Hillsborough harmleikurinn

Sæl öll.

Í dag er auðvitað mesti sorgardagur í sögu félagsins okkar, eins og sést á smekklegum virðingarvotti eigenda þessarar síðu. Fyrir nokkrum vikum hafði samband við mig góður og gegn fótboltaáhangandi, Tómas Meyer, og bað mig um að skrifa pistil um harmleikinn sem varð í Sheffield laugardaginn 15.apríl 1989. Ég hef lengi fylgst með öllu tengdu þessum harmleik og varð við þeirri ósk Tómasar.

Pistillinn kemur hér á eftir, en er að finna á heimasíðu sem Tómas hefur um að segja, www.boltinn.is .

Það er apríl 1989.

Liverpool FC er í fyrsta sæti ensku deildarinnar, sem þá var 1.deildin, og í undanúrslitum FA-bikarsins með stórkostlega skemmtilegt fótboltalið. Urrandi sóknarfótbolti með Barnes, Beardsley, Aldridge og Rush í fararbroddi, sennilega skemmtilegast spilandi fótboltaliðið í sögu félagsins. Félagið var að ná sér eftir Heyseláfallið og bros á vörum flestra sem tengdust félaginu.

Framundan var undanúrslitaleikur gegn öðru mjög skemmtilega spilandi góðu fótboltaliði. Nottingham Forest undir stjórn Brian Clough. Forest var þarna með topplið og FA bikarinn eina keppnin sem þessi goðsagnakenndi stjóri hafði aldrei unnið. Það ríkti gríðarleg eftirvænting fyrir leik þessara risa.

Á Íslandi var bein útsending og RÚV sem átti sýningarréttinn ákvað að senda Bjarna Fel út á leikvöllinn, Hillsborough í Sheffield, til að lýsa beint frá vellinum.

Undanúrslitaleikir í ensku FA-bikarkeppninni eru leiknir á hlutlausum velli og afar algengt var að leika á Hillsborough-vellinum. Á þessum árum voru vellirnir að litlu leyti þaktir sætum, stór hólf (stands) þar sem fólki var ætlað að standa og afmörkuð með handriðum og girðingum var lenskan þá og vellirnir voru girtir af með háum girðingum sem ætlað var að halda áhorfendum frá vellinum sjálfum.

Árið áður, 1988, léku sömu lið í undanúrslitum og þá var mikill troðningur við hliðin inn á leikinn og töluverður þegar inn á völlinn var komið hjá aðdáendum Liverpool. Félagið hafði samband við enska knattspyrnusambandið til að kvarta þá, og svo aftur þegar umræddur völlur var valinn fyrir þennan leik vorið 1989 en án árangurs.

Eins og áður var nefnt var gríðarlegur áhugi á leiknum. Það var verulega gott veður á leikdag og aðdáendur beggja liða flykktust til Sheffield. Sérstaklega aðdáendur Liverpool.

Umferðartafir voru miklar þennan dag. Lögreglan hafði fengið skýr skilaboð um að leita í öllum bílum sem voru á leið á leikinn, til að koma í veg fyrir að áfengi, eða annað óæskilegt, kæmist inn á áhorfendasvæðin. Sérstaklega voru aðdáendur Liverpool aðgættir, allar rútur stoppaðar til að leita vel og vandlega í þeim. Afleiðinging varð að afar stór hópur aðdáenda Liverpool komu rétt áður en leikurinn hófst á völlinn.

Þar sem stutt var í leikinn flýtti fólk sér að hliðunum inn á vallarsvæðið, hliðin afgreiddu fáa í einu og smátt var hópurinn fyrir utan völlinn farinn að skipta þúsundum (sums staðar er talað um 20 þúsund manns) og troðningurinn varð stöðugt meiri. Langmestur varð troðningurinn fyrir utan stórt hlið inn á Leppings Lane hólfið (standinn) þar sem Liverpoolaðdáendum hafði verið úthlutað stóru svæði. Sumir höfðu miða á leikinn á Leppings Lane, aðrir í stúkunni ofan við hólfið og enn aðrir voru miðalausir, höfðu ferðast að heiman með þá von að fá miða við völlinn og voru ekki tilbúnir að fara heim fyrr en klárt væri að þeir kæmust ekki á leikinn.

Síðan þá er reglan að félögin selja ekki miða á stórleiki sína á leikdegi og oft sjáum við skeytt við setningunni, „aðdáendur sem ekki eru með aðgöngumiða ættu ekki að ferðast á leikinn“.

Smátt og smátt varð ástandið við Leppings Lane hliðið skelfilegt. Mikill troðningur upp við girðinguna, þúsundir fólks að reyna að komast inn áður en að leikurinn myndi hefjast. Lögregluforinginn sem réð aðgerðum utan girðingar, Marshall að nafni, viðurkenndi síðar að lítið skipulag hafi verið á röðunum í gegnum hliðin og að aðgönguhurðum að vellinum, áhersla lögreglunnar þennan daginn var að fylgjast með drykkjulátum og að koma í veg fyrir vopnaburð. Lögreglumaður bar fram ósk um að upphafi leiksins yrði frestað um einhvern tíma, til að draga úr flýtinum sem var á áhangendum með miða. Þeir vildu auðvitað komast inná völlinn áður en leikurinn hófst. Þessari beiðni var neitað.

Síðan þá er reglan að ef að stór hópur aðdáenda er enn á leið inná völlinn þegar hann á að hefjast er einfaldlega leiknum frestað um nokkrar mínútur. Nú síðast Tottenham – Chelsea í lok mars, sem var færður til um hálftíma eftir umferðaröngþveiti við White Hart Lane völlinn.

Aðallögreglustjóri svæðisins var lítt reyndur, Duckenfield að nafni. Hann hafði aldrei verið í stjórnunarteymi á slíkum leik. Hann var með yfirumsjónina, en var ekki nálægt Leppings Lane. Um 14:50 hafði Marshall samband við Duckenfield og bað hann um að hliðin við Leppings Lane yrðu opnuð, því að fólk væri beinlínis í lífshættu við hliðin. Duckenfield lýsti því síðar í viðtölum að hann „fraus“ augnablik en gaf svo skipunina. „Opnið hliðið“. Opinber tímasetning á þeirri opnun var 14:54.

