru þeir hreinlega étnir og svo sótt hratt á 4-5 mönnum. Þess vegna, vil ég meina, fyrir þá sem voru að kvarta yfir því, komu engin “yfirhlaup” hjá bakvörðunum. Dagskipuninn var bara þannig.

    Ég er sammála Arnóri að þetta var liðsheildar fótbolti og frábær varnarleikur eins og á að spila hann. Marseille ætlaði greinilega að sækja á Kewell og “einfætta tindátann” en komust hvorki lönd né Normandí á móti þeim. Sérstaklega þar sem Mascherano var duglegur að hjálpa. Frábær leikur hjá honum. Torres var frábær, ég varð ekki alveg jafn mikið var við kuyt og flestir hérna inni, en stoðsending og mark segir nú margt um hans framistöðu. Gerrard frábær, þetta eru bara eins og sunnudagsbíltúrar hjá honum að spila svona leiki.

    Þessi leikur var kannski ekki fallegasti bolti í heimi en mjög svo árangursríkur og gott fyrir leikinn að fá mark svona snemma því hann hefði getað þróast öðruvísi. En taktíkinn hjá Rafa gekk upp sem er bara yndislegt og ég ætla rétt að vona að hann sé búin að lesa bókina, og sjá myndina, hjá Ferguson. 🙂

  52. Stefán, ertu í alvörunni að líkja kraftframherja eins og Heskey við second striker á borð við Dirk Kuyt?! Eða er þetta meiri “slappur Liverpool framherji” líking?

    Það eina sem Kuyt hefur sameiginlegt með Heskey er gríðarlegur líkamsstyrkur og þar endar sá samanburður. Gjörólíkari sóknarmenn finnast varla í heiminum.
    Annar hávaxinn og hæfileikalaus spretthlaupari sem beið eftir stungum og skaut fast útí loftið með lítið sjálfstraust. – – Hinn agaður og þindarlaus fótboltaheili með þvílíkt baráttuhjarta, hefur lítinn hraða en mikinn leikskilning eftir skólun í hollenska boltanum.

    Kuyt gegnir ekki því hlutverki að draga í sig leikmenn, hvernig dettur þér það í hug? Hans hlutverk er að vera stöðugt á hreyfingu, pressandi varnarmenn og bjóða sig í samspil svo við spilum eins og liðsheild.

    Þið bara hljótið líka að sjá hversu vel Torres og Kuyt eru að ná saman. Þeir eru nokkuð ólíkir og vinna kosti og galla hvors annars upp. Annar sér um skítverkin á meðan hinn notar sprengikraftinn og tæknina. Báðir kunna þó uppá hár að spila fótbolta og þekkja hreyfingar hvors annars.

    Viljiði frekar að við spilum eins og Man Utd með 2 smávaxna, fljóta og tekníska menn frammi (Tevez og Rooney) og treysta á einstaklingsframtök og heppni til að skora mörk? Viljiði smávaxna leikmenn sem geta ekki pressað nema stutta stund og verða því að leyfa bakvörðum andstæðinganna að taka mikinn þátt í leiknum?

    Slíkt dugar kannski í enska boltanum þegar öll litlu liðin pakka í vörn af hræðslu en í CL áttu lítinn sem engan séns á að fara alla leið. Benitez veit alveg hvað hann er að gera og hann hefur réttilega varið Kuyt með kjafti og klóm í gegnum þennan fyrsta og eina erfiðiskafla hans hjá Liverpool.
    Slakið bara á Babu og Stefán og fellið ykkar dóma í lok leiktíðar. Reynið allavega að koma með betri rök ykkar máli til stuðnings en slappar handboltalíkingar.

    Já maður gleymdi að hrósa Benitez en maður er farinn að krefjast ákveðinnar snilldar af honum í CL. Það er enginn betri en hann í að lesa leik andstæðinganna og núlla þá út. Tilraunastarfsemi hans gegn Reading verður að fullu fyrirgefin ef við vinnum á sinnudag.

  53. Mascerano kom nú aftur inná og kláraði leikinn, Kuyt var skipt útaf eftir að Hyypia strauaði Mascerano fyrir Lucas svo það getur varla verið mikið að kappanum 😀

    Annars mundi ég kjósa þetta mark hjá Torres mark riðlakeppninar í ár, margfallt glæsilegra en þessar heppnis neglur utanaf velli 😀

  54. Maður leiksins var að mínu mati: Kuyt hann rakk síðasta naglann í kistu frakkanna.
    Annars verð ég að segja að þetta var góður leikur fyrir alla.

  55. 59 Arnór, ég nenni ekkert að fara þræta um þetta enda ekki það mikið hitamál hjá mér og ég í of góðu skapi eftir gærdaginn, Heskey er bara hreint alls ekkert svo fjarstæðukend samlíking þannig enda spila þeir ekki ósvipaðar stöður og þó Kuyt sé góður þá held ég að Torres geti auðveldlega linkað betur við annan framherja, held reyndar að Torres geti linkað vel við hvern sem er……og látið samherjann sinn líta vel út, en verum bara sammála um að vera ósammála.

