Liverpool 2 – Sunderland 2

Það dæmist á mig að skrifa skýrslu dagsins, ég viðurkenni alveg að ég á erfitt með það af pirringi og vona að allir hér taki viljann fyrir verkið.

Byrjum á liðinu:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Konchesky

Meireles – Poulsen – Gerrard – Cole
Kuyt
Torres

Bekkur: Jones, Kyrgiakos, Lucas, Ngog, Agger, Jovanovic, Maxi.

Ég allavega held að þetta hafi verið málið.

Byrjunin var fín, skoruðum ólöglegt mark eftir þrjár mínútur og skoruðum svo skrýtið mark á 5.mínútu. Sunderland fékk aukaspyrnu, varnarmaður spyrnti kyrrstæðum bolta til markmannsins sem greinilega átti að taka aukaspyrnu, sá bolti fór á Torres sem fór í átt að markinu sendi á Dirk Kuyt sem renndi honum í autt markið, 0-1 og akkúrat byrjunin sem þurfti.

Eftir 15 mínútur gerðist sama og gegn Northampton, liðið fjaraði út og Sunderland stjórnaði leiknum, á næstu 45 mínútum héldu þeir boltanum í drep, skoruðu tvö mörk, Darren Bent þau bæði, og komust í 1-2 auk þess sem sennilega átti að láta þá fá víti.

Eftir mistök Titus Bramble náði Torres boltanum, komst upp að endamörkum á rúmlega 60.mínútu, sendi fyrir á Steven Gerrard sem kláraði 2-2.

Þann hálftíma sem lifði gerðist ekkert markvert fyrr en á 6.mínútu uppbótartíma að Agger fékk sannkallað dauðafæri til að stela sigrinum en skallaði þá framhjá af markteig.

Endaði 2-2 í leik jafnra liða. Sanngjörn úrslit.

Ég ætla að byrja á að vorkenna Hodgson.

Lengst af í dag spilaði hann 4ra manna vörn með þrjá hafsenta og síðan 4ra manna miðju með enga kantmenn, og kantstriker tæknilausan sem linkup striker. Ójafnvægið í þessum leikmannahóp er svaðalegt, og auðvitað að stórum hluta til að kenna kaupum félagsins síðustu 5 – 7 ár.

En enn einn ganginn heillar hann mig ekki, Poulsen er ekki leikmaður í okkar klassa, hann skipti ekki öllum inná þrátt fyrir dapra frammistöðu og mér finnst hann engin svör taktískt hafa gegn liðum sem liggja til baka og sækja hratt.

Leikmennirnir virðast vera með lítil hjörtu, létu ekki góða byrjun vekja sig, heldur fjöruðu smám saman út. Baulið á Anfield heyrðist frá 15.mínútu og aldrei kom “You’ll never walk alone” frá fólkinu í lokin þannig að hljómaði vel.

Ég læt þetta duga í bili, er ógeðslega svekktur á framhaldi hörmungarinnar frá miðri viku, núna með A-liðið.

Dettur ekki í hug að velja mann leiksins og er farinn að kvíða þessum vetri svakalega! Næst er það Utrecht á fimmtudaginn í Hollandi.

Einn Liverpoolmaður allavega er glaður í dag, þrátt fyrir að hafa haldið með FH í toppbaráttunni í dag langar mig að óska Ólafi Kristjánssyni, eðalPúlara til hamingju með Íslandsmeistaratitil Blikanna í dag, hann er vel að þeim titli kominn.

84 Comments

  1. jesús minn. Alger tímasónun að horfa á þessa leiki með liðinu.

  2. Það verður að viðurkennast að undirritaður United maður er þokkalega sáttur við úrslit dagsins !
    Kveðja MW

  3. RH er bara sáttur á BBC : 1707: Liverpool boss Roy Hodgson on his side’s 2-2 draw with Sunderland:”There are no easy home wins in the Premier League, you have to fight for everything. The way we came back from 2-1 down was very commendable and towards the end of the game we were creating a lot of chances. We deserved our point.”

  4. versti maðurinn og upp úr.
    Kuyt, skelfilegur á allan hátt, hrikalegur í vörn, skelfilegur í sókn
    Johnson, var ekki að ráða við neitt í þessum leik. átti í brjáluðum vandræðum með svæðið sitt í fyrri hálfleik og bjó bara til klúður þegar hann hafði boltann.
    Ngog, með nákvæmlega sömu gen og Heskey og Carlton Cole, Regla nr. 1. ekki gefa í fæturnar á honum. koma skallabolta á hann og vona það besta.
    Mereiles. Hann þarf að fara standa upp og sýna að hann er landsliðsmaður Portúgala.
    Poulsen, bara ef hvorki Lucas né Poulsen væri í hópnum þá værum við hugsanlega að spila sóknarbolta alla daga.
    Konchesky, er hann í alvöru byrjunarmaður hjá Liverpool?
    Gerrard, sýndi áhuga og vilja en getan var ekki til staðar.
    Cole, lék ágætis gestahlutverk í þessum leik, en verður ekki tilnefndur til neinna verðlauna fyrir það.
    Torres, sinnti sinni aðstöðu ágætlega en hann þarf að skilja miðjumennina og miðjumennirnir þurfa að skilja hann.
    Carragher, hefur aldrei virkað með Skrtel, en það var samt einhver ákveðin skilningur í gangi í dag, utan við hið reglulega (sköllum hvorn annan) syndromið.
    Agger, hann er ekki bakvörður en hann var að skapa usla og það er meira en hinir leikmennirnir.
    Skrtl, hélt ég myndi aldrei nokkurn tíma segja þetta en hann var næstbesti maðurinn í dag. Hann þarf hinsvegar að íhuga þessa hreinsunarskalla úr teignum beint á mótherja. (svona svipað og Hyypia)
    Reina. Hvar værum við án hans????

