Áramótakveðja

Árið 2007 er að líða. Í knattspyrnunni er oft sagt að vika geti verið langur tími, eins og hefur margoft sýnt sig hjá Liverpool í ár, en tólf mánuðir geta einnig liðið hratt. Stundum gerist það að manni þykir þeir líða allt of hratt. Allar fyrirætlanirnar, öll loforðin, öll markmiðin; stundum er eins og tíminn hlaupi frá manni og maður rankar við sér á enn einum gamlaársdeginum þar sem maður klórar sér í kollinum og spyr, „hvert flaug tíminn eiginlega?“

Það má segja að Liverpool-liðið sé í þeirri stöðu í dag. Liðið okkar er eins og einstaklingur sem hóf árið með loforðum um að hætta að reykja, losna við aukakílóin, taka til í geymslunni og klára nú loks að byggja bílskúrinn í innkeyrslunni, en endar árið feitari en hann hóf það, skjótandi upp flugeldum á bílskúrsgrunninum með vindil í kjaftinum … en með nýjan jeppa í innkeyrslunni sem gefur tilefni til að finnast árið hafa verið mjög farsælt.

Fernando Torres er jeppinn okkar. Ef við lítum til baka á það sem stóð upp úr á árinu, jákvætt séð, er hægt að nefna tvennt; framganga liðsins í Meistaradeildinni sl. vor, þar sem það komst enn og aftur í úrslit en tapaði í þetta sinn, og svo kaupin á Fernando Torres í sumar. Það er langt síðan við höfum fagnað komu jafn góðs leikmanns til Liverpool og framtíðin virðist bjartari með hann innan raða.

Það er samt ekki hægt að ljúga að sjálfum sér. Þrátt fyrir jeppann í innkeyrslunni er einstaklingurinn okkar ekki búinn að ná neinum af þeim markmiðum sem hann setti sér í ársbyrjun. Þegar við skoðum það sem hefur farið halloka í ár er ég hræddur um að útlitið sé varla fagurt:

Klúbburinn skipti um hendur og inn komu tveir Bandríkjamenn, Tom Hicks og George Gillett Jr. Þeir keyptu Liverpool FC fyrst og fremst undir tveimur formerkjum; að auka magn og megin félagsins á leikmannamarkaðnum, þar sem Rafa og Gérard Houllier þar áður höfðu tæpast getað keppt við bolmagn klúbba eins og Manchester United, Chelsea og Arsenal. Þá áttu þeir að koma með fjármagn inn til að byggja nýja völlinn sem er komin svo brýn þörf á fyrir Liverpool framtíðarinnar.

Hvað gerðist þá? Hér stöndum við, einhverjum tíu mánuðum eftir að þeir tóku við, á algjörum óvissupunkti í sögu klúbbsins. Búið er að setja áætlanir um nýja völlinn sem var kynntur með pompi og prakt í sumar á hilluna vegna fjárhagsvandræða, fresta lántöku fram í febrúar, og við vitum ekkert hvaða völl á að byggja né hvenær hann verður byggður. Rick Parry og eigendurnir keppast um að segja okkur að slaka á, að þetta sé allt á áætlun, en menn geta bara öskrað ‘úlfur! úlfur!’ ákveðið oft áður en fólk hættir að hlusta.

Á leikmannamarkaðnum er staðan ekki mikið betri. Þeir veittu Rafa fjármagn til að versla Torres, Benayoun og Babel sl. sumar, en hirtu svo megnið af þeim pening til baka með sölum á leikmönnum eins og Bellamy, Cissé, Gonzalez og Luis García. Þannig að eyðslan, nettó, var ekki svo gríðarleg. Þrátt fyrir þetta er Rafa, og um leið við áhangendurnir, að fá þau skilaboð fyrir janúar að hann verði jafnvel að selja til að geta keypt? Maður spyr, ef hann þarf að selja til að geta keypt, og ef áætlanir um nýjan völl eru í sóttkví vegna fjárhagsörðugleika, hvernig í ósköpunum getur þá kaup þessarra manna á klúbbnum verið séð sem skref í rétta átt?

Innan vallar er staðan ekki mikið betri í dag. Liðið skreið upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar og gæti svo sem endurtekið leikinn frá í fyrra og farið alla leið í úrslit, en það verður að teljast ólíklegt að það gerist tvö ár í röð. Chelsea slógu okkur út í 8-liða úrslitum Deildarbikarsins í miðjum desember og keppni í FA bikarkeppninni hefst eftir tæpa viku. Í Úrvalsdeildinni, sem öllu máli átti að skipta þetta árið, hefur framgamga liðsins valdið algjörum vonbrigðum. Tölfræðilega erum við með þremur stigum meira í ár heldur en eftir jafn marga leiki í fyrra, en á móti kemur að í fyrra vorum við á þessum tímapunkti búnir að fara í alla erfiðustu útileikina og tapa þeim, en nú eigum við þá nær alla eftir.