    • Viljiði frekar að við spilum eins og Man Utd með 2 smávaxna, fljóta og tekníska menn frammi (Tevez og Rooney) og treysta á einstaklingsframtök og heppni til að skora mörk?

    Að segja að United skori bara heppnismörk er í besta falli barnalegt og já ég hefði ekkert á móti Tevez eða Rooney í staðin fyrir Kuyt.

  56. Þessar línur frá “http://news.bbc.co.uk/sport2/hi/football/europe/7138109.stm”
    segja allt sem segja þarf

    “It doesn’t matter who we play now,” said the Spaniard. “All of them are good sides but we are just enjoying ourselves.

    “My team is growing and playing better every week. I’m happy with the way we are attacking and defending.”

    Marseille coach Eric Gerets pinpointed Gerrard’s fourth-minute penalty as the key to Liverpool’s win.

    “The first goal really hurt us,” he stated. “Right after that, you could see the players were nervous on the pitch.

    “Every time Liverpool went forward, they looked dangerous. And when you have a player such as Steven Gerrard against you in midfield, it’s hard to play against.”

    GLEÐILEGA JÓLAHÁTIÐ KÆRU VINIR OG VINKONUR, ÞETTA ER RÉTT AÐ BYRJA HJÁ OKKUR…

    ÉG TÓK LAGIÐ FYRIR YKKUR FYRIR LEIKINN “STERKIR Á STRÖNDINNI” OG VIÐ UNNUM 😀

    AVANTI LIVERPOOL – RAFA http://WWW.KOP.IS

  57. Ég held að það sé fyrir löngu komið í ljós að Kuyt er ekki nógu góður sem byrjunarliðsmaður í Liverpool. Hann er vissulega vinnusamur og góður í að skapa svæði fyrir Torres en mér finnst hann einfaldlega ekki hafa nægilega góða boltameðferð og “dribbling” er alls ekki nægilega góð (eins og sást augljóslega á móti Blackburn). Bergkamp masteraði þessa stöðu hjá Arsenal og finnst mér okkur vanta framherja sem gæti klárað þessa stöðu vel.
    Þá vil ég taka fram að sá sem heldur að Man Utd. treysti á heppni og einstaklingsframtök til að skora mörk, Arnór (ummæli 59), þá veit sá einstaklingur ansi lítið um knattspyrnu.

  58. Arnór þeir er líkari en þig grunar. Burt séð frá því að vera sterkir og vinnusamir, geta ekki tekið menn á, með slaka móttöku og slakir finisherar þá er helsta sem þeir eiga sameiginlegt; markaþurrð. Eitthvað sem ætti ekki að vera á topp tíulistanum hjá stuðningsmönnum liverpool. Sérðu það ekki. Ég efast nú um að gjörólíkari sóknarmenn finnst ekki í heiminum, finnst það aum rökemdarfærsla eins og svo margt í skrifum þínum. Eto og Kuyt finnst mér t.d mun ólíkari. Þá ættir þú að vanda betur til mál þíns áður en þú byrjar að góla um Tevez og Rooney. Báðir eru búnir að vera spila fanta góðan fótbolta. Það sem hefur komið óvart er hversu vel þeir spila og ná saman óháð einstaklingsframtaki, heppni og stærð. Þá held ég ekki að það sé hlutverk Kuyt að draga í sig menn. Það virtist hins vegar vera rauði þráðurinn í skrifum Kristjáns Atla um Kuyt.

  59. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála öllum hérna þegar ég vel mann leiksins. Það var kannski út af því að ég ákvað fyrir leikinn að hafa auga á Mascherano allan leikinn. Þvílíkur leikmaður. Hans leikur var ekki fallegur. Hann skoraði ekki og átti ekki stoðsendingu að marki. En þvílíkur leikur. Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með hvernig hann tímasetur sig og hversu góður hann er að setja leikmenn úr jafnvægi án þess að brjóta af þeim. Það hefur verið umræða um hver sé betri “stoppari”, hann eða Sissoko, og þá verður maður að líta til þess að hann er miklu gáfaðri leikmaður. Hann reynir alltaf að vinna boltann til liðsins, ekki bara að stinga fætinum inn.

    Oft og mörgum sinnum í gær, þá sá ég að Mascherano valdi að fara ekki upp í skallabolta, heldur las hann hvert andstæðingurinn myndi setja hann og hirti svo boltann. Þegar hann kemst í vandræði þá notar hann Sissoko fræðina, að skella sér inn í allt án þess að vita neitt um útkomuna, en þetta notar hann einungis í neyðartilfellum.