    En Johnson og Kuyt þurfa að taka 2000 armbeygur á kjaft og Hodgson þarf að taka 5000 fyrir að leyfa þeim báðum að klára leikinn.

  5. Það sorglega er að við “töpuðum” gegn mjög lélegu liði í dag sem yfirspilaði okkur. Ef einhvern tímann var tækifæri til að koma til baka þá var það núna. Chelsea, Tottenham og Arsenal tapa. Eru Gerrard og félagar á hreinsikúr hjá Jónínu Ben? Hvar er öll helvítis orkan?

  6. En hvernig finnst Liverpool aðdáendum að vera lið sem samsvarar Sunderland, Newcastle, WBA, West Ham og Everton en samt með 9 háklassa landsliðsmenn í byrjunarliðinu?

  7. Lélegasta spilamennska hjá algjöru aðaliði Liverpool síðan ég veit ekki hvenær, Sunderland voru 71 prósent með boltan eftir einhverjar 30 mín og óheppnir að ná ekki sigri…
    Svo er hin hliðin sú að ætli Liverpool sé ekki bara í beinni keppni við Sunderland frekar en einhver top4 lið, eru allavega tveir leikmenn hjá þeim sem Liverpool vildi fá á sínum tíma en stórklúbburinn Sunderland fékk. Þeir Turner og Cattermole.

  8. Ef RH ætlar í alvöru að tala um að það séu ásættanleg úrslit að gera jafntefli á heimavelli gegn sunderland – þá erum við í meiri vanda en maður gerði sér grein fyrir. Ég er á því að ekki einu sinni Fulham ætti að vera ánægðir með stig gegn Sunderland á heimavelli. Þetta spakmæli hjá honum með að við höfum skapað nokkur færi í lokinn minnir mig á það sem RB sagði í fyrra, að við hefðum skapað nokkur “situation” í kringum vítateig andstæðinganna.

    Erfið byrjun á tímabilinu er lokið, við erum búnir að vera nokkuð heppnir með meiðsli – það eru engar helvítis afsakanir lengur. Þetta var Sunderland og við lágum í vörn …. á Anfield.

  9. Gleymdi næstum atvikinu þar sem RH var að reka einhverja leikmenn aftar á völlinn á 85. mín eða eitthvað, mikill metnaður í gangi eins og kemur vel fram í því sem hann segir eftir leik.

  10. Djöfull!!! WBA vann Arsenal! Þetta eru úrslit sem henta okkur illa 🙁

    Þessi staðreynd er sad but true!

  11. Skelfileg úrslit. Djöfull argaði ég á Johnson í uppbótatímanum þegar hann horfði á Kuyt óvaldaðan í teignum, en í stað þess að gefa, lét hann hirða boltann af sér.

    Ég hef hingað til ekki sagt styggðaryrði um RH, en þennan leik áttum við að vinna, þetta var engan vegin nógu gott. Það er að verða nokkuð augljóst að stjóranum er ekki að takast að mótivera liðið.

  12. Ég veit ekki með ykkur en ég fékk það á tilfinninguna í þessum leik að í upphafi og framan af hafi menn verið að fylgja skipulagi RH í spilamennsku, ansi mikið Fulham spil í gangi. Ekkert gekk eins og oft áður, í seinnipart seinnihálfleiks fór eitthvað smá líf að koma í hlutina og menn fóru að gera allt annað en þeir höfðu verið að gera fyrri hluta leiksins. Mig grunar ansi mikið að það hafi ekki verið skipanir frá RH sem breyttu spilamennskunni, frekar það að menn gáfust upp á því að reyna að berjast við það að spila fótbolta sem stjórinn skipulagði fyrir leikinn og fóru í staðinn að gera það sem þessir menn kunna allir, þ.e. að spila fótbolta og reyna skora mörk.

    Ég ætla ekki að kenna RH að fullu um þennan leik en það sem af er tímabili finnst mér eins og hann sé ekki að standa sig, Liverpool virðist aldrei vera með skipulag á leik sínum sem virkar og aldrei er verið að nýta sér veikleika í liðum andstæðingsins og herja á þá. Finnst eins og við séum að verjast og verjast og vona svo það besta. Klassísks Fulham spilamennska. Óþolandi að horfa á.

  13. Liverpoolleikmenn hljóta að fara að sjá að þeir verða að fara að spila FÓTBOLTA, enn og aftur eru sendingar ekki að gera sig, máttlitlar, ómarkvissar og tilviljunarkendur sóknaleikur, bara hnoð. Það verður bara eitthvað að gerast áður en allt fer til ands#”$$$#”. Að hugsa sér að Liverpoolliðið er að falla í meðamennskuna sem var áður eitt sterkasta lið heims. Leikmenn ættu að skammast sín fyrir áhugaleysi og geldann fótbolta. Snökt snökt snökt.

  14. Það er svo sorglegt að sjá Hodgson og Sammy Lee þarna á bekknum en Dalglish einhversstaðar í VIP stúkunni valdalausan að ég græt rauðu.

  15. Djöfull er ég fegin að ég eyddi mínum tíma í að taka til í íbúðinni, ryksuga og þurka af og skúra og vaska upp. ALLT þetta hefur örugglega verið töluvert skemmtilegra en að horfa á þennan leik!