Og þúsundir streymdu inn, algerlega óháð miða. Voru á fullu gasi því leikurinn var jú að hefjast!
Þegar inn fyrir hliðið var komið þurfti að fara inn á völlinn í gegnum göng. Þrenn göng voru inn á Leppings Lane hólfið, en í öllu fárinu sem hafði myndast streymdu allir að sömu göngum, fyrir miðju hólfsins, beint inn af hliðinu. Á svæði 3 og 4 (pens) í hólfinu. Yfirleitt voru starfsmenn sem sáu til þess að loka aðgangi í göng þegar hólf var orðið fullt og þá vísa fólki á aðra innganga, sem voru á báðum hliðum hólfsins. Það var ekki gert þennan dag og allur hópurinn tróð sér leið inn í Leppings Lane hólfið.

Sem fylltist auðvitað hratt! Þegar leikurinn hófst með flautu dómarans varð svo gríðarlega örtröð í göngunum og svæðum 3 og 4, allir vildu sjá leikinn og það strax. Stöðugt hlóðst fólkið inn og þunginn leitaði niður á við og stöðvaðist við girðingarnar, eða réttara sagt á þeim einstaklingum sem við girðingarnar stóðu. Og áfram streymdi fólkið inn.
Ástandið varð fljótt hryllilegt. Svæðin voru yfirfull og fólk komst ekkert. Það eru í raun ekki til nógu sterk lýsingarorð til að lýsa þeim viðbjóði sem maður hefur heyrt um og lesið frá þessum mínútum sem lifðu frá því að fyrstu einstaklingarnir fara að meiðast og deyja þar til að lögreglan áttar sig á því hvað er að gerast og fer að hjálpa. Fyrstu viðbrögð þeirra voru nefnilega að flytja allan þungann af lögregluliðinu að girðingunni, með hunda, því Duckenfield taldi að um átök væri að ræða!

En á svæðum 3 og 4 var fólk dáið og að deyja. Kafnaði einfaldlega í troðningnum, fólk barðist fyrir lífi sínu, sumir sluppu en aðrir ekki. Lýsingar á dauðdögum fólks og hjálparleysi vina og ættingja gerir mig enn í dag máttlausan. Lýsing þess þegar að maður tók eftir því að vinur hans var dáinn, kafnaður, en stóð þó áfram uppréttur við hliðina á honum, einfaldlega því enginn komst neitt. Feður sem horfðu hjálparlausir á börn sín deyja. Hróp og köll barna og unglinga í andarslitrunum á mæður sínar, áköll um hjálp, guðs eða annarra. Svo mikill hryllingur að ekki er hægt að ímynda sér!
Þegar svo loksins lögreglan áttaði sig á hvað var í gangi var opnað inn á völlinn sjálfan og reynt var að koma fólki út úr hólfinu. Leikurinn var stöðvaður kl. 15:06 og leikmennirnir sendir í búningsklefana.

En þá kom næsta klúður. Sjúkraliðar voru af verulega skornum skammti, nær engir sjúkrabílar. Lögreglan var ennþá ekki alveg viss um hvað væri í gangi, Duckenfield var ekki lengur í stýriboxinu og næstu 15 -20 mínútur voru ráðlitlir lögreglumenn að reyna að ná einhverju valdi á aðstæðum, aðdáendur hlupu til að reyna að hjálpa vinum sínum og öðrum, breiða yfirhafnir yfir lík liggjandi á vellinum og hlaupandi með slasað fólk á auglýsingaskiltum í átt að útleið af vellinum eða til sjúkrabílana, sem ekki var hleypt inn á grasið og að hinum slösuðu fyrr en uppúr kl. 15:25. Hræðilegt var að sjá venjulegt fólk reyna lífgunaraðferðir í fjarveru atvinnufólks.

Því þetta allt sáum við beint í íslensku sjónvarpi. Ég á afmæli 14.apríl og hafði hlakkað verulega til þessa dags, að leik loknum var árshátíð í framhaldsskólanum mínum og dagurinn átti að verða ógleymanleg gleðihátíð. En hann varð akkúrat hið gagnstæða. Ég gleymi aldrei Bjarna Fel, hálfkjökrandi að lýsa þessum hryllingi, sem smám saman varð ljós. Auðvitað var útsendingin rofin fljótlega, en Bjarni kom þó reglulega inn með fréttir, sem stöðugt versnuðu.

Það er svo hjákátlegt til þess að hugsa núna, en fyrstu áhyggjur manns voru hvort að leikurinn yrði ekki kláraður. Ég hætti að borða afmælissnakkið snemma, lék mitt hlutverk í upphafi árshátíðarinnar og fór svo heim.
Næstu daga fóru svo fréttirnar að koma í ljós. 95 látnir, 767 manns slasaðir, þar af um 150 alvarlega. Talan varð svo að 96 látnum þegar slökkt var á öndunarvél einstaklings sem hafði orðið fyrir varanlegum heilaskaða. 89 karlar og 7 konur. Sá yngsti sem lést 10 ára og sá elsti 67 ára. Þúsundir áttu um sárt að binda.

The Sun sýndi á sér ógeðshlið daginn eftir slysið með því að ljúga því að hinir látnu hafi verið rændir og lík þeirra svívirt af öðrum Liverpoolaðdáendum liggjandi á grasinu á Hillsborough. Síðan þá hefur enginn Liverpoolmaður með sjálfsvirðingu lesið, hvað þá keypt, The Sun. Blaðið er varla selt í Liverpoolborg!

Þeir sem ekki muna þennan tíma hafa örugglega lesið flest af þessu áður. Enda eiga þeir að gera það, því þessi atburður hefur markað félagið varanlega. Í raun enska knattspyrnu líka því í kjölfar slyssins urðu gríðarlegar breytingar á leikvöllum Englands og umgjörðinni utan um leikina sjálfa, í beinu framhaldi af úttektinni á slysinu.

En það hafa kannski ekki allir gert sér grein fyrir þeirri stöðu sem var uppi hjá Liverpool Football Club.
Því að um tíma vissi ég ekki hvort að liðið mitt yrði einfaldlega lagt niður. Fyrstu dagana eftir slysið var áherslan auðvitað á vettvang slyssins og reyna að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir slíka atburði. Girðingar voru rifnar niður á öllum völlum. Skipaður var hópur (Taylor-hópurinn) sem skilaði svo skýrslu (Taylor-report) um það hvernig koma mætti í veg fyrir slíka atburði.

Allt starf Liverpool lá niðri. Allt. Daginn eftir slysið ákvað Peter Robinson, stjórnarformaður, að Anfield Road skyldi opnaður fyrir fólki sem kom þangað til að votta virðingu sína. Blóm, bangsar, treflar, treyjur var dreift um völlinn og Kopstúkuna. Völlurinn var þakinn: Smella hér til að sjá myndir

Leikmennirnir mættu ekki til æfinga. Fótbolti var einfaldlega ekki á dagskránni. 16.apríl mættu þeir í kirkju þar sem Bruce Grobbelaar las ritningargreinar og leikmennirnir ákváðu í samráði við konurnar sínar að þeir ætluðu að taka virkan þátt í sorg fólksins, félagið ákvað í raun að sýna hvað skipti það mestu máli, fólkið sitt. Kenny Dalglish, stjórinn, var fremstur í flokki. Allir þeir sem hafa áhuga á að kynnast hlið félagsins og leikmannanna á harmleiknum ættu að lesa kaflann um harmleikinn í ævisögu Dalglish.

