Stöðumat: Vinstri bakverðir

Vinstri bakverðir

Vinstri bakvarðarstaðan hjá Liverpool hefur löngum verið veikur hlekkur í liðinu. Persónulega finnst mér Fabio Aurelio vera sá besti sem við höfum átt síðan ég veit ekki hvenær, en það er einn afar stór galli á þeim leikmanni, hann getur hreinlega ekki haldið sér heilum. En tæknilega séð og þegar horft er til hæfileika með boltann, þá er hann einn sá albesti sem við höfum átt afar lengi. Síðan Alan Kennedy var upp á sitt besta, þá höfum við ekki haft topp klassa leikmann í þessari stöðu. Sá sem hefur kannski komist næst því er Steve Staunton (í fyrra skiptið sem hann var hjá okkur) en svo er listinn ekki burðugur; Dossena, Riise, Vignal, Traore, Warnock, Matteo, Carragher (í þessari stöðu), Staunton (seinna skiptið), Björnebye, Dicks, Burrows etc. Sumir vilja halda því fram að Riise hafi bara átt eitt slakt tímabil (hans síðasta) en ég er því bara engan veginn sammála. Fyrir mér var hann meðalmennskan uppmáluð, í rauninni bara dæmigert fyrir þessa stöðu hjá liðinu í alltof alltof langan tíma.

En eins og áður sagði, þá er þetta erfið staða að manna. Ég sé ekki alveg fyrir mér að við séum að fara að henda miklum peningum í að styrkja hana, sér í lagi þar sem aðrar stöður eru mikilvægari þegar kemur að styrkingu á liðinu.

Núverandi vinstri bakverðir (nafn, aldur, land):
Fábio Aurélio, 30, Brasilía
Emiliano Insúa, 21, Argentína
Chris Mavinga, 19, Frakkland
Jack Robinson, 16, England
Robbie Threlfall, 21, England

Búið er að gefa það út að Fabio Aurelio og Robbie Threlfall muni yfirgefa herbúðir liðsins á free transfer, það kemur væntanlega ekki nokkrum manni á óvart. Þá sitja eftir þrír, sem eiga það allir sameiginlegt að vera ungir að árum, þó mis ungir, og efnilegir mjög. Insúa fékk að mínum dómi of mikla ábyrgð of snemma, vegna heilsubrests hjá Fabio kallinum. Í varaliðinu er svo Mavinga, sem hefur verið að spila fantavel í vetur og býr mikið í þeim strák. Hann er ólíkur Insúa, er afar sterkur og kraftmikill, en ekki jafn öflugur sóknarlega eins og hinn smávaxni Argentínumaður. Síðan er framtíðarguttinn hann Robinson, sem á þó eitthvað af árum eftir þangað til að hann fer að banka á dyrnar. Í mínum huga er það því algjörlega ljóst að við þurfum að versla einn vinstri bakvörð í sumar.

Hugsanleg kaup (nafn, aldur, lið, land):
Kieran Gibbs, 20, Arsenal, England
Ryan Bertrand, 20, Chelsea, England
Vurnon Anita, 21, Ajax, Holland
Ivan Obradovi?, 21, Zaragoza, Serbía
Fábio Coentrão, 22, Benfica, Portúgal
Aly Cissokho, 22, Lyon, Frakkland
David Luiz, 23, Benfica, Brasilía
Domenico Criscito, 23, Genoa, Ítalía
Marcell Jansen, 24, Hamburger SV, Þýskaland
Reto Ziegler , 24, Sampdoria, Sviss
Aleksandar Kolarov, 24, Lazio, Serbía
Leighton Baines, 25, Everton, England
Taye Taiwo, 25, Marseille, Nígería

Stór er listinn og nokkrir þarna úti sem væru góðir kostir í stöðunni. Auðvitað þá snýst þetta nú allt um peninga, verða þeir fyrir hendi eða ekki? Það er auðvelt að draga upp lista ef ekki þarf að hugsa um fjármunina, en því miður er staðan ekki þannig hjá okkur, ekkert sugardaddy dæmi í gangi, frekar svona Trailer Park daddy. Það er þó ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera ágætis kaup í nýjum vinstri bakverði.

