Everton? Já, alveg rétt, þeir eru erkifjendur okkar!

Ég settist niður til að kíkja á lokamínúturnar í leik Everton og Portsmouth síðdegis í dag. Þegar ég settist fyrir framan tækið var staðan 1-1 og ég brosti innra með mér. Ég brosti af því að enn eitt árið virtumst við vera að fá staðfestingu fyrir því sem Everton-menn virðast blekka sig með á hverju ári – að lið þeirra er enn skrefi aftar en rauðu hetjurnar okkar.

Ég náði vart að klára hugsunina áður en Tim Cahill og Yakubu skutu Everton-mönnum aftur upp í fjórða sætið. Þess í stað sat ég eftir með hálfgerða óþægindahugsun í kollinum; svona eins og þegar maður er búinn að eyða öllu sunnudagskvöldi uppi í sófa, önnum kafinn við að forðast að hugsa um þvottinn sem á eftir að brjóta saman áður en maður getur farið að sofa. Já, við þurfum víst að taka Everton alvarlega þetta árið, þótt við nennum því eiginlega ekki.

Hvernig stendur á því að við Liverpool-menn á Íslandi tökum Everton-erkifjandskapnum ekki alvarlegar en raun ber vitni? Ég held að það hljóti að vera af því að hér á landi erum við fjarri heimilum liðanna í ensku knattspyrnunni, og því liggur beint við að við þróum með okkur sterkari tilfinningar í garð liðanna sem ógna okkur, eða það sem verra er, skyggja á okkur. Arsenal, Chelsea, Maaaaanchester fokking United. Við hötum þessi lið af því að þau hafa verið betri en við. Everton, hins vegar, höfum við getað hlegið að undanfarin ár. Með örfáum undantekningum, þó.

Ef við byggjum í Liverpool-borg væri þessu hins vegar líklega þveröfugt farið. Við myndum samt sem áður bera kala til hinna toppliðanna, en Everton-liðið væri það lið sem við þyrftum að búa með, allan daginn alla daga, alls staðar, aðdáendur liðsins eins og plága sem ræðst að okkur úr öllum áttum. Ef við byggjum ytra væri hatrið gagnvart Everton eflaust dýpra og flóknara heldur en nokkurn tímann hatrið í garð hinna liðanna.

Staðan í dag er sú að við neyðumst eiginlega til að setja Everton á svipaðan stall og Liverpool-aðdáendur sem búa í Liverpool-borg gera. Í dag skiptir engu máli hvar þú býrð, ef þú ert Púllari er Everton-liðið plágan sem þú bara losnar ekki við, sama hvað þú reynir. Þú vilt ekki taka þetta lið alvarlega, þú vilt ekki einu sinni þurfa að hugsa um þá sem lið sem getur barist á jöfnum grundvelli við Liverpool FC en staðreyndin er sú að þú verður.

Mér datt í hug í dag að bera saman liðin hjá Everton og okkur og sjá hvort ég fengi einhverjar lausnir á því hvers vegna þeim getur gengið jafnvel, eða jafnvel betur, en okkur í deildinni. Ég fór í huganum yfir svona það lið sem spilar oftast leiki Everton frá byrjun, og eins hjá okkar mönnum, og komst að þeirri niðurstöðu að aðeins Joleon Lescott, Mikel Arteta, Tim Cahill og Yakubu ættu séns á að komast í sameiginlegt ofurlið liðanna tveggja. Þeir fjórir, ásamt Reina, Finnan, Carragher, Agger, Gerrard, Mascherano, Babel og Torres, myndu vera sterkasta lið Liverpool-borgar í dag. Ef við bætist að við erum með talsvert meiri breidd en þeir, þá er klárt að útskýringin á jöfnu gengi liðanna er ekki í leikmannahópi Everton.