    Hann virðist líka ótrúlega oft vera maðurinn sem allir styðjast við í varnarvinnu. Það skiptir ekki máli hvort það sé hægra eða vinstra megin á vellinum. Hann er algjör snillingur í því að staðsetja sig rétt í varnarvinnunni, í staðinn fyrir að hlaupa til og tvímanna þá les hann sendingar- og hlaupamunstur og brýtur niður sóknir andstæðinga. Auðvitað á holding midfielder að gera þetta, en hraðinn sem heldur uppi allan leikinn er alveg ótrúlegur. Þessi sjúku hlaup Gerrard tilbaka að hornfána sjást ekki, því að hann veit af borgarvirkinu þarna fyrir aftan sig.

    Mér hefur alltaf líkað vel við Sissoko. Það er hiti í honum, hann gefur sig alltaf fram en málið er að þú þarft að vera spila í heimsklassa ef þú ætlar að vera í byrjunarliði Liverpool, sama hversu ungur þú ert. Sissoko er búinn að fá fullt af reynslu en sýnir samt ótrúlegar sveiflur og virðist ekki geta hrist slæmu lestina af sér. Þegar Liverpool hefur Mascherano og Lucas við hlið Alonso og Gerrard, þá finnst mér nú það augljóst að hann eigi nú bara að kaupa sér flugmiða til Frakklands til þess að hitta fjölskylduna.

    Ég vel Mascherano sem mann leiksins því án hans í gær, þá hefðu Gerrard, Kuyt, Torres, Kewell og Benni Onion þurft að spila allt annan leik.

    Nú er málið að taka á móti Mancs og brjóta þá niður. Mér finnst nú að Benitez hafi gefið smá merki um byrjunarliðið. Þegar Kuyt er tekinn út af þá finnst mér það gefa til kynna að hann sé í byrjunarliðinu á móti Mancs. Mancs munu líka ekki spila með 10 menn í boxinu og hann er hryllilega góður að búa til pláss fyrir Gerrard og Torres á móti liðum sem þora að færa liðið sitt fram á völlinn. Vá hvað mig hlakkar mikið til þess að sjá RonNöldró væla þegar Mascherano verður sleppt á hann.

  60. “Vá hvað mig hlakkar mikið til þess að sjá RonNöldró væla þegar Mascherano verður sleppt á hann.”

    Hahaha snilldarsetning og ég er algjörlega sammála, verður veisla!

  61. Eitt í viðbót Arnór. (Ummæli 54) “Riise var bara ágætur í kvöld. Menn verða að hrósa þegar vel er gert. Finnan og Hyppia líka.” Já mikið ofboðslega skilaði Finnan hlutverki sínu vel í gærkvöldi.

  62. Já þetta var svo sannarlega kvöld þeirra rauðu og að sjálfsögðu er komið nýtt lag um vin okkar Fernando ,, There was something in the air that night the stars were bright, Fernandooo. You were scoring there for you and me for LFC Fernandoooo. Though I never thought that we could lose, there’s no regret if you had to do the same again you would, my friend, Fernandooooooo ´´. Ég vil meina að Kewell sé nánast eins og ný kaup fyrir Rafa. Hefur komið gríðarlega vel inn í síðustu leikjum og hann á bara eftir að verða betri, ef hann helst nú heill kallinn. Er líka ánægðu með það að menn séu loksins að taka eftir vinnuframlagi Kuyt, hann leggur sig alltaf 100% fram en það vill oft vera þannig að hans samherjar ná ekki að nýta sér það þó að þeir hafi gert það í þessum leik. Ég vona að við fáum Real Madrid, helst vil ég sleppa við Inter en mér er líka eiginlega alveg sama. Þegar að Liverpool er komið á þetta stig í kepninni þá eru þeir til alls líklegir, það hafa þeir sýnt á síðustu 3 árum.
    Varðandi leikinn á sunnudaginn, þá vil ég nú samt sjá Crouch frammi með Torres en að öðru leiti þá vil ég sjá liðið óbreytt að undanskildum Arbeloa. Finnan á að koma inn fyrir hann. Ég ætla að spá þeim leik 2-1 fyrir Liverpool og að sjálfsögðu verða það Torres og Gerrard sem að setja mörkin. Það eru mennirnir sem að stíga upp í svona leikjum, svo ekki sé nú minnst á það að Gerrard er búinn að skora 10 mörk í síðustu 11 leikum!

  63. Hehe, lagið hér að ofan var reyndar “samið” um vin okkar Morientes, en fá tækifæri gáfust til að láta það hljóma mikið á sínum tíma… 🙂

  64. Glæsilegt hreint út sagt. Gríðarlegur karakter sem liðið sýndi í þessum lokaleikjum þremur í Meistaradeildinni. Vonum innilega að þetta sé það sem koma skal í Premíunni.

    Benitez er búinn að sjá til þess að hann verður stjóri Liverpool út þetta tímabil í það minnsta með þessu. Klárt mál held ég er að illa hefði farið fyrir honum ef hann hefði ekki komið liðinu áfram. Hann gerði hins vegar frábæra hluti og ber að fá mikið credid fyrir það. Hann er þessi meistaradeildarþjálfari og virðist vera lang bestur í leikjunum þar sem öllu máli skipta og góð úrslit verða að nást. Vonum að þetta sé að koma líka í deildinni en ég fullyrði það að fáir eða engir stjórar eru betri í úrslitaleikjum/útsláttakeppnum.