Á mánudeginum fóru leikmenn og þjálfarar til Sheffield og heimsóttu spítalana. Töluðu við þá sem lifðu af og ættingja þeirra. Báðu bænir við rúm þeirra sem lágu í dái. Kynntust fólkinu sem var að kveðja ástvini og fundu til með því. Seinna fóru þeir á jarðarfarirnar. Félagið sá til þess að á öllum jarðarförum þeirra sem létust á Hillsborough væru fulltrúar þess viðstaddir. Dalglish sjálfur fór á þær flestar. Mest fór hann á fjórar jarðarfarir einn daginn. Félagið reyndi að sjá til þess að ef að sá látni átti sér uppáhaldsleikmann fór sá hinn sami á jarðarförina. Enn lágu æfingar niðri um sinn.

En svo fór að koma spurningin. Munu Liverpool leika fótbolta á ný? Í dag hrista menn hausinn, en á þessum tíma var þetta virkileg möguleiki. Liverpoolborg var einfaldlega lömuð og Dalglish hefur lýst því að oft á þessum tíma hafi leikmennirnir, þjálfararnir og stjórnarmenn velt því fyrir sér hvort þeir ættu að halda áfram, eða leggja starf liðsins niður af virðingu við þá látnu.

Á meðan að deildarkeppnin hélt áfram og Everton tryggði sér sæti í FA-bikarúrslitunum var leikjum Liverpool frestað, hverjum af öðrum. Og maður vissi ekki hvað var í gangi, netið var ekki komið og maður þurfti að bíða eftir útkomu Shoot! og Match til að lesa eitthvað meira en örfréttir í RÚV. En eftir um 10 daga frá slysinu bárust fréttir af því að ákveðið hefði verið að leikinn yrði ágóðaleikur fyrir fjölskyldurnar sem höfðu um sárt að binda og að það myndi marka upphaf þátttöku Liverpool í knattspyrnu á ný. Það var „bræðralið“ Liverpool, Glasgow Celtic sem buðu upp á leikinn og 30.apríl, fimmtán dögum eftir harmleikinn léku rauðliðarnir fótboltaleik á ný, á Celtic Park. Þeir sem á leiknum voru hafa lýst hversu magnþrungin sorgin var, hversu ótrúlegur hljómur You‘ll never walk alone var í upphafi leiksins og hversu sterk bönd mynduðust milli félaganna. Þau bönd eru í dag enn mjög mikil. Þennan dag varð Celtic lið margra Liverpoolmanna í Skotlandi, mitt líka.

Fyrsti opinberi leikurinn var svo leikurinn gegn erkifjendunum, Everton, á Goodison Park. En í sorginni eftir slysið var borgin sameinuð, völlurinn söng saman og í hálfleik löbbuðu aðdáendur Liverpool með fána um völlinn, þar sem aðdáendum Everton var þakkaður stuðningurinn.

Liverpool hóf keppni á ný, þetta ár unnum við FA-bikarinn í úrslitum gegn Everton, manni fannst það einhvern veginn klárt að það myndi gerast, en töpuðum svo titlinum á ákveðnu marki Michael Thomas. Árið eftir vannst titilinn og hefur ekki í hús komið síðan. Dalglish gafst svo upp vorið 1991 og hefur sagt stærstu ástæður þeirrar ákvörðunar hafi verið uppsöfnuð streita frá harmleiknum, hann einfaldlega gat ekki meir og varð að fá hvíld.

Í maí sama ár var stofnaður stuðningshópur fyrir þær fjölskyldur sem höfðu um sárt að binda og hann er vel virkur enn í dag, Hillsborough Family Support Group. Fyrst um sinn veitti hann styrki til að hjálpa fólki að lifa í gegnum sorgina en þegar lengra hefur liðið hefur hópurinn fyrst og síðast barist fyrir að sannleikurinn verði fundinn, farið verði rækilegar yfir hvar mistökin voru gerð og þeim sem á þeim ábyrgð báru verði refsað! Á ýmsu hefur gengið í þeim málum, en þrátt fyrir að í gegnum tíðina hafi ýmsir viðurkennt mistök hefur það fyrst og fremst verið kattarþvottur sem bara hefur bætt á sársauka þeirra sem að misstu ástvini. Núna er móðir eins þess er lést að reka mál fyrir Evrópudómstólnum þar sem hún dregur í efa opinbera útgáfu dánarstundar og dánarástæðu sonar síns. Einn farsinn var nefnilega að allir sem létust á eða við völlinn eru opinberlega taldir hafa látist kl. 3:15 og flestir sagðir hafa kafnað, án mikill útskýringa sem vanalega eru gefnar. Ótrúlegt.

Það er þessi hópur sem hefur staðið fyrir minningarathöfn á „The Kop“ þann 15.apríl kl. 15:00 hvert ár. Það er hreint magnþrungin athöfn fyrir Liverpoolaðdáanda að taka þátt í. Hún er stutt og virðuleg, tveggja mínútna þögn frá kl. 15:06 og síðan endað á sálminum sem allir Liverpoolmenn og konur kunna. Í ár verður sami háttur á og fulltrúar félagsins mæta eins og endranær. Alltaf framkvæmdastjórinn og fyrirliðinn, vanalega miklu fleiri. Ég var viðstaddur þessa athöfn 2001 og var djúpt snortinn. Þar er minningu fórnarlambanna sýnd mikil virðing.

HFSG hópurinn er ekki eini hópurinn sem heimtar sanngirni og réttlæti fyrir fórnarlömb harmleiksins. Í febrúar 1998 var stofnaður annar hópur sem hefur verið mjög sýnilegur, er með skrifstofu við hlið Anfield Road á 178 Walton Breck Road. Sá hópur heitir The Hillsborough Justice Campaign og byrjaði mjög fljótlega að nota slagorðið „Justice for the 96“ sem slagorðið sitt. Meðlimir þessa hóps eru algerlega helteknir af því að halda merki fórnarlambanna á lofti og leita réttlætis fyrir þau og afkomendur þeirra. Þegar maður er á Anfield hittir maður afar oft meðlimi þessa hóps þar sem þau dreifa nýjustu upplýsingum um málarekstur eða aðrar markverðar fréttir. Reglulega heyrir maður slagorðið þeirra sungið, þ.e. „justice for the 96“, sennilega var eftirminnilegast þegar það var sungið á Anfield í 6 mínútur samfleytt frá upphafi FAbikarleiks við Arsenal í janúar 2007.

