Trabzonspor 1 – Liverpool 2

Okkar menn unnu í kvöld mikinn baráttusigur á **Trabzonspor** í rigningunni í Trabzon. Eftir erfiðan og tvísýnan leik sigldu okkar menn fram úr á lokakaflanum og unnu 2-1 sigur sem tryggir okkur þátttökurétt í Evrópudeildinni í vetur.

Roy Hodgson sýndi hvar í goggunarröðinni þessi leikur er með liðsvali sínu í kvöld. Auk meiðsla Gerrard og Agger, veikinda Maxi og verkfalls Mascherano voru Jovanovic og Torres skildir eftir heima, auk þess sem Martin Skrtel byrjaði aðeins á bekknum í kvöld. Það var því mjög róterað lið sem hóf leik í kvöld og leit það svona út:

Reina

Johnson – Carragher – Kyrgiakos – Kelly
Poulsen
Kuyt – Lucas – Aurelio
Joe Cole
Ngog

**BEKKUR:** Gulacsi, Skrtel (inn f. Poulsen), Spearing, Shelvey, Eccleston, Pacheco (inn f. Aurelio) og Babel (inn f. Ngog). Allar innáskiptingar komu á síðasta kortérinu.

Fyrri hálfleikurinn var einstaklega dapur, jafnvel verri en frammistaða liðsins í síðasta leik gegn Manchester City. Poulsen sat mjög djúpt og verndaði vörnina á meðan Kuyt og Aurelio spiluðu meira eins og miðjumenn sitt hvorum megin við Lucas en vængmenn. Engu að síður, þrátt fyrir þennan fjölda manna á miðjunni – nánast algjör andstæða við uppstillinguna gegn City – gekk liðinu mjög illa að halda bolta innan liðsins.

Tyrkirnir komust yfir strax á 4. mínútu. Miðjumaðurinn Colman fékk að rölta upp að vítateig okkar manna óáreittur og skjóta að marki. Hann hitti boltann illa svo hann fór inn á miðjan teiginn og þar var framherjinn Gutierrez á undan Kyrgiakos og Reina að átta sig og beindi honum í mitt markið. 1-0 fyrir Tyrkina og okkar menn í verulegum vandræðum.

Það sem eftir lifði hálfleiks héldu Tyrkirnir boltanum og þrýstu allverulega á okkar menn. Ekki stóð steinn yfir steini en þrátt fyrir yfirburðina náðu Tyrkirnir ekki að skapa sér nægilega mörk færi og gátum við því verið fegin að staðan væri bara 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var miklu betri. Hodgson hafði greinilega barið smá kraft í menn í hálfleik því eftir hlé fóru okkar menn að loka betur á Tyrkina og pressa þá aðeins framar. Fyrir vikið gekk þeim verr að halda boltanum og okkar menn komust betur og betur inn í leikinn. Sóknarlega var þetta þó áfram vandræðalegt; Joe Cole, sem spilar í holunni og á að vera lykillinn að lokaðri vörn andstæðinganna datt í það að klappa boltanum allt of mikið í stað þess að láta hann fljóta hratt á milli manna. Það kom lítið út úr þessu og á tímabili virtist eins og Aurelio væri sá eini á miðjunni sem gæti haldið bolta og skilað honum á samherja.

Þetta skánaði þó þegar á leikinn leið og eftir um klukkutíma leik fékk David Ngog tvö dauðafæri. Hann var þá farinn að keyra auðveldlega framhjá þreyttum varnarmönnum Trabzonspor í rigningunni. Fyrst gaf Joe Cole fína fyrirgjöf frá hægri inná Ngog sem var óvaldaður á markteignum en tókst á einhvern óskiljanlegan hátt að skalla framhjá. Svo fékk hann boltann fyrir utan teig, lék á tvo menn og lagði boltann hárfínt framhjá markverðinum … en því miður hárfínt framhjá stönginni líka. Þetta sýndi þó svo ekki var um villst að okkar menn voru hægt og bítandi að taka öll völd í leiknum og þeir gengu á lagið.

