Það var alltaf ljóst að eftir taumlausa gleði sunnudagsins yrði verkefni kvöldsins, gegn Pompey með nýjan stjóra fyrst og fremst spurning um okkar dug og djörfung. Þegar liðsskipanin svo birtist var nokk ljóst að karlinn í brúnni vildi virkja fleiri leikmenn í slag vetrarins.
Byrjunarliðið:
Arbeloa – Carragher – Hyypia – Aurelio
Lucas – Alonso
Pennant – Gerrard – Babel
Kuyt
Bekkurinn: Cavalieri – Agger – Dossena – Mascherano – Keane – Benayoun – Riera
Leikurinn byrjaði fjörlega, fengum horn eftir 30 sek og flott færi Kuyt upp úr því. Á næstu 15 mínútum vorum við að pressa ágætlega og James varði vel frá Kuyt í stöngina. Eftir þessa byrjun dró svo verulega úr leiknum, en í lok hálfleiksins náðu þó okkar menn nokkrum góðum sóknum, en í hálfleik var staðan 0-0 og leikurinn bragðdaufur.
Ég vonaði innilega að Rafa blési mönnum eld í brjóst í hléinu en því miður var ansi lítið í gangi. Þó átti Sami Hyypia góðan skalla í stöng upp úr horni og Benayoun fékk gott færi, en ekki kom mark. Það stefndi semsagt í annan Stoke-leik….
En þá var komið að þætti Papa Boupa Diop. Uppúr horni á 75.mínútu fékk Sami Hyypia skallafæri. Senegalinn ágæti hélt greinilega að hann ætti að vera í marki fyrir belgíska handboltalandsliðið í Laugardalshöllinni í kvöld, setti báðar hendur fyrir boltann og varði vel. Er viss um að Ísland hefði skorað færri mörk í Höllinni með þennan öðlingsdreng á móti sér.
Sem betur fer áttaði dómarinn sig á því að Diop væri ekki markmaður og hann benti því á vítapunktinn. Það var auðvitað fyrirliðinn okkar Steven Gerrard sem mætti þangað og setti boltann örugglega neðst í vinstra hornið, James fór í rétt horn en átti aldrei séns. 1-0 og ljóst að Stokegrýlan var farin.
Það sem eftir lifði leiks bökkuðum við smátt og smátt án þess að Pompey fengi færi, næst komust þeir eftir sendingu inní sem Hyypia gerði vel að setja í horn en ekki eigið mark. Við reyndum lítið sem ekkert fram á við og augljóst að menn voru eilítið taugaveiklaðir. Við héldum þó út og MJÖG mikilvæg þrjú stig í húsi.
Það jákvæðasta er auðvitað að hafa unnið þennan leik þó við höfum ekki verið að spila mjög vel. Eins og oft áður eigum við í miklum erfiðleikum með lið sem slá upp jólatré í eigin teig og dansa svo þar í kring leikinn allan. Mér fannst lítill hraði í spilinu, of mikið farið til baka og lítið að gerast á sóknarþriðjungnum. Eftir frískan Wiganleik hjá Pennant og fína innkomu Babel gegn Chelsea vonaði maður að þeir sköpuðu meira en þeir gerðu og Gerrard var ekki í gírnum, þó hann hafi svo auðvitað reddað okkur á ögurstund. Dirk Kuyt vann auðvitað vel, en tæknileg geta háði honum í kvöld. Varnarlínan og markmaðurinn einbeitt í því litla sem þeir þurftu að gera og Lucas og Alonso alltaf að reyna að skapa. Lucas er þó enn ansi æstur, tapar of oft boltanum og brýtur klaufalega.
Eftir val milli tveggja leikmanna sem mann leiksins vel ég Sami Hyypia framyfir Xabi. Sami lék þennan leik vel, tók vel á Crouch, skilaði boltanum vel frá sér og skapaði mikla hættu í hornspyrnunum, lagði m.a. upp markið okkar.
En ég endurtek að það er styrkur að vinna svona slaka leiki og við erum einir á toppnum. Því skilaði þetta lið í hús og þessi stig telja jafn mikið og þau síðustu og næstu.
Nú er bara að fara á White Hart Lane kl. 17:15 á laugardaginn og taka þau…..
Jesús Kristur hvað það var þreytandi að horfa á þennan leik á netinu.
En fínt að vinna þennan leik. Ég var orðinn helvíti hræddur um að þetta yrði einsog Stoke, en svo kemur þessi vitleysa hjá Dioup og reddar málunum. Húrra fyrir honum!
sá ekki leikinn en flott að ná í 3 stig.
Úff, þetta var allt of erfitt, en samt enn einn sigurinn í höfn 🙂
Til lukku öll 🙂
3 stig í húsið en ekkert annað, ég ætla nú ekki að vera mjög dimmur í máli, en ég skil engan vegin þessa uppstillingu hjá Rafa! Á meðan liðið er svona heitt á að keyra á þeim sem eru í liðinu á þessu winning-streak, ekki koma með Lucas og Pennand inn í liðið. …
En ánægður með þessi 3 stig!
Spurs að gera góða hluti, eru 4-2 undir á 88 min, leikurin endar 4-4. Það verður erfiður leikur næsta laugardag, Harry búin að kveikja í Tottenham mönnum!
MotM: Papa Boupa, getum þakkað honum fyrir 3 stig. Höfðum heppnina aðeins með okkur, nokkuð daufur leikur.
jæja. það hafðist. ég er sammála hverju einasta orði í leikskýrslunni og ætla því lítið að tjá mig um leikinn, maggi er búinn að mjólka þetta mjög vel.
ÆÆÆ hvað þetta var gott eftir á. Vorum ekki að gera alltof mikið En hver spyr að því 3 stig, hmm meistara stig. Benni jóns er farinn að virka á mig einsog Rise en það er bara ég. Sammála Magga um mann leiksinns, 300 leikja manninn ljóshærða.