Útskýringin liggur heldur ekki í leikálagi, að mínu mati. Þeir fóru jafnlangt og við í ensku Bikarkeppninni, einni umferð lengra í Deildarbikarnum og hafa leikið nokkurn veginn jafnmarga Evrópuleiki og við í vetur, og það oft á fimmtudögum sem gefur minni tíma til að undirbúa næsta deildarleik. Fyrir þremur árum voru meiðsli og þátttaka í Evrópu ástæðan fyrir því af hverju Everton gátu laumast upp fyrir okkar menn í deildinni, en í ár hafa þeir afrekað þetta þrátt fyrir að spila jafn mikið, heima og erlendis, og þrátt fyrir að hafa minni leikmannahóp.

Munurinn liggur heldur ekki í framkvæmdarstjórum. David Moyes hefur verið nokkrum árum lengur við stjórnvölinn hjá Everton heldur en Benítez hjá Liverpool, og hann hefur byggt upp þétt og öflugt lið sem leikur eins og hann vill að það leiki. Hann hefur minna fé til leikmannakaupa á hverju ári en stjóri Liverpool en virðist nýta það nokkuð vel, hugsanlega betur en Benítez nýtir sitt fé. Engu að síður er hann ekki að kaupa jafn stór nöfn, og þau fáu stóru nöfn sem hann hefur keypt (P. Neville, Beattie) hafa yfirleitt verið komnir yfir hátind ferils síns þegar þeir koma til Everton.

Ég komst á endanum að þeirri niðurstöðu að ef það er eitthvað við samanburð á liðunum sem er Everton klárlega í hag, þá eru það væntingarnar. Á meðan okkar menn eru í senn að berjast fyrir fjórða sætinu í deildinni og að berjast við vonbrigðin af því að vera aðeins að berjast um fjórða sætið í deildinni, eru Everton-menn svo hæstánægðir með að vera í þessari baráttu, með að eiga séns á að eyðileggja tímabilið fyrir stóra, rauða bróðurnum í borginni, að hver leikur er fyrir þeim eins og mest spennandi leikur í heimi. Á meðan væntingarnar, og vonbrigðin, hafa ár eftir ár verið Liverpool-liðinu eins og fjötur um fót, líta Everton-menn á svo óvæntan glaðning sem fjórða sætið er eins og gorm sem þrýstir liði þeirra – og framkvæmdarstjóra – upp á einhvern ofurháan stall. Svo háan að ég hef heyrt, og lesið, Everton-menn lýsa því yfir að Moyes sé besti stjóri í Englandi, og að Arteta sé besti erlendi miðjumaðurinn í deidlinni. Eins ótrúlega og það hljómar.

Í fullkomnum heimi myndi heimur Everton-liðsins byrja að hrynja strax í næstu umferð og þessi óþægilega tilfinning gæti bara hjaðnað án mikillar áreynslu. Í fullkomnum heimi myndi þvotturinn brjóta sjálfan sig saman og rölta í einfaldri röð inn í skáp. En þetta er því miður ekki fullkominn heimur. Þetta er marsmánuður árið 2008, og staðreyndirnar eru þær að Liverpool FC eru að elta Everton FC í biturri baráttu um fjórða sætið í Úrvalsdeildinni, og ég þarf að fara að brjóta saman þvott.

Við skulum bara vona að þetta Everton-lið verði ekki meira óþolandi en það er orðið nú þegar. Það er nógu slæmt að þurfa að díla við þá tilhugsun að vera illa við Everton af því að við erum að berjast við þá um sæti í deildinni. En að þurfa að hata þá, eins og Chelsea, Arsenal og Man Utd, af því að þeir skyggja á okkar lið? Það er óhugsandi. Óhugsandi! ÓHUGSANDI!!!

Er það ekki annars?

24 Comments

  1. snilldar pistill og ég held bara að everton geti ekki orðið meira pirrandi.

    en farðu að brjóta þvottinn strákur 😉

  2. “Hvernig stendur á því að við Liverpool-menn á Íslandi tökum Everton-erkifjandskapnum ekki alvarlegar en raun ber vitni?”

    Af því að eins og þú sagðir, þá hefur Everton ekki verið nein ógn, og það er ekkert töff að hata liðið í sömu borg bara af því að menn gera það í Englandi. Ég efast um að Newcastle aðdáendur á Íslandi þoli ekki Sunderland þótt þessi lið séu erkifjendur á Englandi, eða Arsenal-menn Tottenham, Portsmouth-menn Southampton o.s.frv.

