Sókn er besta vörnin?

Undanfarið hef ég mikið velt fyrir mér afhverju öll umræða um Liverpool sé frekar á neikvæðum nótum heldur en jákvæðum, svona í ljósi þess að liðið er á toppnum í desember í fyrsta skipti í yfir áratug og var að enda við að ná fleiri stigum úr sínum riðli í meistaradeildinni heldur en það hefur nokkurntíma náð. Það þrátt fyrir að hafa fengið erfiðasta riðilinn að margra mati. Það er eitthvað stórbrenglað við þetta, afhverju er liðið svona óskaplega pirrandi og hversvegna í ósköpunum er ennþá til hópur sem efast um að Rafa Benitez sé rétti maðurinn til að leiða Liverpool til frekari sigra?

Efasemdaröddum virðist ekkert fækka og gagnrýnin ekkert minnka þrátt fyrir að liðið sé efst og búið að vinna sína helstu andstæðinga, ólíkt síðasta tímabili sem þó skilaði okkur afar nærri titilbaráttunni og einu sjálfsmarki frá þriðja úrslitaleik meistaradeildarinnar á fjórum árum. Sjáfur hef ég tekið þátt í að gagnrýna einstaka ákvarðanir Rafa Benitez og kem að öllum líkindum til með að gera það áfram, en andskotinn hafi það, við bara hljótum að vera hreint andskoti vanþakklátur hópur þessa dagana, er það ekki?

Val á leikmönnum:

Rafa Benitez var mjög líklega sofandi þegar farið var yfir það í fótboltaskólanum að sókn væri besta vörnin, þess í stað hefur hann aðhyllst kerfi sem virðist í grunninn vera þveröfugt, allir verjast og gera það sem lið. Hann hefur líklega komist að þeirri niðurstöðu að með því að fá ekki á sig mark á maður alltaf góðan möguleika á að læða inn einu og þannig vinna leikinn. Grátlega einfalt en samt svo flókið.
Með því að horfa á þetta svona næ ég að einhverju leiti að skilja t.d. afhverju Dirk Kuyt er svona stór partur af liði Rafa Benitez á meðan t.d. Babel, Pennant og Benayoun eru það ekki. Hugsunarhátturinn virðist allajafna frekar vera sá að passa fyrst og fremst að tapa ekki jafnvæginu á liðinu og treysta frekar á að halda markinu hreinu heldur en að leggja upp með að sækja á fullum krafti til sigurs.

Líklega kemur að meðaltali betur út að tryggja það að halda stöðugleika í liðinu með mann eins og Kuyt sem vinnur mikið betur fyrir liðið og mun meira af óeigingjörnum skítverkum heldur en t.d. Babel og Pennant, sem maður hefði talið nokkuð augljósa kosti í þá stöðu sem Kuyt hefur nánast eignað sér. Með Babel eða Pennant fengjum við að öllum líkindum mikið fleiri færi en við fáum núna, þeir geta tekið menn á, komið boltanum fyrir og jafnvel skorað mun betur heldur en Kuyt, en með því myndum við opna mikið betur fyrir sóknaraðgerðir andstæðinga okkar upp vinstri vænginn. Þetta er fín lína sem Benitez þarf að vinna eftir, gegn sumum liðum finnst manni hann allt of varkár en stundum gengur þetta mjög vel upp. Auk þess er Kuyt auðvitað “gamall” striker og því ekki alveg vonlaus sóknarlega þó stundum virki hann ákaflega mistækur. En heilt yfir skilar hann sínu og vel það…og líklega mjög vel því hlutverki sem Benitez er að fela honum. Varnarleikurinn er Babel og Pennant ekki jafn eðlislægur og þar held ég að þeirra vandamál liggi helst.

Vinstra megin virðist áherslan undir Benitez hafa verið öllu meiri á sóknarleikinn, þá meina ég að það hafa verið meira sóknarþenkjandi menn vinstra megin heldur en hægra megin, vandamálið er bara að það hefur alltaf verið eitthvað vesen með þá sem eiga að sjá um þessa stöðu. Að hugsa um Kewell gerir mann sorgmæddan því á pappírum ætti hann að vera ákaflega hentug típa af leikmanni fyrir okkur, Mark Gonsalez var mikil vonbrigði, Leto gæti komið þarna inn og Babel er ekki hreinræktaður kanntur. Þetta eru samt allt mun meira sóknarþenkjandi menn heldur en sá hægra megin og í Riera er loksins kominn hreinræktaður kanntur sem bætir sóknarleikinn töluvert. Hann heldur sig meira á kanntinum en við höfum vanist, kemst upp að endamörkum og nær fyrirgjöfinni. Á móti skilar hann ekki eins mikilli varnarvinna (eða bara vinnu) og t.d. Kuyt gerir hinumegin.

Sama á við um bakverðina að mínu mati, Riise, Aurelio og Dossena virðast vera mun meira sóknarþenkjandi heldur en t.d. Finnan, Arbeloa og …..wait for it… Josemi. Auðvitað er þetta ekki algilt, Arbeloa og Finnan hafa undanfarin ár sótt mikið upp kanntinn og menn eins og Kuyt og Mascherano hafa varið þeirra svæði í staðin. Samt finnst mér vinstri bakverðirnir overlap-a mun meira og koma sér alveg upp að endamörkum, sést t.d. á því að stundum hafa vinstri bakverðir okkar verið notaðir sem kanntmenn (án þess að ég sé aðdáandi þess). Kannski er það bara tilviljun að vinstri helmingurinn sé meira sóknarþenkjandi hjá okkur, kannski er það bara ímyndun og vitleysa í mér, kannski er það vegna þess að sendingar frá vinstri eru móttækilegri fyrir réttfætta menn, ég veit það ekki, en ég held að það sé afar lítið um tilviljanir þegar kemur að Benitez og mig grunar að þetta sé afar stór partur af kökunni þegar kemur að því að skapa jafnvægi í liðinu.

Með MaSerrano djúpan á miðjunni höfum við svo skriðdreka sem tekur stundum þannig leiki að hann gerir vörnina allt að því óþarfa, ef andstæðingarnir stilla upp frambærilegum “holu” leikmanni, líkt og við gerum sjálfir, þá eru þeir leikmenn oftar en ekki bara teknir úr umferð nánast því eins og maður sé í handboltanum og sjást ekki nema á leikskýrslunni og af og til að rúlla sér í grasinu í grend við miðjuna. Líkt og með Kuyt þá er Mascherno alls ekki eins sterkur á svellinu sóknarlega og þeir sem hann er að keppa við um stöður , en hann hefur engu að síður vinninginn og er ákaflega mikilvægur liðinu fyrir fáránlega vinnusemi þegar kemur að skítverkunum og sýnir allajafna mjög mikinn karakter. Báðir þessir leikmenn finnst manni nánast óhugsandi að vera án þegar kemur að stærstu leikjunum, en kannski ekki eins mikilvægir þegar kemur að liðum sem við bökkum ekki eins mikið gegn.