Og félagið brást við á sinn hátt til að minnast fórnarlambanna á varanlegan hátt. Við hlið „Shankly Gates“ á Anfield var reistur veglegur minnisvarði þar sem nöfn og aldur allra fórnarlambanna var greipt með gyllingu í marmarann og alltaf logar þar kertaljós. Skylduheimsókn fyrir alla aðdáendur sem koma á Anfield! Merki félagsins var uppfært á 100 ára afmæli þess árið 1992. Þá var búið að greipa „You‘ll never walk alone“ ofan við Liver Bird merkið og þar var sérstaklega vísað til harmleiksins. Stuttu síðar var tveimur kyndlum bætt sitt hvoru megin við grunninn í merkinu og þeir héldust áfram þegar núverandi merki var saman sett. Þessir kyndlar hafa í raun orðið sérstakt merki fyrir harmleikinn og heita eftir því, „Réttlætislogarnir“ eða „Justice flames“.

Og í dag eru liðin 20 ár frá þessum harmleik. Síðasti atburðurinn í sögu slyssins og afleiðinga þess varð um helgina þegar Stephen Warnock, leikmaður Blackburn og fyrrum leikmaður Liverpool, bar blómaspjald þar sem talan 96 var mynduð með rauðum rósum á hvítum fleti áður en mínútu þögn var haldin fullkomlega fyrir leik liðanna. Það er gert á hverju ári á þeim heimaleik sem næstur er 15.apríl.

Til að minnast dagsins þegar Liverpoolaðdáendur héldu að heiman til að horfa á knattspyrnuleik, en 96 þeirra sneru aldrei aftur. Þeim má aldrei gleyma!

Apríl 2009
Magnús Jónsson.

54 Comments

  1. Algjörlega stórkostleg grein Maggi, takk kærlega fyrir hana.

    LEST WE FORGET – JUSTICE FOR THE 96 – YOU’LL NEVER WALK ALONE

  2. Frábær pistill, Maggi. Sérstaklega góð kynning fyrir þá sem hafa ekki lesið mikið um þetta.

    Það er nauðsynlegt fyrir alla Liverpool aðdáendur, ekki síður þá sem muna ekki persónulega eftir Hillsborough, að gleyma aldrei þessum atburði.

  3. YNWA . Ég var ekki fæddur þegar þetta gerðist en hef lesið mikið um þetta, sá svo myndir af slysinu í greininni um Hillsborough í Fréttabalðinu um daginn og manni líður illa bara við að sjá myndirnar. Justice for the 96!

  4. Úff, það er rosalegt að sjá minningarathöfnina á Anfield núna. Full stúka nánast og gaman að sjá Torres ásamt Gerrard og Carra þar. Þetta er rosalegt!

  5. Flott grein Maggi. Átakanlegt að lesa um þetta og sjá myndir af þessum atburði fyrir þá sem lítið muna eftir þessu frá sínum tíma.

  6. Vá, ég bara á ekki orð yfir þessari grein.
    Einstaklega vel gert hjá þér Magnús.

    JFT 96 !

  7. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að Milan myndbandið sýnir eina stórfenglegustu stund knattspyrnunnar. Mér hefur alltaf fundist þetta ótrúlegt móment í fótboltasögunni.

  8. Frábær grein, sérstaklega fyrir poolara eins og mig sem er tiltölulega nýbyrjaður aftur að fylgjast svona mikið með Liverpool. Ég var 9 ára þegar þessi atburður gerðist og man satt best að segja lítið sem ekkert eftir honum, enda var ég nú ekki mikið að fylgjast með í sjónvarpi á þessum tíma.

    Eftir lestur þessarar greinar veit maður mun meira um atburðinn og aðdraganda hans og hvaða áhrif hann hafði á klúbbinn og alla umgjörðina í kringum hann. Þetta er ótrúleg lesning og með ólíkindum að svona lagað hafi getað gerst.

    Takk fyrir mig.

  9. Hræðilegur atburður sem er alltaf jafn erfitt að rifja upp. Það er lítið annað hægt að segja.

  10. Vel gert hjá ykkur að breyta síðunni í tilefni dagsins. Ég má hins vegar til með að spyrja af hverju slíkt hið sama var ekki gert 29. maí 2005? Og hafiði í huga að gera eitthvað 29. maí 2010?

    Kv,

  11. Sæll Juve. Góð ábending. Vorið 2005 var síðan enn frekar ung, aðeins ársgömul, og við vorum ekki farnir að gera neitt slíkt, hvorki til að minnast Heysel eða Hillsborough. 20 ára afmæli Hillsborough í ár er í fyrsta skiptið sem við breytum útliti síðunnar til að minnast einhvers.

    Hvað maí á næsta ári varðar er aldrei að vita. Frekar snemmt að ræða það núna hvað við gerum við síðuna þá, ef eitthvað.

  12. Sæll Kristján, takk fyrir svarið. Skil það svo sem að þið hafið ekki breytt síðunni ykkar, enda nýbyrjaðir þá einsog þú segir. Hins vegar var ekki orði minnst á atburðina í Brussel 29. maí 2005 á þessari síðu, 20 árum síðar (eina skiptið sem þið hafið fjallað um það var 2004 auk þess þegar liðin 2 mættust í apríl 2005). Hvers vegna var það? Mér finnst það mjög einkennilegt í ljósi þess hve mikið þið fjallið (eðlilega að mínu mati, nota bene) um atvikið í Sheffield og gerið árlega.

    Þið eruð væntanlega að rifja þetta upp árlega til að ganga í skugga um að þessu slysi verði aldrei gleymt. Því finnst mér það einkennilegt (má ég segja hræsni?) að þið gerið ekkert í líkingu við það um slysið í Brussel.

    Kv,

  13. Juve er á einhvern ótrúlegan hátt að reyna að búa til vesen úr engu í kringum þessa hræðilegu atburði. En allir sannir aðdáendur Liverpool vita að Hillsborough situr miklu fastar í þeim og er í raun meiri harmleikur en Heyzel. Fyrir því eru margar ástæður sem liggja flestar augljósar fyrir þá sem þekkja söguna.
    Það er ekki þar með sagt að verið sé að gera lítið úr Heyzel.