    Á meðan maður er bara svona “hlutlaus” stuðningsmaður Liverpool (sem flestir Íslendingar eru, af því þeir byrjuðu að halda með Liverpool af því þeir voru svo góðir, en ekki af því þetta var hverfisliðið), þá finnst mér maður ekki hafa mikinn rétt á því að hata Everton bara af því þetta er hitt liðið í Liverpool.

    Ég ber ekki einu sinni það mikinn kala til Everton núna, þótt þeir séu í 4.sætinu eins og er, því að ég hef engar áhyggjur af því að þeir séu að fara að enda í þessu 4.sæti eftir 38 umferðir. Ég lít bara á Chelsea, Arsenal og Man Utd sem raunverulega keppinauta Liverpool, og í beinu framhaldi, þá hef ég mesta óbeit á þessum liðum. Everton gengur kannski vel núna, og gekk vel fyrir 3 árum þegar þeir hirtu 4.sætið, en annars er þetta 8.-9.sætislið sem ógna Liverpool ekki neitt. Á tímum Sam Allardyce hjá Bolton þá fannst mér þeir t.d. miklu meira óþolandi heldur en Everton nokkurn tímann, því þeir hirtu fleiri stig af Liverpool en Everton.

    Aftur á móti finnst mér Liverpool – Everton slagirnir vera með skemmtilegri rival leikjum liðsins, og langtum skemmtilegri en Liverpool – Man Utd og Liverpool – Chelsea sem eru iðulega leiðinlegir 0-0 skúffelsisleikir.

  3. Mér tekst auðveldlega að hata Everton.
    Á níunda áratugnum var nú það ógeðfellda bláa lið aðalkeppinautur okkar og þess vegna hef ég alveg alla tíð óskað þeim hins allra versta! Síðustu 15 árin hefur þetta lið verið frekar dapurt lengstum, en spilað ruddalegan fótbolta og þess vegna haldið vel áfram þeim sið að vera auðhatanlegir. Ekki síst því þeir hafa náð að vinna okkur og vera fyrir talsvert á undanförnum árum. Bara svo hrokinn í “The Peoples Club” gefur manni gæsahúð!
    Var á 2-3 sigurleik á Goodison fyrir nokkrum árum þegar McAllister skoraði úr aukaspyrnu á 94.mínútu. Daginn eftir voru ALLIR LFC aðdáendur í búningnum held ég og maður sá ENGANN bláan í Liverpoolborg. Þvílíkt yndislegt að vera þá í borginni við Merseyána!
    Hins vegar hef ég talsverðar áhyggjur af næstu vikum og mánuðum. Prógramm Everton er mun auðveldara en okkar manna, enginn útileikur gegn stóru liðunum nema á Anfield og því alveg ljóst að þeir eru alvöru keppinautar, því miður!

  4. Mér finnst David Moyes eiga að fá aðeins meira credit fyrir þessum árangri. Staðreyndin er sú að Everton eru þremur stigum á undan Liverpool og aðeins fimm stigum á eftir Chelsea. Þetta er Moyes að gera með minni hóp, lélegri leikmenn og minni transferbudget. Gæjinn kann að stjórna fótboltaliði.

  5. Ég get nú ekki sagt ad ég hati Arsenal eda Chelsea sem lid neitt sérstaklega. Audvitad vill madur ad thau tapi thví thau eru beinir keppinautar Liverpool en fullgróft ad tala um hatur á theim. Chelsea áttu reyndar gott haturstímabil en thad var adallega út af Mourinho og hans stóra kjafti en nú til dags vill madur helst sjá Chelsea tapa út af Lampard og Terry.
    Mér finnst persónulega staerstu leikir Liverpool alltaf vera ManU og Everton, og svo Arsenal og Chelsea thar á eftir. Thad er ekki sami banterinn og andrúmsloftid í kringum komu Arsenal og Chelsea (nema Chelsea adeins núna í seinni tíd) eins og thegar bláa ógedid kemur á Anfield. Svo er heldur ekki gód ástaeda ad “hata” lid thví thau ógni manns eigin lidi. Eftir brösugt gengi Liverpool gegn minni lidunum í vetur thá myndi madur enda á ad hata flest lid í deildinni.

