Ferð dauðans

Já, ég skellti mér á útileikinn gegn Marseille og svo á heimaleikinn gegn Man Utd. Þetta var vægast sagt viðburðarík ferð sem ég fór með félaga mínum Sigurði Hjaltested. Í grófum dráttum fór þetta svona: Unnum Marseille, réðum Marcelo Lippi sem landsliðsþjálfara Íslands, flugum til Liverpool með Charles Itandje, settumst á barinn til að ræða við Voronin, drukkum öl, fórum á frábæran leik í Wigan, Phil Thompson hress, fórum yfir komandi leik með David Johnson og John Aldridge, töpuðum fyrir Man Utd og fórum svo yfir málin með þeim Tom Hicks, George Gillett og Foster Gillett. Sem sagt ekki mikið sem gerðist 🙂

Byrjum á byrjuninni: Ferð framundan til Parísar og þaðan með lest til Marseille. Við vorum búnir að mæla okkur mót við þá Mark, Sean, og the Hobbit í Marseille um kvöldið þar sem átti að kanna barmenningu Frakkanna. Það vantaði svo ekkert upp á það að það var sko reynt. Fundum nokkra fína staði þar sem var hægt að fá sér nokkra öllara. En auðvitað þurftu menn að spara sig því stóri dagurinn var daginn eftir.

Hann var tekinn svona passlega snemma, og við urðum aldrei varir við þessa „drepleiðinlegu“ stuðningsmenn Marseille. Það fer vont orð af þeim, en þarna vorum við Liverpool-mennirnir í miðbænum að syngjast á við þá frönsku. Terry bættist fljótlega í vinahópinn, en Andrew (from all over the place), Matty, Alister, Pete & co. voru allir fjarri góðu gamni, enda kölluðum við þá “Glory Hunters” því þeir klikka aldrei á úrslitaleikjum.

Franska lögreglan klikkaði þó „ekki“. Þeir héldu okkur fyrir utan völlinn eins lengi og hægt var, þó svo að aldrei hafi verið nein vandræði. Loksins þegar við vorum að labba upp tröppurnar, þá heyrðum við fagnaðarlætin í þeim sem þegar voru komnir inn, þegar Stevie G skoraði. Fjandans franska lögregla, þeir náðu samt ekki að skafa ánægjuna úr andlitum okkar og kringum þennann leik, þó svo að þeir hafi haldið okkur í rúman hálftíma inni á vellinum eftir að leik lauk. Þá var skundað í bæinn til að reyna að fá eitthvað að éta þó svo að seint væri. Þess má þó geta að Hobbitinn sem getið var um í byrjun úr vinahópnum, týndist í mannfjöldanum og náði aldrei að fá miðann frá félaga sínum. Hann fór sem sagt ekki á völlinn vegna stærðar sinnar og horfði á leikinn á pöbbnum.

Auðvitað fundum við þennann fína stað og við vorum varla búnir að koma okkur fyrir þegar kunnuglegt ítalskt andlit ásamt föruneyti skellti sér á borðið við hliðina á okkur. Þetta var enginn annar en fyrrverandi landsliðsþjálfari Ítala, Marcelo Lippi. Kallinn var greinilega hress og því var það aldrei spurning um að maður yrði að rabba við hann áður en gengið væri í veigarnar. Hann talaði nú ekki mikla ensku, en hann skildi það að ég væri frá Íslandi og setti tvo fingur upp í loftið með annarri hendinni, og bjó til núll með hinni. Fyrsti leikur hans með Ítali var einmitt þegar þeir töpuðu gegn Íslandi á Laugardalsvelli. Við vitum restina, þeir urðu heimsmeistarar og við… ekki orð um það meir.