  14. Mjög falleg grein (með þeim lengri sem ég hef lesið hér). Það er alveg slatti þarna sem ég vissi ekki. Annars, þá er ég að horfa á Liverpool – Blackburn aftur, og ég verð bara að segja hvað Riera stóð sig vel í þessum leik! Spilaði ótrúlega vel, sérstaklega í fyrri hálfleik.

  15. Þetta er aldeilis magnaður pistill hjá þér Magnús um þennan hrikalega atburð sem ég man ágætlega eftir. Margt af því sem þú ræðir um hafði ég þó ekki hugmynd um og mér finnst ástæða til að þakka þér alveg sérstaklega fyrir frábæra framsetningu á þessum pistli sem hreyfir allverulega við manni.

    Takk fyrir mig.

  16. Um hvað ert þú eiginlega að tala Jóhann?

    Fyrir það fyrsta er ég ekki stuðningsmaður Liverpool, heldur Juventus. Liverpool og Juventus munu vera tengd um aldur og ævi fyrir það sem gerðist 29. maí 1985. Hvernig geturðu sagt að annar sé meiri harmleikur en hinn? Hvernig geturðu verið að gera upp á milli svona hluta?

  17. Ekki ætla ég að gera lítið úr Heysel en þú hlýtur að geta fundið eitthvað um Heysel á einhverri Juve-síðu.

  18. Einhverri Juve-síðu? Er það málið já? Að Liverpool tengist þessu ekki? Ég er að koma inn á þessa síðu til að velta því fyrir mér af hverju slysið í Sheffield fær margfalt meiri athygli heldur en slysið í Brussel.

  19. Hvenær sagði ég að þetta tengdist ekki Liverpool? það er eitthvað um þetta á lfc.tv t.a.m. en hvort það sé nóg fyrir þig veit ég ekki. Finnst samt ekki rétt að þú ætlist til þess að síðuskrifarar hér skrifi sérstaklega um slysið hérna eins og þú segir ofar, þeirra er valið.

    Ástæðan fyrir því að t.d. Hillsborough og Munchen-slysin fá meiri athygli er einfaldlega sú að á Íslandi er mun meiri áhugi fyrir stóru ensku liðunum en öðrum erlendum liðum, öðruvísi get ég ekki útskýrt þetta fyrir þér. Ég get alveg eins spurt, af hverju er ekkert fjallað/talað um slysið sem varð á heimavelli Bradford eða þá á Ibrox?

  20. Ég geri ráð fyrir því að lokað verði á ip tölu frikka s á þessari síðu enda argasti dóni sem á betur heima á barnalandi.
    En Juve ég var eingöngu að benda á að þú ert að rembast eins og rjúpan við staurinn að skammast útí síðuskrifara fyrir að gera Heyzel og Hillsborough ekki jafn hátt undir höfði. Ástæða þess er mjög einföld Liverpool aðdáendur eru einfaldlega meira tengdir hillsborough en Heyzel. Afhverju komstu ekki inná þessa síðu 29. maí 2005 og kvartaðir yfir þessu eða stofnar eigin síðu sem fjallar um þetta mál. Tja eða skrifar pistil um þennan harmleik og biður síðuskrifara um að birta hann.

  21. Frikki S, vænti þess líka að lokað verði fyrir þína ip-tölu en svona er Liverpool í hnotskurn. Knattspyrnufélag sem metur auðmýkt og göfuglyndi ofar öllu. Félag sem lætur sér annt um tilfinningar allra, ekki bara sigurvegara. Félag sem reynir að setja knattspyrnuna á hærri stall menningarlega.

    Stórfurðulegar alhæfingar hjá þér um að enginn hérna hafi verið á né þekkt fólk eða ættingja sem voru á Hillsborough þennan ömurlega sorgardag. Hvað veist þú um það?

    Þessi atburður er mjög stór útí Englandi og meðal áhangenda Liverpool. Það hafa ótal virtir aðilar og fjölmiðlar úti hrósað Liverpool fyrir frábæra athöfn í gær. Að minningu þessa 96 manns sem dóu hafi verið sýnt mikil og falleg virðing. Liverpool sendi einnig fulltrúa og leikmenn frá félaginu í hverja einustu jarðaför fólksins sem fórst.

    Ég er einn af þeim sem horfði á leikinn í beinni útsendingu 1989 og hlustaði á tóninn í lýsingu Bjarna Fel myrkvast eftir því sem hörmungin kom æ meir í ljós. Horfði á fólk í algerri örvinglun gráta ástvini í fanginu
    og manneskjur liggja lífvana eins og hráviði á slysstað. Fullkomin upplausn og niðurbrot.

    Hræðilega vond og ógleymanleg tilfinning að hafa horft á þetta live. Líkt og að fylgjast beint með stríði og finna lykt af brennandi holdi. Maður var rifinn þarna uppúr hversdagsleikanum og slegin utanundir með ljótleika lífsins. Þessi atburður snart mann varanlega og ég er einstaklega stoltur af því hvernig Liverpool hefur höndlað þetta mál í öll þessi ár.

  22. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta betur fyrir þér Páló. Þetta tengist Liverpool, ef þú getur ekki séð það, þá get ég ekki aðstoðað þig frekar. Hver er að tala um Munchen, Ibrox eða Bradford? Þetta er Liverpool-síða, ekki satt? Slysið í Brussel tengist Liverpool alveg jafn mikið og slysið í Sheffield.

    Er ég að rembast eitthvað hérna Jóhann? Ég er bara að velta því fyrir mér af hverju slysið í Sheffield er miklu meira í umræðunni en slysið í Brussel. Af hverju tengjast Liveprool-stuðningsmenn frekar öðru slysinu? Það lést fólk í báðum þessum slysum. Liverpool-stuðningsmenn voru á báðum stöðum. Hver er munurinn?

    Ég bara skil ekki að það sé sífellt tönglast á því að réttlæti fyrir hina 96 hafi ekki fengist, en lítið sem ekkert er talað um hina 39 sem létust í Brussel. Hvað með þeirra réttlæti?

    Og aftur, ég er algjörlega sammála öllu sem hefur verið gert í kringum slysið í Sheffield, minna má það varla vera. Eiga fórnarlömb atburðanna í Brussel ekki það sama skilið?

  23. Juve, munurinn á þessu er líka sá að Liverpool gerði allt sem það mögulega gat til að heiðra minningu þeirra sem létust í Sheffield þennann sorgardag, Juventus gerði hins vegar ekkert eftir Heysel og hafa þeir oft verið gagnrýndir fyrir hvernig þeir tóku á þessu máli. Engin minningarathöfn var haldin fyrir þessa 39 sem nánast allir (ef ekki allir, er ekki 100% á því) voru stuðningsmenn Juventus og svo framvegis.