  16. Maður er gjörsamlega löngu hættur að skilja þetta ástand á Anfield, mér finnst eins og margir leikmenn í liðinu séu nákvæmlega sama hvar liðið er á töflunni, lýti á þetta sem vinnu og bíði eftir launatékkanum…

    Að láta lið eins og Sunderland vera betra liðið á vellinum á Anfield í 65-70 mínútur er mér óskiljanlegt, það fór loksins eitthvað að gerast þegar hinn mjög svo slaki Poulsen var tekinn út fyrir N,Gog, liðið fattaði í kjölfarið að það væri að tapa leiknum og byrjaði að spila smá fótbolta.

    flestir leikmenn liðsins mjög slakir í dag og auðvelt að nefna menn eins og Kuyt, Johnson og Konchesky einnig fannst mér svo ekki koma mikið útúr Meireles í dag og auðvitað Poulsen alls ekki að gera það og veldi ég Lucas fram fyrir hann alla daga og þó hann væri sjálfur að glíma við niðurgang á leikdegi þá væri hann alltaf skárri kostur.

    Mér er það líka óskiljanlgt hvers vegna í fjandanum Hodgson spilar ekki 2 framherjum í upphafi leiks eins og þessum í dag, maðurinn verður að fatta það að þú skorar ekki mörk ef þú sækir ekki..

    Er einhver lausn til? ég veit það ekki en varla á Hodgson marga sénsa eftir í starfi ef hlutirnir fara ekki að lagast og það helst í gær. Það má enn ráða Dalglish vil bara benda á það…

    Svo er mikill munur að tapa leik ef liðið á helling af góðum færum og yfirspilar andstæðinginn með tilheyrandi stangar og sláarskotum, það getur maður kannski sætt sig við en þessir leikir í vetur bera ekki vott af neinu slíku heldur er liðið ALLTAF slakari andstæðingurinn stóran part leikjanna og sýnir lítinn sem engan áhuga á að vilja ná í 3 stig.

    Hodgson þarf að fara að átta sig á því að hann er ekki að stýra Fulham lengur heldur stórliði Liverpool og það er ekki nóg að koma í viðtal eins og eftir leik í dag og segja að þeir hafi átt skilið stig, hefði verið gáfulegra að koma fram og segja að hans menn hafi verið arfaslakir í dag og í raun heppnir að fá þó stig í leiknum sérstaklega ef við sjáum fyrstu 65 mín allaveganna…

  17. Már Gunnars, fótbolti er ekkert gífurlega flókið sport en Liverpool er hinsvegar mjög einfalt sport.
    Þar spila ekki kantmenn svo það þarf ekki að leggja áherslu á bakvarðarstöðu hjá mótherjunum. Það eina sem þarf að athuga ef maður er að spila á móti Liverpool er að þétta fyrir framan teiginn, því þar eru einu mennirnir sem geta eitthvað og eru í sinni eigin stöðu. Hinsvegar erum við með ákaflega slaka bakverði þannig að það eina sem þarf að gera sóknarlega á móti Liverpool er að koma boltanum upp kantana, ná fyrirsendingunni og setja 1-3 mörk þannig.
    Svoleiðis hefur það verið rúmlega 5 ár.
    Hinsvegar ef við fáum aukaspyrnur, víti, stungusendingu frá Pepe Reina eða Carragher þá grísumst við til að skora eitt og eitt. Líkt og gerðist i 10 síðustu leikjunum þegar við lentum í 2. sæti undir stjórn Benitez. En ef það er það eina sem við ætlum að stóla á þá erum við bara miðlungs lið og eigum ekkert betra skilið en þessi úrslit.

  18. Með boltann 40% á móti Sunderland. RH hefur tekist hið ómögulega. Anfield er orðið joke. Hvenær ætla menn að sjá það að Gerrard fer ekki vel að stjórna spili? Er ekki líka augljóst að Carra þarf að fara á bekkinn? Skipulagið á liðinu er hræðilegt, miðjan er hauslaus.

    Því fyrr sem RH fer því betra, leikmenn hafa ekki einu sinni trú á honum.

  19. Ofan allt saman. Þá fer þetta comment (nr 3) hans RH alveg verulega í pirrurnar á mér. Hvað er maðurinn að segja. Það þarf einhvern manager sem byggjir menn upp og lætur men nlíða eins og þeir séu meistarar. Ef mönnum líður ekki þannig þá eiga þér ekki eftir að sýna getu á því leveli. Ég er ekki að segja að við eigum að vera meistarar. RH er bara að brjóta menn hægt niður á kerfisbundinn hátt.

    Það styttist alveg verulega í það að RH sé búinn að missa allt mitt traust… ég sé bara ekkert gott við það sem hann er að gera því miður….

  20. Hodgson er held ég lélegasti knattspyrbustjóri sem hefur verið hjá Liverpool ! ég held að mer væri sama ef hann fengi ekki meiri séns og ég yrði glaður ef Daglish tæki við ! væri líka til í að fá Benitez aftur frekar en að vera með Roy áfram

  21. Sá seinni hálfleik… þvílík hörmung. “Hollingin” á liðinu er ömurleg. Það er eins og vanti allt skipulag.. og það sem meira er.. liðsandinn er steindauður í þessu liði. Það er langur vetur framundan. Roy .. er ekki að heilla mig. Hann á skelfilega langt í land að berja þetta lið saman. Sennilegast er allt of mikið af meðal jónum í þessu liði til að þetta geti gengið upp. Hvar væri Liverpool ef enginn væri Gerrard og Torres! Óhugnanleg tilhugsun.

