Akademían veturinn 2009 – 2010

Eftir pistilinn um varaliðið er svo komið að umfjöllun um ungu mennina í alrauða búningnum, stöðu þeirra í vetur og framtíðarhorfur.

Breytingar síðasta sumar

Síðastliðið sumar skipti Liverpool um gír í unglingastarfinu og ákveðið var að fela Rafa Benitez það verkefni að velja mannskap til að stjórna Akademíunni og hafa meira um starfið þar að segja. Í sem stystu máli þá lét Rafa flesta þjálfarana fara, þ.á.m. Hollendinginn Piet Hamberg sem hafði verið yfirmaður þar um stutt skeið. Einungis John Owens, framkvæmdastjóri starfsins fékk að halda sínu starfi.

Fyrst réð Rafa nýjan Akademíustjóra (líkt og fundarstjóra) sem var nýtt starf. Til starfsins valdi hann Frank McParland. Frank var í njósnadeild (scouting) Liverpool þegar Rafa tók við stjórastarfinu á Anfield en þegar Sammy Lee var ráðinn sem framkvæmdastjóri Bolton fékk hann Frank yfir til sín og þegar sá litli var látinn fara stuttu síðar fylgdi McParland.

Það var svo ákvörðun Rafa að fela honum að stjórna endurskoðun á starfi Akademíunnar og endurskipuleggja njósnanetið (scouting network) þar.

Ekki löngu á eftir ráðningu Franks var svo komið að stórum fréttum, þegar Rafa fékk King Kenny til að verða “sendiherra” Akademíunnar og setja hann þar með í lykilhlutverk í að ná í unga leikmenn um víðan völl, auk þess sem Dalglish á að miðla af sinni ómældu reynslu. Fréttum af þessu var tekið með mikilli gleði, enda allir ánægðir þegar kóngur snýr aftur!

Í kjölfarið á þessum yfirmannaráðningum kom að því að ráða þjálfarana. Tveir afar vel metnir Spánverjar voru fengnir til þeirra starfa. Fyrstur var ráðinn Rodolfo Borrell sem aðalþjálfari Akademíunnar. Óhætt er að segja hafi verið ráðning sem vakti viðbrögð í heimi unglingaþjálfara. Rodolfo stýrði unglingaliðum Barcelona um skeið, var m.a. lengst af þjálfari nafna eins og Lionel Messi, Gerard Pique, Cesc Fabregas, Bojan Krkic og Giovanni Dos Santos, auk okkar eigin Daniel Pacheco. Hann hafði fært sig til Iraklis í Grikklandi og stjórnaði þar aðalliðinu en ákvað að taka boði Liverpool að byggja unglingastarfið upp frá grunni.

Þá var ráðinn til að vinna sem þjálfari við Akademíuna til að aðstoða Borrell, en um leið vinna með McParland í því að þróa upp þann leikmannahóp sem þar er. Sá maður heitir José Segura, líka með tengsl við Barcelona en hafði líkt og Borrell farið til Grikklands og stjórnaði þar liði Olympiakos sem vann deildina og bikarinn vorið 2008.

Þessir menn voru fengnir til að gjörbylta starfi Akademíunnar, í raun frá A – Ö.

Frammistaða liðsins

Fyrstu merkin voru reyndar ekki alveg eins og vonast var eftir. Úrslitin í haust voru ansi brokkgeng, ágætir sigrar en líka slæm töp. Leikstílnum var breytt og hann færður í átt til aðalliðsins, með einn afgerandi framherja að mestu, en fljúgandi vængsentera. Liðið sótti og skoraði töluvert en fékk á sig mikið af mörkum.

Í kjölfar taps fyrir Watford í 16 liða úrslitum FA Youth cup fór liðið þó að beygja hressilega upp á við þegar kemur að úrslitum. Af síðustu 10 leikjum liðsins unnust átta og tvö jafntefli. Að lokum endaði liðið í fjórða sæti Academydeildarinnar – riðils B, tíu stigum á eftir sigurliðinu sem ekki skiptir öllu hvert var. Formið seinni hluta mótsins var þó langbest í riðlinum. Ágæt úrslit og árangur þó auðvitað menn hafi ætlað sér að ná enn betri árangri.