Ég fór sem sagt fram á það við hann að hann tæki við liðinu okkar. Félagar hans þurftu nú að þýða það fyrir hann og einu viðbrögðin voru að yppta öxlum og brosa breitt. Ég sem sagt tók þessu sem svo að hann sé orðinn nýr landsliðsþjálfari okkar Íslendinga. Nú vantar mig bara sjálfboðaliða til að segja Óla Jó tíðindin. Ég varð að lokum að láta einn draum rætast. Þeir eru ekki margir þekktari vindlareykingamennirnir og verð ég seint þekktur fyrir vindlareykingar. Ég varð þó að biðja kallinn um einn af þessum frægu Lippi vindlum og kveikja í. Hann var ekki lengi að bjóða mér einn og fékk sér sjálfur mér til samlætis. Ég fór svo að borðinu okkar og þar fengu allir að taka á þessum fræga göndli og spúa (meira að segja þeir sem aldrei hafa tekið einn smók á ævi sinni).

Jæja, ég ætla nú ekki að fara út í nein smáatriði, heldur var svo haldið af stað til Parísar daginn eftir með lest og tekið beint flug til Liverpool. Það var nú ekkert merkilegt svo sem, en hann var dularfullur þessi franski sem sat fyrir aftan okkur og hafði fengið einn aukadag í leyfi til að hitta familíuna í París, Charles Itandje. Hann talaði nú ekki mikið blessaður, en var einkar almennilegur en fann verulega fyrir því að einhverjir um borð höfðu borið kennsl á hann þrátt fyrir að fela sig inni í þvílíkri hettupeysu og leit meira út fyrir að vera útúr glingraður rappari frá Ameríku. Við komum til Liverpool seint á miðvikudagskvöldinu og nú voru heilir 2 dagar til stefnu í undirbúning fyrir komu nokkurra hópa frá Íslandi.

Fast Forward til laugardags og við vorum komnir með einn af þessum hópum á völlinn í Wigan. Taumlaus skemmtun enda frábær hópur þar á ferð. Átta mörk, rautt spjald, víti fór forgörðum og Wigan-menn áttu ekki til orð yfir að það væri kominn hópur frá Íslandi til að sjá Wigan-leik. Þeir viðurkenndu þó að þeir vissu vel að það væri væntanlega eitthvað annað og meira sem væri að draga okkur til Englands. Um kvöldið var svo farið út að éta og þar hittum við fyrir Voronin í vondu skapi. Það kom fljótlega í ljós hvers vegna það var, en það var þá nýbúið að tilkynna honum það að hann kæmist ekki í hópinn fyrir leikinn daginn eftir. Hann var nú samt bara í vatninu blessaður og var að bíða eftir borði ásamt umboðsmanni sínum. Voronin var nú ekki sá færasti í enskunni en ég átti í staðinn stutt spjall við umbann. Mér fannst athyglisvert að hann er einungis með 7 menn á sinni könnu, sagðist sjá vel um sína menn og einnig að hann hafi spottað Voronin út þegar hann var 14 ára og hafi haldið utan um allt fyrir hann síðan þá. Geðþekkur náungi þessi umbi. Hinn hópurinn fór út að borða með hinum stórbrotna karakter Phil Thompson og það eru hreinlega fáir sem eru jafn skemmtilegir í hóp eins og sá fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóri. Bara ekki spyrja hann um Souness, því þá fer góða skapið út um gluggann eins og hendi er veifað.

Leikdagur, David Johnson og John Aldridge mættir á svæðið til að hita Íslendingana upp. Þeim ferst það að vanda vel úr hendi, enda með eindæmum hressir og í þokkabót voru þeir um kvöldið að fara á árshátíð eldri leikmanna sem haldið var í borginni um kvöldið. Ég ætla ekki að fara neitt út í leikinn sem slíkan, enda nóg búið að ræða hann. Það var frekar döpur stemmning þegar upp á hótel var komið, en það lyftist brúnin á morgun þegar menn sáu að Steven Gerrard væri mættur í lobby-ið, en það var augljóst að sá var ekki í par góðu skapi eftir frammistöðu dagsins. Hann reyndar skrifaði áritanir hjá nokkrum tugum stuðningsmanna, en svo var komið nóg og hann bað um smá frið enda var hann þarna staddur að bíða eftir borði ásamt einum sjö vinum sínum. Þeir hörðustu biðu í hálftíma eða svo og reyndu aftur, og þá var það ekkert mál.

