Brottför Dodda

Þetta er stutt færsla og því miður ekki skrifuð af góðu.

Ég vil tilkynna lesendum síðunnar að Doddi, einn harðasti Púllari höfuðstaðs norðursins, mun hverfa frá stöðu sinni sem penni á Liverpool Blogginu frá og með líðandi stundu. Hann bætist því í ansi fámennan og ansi góðmennan hóp þeirra Hjalta og Benna Jóns sem fyrrverandi Liverpool Bloggari. Eins og menn muna hvarf Hjalti af sviðinu í fyrrasumar, en Benni Jón hélt síðunni á lífi yfir eina helgi í febrúar ’05. Auk þess að vera heiðursforsetar þessarar síðu ævilangt eru þessir menn svo heppnir að mega rífa meiri kjaft en gengur og gerist á þessari síðu, auk þess sem þeir borga aldrei fyrir bjórinn mjólkina yfir leikjum á meðan við Einar Örn erum á staðnum (í alvöru strákar, það er undir ykkur að rukka).

Við Einar Örn viljum fyrir hönd Liverpool Bloggara þakka Dodda fyrir skemmtilegt tæpt ár, og ég vona að ég tali einnig fyrir hönd lesenda þegar ég segi að ég vona að Doddi sjái sér fært að heiðra okkur með nærveru sinni í ummælunum endrum og sinnum þótt hann sé ekki lengur með míkrófón eins og við hinir. 🙂

Annars er nýtt tímabil Liverpool framundan á næstu vikum og sem fyrr hyggjumst við Einar Örn ekki standa í stað með þessa síðu. Vonandi getum við flutt ykkur skemmtilegar fréttir af næstu skrefum í þróun síðunnar fljótlega.

13 Comments

  1. Ha? Er maður heiðursforseti ævilangt á þessari síðu? …og þarf maður ekki að borga fyrir hóstmjólkinahóst á Players þegar þið eruð þar?

    …þetta eru nú upplýsingar sem ég var bara ekki með á hreinu en finnst rosalega gott að vita 🙂 …einnig er gaman að meiga rífa kjaft meira en þessi venjulegi meðal Jón á þessari síðu…hér sannast það enn og aftur að það er ekki sama hvort það sé Jón, Séra Jón eða Benni Jón 😀 …mun klárlega nýta mér þetta í meira mæli framveigis :p

    Að endingu vil ég þakka Dodda fyrir hans framlag til síðunnar, hann hafði þó smá vit á fótbolta sem er mun meira en Kristján Atli getur nokkurntíman sagt:D (sko, stax byrjaður að rífa kjaft, hihi)

    🙂

  2. Takk fyrir samveruna Doddi!
    Hlakka til að heyra í þér áfram í alvöru umræðum þessarar síðu…….

  3. Þakka þér fyrir Kristján Atli, og mjólkin verður rukkuð 🙂

    Síðasta tæpa ár hefur verið mjög skemmtilegt og það verður fróðlegt að sjá hvernig næsta keppnistímabil verður. Ég hef það á tilfinningunni að þetta verði mjög gleðilegt tímabil! Þakka líka Inga T og Benna falleg orð, og Kristjáni, Einari, Magga, Agga, Steina og Olla fyrir skemmtilega samveru.

    Ég verð hér aktívur í kommentunum – no worries there!

    Óska ykkur góðs gengis með þróunina á síðunni, sem er auðvitað langbesta bloggsíða íþróttaliðs á Íslandi og þótt miklu víðar yrði leitað!!

    Áfram Liverpool!

  4. Tek undir með öllum hér að ofan, vil bæta við að Doddi er sá eini af ykkur (með mikrafoninn) sem tippaði á rétt byrjunarlið s.l. vetur. Hann virðist hafa vit á boltanum 🙂

  5. Ég tek undir með Benna, WHAT??

    Dónaleg komment og frír bjór… mmmm…. Einmitt minn stíll 🙂

  6. Þessi síða er farin að snúast um þá sem skrifa á hana með lof um sig og sína. ÞVÍLÍK GÚRKA – Það er nú einusinni svo að það er Liverpool sem eru bestir 🙂 og það eru leikmenn Liverpool sem við höfum áhuga á.

  7. Steingrímur – það er nú það minnsta sem hægt er að gera þegar einn af “fáum” pennum þessarar síðu hættir að kveðja manninn og þakka fyrir góð störf!!

    Svo ég tala nú ekki um að óska honum til hamingju með leyfi á dónaleg komment og frían bjór!! 🙂

  8. ohhhhhhhhhhh

    Ég hélt að það hefði staðið: “Brottför Drogba” og hoppaði hæð mína á loft

    Takk fyrir skemmtileg skrif Doddi

  9. Steingrímur, valið stóð á milli þess að skrifa hundruðustu færsluna í röð um Gareth Barry eða að hrósa Dodda aðeins og láta fólk vita að hann væri horfinn af sviðinu. Valið, í mínum huga, var auðvelt, enda fæ ég martraðir nú til dags þar sem ég og Gareth Barry sitjum saman að snæðingi þegar Martin O’Neill og Rafa koma með doðranta á þykkt við símaskrána, skella á borðið hjá okkur og segja, “hérna, þetta er kauptilboðið ykkar, skoðið þetta!”

    Hryllilegur draumur. 🙂

Franskur framherji til Liverpool

Hvað er leiðinlegast?