Eyþór Guðj.
Það er merkilegt hversu mikla gagnrýni Rafa fær fyrir uppstill. Mér persónulega er nokk. sama svo lengi sem við vinnum.
Tímabilið er ekki 19 leikir heldur 38. Þess vegna verðum við að spila á fleirri en 13 leikmönnum í gegnum tímabilið. Svo málið er að ef við getum unnið á “vara” leikmönnum eigum við meiri möguleika í lok tímabils…..
Þetta er kosturinn við “Breiddina”!
Hvað með Arbeloa?? Fannst þetta einn hans besti leikur í rauðu treyjunni, ógnaði vel framm hljóp mikið eins og vitleysingur og var sterkur varnarlega.
Heildarframlag hans til leiksins var mun meir en gamla Hyypia sem átti ansi náðugan dag.
Vel Spánverjann sem mann leiksins.
Það var einum of sætt að vinna þennan leik miðað við gang hans, frammistöðu nokkura leikmanna og þann gríðarlega hávaxna og líkamlega sterka varnarmúr sem við var að eiga.
Við vorum reyndar mikið betri í leiknum eins og tölfræðin sýnir en hann hafði Stoke written all over. Ég reyndar held að Pompey hafi hreinlega gert mistök með því að þora ekki að sækja gegn okkur. Vörnin hjá okkur var auðvitað þ.a.l gríðarlega traust, Aurelio og Arbeloa mjög líflegir frammávið (ásamt reyndar Hyypia og Carra) og ég skrifa ekki undir þá gagnrýni sem einhverjir hafa viljað beina að Aurelio. Hann er ekki jafn sannfærandi og t.d. Evra, Clichy eða Cole en hann er okkar besti bakvörður og oft bara fínn, eins og t.d. í dag.
Á miðjunni voru Lucas og Alonso einnig mjög sannfærandi og áttu hana gjörsamlega. Gaman að sjá Lucas eiga ágætisleik og Alonso einfaldlega stjórnar umferðinni. Gerrard var einnig líflegur og reyndi mikið að skapa eitthvað í kringum sig. En allir þessir menn mættu stilla hjá sér skotin!! Gerrard er reyndar eiginlega ekki hægt að gagnrýna í þessari deild, en ég pirra mig oft á því hvað Alonso hittir bara ekki (líka eiginlega gegn Chelsea). Ásamt því að þessar þrjár hættulegu aukaspyrnur okkar voru bara vandræðalegar í kvöld.
Frammi var svo Babel með sinn besta leik á þessu tímabili í fyrri hálfleik, hann átti nokkra gríðarlega flotta spretti og sýndi hversu fáránlega fljótur hann er, hann er farinn að fá áhorfendur framar í sæti sín þegar hann fær boltann. Pompey reyndi meira að segja sitt allra besta á endanum til að kála honum enda voru þeir í bullandi basli. Hinumegin var svo Pennant sem tókst að gera afar lítið af viti í þessum leik. Hann var ekki að ógna mikið og fyrirgjafirnar voru voðalega eitthvað hopeless þar sem Portsmouth liðið er gríðarlega hávaxið og ógnin í Kuyt er bara ekkert gríðarleg. Pennant hefði líklega nýst Pompey betur í þessum leik.
Kuyt gerði svo ekkert til að sannfæra mig um að hann eigi að spila stöðu fremsta manns, þar er “næstum því” factor hans of áberandi og stundum gerir hann meira ógagn en gagn. Ég vil allavega Torres, Keane eða Babel frekar í þessa stöðu og Kuyt bara á sinn stað og í sitt hlutverk út frá hægri kannti þar sem hann fær örlítið meiri tíma til að ná boltanum eftir að hann sparkar honum frá sér. Frábært hugarfar samt hjá Kuyt í kvöld og vinna fyrir liðið…….. sem skilar sér í því að ég hef hann (alls)ekki á lista yfir miðlungsleikmenn sem ég myndi vilja frá klúbbnum, það sama á ekki við um Pennant og Bennayoun, Liverpool í dag virkar orðið of gott fyrir þá. Allavega eru þeir þá alls ekki í nógu góðu spilaformi til að sannfæra mann.
Innkoma Benna Jóns var svo all verulega ósannfærandi, það er eins og honum vanti sjálfstraust og klárlega hraða.
Liðið var að spila mjög vel saman sem ein heild í kvöld eins og í síðustu leikjum, en við sluppum með þetta í kvöld með frábærri aðstoð frá Dioup, hvað hann var að gera með hendurnar skil ég ekki enda er ekki eins og maðurinn sé ekki nógu stór.
Reyndar talandi um þetta víti, þá var ég sakaður um að vera leiðinlega blindur á Liverpool (af of hörðum Arsenal manni) fyrir það að samþykkja ekki að þetta væri aldrei víti og það sæju það allir!!!!! Hvernig er það, eruð þið þessir allir? Ég sá allavega ekki betur en að um víti væri að ræða og ekkert annað. Kvartaði allavega ekki.
……og orðum þetta allavega þannig að mér fannst ekkert leiðinlegt að horfa á restina af Arsenal leiknum eftir þessar þrætur 😉
Maður leiksins: A-liðsheildin, B-Babel C-Hyypia.
Sammála Inga. Arbeloa var virkilega frískur í dag. Hann fær mitt atkvæði.
Já við höfðum þettað. en mér finnst Liv vera slakari á heimavelli, eða er það vittleysa í mér? Góð 3 stig, og gaman að sjá Hyypia fara svona mikið sem fremsti maður, já hann hefur engu gleymt.Held að Torres hefð klárað nokkur færi sem sumir gerðu ekki. Höldum þessu áfram
Bragðdauf leikskýrsla sem lýsir vel bragðdaufum leik. Eina sem ég skil ekki er hvernig menn sáu ekki þá vinnu sem Gerrard var að leggja í leikinn. Hann skoraði ekki sigurmarkið með langskoti eins og hans er von og vísa heldur úr víti, allt í góðu með það. En sendingarnar hjá honum og varnarvinnan þegar að aðrir menn voru gripnir með allt niðrum sig var mögnuð. Hann var mjög góður í dag án þess að vera í sviðsljósinu.