Á miðjunni held ég að Benitez vilji aðeins meira sóknarþenkjandi mann heldur en Alonso síðustu ára, þess vegna held ég t.d. að Barry hafi verið inn í myndinni. En með Alonso endurfæddan höfum við held ég akkurat þann mann sem pantaður var, hann er farinn að taka yfir leiki aftur og stjórnar nú spili liðsins eins og herforingi, maður er aftur hættur að sjá Liverpool fyrir sér án Alonso, það er nánast óhugsandi, hann er einn af okkar al mikilvægustu mönnum.
Sama á við um stöðuna sem nær því besta út úr Gerrard. Þar held ég að sé nánast hinn fullkomni holuleikmaður eftir hugmyndafræði og leikskipulagi Benitez. Hann er vinnusamari heldur en Kuyt og Mascherano (og þá er mikið sagt), getur varist svipað vel og hann getur sótt ásamt því að hann er að skila haug af mörkum og ennþá stærri haug af úrslitasendingum sem enda sem mark eða hættulegt færi. Með því að kaupa Keane er líklega verið að hugsa þetta á svipaðan hátt en þó líklega með hann sem ennþá meira sóknarþenkjandi, Keane er second striker típa ættaður úr sókninni á meðan Gerrard er meira holuleikmaður ættaður af miðjunni. Benitez virðist vilja geta stillt líka upp 4-4-2 og hugsar Keane líklega í grunninn sem góðan partner fyrir Torres, ekki þennan lone striker sem hann hefur verið að leysa í byrjun tímabils.

Frammi (í 4-2-3-1 leikkerfi) vill Rafa svo held ég fyrst og fremst hafa vinnusaman mann, sem auðvitað skilar mörkum. Samkvæmt hugmyndafræðinni virðist sem mörkin eigi að dreifast nokkuð jafnt og án Torres virðist það vera svolítið raunin. Ef Gerrard er nánast fullkomin tegund af holu leikmanni miðað við hvernig liðinu er upp stillt þá bara hlítur Torres að vera ansi nærri því líka. Hann vinnur heilmikið fyrir liðið og er, líkt og Rush var í den, okkar fyrsti varnarmaður. Ofan á það er hann hreinlega alltaf hættulegur þegar hann er í grennd við tuðruna og samstarf hans og Gerrard minnir á King Kenny og Rush (ekki hægt að bera það mikið meira lofi).
Þessi eiginleiki að vera góður líka sem fyrsti varnarmaður held ég að vegi þungt í því að menn eins og Kuyt og Keane eru frekar fengnir til að fylla skarð Torres í framlínunni þegar hann er ekki með, en ekki t.d. Babel. (ath. ég er að reyna að skilja þetta). Svipað og með Cruoch, hann hefði líklega aldrei náð því að verða meira en mikið notaður 12.maður í Liverpool sem fengi sénsinn þegar prufa ætti eitthvað nýtt. Trúið mér, ég sakna Crouch mikið og finnst hans skarð alls ekki hafa verið fyllt, en ég átta mig á þvi að hann hefði líklega aldrei passað inn í leikaðferð Benitez. Svipaða sögu er að segja með Cisse og Baros, sem reyndar báðir höfðu það á móti sér líka að vera hreinlega ekki nógu góðir, né nógu heppnir með meiðsli og jafnvel líka gáfur.

Áherslur:

Þegar ég segi að liðið leggi frekar áherslu á að fá ekki á sig mark heldur en að skora mark, þá er ég alls ekki að meina að liðið spili leiðinlegan bolta og sæki lítið, alls ekki. Við bara spilum allt öðruvísi heldur en menn eru vanir að sjá til sóknarliða. Rafa Benitez er algjör snillingur í að núlla út leik andstæðingsins, því stærri og hugrakkari sem lið virðast vera til að sækja, þeim mun betur henta þau Liverpool að spila gegn. Allir tíu útileikmenn Liverpool hafa þau fyrirmæli fyrst og fremst að pressa andstæðinginn og loka öllum svæðum. Allir andstæðingar Liverpool eru gríðarlega vel kortlagðir fyrir hvern einasta leik og það er ákaflega sjaldgæft að lið undir stjórn Rafa Benitez sé yfirspilað, það bara gerist nánst ekki.
Svona er samt ekki innstillt í stórt lið eins og Liverpool á einni nóttu, Benitez hefur unnið sleitulaust að því að búa til sitt lið og er ennþá í þeirri vinnu (og hættir líklega aldrei). Fyrst var það hin afar umdeilda svæðisvörn sem hann setti á laggirnar, menn virkuðu stundum eins og álfar út úr hól og þar sem þetta var nýjung fyrir “sérfræðingunum” á Englandi (og víðar) þá var þetta kerfi hakkað í spað hjá pressunni.  Þrátt fyrir að tölfræðilega væri Liverpool að ná mun betri árangri með þessari nýju vörn heldur en áður. Það var þarna og eins og síðar hefur verið með nánast allt sem virðist viðkoma Rafa, gert var þvílíkan úlfalda (og jafnvel Sigvalda) úr mýflugu að það var rosalegt. Rafa virðist fara mjög í taugarnar á mörgum og því gagnrýndur ákaflega fyrir eitthvað sem öðrum er hrósað fyrir. Latir blaðamenn eiga afar erfitt með að skilja hugmyndafræði Rafa og nenna ekki að spá í ástæðum fyrir ákvörðunum spánverjans, sem virðast þegar allt kemur til alls hafa bætt liðið og þann árangur sem það var að ná. Nærtækast er að skoða vinningshlutfall Liverpool undir stjórn Benitez, það er komið í grend við mestu goðsagnir sem stýrt hafa liðinu.

Ég veit ekki hvort hann teljist vera úr hópi blaðamanna, en í Paul Tomkins sem skrifar reglulega inn á Official síðuna á Rafa Benitez líklega sinn besta vin þegar kemur að því að rétta af þankagang stuðningsmanna og setja hlutina í samhengi. Sá ágæti kappi mætti ná að breiða sinn boðskap lengra út heldur en bara til þeirra sem lesa þá síðu.

Róteringar

Með því að tala um ósanngjarna gagnrýni og lata blaðamenn er ekki hægt annað en að minnast á rotation kerfið  margfræga. Það er engin tilviljun að Liverpool hefur undir Rafa verið mun hressara eftir áramót heldur en fyrir áramót. Á meðan leikjaálagið er sem rosalegast (deild, deildarbikar og meistaradeild) hefur hann hrært mikið í sínu liði og þannig farið afskaplega mikið í taugarnar á “sérfræðingunum” sem ólust upp við það að sigurlið væri byggt upp á 11 leikmönnum sem færu ekki úr sigurliði nema þeir væru meiddir. Vissulega var þetta nokkuð nýtt sem Benitez var að innleiða með þessu stífa og miskunarlausa skiptikerfi en engu að síður ekki svo frábrugðið því sem höfuð andstæðingar okkar voru að gera. Það hefur meira að segja verið sýnt fram á (t.d. af Tomkins) að Benitez róterar bara engu meira en aðrir stjórar sem spila svipað marga leiki á ári, jafnvel minna. Þegar verst lét var eins og Benitez hefði einn fundið þetta kerfi upp og væri nánast sá eini sem notaði þetta. Helsta vandamál hans áður var bara að miðað við samkeppnina vorum við bara ekki með nógu stóran og góðan hóp til að keppa á toppnum til enda. Ásamt þvi að meiðsli lykilmanna voru allt of tíð sem jók gagnrýni á þetta rotation kerfi.