    Það er hlutverk LFC að heiðra minningu sinna stuðninsmanna sem létust á Hillsborough, rétt eins og það er hlutverk Juventus að heiðra minningu sinna aðdáenda sem létust á Heysel, hvort sem stuðningsmenn Liverpool komu nálægt því eða ekki.

  24. “Ég bara skil ekki að það sé sífellt tönglast á því að réttlæti fyrir hina 96 hafi ekki fengist, en lítið sem ekkert er talað um hina 39 sem létust í Brussel. Hvað með þeirra réttlæti?”

    Voru ekki menn dregnir til ábyrgðar eftir Heysel? Voru ekki ensk lið bönnuð í öllum keppnum utan Englands? Voru menn ekki handteknir og fangelsaðir fyrir manndráp?

    Hvað gerðist eftir Hillsborough? Hver var dreginn til ábyrgðar þar? Enginn. Það er þess vegna sem samtök á borð við “Justice for the 96” eru til.

  25. Juve! Það er mikill munur á þessum tveimur atburðum gagnvart stuðningsmönnum Liverpool.
    Á Heysel létust stuðningsmenn Juventus í óeirðum. Á Hillsborough létust stuðningsmenn Liverpool vegna gríðarlegra mistaka þeirra sem sáu um leikinn. Ef þú sérð ekki muninn á þessu tvennu þá ertu einfaldlega að reyna að skapa vesen. Sem þú ert klárlega að gera þar sem að kristján atli þakka þér fyrir góða ábendingu og þú í framhaldinu kallar hann hræsnara.
    Að auki er Hillsborough mun nær okkur i tíma og mjög margir okkar muna eftir því að hafa setið fyrir framan sjónvarpið þegar leikurinn var á og fylgjat með þessum atburðum í beinni útsendingu.
    Heysel var svartur blettur á stuðningsmanna sögu enskra knattspyrnuliða meðan á Hillsborough töpuðu 96 stuðningsmenn Liverpool lífinu vegna mistaka yfirvalda án þess vera nokkurn tíma í þeirri aðstöðu að gera nokkuð af sér sem gat hugsanlega í huga þeirra sem voru neðst á pöllunum leitt til þess að þeir myndu tapa lífinu þennan dag.
    Bottom line þessi dagur snýst um að minnast fallina Liverpool aðdáenda sem létust við að fara á fótboltaleik sem við höfum flestir gert og því er auðvelt að skilja þá sorg sem þetta leiðir af sér.
    Það er nærtækara fyrir stuðningsmenn Juventus að minnast fallina stuðningsmanna sinna í stað þess að krefjast þess að stuðningsmenn Liverpool geri það. Sem ég held þó að þeir geri í meira mæli enda þykja stuðningsmenn Liverpool á þessum tímum vera með afbrigðum prúðir á knattspyrnuleikjum og ljóst að þeir vilja tryggja að svona nokkuð muni aldrei aftur endurtaka sig á leik með Liverpool enda varð þetta slys fyrst of fremst vegna áráttu lítils hóps enskra stuðningsmanna til að ráðast á aðra áhorfendur. Þeir þurftu líka að gjalda fyrir það dýru verði.

  26. Juve, svör þín fóru framhjá mér í gær vegna anna en ég skal svara þér núna og vona svo að málið verði tekið af dagskrá í kjölfarið, enda erum við hér að ræða um Hillsborough.

    Það er enginn að segja að Hillsborough-harmleikurinn sé mikilvægari heldur en Heysel-harmleikurinn. Það er enginn að gera upp á milli þeirra og við sem stjórnum þessari síðu höfum alveg fjallað um Heysel. Gott dæmi um það er pistill Einars Arnar vorið 2004, eða nítján árum eftir harmleikinn, og svo skrifaði Einar aftur frábæran pistil ári síðar, tuttugu árum eftir harmleikinn, sem ég mæli með að allir lesi. Persónulega hef ég skrifað minna um Heysel en Hillsborough af því að ég var aðeins fimm ára þegar Heysel átti sér stað en níu ára þegar Hillsborough átti sér stað. Ég man eftir Hillsborough, persónulega, en ekki Heysel.

    Annars höfum við ekki skrifað á hverju ári um Hillsborough neitt frekar en Heysel. Yfirleitt hefur í mesta lagi komið inn stutt færsla til að minnast á þennan dag, t.a.m. setti ég inn YouTube-myndband í fyrra og árið þar áður skrifaði SSteinn mjög stutta færslu með fjórum tenglum. Þannig að síðustu tvö ár á undan deginum í dag höfum við varla eytt nema fimmtíu orðum eða svo í að “fjalla um” Hillsborough. Í fyrra skrifaði ég t.a.m. margfalt lengri færslu um hálfrar aldar afmæli Munich-flugslyssins þar sem Man Utd- og Man City-leikmenn létust heldur en ég skrifaði um Hillsborough. Ég skil því ekki alveg hvernig þú færð þá niðurstöðu að við skrifum meira um Hillsborough heldur en Heysel eða aðra harmleiki ef því ber að skipta.

    Hitt er svo annað mál að Hillsborough á stærri sess í sögu Liverpool FC og stuðningsmanna Liverpool, sérstaklega þeim sem búa í heimaborginni sjálfri, af mjög augljósri ástæðu. Á meðan 38 Juve-aðdáendur og einn Belgi létust í Heysel-slysinu létust 96 Liverpool-aðdáendur í Hillsborough. Þótt auðvitað sé eitt mannslíf ekki meira virði en annað hefur Hillsborough augljóslega skilið eftir sig stærri sár hjá klúbbnum og fylgismönnum hans af því að þar sitja eftir fjölskyldur og aðstandendur þeirra sem létust, auk þeirra fjölmörgu Liverpool-stuðningsmanna sem voru á Hillsborough-vellinum þennan örlagaríka dag en sluppu lifandi. Áhrif Hillsborough-harmleiksins eru miklu sýnilegri á meðal stuðningsmanna klúbbsins og Liverpool-borgar almennt.

    Að lokum þá er ein ástæða til viðbótar: Heysel-málið var rannsakað og var ábyrgum aðilum refsað fyrir það sem illa fór þar. Liverpool-menn gengust við ábyrgð vegna óláta sinna stuðningsmanna og hlutu fyrir vikið margra ára bann frá evrópskum keppnum auk þess sem önnur ensk lið hlutu vægari bönn. Hvað Hillsborough-harmleikinn varðar hins vegar hefur ekki enn verið tekið á þeim sem báru ábyrgð, auk þess sem ákveðið, ónefnt dagblað í Englandi ákvað að nota tækifærið til að veitast að Liverpool-búum sem heild með lygum og rógburði í kjölfar harmleiksins. Þannig að á meðan Heysel situr sem smánarblettur á sögu klúbbsins (blettur sem menn eru skiljanlega ekki alltaf viljugir til að tala um) sem hann hlaut refsingu fyrir og hefur afplánað er Hillsborough enn sem rýtingur í bakinu og með hverju árinu sem líður án þess að vissir aðilar séu dregnir til ábyrgðar er hnífnum snúið enn frekar.