    YNWA

  22. Góðan daginn!

    Sex leikir, sex stig. Sunderland átti skilið að vinna þennan leik á Anfield í dag ef miðað er við frammistöðu liðsins í heild sinni. Það var ekki fyrr en eftir 60.mínútur sem að við hættum með varnarsinnað skipulag og Poulsen fór út fyrir Ngog að eitthvað líf fór að glæðast í sóknarleik liðsins. Við skulum ekki gleyma því að við stilltum líka upp mjög varnarsinnuðu liði á WBA af öllum liðum og vorum lúsheppnir að taka 3 stig þar! Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna var ekki lagt í þennan leik með virkilega sóknarsinnað lið þar sem lagt hafði verið upp með að valta yfir Sunderland. Ég ætla að gefa þessu ca. fjóra leiki til viðbótar og ef að ástandið hefur ekki batnað að þeim liðnum þá mun ég hætta að horfa á leiki með Liverpool.

  23. Sá ekki leikinn sem betur fer, en það er orðið alveg deginum ljósara að RH er ekki maður til að gera neitt gott hjá Liverpool.

    Er alvarlega að hugsa um að taka mér frí frá Liverpool, það er bara
    mannskemmandi að taka þetta helvíti svona inná sig, hvað þá að bjóða konu og börnum uppá skapið og geðsveiflurnar sem fylgja þessum endalausu leiðindum.

  24. Ég er kominn með virkilega vonda tilfinningu fyrir þessu. Ég er í alvöru farinn að halda að við endum fyrir neðan miðja deild. Svo verður maður bara hræddur eftir að heyra þessi viðtöl við Hodgson eftir leiki. Maðurinn er einfaldlega kexruglaður. Útlitið er virkilega dökt í augnablikinu. Roy Hodgson ræður ekkert við þetta verkefni. Það er bara staðreynd.

  25. RH eyddi mestum tíma sínum í viðtalinu eftir leikinn í að segja að markið sem Torres skoraði rangstæður hafi verið löglegt og að vítið sem uppáhaldið hans hann Paulsen fékk á sig hafi ekki verið víti. Það sáu allir á Anfield í dag að hann hafði rangt fyrir sér í báðum tilfellonum svo að ég spyr mig hvort að hann sé ekki bara farinn á taugum og hafi hann verið starfinu vaxin í upphafi þá sé hann það ekki lengur,þó ekki væri bara fyrir það að þetta er versta byrjun hjá Liverpool í meira en hálfa öld. Ég er hræddur um að það verði erfitt að stoppa snjóboltann sem er byrjaður að rúlla niður hlíðina úr þessu og spurningin er hvernig okkar bestu leikmenn bregðast við því að vera að berjast í neðri hluta deildarinnar.

  26. sá ekki leikin í dag. ég var farin missa áhugan að horfa á liverpool í fyrra, ákvað að gefa nokkrum leikjum séns núna í byrjun en ég hef ekki verið hrifin af Liverpool hingað til. Og hef ákveðið að segja upp stöð 2 sport rásunum og sleppa þessu allveg í vetur. Ef tímabilið í fyrra var slæmt hvað er þá þetta tímabil? ekki fara væla að ég sé ekki harður stuðningsmaður en langar ykkur virkilega að kvelja ykkur helgi eftir helgi og vona að nú sé komið að umsnúningnum.

    Getur einhver sagt mér hvað það er orðið langt síðan liðið spilaði með snert af leikgleði?

  27. Gef þessu max 4-5 leiki til viðbótar, ef að RH heldur áfram að tala um að jafntefli eins og það séu góð á úrslit (á Anfield!) eitthvað áfram þá er þetta season búið hvað mig varðar. Af hverju í ósköpunum finnur hann sig svona knúinn til að halda áfram að spila svona varfærinn Fulham bolta áfram??? Það er ekki stillt upp í alvöru liðsuppstillingu fyrr en við erum komin undir 1-2 og þá á að fara að sækja??

    Ég hef engan áhuga á að horfa á Liverpool spila ef dagsskipanin á að vera að verjast (jafnvel á móti Sunderland á Anfield). Frekar tek ég mér bara frí frá enska boltanum og bíð eftir eigendaskiptum (já og stjóraskiptum)

  28. “Mjök er tregt um tungu at hræra og þungt vægi ljóðpundara” kvað Egill í Sonatorreki forðum.

    Það kemur betur og betur í ljós af hverju knattspyrnustjórar um gervalla Úrvalsdeildina fá standpínu við að hugsa um Hodgson. Af hverju að aðrir stjórar vilja endilega stinga út úr einu rauðvínsglasi eða svo með þessum knattspyrnustjóra Liverpool. Það er nú aldeilis munur að vera laus við hrokagikkinn frá Andalúsíu sem var ekkert nema ókurteisin og dónaskapurinn í garð ensku kollegana.

    Hodgson er að mínu mati álíka góður knattspyrnustjóri Liverpool og Davíð Oddsson var góður Seðlabankastjóri. Ég meina að Doddson hefði getað rekið kaffisjóð Sjálfstæðisflokksins ágætlega en Seðlabankann? Kommon!!

    Hodgson hefur nákvæmlega ekkert það fram að færa sem Liverpool þarf. Hann er fær um að stýra lélegum liðum til að ná miðlungsárangri en að fá öðrum eins minnipokamanni sjálft Liverpool stórveldið er svipað vonlaustt og að fá kellinguna hans Machareno til að stýra upplestri á sonnettum eftir Shakespeare á ljóðakvöldi ógiftra enskukennara í Northampton.

  29. Ég sá amk 10 Fulham leiki á sl. tímabili og dáðist að mörgu leyti af leikskipulagi liðsins. T.d. fannst mér Roy Hodgson vinna taktískan sigur á Liverpool þegar hann lagði okkur 3-1 á Craven cottage í fyrra. Og ég hefði virkilega trú á að RH væri rétti maðurinn til að koma okkur á kjöl í þessum sérlega erfiðu aðstæðum.

