Fréttir af miðvörðum og Alonso

Það er ágætt að byrja daginn á góðum fréttum af miðvörðum Liverpool: Agger og Skrtel að koma til baka.

Agger, sem hefur verið frá í fimm mánuði með ristarbrot í fæti, hefur verið að æfa í sérsniðnum fótboltaskóm og hefur nú fengið græna ljósið á að byrja að sparka í bolta og spila á ný. Það er þó væntanlega eitthvað í að hann spili fyrir aðalliðið á ný, þar sem Rafa ætlar að mjaka honum inn í þetta rólega. En við höfum fjóra deildarleiki (þar af þrjá á Anfield) áður en liðið ferðast til Mílanó-borgar til að spila seinni leikinn við Inter, þannig að kannski nær hann að vera búinn að spila eitthvað smá fyrir þann leik og getur verið á bekknum þar.

Ein af ástæðum þess að Rafa getur leyft sér að flýta sér hægt með Agger er góð innkoma Martin Skrtel í aðalliðinu. Hann meiddist aðeins í síðustu viku og missti af leikjunum gegn Barnsley og Inter, en er nú óðum að verða leikfær á nýjan leik. Þó er talið að hann nái ekki að leika gegn Middlesbrough á morgun, en eftir það ætti hann að koma til greina í alla leiki.

Talandi um leikinn á morgun, þá eru Agger og Skrtel frá eins og ég sagði hér að ofan, og Jamie Carragher er í leikbanni eftir að hafa safnað gulum spjöldum að undanförnu. Það er því bara Sami Hyypiä af miðvörðum okkar sem er leikfær (Jack Hobbs er á láni hjá Scunthorpe). Við munum því væntanlega sjá Alvaro Arbeloa eða Johnny Riise hlaupa í skarðið við hlið Finnans stóra á morgun. Vonandi kemur slík nauðlending ekki að sök.

Í fréttinni hér að ofan er þó eitt sem gefur tilefni til áhyggja. Xabi Alonso ku vera eitthvað ósáttur við að hafa dottið aftur í goggunarröðinni, þökk sé vasklegri framgöngu Mascherano og Lucas Leiva, og ætlar að íhuga framtíð sína í sumar.

Ég vona að Alonso fari ekki, en um leið vona ég að ef hann fari að þá fáum við toppfé fyrir hann, enda eðal leikmaður hér á ferð. Ef við erum að eyða 17m punda eða svo í Mascherano eigum við alveg að geta kreist svona 15m út úr Barca eða Real fyrir Alonso. Menn segja að það sé ekki bara goggunarröðin sem valdi því að framtíð hans er óljós, heldur líka það að konan hans er ólétt og hann gæti, eins og Luis García, viljað ala börnin sín upp í heimalandinu (þýðir það að Pepe Reina vill líka fara á endanum? Barnið hans er ca. eins árs núna).

Eins og ég segi, þá vona ég að við höldum Alonso. Þetta er eðalleikmaður sem hefur reyndar ekki náð sér á strik í vetur, en hann á miklu meira inni og hlýtur að fara að sýna sitt rétta andlit bráðlega. En ef hann vill fara og við getum ekki stöðvað hann vona ég að við fáum toppaur fyrir, svo hægt sé að setja kraft í að fá einhvern eins og Diego eða Pablo Aimar í staðinn.

14 Comments

  1. Já, ekki það að ég vilji tapa mér í einhverji svartsýni útaf Spánverjunum, en það er alveg ljóst að ef að Atletico Madrid gerðu Reina gott tilboð, þá myndi hann á endanum hugsa sér til hreyfings. Mér fannst til að mynda alltaf fáránlegt að selja Scott Carson í janúar – betra væri að bíða til sumarsins og tryggja það að Reina væri 100% sáttur við allt áður en haldið væri áfram.