Á 83. mínútu kom svo markið sem öllu máli skipti. Glen Johnson komst upp hægri kantinn og lék á bakvörð þeirra og inn á teiginn. Þar reyndi hann fyrirgjöf á nærstöngina þar sem Ngog var mættur í potið en **Giray**, varnarmaður Trabzonspor, slysaðist til að vera fyrri til og lagði boltann inn í eigið mark. Staðan 1-1 og Liverpool meira og minna öruggt áfram. **Dirk Kuyt** tryggði okkur svo sigur í leiknum og einvíginu með því að skora úr frákasti í teignum eftir að markvörður þeirra varði vel gott skot frá Dani Pacheco. Lokatölur því 2-1.

**MAÐUR LEIKSINS:** Liðið var slakt í fyrri hálfleik. Mjög slakt. Hvort það voru eftirköst leiksins á mánudag eða eitthvað annað skal ósagt látið en það var jákvætt að sjá menn rífa sig upp og koma til baka í seinni hálfleik. Við enduðum leikinn með mjög góða vallarstöðu og yfirburði á flestum stöðum sem gefur góð fyrirheit fyrir leikinn gegn West Brom á sunnudag.

Hins vegar er erfitt að velja einhvern einn úr sem mann leiksins. Ngog ógnaði mest okkar manna en átti að gera betur og skora a.m.k. eitt mark. Aurelio spilaði ágætlega og fór að mínu mati of snemma út af (kannski var Hodgson að vernda hann fyrir meiðslum) á meðan Carra og Kyrgiakos voru fínir í vörninni. Sama mætti segja um Kelly og Reina. Ég ætla hins vegar að velja **Glen Johnson** mann leiksins – hann átti upphlaupið sem breytti einvíginu og tryggði okkur áfram í Evrópudeildina.

Vonum að liðið leiki aðeins betur þar heldur en í þessu einvígi.

25 Comments

  1. Arfaslakur leikur hjá okkur í kvöld og vonandi er þetta ekki eitthvað sem koma skal í vetur.
    Það lifnaði vel í leiknum þegar Pacheco kom inná og ég vona að strákurinn fái fullt af tækifærum núna enda er hann stútfullur af hæfileikum sem verður að gæta vel að og láta hann spila.
    Þessi miðju með Poulsen og Lucas er ekki að gera sig frekar en Lucas og Masch.

  2. Sælir félagar

    Ásættanleg niðurstaða en ekki góður leikur. Þegar Pakkmann og Babel (7mín) komu inná gjörbreyttist þetta. Johnson gerði lítið í þessum leik nema búatil þetta sjálfsmark sem þó skipti gífurlegu máli. Kátur og Kól voru arfaslakir en Vörnin hélt þó að mestu.

    Ég las í einhverju kommenti að N’gog gæti ekki tekið fánastöng á. Það er líklega rétt en hitt er verra hvað hann er lélegur að spila samhera sína upp. Hann á því miður langt í land með að verða klassaframherji og sem bakkupp fyrir Torres líst mér betur á Babel. Hann getur þó spilað ef sá gállinn er á honum. Samanber sendinguna á Pakkmann sem bjó seinna markið til hjá Káti kallinum.

    En sem sagt var niðurstaðan var góð í mjög slökum leik á efiðum velli og það er fínt. Þá fær RH fleiri leiki til að spila varaliðsmennina inn í aðalliðið sem er fínt.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Sælir

    Þessi leikur var einn sá slakasti sem ég hef séð, veit ekki hvort Roy hafi sagt við strákana fyrir leik að spila bara á 60% getu því við eigum W.B.A í næsta leik? :/
    Eini svona “jákvæði” punkturinn í þessum leik var Pacheco sem kom of seint inná(hefði viljað hafa hann frá byrjun í stað Ngog-s, þó Ngog sé búinn að vera ágætur.

    Babel kom líka sprækur inná og átti þátt stóran ef ekki allan þátt í seinna markinu…
    Finnst svo Joe Cole ekki vera í neinu leikformi, Kuyt virkar sjúklega þreyttur eftir HM.

    Sigur er sigur…

    YNWA!

  4. Þetta var nú freeekar slappt! En hafðist þó að lokum sem betur fer..
    Verð nú samt að vera ósammála með mann leiksins, fannst Johnson bara frekar slakur(fyrir utan hlaupið þegar við skoruðum auðvitað) og sama með Kelly mér fannst hann bara engan veginn góður. Það var alltof oft sem við náðum ekki að halda boltanum, rétt eins og í ManCity leiknum.
    Maður leiksins að mínu mati Dani Pacheco, og djöfull verður spennandi að fylgjast með honum! En þar sem hann var svona stutt inná ætla ég að gefa King Carra heiðurinn á manni leiksins.