    Maður gerir sér grein fyrir að hann er að taka við ansi ónýtu liði, en það afsakar ekki frammistöðuna hingað til. Allir leikirnir til þessa hafa byrjað illa, hver og einn einasti fyrrihálfleikur verið ömurlegur. Hann spilar sömu taktíkt og Benitez spilaði, sem hin liðin voru farin að læra á og lesa eins og opna bók. Hann virðist hræddur við breytingar og tekur engar áhættur, og spilar afar varnarsinnað gegn Sunderland og WBA á heimavelli á meðan hann stillir upp sóknarsinnuðu liði á City of Manchester stadium.

    Ég vissi vel að RH væri kraftaverkamaður þó honum hafi víða tekist að breyta vatni í vín, en þegar komið er á Anfield eru kröfurnar einfaldlega miklar. Í dag fannst mér virkilega kominn tími til að sjá að eitthvað gæti mögulega verið á réttri leið. Byrjunin var erfið og maður sýndi þolinmæði, auk þess eru leikir gegn Steve Bruce aldrei auðveldir, og maðurinn er mikill sérfræðingur í að ná jafnteflum á Anfield, en það afsakar ekkert. Liðið þarfnaðist sigursins sárlega, við höfðum alla leikmenn heila og lékum fyrir fullu húsi á Anfield. Og það sem verra var að við vorum síst betri aðilinn og jafntefli gátu talist sanngjörn úrslit. Útlitið er svart.

  30. Biggi er með góða greiningu á þessu.

    Hodgson vill greinilega að liðið spili meira direct fótbolta en leikmennirnir eru vanir. Hann hefur ekki leikmenn í það en hann hefur hins vegar leikmenn í að spila passing-game en það mega þeir ekki. Á 60. mínútu, þegar N’Gog kom inn á er eins og menn hafi tekið til sinna ráða, hætt þessum dúndrum upp á vonlítinn Torres og reynt að koma ágætlega spilandi leikmönnum eins og Gerrard, Torres, Cole og Meireles inn í leikinn. Þessir menn eiga fyrst og fremst að fá boltann í fætur (Torres má fá hann í gegn) og gera síðan sínar krúsidúllur þar, spila stutt með fáum snertingum með góðri hreyfingu fyrir framan teig andstæðinganna – og í gegnum vörnina. Allir þessir leikmenn eru færir um spil af þessu tagi.

    Þegar Reina er farinn að kixa og eiga í vandræðum með boltann í fótunum á sér þá sér hver maður að æfingarnaplanið er ekki að fúnkera. Sendingar milli manna voru mestan part leiksins afar slakar, 10 metra sendingar undir engri pressu rötuðu ekki rétta leið.

    Hodgson ræður alls ekki við þetta verkefni, hann er ekki með réttar hugmyndir fyrir þann hóp sem hann er með í höndunum og hann verður að leyfa leikmönnum að njóta sín á eigin forsendum. Cole, Meireles og Torres sáust ekki fyrr en eftir 60 mínútur. Þetta var eflaust ein versta frammistaða sem ég hef séð mjöööög lengi hjá liðinu og það var heppið að tapa ekki. Ef Hodgson og þjálfarateymið hans rífur ekki upp um sig brækurnar þá verður þetta mest underachieving lið sem sögur hafa farið af í ensku deildinni.

    Sigur í deildinni er ekki einu sinni við sjóndeildarhringinn, ætli þetta endi ekki með 31 árs bið eins og við KR-ingar erum vanir. Liðið er í frjálsu falli og það er bara tímaspursmál hvenær leikmenn eins og Reina, Torres og Gerrard fá nóg og biðja um sölu.

  31. Kennedy, no 18 þetta er einmitt sem ég er að segja geldur bolti og grísaspilamennska og það þarf að lag straxxxxxx. Koma svo uppúr meðalmennskunni LIVERPOOL, held sveimér þá að R H sé eitthvað nerfus við þennan Klubb og suma leikmenn.

  32. Molar úr Biskupstungum…

    • Ég veit ekki hvort maður á að eyða púðri í Poulsen. Þeir sem hafa hatast hvað mest út í Lucas, mega gjarna gefa mér góð ráð. Ég á bara ekki orð.

    • Maggi hittir totally naglann á höfuðið þegar hann talar um ójafnvægið í liðinu. Það er alveg ofboðslegt. Sérstaklega er tengingin milli miðju og sóknar döpur. Svakalega döpur.

    • Skrölti var nú bara nokkuð góður í dag. Það veit vonandi á gott.

    • Gerrard er að spila alltof djúpt. Hence þetta slit milli miðju og sóknar.

    • Mikið hrikalega er D. Bent góður.

    • Það væri hægt að kaupa ca. 500 ærgildi fyrir vikulaunin hans Joe Cole. 500!!!!!! Hafiði pælt því????

    • 442 með NGog við hliðina á Torres er kerfið sem á að nota.

    • Var ég búinn að nefna Poulsen?

    YNWA

  33. Hann spilar sömu taktíkt og Benitez spilaði,

    Nei, þetta er fjarri lagi. Það er mikill munur á taktík þessara stjóra. Hodgson spilar aftarlega og pressar ekki. Hann gefur andstæðingum pláss á kantinu og lokar miðjunni. Lið Benitez pressa um allan völl og gefa andstæðingum ekki pláss eða tíma.

    Það fáránlega er að í dag voru Sunderland hvað eftir annað að sundurspila miðjuna hjá Liverpool.

    En ég ítreka að það er afskaplega fátt líkt með taktík Hodgson og Benitez.

  34. RH þarf að átta sig á því að hanner ekki að þjálfa fulham ennþá ef hann breytir því ekki vil ég reka hann og fá martin o’neill!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  35. Góðir punktar þarna frá Sigurjóni.