  6. Ég er sammála Magga hérna, það er afar auðvelt að “hata” Everton. Í rauninni verð ég að viðurkenna það að það fer ekkert meira í pirrurnar á mér heldur en Everton og þeir tróna efstir á lista mínum yfir lið sem ég þoli ekki. Menn hafa bara sínar ástæður fyrir því hvaða lið menn þola og þola ekki, og ég hef reyndar nokkrum sinnum þurft að “réttlæta” óþol mitt gagnvart þessu liði.

    Ég aftur á móti skil það mæta vel þegar menn setja keppinauta síðustu ára ofar á “haturs” stallinn sinn.

    En eins og áður sagði, þá fer ekkert meira í mig tengt fótboltanum heldur en bitrir bláliðar í Liverpool borg.

  7. Ég skil nú bara ekki af hverju Moyes er svona vanmetinn sem stjóri.
    Minn mælikvarði á getu stjóra er hvað þeir fá út úr efnivið sínum. Hann hefur heldur betur staðið sig þar.

    Er þetta kannski útaf því að hann kemur frá Skotlandi sem er ekki alveg jafn sexý og Spánn?

  8. Held þetta sé mjög persónubundið. Auðveldast að heimfæra þetta á Ísland. Með hvaða liði heldur þú, og hvaða lið er þér alls ekki að skapi.
    Td. eru nokkuð margir sem eru anti KR, án þess að það sé neitt sérstaklega valid ástæða á bak við það. Bara út af því að þeir eru KR.
    Ef síðan eru skoðuð liðin sem hafa staðið sig best síðustu árin, þá hafa flestir einhverja skoðun á þeim, en síðan er alltaf eitthvert eitt lið sem er svona rival lið.

  9. My two cents.

    Auðvitað erum við litaðir aðdáendur en þó að Liverpool hafi úr stærri nöfnum að spila þá er ekki þar með sagt að þeir hafi spilað betur en þeir bláu. Ég hef séð svipað marga leiki með Liverpool og Everton í vetur og tel að Neville hefur til dæmis spilað mun betur á þessu tímabili heldur en Steve Finnan. Pienaar hefur spilað betur en Babel. Á móti hefur Cahill ekki átt gott tímabil vegna meiðsla (ekki ósvipað og Alonso). Agger hefur verið meiddur meginhlutann og hefur Hyypia þurft að spila of mikið. Mitt mat á draumaliði Liverpoolborgar á þessu tímabili er:
    Reina – Lescott, Yobo, Carragher, Neville – Pienaar, Gerrard, Mascherano, Arteta – Torres, Yakubu.
    Þarna eru sex Evertonmenn og fimm Púllarar (litað mat að sjálfsögðu). Við þetta bætist að þrír leikmenn sem hafa spilað mjög mikið hjá Liverpool eru farþegar í liðinu (Kuyt, Finnan og Riise). Ég skora á þig að finna þrjá leikmenn í Everton sem hafa spilað jafn mikið og þessir þrír sem hafa skilað nánast núll framlagi á þessu tímabili.

    Breiddin er meiri hjá Liverpool eins og þú nefnir réttilega. Hins vegar er hún, í fyrsta skipti í áraraðir, ekki veikleiki hjá Everton heldur styrkleiki. Yobo, Pienaar og Anibeche voru frá vegna Afríkukeppninnar og þeir töpuðu ekki leik á meðan. Baines, Fernandes (lánsmaður), A. Johnson og Anibeche (markamaskína í UEFA) eru góðir leikmenn komast ekki í sterkasta byrjunarlið Everton. Ef þarf að kafa lengra í bekkinn þá eru capable leikmenn eins og Gardner, Hibbert, Valente, Vaughan og nöfn eins og Gravesen og Van der Meyde. Vissulega enginn Liverpoolbekkur en langt í frá eins mikill munur og margir vilja meina.