Með þessu er ég alls ekki að segja að þessar skiptingar hans hafi verið með öllu hafnar yfir gagnrýni, margir eru t.d. á því að hann hafi látið af þessu stífa rotation kerfi í ár. Hvað það varðar er ég ekki viss, Benitez virðist vita núna nokkurnvegin hvernig hann vill hafa sitt sterkasta byrjunarlið og er búinn að móta þá hryggsúlu sem hann hefur stefnt að lengi. Hann hróflar sjaldan við hryggsúlunni nema um meiðsli sé að ræða eða ómerkilega leiki og persónulega held ég að það hafi verið hugmyndin allann tímann. Ég ætla allavega að láta það sérfræðingum á borð við Tomkins eftir að finna út hvort róteringar á liðinu séu færri nú heldur en áður og ef svo hvort það komi til með að koma niður á liðinu seinni hluta tímabilsins, ég allavega vona ekki og held ekki. Með komu Reina, Riera, Lucas, Skrtel, Agger, Maschernao, Torres, Keane o.fl. eru komnir mun sterkari póstar heldur en var fyrir og þar liggur munurinn.

Sóknarlið – varnarlið

Ef við gefum okkur að leikaðferð Liverpool sé frekar varnarsinnuð heldur en sóknar og áherslan sé að stóru leiti að núlla sóknartilburði andstæðingana út þá næ ég allavega sjálfur að átta mig aðeins betur á því afhverju við virðumst vera farnir að taka oftar öll stigin úr stóru leikjunum en höldum áfram að ná ekki að klára leiki eins og gegn Fulham, Stoke og fleiri svona minni liðum sem spila bara upp á jafntefli.

Á þróunarskeiði liðsins undir Rafa hefur það með hverju tímabilinu litið þéttara og heilsteyptara út. Á tímabili virtist það ótrúlega oft duga okkur að hleypa andstæðingunum einu sinni í sókn og þeir skoruðu, eða þá að svæðisvörnin var út á túni í föstum leikatriðum. Ég hef ekki tölu á því hversu oft Liverpool hefur hreinlega verið rænt 2-3 stigum í leikjum sem við áttum bara alls ekki skilið að tapa. Gott dæmi eru leikirnir gegn United og stundum Chelsea undanfarin ár, United er auðvitað með frábæra einstæklinga og það dugaði þeim oft að fá afar fá færi til að vinna leikinn gegn okkur, vörnin þeirra er svo ekkert slor þannig að aldrei féll þetta með okkur gegn þeim, þó oft værum við grátlega nærri því. Sama átti við um Chelsea, þeir lögðu leikinn upp á svipaðan hátt og við og því fóru leikirnir oftar en ekki út í að minna á endursýningar af hressilegri atskák, þar réð stundum óheppnin ein því að við fengjum ekki neitt út úr viðureignum við þá og stundum (í CL) féll þetta með okkur. Þessi “óheppni” okkar, sem fólst í því að það virtist nægja að fá eitt færi gegn okkur til að ná í stig, stórlagaðist líka með komu Jose Reina, hann hefur vaxið gríðarlega og verið að bæta clean sheet met klúbbsins. Hann er alltaf á tánumog því ready í þau stundum fáu skipti sem reynir á markvörð Liverpool, Dudek var svolítið í því að hugsa um skútu.

Á þessu tímabili heldur varnarleikurinn áfram að vera traustur og liðið heldur áfram að bæta sig aðeins frá fyrra ári, núna féllu t.d. leikirnir gegn United og Chelsea með okkur (sanngjarnt og vel það) ásamt því að nú er langt í frá öll nótt úti enn þó liðið lendi undir í leikjum, jafnvel þó við séum án Torres. Inn á milli (aðeins of oft reyndar) koma leikir gegn liðum sem hreinlega pakka öllu sem þau eiga í vörn og við náum ekki að brjóta á bak aftur, þeir leikir eru samt engir heimsendir í augum Benitez þar sem hann vill fyrst og fremst ekki tapa. Þetta er að ég held bara einn partur af púslinu sem fljótlega verður á dagskrá að laga. Það er búið að setja markmannspúslið á réttann stað fyrir næstu árin myndi maður ætla, sama á við um miðverðina og varnarleikinn í bili, bakverðirnir verða að bæta sóknarleikinn reyndar.  Miðjan gæti ekki litið mikið betur út fyrir næstu ár ásamt því að unnið hefur verið að endurbótum á vinstri kannti og sóknarleik með kaupum a Riera og Keane.

Holningin á liðinu virðist í augnablikinu vera góð og liðið er til alls líklegt. um leið og við náum andstæðingunum út úr skotgröfunum erum við alltaf líklegir til að slátra þeim, þ.e.a.s. liðunum utan topp 4 hópsins.

En afhverju erum við svona pirrandi?

Eins og ég kom inná fyrir nokkrum metrum þá fær Liverpool og Rafa Benitez á sig heilan sæg af ósanngjarnri gagnrýni, þetta lið er ekki eins og gamla góða Liverpool var nánast því allt þar til Roy Evans hætti með liðið. Ef við nútímavæðum þetta þá er Liverpool liðið alltaf að líkjast meira og meira Valencia liðinu sem tók Liverpool í kennslustund, þá undir stjórn Rafa Benitez og það á evrópukvöldi á Anfield. Það er að koma æ betur í ljós afhverju lið undir stjórn Rafa virðast vera sterk á útvelli, þar er líklegra að andstæðingurinn stelist úr skotgröfunum. Persónulega þá var ég heillaður af Valencia þegar þeir voru upp á sitt besta, fannst þetta geggjað lið.

Þetta skýrir kannski eitthvað undirliggjandi pirring hjá mörgum. Eins ef ég kem aðeins inn á stundum skrýtna umfjöllum fjölmiðla þá telst t.d. Arsenal ennþá vera voða hip og kúl, þrátt fyrir að vera ekki nálægt því að vera sama frábæra liðið og fór taplaust í gengum tímabilið 2004. Þetta “frábæra” Arsenal lið hefur ekki náð árangri síðan þá svo heitið getur, ekki meiri heldur en við allavega þó þeir hafi ekki verið fjarri lagi. Það eru auðvitað til sóknarlið sem hafa unnið deildir á þeirri hugmyndaræði að skora bara meira en andstæðingurinn, en þó held ég að varnaraðferðin sé búinn að sanna sig mikið betur sem sú aðferð sem líklegri er til árangurs. Sóknarlið eins og Arsenal, Brassar, Real Madríd allajafna og Barcelona eru að mínu mati frekar undantekningar. Fyrir utan að nallarar hafa nú bara oftast á að skipa mjög góðri vörn og beita hrikalega öflugum áhlaupssóknum.

En á sumum bæjum virðist það ekki vera vinsælt að ná árangri sem byggður er upp með góðum varnarleik, Real Madríd voru svo ofur snjallir að reka sjálfan Fabio Capello fyrir það að skila titli í hús á varnarleik, í kjölfarið eru þessir ullarhattar í tómu rugli núna og nú þegar búnir að reka einn stjóra.  Svipaða sögu er að segja um Chelsea, þeir voru afar illviðráðanlegir undir stjórn Mourinho sem fékk engu að síður að taka pokann sinn. Reyndar var það aðallega vegna þess að hann er f***ti en ekki út af varnarhugmyndafræði. AC Milan hefur sópað að sér titlum sem byggðir voru upp á því að liðið spilaði frábæra vörn, sama má segja um mörg önnur ítölsk lið, landslið þeirra þ.m.t.