    Spurning hvort að Skrtel þurfi ekki bara alltaf að fara að spila með rautt ennisband?

  36. Mér fallast bara hendur og maður veit eiginlega ekki hvað maður á að segja eftir svona leik. Maður fer að sakna Souness tímabilsins með þessu áframhaldi !!! Maður er búinn að eyða núna meira en ári í að segja að þetta hljóti bara að fara að smella og menn að taka sig á. Stemmingin á Anfield segir allt sem segja þarf ! Ekki einu sinni tekið undir þegar YNWA er kyrjað ! Ég ætla að fara í pásu. Eina góða við að vera púllari þessa dagana er þessi frábæra síða hérna sem menn geta blastað reiði sinni út !! takk fyrir mig ! Og já ég var búinn að plana ferð á Anfield eftir áramót, er hættur við það !!!

  37. Ekki verður auðveldara að selja liðið þegar svona gengur, verðmætið á klúbbnum hlýtur að vera í frjálsu falli. Hvað þýðir það? Endar þetta með því að verðmæti klúbbsins stendur ekki undir kröfum?
    Mér lýst ekkert á blikuna, Leeds poppar upp í hugann.

    Að drullast ekki til að vera búnir að ganga frá eigandamálum fyrir löngu síðan getur reynst afar dýrkeypt.

    • Ég ætla að byrja á að vorkenna Hodgson

    Já já.. why the fucking fuck ætlarðu að vorkenna Hodgson ?? Eða er ég að misskilja þessa setningu eithvað ?? ( sem er ekki útilokað)

    Nú hljóta allir að vera dansandi ánægðir yfir því að við rákum Rafa, og réðum mann sem var rekinn frá Blackburn á sínum tíma !!!! Þið kanski fyrirgefið mér að ég skuli ekki hafa efnt til skrúðgöngu í tilefni af því að hann var ráðinn !!!

    Ég stend með mínum stjóra, og mínu liði… en ég játa það bara alveg, að hann var aldrei minn fyrsti kostur í þessa stjóra stöðu, og ég held einfaldlega að hann hafi ekki það sem til þarf, til að rífa okkur uppúr þessari lægð….Því miður.

    Ég er sjóðandi band-brjálaður hérna, og engann veginn sáttur við gengið, og spilamennskuna. Þessir leikmenn verða líka að axla sína ábyrgð í þessu máli, en andskotinn hafi það, stjórinn á að berja stemmninguna í hausinn á þeim, með góðu eða illu, eða losa sig við þá ella….

    Ég skil engan veginn þessi kaup á Paulsen, og stjórinn skal standa við þessa ráðningu, og sýna mér að hann sé hverrar krónu virði… !!!
    Helvítis fokkíng fokk bara…
    Jæja.. ég er farinn út að fá mér bjór eða eitthvað… Babú er víst í bænum, og það er eins gott að hann hafi góðan brandara uppí erminni, klárann þegar ég hitti hann!!!!

    Insjallah… Carl Berg

  38. hann var líka rekinn frá sameinuðu furstadæmunum og Fc Köben. En það er nokkuð ljóst að mórallinn er ekki nógu góður hjá Liverpool, slæm byrjun á tímabilinu tekur á og sjálfstraustið minnkar, það virkar eins og vítamínsprauta fyrir andstæðingana því þeir vilja ráðast á Liverpool á meðan þeir eru að ströggla. Þannig verður þetta nokkurskonar vítahringur og ljóst er að RH á heljarinnar verkefni fyrir höndum og lykilatriði er að Gerrard og Torres taki sig á og dragi vagninn í gang. Hvort RH sé rétti maðurinn í starfið verður bara að koma í ljós en það er of lítið búið af tímabilinu svo hægt sé að dæma hann strax, þó svo að auðvitað byrjar hann illa.

  39. Hættum að ergja okkur á þessu. Í fyrra vorum við með meðalgott lið og skriðum í 7. sæti en í vetur hafa menn tekið stefnuna neðar. Það versta er að maður getur ekki hætt að ergja sig á leikmönnum sem þannig út á velli að það er eins og einhver hafi sagt þeim að jólasveinninn sé ekki til!

  40. Annars legg ég til að Steve Bruce verði gerður að mörgæsafangara á suður-skautinu. Djöfull fer sá maður í taugarnar á mér.

  41. Jæja, nú er ég hársbreidd frá því að segja upp Stöð 2 Sport 2 og fá mér Stöð 2 Sport í staðinn.

    Þar get ég a.m.k horft á hitt uppáhaldsliðið mitt spila fótbolta og gera það vel (Barcelona).

    Svo get ég líka horft á meistaradeildina, en það er keppni sem við erum ekkert að fara að taka þátt í á næstunni, því miður.

    • Þar get ég a.m.k horft á hitt uppáhaldsliðið mitt spila fótbolta og gera það vel (Barcelona).

    Svo get ég líka horft á meistaradeildina, en það er keppni sem við erum ekkert að fara að taka þátt í á næstunni, því miður.

    Við ?? við hverjir ?? varstu ekki að enda við að segja að þitt uppáhaldslið sé Barcelona ?? Og eru þeir ekki i þessari deild sem þú ert að tala um ?

    Hvað kemur þetta Liverpool við ?

    piff.. Uppáhaldslið, Barcelona…smarselóna…

    its LIVERPOOL !!!!!

  42. Málið er að ÖLL lið á Englandi, jafnvel í heiminum vita það núna að Liverpool brotnar alltaf undan pressuni. Það veit að það getur unnið. Þurfum að snúa þessi dæmi við og taka einn leik og rústa honum, hvenær veit ég hreinlega ekki en þegar sá dagur kemur upp að ég sé fyrisögnina 7-Heaven for Liverpool, Torres 3, Gerrard 3 og Kuyt 1, þá ætla ég að fagna sérlega vel.