    Svo eru það framkvæmdastjórarnir. Þar nefniru að Moyes sé ef til vill að nýta peninginn sinn betur en Benitez en segir svo strax á eftir, þínum manni til tekna, að hann hafi keypt stærri nöfn. Mér finnst heldur hart að kenna Moyes um að hafa ekki mikinn pening til þess að kaupa leikmenn. Ef við tökum bara þá leikmenn sem ég set í draumaliðið þá eru það Yakubu (11m), Lescott (2,5m), Arteta (2m), Neville (3,5m), Pienaar (lánsmaður, klausa að hann fáist fyrir 2,5m) og Yobo (4,5m). Fimm af þessum sex leikmönnum kosta undir 5 milljónum og ef við tökum Cahill, lykilmanns síðastliðna ára þá kostaði hann tvær milljónir. Ef við fyllum upp í sterkasta lið Everton þá eru það Jagielka (4m), Howard (fann ekki kaupverðið), Osman (uppalinn) og Carsley (2m). Hérna er komið byrjunarlið sem er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og kostar samtals 34 milljónir punda (plús Howard) sem er tæplega Torres plús Alonso. Ég leyfi mér að efast um að margir framkvæmdastjórar hefðu getað farið betur með peninginn en Moyes.

    Svo að partinum sem truflaði mig. Þú gefur Everton mikið kredit og segir að það beri að taka þá alvarlega. Hins vegar segiru að á eina staðnum sem Everton vinnur þennan samanburð er í væntingum liðanna. Ertu ekki að ruglast á orsök og afleiðingu? Ég er nefnilega á því að í dag séu þessi lið jöfn að getu og taflan sýnir það. Að sjálfsögðu erum við Evertonmenn, eftir mörg mögur ár að undanskildu einu, mjög ánægðir. Að sama skapi eruð þið óánægðir, eðlilega þar sem framfarirnar eru engar frá síðustu tímabilum. En það er afleiðing, ekki orsök.

    Fyrir mér er ástæðan fyrir gengi liðanna í vetur einföld. Bestu leikmenn Liverpool (Gerrard, Reina, Torres) eru betri en bestu leikmenn Everton. Á móti kemur að veikasti hlekkurinn í keðjunni hefur verið að plaga Liverpool á meðan erfitt er að finna veikan hlekk hjá Everton. Þetta jafnast út og niðurstaðan er patt. Ekki er ólíklegt að þessi barátta verði útkljáð á Anfield þegar Everton kemur í heimsókn. Ef mínir menn ná jafntefli þá er ég bjartsýnn því okkar menn eiga þægilegra prógram eftir.

  10. Gott lið sem Makkarinn setur upp, en ég vildi heldur kjósa að hafa Reina á milli stanganna heldur en Howard. Mér finnst Reina aldrei reyna við neitt af þessum mörkum sem Liverpool fær á sig, heldur aðallega horfa á eftir boltanum í netið. Það er frekar að maður geti þakkað góðri vörn Liverpool að þeir hafa haldið svona oft hreinu.

    Aftur á móti myndi ég aldrei láta Yobo inn í þetta draumalið Liverpool-borgar þar sem mér finnst hann alltaf vera að gera einhver mistök sem hæfa engum í úrvalsdeildinni nema Titus Bramble.

    En það er mjög auðvelt að finna mann sem fer betur með litlar fjárhæðir en David Moyes. Líttu á manninn sem er að stjórna toppliðinu og sjáðu hvað net spending er hjá honum. Hann hefur keypt leikmenn fyrir 204,8m punda og selt fyrir 165.1m punda á 11 árum, sem gerir net spending upp á 3.6m punda að meðaltali á tímabili. En á eftir honum er Moyes örugglega sá stjóri sem fer hvað best með peninga síns liðs.

    Svona til samanburðar þá hefur okkar ástsæli Benitez, sem gjarnan hefur kvartað undan peningaleysi, eytt 150m í leikmenn, og selt fyrir 71m á sínum 4 tímabilum, eða net spending upp á 19.75m á hverju tímabili.