Ef við horfum fyrst til enskra leikmanna, þar sem nýja reglan fer að taka gildi á næsta tímabili, þá eru að mínum dómi ekki margir möguleikar í spilunum. Kieran Gibbs er afar efnilegur bakvörður, en ég held að það sé enginn möguleiki að Arsenal selji okkur hann. Sama má segja um Leighton Baines. Sá þriðji sem uppfyllir þjóðernis skilyrðið er bæði óreyndur og svo hjá Chelsea, þannig að hann er líka út úr myndinni. Það þarf sem sagt væntanlega að horfa út fyrir Bretlandseyjar eftir vinstri bakverði.

Mitt fyrsta val væri án nokkurs vafa David Luiz hjá Benfica. Hann er afar öflugur bakvörður, en einnig sem miðvörður. Sterkur sóknarlega og enn öflugri varnarlega og aðeins 23 ára gamall, gæfi aukna hæð í varnarlínuna þar sem hann er 188 cm. og ekki veitir nú af. Ég geri mér þó enga grein fyrir því hvað það myndi kosta að fá hann til liðsins.

Annað val hjá mér væri Marcell Jansen, fastamaður í þýska landsliðinu og spilar með Hamburger SV. Þetta er stór (1,91) og afar öflugur vinstri bakvörður með mikla reynslu. Hann hefur einnig talsvert spilað vinstra megin á miðjunni, enda sóknarlega öflugur. Gæti kostað nokkrar kúlur, en vel þess virði.

Aðrir sem kæmu mjög sterklega til greina eru Reto Ziegler, Aleksandar Kolarov, Taye Taiwo og Aly Cissokho. Allt mjög öflugir vinstri bakverðir á besta aldri.

Af þessum lista mínum koma þessir aðilar síst til greina: Vurnon Anita (lítil reynsla), Ivan Obradovi? (ekki mikil reynsla í topp deild), Domenico Criscito (lítt reyndur og ítalskur) og Fábio Coentrão (meiri miðjumaður en bakvörður).

Draumurinn væri sem sagt þessi:

Vinstri bakverðir 2010-2011 (nafn, aldur, land):
David Luiz, 23, Benfica, Brasilía
Emiliano Insúa, 21, Argentína
Chris Mavinga, 19, Frakkland
Jack Robinson, 16, England

Ég tel alveg ljóst að við þurfum að punga út 7-10 milljónum punda til að fá einhvern af þessum sem ég taldi upp sem góða kosti. Sumir þeirra fengjust eflaust ekki einu sinni á þann pening, en einhver af Luiz, Jansen, Ziegler, Kolarov, Taiwo eða Cissokho væru flottir kostir til að styrkja þessa vandræða stöðu. Ég hreinlega treysti okkur ekki til að fara inn í tímabilið með Insúa einan og Carra/Agger sem backup, því ég tel það of fljótt að veðja á Mavinga ef Insúa yrði eitthvað frá keppni. Insúa er einnig á þeim stað að hann ætti að mínum dómi ekki að vera kostur númer eitt enn sem komið er, hef mikla trú á honum sem framtíðarmanni, en við þurfum annan öflugan með honum. Ef engir peningar verða til, þá vil ég frekar fara inn í tímabilið með Mavinga sem backup fyrir Insúa, frekar en að kaupa einhvern slarkfæran vinstri bakvörð.

Næst mun ég fara yfir miðvarðarstöðurna hjá Liverpool FC.

19 Comments

  1. Sammála þér þarna með David Luiz held að hann sé leikmaður fyrir liverpool. En ef allir draumar ættu að rætast mundi ég ólmur vilja sjá Philip Lahm í vinstri bakvarðarstöðunni hjá Liverpool. En ég stór efa að það sé einhvern tíman að fara að gerast.