En menn reyndu hvað þeir gátu að hrista þessi leiðindi af sér og það var bara eitt að gera, skunda á hótelbarinn. Við fengum þá í heimsókn, Andrew (from all over the place), Matty, Mark, Alister og Sean og það er aldrei nein lognmolla í kringum þá. Við hittum fyrir fjöldan allan af USA mönnum sem við höfðum skálað einstaka sinnum við síðustu kvöldin. Þeir voru í ágætis gír og tóku þessarri hersingu fagnandi. Mark og Matty tóku sig til við að kenna þeim alvöru Liverpool söngva og áður en maður vissi af þá var komin alveg hrikaleg stemmning þarna og við ný búnir að tapa á móti Man Utd. Ætli það hafi ekki verið reynt svona fimm sinnum að þagga niður í okkur áður en það nokkurn veginn tókst.

Við vorum með þetta allt okkar megin, því allir þessir kanar voru á vegum þeirra Hicks og Gillett. Ég átti langt og gott samtal við William Hicks, bróðir Tom, sem er búinn að vera stuðningsmaður Liverpool í mörg herrans ár. Ég hafði ekki hugmynd um það og hvað þá að sá aðili byggi í Skotlandi og vissi allt um þennann fallega leik okkar og var búinn að segja Tom bróðir frá þessu öllu saman. Á föstudagskvöldinu hafði ég einmitt hitt Foster Gillett og rætt við hann og því vissum við að fundur Rafa og eigendanna stóð einmitt yfir núna. Þeir eigendur áttu svo að fara á árshátíð eldri leikmanna áður en þeir kæmu á svæðið. Foster Gillett var meira að segja búinn að þiggja boð mitt á árshátíð Íslenska Liverpool klúbbsins ef dagsetning myndi henta, hann hafði ávallt langað til Íslands. Fyrir þá sem ekki vita hver Foster er, þá er hann núna staðsettur í Liverpool og er tengiliður eigendanna við Rick Parry og Rafa Benítez.

Tom kom síðan fyrr af þeim félögum og auðvitað kom hann við hjá okkur og átti gott rabb. Viðkunnanlegur maður sem er samt ekkert að hoppa af æsingi yfir hlutunum. Hann er mun alvörugefnari en sá minni sem kom ekki löngu síðar. Þar fer snillingur á ferð að nafni George Gillett. Hann var greinilega búinn með nokkur rauðvínsglös og sagði okkur frá því að hann hefði nokkrum sinnum komið til Íslands og að hann elskaði landið. Eftir að hafa rætt við hann í smá stund, skipst á nafnspjöldum og svoleiðis, þá kom stóri Mark til leiks. Stóri Mark er svo týpískur Scouser að það hálfa væri nóg. Hann vildi aðeins fá að ræða málin við manninn sem væri “gæslumaður” klúbbsins hans. George var algjörlega sammála því að það væru stuðningsmennirnir sem ættu klúbbinn.

Næst vildi Mark fá að vita hvort það væri einhver minnsti möguleiki á því að hann Rafa okkar væri á útleið. Þá greip George krumpað pappírssnifsi upp úr vasanum og sýndi okkur. Það var orðrétt fréttayfirlýsingin sem birtist í fjölmiðlum daginn eftir. Mark fussaði bara og sagði að þetta segði sér akkúrat ekki neitt. Eftir nokkrar setningar í viðbót voru þeir svo komnir með ennin saman og það beinlínis frussaðist út úr munnum þeirra beggja. Þetta var súrrealísk sjón, Gillett væntanlega í kringum 150 cm og Mark nær 2 metrum. Annar íklæddur Liverpool búningi og hinn í jakkafötum. Þetta var Kodak móment dauðans. Þetta endaði þó allt vel að lokum og þeir voru ásáttir um að Liverpool FC skipti öllu máli í þessu, en ekki einstaka persónur. Mark endaði þetta bara á að George þyrfti að byggja nýjan völl, hafa peninga til taks og láta svo Rafa í friði. Næst þegar þeir bræður koma á leik, þá mun George fara á The Park fyrir leik þegar hann er í fullri keyrslu, það var það eina sem hann bað Mark um að lofa sér.

