Um “motivation” og frammistöðu leikmanna.

Á undanförnum vikum höfum við auðvitað stöðugt orðið pirraðri og fúlari, enda gengi liðsins okkar í janúar og febrúar búið að vera í hæsta máta slakt, þó að björt ljós hafi logað í myrkrinu inn á milli, þ.e. sigur á Chelsea og Real Madrid.

Í desember var ég handviss um að liðið okkar væri að fara að spjara sig fram á vor. Pottþéttur. Ástæðan lá kannski fyrst og fremst í útisigrum gegn Blackburn og Newcastle. Því undanfarin ár hefur liðið átt erfitt með að leika gegn hinum slakari í deildinni á útivöllum og oft tapað stigum og leikjum þar sem hafa kostað okkur allt.

En mér fannst liðið vera að leysa þessa leiki vel, menn voru ekki í neinum rosagír á Ewood en tóku leikinn samt og á St. James’ Park sprakk liðið út.

En hver var munurinn á þessum leikjum og svo leik helgarinnar, gegn Middlesboro’?

Því lengra sem líður frá leiknum finnst mér stöðugt tvennt standa uppúr. Nýting færa og frammistaða lykilmanna. Í leikjunum í desember tókst okkur að nýta 3 færi gegn Blackburn í 15 skotum og síðan 5 færi gegn Newcastle í 24 skotum. Um helgina nýttum við 0 færi gegn Middlesboro’ í 23 skotum. Við getum öll verið sammála að við áttum að vera yfir í leik helgarinnar frá 9.mínútu og leikurinn átti að klárast í fyrri hálfleik.

En hvers vegna gerði hann það ekki? Margir hér á síðunni og víðsvegar í knattspyrnuheiminum eru nú að tala um að Rafa hafi ekki nægilega hæfileika til að “mótivera” leikmenn og þar liggi vandinn, auk skringilegrar uppsetningar leikja gegn minni liðunum. Rafael Benitez er ekki sú týpa af þjálfara sem vaninn er að sjá í meistarasætinu á Englandi, það vitum við öll. Hann er afar yfirvegaður, hvort sem er í leiknum sjálfum eða í viðtölum kringum leikina. Reynir að vera stóískur og vinna hverja mínútu faglega.

Hann er alltaf á æfingavellinum og hver einasta sekúnda á Melwood er skipulögð útfrá því að hámarka árangur liðsins og leikmannanna. Hann er ofboðslega kröfuharður, mest á sjálfan sig en líka alla aðra og hefur í gegnum tíðina ekki alveg fengið skilning þeirra sem fylgjast með íþróttinni þegar hann hefur ekki hlaðið alla sína menn hrósi eða velt sér upp úr einstökum úrslitum. Sagði t.d. í klefanum á Bernabeu á miðvikudaginn að lokinni ræðunni sinni að nú “fáið þið 5 mínútur til að fagna þessum úrslitum, svo förum við að búa okkur undir Middlesboro'”! Allir þeir sem hafa fylgst með vinnunni á Melwood tala um að þar fari faglegasta þjálfaravinna sem þeir hafa orðið vitni að. Sérfræðingarnir sem koma að liðinu séu snillingar, allt lækna- og sjúkraþjálfunarlið sé einstakt og kerfið sé einstaklingsmiðað að hverjum leikmanni sem þar er, hvort sem um er að ræða stórstjörnu eins og Steven Gerrard, eða ungling eins og Jay Spearing. Fagmennska stjórans og þjálfaranna er óumdeild, meira að segja þeir af gömlu hetjunum sem stundum hafa pirrað sig á Rafa eru sammála því.

Þá kemur aftur að “mótiveringu” leikmannanna. Aldrei hefur verið hægt að benda nákvæmlega á einn þátt frekar en annan sem einhvern lykilþátt í mótiveringu. Enda snýst mótivering ekki um það hvernig hún er matreidd, heldur hvernig þeir sem við henni taka bregðast við henni!