    Eitt að lokum: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=55853

    Maður með svona hugarfar hefur ekkert að gera í Liverpool FC. Hann ætti að átta sig á því að það eru forréttindi að fá að spila í rauðu treyjunni og fagna hverri sekúndu sem hann fær. Ekki væla og væla í fjölmiðlum. Það er ekki pláss fyrir svona menn, sérstaklega ef maður bætir því ofan á viðhorfið að þeir geta ekki sent 10 metra sendingar.

  65. Vel að orði komist #72 en samt má þakka honum fyrir það sem hann hefur gert en hann er jú FRAKKI… dæmi hver sem vill
    Cisse var alltöðruvísi, enda hélt ég og held ennþá uppá þann skrallara heheheh 😀

    AVANTI LIVERPOOL – RAFA – http://www.KOP.is

  66. ÞETTA VORU ÓTRÚLEGIR YFIRBURÐIR. EF VIÐ SPILUM SVONA Á SUNNUDAGINN ÞÁ FER BLÁNEFURINN FERGUSSON Í FÝLU!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!! MEIRA SVONA!!!!!!!!!!! YOU NEVER WALK A LONE!!!!!!!!!

  67. Nenni nú vart að svara ykkur Babu og Stefán. Þið eruð greinilega búnir að gera upp ykkar hug varðandi Kuyt og munið ekki breyta henni. Að Stefán skuli ennþá reyna líkja litla nagginum Kuyt við Heskey sem var eins og stór belja á svelli er bara sorglega fyndið. Markaþurrð hvað? Ef Heskey hefði þurft að sætta sig við rotation-policy Rafa þá væri hann búinn að væla sig útúr Liverpool líkt og Sissoko er að gera núna. Kuyt er alveg öfugt frábær liðsmaður og skoraði 12 mörk í deildinni í fyrra.
    Það eru ýmis tilþrif frá því í fyrra sem sýna að Kuyt er góður skotmaður og kann alveg að spila sóknarleik. (Mörkin á útivöllum gegn West Ham, Newcastle o.fl. og ótal link-up play á Anfield).
    Í ár er það hinsvegar Torres sem á að skora flest mörkin en Rafa vill líka fá mikið af mörkum frá miðjunni. Hlutverk Kuyt er því að styðja Torres og hjálpa miðjumönnum að færa sig framar með undirbúningsvinnu, pressa varnarmenn aftur og detta niður á miðjuna í samspil og loka svæðum.

    Ég hló í sept/okt upp í opið ginið á þeim sem afskrifuðu Yossi Benayoun (og Voronin) í upphafi leiktíðar orðrétt sem “algera meðalskussa” og ég mun hlægja að ykkur tveimur í lok þessarar leiktíðar þegar Kuyt hefur sannað gildi sitt fyrir liðsheild Liverpool. Stundum þarf maður nefnilega að “verja góða leikmenn fram í rauðan dauðann” fyrir misvitrum spekúlöntum.

    Það er rétt að Finnan var frábær í gær. Á bekknum! Mín mistök, átti við Arbeloa.

    Jú, Man Utd treysta víst á einstaklingsframtök C.Ronaldo og varnarmistök(heppni) til að skora mörk. Þeir treysta á hraðar færslur, overlap, dæla boltum inní teig og skotum að utan þangað til eitthvað gefur sig. Það er ástæða fyrir því að Alex Ferguson hefur aðeins 1 sinni náð í úrslit CL þrátt fyrir alla peningana…
    Ég get alveg lofað ykkur því að þessi Tevez-Rooney samvinna mun ekki virka gegn bestu vörnum Evrópu þó hún virðist ganga núna. Alltof líkir og hvorugur kann að skalla. Þarf líklega bara aðra AC Milan sýnikennslu í varnarleik til að þið fattið það.

    Annars segi ég bara áfram Liverpool! Útsláttarkeppni CL er bara óhugsandi án þessa liðs. Mér sýnist Liverpool loksins vera farið að sækja og verjast sem lið á sama hátt og Valencia gerði. Rafa loksins kominn með sín fingraför á allt liðið. En Valencia hafði ekki ofurleikmenn á borð við Gerrard og Torres í sínu liði… 😉
    Það er bara ógnvekjandi að hugsa hversu hátt Liverpool getur náð ef Rafa fær vinnufrið og nær að byggja ofan á þann ótrúlega kjarna sem nú þegar er til staðar.