    YNWA

  5. Ég verð að játa þó skammarlegt sé að mér er eiginlega bara alveg sama um þessa viðureign, hefði allavega ekki grátið það ef okkar menn hefðu dottið út í kvöld. En að sama skapi er ég ánægður með að við erum komnir áfram, svona er maður nú ruglaður 🙂

  6. sammála hafliði ! ég vil sjá pacheco, babel, ngog, kelly byrja alla leikina í þessari keppni sama hversu langt við förum.. held að deildin og F.A se í meiri forgangi. þannig að það væri bara fínt að gefa þeim spilatíma til að fá reynslu, leikform og til að halda þeim ánægðum.. gæti reyndar trúað að babel gæti unnið ser sæti oftar í aðalliðinu/byrjunarliðinu á þessari leiktíð.

  7. Vissulega var þetta slappt en þetta var nákvæmlega það sem ég var búinn að búa mig undir.
    Bjuggust menn virkilega við að liðið myndi spila glimrandi sóknarbolta og klára leikinn 0-3 strax í fyrri hálfleik??

    Það var ekki hægt að óska sér verri byrjun á leiknum þar sem Tyrkirnir fengu blóðbragðið strax á fyrstu mínútunum. Það gerði það að verkum að þeir fengu sjálfstraustið strax og stemmningin á vellinum varð erfið. Ég kýs að líta á jákvæðu hlutina í þessum leik. Sigur á erfiðum útivelli, sigur sem gefur liðinu sjálfstraust og fyrsti sigur tímabilsins kominn í höfn, varamennirnir komu sterkir inn og höfðu áhrif á leikinn og Kuyt búinn að lýsa því yfir að hann verði áfram.

    Nú er bara að horfa fram á veginn, staðreynd að liðið er komið áfram með tilheyrandi leikjaálagi. Það verður verðugt verkefni fyrir Hodgson að takast á við það. Vonandi fögnum við því að hafa farið áfram næsta vor þegar við fáum alvöru Evrópukvöld á Anfield.

    Næst er að WBA og vonandi að liðið mæti með aukið sjálfstraust í þann leik…….

  8. Mer finnst menn gleyma adal atridunum i commentum sinum, en tad er:

    1) Liverpool var ad leggja i erfidan utileik gegn erfidu Tyrknesku lidi med varalidi!

    2) Lidid spiladi kannski ekki ykja vel en unnu leikinn sem gerdist ekki undir stjorn Rafa jafnvel tegar vel var spilad.

    Eg bara brosi og get ekkert annad tessa stundina enda glæsilegt ad geta skilid eftir mattarstolpa lidsins heima tarf sem teir horfdu a leikinn i HD gædum og skemmtu ser konunglega.

  9. eikifr : Ef Torres og Gerrard eru ekki í liðinu, er það þá kallað varalið? Finnst persónulega að liðið ætti að geta spilað almennilegan fótbolta þó það vanti 2 menn í það.

  10. Smá þráðrán hérna. Vantar XXL Liverpool treyju gefins ef einhver á, gamla þar að segja. Hægt að semja um eitthvað ef að vilji er. Ætlast eðlilega ekki til þess að menn gefi eftir nýja treyju haha. Er að fara að steggja félaga minn á laugardaginn og er hann United maður. ALLUR dagurinn mun fara í að láta hann elska Liverpool, syngja YNWA og svo meira skemmtilegt. Ef að einhver á þá má sá hinn sami senda mér mail á haukurlj@gmail.com

    Afsakið og endilega haldið umræðum áfram ! Góður sigur í kvöld 🙂

  11. Drési, það vantaður fleiri en Gerrard og Torres. Jova og Agger voru heima og svo var Skrtel á bekknum, en hann hefur byrjað hingað til.