  2. Benfica hefur gefið út að David Luiz fari ekki fyrir minna en 45m evra þanning að það held ég að sé nokkuð útúr myndinni, Aly Cissokho kom líka til Lyon fyrir háa fjárhæð í fyrra og hefur bara batnað.
    Af þessum á listanum held ég a Kolarov og Taiwo séu raunhæfastir miðað við fjármagn liðsins á þessum síðustu og verstu tímum.

  3. Kolarov er orðaður við Real. Sagt að Mourinho vilji fá hann þangað en hann reyndi mikið að fá hann til Inter. Þannig að hann er úr sögunni líka (geri a.m.k. ráð fyrir að verðmiðinn sé mjög hár).
    Nánast allir þarna eru á leið í Meistaradeildina á næstu leiktíð, það hjálpar ekki.
    Ef það væri nokkur kostur að fá Gibbs væri það frábært, hann verður betri en Clichy og það fyrr en seinna.

  4. Það voru ein stór mistök sem Benitez gerði með þessa vinstri bakvarða stöðu, hann seldi Stephen Warnock.
    Ég held að hann hefði reynst okkur mun betur en Aurelio í þessa stöðu og ég væri alveg til í að sjá hann aftur hjá okkur ef hann fengist á skikkanlegu verði.

  5. Auk þess er Warnock 28 ára og því kæmi hann með reynslu til Liverpool auk þess sem að hann hefur verið hjá okkur áður þá er hann ekki það ungur að hann myndi halda Insua úr liðinu í mörg ár. En ég tel Insua alveg geta verið fyrsta kost í þessa stöðu eftir 2-3 ár og þá væri Warnock 30-31 árs og kæmi þá yrði hann góður backup fyrir Insua.
    Ég man eftir viðtali við nokkra Liverpool menn sem hrósuðu Warnock fyrir að vera mikinn nagla sem gæfi aldrei neitt eftir á æfingum og væri besti tæklarinn í liðinu.
    Ég myndi setja hann sem fyrsta kost af þessum bakvörðum sem þú telur upp.

  6. Já, ég sá alltaf eftir Warnock, væri því alveg til í að fá hann aftur.
    Takk fyrir pistilinn, bíð spenntur eftir næsta 🙂

  7. Mjög góð yfirferð. Þó ég skilji ástæðuna fyrir að hafa listann hér að ofan með nöfnum á ungum sterkum leikmönnum held ég Rafa sé afar líklegur til að leita að eldri reynslubolta sem gæti komið frítt. Ágæti þeirrar strategíu er svo náttúrulega umdeilt.

  8. Flottur Steini.

    Ég er að mörgu leyti sammála þessu, en vill reyndar alls ekki Taiwo. Luiz flottur kostur, en viðbúið að hann sé ansi dýr og svo hugsa ég stundum um það að suðurlandabúar falla oft illa inn.

    Warnock karlinn er að mínu mati ekki nógu góður til að verða í meistaraliði, hann brýtur klaufalega af sér og á til að gera svakaleg mistök. Hann er auðvitað fínn kostur, en bara það að hann sé fyrir aftan Wayne Bridge í enska landsliðinu segir ýmislegt. En hann er fínn leikmaður auðvitað!

    Allir þessir eru sterkari sóknarlega, mig langar að skjóta inn einu nafni sem ég held að geti verið sterkur kostur, það er Rússinn Aleksei Berezutski sem er leikmaður CSKA Moskva. Hann getur spilað hafsent og báðar bakvarðarstöðurnar. Hann verður 28 ára í sumar, 191 senitmetrar á hæð, þraulreyndur varnarmaður sem er fínn sóknarlega líka. Með því að fá hann getum við losað okkur við einn hafsent líka til að fá peninga.

    Búinn að vinna meistaratitla í Rússlandi og þrautreyndur í stórmótum, lands- og félagsliða.

  9. Flottur póstur og mikið væri ég til í að sjá Jansen í bakverðinum! Frekar að kaupa þýskan harðjaxl heldur en þessar dúkkur frá S-Ameríku / Spáni sem fara sakna mömmu sinnar eftir hálftíma og hlusta á vælið í kellingunum sínum sem fá leið á að versla í Englandi fljótlega!