  68. Sælir félagar
    Þetta fór eins og ég spáði 0 – 4. Hinsvegar spáði ég að Babel yrði með tvennu í 4 – 0 sigri og Carra eitt. Það gekk ekki eftir en hver harmar það svo sem þegar 4 kvikindi eru komin í netið. Skiptir ekki máli hver setur þau 🙂
    Okkar menn voru allan leikinn betri og sýndu hvar þeir eiga heima þegar liðinu er still. upp til að VINNA leiki. En hveð sem öllu líður þá er þetta sigur geysi öflugrar liðsheildar þar sem allir voru með, lögðu sig fram og yfirspiluðu andstæðing sem aldrei hefur tapað fyrir ensku liði á heimavelli í Evrópukeppni.
    Glsilegt og þessi þriggja leikja lokakafli liðsins er einsdæmi held ég í sögu þessarar keppni.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  69. Já Arnór ég er búin að gera upp hug minn varðandi Kuyt. Til þess fá mig til að skipta um skoðun þarf a) málefnalegri umræðu en frá þér b) Kuyt að byrja að skora mörk. Veistu hvað Kuyt skoraði mörg mörk úr vítum á síðustu leiktíð? Held að þau hafi verið nokkur. 12 mörk í deildinni er í meðallagi góð frammistaða miðað við það, spilandi með eins stóru liði og Liverpool er. Þá er skrítið að Man Utd treystir á hraðar færslur, overlap, dæla boltum inn í teig. Það er sennilega ástæðan fyrir að liðið er svona sigursælt. Það spilar ekki góðan fótbolta heldur treystir á einstaklingsframtök og að grísa á góð úrslit. Aha. Þarna hitturðu naglann á höfuðið. Ég hélt, kannski í einfeldni minni, að vera með hraðar færslur, dæla boltum inn í teig, taka óverlöp og skjóta á markið, kallaðist að spila góðan fótbolta. Vona samt að einstök spádómsgáfa þín gangi eftir.

  70. 75 Komiði blessuð og sæl. Ég hélt að ég væri þessi frekar blinda týpa af Liverpool stuðningsmanni sem sæi ekkert gott hjá andstæðingunum, en ég á ekki roð í þig. Þetta er eiginlega ekki svaravert og viska þín um United lætur þig hreint ekki líta gáfulega út.

    (hættu svo að láta mig hrósa Man utd)

    En ég vil gjarnan fá einhvern í Tevez/Rooney klassa við hliðina á Torres (sem við eigum nú þegar og er betri en þeir báðir) í staðin fyrir Kuyt, ANY TIME.

    Reyndar eru allajafna tveir til þrír sem við eigum nú þegar hjá Liverpool sem ég vil frekar í liðið heldur en Kuyt (fer þó eftir leikaðferð og andstæðingum auðvitað).
    Ég vil einhvern sem getur nýtt mun betur það gríðarlega pláss sem Torres er að skapa, þetta virkar nefninlega á báða vegu og einhvernvegin held ég nú að Torres dragi meira til sín og trufli varnarmenn meira heldur en Kuyt.

    Eins og ég hef sagt, Kuyt er ágætis leikmaður og skorar auðvitað af og til (til þess er hann frammi) en hann ógnar frekar lítið miðað við sóknarmann og er allajafna ekki með neitt sérstakt touch.

  71. Elsku Stefán minn, ég er búinn að fylgjast mjög náið með fótbolta í rúm 30 ár. Ég þekki því gæðaleikmann þegar ég sé hann. Ég þekki því líka ótal aðra leikstíla en þennan hraða nútíma sendingastíl sem Arsenal, Man Utd og þú virðast eingöngu aðhyllast.

    Ég er búinn að reyna að lýsa fyrir þér hvaða kostum Kuyt býr yfir en þú bara vilt ekki hlusta og einlínir á markaskor eins og það sé eina hlutverk framherja. Ég hef reynt að reyna að vera málefnalegur þrátt fyrir að þín skeyti jaðri að mínu mati við dónaskap. Ef ég hef eitthvað stuðað þig þá biðst ég afsökunar.

    Fyrst þú þykist vera svona málefnalegur:

    1) Heskey skoraði 39 mörk í 150 deildarleikjum. 1/3.85
    2) Kuyt er með 15 mörk í 45 deildarleikjum. 1/3.
    3) Peter Crouch sem Babu minnir mig taldi fyrir stuttu vera miklu betri sóknarmann en Kuyt, er með 17 mörk í 73 leikjum. 1/4.29

    Semsagt þrátt fyrir að vera útlendingur sem er enn að aðlagast enska boltanum og spila AFTAR en hinir innfæddu Heskey og Crouch er Kuyt samt með töluvert betra markaskor. Hafið það!

    Til að svara spurningunni með vítin. Nei EKKERT þessara 12 marka Kuyt í fyrra kom úr víti. En það vissir þú auðvitað.
    ( Allar upplýsingar frá http://www.lfchistory.net)

    Fyrir þá sem halda því fram að Kuyt geti ekki hitt belju þó hann haldi í halann á henni þá er það alltaf þetta mark… http://www.youtube.com/watch?v=IZkC3hpWARA

    Annars nenni ég ekki að rökræða við menn sem finnst leikur Man Utd til mikillar eftirbreytni. C.Ronaldo er búinn að bjarga geldum sóknarleik liðsins ótal oft á þessu tímabili. Þegar lið pakka í vörn gegn Tevez og Rooney hafa þeir oftast ekkert pláss fengið og lítið getað saman.