Ég sá FA youth cup bikarleikina beint og reyndi að glápa sem mest á vikulegan þátt um lífið í Akademíunni í vetur og ég er nokkuð bjartsýnn á það sem ég sá. Liðið var þó lengi að slípast til og finna taktinn hans Borrell, en á köflum var ferlega skemmtilegt að horfa á þá. Skemmtilegast var að sjá þá stúta sterku Leicesterliði 5-1 í 16 liða úrslitum bikarsins á útivelli, þar sem Lauri Dalla Valle skoraði frábæra þrennu. Þeir sækja ferlega hratt og pressa hátt, semsagt skemmtun.

Leikmennirnir

Þegar kemur að leikmönnunum í þessum hópi er ljóst að við erum vel settir af mjög ungum leikmönnum. Í vetur voru margir ungir og efnilegir leikmenn keyptir til liðsins, með það í huga að verða stórstjörnur framtíðarinnar. Mesta athygli úti vöktu sennilega kaupin á 15 ára öskufljótum kantsenter, Raheem Sterling og ekki að ósekju. Sá er lágvaxinn en ferlega skemmtilegur með mikinn hraða í hlaupum og tækni. Auk hans voru stór framherji, Michael Ngoo (Southend), varnarmaðurinn David Moli (Luton) og markvörðurinn Jamie Stephens (Swindon) fengnir innanlands sem hluti þeirrar stefnu að fjárfesta í breskum leikmönnum sem yrðu svo framtíðarmenn.

Hjá okkur voru það auðvitað kaupin á Kristján Gauta Emilssyni sem vöktu mesta athyglinni, þessi efnilegi miðjumaður fór frá FH um jól og lék með Akademíuliðinu þaðan frá.

Allir þessir leikmenn eru það ungir að þeir verða áfram í unglingaliðinu, sem mikils er vænst af á nýju ári, en þeir eru þó enn talsvert frá aðalliðshópnum.

Ekki er eins víst að eins langt sé hjá nokkrum öðrum í þann hóp. Þar má nefna fyrirliða U-17 ára liðs Englendinga, það er miðjumaðurinn Conor Coady og félaga hans í því landsliði, varnarmanninn Andre Visdom. Þar eru á ferð flottir leikmenn sem lofa afar góðu.

Næstu stjörnur

Þeir þrír leikmenn sem ég set í þennan flokk eftir veturinn eru:

Lauri Dalla Valle

Finnskur framherji sem mér finnst líkjast Robbie “God” Fowler svakalega. Líkamlega sterkur með ótrúlegt nef fyrir færum, getur sparkað með báðum fótum og sterkur “offplaying” senter líka. Hann er ekki mjög hraður en bætir það upp með staðsetningum og stöðugum hreifanleika.

Jack Robinson

Yngsti leikmaður til að spila fyrir Liverpool í sögunni er stór áfangi, sem Jack fékk þegar hann lék gegn Hull í lokaleik tímabilsins. Hann er áræðinn vinstri fótar maður, hefur spilað bæði á væng og í bakverðinum sem ég held að verði hans framtíðarstaða. Hann er grimmur og fljótur með góðar sendingar og mikinn leikskilning, klárlega framtíðarmaður.

Thomas Ince

Ég enda pistilinn á þeim leikmanni sem ég er spenntastur fyrir. Með allan þann vanda sem við höfum átt með vinstri vænginn okkar held ég að margt væri vitlausara en að láta þennan strák fá mínútur í æfingaleikjum sumarsins. Hann er feykilega fljótur og teknískur með frábæran vinstri fót. Skorar reglulega úr kantsenterstöðunni en hefur líka leikið undir senter og komið þrælvel út.

Viðurkenni alveg að ég hrökk við þegar ég sá frétt í vor að Chelsea væru að reyna að ná honum. Þessum þurfum við að halda! Endurtek að ég vona að við sjáum af honum í aðalliðinu í sumar og jafnvel í “minni” keppnum næsta vetrar.

Samantekt

Í stuttu máli. Hökt í byrjun en flott kaup og meiri samæfing skilaði fínt spilandi fótboltaliði. Mjög margir verða áfram gjaldgengir með Akademíuliðinu á næsta ári og verulega gaman verður að fylgjast með því þá, ekki síst frammistöðu Kristjáns “okkar”!!!!!

2 Comments

  1. Flottur pistill. Það verður spennandi að fylgjast með þessum piltum í framtíðinni.

  2. Frábær pistlill Maggi og ég held að menn geri sér ekki almennt grein fyrir því að núna fyrst erum við að sjá fyrir alvöru unga stráka sem eiga virkilega góðan möguleika á stóra sviðinu eftir ekki svo mörg ár.

HM í Suður-Afríku, okkar menn!

Liverpool bjóða Rafa starfslokasamning!