Gott dæmi um það er Guðjón Þórðarson. Ég held ég hafi aldrei heyrt fleiri sögur um “ótrúlegt niðurbrot” leikmanna eins og af Skaganum í sumar. Gaui var kallaður mörgum slæmum nöfnum og menn töluðu um að hann “ætti aldrei að fá að koma nálægt knattspyrnumönnum aftur”, auk þess sem að talað væri um að “mörg ár tæki að vinna upp vitleysuna sem er búin að vera hér í gangi”.

Á fyrirsögn á heimasíðu Crewe fyrir um 3 vikum var fyrirsögnin “Thordarson – the great motivator”.

Þegar Gaui hætti hjá Notts County var talað um að hann hefði ekki náð því besta út úr leikmannahópi liðsins.

En dettur þá Gaui í og úr “motivation – gírnum”?????

Miðað við lýsingar held ég að Gaui og Rafa séu eins ólíkir og hægt er. Gaui lifir sig eiginlega of mikið inn í leikinn og fer mikinn í viðtölum. Hann argar á menn þegar þeir eru að tapa, í hálfleik eða eftir leik og notar þá aðferð að æsa menn upp með látum fyrir leik. Það er hans karakter og hann hefur náð árangri. En líka floppað bigtime.

Hver var t.d. munurinn á 2007 og 2008 á Skaganum? Motivationhæfileikar Gauja að dala og batna???

Eða er kannski hægt að fara að skoða annað en einn einstakling. Skoða kannski þá 11 sem leika hverju sinni, hvernig viljum við að þeir vinni sig í gegnum leiki og þá sérstaklega þá erfiðu?

Ég hef ofboðslega gaman af svona þjálffræðipælingum og les mikið um þá þjálfara sem hafa náð árangri. Ég trúi á kenningu Phil Jackson, þess magnaða körfuboltaþjálfara um hlutverk þjálfarans. Það er nefnilega einfalt.

A) Finna leikkerfi og læra það í þaula.
B) Finna leikmenn sem eru með góða leikgreind (game intelligence) sem munu fylgja kerfinu.
C) Byggja upp lykilleikmenn sem stjórna kerfinu en geta framkvæmt snilldarbrögð (touch of genius) útfrá því eða til að grípa til þegar kerfið ekki dugar.

Hann talar mikið um það ofmat sem lagt er á aðra þætti þjálfunarinnar. Enda séu á ferð fullorðnir karlmenn, íþróttamenn sem hafa gríðarlega hæfileika, eru mótaðar persónur og hafa náð langt út á það. Hann er auðvitað í sömu hugmyndafræði og Benitez um hugarró, reyndar mikið ýktari. Við sem höfum horft á mitt körfuboltalið, LA Lakers höfum oft séð það að Jackson tekur ekki leikhlé þó illa gangi og þegar hann tekur leikhlé labbar hann bara út á völlinn og ræðir við þjálfarana þar, lætur leikmennina bara um að taka á sínum málum.

Og þar er ég honum sammála.

Ég tel nefnilega fullorðna karlmenn eiga að vera tilbúna sjálfa til að vinna þau verk sem þarf. Ég er 37 ára skólastjóri á Hellissandi og ég þurfti ekki Rafael Benitez til að láta mig vita að það var lykilatriði að vinna Middlesboro’. Það skal enginn segja mér það að lykilmenn liðsins í gær sem áttu stjörnuleik á Spáni, Mascherano og Alonso hafi ekki vitað þetta líka og ég er líka 100% viss um að þeir fengu fyrirmælin afhent fyrir leik á sama hátt í sólinni í Madrid og síðan í rigningunni í Middlesboro’!!!

Þá kemur nefnilega að því sem ég spyr mig stórt að þessa dagana. Eru ákveðnir leikmenn liðsins ekki eins tilbúnir í hraðann og slagsmálin á Englandi???