Sammála mönnum með Arbeloa. Hann virðist vera í fanta formi líkt og Xabi sem stígur varla feilspor á miðjunni. Hélt að Arbeloa myndi verða vandamál á þessu tímabili en það er heldur betur annað að koma á daginn.
En hvað á að gera við hann kuyt? Hann er gjörsamlega óþolandi þegar hann á svona leik eins og í kvöld. Þvælist bara fyrir og hægir á sóknunum. Fyrst hann er svona vinnusamur má þá ekki bara láta hann slá grasið á Anfield, reka vallarstarfsmennina, nota launin þeirra og kaupa einhvern betri en hann. Það má svo kalla á hann í hallæri ef það er mikið um meiðsl.
En gaman að sjá gamla brýnið koma “kaldan” af bekknum og eiga fanta leik. Menn leiksins: Arbeloa, Xabi, Hyppia.
Ég er líklega einn um þetta, en ég var nokkuð ánægður með Pennant. Menn virtust allavega eiga nokkuð auðvelt að koma boltanum á hann þegar hann tók hlaupin upp í hornið. Það má reyndar deila um hversu mikil ógn er í Pennant, en hann á nokkuð auðvelt með að koma sér í góða stöðu til að gefa fyrir, ólíkt mörgum öðrum. Svo fannst mér hann hlaupa meir en vanalega.
En þrjú góð stig eftir allt saman og sú góða pressa sem liðið hélt uppi nánast allan leikinn lofar góðu. En vonandi að liðið fari að nýta sér yfirburði sem þessa.
Ég hreinlega skil ekki af hverju Portsmouth ákvað að leggja upp með þá taktík að spila með 10 menn inní markteig og einn frammi. Þeirra styrkleiki er klárlega framlínan með Crouch og Dafoe frammi. Ég held að þeir hefðu frekar getað nappað einu eða þremur stigum ef þeir hefðu reynt að sækja.
Sem betur fer fyrir Liverpool ákváðu þeir að taka sénsinn að reyna halda hreinu gegn funheitu Liverpoolliði. Ætla ekki að hafa mörg orð um leikinn. Flestir í meðalmennskunni. Lucas olli mér vonbrigðum sem og Pennant og Babel. Hyypia var hins vegar massívur og sýndi hversu mikilvægur hlekkur hann er þrátt fyrir að hraðinn sé ekki til staðar. Maðurinn kann bara leikinn uppá 10.
Næst er það Spurs sem mæta fullir sjálfstrausts eftir ævintýralegt jafntefli gegn Arsenal og sigur síðustu helgi. Það verður svakalegur leikur!:)
Mikið er ég rosalega ánægður með Arbeloa kallinn. Hann var yfirburða maður í Liverpool liði dagsins þótti mér. Nánast flawless leikur hjá honum. Einnig fannst mér Xabi virkilega góður á miðjunni og Lucas gerði sitt vel einnig. Mér finnst vera þónokkur munur á honum frá því í fyrra ef miðað er við þennan leik. Bæði virðist sem hann sé búinn að fá leyfi til að fara yfir á vallarhelming andstæðinganna og auk þess virkar hann bæði hraustari og ákveðnari. Meira til í enska boltann.
Babel var svo ágætur í dag svosum. Hins vegar í alveg kolrangri stöðu, hann hreinlega er ekki kantmaður. Hefði ég verið í sporum Tony Adams hefði ég virkilega pælt í að taka hægri bakvörðinn minn útaf í hálfleik og láta bara varnarsinnaðan miðjumann inná í staðinn. Babel svo mikið sem horfði ekki í áttina að vængnum, hvað þá að hann skyldi hætta sér þar nálægt. Að auki virtist svo Aurelio aldrei hafa áhuga á að “overlap-a” með Babel sem gerði það að verkum að nánast allar okkar sóknir voru beint upp miðjuna með Pennant á hinum vængnum. Hann átti vægast sagt ekki góðan dag.
En 3 stig fengum við og ég er himinlifandi með þau. Það er alveg hreint ljómandi gaman að skoða töfluna þessa dagana og alveg er mér sama þó að spilamenskan sé ekki 100% ef við höldumst á þessum stað og klárum þessa leiki okkar.
Ég er miklu ánægðari með þennan leik heldur en margir hérna á spjallinu. Sammála flestu sem Babu skrifar (ummæli 10) nema að mér fannst Kuyt spila mjög vel. Hann var mikið í boltanum, alltaf að bjóða sig, duglegur að fá boltann með bakið í markið og koma honum í spil og það vantaði oft aðeins herslumuninn hjá honum og Gerrard að spila sig í gegn. Um dugnaðinn þarf ekki að fjölyrða, hann er með hugarfar sem allir leikmenn ættu að taka sér til fyrirmyndar.
Það jákvæðasta við leikinn var hversu vel menn beittu hápressunni, fyrstu 80 mín komust leikmenn Portsmouth ekki lönd né strönd enda fengu þeir engan tíma á boltann þar sem allir leikmenn Liverpool pressuðu þá út um allann völl. Xabi heldur áfram að blómstra og er farinn að spila eins og hann getur best, virkar í miklu betra formi en á síðasta tímabili. Eins fannst mér þeir Arbeloa og Lucas spila einn sinn besta leik í Liverpoolbúningi, báðir ákaflega duglegir og unnu fullt af boltum.
Virkilega ánægður með breiddina í liðinu og vonandi er þessi árangur bara byrjunin á einhverju miklu stærra.