Með öðrum orðum, þá er liðið undir stjórn Rafael Benítez í nánast sömu stöðu og í fyrra, í öllum keppnum. Auðvitað gefast menn aldrei upp á meðan það er tölfræðilegur möguleiki í deildinni, en raunsæið segir manni að þótt munurin sé tíu stig og geti farið niður í sjö með leiknum sem er til góða, þá hefur Liverpool undir stjórn Rafael Benítez ekki verið nógu stöðugt í sigrum sínum til að minnka þannig mun. Því ætti það að fara að breytast núna?

Auðvitað vill maður ekki enda árið á neikvæðninni einni saman, en hún er ansi nærri manni þessi áramótin. Ég ætla að gerast svo kræfur að spá því hvað árið sem er að byrja ber í skauti sér fyrir Liverpool FC:

  • Tíu stiga forskot toppliðanna á okkur í Úrvalsdeildinni eykst. Við endum í fjórða sæti, svona 8-15 stigum frá toppnum. Raunsætt mat.
  • Internazionale eru sterkt lið og munu slá okkur út í Meistaradeildinni. Ef við sigrum þá förum við út í 8-liða eða undanúrslitum. Sé okkur ekki fara annað árið í röð í úrslit.
  • Við vinnum FA bikarinn á Wembley í vor og verða það fínar sárabætur fyrir annars vonbrigðatímabil.
  • Rafael Benítez verður látinn fara í sumar. Eigendurnir munu kenna gengi liðsins um (réttilega) en rétta ástæðan verður ósætti á milli þeirra og stjórans.

Þetta er ískalt, raunsætt mat mitt á gamlaársdegi ársins 2007. En ef það er eitt sem við getum gefið okkur sem dagsatt í þessum heimi, þá er það sú staðreynd að ég er ömurlegur spámaður. 🙂

Annar er sá sannleikur að það er aldrei leiðinlegt að halda með Liverpool FC. Þessi rússíbanaferð sem við höfum á þessari síðu verið þeirrar ánægju aðnjótandi að fjalla um og fylgja með ykkur síðan vorið 2004, þegar klúbburinn skipti síðast um framkvæmdarstjóra, hefur verið frábær, ömurleg, spennandi, óvænt, fyrirsjáanleg … en aldrei leiðinleg. Ef það er eitt sem ég get lofað ykkur, án nokkurs vafa, er það að hvað sem verður hjá Liverpool innan og utan knattspyrnuvallarins á árinu 2008, þá verður það ekki leiðinlegt, og sennilega ekki fyrirsjáanlegt heldur.

Við hér á Liverpool Blogginu óskum ykkur, lesendum okkar nær og fjær, gleðilegs árs og þökkum fyrir árið sem er að líða. Við sjáumst hér á nýju ári, með von í brjósti og bjartsýnina að leiðarljósi! **GLEÐILEGT ÁR!**

25 Comments

  1. Takk fyrir þetta “summary” á árinu og svona það sem er að fara gerast næst. En ég var að spá ætliði að koma með eitthvað slúður fyrir Janúargluggann eða ætliði bara að koma með skýrslur um gaurana sem verða keyptir(vonandi fleiri en einn) og voða fátt að segja annað en
    Gleðilegt nýtt ár!!! 🙂

  2. Anton, við munum fylgjast með því sem gerist um leið og það gerist en reynslan hefur kennt okkur að það er tímasóun að ætla að taka saman skýrslur um alla þá sem liðið er orðað við.

  3. Ég get ekki ímyndað mér Liverpool án Benitez… Það yrði hvílík afturför að reka þennan mann.

    Síðan beinlínis sakna ég Moores þegar þú súmmerar könunum upp svona.

    Gleðilegt nýtt ár!