Liverpool er í þessum hópi með mjög góðan varnarleik sem fær ekki mikið af færum á sig, það er hápressa sem skilar sér í því að við refsum mótherjunum grimmilega fyrir mistök eins og góðra liða er siður. Okkar kerfi tel ég ekki vera svo ýkja frábrugðið einu albesta liðinu um þessar mundir, man ekki nafnið á því liði sem stendur en í því eru betri bakvarðasveitir en við getum boðið upp á og mun öflugri sóknarþenkjandi kanntmenn með besta leikmann heims í broddi fylkingar, en sá vælukjói hefur verið leiðinlega góður undanfarin ár. Þeir virðast ekki eins mikið treysta á að halda endilega hreinu og tekst vel upp með það. Þeir slátra oftar en ekki litlu liðunum sannfærandi, eitthvað sem við mættum læra af þeim…….en á móti kemur þá eru United (alveg rétt) menn vissulega oftar en ekki í heilmiklu basli með að brjóta á bak aftur lið Liverpool. (fyrir utan að á meðan við kaupum strikar á 20 m.p. þá kaupa þeir striker á 30.m.p.).

Ég vona mikið og innilega að innan skamms verðum við að tala um hvernig þessi leikaðferð skilaði titli í hús hjá okkur.

Karakter

Það er hægt að stúdera leikaðferðir og uppstillingu út í hið óendanlega, til að vinna titla þarf lið að hafa innanborðs nokkra mjög sterka karaktera og leiðtoga sem geta unnið saman sem liðsheild. Þarna held ég að flestir geti verið sammála um að okkar menn séu hrikalega sterkir á svellinu um þessar mundir og hafa verið undanfarin ár og áratugi.

Steven Gerrard er gjörsamlega óumdeildur leiðtogi liðsins, hversu oft hann hefur bjargað þessu liði fyrir horn á ögurstundu er bara fáránlegt og því klárlega okkar mikilvægasti leikmaður. Ef Carragher hefði ekki verið svo fjandi “óheppinn” að vera uppi á sama tíma og Gerrard hefði hann tekið þetta band fyrir 3-4 árum. Hann er að mikill leiðtogi innan liðsins þrátt fyrir að hafa ekki alltaf bandið og ég held að það skipti hann akkurat engu máli hvort hann sé með fyrirliðabandið eða ekki, hann verður alltaf Carra fyrir því. Ofan á þetta eru í hópnum gamli fyrirliðinn okkar, Sami Hyypia, einhver besti miðvörður í sögu klúbbsins, einn yngsti fyrirliði stórliðs á spáni sér um sóknarleikinn, fyrirliði Argentínu er í okkar röðum ásamt (vara)fyrirliða Íra og fyrirliða Ísrael. Þar fyrir utan eru margir leikmenn með gríðarlegan karakter sem klárlega smitar út frá sér, t.a.m. Jose Reina, Dirk Kuyt að ógleymdum fyrirliða U-21 árs landsliðs…….brassa!!

Þetta tel ég að vegi mjög þungt líka þegar skapað er lið sigurvegara og innleitt  er hugarfar sigurvegara. Menn eins og Cisse, Anelka, Baros og fleiri held ég að komi alltaf til með að eiga afar erfitt uppdráttar undir stjórn Benitez þar sem þeir hafa ekki rétta hugarfarið. Það er nú ekki lítið oft sem kallinn tönglast á að menn þurfi að hafa rétta hugarfarið. Gott dæmi um lið sem hefur afar fáa leiðtoga um þessar mundir og líður fyrir það er Arsenal, ég kem alltaf til með að sakna Billy Gallas gríðarlega sem fyrirliða nallara, því verri leiðtoga man ég vart eftir.

Hvernig hefur liðið haldið þessum stuðning?

Ef ég enda þetta svo á þvi að fara aðeins út fyrir sporið þá langar mig að leggja fram smá pælingar varðandi stuðningsmenn Liverpool. Eins og við vitum nú flest þá myndum við vilja sjá markaðssetningu klúbbsins mun betri heldur en hún hefur verið, bæði til að auka hróður félagsins enn frekar og auðvitað skila fleiri krónum í kassann. En í ljósi þess að liðið hefur ekki unnið titilinn þetta lengi verður það að teljast nokkuð athyglisvert hversu marga stuðningsmenn félagið á og hversu vel gengur að fjölga þeim. Besti úrslitaleikur sögunnar er líklega í seinni tíð besta auglýsing sem Liverpool gat nokkurntíma fengið og hjálpar auðvitað heilmikið. En ég held samt að þetta hafi alveg verið uppi á teningnum fyrir þann leik, vel fyrir.

Það eru einhver tengsl milli púllara, einhver stemming eða hjarta sem heillar og laðar að nýja meðlimi. Eins og t.d. þegar sungið er You´ll Never Walk Alone, þá trúa menn því að það sé verið að meina það. Þegar það er stemming hjá stuðningsmönnunum þá smitar þa út frá sér til leikmanna og hjálpar til við að sigra leiki, Anfield hefur oft sannað það að völlurinn getur virkilega verið 12.maðurinn í stórum leikjum.

En svo ég komi mér að efninu, sem dæmi um hvað þessi stóra fjölskylda okkar er þó í raun lítil eitthvað hendi ég hér inn þremur myndum sem ég tók sjálfur, félagi minn sem fylgist greinilega vel með bloggsíðunni minni benti mér á þetta fyrir nokkru.

Sú fyrsta er slöpp mynd sem tekin af random hópi stuðningsmanna Liverpool í flenni gír fyrir utan Eight Bells í London (fyrir Fulham – Liverpool), Misheppnuð mynd þar sem hún nær enganvegin að sýna stemminguna.

.

Önnur myndin er tekinn nokkrum dögum seinna af syngjandi stuðningsmönnum Liverpool inni á Park (fyrir Liverpool – Chelsea) (eiga fyrstu tvær eitthvað sameiginlegt?)

.

.

.

………………… og síðasta myndin og sú sem kom mér hvað mest á óvart þegar mér var bent á þetta…..

………………..tók ég í þriðja skipti af sama gaurnum, nú með syngjandi Sigga Hjaltested í fanginu  inni í hvítu tjaldi á Þjóðhátíð í eyjum!!!! Þetta er í þokkabót hjá fólki sem ég hafði aldrei nokkurntíma séð áður…….en nokkrum sinnum talað við…..nákvæmlega á þessari síðu.

Svo ég útskýri þetta aðeins þá hafa margir vinir mínir farið með klúbbnum út og kannast því við vitleysinga eins og SStein, Braga og það afdala pakk. Andy þessi er stórvinur þeirra og líklega þeim sem ferðast hafa með klúbbnum að góðu kunnur, enda að ég held sessunautur sjálfs Pete Sampara oft á tiðum á leikjum. Hann var þarna að tilstuðlan Sigga og ástæðan fyrir því að ég rambaði þarna inn var að menn voru að gaula Liverpool söngva hástöfum.