Frábær leikskýrsla hjá Babu….nei ég meina Magga. Ég var sammála þeim báðum og tek líka undir þá sem hrósuðu Arbeloa og Gerrard.
Mér fannst reyndar allt liðið spila mjög vel og ég ætla að grafa upp Alonso treyjuna mína sem var gleymd inn í skáp. Drengurinn er orðinn þungamiðjan í þessu liði og hefur spilað frábærlega undanfarið. Hann er að dreifa boltanum, tækla og síðan er miklu meiri kraftur í honum (mentality). Það var t.d. mjög gaman að sjá í dag þegar hann sagði tröllinu Diop að drulla sér í burtu eftir að sá síðarnefndi braut á honum.
Ég hef ákveðið að færa hluta af Kuyt-ástinni yfir á Alonso sem er nýja hetjan mín á Anfield.
Jæja taugastrekkjandi leikur búinn 🙂 tók alltof langan tíma að brjóta ísinn og svo þegar það tókst þá var bara farið í Chelsea 2005 stíl. ég ætla alla vega ekki að kvarta meðan við erum á toppnum.
fannst liðsheldinn ágæt í leiknum þó fynnst mér sorglegt að hafa babel á kantinum og slow motion boy frammi. Pompey þurfti aldrei að hafa áhyggjur af kyyt að hann myndi taka run eða fara koma sér í hættu. þess vegna eins og einn sagði hérna fyrr að hafa hann í hægra kantinum kemur alla vega meira úr honum þar heldur en Pennant eða Benna jón, ég er að fíla vinnuframlagið hjá kyyt og vil hafa hann áfram 😉 bara ekki sem fremsta mann í þessari deild.
Annars fannst mér Arbeloa eiga virkilega góðan leik í kvöld, kannski hræddur um að missa stöðunna þegar degen nær sér loksins af meiðslunum. og farin að spíta í lófanna eins og Alonso. Sá karl hefur alldeilis þagað niður í flestum í byrjun mótsins 😉
Þá er bara að vona að Torres komi sjóðandi heitur í næsta leik og skori nokkur á Tottenham. alla vega farin að sakna hans ógurlega núna 🙂
Sami vinur minn Hyypia maður leiksins. Djöfull er gott að hann fór ekki frá okkur.
Pennant og Babel arfaslakir á köntunum. Ég er kominn á þá skoðun að það eigi að setja Babel á toppinn. Hann er ekki að gera sig sem kantari. Hann er þrusu leikinn með knöttinn en hefur ekki nóga góða yfirsýn yfir leikinn. Held líka að hann viti ekki stundum hvort hann er að koma eða fara… verjast eða verða fyrsti maður í boxið. Það hefði verið betra að hafa hann fremstan og Kuyt á kantinum. Vill prófa Babel sem framherja. Held að hann sé það að upplagi strákurinn.
Frábær sigur. Var skíthræddur fyrirfram að James myndi hafa vítið en sem betur fer er Gerrard skotfastur því James var í boltanum. David James er nagli í markinu hjá Portsmouth.
Áfram Liverpool…. hverjir eru næstir? Tottenham? Bring it on.
🙂
Guðni, # 8
Mikið rétt að mótið er langt og það kemur að því að við þurfum á öllum hópnum að halda. En mér finnst bara svo varhugvert að skipta 4 leikmönnum út þegar liðið er það heitasta í englandi, og það eftir að hafa sigrað á brúnni, eitthvað sem liðum hefur mistekist í 4 ár og 8 mánuði.
Það á að keyra á þeim köllum sem eru heitir, ekki Lucas og Pennant sem áttu ekki góðan leik í gær.
Það er kanski skrítið að vera að gagnrýna uppstillingu hans því að leikurin vannst, en mér finnst það samt sem áður ekki – því þessi hrikalega heimskulega markvarsla Dioupe vann leikin fyrir okkur, þetta var ekki langt frá því að vera “rotation Rafa strikes back” fiesta í blöðunum þennan morgunin.
Mér finnst bara að það eigi EKKI að róta við liðinu sem hefur ótrúlegt sjálfstraust eftir undanfarna sigra…. því menn sem komast ekki í byrjunarliðið svo mánuðum skiptir eru ekki á fljúgandi siglingu eins og restin af liðinu.
Ég verð að taka undir leikskýrsluna og velja Sami mann leiksins. Crouchy sást ekki í leiknum og var það mikið Sami að þakka, held að hann hafi unnið svona 7.500 skallaeinvígi í leiknum og eitt þeirra gaf vítið.
Annars á ég erfitt með að skilja hvers vegna Adams spilaði með Crouch einan upp á topp í stað Defoe eins og hann er fljótur og leikinn þá hefði hann líklega verið erfiðari fyrir Carra og Sami. En gott mál það 🙂
Gerrard er kóngurinn og skilaði sinu… bring on Tottenham… það virðist vera einhver Houdini andi núna í því liði, þvílíkur leikur hjá þeim í gær á móti Arsenal.
Ég held að menn geri sér ekki grein fyrir að Liv er að spila 3 leiki í þessari viku og eru búnir með 2. þess vegna hvíldi Rafa nokkra leikmenn og við vorum á heimavelli, eins er líka gott að láta sem flesta í hópnum spila eitthvað eins og hefur komið framm hér á undan. útivöllur næst og Torres væntanlega með. Mikið var Babbel tekinn tvisvar illa í gær, hélt að hann væri mikið meiddur í bæði skiptin. Áfram svo LIVERPOOL.
Ég held að það verði nú að tejast sangjörn úrslit, við vorum mun betri aðilinn á velinum án þess þó að skapa okkur eitthvað. En við fengum þrjú sting og meira vorum við ekki að reina ná í, vona bara að babel sé ekki mikið meiddur…
Sammála því sem menn hafa verið að tala um Arbeloa. Búinn að vera gríðarlega vaxandi á þessu tímabili og er klárlega byrjaður að blómstra. Frábær varnalega og er að koma gríðarlega sterkur inn í sóknarleikinn.