  4. Já ég skil vel að það sé tilgangslaust að vera með skýrslu um alla en var nú bara að meina þá sem eru nefndir í “traustum” miðlum.
    Nú er bara að vona að kanarnir drekki of mikið kampavín og leggi inn stórar fjárhæðir á Liverpool-leikmannamarkaður reikninginn 😀

  5. Anton, við fylgjumst að sjálfsögðu með þeim sem verða nefndir í traustum miðlum. Við lærðum hins vegar af reynslunni fyrsta árið sem við fjölluðum um Liverpool. Þá skrifuðum við Einar Örn pistla um svona 20-25 leikmenn á að giska, og aðeins tveir þeirra eða svo gengu til liðs við Liverpool. Við nennum því ekki aftur. 😉

  6. Vandinn við leikmannakaup Liverpool nánast frá upphafi er að við erum oftast að kaupa menn í milliflokki eða neðar (efnilega). Við kaupum nánast aldrei ofurstjörnur (nema þá Torres í sumar). Sjáið Man Utd: þeir hafa keypt ansi marga sem kosta upp í 30 millj. punda (Rooney nýjasta dæmið). Flestir þeirra hafa staðið sig glimrandi hjá liðinu. Kannski er málið líka að Alex kann trikkin. Okkar þjálfarar kunna annað hvort ekki trikkin eða fá ekki stuðning til þess hjá eigenda liðsins. Við erum alltaf að kaupa næstbestu mennina og efnilega stráka, sem sumir hverjir hverfa hratt. Það gengur ekki að komast á toppinn með svoleiðis mannskap því það tekur alltof langan tíma (á sama tíma sem þeir allra bestu í liðinu að eldast og tína tölunni: aldur, meiðsli eða sala: Owen, Fowler einhver?). Meðan staðan er þannig breytist ekkert. Liverpool verður aldrei í toppsæti í ensku úrvalsdeildinni meðan Arsenal og Man Utd (og síðustu árin) Chelsea eru á svona siglingu. Það þýðir ekkert að loka augunum og berja mig fyrir að segja sannleikann. Þetta eru staðreyndir sem hafa verið fyrir framan okkur síðustu árin. Því miður. Mikið vildi ég að það breyttist. Ég man árin 1974-1977. Og líka nokkur þar á eftir. Hvers vegna hefur Liverpool ekki unnið deildina í 20 ár?

  7. glæsilegur pistill kar. það er greinilegt að liverpool er í sókn og að liðið er að styrkja sig bæði fjárhagslega og knattspyrnulega. ég hlakka til ársins 2008 og vona að við lyftum 1-2 dollum í vor 🙂

  8. Ég er ekki alveg eins svartsýnn og spái okkur 3 sætinu 5-8 stigum á eftir toppliðinu sem verður vonandi frekar Arsenal heldur en Man.Utd og ég yrði mjög sáttur við að vinna FA bikarinn en ég þori engu að spá til um hvernig fer gegn Inter Milan, ætla áð bíða með að meta það fram í febrúar en takk fyrir frábæra síðu og gleðilegt ár 🙂

  9. Ég hef alltaf litið á þetta þannig, síðan Benitez kom þ.e.a.s., að hann eigi eftir að gera Liverpool að stórveldi aftur, en að það muni taka hann jafnlangan tíma og það tók Ferguson með Manchester er ekki alveg með það á hreinu hvað hann var búinn að vera lengi þangað til hann vann þrennuna (uhhhh fæ bara hroll að skrifa eitthvað jákvætt um Man U) Því að síðan þá hefur hann ekki þurft að hafa neitt fyrir því á leikmannamarkaðinum, ef hann vildi einhvern þá fékk hann viðkomandi leikmann. Til rökstuðnings leikmenn sem ég man eftir í stuttu bragði sem kostuðu 15+ milljónir. Ferdinand(30), Rooney(30), Nani(17), Forlan(?), Veron(?) eru örugglega fleiri þetta eru bara þeir sem ég man eftir.
    Ég er alveg með það á hreinu að ef Rafa fær nógan tíma þá verða þetta upphæðir sem við munum sjást of þegar leikmenn eru keyptir til Liverpool.
    Ég meina ef þið pælið í því hverju hann hefur náð að afreka með LALA hóp hugsið ykkur hvað hann getur með 11 heimsklassamenn!!

  10. Hargreaves (17), Anderson(17), Carrick(18,6) og Tevez á einhvern helling. Og svo kostuðu Ronaldo og Saha eitthvað helvíti nálægt 15 millum

  11. Flottur pistill eins og við er að búast frá þér Kristján.
    Já ég held þetta sé nokkuð save spá hjá þér. Vona bara FA detti inn, en ef við mætum stórliði í úrslitunum verðum við sennilega betri aðilinn og töpum. Ég sagði fyrir tímabilið að ég vildi Rafa burt ef við enduðum í 4.sæti. Núna þegar það hljómar raunverulegt er ég ekki svo viss.

    *Inter Milan… gat ekki verið verra. En það vorum við sem enduðum í 2. sæti riðilsins og getum sjálfum okkur um kennt. Mín spá er Inter áfram. Má samt alltaf vona.

    *15 stigum á eftir nýkrýndum meisturum Man U. í lok tímabils er fullkomin hörmung. Ronaldo maður leiktíðarinar.

    Gleðilegt nýtt ár….