    Síðan eru það þið sem eruð að níða skóinn af góðum leikmanni Liverpool sem fórnar sér stöðugt fyrir liðið. Sönnunarbyrgðin er á ykkur en ekki mér. Ég bíð bara hress eftir lokum leiktíðarinnar þegar vel hvíldur Dirk Kuyt verður í fantaformi rífandi liðið áfram.

    Já Babu minn kæri ég sé ekkert nema Liverpool! Þannig var þetta á gullaldartíð liðsins og 9.áratugnum. 5-faldir Evrópumeistarar dást ekki að sóknarleik Scum Utd og reyna herma eftir.

  72. Frábær leikur sem vonandi þaggar niður í gagnrýnisröddum og skapar vinnufrið.
    Ein stærstu úrslitin í sögu félagsins, talandi um að standa undir pressu!
    Fyrsta enska liðið til að vinna leik í Marseille….
    In Rafa I trust!!!!!

  73. Arnór algjörlega sammála.Ég sé eitthvað í Koyt sem aðrir hafa ekki og það er sterklega að koma í ljós .En skoðum það í lokinn

    • Já Babu minn kæri ég sé ekkert nema Liverpool! Þannig var þetta á gullaldartíð liðsins og 9.áratugnum. 5-faldir Evrópumeistarar dást ekki að sóknarleik Scum Utd og reyna herma eftir.

    Það var enginn að tala um að herma eftir, bara segja að þeir ættu betri sóknarmenn en Kkuyt, en þú útskýrir ágætlega með þessu hvað það er snjallt að vera að rökræða þetta við þig!!

  74. Kæri Arnór. Ég einblíni ekki bara á markaskor. Ég veit ekki betur en ég hafi útlistað þá galla sem ég taldi leikmanninn hafa. Svo ég rifji það upp þá finnst mér leikmaðurinn; lélegur dribblari, hafa slaka móttöku, nýta færin sín illa, oft klaufskur og ekki nógu áræðinn fram á við. Ég tel hann þó hafa ýmsa kosti og ávallt berjast að heilhug en að mínu mati varpa gallar hans meiri skugga á leik hans en þeir kostir sem hann býr yfir. Markaskor tel ég þó skipta miklu máli hjá framherja enda er það sem leikurinn gengur út á, skora mörk. Ég biðst forláts á því að hafa farið með fleipur varðandi vítin, en ef þú lest textann betur þá sérðu að ég er ekki viss (sjá spurningamerki) það sem kemur á eftir eru meira hugleiðingar enda ekkert fullyrt. Ég hefði samt átt að kanna vítin betur (mín mistök) enda legg ég það ekki í vana minn að halda fram tilefnislausum staðhæfingum. Sennilega hélt ég að vítin væru fleiri vegna þess tvö af þremur mörkum Kuyt í deildinni þetta tímabil hafa komið úr vítum. Ég skal vera fyrstur að dæma orð mín dauð og ómerk ef Kuyt snýr dæminu við. Ég vona það Liverpool vegna og ekki síst þíns vegna að þú reynist sannspár um hæfileika Kuyt. Eins og staðan er í dag þá finnst mér hann þó ekki liðinu samboðinn. Ég tel hann miðlungs leikmann sem ætti frekar að vera í Fulham heldur en Liverpool. Þá er ég ekki mesti áðdáendi þeirra framherja sem þú nefnir í samanburði þínum. Crouch finnst mér þó skárstur. Annars finnst mér vanta annan betri framherja með Torres nema að Babel nái að leysa þá stöðu, það verður tíminn að leiða í ljós. Einnig finnst mér líkt og Babu, Man Utd kenningar þínar sérlega skrýtnar og sérlundaðar og hafa lítið til brunns að bera. Ég held að flestir sjái það Man Utd er okkar helsti keppinautur enda með frábært lið.
    Þrátt fyrir yfirnáttúrulegan skilning að þinni hálfu hvað stíl ég aðhyllist þá hugsa ég að ég aðhyllist eins og vonandi flestir meira nútímafótbolta, þar sem hraðinn er meiri enda gerir það leikinn mun skemmtilegri. Ég held líka að lið í toppbáráttunni fyrir 20 árum ættu lítið í liðin í toppbáráttunni í dag miðað við það tempo sem spilað er á. Með fullri virðingu fyrir þeim stílum sem hafa litið dagsins ljós. Hraðinn og baráttan er það sem gerir enska boltann skemmtilegasta sjónvarpsefni í heiminum. Ég vona að þú sért sammála mér um það. Annars mun ég segja mína skoðun hérna á spjallinu og ef það fer e-ð illa í þig bíttu þá bara á jaxlinn. Ég hef hér með lokið máli mínu varðandi þessa umræðu.