    Og varðandi Xabi, ef ég gæti fengið aftur þann Xabi sem spilaði gegn Norwich – sú leikskýrsla minnir okkur á það hversu mikið álit við höfðum á honum. Ef við gætum fengið hann tilbaka, þá á auðvitað ALDREI að selja hann. En sá Xabi sem við höfum séð á þessu tímabili hefur einfaldlega verið afleitur.

  2. Ég er nú á því að meiðsli hafi haft mest að segja um getuleysi Alonso á þessu tímabili, svo hjálpar auðvitað ekkert að hann er í liði með mjög sterka miðju og á því erfiðara um vik að komast í leikform, það er ekkert öðruvísi hjá Barca eða Real. Ég efa að hann sé að fara í þau lið og vona mjög að við höldum þessum fjórum miðjumönnum á næsta tímabili. Alonso hefur nú ekki oft lent í því að komast ekki í liðið hjá okkur og ef hann hefur einhvað undir sér þá vinnur hann sætið sitt bara aftur með baráttu. Það er svona sem samkeppni bætir leikmenn, þeir sem eru ekki í liðinu eiga að leggja harðar af sér og berjast, ekki fara við fyrsta tækifæri (ég er ekki að tala um Sissoko samt, hann gerði rétt;))

    En þó að þeir fari (Garcia og Alonso) þá er ekki þar með sagt að allir samlandar þeirra vilji fara um leið og þeir punga út krakka, ég bara sé ekki fyrir mér að við förum að selja Reina í náinni framtíð, er ekki nýbúið að semja við hann? (eins og Alonso reyndar).

    og svo smá spurning, erum við búnir að selja Carson?

  3. Nei, við erum ekki búnir að selja Carson. Þetta er kannski örlítið brenglað orðalag hjá mér – ég var að tala um að mér fannst umræðan um að selja hann í janúar ekki vera skynsöm.

  4. Það væri nú enginn heimsendir að selja Alonso í sumar 15m því við þurfum pening fyrir heimsklassa kantmanni!

    Manni finnst eins og vasarnir séu ekki djúpir hjá eigendunum þessa dagana þess vegna er sala á Alonso alls ekki slæm hugmynd.

    Sissoko -> Masch
    Alonso -> Queresma
    Riise -> vinstri bakvörður (Lahm í draumaheiminum, eigum sennilega lítið í Barca og Scum Utd)
    eigndur -> Alves/framherji

  5. Ætli Skrtel spili nú samt ekki á laugardaginn? 10 dagar frá er nú ekki mikið, ætti að geta spriklað með

  6. Slúðrið er nú að Agger byrji óvænt á morgun.
    En svona með, mögulegri, sölu á Alonso og hugsanlega fleirum. Hvað finnst mönnum vera raunhægt að verði keypt fyrir mikið í sumar?

  7. Ég er alveg til í að sjá hvað við fáum fyrir Alonso í sumar, svo fremi að hann haldi áfram að spila eins og hann hefur gert á þessari leiktíð. Ef hann nær sér á strik þá vil ég halda honum, stilla Alonso og Mascherano upp á miðjunni og Gerrard úti á hægri væng / frjálsri stöðu. Fá svo einhvern stórkostlegan vinstri kantmann (nafn óskast)

    Annað mál með Reina, hann eigum við alls ekki að selja því í honum erum við með einn allra besta markvörð í heiminum!

  8. Af opinberu síðunni: Agger closing in on return.

    Hér segir að Agger verði ekki með á morgun en muni leika varaliðsleik í næstu viku, og í kjölfarið jafnvel koma til greina í aðalliðshópinn um næstu helgi. Í fréttinni segir einnig að Skrtel sé orðinn heill og verði væntanlega með Hyypiä í vörninni gegn Boro á morgun. Góðar fréttir. 🙂

    Ég verð að viðurkenna, eins mikið og ég elska Carra og Hyypiä, að ég er mjög forvitinn að sjá hvernig þeir Skrtel og Agger líta út saman. Vonandi fáum við að meta þá saman í örfáum leikjum áður en tímabilið er úti.