  12. Sælir félgar, nær og fjær !

    Vill óska ykkur gleðilegs nýs árs, og þakka gamlar og góðar stundir á árinu sem senn er að líða !

    Vonandi byrjum við nýja árið með stæl……

    YNWA

  13. Ég hélt í vonina um titilbaráttu í deildinni alveg fram að jafnteflinu við Man City, leikur sem við nauðsynlega þurftum að fá þrjú stig úr. Ég tel að FA bikarinn sé lágmarkið sem Bentiez þarf að ná til að halda sætinu. Hvað myndu menn segja ef við stæðum uppi titillausir og einungis með fjórða sætið í deildinni? Nei nei það er nóg í boði enn og allt getur gerst.

  14. Fyrsta kommentið á nýju ári. Mig langar að þakka Hannesi Bjartmari, Daða Kjartani, Andrési og Trausta fyrir málefnalega umræðu á síðasta ári. Skál og áfram Finnan

  15. Benitez fer ekki, auk þess mun Torres bæta sig enn frekar og sýna velgengni sína einnig gegn stærri liðum.. vona ég :))

  16. Gleðilegt nýtt ár! Takk fyrir frábæra síðu.

    Alveg sama hvað gerist á árinu 2008…. þá syngjum við þennan söng af ástríðu við hvert tækifæri sem gefst… 🙂

    http://www.youtube.com/watch?v=XsNLk4yVDEM&feature=related

    When you walk through a storm
    Hold your hands up high
    and dont be afraid of the dark……

    Gleðilegt nýtt ár kæru púllarar nær og fjær.

  17. Góður pistill Kristján Atli. Raunsær og málefnalegur.
    Mín nýársheit eru eftirfarandi:
    Benitez hendir skrifblokkinni og biður leikmenn Liverpool um að “just play football”.
    – Torres fær sinn eiginn söng, styttu og official paellu á Anfield.
    – Tom Hicks vinnur þann stóra í lottó og kaupir einhvern annan sóknarmann en David Healy.
    – Maggi Gylfa og Óli Þórðar lýsi bara Manchester United leikjum.
    – Lucas Leiva fær að spila meira og meira og helst miklu meira en það.
    – Einhver segir Gerrard brandara
    – Mamma Andres Iniesta flytur til Liverpool
    – Ryan Babel verður ekki gerður að “fremsta varnarmanni Liverpool”
    – Sissoko verður framtíðarstjarna Juventus.
    – Liverpool aðdáendur á Íslandi hætta að segja “bring Pako back”.
    – Orðið rotation verði lagt niður í ensku máli

    ó og Manchester United kaupir Titus Bramble.

    Gleðilegt ár!

  18. Góð samantekt fyrir árið, hef ekki verið að skrifa hér oft en lesið mikið og þakka kærlega fyrir frábæra síðu og góða umfjöllun. Er sammála með Benitez að hann verði látinn fara í sumar, eina sem bjargar því er að við snúum blaðinu rækilega við og tökum fyrsta sætið í PL. Annars ætla ég ekkert að fjölyrða meira um það hér. Gleðilegt árið!

  19. Vonandi verður komandi ár gæfuríkt fyrir okkur. Men eru að tala um að við séum að kaupa miðlungsmenn af því að RB fái ekki pening fyrir stórstjörnum. Ég spyr af hverju er verið að kaupa t.d 3 miðlungsleikmenn fyrir kannski 18 millur í stað þess að kaupa 1 góðann fyrir sömu upphæð?

  20. Má ekki gleyma að Liverpool er European Capital of Culture ´08 svo það er eiginlega bara skylda að vinna að minnsta kosti einn stóran bikar ! 🙂

  21. Gleðilegt nýtt ár Liverpool fólk, nær og fjær!
    Já Jói! Væri alveg tilvalið að vinna Evrópubikarinn á þessu Evrópu menningarhöfuðborgarári Liverpool-borgar 🙂

  22. Vildi bara þakka fyrir frábæra síðu. Þú ert heldur betur að hitta í mark með þessum pistli Krisján, ég er svo sammála þér….

  23. Sælir félagar.
    Þakka þér Kristján fyrir yfirlitið. Vel unnið, raunsætt og því miður allar líkur á að allt gangi eftir sem þú segir þar.
    Vil þakka ykkur drengjum öllum fyrir frábæra vinnu ,alúð og málefnalega umræðu (næstum alltaf 🙂 ) á liðnu ári og óska ykkur og öllum Liverpool aðdáendum sem hér banka uppá gleðiríks, titilberandi og ánægjulegs nýárs.
    Það er nú þannig.

    YNWA

Man City 0 – Liverpool 0

Wigan á morgun!