  11. Setti ég ekki Reina í liðið?

    Yobo á það til að gera mistök, eins og líklega allir miðverðir. Hins vegar hefur þeim fækkað mjög mikið og ég man aðeins eftir einum slæmum leik hjá honum í vetur (gegn Arsenal). Agger væri örugglega í liðinu ef hann væri heill en ég er að taka lið þessa tímabils, ekki út frá reputation.

    Svo er ég kominn með upp í kok á því að heyra að Wenger eyði litlum pening. Það er þvæla. Hans meginkostur er að selja leikmenn á réttum tíma. Eins og þú bendir á þá hefur hann eytt yfir 200 milljónum á 11 árum. Tæplega 20 milljónir á ári að meðaltali. Hann fer vel með peninginn en það eru ekki litlar fjárhæðir eins og Halldór segir. En nú er ég kominn út fyrir umræðuna…

  12. Makkarinn, ég get keypt þetta lið hjá þér að öllu nema tvennu leyti:

    1. Phil Neville hefur nú ekki beint verið bakvörður hjá Everton nema í einhverjum undantekningum, er það? Hann er yfirleitt á miðjunni og því bar ég hann saman við Mascherano og Gerrard, þar sem hann er klárlega eftirbátur þeirra.

    2. Ef við gefum okkur að Neville og Cahill víki fyrir Gerrard og Mascherano eins og ég sagði hér að ofan, þá eru Arteta og Babel klárlega inni sem vængmenn. Hægri vængstaðan er vandamál hjá okkar mönnum, þannig að Arteta gengi þar inn, á meðan frammistaða Babel í vetur er slík að ég sé varla hvernig þú getur réttlætt að velja Everton-mann þar fram yfir. Ég meina, Pienaar fram yfir Babel? Plís! 🙂

    3. Þú getur ekki, með fullri virðingu, ætlað að segja mér að þrír af fjórum í draumavörn Liverpool-borgar eigi að koma úr Everton-liðinu, á meðan aðeins einn af fjórum er úr Liverpool-liðinu. Ég meina, Liverpool-vörnin hefur verið ein af tveimur bestu – og á köflum sú besta – í Úrvalsdeildinni sl. þrjú ár. Það er ekki bara Reina að þakka að hann setur hvert metið á fætur öðru í að halda hreinu, það er líka því að þakka hvað vörnin fyrir framan hann er frábær. Finnan, Carra og Agger eru klárir kostir að mínu mati og ég valdi Lescott fram yfir Aurelio og Riise þar sem hann hefur einmitt verið að spila vinstri bakvörð hjá Everton, og verið frábær í þeirri stöðu.

    Annars er ljóst að þú getur ekki haft mikið vit á þessu, verandi Everton-maður og allt það. 😉

  13. Langar nú samt að benda mönnum aðeins á ólíkan bakgrunn liðanna tveggja.
    Skulum aldrei gleyma því að það er talið afhroð Liverpool að lenda í 5.sæti á meðan að það er frábær árangur fyrir Everton. Stærstu draumar Everton í lífinu verða að ná 4.sæti og einum og einum úrslitaleik.
    Menn tala nú líka stundum um það að Everton liðið sé ódýrt lið. Í leik nýlega stillti liðið upp 11 manna liði sem kostaði 46.5 milljónir punda. Yobo, Lescott, Carsley og þessir félagar allir hafa kostað ágætar upphæðir.
    Í þessu liði sem kostaði þennan pening var t.d. ekki Leighton Baines sem kostaði 6 millur og einn þessara manna var Pienaar sem er talinn kosta um 5 millur. Hvað þá Manuel Fernandes sem Everton var búið að samþykkja að borga 12 millur fyrir.
    En munurinn er sá að Everton er LÍTIÐ LIÐ sem sættir sig við einn bikar á hverjum 10 árum og þar sem 4.sæti er frábær árangur.
    Varðandi það að ætla að draga upp net spending hjá Ferguson er náttúrulega fullkomlega fáránlegt að fara að draga upp einhverja mynd fyrir Chelsea. Innkoma Abramovich breytti öllu í heimi leikmannakaupa og eini marktæki mælikvarðinn er þaðan frá. Fram að því gastu verið viss að leikmaður sem kostaði 3 milljónir punda var klassa leikmaður. Eftir það er 3 milljónir í mesta lagi meðaljón, Jagielka kostaði Everton t.d. 4.5 millur!
    Ég hef aðeins verið að grúska í eyðslu Benitez og vonast til að henda inn smá pistlum varðandi það á næstu dögum, þá kannski getum við aðeins rætt kaup Spánverjans frá upphafi.