  9. Sælir
    Alonso er ein af bestu miðjumönnum í heimi og á hann að vera í Liverpool næstu árin. Hann hefur verið óheppin með meiðsli á þessari leiktíð líkt og Agger. Það er þekkt þegar leikmenn koma úr meiðslum sem þessum eru menn hræddi við að meiða sig og hefur það áhrif á andlegu hliðina/sjálfstraust manna.
    Mig minnir að Rafa hafi verið að tala um að Agger gæti í raun gert meira en hann væri að gera nú eftir að hann kom úr meiðslum, hann væri hræddur um að meiða sig aftur. Það sama má segja um Alonso, sérstaklega þar sem að hann meiddist aftur eftir að hafa farið of fljótt af stað.
    Alonso þarf að fá að spila 2-3 leiki og skil ég ekki afhverju Rafa lætur ekki menn sem eru að jafna sig af meiðslum og þurfa að koma sér í leikform spila með varaliðinu í stað þess að horfa á leiki af tréverkinu og koma svo inná til þess að lenda í vandræðum inni á vellinum og um leið brjóta niður það litla sjálfstraust sem þeir hafa.
    Alonso er ungur en reynslumikil leikmaður sem hefur sannað getu sína, hann hefur að vísu ein stóran galla – ekki náttúrulegur íþróttamaður en bætir það upp með lestri og greind í sínum leik, ef hann hefur heilbrigða samkeppni í kringum sig og sleppur við meiriháttar meiðsli mun hann spila stóra rullu í beinagrind Liverpool næstu árin að mínu mati.

    En ef betri helmingurinn er með heimþrá og er að þrýsta á að fara heim til Spánar vitum við sem eigum maka 🙂 að það er best að selja drenginn í sumar – ekki minna en 18 millur að mínu mati.
    YNWA

  10. sveitt en þessi Karim Benzema gaur er ansi heitur. var góður gegn man utd. og við þurfum einhvern huge í þetta lið. til að vera með. myndi ekki vilja sjá Alonso fara. með þessa fjóra miðjumenn erum við í góðum málum, tala nú ekki um ef einhver meiðist af þeim. Svo kemur Danny Guthrie og verður 5ti option.

  11. Verðum að fara að hætta að kaupa þessa fjallmyndarlegu leikmenn sem ganga út og láta svo stjórnast af konunum. Sjáið bara Riise, hann vill enda ferilinn hjá Liverpool. :D:D

  12. Ágætur leigubílsstjóri í Liverpool borg vildi meina það að konan hans Xabi Alonso vilji alls ekki búa þar. Þetta frétti ég í haust, á þeim tíma var drengurinn meiddur og eyddi víst miklum tíma heima á Spáni, líkt og Garcia.
    Sá hinn sami vildi nú meina að Reina væri allt annar handleggur, orðinn mikill Merseydrengur, eins og Rafa. Þetta var Evertonmaður reyndar! Bara svona um kjaftagang…..

  13. Þeir kunna ekki gott að meta þessir spanjólar. Og ef þeir geta ekki unnið í öðru landi eiga þeir bara að snauta heim til sín. Nóg fá þessir greifar borgað. Ég var nú að velta fyrir mér hvort Rafa þurfi ekki að fá sér enskan
    aðstoðarmann. Mann sem þekkir enska leikinn og getur hjálpað honum þar….nöfn sem koma í hugann…Rush..Rush..Rush…bara til að nefna fáa.

  14. Hjartanlega sammála Steinþór. Held t.d. að Steve Clarke hafi hjálpað Mourinho og nú Grant mikið!
    Veit ekki með Rush, væri meira til í Sammy Lee, Gary McAllister eða Mark Wright.

Liverpool 2 – Inter 0

Middlesbrough á morgun