Vinahópurinn var ekki á eitt sáttur hvernig ætti að túlka þetta allt. Sumir sögðu að útfrá þessu þá myndi Rafa fara í sumar, aðrir túlkuðu þetta sem svo að þeir væru að leggja sitt traust á Rafa. Það er engu að síður ljóst að menn eru engan veginn sammála um það hvernig kaupin á eyrinni eiga að gerast þegar kemur að leikmannakaupum. Það kom alveg skýrt út úr viðbrögðum þeirra félaga, beint og óbeint. Ég reikna því með því að einhver pirringur eigi eftir að verða hjá Rafa í framtíðinni, þrátt fyrir að búið sé að settla málin núna. Ég er reyndar á því að það verði aldrei aftur jafn „public“ eins og þarna um daginn og nú er Foster kominn sem „sáttasemjari“ og líst mér gríðarlega vel á þann mann. En þetta var svei mér eftirminnilegt kvöld þarna á hótelinu. Vonandi eiga menn eftir að vinna marga sigra saman og sjá hlutina frá svipuðu sjónarhorni í framtíðinni og þar mun Foster spila lykilhlutverk.

Sem sagt óborganleg ferð í heild sinni og það er nokkuð ljóst að við eigum eftir að fá margar heimsóknir að utan næstu árin hingað upp á klakann. Vonandi náum við að draga þessa aðila alla á árshátíð klúbbsins hérna heima, þannig að fleiri Íslendingar geti notið þess að kynnast þessum frábæru karakterum. Þeir Foster, Phil Thompson og John Aldridge eru svo sannarlega ákveðnir í að sækja slíka samkomu, og nú er bara spurning um hvenær, en ekki hvort. Vonandi hafið þið haft gaman að þessu, því ég hafði það svo sannarlega. Langaði að deila þessu með ykkur, ef ykkur leiddist, þá verðið þið bara að finna góða leið í að vinna tilbaka tímann sem tók að lesa þetta.

25 Comments

  1. Stórbrotin ferðasaga og kannski það versta er hvað þú lýgur mikið SSteinn 🙂

  2. Snilldar ferðapistill og mögnuð ferð greinilega, verst að f****s United þyrfti að setja svartan bletta á þetta.

    Miðað við lýsingarnar á þessu spjalli hjá Gillett og Big Mark þá ættu þeir allavega að vita first hand skoðun scouserana 😉

  3. Ég veit ekki hvort ég eigi að hlægja eða gráta, þú ert frábær penni! Það er bara ádeiluatriði hvort maður trúi einhverju af þessu

  4. Furðulegt að þú og Siggi Hjalt séu ekki orðnir leikmenn Liverpool eftir þetta alltsaman:)…
    En einhverstaðar heyrði ég það Steini að þú ætlaðir að hlaupa um völlinn nakinn ef við myndum vinna Marseille,hvað klikkaði þar?

  5. Jahh, ég allavega tók með mér minjagripi fyrir þá sem myndu ekki trúa mér. Er með vindlastubbinn hans Lippi og nafnspjaldið hans George 🙂

    Ég meira að segja ýkti ekki einn einasta hlut í sögunni, og það er fact.

    Og þetta með að hlaupa nakinn, þá hef ég reyndar ekki heyrt af því 🙂 Hefði verið lítið mál þarna þennann hálftíma sem við þurftum að bíða á vellinum eftir leik.