    Ég vona að þú sért sáttur við þessar útskýringar. Ef þú hefur eitthvað frekar um þetta að segja skulum við með glöðu geði svartlita síðuna aftur þann 29. maí n.k. ef það hjálpar þér og/eða öðrum Juventus-stuðningsmönnum að takast á við minninguna um Heysel. En þessa vikuna erum við að ræða Hillsborough. Vinsamlegast virtu það.

  27. Og vonandi er þá þessu einkennilega innleggi Juve lokið með greinagóðu og ítarlegu svari Kristjáns Atla.

    Ummæli um þessa frábæru grein hefðu aldrei átt að fara í þessa átt.

  28. Jóhann, þarna ert þú að gera á milli mannslífa. Hverju skiptir það þótt annar sé stuðningsmaður Juventus en hinn Liverpool? Þettu eru mannslíf, þau hljóta að vera jafnmikilvæg?

    Ég passaði mig sérstaklega á að hefja ekki þessa umræðu fyrr en 16. apríl svo allt sé á hreinu hérna.

    Og ég er ekki að tala um Juventus hérna að neinu leyti. Ég er að velta fyrir mér muninum á umræðu um sitt hvort slysið. Er það bannað? Hvort sem ykkur líkar það betur eða verr mun slysið í Brussel vera tengt Liverpool um aldur og ævi, alveg einsog slysið í Sheffield.

    Og Kristján Atli, þið talið um eða minnist alltaf á slysið í Sheffield, en gerið það sárasjaldan um slysið í Brussel, það er allt og sumt sem ég vildi segja. Þið eruð ekki einir um þetta. Stuðningsmenn Liverpool vilja almennt lítið ræða þetta. Mér finnst það bara ósanngjarnt og ég held ég hafi fullan rétt á því að finnast það.

    Varðandi réttlætið. Eftir því sem mér skilst fengu 14 dóm, helmingurinn af þeim skilorðsbundinn. 7 manns sátu í fangelsi í 3 ár. Er það réttlætið sem þú ert að tala um?

  29. Jæja hvað segið þið drengir…
    Það er slatti af fréttum af okkar mönnum.

    Big Sam vælandi yfir hroka og dónaskap Benitez, hvað segið þið um þetta?? Ferguson hafði auðvitað sitthvað um þetta að segja.
    http://www.setanta.com//uk/Articles/Football/2009/04/17/Premier-League-Allardyce-on-Rafa/gnid-48986/

    Eins segir Benitez að hann vilji halda í Alonso sem ég tel frábærar fréttir.

    http://soccernet.espn.go.com/news/story?id=637764&cc=5739

    Varamarkmaður okkar að koma sér í vandræði
    http://www.timesonline.co.uk/tol/sport/football/premier_league/liverpool/article6112547.ece

  30. Juve þú talar eins og maður sem sættir sig ekki við nein svör og svarar til baka með skæting og furðulegum spurningum til baka. Svarið hans Kristjáns var virkilega gott og fullnægjandi til að svara öllum þínum spurningum. Það hefur aldrei verið og mun aldrei vera gert upp á milli mannslífa í þessu samhengi, þetta eru báðir mjög sorglegir atburðir og er Kristján búinn að bjóðast til þess að skrifa um Heysel þannig að af hverju í ósköpunum þarftu að reyna mála upp einhverja fáránlega mynd sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Fyrir mér ertu búinn að fá þau svör sem þú varst að sækjast eftir, sum betri en önnur en á ENGAN HÁTT hefur verið gert lítið úr Heysel slysinu og að sjálfsögðu verður það tengt Liverpool að eilífu. Það er algjör óþarfi að endurtaka í sífellu sömu spurningarnar þegar að svörin hafa komið.
    Nóg komið af bullinu

  31. Hæhæ,
    mér datt í hug að kannski hefði einhver áhuga á að sjá þetta málverk?
    http://barnaland.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=13348505&advtype=4&page=2&advertiseType=0

    ég rakst bara á þetta rétt í þessu , nú þekki ég ekkert þarna til svo ekki misskilja þetta sem auglýsingu. Finnst þetta bara rosalega flott og vona það finni verðugt heimili , og ég held að þessi síða sé rétti staðurinn til þess að koma því þangað 🙂

  32. Frábær grein Maggi (og KAR þar á undan)

    Frábært líka hjá þér Juve að ná að búa til þrætumál á þessum þræði (af öllum þráðum) vegna annars atviks, ólíku Hillsborough, sem þó hefur alveg verið tekið til umræðu hér (og var sannarlega ekki á dagskrá núna).

    Pesónulega þekki ég ekki Heysel slysið ofan í kjölin, það er tilkomið vegna átaka milli stuðningsmanna (sem ekki er svo óalgengt og var alls ekki þarna), afleiðingarnar urðu hræðilegar og eru svartur blettur á sögu klúbbsins, það hefur verið að talað um að það væri bara tímaspursmál hvenær svonalagað myndi gerast og það gerðist því miður þennan sorgardag í Belgíu. Í kjölfarið fengu nokkrir á sig dóm fyrir sinn þátt í ólátunum og klúbburinn (ásamt öllum enskum klúbbum) fékk GRÍÐARLEGA ÞUNGA refsingu í formi banns frá Evrópukeppnum í fimm ár ef ég man rétt. Hvort það fullnægi réttlætinu eða ekki veit ég ekki og raunar veit ég ekki hvernig þú réttlætir dauða 39 manna á fótboltaleik, en þetta var allavega sú refsing sem kom og raunar hef ég ekki heyrt mikið frá Justice herferð Juve manna og því síður sé ég tilganginn í því að stuðningsmenn Liverpool ættu að vera að halda úti réttlætisherferð og halda upp á minningu Heysel líkt og gert er með Hillsborough.
    Eins veit ég hreinlega ekki alveg hvernig dauða þessara 39 bar að, þ.e. hvort um bein morð hafi verið að ræða eða troðning út frá ólátum og átökum og get því ekki lagt dóm á þá refsingu sem veitt var.