Það stakk mig gríðarlega að sjá muninn á hraða ensku liðanna og þeirra spænsku og ítölsku í CL í vikunni sem leið. Þar munaði 15 – 20% fannst mér. Inter, Juve og Real virkuðu þung og þreytt. En það gera þau svo heldur betur ekki á heimaslóðum.

Er ekki Rafael karlinn að eiga við nákvæmlega það að til að ná árangri í lykilkeppnunum tveimur þarf að vera tilbúinn í fínleika CL og djöflaganginn í Englandi?

Ég veit að ég verð ekki vinsæll hjá öllum hér þegar ég segi það að í sumar þarf að kaupa leikmenn með meira bein, sem líður vel í kuldanum á Riverside og drullunni á JJB Stadium. Fækka þeim sem fíla sólina. Vona að ég sé ekki fordómafullur, því hugsunin er einfaldlega sú að ég tel ákveðna leikmenn í liðinu elska meira að spila evrópuleiki á þeim hraða og þeirri uppsetningu sem þar gildir.

Ég tel að þetta hafi verið lykilatriðið í hugsun Rafa í sumar þegar hann vildi kaupa Barry og var tilbúinn að fórna Alonso. Á laugardag var mikil lógík í þeirri hugsun vinir mínir!!! Nokkrir hér rökkuðu Stewart Downing niður, hann gátum við ekki keypt því Parry og co. voru ekki tilbúnir að borga meira en 10 milljónir fyrir kantmann. Riera var þá keyptur og er fínn leikmaður, en Downing var okkur nú ekki sérlega auðveldur var það????

Þess vegna hlakka ég til þess þegar Parry fer og Rafa fær að ráða. Ég held að Benitez geri sér alveg grein fyrir því að þeir leikmenn sem nú eru í lykilhlutverkum skili ekki enskum meistaratitli og ég spái því að við sjáum öðruvísi leikmenn keypta í sumar. Barry, Downing, Glen Johnson og jafnvel Peter Crouch (skulum ekki gleyma því að Rafa vildi ekki missa hann) spái ég að verði settir á innkaupalistann, auk eins snillings sem getur skapað snilld úr engu.

Auðvitað eru Mascherano, Babel, Alonso, Agger og Arbeloa jafngóðir eða betri í fótbolta en margir þessara leikmanna, en leikur þeirra er einfaldlega alltof sveiflukenndur eða að þeir eiga í vandræðum með breska leikstílinn og því er það mitt mat að breyta verði um brag í leikmannamálunum og kaupa fleiri Breta! Því þeir mótivera sig betur í leiki gegn Wigan, Blackburn, Middlesboro’ og Wolves!

Þess vegna held ég að við getum ekki dæmt störf Rafa fyrr en að hann hefur fengið að ráða hvaða leikmenn hann kaupir í 4231 kerfið sitt svo að það hæfi ensku deildinni eins og það hæfir CL.

Ef að maðurinn getur náð stórkostlegum árangri í erfiðustu keppni heims (CL) og þriðju erfiðustu keppni heims (Spænsku deildinni) verðum við að treysta honum til að fá vald til að kaupa þá leikmenn sem hann telur hæfa til árangurs. En það langar mig að ræða síðar í vikunni og þá útfrá þeim vanda sem ég held að sé á baksviði LFC…

17 Comments

  1. Hjartanlega sammála.
    Vonandi fær Rafa að versla þá leikmenn (sama hvað þeir kosta) til félagsins í sumar og þá fyrst og aðeins þá er raunhæft að dæma hans verk. Ennfremur getur maður þá fyrst á næsta tímabili farið að gera kröfur um að einhver af þessum “ungu” leikmönnum sem hann hefur verslað síðustu 3-5 árin fari að skila sér í aðaliðshópinn með regluleg millibili.