En þegar maður er farinn að hitta á þetta lið á Þjóðhátíð þá er heimurinn orðinn lítill. Andskotinn hafi það 🙂

Takk fyrir mig

Babú.

31 Comments

  1. Þetta er stórkostleg grein, það eina jákvæða sem ég hef lesið í kreppuni.
    Takk Babú.

  2. Skemmtileg lesning. Og Josemi?? Alveg klár. Efast ekki um Benitez og ekkert sem segir að hann geti ekki gert þetta eins og hver annar.

    • Og Josemi?? Alveg klár.

    Josemi, einhver mesta hetja sem í Liverpool búning hefur komið, keyptur (og seldur með hraði) af Rafa getur bara ekki talist sem sóknarþenkjandi hægri bakvörður er það? 😉

  3. Með fullri virðingu fyrir öllu sem skrifað hefur verið hér á síðuna, þá held ég að þetta sé besta grein sem verið hefur skrifuð hér.

    Gjörsamlega frábært efni.

    Ég segi bara takk fyrir mig.

    YNWA

  4. Það er nú ekki hægt annað en að standa upp og klappa fyrir þessari grein !!!

  5. Tek undir með fyrri ræðumönnum, frábærar pælingar, rökfast og skemmtilegt – ég fór í gegnum þetta allt. Man ekki betur en ég hafi hitt þennan mann á Park 2005 og þá var hann nýlega kominn af þjóðhátíð. Sennilega með ykkur félögunum. En, nokkrir punktar, svona upp á rökræðuna: Ef sending kemur frá vinstri, þá er vera fyrir hægrifótarmann að taka hana og leggja eða klippa í netið því ef hann er með varnarmann í bakinu þarf boltinn að fara framhjá líkamanum og hægri löppin er sumsé hinumegin við hann. Vinstri bakvarðastaðan er enn jafnmikið vandamál og áður en Jón Árni vinur okkar allra fór frá félaginu. Insúa er greinilega mikið efni en varla klár í heilt tímabil með mörgum úrslitaleikjum. Við virðumst gleyma því að hann átti nú hlut í markinu sem við fengum á okkur gegn Blackburn. Því gleymir Rafa ekki. En varnarlega er enginn þessara þriggja sem við höfum núna, nógu sterkur. Þú talar um að Manjú séu betri þarna, það er hárrétt. Og fjölmörg önnur lið líka.
    Punktar varðandi Kuyt, Valencia og slíkt eru mjög góðir og tek ég heils hugar undir þá. Ég held hins vegar að næsti leikmaður sem verði keyptur, verði öflugur hægri kantmaður. Engin Queresma eða Joaqin, heldur öflugur, tiltölulega hávaxinn, vinnusamur leikmaður, sem hefur betri tækni, hraða og áræðni en Kuyt en skilar svipaðri vinnu. Rafa kaupir ekki Youtube leikmenn vegna þess að þar er ekki sýnt hvernig leikmennirnir vinna til baka og eins og þú bendir réttilega á þá er það lykilatriði í kaupum Rafa.
    Frábær pistill, meira af þessu frá ykkur öllum helst. Ekki tvo svona í einu þannig að maður eyði mörgum klukkutímum í þetta:)
    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  6. Frábær grein. Ef ég hefði hatt myndi ég taka ofan fyrir þér og ef þú heyrðir myndi ég klappa.

    Stórkostleg lesning og kærkomið frí frá jólaprófum að lesa eitthvað jafn skemmtilegt og þetta.

  7. Takk Babu
    Ég hef alltaf sagt að Benítez er snillingur. Þegar kemur að róteringunum marg frægu þá hef ég alltaf sagt að þetta er hugmyndafræði hans og sem betur fer þá heldur Benítez sig við sína hugmyndafræði, en breytir ekki eftir veðrum og vindum. Það sínir sig á hans árangri að hann veit hvað hann er að gera. Hvernig voga fjölmiðlar og jafnvel aðdáendur Liverpool að hakka hann í sig þegar hann er með, spánarmeistaratitilinn, konungsbikarinn á spáni, MEISTARADEILDARBIKAR, evrópumeistarfélgsliða-bikar, FA-Cup bikar á bakinu. Vita menn ekki að Benítez hefur gert hluti með Liverpool á hans fyrstu árum sem Alex Ferguson dreymdi um að gera með Man.utd fyrstu 8 árin. Ég hef aldrei þolað þessa ósanngjörnu gagnrýni sem Benítez hefur fengið á sig. Svo virðist sem íslenskir íþróttafréttamenn míga þegar breskir pistlahöfundar míga og Copy/paste þetta bull án þess að setja nokkra rannsóknarvinnu af stað…..En allavega það sem skiptir mestu máli…Áfram Liverpool, næst er það Hull sem við verðum að vinna…

  8. Besta íslenska íþróttagrein, leyfðu mér að orða þetta aðeins betur,
    Besta íslenska grein sem að ég hef nokkru sinni lesið.
    Ég held nú bara að Tomkins geti farið að vara sig, Babu er mættur!
    Ég hef ósköp lítið við þessa grein þína að bæta, því að ég er svo hjartanlega sammála þér í einu og öllu þarna.

    Klárlega “must read” grein fyrir þá sem að entust ekki fyrstu blaðsíðuna!

    Takk.

  9. Jájá slaka aðeins á hérna.
    “Besta íslenska grein sem ég hef nokkru sinni lesið”.

    Hvað lest þú dags daglega? barnaland.is? 🙂
    Þetta er ágætis grein, voða jákvæð og vel uppsett. Myndir á réttum stöðum. Mikið af !! upphrópunarmerkjum!!, “……gæsalöppum” og hún er wait for it…..skemmtileg. Þetta er ægileg svona Feelgood grein fyrir Liverpool aðdáendur.

    Ef maður skoðar textann hinsvegar nánar þá er þetta bara lausleg upptalning á leikmönnum liðsins og fjölmiðlaumfjöllun um Liverpool, en þetta ristir voðalega grunnt. Engar tilvitnanir í þjálfara eða leikmenn til að styrkja textann. Ekkert sem setur þessar hugleiðingar í sögulegt samhengi.
    Í pistlinum vantar líka mun betri greiningar á leik Liverpool undir stjórn Rafa, eigendaskiptunum, hvert Liverpool er að stefna og hvernig þessi 24hour knee-jerk reaction götupressa á Englandi litar alla umfjöllun Liverpool í óhag. Hversvegna Lundúnaliðið Chelsea fékk undir stjórn Mourinho hrós fyrir sama hlut (agaðan skipulagðan varnarleik) og Liverpool fá last fyrir. Útfrá þessu hefði mátt leggja um breskt samfélag og sjálfsvorkunn Liverpool aðdáenda yfir því að hafa ekki unnið titilinn í tæp 20 ár.

    Ég hef fylgst með þessari síðu nánast frá upphafi og þetta er langt frá því að vera bestu skrif sem hafa birst hér. Greinin hans Kristjáns Atla um leikkerfispælingarnar er t.d. miklu betri. Langbestu skrif sem hafa hingað til birst hér er síðan þessi um hvernig Rafa hefur innleitt hugmyndir Rinus Michels o.fl. … http://www.kop.is/2008/07/30/08.59.16/

    Greinin hans Babu er ansi svipuð og þegar Moggabloggarinn Stefán Friðrik Stefánsson skrifar um Sjálfstæðisflokkinn. Talað jákvætt í hringi fyrir innvígða. Maður þarf að vera soldið mikið bláeygður til að finnast svona skrif afburða góð.