  12. Fín úrslit og áfram í keppninni.

    Held að Roy hljóti að vera mjög glaður með niðurstöðuna á hunderfiðum velli með ómögulegri byrjun. Alveg ljóst að mínu mati að þessi keppni verður aftarlega á merinni í vetur og ég viðurkenni það að ég pirra mig á fjölda sunnudagsleikja af völdum hennar. En þarna fá menn mínútur af ágætum spiltíma og ég er viss um að ef við förum upp úr riðlinum fær keppnin aukið vægi.

    Sammála Kristjáni í öllum höfuðatriðum þessarar skýrslu og vali á manni leiksins, eina gleði fyrri hálfleiksins var rangstöðumarkið hans Johnson og hann var stöðugt að reyna.

    Og Pacheco er mikið efni sem á að fá fleiri mínútur, vona að RH velji það að hafa Gerrard og Lucas fyrir aftan hann á sunnudaginn gegn W.B.A. – aumingja Poulsen og Lucas lenda í sama sindrómi og Svikarinn og Lucas lentu í á síðasta tímabili. Fínir leikmenn en saman eru þeir of mikið varnarsinnaðir.

    Aftur, fín úrslit á hunderfiðum velli í miklu mótlæti.

  13. Er ég sá eini sem er hræddur við þessar hrókeringar Hodgson? Hann er búinn að stilla upp í þrjú leikkerfi að mér sýnist á tímabilinu. Er hann svona óviss um hvernig hann spilar? Gegn City, ég trúi ekki að það skapi svona gríðarlega mikil vandræði að Mascherano vanti. Allt annað kerfi í kvöld síðan.

    Þetta sýnir að okkur skortir tilfinnilega breidd. Á ekki að fá mann fyrir Aquilani? Er það kannski Pacheco? Kemur ekki annar miðjumaður fyrir Mascherano? Ef ekki er ég mjög svartsýnn svo ekki sé meira sagt.

    En, líklega er betra að fara inn í þetta tímabil með væntingarnar í lágmarki…

    Annars sá ég ekki leikinn en mér finnst sterkt hjá liðinu að vinna þetta 1-2.

    Maður leiksins hlýtur að vera Kuyt fyrir að segja strax eftir leik að hann sé ekki að fara neitt 🙂

  14. Þetta var góður sigur en afskaplega vondur fótboltaleikur.

    Vil ekki hugsa um að þessi spilamennska sé eitthvað sem menn ætla leggja fyrir sig í vetur. Lít því frekar á þetta sem einskonar “varaleik” sem ekki telst með í vetur og ætla því ekki að úthúða mönnum fyrir lélega frammistöðu þótt almennt væri tilefni til slíks eftir leik hjá liði af sama kaliberi og Liverpool.

    Jákvætt fannst mér annars vegar helst vera Pacecho, mikið afskaplega er gaman að horfa á drenginn spila fótbolta, hann er talsvert meira skapandi og líklegri til til árangurs en ansi margir af þeim sem teljast eiga okkar betri liðsmenn. Hann virðist höndla leikina vel og stendur af sér tæklingar og návígi. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að hann fari að fá fleiri tækifæri, annað hvort í holunni eða á miðri miðjunni. (leysti vinstri kannt ágætlega í dag).

    Eins fagna ég innkomu Babel í byrjun þessa tímabils, hann virðist miklu minna eigingjarn á boltanum, spilar meira og virkar á mann sem talsvert þroskaðri leikmaður. Líst vel á hann í byrjun þessa tímabils og vona að hann fái sömuleiðis fleiri tækifæri, gæti trúað að með tækifærum í liðinu gæti þetta orðið hans season sem allir hafa verið að bíða eftir.

  15. fínn sigur á erfiðum útivelli, við erfiðar aðstæður án helstu lykilmanna…. fyrri hálfleikur arfaslakur en þetta var undir control í seinni hálfleik og gott að ná að setja tvö mörk… manni sýnist Hodgson ætla að leggja álíka mikið upp úr þessari keppni og Carling Cup, svo sem ágætt þá er hægt að leyfa mönnum eins og Pacheco, Kelly, Babel, Wilson og Ngog spreyta sig

  16. Þetta var bara fínn leikur. Rólegir með neikvæðnina hérna (sumir). Það sem af er Hodgson er það bara þessi City leikur sem var glataður.

    Nú er bara að vinna WBA og fara svo þokkalegir í landsleikjahlé. Mikið eftir af tímabilinu og Liverpool mætir allavega á völlinn til að vinna með tilheyrandi baráttu, þannig var það nú ekki alltaf í fyrra.