Þetta Liverpool lið er að verða gríðarlega þétt og sjálfstraustið lekur af mönnum. Nú þarf að halda sér á tánum og passa að fá ekki slæm úrslit inn í þetta þar sem slíkt gæti haft áhrif á sjálfstraust og þal aðra leiki í kjölfarið.
Greinilegt að Babu er með innsýn í heila Benítez, því þegar maður hélt að hann væri hættur að rótera þá kemur hann með 4 breytingar eftir sigurleik gegn Chelsea. Þannig að: hat off to you Babu:)
Svo er bara eitt um þennan leik að segja: 1-0 sigur á sterku Portsmouth liði er bara það sem meistaralið gerir!
Já, Ívar þetta var helvíti gott komment. 🙂
Þeir sem skrifa leikskýrsluna verða að vita hverjir voru bestir í liðinu. Að segja að Gerrard hafi ekki verið í gírnum er auðvitað hlægilegt. Maðurinn var útum allt og hann dró liðið að landi enn eina ferðina. Hann var reyndar alveg búinn á því síðustu tíu mínúturnar en vinnslan fram að því var mögnuð. Annað varðandi Kuyt sem segir frá í skýrslunni að tæknileg geta hafi háð honum í kvöld!!! Bíddu nú við. Kuyt verður aldrei einhver You Tube leikmaður. Að segja að tæknileg geta hafi háð honum er auðvitað eitthvað sem andstæðingar okkar segja og mér finnst lágmark að við sýnum okkar leikmönnum þá virðingu sem þeir eiga skilið.
Heyrðu Höddi minn, sannleikurinn er bara sá að tæknileg geta háði honum í gærkveldi, ef hann væri tæknilega betri þá hefði hann getað gert betur úr stöðunum sem hann vann sig stundum í í gærkveldi, næstum því í gegn, og næstum því góðar sendingar á gerrard sem hefði komist í gegn.
Jújú sammála því að Gerrard var góður í gær, en samt sem áður oft verið betri og í hærri gír.
Sammála síðasta ræðumanni….
mér fannst þetta heilt yfir allt í lagi… stressandi að bíða svona lengi eftir að okkar menn skora en mér fannst vinnslan í liðinu yfir meðallagi.
Arbeloa vann mikið upp og niður, Lucas var að skila sínu varnarhlutverki hreint ágætlega og við vorum bara óheppnir að skora ekki fyrr. Pompey eiga bara eitt markskot sem er skalli eða laus skalli frekar, og það um miðjan fyrrihálfleik. Sterk liðsheild skóp þennan sigur finnst mér. Dirk Kuyt er svona eins og Hamann var fyrir nokkrum árum, sást ekki mikið en var samt að vinna allveg gríðarlegar mikilvæga vinnu sem skilar sér í sigri.
Friður vinir, friður.
Svei mér þá, stundum held ég að “maður leiksins” fídusinn í þessum leikskýrslum ætti að detta út! Það eru engin einstaklingsverðlaun til í fótbolta sem skipta lykilmáli. Mér fannst t.d. mjög erfitt að pikka einhvern út í gær og hefði alveg verið til í að gefa öllum titilinn, eða engum. Enginn stjörnuleikur og enginn arfi. Þegar ég les skýrslur blaðanna í dag eru þær nú margar sammála mér, tala allar um frammistöðu Hyypia og því að Gerrard hafi reddað okkur í gegnum svona “hangover” leik.
Varðandi Kuyt þá veit ég ekki hvað pirrar þig Höddi minn. Hann vann vel, en hann átti mjög margar misheppnaðar sendingar, t.d. í “one-two” stöðum nálægt markinu, var í vandræðum með bakið í markið og tók að mínu mati margar rangar ákvarðanir í sendingavali. EN. Hann er ekki YouTube leikmaður og ég meinti það ekki illa þegar ég talaði um að tæknileg geta hafi háð honum, heldur var nú frekar mín meining að við ættum ekki að pirra okkur á þeirri staðreynd!
En ég ítreka að kannski ætti að fara í gang pæling með að hætta að velja mann leiksins eftir leikina. Ansi mikil umræða á neikvæðum nótum varðandi þann þátt, sem ég held að skipti litlu máli. Ef einhver spilar frábærlega og við töpum er ég jafn fúll og ég er glaður þegar einhver spilar illa en við vinnum.
Svo skulum við halda áfram að brosa breitt yfir bestu byrjun liðsins okkar frá því Úrvalsdeildin hófst!
Liðið pressaði rosalega á köflum og er langt síðan ég hef séð liðsheildina jafn samhenta í varnarvinnu upp um allan völl (ekki síðan á sunnudaginn það er að segja;) Samlíkingar við Valencia liðið hans Benitez eiga vel rétt á sér eftir þennan leik. Mér fannst liðið alls ekki spila illa þeim gekk einfaldlega illa að nýta þau færi sem sköpuðust. Vantaði smá heppni sem að lokum kom úr óvæntri átt frá Papa Bebopaloolashesmybaby.
Varðandi það hverjir voru að skara framúr verð ég að gefa Arbeloa nokkur atkvæði, hann var algerlega frábær. Gerrard var líka góður, Carra og Hyypia voru góðir og eins fannst mér Xabi frábær og farinn að sýna af hverju Juventus og Arsenal viltu fá hann í sumar. Babel var rosalegur í fyrri hálfleik og gríðarlega erfiður að eiga við.
Kuyt vann vel (heyrt þetta áður) en er ekki besti kosturinn í lone center stöðuna. Lucas var ég ekki alveg að átta mig á. Mér fannst hann á köflum í fyrri hálfleik koma vel út en síðan er eins og hann týnist löngum stundum. Átta mig ekki alveg á hans framlagi alltaf.