  2. Schnilldar pistill Maggi og sammála afar mörgu sem þarna kemur fram og þá sérstaklega mótiveringar hlutanum. Verst að ég var næstum því búinn að missa af þessu hjá þér þar sem ég sá bara upphitunina hjá Babú (og ekkert vitrænt sem þar kom fram 😉 )

    Ég er líka sannfærður um það að Rafa vildi númer 1,2 og 3 fá Barry til liðsins í sumar og að við hefðum verið betur samkeppnishæfir heima fyrir ef það hefði gengið eftir. Ég set heldur ekki saman sem merki á milli kaupa á honum og sölu á Xabi. Ef Barry hefði verið keyptur fyrst (eins og Rafa vildi) og Xabi síðan ekki selst, þá hefði Keane einfaldlega ekki verið keyptur og einhver annar framherji hefði verið fenginn í hans stað og heldur enginn Riera keyptur. Það er meira að segja spurning með Dossena kaupin ef Barry hefði komið.

  3. Leikurinn í kvöld fer eins og venjulega 1-1. Djö…. er maður orðinn svartsýnn.

    En ÁFRAM LIVERPOOL

  4. Frábær pistill frá Skólastjóranum :0) Menn á Hellissandi er sko alveg með sín fótboltafræði á hreinu.
    Gagnrýnin á Benitez eftir síðasta leik á sér ekki stoð í raunveruleikanum. jú jú, ég get gagnrýnt valið á hægri bakverði og svo af hverju hann kom ekki með skiptingar fyrr í leiknum. Hinsvegar er ekki hægt að kenna Benitez kallinum um klúðrum færi hjá t.d. Kuyt og El Zhar því það væri bara fásinna. Maður hefur lesið ummæli frá mönnum hérna á spjallinu þar sem þeir segja að Benitez fagni ekki einu sinni mörkum þegar að við skorum. Og þá spyr ég, er það ekki bara allt í lagi ?? Hann lifir sig bara öðruvísi inn í leikinn og er sí pælandi í öllu sem snýst að spilinu. Ef menn eru að segja að hann sé ekki ástríðufullur þá bendi ég bara á aukaspyrnuna hjá Alonso á móti Real Madrid sem fór forgörðum. Benitez varð alveg brjálaður á hliðarlínunni sem sýnir alveg klárlega að hans passion er til staðar. Munið bara að Ferguson vann ekki titil sín fyrstu 5 ár hjá United. Benitez er þó búinn að skila inn Meistaradeildar dollu og bikar dollu líka. Þetta er allt á uppleið drengir, það þarf stuðning og þolinmæði því að verðlaunin á endanum verða miklu stærri :0)
    3-0 fyrir Liverpool í kvöld. Gerrard með tvö og Benayoun með eitt.

  5. Sælir félagar
    Frábærar pælingar Maggi og margt íhugunarvert sem þar kemur fram. Þá á ég bæði við mótveringuna og svo mismunandi *”leikþrek” manna fyrir enskan fótbolta.

    Ég er líka sammála því sem kemur fram að RB hefur sterkar tilfinningar gagnvart leiknum. En það mundi síður en svo skemma fyrir honum að láta þær í ljós oftar. Eins mætti hann hætta þessu gaggi og óskiljanlegum bendingum á hliðarlínunni mín vegna. Ef hann er búinn að skila sínu til leikmanna þá á hann ekki að þurfa þessu pati.

    *Með leikþrek á ég við að takast á við þann stöðuga og uppihaldslausa hraða, líkamlegar snertingar (þ.e. að standa af sér snertingu án þess að hrynja niður) og svo endalausa baráttu til síðasta flauts.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Flottur pistill!

    Skil samt ekki eitt hjá þér Steini. Við keyptum bara Dossena og Riera bara til að kaupa miðlungsskussa?