  14. Kristján
    Já við erum litaðir og því er ekki óeðlilegt að við séum með ólík lið. Langar samt að benda á með Phil Neville að hann hefur leikið 27 leiki í deildinni, alla í byrjunarliðinu og þar sem Hibbert hefur spilað 17 leiki þá hefur Neville leikið 10 sinnum í hægri bakk. Aðra leiki hefur hann leikið á miðjunni, kantinum og jafnvel vinstri bakverði. Ef allir væru heilir þá væri Neville í hægri bakverði og Hibbert á bekknum. Ég var með óbragð af því að skipa þessa stöðu. Neville hefur spilað vel en fáa leiki verið í stöðunni. Hins vegar hefur Finnan hvorki verið fugl né fiskur. Hann hefur alltaf verið varnarsinnaður en á þessu tímabili hefur hann hleypt merkilega mörgum upp hjá sér. Valdi því Neville því mér þótti hart að refsa manninum að vera fjölhæfur og leysa af meidda og þreytta leikmenn í öðrum stöðum.

    Svo er það blessaður Ryan Babel. 8 leikir í byrjunarliðinu og 15 sinnum af bekknum. Hann er efnilegur. Hann hefur verið að spila vel upp á síðkastið. Hann á sennilega eftir að verða drullugóður. En er hann búinn að skila miklu fyrir Liverpool á þessu tímabili?

    Það er kannski helsti munurinn á okkar greiningu. Ég kýs að taka eingöngu þetta tímabil á meðan þú ert að taka fleiri breytur inn í myndina. Agger, Babel og Finnan hafa kannski verið og verða kannski betri en Yobo, Pienaar og Neville en ég tel að mínir menn hafi átt betra tímabil heldur en þínir.

    Nema auðvitað að þú sért mér ósammála. Þá langar mig að spyrja þig hvers vegna Everton og Liverpool séu á jafnréttisgrundvelli? Ekki eru það stjórarnir (samkvæmt pistlunum), breiddin er meiri hjá Liverpool og byrjunarliðið er sterkara. Mér finnst það einfaldlega ekki standast ef maður skoðar stöðu liðanna.

    Maggi
    Ég veit nú ekki alveg hvar ég á að byrja. Þú nefnir Yobo, Carsley og Lescott, lykilmenn, sem kostuðu samtals 8,5 milljónir. Er það allt í einu orðinn mikill peningur? Ég veit ekki hvar þú fannst 5 milljóna punda verðmiðann á Pienaar, það eina sem ég hef séð eru 2,5 milljónir. Svo Fernandes, hann var ekki keyptur. Er sanngjarnt að bæta 12 milljónum ofan á hitt? Eða er ekki líklegra að ef hann hefði verið keyptur þá hefði t.d. Yakubu ekki verið keyptur. Það skiptir svosum litlu, aðalatriðið að það er ekki hægt að telja upp einhverjar upphæðir sem er ekki búið að ganga frá. Jújú, Baines kostaði mikið og hefur lítið spilað vegna meiðsla. Moyes hefur meira að segja verið graðari á markaðnum nú en áður. En ekki má gleyma að Everton er enn að njóta góðs af Rooney sölunni sem fór á dágóða summu sem gæti hækkað með árunum. Svo þetta bakgrunnatal. Já ég er hæst ánægður, þið eruð óánægðir. Hvað er meira um það að segja? Hvaða máli skiptir þessi breyta þegar liðin eru borin saman?

  15. Þá langar mig að spyrja þig hvers vegna Everton og Liverpool séu á jafnréttisgrundvelli?