  10. Ja hérna… Þessi grein er snilld og orð í tíma töluð. TAKK!
    Bara verst að það skuli ekki vera til sjálfsþýðingarforrit ÍSL/ENS svo restin af heiminum gæti notið þess að lesa pistlana hérna.

    Er byrjaður að fá kvíðahnút í magann fyrir Hull leikinn, sem er gott. Merkir að við erum að spila mjög þýðingarmikinn leik!

  11. Sælir
    Frábær grein næstum eins og masters ritgerð um þjálfunaraðgerðir Benitez. Engu líkara að þú hafir verið í símanum við Benitez og rætt málin tímunum saman.

    Eitt sem ég hef verið að hugsa um munið þegar Peter Crouch kom til Liverpool hann var afar sorglegur fyrstu mánuði og skoraði ekki mark fyrr en í desember. Þá skoraði hann líka 10 mörk í 10 leikjum eða eitthvað slíkt. Fjölmiðlar voru búnir að afskrifa hann og búnir að setja hann á lista yfir verstu kaup ársins. Þetta leiðir mig að Robbie Keane er að vona að hann fari að komast á gott run og sanni sig. Held að núna fari að koma að honum og að hann verði afar mikilvægur næstu 2-3 mánuði og skori að vild. Vonum það besta alla vega.

  12. Flott lesning meistari Babu, maður þarf að lesa tvisvar til að melta, og það er ávísun á flotta hluti.
    Allt of langt mál að ætla að svara því sem maður er sammála og ósammála en ég er sammála 18x fleiru en ég er ósammála.
    Mig langar samt að bæta því við að ég held að það séu tvær aðalástæður þess að Rafael Benitez er svona gríðarlega vinsæll á meðal stuðningsmanna liðsins.
    A) Sú staðreynd að hann hefur lagt talsvert uppúr því að virkja vara- og unglingaliðin. Við hér erum ekki að fylgjast mikið með þeim en grasrótarstarf félagsins var í molum eftir Houllier og Thompson og gríðarleg kergja á milli þeirra og þess fólks sem var að vinna með yngra fólkið og “people in the community”. Frá fyrsta degi hefur Rafa unnið mikið í því að fá til starfa menn sem hann treystir og njósnanetið sem fer víða um heiminn miðar líka að því að finna karaktera ungra manna sem að ráða við þann veruleika sem þeir búa við í Liverpool. Þetta metur fólk gríðarlega við hann og þegar ég er þarna úti drekk ég í mig slíkar sögur, því við hér sjáum svo lítið hvað er að gerast hjá fólkinu á skrifstofunni, í búðinni eða hjá yngri flokkunum.
    Það fyrsta sem hann spyr leikmenn sem hann kaupir er hvort þeir vilja spila með Liverpool, svo hvers vegna. Leikmenn sem ekki sýna áhuga eru ekki keyptir. Óháð getu.
    Við sem munum eftir Paul Stewart t.d. erum sáttir við það…
    Margt líkt með því hvað Sir AF gerði við Scums á sínum tíma og FH gerði hér. Ef þú vilt ná árangri til lengri tíma byggirðu upp liðið í heild. Chelsea mun þess vegna ekki ná langtímaárangri og ég held að sigurganga Vals á Íslandi sé tímabundin.
    B) Ekki síður er sú staðreynd að Rafael og fjölskylda hans virðast elska það að búa í Liverpool. Hann keppist við að hrósa fólkinu sem borgina byggir, stelpurnar hans orðnar “Scousers” og hann lýsir því reglulega að hann vilji vera afar lengi í starfi. Liverpool og íbúar hennar stæra sig af því að þeir séu ekki Englendingar, heldur “Skáserar” og það að Rafa hefur keppst við að verða einn þeirra fíla þeir vel.
    En aftur, flott grein Babu!!!

  13. Kannski ég bakki nú aðeins með þessi ummæli, þar sem prófalesturinn hefur sökkt manni ofan í harðan heim leiðinda og jafnvel gervi-þunglyndis, þá er þetta bara svo mikið mikið mun skemmtilegra að lesa heldur en að lesa um peningamálastefnur, verga landsframleiðslu og hvað þetta nú allt heitir!

  14. Þakka góðar undirtektir, tek nú undir hinum ávallt jákvæða Sölva í fyrstu 2 línunum eða svo.

    En c´mon Sölvi, þetta eru mínar vangaveltur um hluti sem hafa verið margræddir undanfarin ár. Annars gaman að fá gagnrýni svosem og ég þakka Sölva sérstaklega fyrir það……eða allt þar til kom að þessari móðgun…….

    • Greinin hans Babu er ansi svipuð og þegar Moggabloggarinn Stefán Friðrik Stefánsson skrifar um Sjálfstæðisflokkinn.

    ALDREI líkja mér við þann penna, og helst bara ekki moggabloggara yfrhöfuð. Takk.

  15. Virkilega skemmtileg lesning. Rífur mann upp úr þunglyndis-siðblindu-spillingar og ógeðsfréttalestri undanfarnar vikur um viðbjóðinn sem grasserar hér á þessu landi. HÚRRA, HÚRRA, HÚRRA. Takk fyrir mig 🙂

  16. Mikið var gaman að lesa þessa grein. Ég elska Liverpool og ég elska þessa síðu. Be Champions!

  17. Flott grein Babu … virkilega. Bara vona að þú takir mig í sátt þó svo að ég bloggi stíft á moggablogginu. Það eru ekki allir slæmir þar og þetta er alls ekki slæmur vettvangur til bloggskrifa – ekki verri en hver annar. Tek undir orð Magga… maður þarf tíma til að melta þetta, en er ógulega sammála flestu!

    Varðandi vinnusemina, þá finnst mér meistari Carra bera þar af og svo koma MaSerrano (frábært!! 🙂 ) og Kuyt og svo fyrirliðinn.

    Flott lesning, góð inn í helgina!

  18. Hehe Doddi, “moggabloggarar” eru lið eins og þessi Stefán, Jenný Anna, Jens Guð o.s.frv. sem tjá sig um með sterkum skoðunum um aðrahverja frétt til að fá athygli.

    Það eru ekki allir “moggabloggarar” sem eiga síðu undir því kerfi 😉 Vona að þú áttir þig á hvað ég er að fara. Hef alveg ratað inn á þína síðu og flokka hana ekki í þessum hópi.

    Svo var ég að prufa nýja tegund af auglýsingu fyrir EÖE hehe

  19. Góð grein Babu!
    Það er oft þannig á þessari síðu að einhverjir gagnrýna og svo koma aðrir og gagnrýna þá sem gagnrýna, og eru þá gagnrýndir í staðinn. Það er bara þannig þegar maður fer inn á síðu sem er full af fótboltabullum, okkur sem viljum bulla um fótbolta.
    Ég efaðist stórkostlega um Rafa á síðasta og þarsíðasta ári. En ég get alveg étið þau orð ofan í mig núna.