    Ekkert um þennan leik að segja nema, fuck it. Vissi að þetta tímabil yrði martröð fyrirfram. Er ekkert hissa.

    Afhverju að hætta nota manninn sem hefur sýnt lang mestu framfarinar? Já ég er að tala um Lucas. Tel hann vera mikilvægari en meira en hálft liðið í augnablikinu.

  43. Svo er BaconPulsan alveg kominn á síðasta dropan, það er alveg ljóst.

  44. Sleppti mínum fyrsta LFC leik frá því Tottanham – LFC í byrjun tímabils í fyrra, sé ekki eftir því miðað við úrslit og lestur kommenta hérna. Viðurkenni það að ég hafði ekki neina trú á RH þegar hann var ráðinn, vonaði að hann myndi afsanna álit mitt á sér. Hann hefur því miður sannfært mig frekar um það að það voru stór mistök að ráða mann sem hefur aldrei spilað annað en defensive kick and run bolta. Maðurinn hefði líklegast verið frábær þjálfari um 1985.

    Vona að ég sjái King Kenny koma inn fljótlega.

  45. 51 svo samála maðurinn er goðsöng auk þess að hafa gert liverpool að englandsmeisturum og ég held bara að leikmennirnir myndu elska að spila fyrir hann

  46. Jæja enn ein skelfileg frammistaðan og enn ein vonbrigðin á þessu tímabili.
    Hvað kom fyrir liðið eiginlega ?
    Liðið er ömurlegt sóknarlega og ömurlegt varnarlega og ekkert skánar það eftir því sem við spilum fleiri leiki.
    Sundarland yfirspiluðu Liverpool á Anfield í dag og það er skammarlegt og óásættanlegt.
    Sunderland voru óheppnir að vinna ekki þennan leik þar sem að Liverpool gátu ekki skít í dag.
    Núna vil ég sjá nýtt leikkerfi og það verða notaðr 2 sóknarmenn og Cole þar fyrir aftan með Meirales og Gerrard á miðjunni.
    Djöfull er ég að verða reiður og pirraður á þessu öllu saman, það er hreinlega verið að drepa í manni áhugann á því að setjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á fótboltaleik.

    Liðið skánaði í dag þegar að N’Gog kom inná völlinn því þá fór loks að koma einhver ógn þarna frammi og Torres var ekki lengur einn á þeirra vallarhelming.
    Ég vil svo sjá Carragher á bekknum í næsta leik enda er vörnin orðinn svo hriplek að það er skelfilegt og hreinlega pínlegt að sjá sóknarmenn annara liða fara svona létt með vörnina okkar.
    Það mæta öll lið á Anfield með 2 sóknarmenn og spila til þess að sækja 3 stig á okkar heimavelli enda óttast lið ekkert að mæta þangað en þá komum við alltaf með einn sóknarmann.

  47. Allir sofnaðir? Það kemur vetur á eftir þessum vetri. En það sagði ég líka árið 1990.

  48. Shit.

    Fórnaði leiknum til að styðja FH-ingana mína í Laugardalnum í dag. Þeir gerðu mig stoltan en það var ekki nóg og ég óska Blikum til hamingju með titilinn í ár. Skemmtilegasta lið deildarinnar og þeir áttu þetta skilið. Þótt við FH-ingar séum ekki vanir öðru en Íslandsmeistaratitlinum (5 á síðustu 7 tímabilum) getum við unað sáttir við bikarmeistaratignina og annað sætið í deildinni með jafn mörg stig og sigurliðið.

    Henti mér svo heim í kjölfarið og horfði á ófarir Liverpool í óbeinni. Þaðan beint í matarboð og komst ekki í tölvu fyrr en fyrst núna. Ég spáði 1-1 jafntefli í upphitun minni í gær og hafði nokkurn veginn rétt fyrir mér. Þetta var svipaður leikur og gegn W.B.A. heima fyrir nokkrum vikum, það er að gestirnir voru meira með boltann og við hefðum hæglega getað tapað þessum leik. Við gátum unnið W.B.A. þrátt fyrir að leika illa því þeir eru ekki með Darren Bent innan sinna raða. Hann er hjá Sunderland og því vorum við heppnir að mínu mati að sleppa með eitthvað úr þessum leik.

    Veit ekki hvað ég get sagt meira að svo stöddu. Við höfum séð að Hodgson á erfitt með að venjast því að stýra stórliði í haust en ég átti ekki von á enn einu taktíska sjálfsmarkinu hjá honum í dag. Meireles á hægri kanti? WTF? Ef hann ætlaði að spila 4-4-2 á heimavelli átti hann að nota Kuyt á kantinum með eina sjóðheita leikmanni okkar, Ngog, frammi með Torres. Nú eða Kuyt frammi með Torres og þá Maxi á kantinum. En nei, hann hefur í þremur leikjum látið Meireles spila sem varnartengilið (Steua), í holunni (Man Utd) og nú á hægri kanti. Kom einhverjum á óvart að Meireles skuli hafa verið ömurlegur í leiknum í dag? Karlgreyið langar eflaust aftur til Portó ef þetta heldur svona áfram.

    Hodgson er að klikka á einföldustu hlutum. Hann er að velja ellefu bestu leikmennina í byrjunarlið og reyna svo að troða hringlaga kubbum í ferningslaga göt til að koma þeim öllum fyrir. Meireles átti að vera valinn fram yfir Maxi eða Ngog í leikkerfið 4-5-1. Í kerfinu 4-4-2 átti að velja HÆGRI KANTMANN á hægri helvítis kantinn.