Með Torres heilan á móti Spurs þá verður all snarlega settur endir á mini revolutionið sem virðist vera hafið á White Hart Lane.
Það voru fjórar breytingar á liðinu frá síðasta leik, öðrum leik okkar af þremur á einni viku. Tvær þeirra, Riera og Keane voru vegna þess að þeir voru frekar tæpir, Hyypia var ég búinn að gefa rök fyrir og ég er nú á því að Lucas sé jafnvel bara betri lausn heldur en JM gegn hávöxnum liðum sem pakka bara í vörn.
Hvað Gerrard varðar þá er ég sammála flestum um að hann átti fínan dag í gær, en ef skýrsluhöfundi fannst hann ekki vera upp á sitt besta er það hans mál að dæma það og lýsing á hans skoðun, aðrir geta svo verið ósammála og fært rök fyrir því. Það er stundum smá munur á því að ríða á vaðið og dæma leikinn án þess að sjá skoðun “fjöldans” áður en maður setur fram sinn dóm.
Þarna finnst mér Kuyt syndrome-ið endurspeglast afar vel!! Það er bara alls ekkert bannað að pirra sig yfir því hvað tæknileg geta Kuyt er að há honum og benda á það hér, sérstaklega þegar hann spilar einn upp á toppi og er mistækur sem aldrei fyrr. Ef andstæðingar okkar eru að halda þessu fram er kannski málið að átta sig á því afhverju þeir eru að halda þessu fram.
En ég skil samt aðeins betur að hann hafi verið upp á topp í þessum leik þar sem Riera, Keane og auðvitað Torres voru tæpir. Hefði viljað Babel þarna en hann er auðvitað okkar besta cover fyrir Riera.
……….og Maggi, með bættri frammistöðu Kuyt, uppgufun eigenda og góðu gengi þá er alveg nauðsynlegt að halda áfram með val á manni leiksins, svona rétt á meðan þessi gúrkutíð í þrætumálum varir 🙂
En ég stend ennþá við mitt val á manni leiksins í gær A – Liðsheildin.
Babu.
Sammála án vafa. Maður leiksins í gær var liðið í heild. Um það deili ég ekki, en ef velja á mann leiksins þarf jú að pikka einhvern einn út. Bendi t.d. á að opinbera heimasíðan er hætt að láta blaðamann sinn velja leikinn, en leyfir lesendum að velja hann. Það er örugglega út af einhverju. Veit líka að íþróttafréttamenn Moggans þurfa iðulega að svara fyrir M-gjöfina sína.
En auðvitað ef menn vilja þræta í góðu gengi er þetta ágæt leið…..
Það var mjög mikilvægt að fá öll stiginn í þessum leik. 9 stig í hús af 9 án Torres er allavega ekki til að kvarta yfir. Vonandi verður hann til gegn Tottenham í næsta leik.
Mér finnst líklegt að 90 stig vinni deildina í ár og við erum strax komnir með 26 sem er flott mál. Með þessu áframhaldi fáum við 99 stig í deildinni svo við getum ekkert gefið eftir.
Ég vel Alonso mann leiksins því mér fannst hann gjörsalega frábær. Arbeloa er runner up og Hyypia tekur bronsið.
Núna er algengt að tala um að næsti leikur er viss prófsteinn en málið er fyrst liðið er komið í þessa stöðu eru allir leikirnir ákveðinn prófsteinn og í raun úrslitaleikir, enda er það í höndum LFC og engra annarra að vinna deildina, vissulega er hálf heimskulegt að segja þetta í október en samt er sannleikskorn í þessu.
YNWA
Snilldar afgreiðsla á vítinu hjá Gerrard. Djöfull er miklu skemmtilegra að horfa á þetta lið þegar Torres er ekki með. Kominn með nóg af því að það er verið að hypa hann upp og gefa alltaf á hann. Kuyt er miklu flottari þarna frammi með Gerrard sem er KÓNGUR !!!
Ég er alveg mótfallinn því að hætta að velja mann leiksins. Þið setjið nú yfirleitt góð rök fyrir ykkar máli þegar þið veljið mann leiksins.
Spurning um að menn sýni pistlahöfundum smá virðingu og segi frekar hver þeim fannst bestur án þess að gera lítið úr álit pistlahöfunda (#9).
Ég skil vel að Hyypia hafi verið valinn maður leiksins af Magga því hann er ekkert búinn að spila í deildinni og kemur inn og stendur sig frábærlega. Alonso, Gerrard, Arbeloa og Hyypia hefðu allir getað fengið þennan titil í þessum leik.
Ég verð líka að taka undir með Babu að Lucas henti jafnvel betur gegn liðum sem pakka niður inn í teig. Lucas var nú ekkert síðri en Mascherano hefur verið á þessu tímabili.
Það er bara gott mál að velja mann leiksins og mætti í sumum tilfellum velja MENN leiksins. En í sambandi með getuna hjá Kuyt, þá átti hann gott skot sem James varði og held ég að það hafi verið snildar markvarsa en ekki getuleysi hjá Kuyt að boltin fór ekki í mark. Auðvita er hann stundum ekki að gera það sem maður vill, og sama má segja um Gerrard og Alonso, sum skot þeirra voru víðs fjarri markinu í gær. Ég held að allir í Liv hafi getuna, bara misjafnlega mikla. Annars snildar þrumu skot hjá Carr á ramman sem James hélt varla eða þannig.
LIVERPOOL !!!! #1
GERRARD !!!!!! #1
TORRES !!!!!!!!! # 0
sammála Júlla #38 og fleirum ef menn rökstyðja skoðun sína getur þetta oft orðið skemmtileg umræða. En ummæli sem eru eingöngu sett inn til að lýsa andúð sinni á vali manni leiksins og þá heimsku eða skilningsleysi pistlahöfundar, eru ekki í anda þessara síðu. Ég er ekki að segja að menn geti verði að vera sammála aðstendum þessarar síðu síður en svo. Bara rökstyðja ekki fúkyrði.