  75. Mjög leiðinlegt að heyra menn setja út á Kuyt.

    Að mínu mati með okkar betri leikmönnum sem gefur sig allan fyrir LFC, aðdáendurna og liðsfélagana.

    Menn eru að criticera að hann skori ekki nóg miðað við Striker, væri gaman að vita (ef einhver kann að grafa upp svona upplýsingar) hversu margar stoðsendingar og hversu mörg mörk hann er með miðað við mínutur spilaðar. Hann skilar svo sannarlega sínu!!!

    http://www.youtube.com/watch?v=NaOdU4bx3UM

    Takk annars fyrir frábært blogg og frábæra síðu!

    YNWA
    Hálfdán

  76. Þið afsakið ef það er kolrangt en mér fannst/finnst bara sumt í ykkar málflutningi (Babu og Stefán) minna á börnin á spjallborði http://www.liverpool.is
    Ég gafst uppá þeim vettvangi og flutti mig hingað enda mun betri síða og langtum betri pennar hér.

    Þessvegna fullyrði ég svona mikið um ykkar skoðanir enda er langoftast samansemmerki milli þess að fíla ekki klassíska gamaldags týpur eins og Dirk Kuyt = og dást að hröðum sendingabolta Arsenal, Man Utd og vilja herma/komast uppá sama plan og þau lið. Þetta viðhorf er oft raunin á liverpool.is og mér finnst bera á þessu í umræðum hér um Kuyt og líka Sissoko.
    Mér finnst eins og það sé að koma upp herdeild ungra fótoltaaðdáanda sem þekkja aðeins 1 tegund af fótbolta (hraði og sendingargeta), horfa eingöngu á enska og spænska boltann og vilja steypa alla leikmenn í sama formið. Þetta er CM-kynslóðin.

    Eins og frábært quote sem birtist hér á kop.is nýlega sagði, “Sá sem þekkir fortíðina og skilur nútímann er öðrum hæfari að skapa framtíðina”.

    Stefán, ég var ekkert að tala um að nota 20 ára gamlan leikstíl. Við eigum hinsvegar að nota það besta úr fortíðinni og blanda því saman við það besta úr samtímanum til að verða besta liðið í framtíðinni. Það er þessvegna sem ég pirrast svona mikið á skilningsleysi fólks á gæðum Kuyt. Hann myndar mjög ólíkt en frábært sóknarpar með Torres og það sjá allir að það þeir hreyfa sig vel í takt og þekkja hreyfingar hvors annars uppá hár enda báðir með mikinn leikskilning. Það er ekki nauðsynlegt að hafa mikinn hraða og frábært touch til að vera afbragðs fótboltamaður. Sumir leikmenn eins og Kuyt og Hyppia spila fótbolta aðallega með heilanum og þurfa ekki hraða eða skora hrúgu af mörkum til að sanna notagildi sitt.
    Fótbolti er liðsíþrótt og gengur mikið útá liðsheild og vinnusemi. Þú þarf jafnvægi milli ólíkra persónuleika/leikmanna til að búa til sterka heild. Sjálfur rek ég fyrirtæki og þekki þetta uppá hár. Of mikið af prímadonnum sem vilja framar öllu skora mikið af mörkum og þú lendir í miklum vandræðum. Svona karakterum eins og Kuyt sem finnst jafngaman að gefa stoðsendingar og skora mörk, eru sveigjanlegir og tilbúnir í skítverkin fyrir aðra eru oft lang verðmætustu týpurnar til að hafa í liði með sér.

    Við erum nokkrir í þessum þræði, (ég, Kristján Atli, Hálfdán, Einsi Kaldi, Stefán Gerald o.fl.) sem kunnum að meta Dirk Kuyt sem leikmann.
    Getur verið að það sé ekki bara þið sem fattið ekki snilldina?

    Annars er þessi Kuyt umræða orðin alltof löng og leiðinleg og búin að draga athygli frá leiknum á sunnudag. Nú er lag fyrir Liverpool að sýna Man Utd hvernig á að spila sem liðsheild. Pökkum þessum ofmetnu skussum saman og sýnum hvaða stórlið er framtíð enska boltans.
    Áfram Liverpool! 🙂

  77. Til að fyrirbyggja allan misskiling þá er ég 31 árs og hef verið stuðningsmaður liðsins síðan 1983. Uppáhaldsleikmaðurinn minn er Ian Rush.

  78. Þetta ætti að verða auðvelt gegn Man.Utd. nema að þeir verði einstaklega “heppnir”

  79. Það er ánægjulegt að umræðan er á málefnalegum nótum og laus við dónalegt skítkast og lágkúruleg leiðindi. Hér ræða menn saman og rökstyðja mál sitt góðum rökum. Þó menn séu ekki sammála í einu og öllu eru þeir þó sammála um að styðja lið sitt og mér finnst menn vera orðnir jákvæðari í kjölfar betra gengis. Ég sjálfur er hættur að lesa önnur “spjöll” enda er lítið annað að lesa þar en órökstutt bull sem yfirleitt snýst upp í frekari leiðindi.
    Takk fyrir alvöru umræðu.