  10. Maggi þú fyrirgefur en þú talar um að Warnock hæfi ekki meistaraliði en þú áttar þig vonandi á því að hann er nú þegar í liði sem endaði fyrir ofan Liverpool í vetur sorglegt en satt….
    Warnock er Enskur nagli sem gefur aldrei tommu eftir og ég fer ekki ofan af því að hann væri tilvalinn í að gefa hinum unga Insua góð ráð.
    Það má vel vera að Liverpool muni verða meistaralið á næstu árum en í dag er Liverpool ekki meistaralið (því miður en þetta er satt) en vonandi breytist það fyrr en seinna. Liverpool eiga einnig ekki mikla peninga og geta ekki boðið upp á CL og því ætti að vera erfitt að fá einhverja af þessum mönnum sem hafa verið nefndir hérna.
    Einnig hef ég engann áhuga á því að fá einhvern pappakassa í vörnina sem að þarf hálft ár eða meira til þess að aðlagast deildinni og liðinu.

  11. Warnock hefur ýmsa kosti, frambærilegur frammávið og með Liverpoolhjarta en harður er hann ekki og hvað þá nagli. Maðurinn getur ekkert tæklað. Þeir sem halda öðru fram hafa ekki séð hann spila fótbolta. Þó hann sé enskur þá er hann ekkert sjálfkrafa nagli. Mér fannst hann alltaf ágætur fyrir Liverpool en við skulum segja hlutina eins og þeir eru.

  12. þetta er klárlega veikasta staðan í liðinu. Vona að við fáum alvöru leftara í sumar

  13. Verð nú að segja að Insúa er betri vinstri bakvörður heldur en Kuyt sem hægri vængmaður. Bara sörglegt að horfa á það. En Insúa er ekki tilbúinn að vera númer eitt í þessarri stöðu. það þarf klárlega að gera eitthvað í þessum málum. Svo er bara spurning hvort við þurfum að horfa á Agger í þessarri stöðu næsta vetur, hans vegna vonandi ekki!

  14. Ég hef einhvernveginn trú á því að Insúa komi mun sterkari til leiks á næsta tímabili. Held að hann hafi haft mjög gott af þessari reynslu og eldskírn sem hann fékk í vetur og verði bæði með meira sjálfstraust og verði búinn að þróa leik sinn og bæta varnarleikinn þannig að hann verði öflugur byrjunarliðsmaður hjá félaginu. Veit ekki með þessa yngri stráka en finnst hálfgert waste að vera að eyða peningum í back-up leikmann. Væri þó gott að fá leikmann sem getur spilað haffsentinn líka, þá væri hægt að losa Kyrgiakos eða Skrtel út.

  15. Steini, þú gleymdir James Martin (Jim) Beglin þeim ágæta írska dreng sem kom til Liverpool 1983 til að taka við – með tíð og tíma – af Alan Kennedy, besta vinstri bakverði Liverpool frá upphafi.

  16. Veikusti hlekkur Liverpool er vinstri hliðin eins og hún leggur sig og hefur verið lengi, vinstri bakvarðarstaðan þó veikari. Þar á eftir kemur svo hægri kantur og svo miðjustaðan við hlið Mascherano. Finnst að við ættum að leggja mikla áherslu á að fá góðan vinstri bakvörð, þó ekki að eyða jafn miklu þar og var eytt í Glen Johnson.

  17. Ég vil að Insua verði vinstri bakvörður liverpool á næsta tímabili. Hann er ungur og fékk góða reynslu á seinasta tímabili.
    Ég hef alltaf viljað að Liverpool færi að gefa ungum leikmönnum séns og þá þýðir ekkert að ætla rakka þá niður eftir eitt tímabil þrátt fyrir nokkur mistök. Insúa verður að fá að spila ef hann á að verða betri og ég held að hann hafi alla burði til þess að verða mjög góður bakvörður. Hann er líka að detta á þann aldur að ef hann fær ekki að spila þá staðnar hann líklega í þroska sem fótboltamaður.

Opið bréf David Moores til The Times

Varaliðið 2009 – 2010