Bjarki Páll …. við erum búnir að ná þessu með þig og Torres, en ég verð að segja að þetta er léleg tilraun stuðningsmanns annars liðs til þess að taka umræðuna á annað plan, fyrir utan hve barnarleg comment þín eru… GUMMI hafði meira til síns mál en þú.
jahhh Eyþór, við skulum nú ekki fara fram úr okkur hehehehe 😀
Sæir félagar
Leiðinlegt að koma svona seint inn en mitt álit er þetta. Hyypia á alveg skilið að verða tilnefndur maður leiksins. Eins á sá sem skrifar leiskýrslu rétt á að tilnefna hvern þann í það sem honum finnst hæfa í það heiðurssæti. Hans álit er hans… og svo geta aðrir haft sitt álit án þess að það rýri í nokkru álit skýrsluhöfundar.
Ég vil endilega að þeim þætti verði haldið inni því auðvitað er það fyrst fremst til skemmtunar en er ekki einhver endanlegur dómur sem allir verða að vera sammála.
Að mínu mati voru þrír leikmenn í liðinu í gær sem ekki ná máli sem byrjunarliðsmenn. Pennant er einfaldlega í besta falli varamaður þá og þegar hópurinn er svo þunnur (meiðsli-leikbönn) að ekki er um aðra að ræða.
Fabio Aurelio (kemur ef til vill á óvart 😉 er alls ekki byrjunarliðsmaður og varla varamaður. Sæmilegur bakvörður en algjörlega ónýtur framávið. Var þó í sínu besta framávið í þessum leik enda fór hann allur fram á vallarhelmingi andstæðinganna. Benayoun er í besta falli varamaður en þarf að sýna töluvert meira en hann gerði í gær.
Hvað aðra varðar þá var Carra góður í gær en það er bara svo venjulegt að enginn hefur séð ástæðu til að benda á það. Fyrirliðinn var ágætur en maður hefur séð hann “spila” betur en dugnaðurinn var klassi.
Babel vantar ansi mikið uppá leikæfingu en ég er sammála því sem einhver sagði að hann er betri senter en Kuyt. Svo vantar hann dálítið uppá í hörku. Hann er stundum dálítið hræddur við líkamleg átök. Er samt örugglega ein okkar besta von.
Þetta er fín leikskýrsla hjá Magga vini mínum þó ekki hafi verið úr miklu að moða eftir leikinn.
Ég hefi séð liðið okkar spila betur en í þessum leik en liðsheildin var nokkuð massiv og skilaði því sem þurfti. Ég er sáttur
Það er nú þannig
YNWA
við sem höldum með uneted vitum að þetta heppnissgenngi ykkar mun ekki endast þar sem þið hafið ekki cristianno Ronaldo, haha og torres meyddur, bara gangi ikkur vel.
Frank …
Nú verður þú að útskýra mál þig….. hvað er Uneted og hver er Cristianno ?
*útskýra mál þitt 😉
Já, val á manni leiksins er alltaf spurning. Fótbolti snýst um tilfinningar og menn hafa mismunandi sjónarhorn og tilfinningu fyrir leikjum. Get alveg skilið val á Sami, en það var einn maður þarna inná sem var tvímælalaust minn maður leiksins, Arbeloa. Hann var algjörlega frábær í þessum leik. Í rauninni áttu margir fínan dag, fáir sem voru að eiga slakan dag. Helst Pennant, en honum voru mislagðir fætur þegar kom að því að koma boltanum fyrir markið. Mér fannst Stevie allt í lagi, og þeir sem tala um að Kuyt hafi misst boltann oft frá sér, þá gerði Stevie jafn mikið af því. Hann barðist vel og skapaði gott pláss með hlaupum sínum, en standardinn hans er hár og á hans standard var þetta ekki neinn stjörnuleikur.
Frank staðfestir formlega það sem flestir almennilegir menn hafa lengi vitað. Þ.e.a.s. að stuðningsmenn Man Utd eru annaðhvort bólugrafnir unglingar með of langa olnboga eða þroskaheftir, oft bæði.
Toggi: Hvernig er hægt að vera með of langa olnboga?
Góður sigur. Þetta er að detta með okkur núna, það er nokkuð ljóst. Annars frekar ósammála pistlahöfundi um að Gerrard hafi ekki verið í “gírnum” í gærkvöldi. Fannst hann í sérflokki og besti maður vallarins.
Ég hef hitt marga í Liverpool, m.a. Gerrard úti í Liverpool, Torres og Reina hér heima og Benitez á Spáni. Ég hef líka gert góða hluti í þjálfun yngriflokka og tel mig vita mikið þar af leiðandi um fótbolta.
Vil benda á að þegar ég hef hitt þessa menn þá hafa þeir ekki sýnt mínum tilsögnum mikinn áhuga nema Benitez, hann sagði að ég færi snillingur. Ráð mín til hans hafa því væntanlega átt mikinn þátt í gegni liðsins á þessu tímabili, og ef Torres hefði hlustað þá væri hann kannski ekki meiddur !! Gerrard er samt alltaf bestur og þarf ekki að hlusta!! En ég held að við vinnum 2 tittla í ár, ef marka má gögn sem ég hef undir höndum.
Segi ykkur betur frá því seinna.
Áfram Liverpool !!!
framhald síðar….
Toggi; Alger óþarfi að gera lítið úr þroskaheftum!
Ívar: Hvernig er hægt að halda með Man Utd?
Jafn fáránlegt
firirgefið þetta átti að vera united og Cristiano, ég er sko ekki þrosskaheftur og en vill ekki gefa ikkur upp aldur.