    Þetta er kraftaverk, sem gerist einstaka sinnum þegar að stjörnurnar raða sér á ákveðinn hátt. Þetta gerist ekki aftur í bráð.

  16. Ég er ekki sammála ég er Liverpool aðdáandi en Everton er erkifjendur n0.1.ví mínum huga

  17. Ef maður heldur með Liverpool þá eru það skráð lög að maður á að vonast eftir slöku árangri Everton(hata er svo ljót orð að þetta var það fallegasta sem ég gat skrifað).
    Saga Liverpool tengist sögu Everton mikið og eru þetta saga rígst, haturs, bikara og ótrúlega leikja. Ég ber virðingu fyrir Everton og hvað er í gangi hjá þeim í dag. Þeir eru með sterkt lið og byggist árangur þeira núna ekki bara á mikilli samheldni og baráttu heldur eru komnir nokkrir hæfileika menn í hóppinn.

    Ég hef þó trú á því að Liverpool muni ná 4.sætinu en þetta verður spennandi og held ég að við munum aldrei losna við Everton af bakkinu.

  18. Erkifjendur Liverpool no.1. í mínum huga eru manutd .
    Líkar ágætlega við Everton en vona að við vinnum þá alltaf.
    Áfram Liverpool.

  19. Ég vil bara hrósa Makkaranum fyrir að halda sig við mjög málefnalega umræðu þrátt fyrir að hann sé hér klárlega á útivelli.
    Mér finnst hann líka færa góð rök fyrir því af hverju hann má vera stoltur af Everton, þeir eru að gera fanta fína hluti eftir áraótin og munu án vafa veita okkur harða keppni um fjórða sætið, en munu þó tapa því til okkar : )

  20. Ég held að við ættum að vera alveg rólegir með hroka í garð Everton. Fyrir mitt leiti þætti mér áhugavert að sjá hvað Moyes næði útúr leikmönnum Benitez.

    Er kannski þarna kominn rétti arftaki Pako? 🙂

  21. Makkarinn.
    Samkvæmt Soccernet kostaði Yobo 5 millur, Lescott 5.5 og Carsley 1.9. Það er samanlagt ekki 8.5 held ég. Varðandi Fernandes veist þú örugglega betur en ég að hann var búinn að samþykkja allt áður en hann stökk til Valencia og þá voru samningaviðræður við Yakubu í fullum gangi. Moyes alveg brjálaður þá út í Manuel karlinn. Þú manst örugglega að hann sagði, “allt var frágengið þegar Fernandes stökk í burtu”. Fernandes er á láni núna og gaman verður að sjá hvað gerist, miðað við það sem maður hefur séð til hans að undanförnu er hann ekki nálægt því að fá samning held ég.
    Pienaar var verðlagður síðasta vor á 5 millur, hef reyndar hvergi fundið annað en grein þar sem verið var að ræða um kaup Everton á honum frá í vor og sú upphæð kom í umræðuna. Svo kom upp lán og ég hef ekki séð neina tölu. Enda er hvorki hann eða Fernandez inni í tölunni sem ég reiknaði út.
    En það sem ég er fyrst og fremst að nefna hér er að Everton er ekki eitt stóru liðanna og hefur fengið frið frá pressunni, þó það hafi ekki verið nálægt neinum titlum síðustu 10 ár.
    Við sem höldum með Liverpool myndum aldrei sætta okkur við árangur Everton undanfarin ár og erum hundfúlir með að vera að keppa um 4.sætið.
    Þetta er ekki sagt með hroka, heldur út af þeim kröfum sem ég geri til míns liðs. David Moyes er hæfur breskur stjóri, það hef ég áður sagt og ég ber virðingu fyrir honum og árangri hans að mörgu leyti. En hann hefur aldrei unnið titil mér vitanlega og því finnst mér afar sérkennilegt að ætla hann betri stjórnanda en Rafael Benitez. Enda örugglega grín hjá Daða.

Bolton 1 – Liverpool 3

Aðeins um kaup og sölur Benitez (uppfært: Hægt að kommenta)