    Hillsborough stendur Liverpool mönnum hinsvegar eðlilega töluvert nær, fyrir það fyrsta þá voru það 96 stuðningsmenn Liverpool, flestir frá Liverpool borg sem þar létust. Þetta atvik var á Englandi (svo þetta kom enn meira við bresku þjóðina) og þetta orsakaðist vegna aulalegra mistaka í gæslu/skipulagi á vellinum, eitthvað sem enginn var dreginn til ábyrgðar fyrir. Ofan á það var farið hamförum í breskum klósettpappír dagana á eftir sem líklega þjappaði Liverpoolbúum (Everton mönnum jafnt sem Liverpool) ennþá meira saman.

    Kallaðu það hræsni eða hvað sem þú vilt, ég skil allavega mjög vel að Hillsborough slysið sé poolurum ofar í huga heldur en Heysel, stendur okkur nær og þar var enginn dreginn til ábyrgðar og varla beðið afsökunar ef ég man þetta rétt. Það er samt alls alls ekki þar með sagt að með því að fjalla meira um Hillborough slysið sé Heysel harmleikurinn gleymdur meðal poolara, því ver víðsfjarri.

    p.s. þar fyrir utan fannst mér nú stuðningsmenn Liverpool ekki beint sýna Juve mönnum lítilsvirðingu né að þeir hefðu gleymt þessum 39, síðast þegar þeir mættu Juventus, í fyrsta skipti síðan Heysel. Liverpool menn gerðu mosaic mynd yfir alla Kop sem á stóð á ítölsku vinátta (held ég).

    vinátta

  33. Juve, ef þú hefur þörf fyrir að ræða Heysel, af hverju ferð þú ekki á vefsíður sem innihalda slíka umræðuvefi í stað þess að vera gagnrýna einstaklinga sem eru að halda úti frítt vefsíðu um Liverpool. Bara sorry kappi þú ert í engri aðstöðu til að vera setja fram einhverja gagnrýni á það efni sem birtist á þessum miðli.
    Þetta er svona álíka fáranlegt og ég væri að gangrýna einhverja bloggara útí bæ fyrir að skrifa aldrei um blómarækt þar sem ég hefði gríðarlegan áhuga á slíku.
    Þó svo að menn séu að skrifa greinar um Sheffield þýðir það ekki að Heysel atburðurinn skiptir Liverpool aðdáendur engu. Ég minni bara á athöfnina þegar Liverpool og Juve mættust fyrir nokkrum árum í CL.

  34. Juve…
    ég legg til að þú fáir þér Morgunblaðið og ritrýnir minningagreinarnar þar, .. farir svo að pirra þig yfir því að það sé ekki minnst á þitt fólk í þeim …hverri einni og einastri!.
    Mér finnst þetta siðlaust, að reyna draga þennan magnaða virðingarvott aðstandenda þessarrar síðu ofan í svaðið tilbúið af þér sjálfum.

    Annars þakka ég vel fyrir frábær skrif Maggi. Virkilega góður pistill skrifaður með mikilli virðingu.

  35. Ekki neina lítilsvirðingu Babu? Ertu að meina þetta? 39 manns létust og þeir biðu í 20 ár með að biðjast afsökunar. Spurðu líka Ítali hvað þeim fannst um þessa afsökunarbeiðni. Ég get sagt þér að ansi margir voru hneykslaðir á þessu.

    Þið hin sem eruð að skjóta á mig. Hvað á ég að segja? Hafið það þá bara einsog þið viljið. Ég fékk þó allavega smá umræðu um þetta mál, annað en það sem áður var. Hún ætti og mætti þó vera mun meiri.

  36. Heysel var skelfilegur atburður og eiginlega mín fyrsta minning tengd knattspyrnu. Sjálfur hef ég haldið með Liverpool og Juventus allar götur síðan. Juve, ég hef mikinn samúð með þessum málstað en að halda því fram að Heysel málið hafi verið þaggað í hel á þessari síðu er náttúrulega alls ekki rétt. Ég veit ekki hvort þú kýst að horfa fram hjá þeirri umfjöllun sem hefur farið fram um þennan atburð og finnst rétt að benda þér á þessa grein sem Einar Örn skrifaði 2005, grein sem nú þegar er búið að benda á þeim athugasemdum. Hún hlýtur að hafa farið fram hjá þér: http://www.kop.is/2005/04/03/13.36.25/

  37. Þú ert algjörlega sorglegur Juve, það er bara ekki flókið, sorglegur. Bíða í 20 ár með að biðjast afsökunar?!?! Ég held þú ættir að lesa þér betur til um þetta, það hafði áður farið fram afsökunarbeiðni en hún gat ekki verið jafn afgerandi eins og þarna því liðin höfðu ekki mæst áður síðan þessi hörmung átti sér stað. En þú kýst að horfa framhjá þeim svörum sem þú hefur fengið hérna og því finnst mér þú vera með hreinlega ömurlega tilraun til að hreinlega gera lítið úr því sem verið er að gera varðandi Hillsborough, ömurleg tilraun hjá þér alveg hreint.

  38. Juve.

    Hvernig væri að þú sendir mér á e-mail þína skoðun á Heysel slysinu? Ég nefnilega hef töluvert viðað að mér upplýsingum um aðdraganda þeirra óeirða og síðan þess sem gerðist þar og er til í að ræða það við þig.

    En á sérstökum þræði, enda ekkert, ekki neitt sameiginlegt með Heysel og Hillsborough annað en mannslátin. Ég hef m.a. farið á Heysel til að skoða það sem þar er fjallað um þann örlagaríka dag. Ensk lið hafa síðan töluvert gert til að stemma stigu við þeim óeirðum sem náðu hámarki á Heysel, sem er því miður annað en hefur verið hægt að segja um ítölsku liðin.

    En gott þætti mér að fá að heyra í þér, því viðbúið er að þínar upplýsingar séu aðrar en mínar…

  39. Er ég sorglegur Sigursteinn? Sýndu mér afsökunarbeiðnirnar. Hver er ástæðan fyrir því að stuðningsmenn Juventus hugsa svona til Liverpool? Er það bara tilbúningur í þeim að þeir eru sárir og svekktir að þeir voru aldrei beðnir afsökunar? Hvar er ég að gera lítið úr slysinu í Sheffield? Hugsaðu aðeins áður en þú skrifar hérna.

    Ef þú last það sem ég skrifaði Gummi Halldórs þá hefurðu vonandi tekið eftir því að ég talaði um að hér hefur eingöngu verið skrifað um þetta 29. maí 2004 og í kringum leik liðanna í apríl 2005.

    Maggi, hvað áttu við um ítölsku liðin? Hvar og hvenær hafa þau gert sig seka um nokkuð í líkingu við það sem gerðist í maí 1985?

Tuttugu ár

Ferguson væl