Var bara að segja ikkur að við vinnum þetta alltaf, ekki þið, þið hafið ekki unnið úrvalssdeyldina, aldrei:)
þú getur ekki verið mikið gamall fyrst þú félst á stafsetningu í 3 bekk
Ætli það séu ekki Y litningar í Frank og öðrum united mönnum?
Annars er nú miðað við lágmarks vandvirkini hérna og skítkast frá United börnum sérlega illa liðið. Miðað við málfar hjá Frank og þá staðreynd að hann heldur með United ætla ég að giska á að hann sé ekki nema 29 ára gamall.
En að öllu gríni slepptu, við hlótum að geta lyft umræðunni á hærra stig (þetta komment þ.m.t.)
Ég vil nú svosem ekki setja mikið útá stafsetninguna hans sem slíka, þó henni sé ábótavant. Klókustu snillingar geta verið lesblindir og þ.a.l. ekki jafn sleipir í tjáningu á rituðu formi. Hinsvegar bendir innihald kommentana til að um sé að ræða fífl, þó það sé engan veginn þess virði að eyða meira púðri í það
Strákar, þið eruð líklegast að eyða tímanum í að rífast við og úthúða United-aðdáanda sem er sennilega svona tíu ára gamall. Ég meina það ekki á niðrandi hátt um Frank, en af ummælum hans að dæma er hann líklega frekar ungur að árum. Hugsið aðeins um það áður en þið segið fleiri litningabrandara.
Annars ætti ég með réttu að ritskoða nokkur af ummælunum hér fyrir ofan. Við líðum ekki skítkast á þessari síðu og gildir þá einu hvort um er að ræða sjálfan Robbie Fowler eða illa skrifandi United-menn sem koma hingað inn til að rífa sig. Sýnið virðingu.
Er ekki best að tækla svona ,,málefnalega” umræðu með því hreinlega að gera henni ekki þann greiða að ræða hana??
Láta hana bara hverfa hljóðlega segi ég….
annars var þetta meira meint sem Y brandari 😉
Já sammála því, stuðningsmönnum annara liða sem geta ekki stafsett sitt lið rétt ættu varla að geta stolið umræðunni ef út í það er farið…
En það er ekki laust við að manni sé strax farið að hlakka til leiksins á laugardaginn. Ég veit að það verður gríðarlega erfiður leikur, en sigur þar væri frábær! sérstaklega mtt þeirra leikja sem framundan eru.
Prófsteinn? 🙂
Tott – Liv laugardag kl. 17/30. Við eigum að taka þennan leik, efsta liðið á móti því neðsta, að vísu eru liðin sem eru í fallsæti að berjast eins og ljón en Liv getur líka barist eins og á móti City. Ars hefur eflaust haldið að þettað sé komið hjá þeim og hafa bakkað, en svoleiðis má ekki gerast. Maður hefur séð þettað oft hjá Liv og fleiri liðum s,l ár og þá hafa menn misst forskotið. Nú bíður maður bara eftir upphitun eða þannig. KOMA SVO LIVERPOOL.
Djöf er þetta fljótt að líða, annar leikur á morgun
Reina-Arbeloa-Carra-Agger-Aurelio-Mascherano-Alonso-Kuyt-Gerrard-Riera-Keane.
Hef trú á því að Keane skori gegn sínum gömlu. Spá leiknum samt 2-2. Keane og Kuyt með mörkin okkar en Modric og Pavluychenko fyrir Spurs.
Lolli verður Torres ekki með á morgun, er hann ennþá meiddur?
einsi kaldi, skv. nýjustu fréttum á heimasíðu Guillem Balague (sem er mjög vel tengdur við Spánverjana í Liverpool) er Torres byrjaður að æfa á fullu með aðalliðinu aftur en mun pottþétt ekki byrja inná gegn Tottenham. Hann gæti því verið á bekknum á laugardaginn og fengið nokkrar mínútur, sé hans þörf, en annars hvílt ef liðið er að vinna án hans. Svo er spurning hvort hann eigi meiri séns á að spila í Meistaradeildinni á þriðjudag.
Já, þetta gerist hratt.. snilld að fá 3 leiki í premier á svona stuttum tíma. Tottenham er svona lið sem keyrir á sínum bestu mönnum í góðan tíma og Harry er varla að fara rótera 3 leikinn í röð á stuttum tíma þannig þeir æættu að vera útkeyrðir sumir, sértsaklega eftir síðasta leik. Við hvíldum m.a Agger, Mascha, Riera og Keane. Svo kemur Torres væntanlega í hóp.
2-0 fer sá leikur. Keane eða Kuyt skora í fyrrihálfleik og svo kemur Torres af bekknum og settur eitt úr skalla í lokinn.
Sælir.
Ég þekki Gerrard vel og hann lofar sigri á morgun !!!
Björ Ragnar lifir þú í draumaheim. 🙂
Sæll Einsi
Vil ég benda þér að lesa pistil minn ofar um tengsl mín við Liverpool FC. Ég lifi ekki í draumaheimi heldur er ég þeirrar blessunar aðnjótandi að þekkja marga í klúbbnum og mun koma framhald síðar af tengslum mínum við þá. Sérstaklega við stjórna klúbbsins.
Bið ég því þig að kynna þér staðreyndir áður en þú ert með slíkar aðdróttanir.
Mbk Björn
Sæll Björn Ragnar. Ég tel að ég sé ekki með aðdróttanir, enda setti ég broskall við kommentið= smá grín. Ég þekki þig ekki neitt og það getur vel verið að þú þekkir til leikmanna og þjálfara i Liv, en þá spyr ég, hvers vegna hefur þú ekki bloggað fyrr á þessari síðu og tjáð okkur hin um þín samskifti við leikmenn. það hefði verið gaman t,d, þegar að allt var í háalofti hjá eigendum og Rafa. Kveðja einsi kaldi.
56 Raggi
gott “coment” en það eru 2 L í að “féllst”