  17. @Hjalti:
    Nei, eg ottast ekki hrokeringarnar hja RH. Eg myndi frekar ottast akkurat andstæduna. Sa thjalfari i dag sem notar bara eitt kerfi gegn ollum andstædingum er ekki ad gera rett. Madur hagar segli vindum en stundum klikkar thad eins og gegn City.

    1. Okkur vantar tilfinnanlega miðjumann sem stjórnar spili og leyfir öðrum leikmönnum að blómstra. Þarf ekki endilega að vera ógurlega skapandi, bara hafa góða sendingargetu og þokkalegt auga fyrir spili. Svei mér þá, ég held að það myndi meir að segja bæta leik liðsins ef Jan Mölby yrði látinn standa feitur og sæll á miðjupunktinum og dæla sendingum á menn.
    2. N’gog á sína spretti, pilturinn, ekki laust við það, en mikið voðalega er fyrsta tötsið hans alltaf klaufalegt.
    3. Ég er eiginlega ekkert spenntur lengur í upphafi leiks með Liverpool, þar sem maður býst einhvern ekkert frekar við neinu (ekki Roy að kenna, bara eðlileg sálfræðileg varnarviðbrögð eftir allt sem á undan er gengið). Enn sem komið er finnst mér það áhugaverð upplifun svona út af fyrir sig, en ég vona samt að Roy Rogers og kappar hans fari að vekja mann úr þessum doða.
  18. Þetta hófst og það er fyrir öllu. Þessi miðja á eftir að valda okkur vandræðum í vetur. Lítur út fyrir að við missum Masc og Aqualini af miðjunni. Við erum að tala um tvo menn metna samtals á rúml 40 milljónir punda. Hvað fengum við í staðinn, jú Peter fuck… Poulsen ! Pylsa Pulsa þetta er bara ekki maðurinn sem okkur vantar í þetta lið að mínu mati.

    Pacheco lítur fanta vel út og verður spennó að fylgjast með honum í vetur. Vona að RH verði nú svoldið opinn fyrir ungu strákunum en mér hefur það fundist vanta svoldið hjá liverpool.

  19. já og staðfest að Mascherano er að fara til Barcelona. Finnst það svoldið einkennilegt og sé hann ekki alveg virka í þessu annars frábæra og léttleikandi liði. Hefði haldið að hann færi til Inter. En hann á eftir að nýtast Barca vel í erfiðum leikjum í meistaradeildinni.

  20. Er ég sá eini sem er hræddur við þessar hrókeringar Hodgson? Hann er búinn að stilla upp í þrjú leikkerfi að mér sýnist á tímabilinu.

    Hodgson hafði nánast ekkert undirbúningstímabil með öllum HM leikmönnunum og það er því gefið að hann þurfi einhvern tíma að ákveða sig hvaða leikkerfi hentar þessum leikmönnum, sem hann er með. Hann getur ekki leyft sér að kaupa inn nýtt lið og þarf því að vinna með núverandi leikmönnum.

  21. Tek undir orð Einars. Lítill tími verið til að slípa liðið og svo er Masch búinn að vera duglegur að láta allt snúast í kringum sig.

    Við erum búnir með 6 leiki, 4 í UEFA og 2 í deild. Uefa hefur gengið nægilega vel til að komast áfram og er það gott mál. Leikurinn kláraðist í gær og Liverpool unnu sigur á erfiðum útivelli.
    Tyrkland eitt og sér virðist vera gryfja þegar kemur að knattspyrnu og mörg lið lenda í vandræðum þar þannig að það er enginn skömm að því að vinna 1-2 eftir að lenda undir snemma í leiknum.

    Ég held að Roy muni gera vel og skapa góða liðsheild að lokum og muni þetta því snúast um lið en ekki einn og einn mann og mér finnst það mikilvægt enda 11 menn inná vellinum og það á að nota þá og ekki bara Torres og Gerrard.

    Ég er bjartsýnn á framhaldið enda ekki þekktur fyrir neitt annað en að gefa frá mér jákvæða tóna.

Liðið gegn Trabzonspor

Mascherano til Barcelona (STAÐFEST!)