    …og ef við vinnum ekki á morgun þá verð ég alveg brjálaður 🙂

  20. Halló Babu!
    Ekkert svona, engar Moggabloggalhæfingar. Imbaproof vefur sem ekki þarf að eyða miklum tíma í uppsetninguna… Á moggabloggsíðu að sjálfsögðu!

    Ég hágræt hérna!!!!!

  21. Maggi, I was útskýring what I meinti.
    (en ég skal tala til baka þetta með alla moggabloggara…….svo ég ítreki þá fer bara þessi Stefán Friðrik og hans líkir í taugarnar á mér).

  22. HÓSTmérfinnstframhjámérgengiðHÓST :p

    En fyndið að þú skulir vera með mynd af Andy á öllum stöðum, þessi maður er algjör snillingur og verður seint sakaður fyrir að vera ekki Liverpool maður…fyrir utan auðvitað að vera alveg gull af manni. Ég man nú svo óljóst eftir þessum söng í eyjum eftir að þú komst til okkar, ég, Andy, Bragi og Siggi erum auðvitað allir með gullbarka en svo komst þú og skemmdir allt soundið okkar :p

    En að pistlinum, ég hef eiginlega ekkert að segja nema bara eitt stórt HRÓS. Magnaður pistill. Ég skil vel ástæðu þess að Kuyt er t.d. svona mikið í liðinu, ég er bara ekkert alltaf sammála því. Ég vil samt ekki taka Kuyt eitthvað sérstaklega út, nefni hann bara sem dæmi.

    Ég vil samt fá annan hægri kanntara í janúar, einhvern eins og Rieira. Á móti “litlu” liðunum þá er það mín skoðun að við þurfum ekki Gerrard, Keane, Kuyt, Alonso og Mascherano alla inná. Þetta eru allt menn sem skila mikilli varnarvinnu en á móti liðum eins og Hull um helgina er það mín skoðun að við þurfum ekki að vera svona niður njörvaðir. Ég er ekkert að tala um all out attack ala Brazil, en einhvern gullin meðalveg 🙂

    …en ef ég á að setja út á eitthvað í þessum pistli(ég get nú ekki skrifað komment nema vera aðeins neikvæður 🙂 ) þá er það hlutinn með Arbeloa. Mér finnst hann einmitt hafa bætt sig alveg gríðarlega og er farinn að valsa upp kantinn og taka mun meiri þátt í sóknarleiknum. Markið hans um daginn er ágætis sönnun þess.

    En bara aftur, magnaður pistill og STÓRT KLAPP Á BAKIÐ BABU!

  23. Fín grein Babu – vonandi róast þessir neikvæðu aðeins. Við erum jú í stöðugri framför.

  24. Andy, frábær náungi. Ég hitti hann og Pete ásamt félaga mínum á Park fyrir og eftir leik Liverpool og Bordeaux í Meistaradeildinni haustið 2006. Þetta er eins harður Púllari og hugsast getur! Ég mun aldrei gleyma þessu kvöldi þegar þeir félagarnir mötuðu okkur á sögum frá Istanbul, bara frábært 🙂

    Virkilega áhugaverður pistill hjá Babu. Ég held að það sjái það flestir að Rafa er auðvitað að reyna að búa til svipað módel og hjá Valencia. Það hefur gengið hægt en mér finnst þetta samt vera að koma hægt og bítandi. Vonandi fær hann tíma til að halda áfram með þetta því ég hef trú á kallinum.

  25. góð grein. get svo sem tekið undir með sölva að ég kýs tilvitnanir og tölfræðilega vinnu svo greinar fá hæstu einkunn hjá mér. hvaða blaðamenn og sérfræðingar eru t.d. að gagnrýna liverpool, því það eru svo sannarlega ekki allir (t.d. times og bbc tiltölulega hliðhollir). og hverjum er ekki sama um hvað dv og sun segja um nokkurn skapaðan hlut. efasemdir hafa vissulega kviknað undanfarið um titilvonir liðsins, og stafar af tregðu við að vinni minni spámenn sannfærandi, og óþarfi að vera hörundsárir yfir þeirri umfjöllun.

    ég er sammála að rafa virðist hafa fínpússað hrókeringar sínar þannig að hryggjasúlunni er nú ekki haggað í mikilvægum leikjum, fjöldi skiptinga sem tomkins taldi eru nánast merkingarlausar ef ekki settar í samhengi við mikilvægi leikmanna og leikja.

  26. Frábær grein.
    Til að ná árangri er oftast best að vinna leiki. Til að vinna leiki þarf að skora fleiri mörk en andstæðingurinn. Það er auðveldara að skora eitt mark en fjögur mörk. Þess vegna er auðveldara að varna andstæðingum að skora mörk og ná einu og vinna leiki þannig heldur en með all-out sóknarleik þar sem lið skora 2-4 mörk í leik en fá á sig 3-5. Á þessari forsendu í misjöfnum útfærslum hafa flest öll bestu lið sögunnar unnið. Það er ekki tilviljun að landslið og félagslið frá Þýskalandi, Ítalíu og Englandi (félagslið) hafa náð mun betri árangri en landslið frá Frakkland og Spáni og Frönsk félagslið. Brassarnir kunnu illa að verjast fram undir lok síðustu aldar, þótt þeir spiluðu glimrandi sóknarbolta. Brasilía-Ítalía á HM 1982 er klassíkst dæmi um mismunandi knattspyrnu, samba mætir valsi ef svo má segja. Svo koma tilbrigði eins og Liverpool á gullárunum upp úr 1980. Þá var stillt upp í sókn, svipað og við þekkjum í handbolta og boltinn látinn ganga horn út á skytturnar og leikstjórnendur á línumennina og yfir á skyttuna hinum megin og út í horn, þar til að færi gafst. Þá var stillt upp í kerfi sem lauk með skoti frá skyttunum eða línusendingu inn á línumanninn öfluga Ian Rush sem lauk yfirleitt bara á einn veg ! Að sjá þetta slær öllum skyndisóknum að hætti Arsenalmanna við. En frábær grein – spurning um að brjóta svona svakalega pistla upp í tvo til þrjá hluta og hafa framhaldspistil !!

  27. Nr. 6 Ívar Örn

    Ef sending kemur frá vinstri, þá er verra fyrir hægrifótarmann að taka hana og leggja eða klippa í netið því ef hann er með varnarmann í bakinu þarf boltinn að fara framhjá líkamanum og hægri löppin er sumsé hinumegin við hann

    .

    Ég henti þessu nú bara fram meira í gríni 😉 en persónulega finnst mér betra að taka við honum frá vinstri vængnum og hamra hann duglega….yfir.

    Ég held hins vegar að næsti leikmaður sem verði keyptur, verði öflugur hægri kantmaður. Engin Queresma eða Joaqin, heldur öflugur, tiltölulega hávaxinn, vinnusamur leikmaður, sem hefur betri tækni, hraða og áræðni en Kuyt en skilar svipaðri vinnu

    Hjartanlega sammála þessu, þetta er allavega sú staða sem ég myndi næst horfa til og reyna að bæta. Kannski bara óskhyggja að úr rætist en ég væri til í að fá frambærilegan mann með þá kosti sem þú lýsir og hafa Kuyt þá meira sem squad leikmann.