    • Þið afsakið ef það er kolrangt en mér fannst/finnst bara sumt í ykkar málflutningi (Babu og Stefán) minna á börnin á spjallborði http://www.liverpool.is

    Skrítið mér fannst einmitt það nákvlæmlega sama um þig. En þú setur þig á frekar háan hest með þessu síðasta kommenti og átt greinilega alveg rosalega erfitt með að sætta þig við það að við erum bara alls ekki sammála þér. Það fer ekkert svakalega fyrir brjósið á okkur að þú dýrkir Kuyt, við erum einfaldlega ekki sammála.

    • Við erum nokkrir í þessum þræði, (ég, Kristján Atli, Hálfdán, Einsi Kaldi, Stefán Gerald o.fl.) sem kunnum að meta Dirk Kuyt sem leikmann.

    Nú já ok, þá verðum við (Stefán) líklega að bakka með þetta álit okkar á Kuyt er það ekki? Eða eigum við að safna liði sem finnst Kuyt ekki nógu góður? 😉
    Annars hef ég ekkert verið að gera lítið úr vinnuframlagi Kuyt, finnst hann bara ekki NÓGU góður (góður og vinnusamur er ekki það sama) og ég vil fá betri mann í þessa stöðu.

    Varðandi United og t.d. Arsenal þá erum við ekkert að biðja um að Liverpool spili nákvæmlega eins, það er bara barnaleg einföldun hjá þér og þitt val að lesa ummæli okkar þannig. Við erum einfaldlega að hrósa sumu í leik þeirra, og einhvað hljóta þessi lið að vera gera rétt? er það ekki?
    Eða erum við Stefán þeir einu sem eru að sjá “snilldina” hjá þeim?

    Síðan Rafa kom hefur verið byggð upp gríðarlega sterk svæðisvörn sem er ekkert sérstaklega mikið fyrir að fá mörk á sig, miðjan og kanntarnir eru að verða mikið öflugri milli ára með menn á miðri miðjunni (Gerrard, Alonso, Mascherano og Lucas) sem flest lið myndu vilja hafa í sínum röðum og sóknin undir Rafa er núna fyrst farinn að look-a hættuleg, MEÐ KOMU TORRES. Kuyt gerir t.d. ekki mjög mikið af viti sóknarlega þegar Torres er ekki inná og sóknin verður bitlausari.

    Um mína starfshagi og menntun finnst mér enginn þörf á að ræða hér. Ég þekki vel fortíð Liverpool en er ekki fastur í henni, ekki frekar en þeir sem stjórna klúbbnum núna.

  80. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá dýrka ég ekki Kuyt. Ekki frekar en aðra fótboltamenn. Ég veit af hans kostum og göllum og met bara kalt hvernig hann passar inní liðsheild Liverpool.

    Mér finnst hinsvegar leiðinlegt að Liverpool-aðdáaendur séu stöðugt að tala um að þessi og hinn leikmaður sé ekki nógu góður fyrir liðið. Margir á þessari síðu hreinlega hraunuðu yfir Benayoun og Voronin jafnvel áður en þeir höfðu mætt á sína fyrstu æfingu með Liverpool. Þið eruð nánast búnir að afskrifa Kuyt eftir góða 1.leiktíð en smá erfiðleikakafla á þessari. Kommon, gefið nú leikmönnum séns á að sanna sig. 😉
    Svona viðhorf bara skil ég ekki. Nema í tilfelli manna eins og Sissoko sem sýna ekki gott hugarfar, hafa ekki leikskilning og hægja hreinlega á sóknarleik liðsins.

    Ef þið hefðuð virkilega lesið það sem ég skrifaði í upphafi þá gerði ég sérstakan fyrirvara um Kuyt. Nr. 54.
    “Hann þarf að vera frammi með fljótum framherja og góðum kantmönnum til að hans extra gæði komi í ljós”. Ef það er lítil ógnun af köntunum virkar Kuyt ekki jafnvel sem batti og samspilari þegar lið eins og Blackburn leggja rútunni við vítateiginn. Ef hinsvegar allir eru á fullu í kringum Kuyt þá er hann hreint frábær í að tengja sóknarsvæði enda með frábærar staðsetningar og lætur okkur spila sem lið. Þetta sást vel í útileikjunum gegn Marseille og Newcastle.

    Rafa Benitez (sem veit meira um fótbolta en allir á þessu spjalli til samans) veit nákvæmlega hversu verðmætan og góðan leikmann hann er með í Kuyt og hefur stutt leikmanninn 100% þrátt fyrir Blackburn leikinn. Það ættu allir sem lesa þetta að gera líka enda er Kuyt hluti af glæstri framtíð Liverpool.

Byrjunarliðið komið:

KÖNNUN: Óskamótherjar í 16-liða úrslitum ECL