  6. Vil bara taka það fram sérstaklega að ég beið ekkert eftir því að sjá Stein skokkandi um völlinn,bara til að fyrirbyggja allann misskilning…..

  7. Ég vona allavega að spennan sem maður upplifði þennann dag hafi eingöngu stafað að leiknum sjálfum,

  8. Djísús, Einar Örn búinn að koma upp um það hver það var sem beið eftir því að sjá þetta 🙂

  9. En annars, það er enginn búinn að bjóðast til þess að segja Óla Jó tíðindin? Á ég að trúa því að það séu engir sjálfboðaliðar í það?

  10. Hólí sjitt, það vantaði bara að þú hefðir hitt Páfann (þennan dauða) og Vladimír Pútín í ferðinni! 🙂 En a.m.k. gott að þessir herramenn frá Ameríku mingli svolítið og fái skoðanir stuðningsmannanna af götunni beint í æð…

  11. Kæri SStein, ég er á leiðinni heim frá Noregi á Sunnudagskveldið, geturður prentað þetta út fyrir mig, ég skal svo hitta kallin, þekkjann persónulega og kem þessu til skyla 😀
    Takk fyrir frábæra sögu, afþregingu í mirkrinu hérna í Noregi, veitti ekki af heheheheh

    AVANTI LIVERPOOL – RAFA – http://WWW.KOP.IS

  12. Þú lætur nátturulega óvin nr 1 hjá KSÍ hann Henry Birgir hjá fréttablaðinu sjá um að skila þessu til þeirra hjá KSÍ.Lippi getur verið aðstoðarstjórinn hjá Óla Jó og setið upp í VIP stúkunni þar sem hann getur bæði reykt að vild og séð betur yfir völlinn og verið í gsm sambandi við Óla,líkt og Bjarni J var hjá Jolla.
    Þetta er bara hugmynd þótt mér sýnist að áhuginn snúist eingöngu að þér Steini minn

  13. mögnuð saga og gaman að lesa hana. ætli maður verði ekki bara að samgleðjast þér Steini eftir svona ferð (þrátt fyrir mikla afbrýðisemi), hvað er annað hægt!

  14. Algjör tær snilld…. Best ever inside look … sem ég hef lesið. 🙂

    Takk fyrir að deila þessu hér á blogginu.

    Ég hefði sko verið til að sjá þetta moment með Gillett og Mark.. alveg magnað.

    En mest af öllu hefði ég viljað hitta Steven King Gerrard og fá undirritun frá honum á Liverpool trefilinn minn. 🙂 Það er maður sem mig langar óskaplega að hitta auglitis til auglitis.

    Ég er að fara í mína jómfrúarferð á Anfield á næsta ári. Best vera alltaf tilbúinn með tússinn í vasanum!! Ef maður fengi bara þó ekki væri nema einn þriðja af uppákomum þínum SSteinn þá hefur maður alveg helling að segja barnabörnunum!!!

    Á hvaða hóteli varstu í Liverpool??? 🙂

  15. SSteinn: Hvað með Pétur Péturss.? Fær hann að halda áram sem aðstoðarmaður? Ég held að það sé mikilvægt að hafa íslenskan aðstoðarmann 🙂

  16. Nei ekki svo ég viti en spænsku, flæmsku og hollensku talar hann. Hjálpar það eitthvað?
    Annars er athyglisvert að skoða tölur frá knattspyrnuferli Péturs:
    1979-1980 Feyenoord 33 leikir og 23 mörk
    1978-1979 Feyenoord 22 leikir og 12 mörk
    1978 ÍA 17 leikir og 19 mörk
    1977 ÍA 18 leikir og 16 mörk

  17. Heyrðu ég var á hóteli sem heitir Malmaison og er alveg nýtt hótel rétt hjá Albert Dock.

    Aggi, það verður enginn Íslenskumælandi í þjálfarateyminu, enginn tengsl við fortíðina 🙂

Rafa vill endurnýja samninginn

Dráttur á morgun: flestir vilja Real