    Nr. 25 Benayoun
    Varðandi Arbeloa þá er ég sammála því að hann hefur bætt sig sóknarlega undanfarið og raunar gerði Finnan það líka. Mér finnst engu að síður vinstri bakverðirnir allir vera meira sóknarþenkjandi og hafa verið það síðan Rafa tók við. (en eins og ég segi, kannski bara tilviljun eða bull í mér).

    (svo var ég ekki að ganga fram hjá þér Benni minn, ég sagði “og það afdala pakk”, fyrir utan að þessir félagar mínir þekkja Braga og Steina ;))

    Nr. 29 arnbjörn

    hvaða blaðamenn og sérfræðingar eru t.d. að gagnrýna liverpool, því það eru svo sannarlega ekki allir (t.d. times og bbc tiltölulega hliðhollir). og hverjum er ekki sama um hvað dv og sun segja um nokkurn skapaðan hlut.

    Þar sem pistillinn er nú um allann tímann sem Rafa hefur verið hjá Liverpool þá sá ég bara akkurat enga þörf á því að fara eyða tíma í að grafa upp augljós dæmi um ósanngjarna umfjöllun fjölmiðlamanna sem efuðust um og gagnrýndu harðlega t.d. zonal vörnina og eins rotation kerfið sem Rafa innleiddi í Liverpool. En þessir sérfræðingar úr hópi fjölmiðla voru ansi margir og oft t.d. gamlir leikmenn Liverpool þar fremstir meðal jafningja.
    Að minnast á þetta í þeirri viðleitni að reyna finna út afhverju Benitez virðist vera pirrandi kallast ekki að vera hörundsár eða eitthvað þvíumlíkt í mínum kokkabókum. Enda hefur það verið að koma betur og betur í ljós að zonal vörnin er bara alls ekki eins gölluð og talið var í fyrstu og rotation ekkert sem einungis Rafa notar.

    ég er sammála að rafa virðist hafa fínpússað hrókeringar sínar þannig að hryggjasúlunni er nú ekki haggað í mikilvægum leikjum, fjöldi skiptinga sem tomkins taldi eru nánast merkingarlausar ef ekki settar í samhengi við mikilvægi leikmanna og leikja.

    Þessu er ég ekki alveg sammála því að ég held að Rafa hefði viljað hafa sína hryggsúlu leikmenn meira á undanförum árum, líkt og hann gerir nú. Það væri allavega gaman að sjá hversu oft hann var tilneyddur til að hrófla við liðinu og þá þessum mikilvægustu mönnum. Reina, Hyypia, Carra, Alonso, Hamann, Gerrard (Finnan og Riise líka) voru oftast í liðinu þegar þeir voru heilir.
    Munurinn núna er líka sá að hann hefur úr að velja betri hóp, þannig að hrókeringar hafa ekki eins mikil áhrif og þau höfðu á fyrstu tímabilum Benitez í bítlaborginni.
    Það er allavega mín tilfinning, án þess að ég nenni að sannreyna hana með því að skoða allar skiptinar Rafa eftir að hann kom til Liverpool.

    Með þessu er ég samt ekki, frekar en Tomkins, að segja að ég hafi verið sammála öllum skiptingum eða liðsuppstillingum Rafa, guð minn almátthgur nei, Kuyt, Sissoko og Riise í sama liðinu trekk í trekk var t.a.m. nálægt því að senda mig á geðsjúkrahús. En ég skil hvað hann var að meina með þessu og mín skoðun er sú að gagnrýnin sem hann fékk hafi verið ósanngjörn, enda var hann á svipaðri línu og hinir topp stjórarnir.

    og hverjum er ekki sama um hvað dv og sun segja um nokkurn skapaðan hlut.

    Það stendur á bls. 1 í reglum púllara að eigi skalt þú lesa The S*n og helst ekki minnast á þann klósettpappír. DV í seinni tíð er íslenska útgáfan af þessu sorpriti svo ég fullvissa þig að ég var aldrei nokkurntíma með þessi blöð í huga.

    Nr.11 Sölvi

    Engar tilvitnanir í þjálfara eða leikmenn til að styrkja textann. Ekkert sem setur þessar hugleiðingar í sögulegt samhengi. Í pistlinum vantar líka mun betri greiningar á leik Liverpool undir stjórn Rafa, eigendaskiptunum, hvert Liverpool er að stefna og hvernig þessi 24hour knee-jerk reaction götupressa á Englandi litar alla umfjöllun Liverpool í óhag. Hversvegna Lundúnaliðið Chelsea fékk undir stjórn Mourinho hrós fyrir sama hlut (agaðan skipulagðan varnarleik) og Liverpool fá last fyrir. Útfrá þessu hefði mátt leggja um breskt samfélag og sjálfsvorkunn Liverpool aðdáenda yfir því að hafa ekki unnið titilinn í tæp 20 ár.

    Vá, ég var nú fyrir það fyrsta að henda hérna fram spá pistil um mínar hugleiðingar og aðalmarkmiðið var að reyna að skilja aðeins betur ástæðuna fyrir nokkrum lykilákvörðunum Benitez. Hugmyndinn var ekki að skrifa bók.Ég held að þú hafir misskilið pistilinn aðeins.
    Veit t.a.m. ekki hvar og afhverju ég átti að vitna í: leikmenn og þjálfara? eigendaskiptin? framtíðarstefnuna? (kom ég ekki inn á að liðið væri stöðugt að bæta sig undir Rafa?)
    Svo sagði ég ekki að öll fjölmiðlaumfjöllun hefði verið á móti Liverpool og allir vondir við okkur. Ég sagði að Rafa hefði á sýnum ferli fengið mjög mikið af gagnrýni sem mér finnst hafa verið ósanngjörn og oft vitlaus.
    Eins sagði ég ekki að Chelsea undir Mourinho hefði fengið mikið hrós fyrir agaðan og skiplagðan varnarleik, þó þeir vissulega fengu það og það mjög réttilega. Mér fannst pressan nú oftast frekar á móti Chelsea heldur en með, enda talað hrokagikkurinn í fyrirsögnum og klúbburinn umdeildur í neikvæðri merkingu. (slegið fram eftir minni, án heimilda).

    Hvað lest þú dags daglega? barnaland.is? 🙂 Þetta er ágætis grein, voða jákvæð og vel uppsett. Myndir á réttum stöðum. Mikið af !! upphrópunarmerkjum!!, “……gæsalöppum” og hún er wait for it…..skemmtileg. Þetta er ægileg svona Feelgood grein fyrir Liverpool aðdáendur.

    Ef þetta er raunin þá var það ekki endilega ætlunin, auðvitað er þetta fyrir Liverpool aðdáendur, en ekki hvað? Feelgood umfjöllun um þetta ágæta TOPPLIÐ okkar er eitthvað sem virðist vera ákveðið tabú hjá þér, en ef hún flokkast sem slíkt þá segi ég bara gott mál.
    Hugmyndin var t.d. að reyna að pæla í og svara kommenti eins og þessu.
    og það frekar með því að horfa á störf Benitez í jákvæðu samhengi.

    Nr. 30 Viðar
    Snilldar komment, sérstaklega með tango V vals og handbolta líkingu. 😉

One Ping

  1. Pingback:

Uppfærsla – Myndir

Hull á morgun