  7. Sagði ég það Grolsi? Ef þú hefur skilið það þannig, þá til að taka af allan vafa, þá var það ekki meint þannig. Dossena er ítalskur landsliðsmaður, sama er með Riera. Það sem ég var að meina er að Barry er leikmaður sem hefur spilað á miðjunni en er líka ákaflega öflugur ef á þarf að halda í vinstri bakverði eða á vinstri vængnum. Það sem ég var sem sagt að meina er að ef Barry hefði verið keyptur fyrstur, þá er ekki öruggt að þeir hefðu báðir verið keyptir.

  8. Krafa mín er einföld. Mætið í þennan leik með sama hugarfari og ef við værum að spila í meistaradeildinni! Fjandakornið, ímyndið ykkur bara að Sunderland séu Real Madrid. Þá fer þetta vel! Ef ekki, þá er ég skíthræddur um einn ein andsk***** vonbrigðin í kvöld.

    (Með von um að leikmenn LFC hafi verið að lesa 🙂 )

  9. Ítarlegur og góður pistill með fínum pælingum.

    Ein pæling. Hvað ef Gareth Barry hefði komið og Alonso farið? Miðað við spilamennsku Alonso í vetur tel ég að við værum á svipuðum slóðum en með frábæran miðjumann í höndunum.

  10. Ég veit ekki alveg við hverju má búast í kvöld..Eina sem ég veit fyrir víst að við verðum meira með boltan, eigum fleiri skot á rammann. og ef við vinnum ekki, þá munum við hafa fengið nógu mörg færi til að vinna leikinn….Þetta hljómar kunnuglega og hefur gert það í nokkur tímabil…Og í sambandi við að það sé ekki Benitez að kenna að snillingarnir í framlínunni nýti ekki færin sín…Well…maðurinn fullyrti eftir söluna á Keane að við værum með nægilegt ,,quality upfront´´ til að vinna þessa deild….Ég sé ekki að það standist, nema einhver hafi lofað honum að Torres myndi ekki meiðast meira þetta tímabil. Nei maðurrinn er eins og versti pólitíkus að væla yfir öllum færunum sem við höfum ekki nýtt…Er Kuyt að nýta færin sín svona vel á æfingum eða??….Nei þetta lið er komið á endastöð og þarf nýjan stjóra..Eru menn ekki orðnir þreyttir á þessum endalausu og síendurteknu vonbrigðum eftir leiki við ,,lakari´´lið? Þetta hefur verið viðloðandi liðið síðan Benitez tók við..Og hann hefur ekki enn hugmynd um hvernig á að breyta þessu….Eða þá að hann er svo þrjóskur að neitar að viðurkenna staðreyndir….Og eitt í lokin…Vinur minn var beðinn um að lýsa Kuyt sem knattspyrnumanni….Hún var svona: His second touch is a tackle” YNWA

  11. Frábær pistill og ég er fyllilega sammála þessu. Hef einmitt verið mikið að velta þessu fyrir mér í vetur og ég tel að þetta vandamál skíni í gegn um leik liðsins.

  12. Snildar pistill Maggi. Einn sá besti sem ég hef lesið hérna inni á kop.is

  13. Ég átta mig engan veginn á sumum ykkar sem skrifa að ofan. Eftir leikinn gegn Boro og fram að þessum pistli þá var það nýting færanna sem var vandamálið.
    Nú virðast það vera sólarlepjandi leikmenn sem eru ástæðan fyrir því að liðinu hefur ekki gengið betur á Englandi.
    Hvort er það? Ekki kaupi ég það fyrir 5 aur að nokkur trúi því að liðið nýti ekki færin sem það fær af því að það eru fáir bretar/hörkutól í liðinu.

    Varðandi motivation eða hvatningu þá er nærtækasta dæmið líklega hárblásari Ferguson sem oftar en ekki hefur breytt hungurlausum leikmönnum í hungraða bara á milli hálfleikja. Það þurfa allir á hvatningu að halda af og til. Ég er ekkert að segja að leikmennirnir séu svo tregheimskir að þeir átti sig ekki á mikilvægi leiksins gegn Boro en stundum þarf líka að blása mönnum baráttu í brjóst.

    Það að þjálfunin á Melwood sé top of the line getur svo sem vel verið en ég er ekkert viss um að hún sé neitt árangursríkari en aðferðir annarra. Mér finnst a.m.k. framfarirnar hjá sumum leikmönnum í meira lagi takmarkaðar, t.d. Lucas og Babel jafnvel Mascherano (þrátt fyrir að þar spili reyndar aðrar ástæður inn í).

    Að lokum finnst mér leiðinlegt að sjá hvað það er alltaf auðveld lausn að benda á Parry líkt og hann hafi viljað hag liðsins sem minnstan. Ekki er/var Parry úti um hvippinn og hvappinn að næla í Dossena, Lucas, Riera, Skrtel, Agger, Cavalieri, Arbeloa, Leto, Josemi, Ngog, Guðlaug Victor o.s.frv. Sumir þessara leikmanna er góðir, aðrir ekki. Þeir eiga það þó allir sameiginlegt að hafa komið til liðsins frá liðum utan Englands og hljóta allir að hafa verið leikmenn sem Benitez eða scoutarnir hans spottuðu. Þetta voru því leikmenn sem Benitez vissi af og allt tal um þetta hafi verið 2nd choice og það er bara þvæla. Hann vissi af þeim og hann keypti þá, punktur. Það að einhverjir leikmenn hafi verið ofar á óskalistanum breytir ekki því að þessir leikmenn (flestir) voru keyptir þegar nóg var eftir af kaup og sölu glugganum og því engin panic buy.

  14. “Þess vegna held ég að við getum ekki dæmt störf Rafa fyrr en að hann hefur fengið að ráða hvaða leikmenn hann kaupir í 4231 kerfið sitt svo að það hæfi ensku deildinni eins og það hæfir CL.”

    Fyrr en hann hefur fengið að ráða hvaða leikmenn hann kaupir?

    Hann er búinn að vera hjá félaginu í 5 ár núna í sumar. Ég er alllur á því að stjórar eigi að fá tíma með liðið sitt, en núna er hann búinn að fá tvö tímabil með Gerrard og Torres, og fengið að eyða slatta af pening í þá leikmenn sem hann vill fá (sbr. 20m kaupin á Keane).

    Menn spyrja hann út í framherjamál þegar Torres meiðist og Keane var seldur og þá segist hann hafa nóg af framherjum í Kuyt, N’Gog og Babel. Ég næ því miður ekki öllum Liverpool leikjum þannig að ég fer kannski með rangt mál, en ég man ekki eftir því að hafa séð Babel spila sem framherji fyrir Liverpool. Ef Rafa segist hafa nóg af talent á ákveðnu sviði, þá má hann gjöra svo vel og drullast til að gefa öðrum séns, ekki síst þar sem að Dirk Kuyt er búinn að vera gjörsamega gagnslaus þegar hann er einn uppi á topp.

    Time is running out for Rafa, og ég met það svo óháð úrslitum síðustu helgar.

  15. Skil þig Steini. En þrátt fyrir að hafa ekki fengið Barry, þurftum við á Dossena að halda? Við vorum með fyrir Aurelio og Insua feyki öflugur. Og menn geta bent á að hann sé ungur og allt það en hann hefur keypt haug af ungum leikmönnum sem hann hlýtur að vita hvað geta.

    En vissulega hefði maður viljað Barry í staðinn fyrir Dossena og Riera sem hafa ollið vonbrigðum. Riera byrjaði vel en hefur dalað og er kraftlaus. Vonandi rífa þeir sig upp það sem eftir lifir leiktíðar.

  16. Mjög góður pistill vona að þú hafir rétt fyrir þér og við fáum alvöru breta í liðið og þessi skussakaup verði lögð til hliðar með brotthvarfi Parry. Annars snildar pistill enn og aftur

Sunderland mætir á Anfield annað kvöld

Liðið gegn Sunderland