    Leikaðferðir Hodgson hingað til bera þess keim að leikmenn virðast ekki vita hvað þeirra hlutverk er. Hann er enn að finna sína bestu uppstillingu, bæði hvað varðar leikmannaval og taktík, og á meðan þjálfarinn er óviss um hvernig best sé að stíga fram á við er erfitt að ætla leikmönnunum að vita betur.

    Hvort er Agger, bakvörður eða miðvörður? Hver er staða Meireles? Hvar á Cole að spila? En Gerrard? Hver er besta staða Kuyt? Hann er að hringla of mikið með menn í leit að uppstillingu þar sem þeir geta allir virkað vel í sama liðinu en það virðist ætla að reynast honum erfitt.

    Næst er Evrópudeildin og svo Blackpool heima um næstu helgi. Mótið er enn ungt og ég gef þjálfaranum þann tíma sem hann þarf til að finna fæturna í starfinu, en jeminn eini hann verður að fara að sýna okkur eitthvað jákvætt. Og nei, að segja við fréttamenn eftir leik að jafntefli heima gegn Sunderland sé ásættanlegt og að hann hafi verið ánægður með frammistöðu liðsins – þegar ALLIR vita betur – er honum ekki til framdráttar.

    Eitt að lokum: getur einhver tekið sig til og bent Hodgson á að Fernando Torres spilar ekki framherjastöðuna eins og Bobby Zamora spilar hana? Að það er ekki besta ráðið að dæla fallhlífarboltum á hæfileikaríkasta framherja Úrvalsdeildarinnar og breyta honum í skallatennisspilara? Það er ekkert lítið pirrandi að sjá Nando snerta boltann oftar með höfðinu en fótunum heilu hálfleikina.

  49. Hvaða húmorslausu djókerar sjá um þessa stigakeppni hér á síðunni, ég bara spyr? Er nóg að vera á einni línu og þá kemur heimasigur þre-fjór-fimmfaldur? Að sama skapi fær sá sem hefur sjálfstæða skoðun bara drulluna yfir sig í mínus – jafnvel hent út. Þetta finnst mér ekki vera gott. Býður bara upp á bull. Og sem Liverpool-manni til margra ára er mér ofboðið yfir ungæðishættinum. Kop it out!

  50. Einmitt! Og til þeirra örfáu hér sem eru orðnir þrítugir, hvað þá fertugir – gangi ykkur vel.

  51. Helgi skil þig ekki, um hvað ertu að tala?

    Kristján, ég er hrifinn af Meireles, en ég er sammála þér með eitt, ótrulegt hvað þjálfarar reyna að troða leikmönnum inn í sitt plan óháð hvar þeir eru bestir!

    Ég hef alltaf haldið að þú mótar leikplan utan um leikmenn en þú reynir ekki að móta leikmenn utan um þitt leikplan, sérstaklega ekki þegar þú er með menn eins og Gerrard og torres samann í liði!

  52. Ég þarf greinilega að bæta við F-inu mínu þar sem nafni minn er að missa það hér fyrir ofan.

    En annars þá hef ég voða lítið að segja um leikinn í dag nema það að það er morgunljóst að Roy Hodgson er ekki maðurinn til að stýra þessu liði.

  53. Við verðum að vera jákvæðir. Eða eins og amma Hodgeson sagði: “Við stjórnuðum leiknum algjörlega og ég held að þegar leikurinn er skoðaður í heild þá höfðum við verðskuldað meira en eitt stig.” Hver er þessi Mr. Anfield eiginlega spurði amman, er hann blaðurskjóða?

  54. Við hefðum unnið ef við hefðum ekki tapað okkur í því að gera jafntefli

  55. Smá vangaveltur: Ef við hefðum unnið Arsenal, haldið út fyrir jafntefli um síðustu helgi og unnið í gær værum við núna með 11 stig og í 2. sæti ásamt fleiri liðum.

  56. Er bara alltaf að verða betur og betur ljóst hversu mikilvægar næstu þrjár vikur eru hjá klúbbnum, því miður virðist manni leikmannahópurinn ekki ætla að leyfa okkur að gleyma þeim leiðindum sem standa á bakvið félagið núna næstu dagana.

    Alltaf hægt að segja ef, ef við vinnum ekki Blackpool um næstu helgi og fáum svo dæmd á okkur -9 stig fyrir að Kop Holding verður gjaldþrota 6.október verðum við neðstir með mínusstigatölu.

    Þetta snýst ekki um “ef”, heldur “hvað er”.

    Núna erum við í 15.sæti með 6 stig. Það er….

  57. Kristján Atli: Meireles spilaði ekkert á hægri kanti. Það gerði enginn. Hugmyndin og leikplanið – sem virkaði engan veginn – var einhver útgáfa af demantamiðjunni (sem þú hefur nokkuð oft beðið um), án þess þó að vera með tvo sentera fyrr en N’Gog kom inn á. Meireles, Cole og Gerrard spiluðu fyrir framan Poulsen og svo Kuyt þar fyrir framan og Torres fremstur. Meireles varðist vissulega hægra megin en ég held ég hafi aldrei séð hann sækja þeim megin. Sótti hann eitthvað í leiknum annars? Held að planið hafi að sumu leyti farið fyrir lítið þegr Konchesky fór út af því hann átti að sækja grimmt utan á Cole sem leitaði inn á miðjuna. Sama hinum megin. Gekk bara engan veginn upp.

  58. Er sammála kommenti #67. Þetta var örugglega hugsað sem einhver demantur, en Kuyt karlanginn var nú ekki að fóta sig vel í því. Mér fannst þó byrjunin lofa, en svo bara fjaraði þetta út þegar Sunderland kom ofar í pressunni.

    Fyrst og fremst því Poulsen náði ekki að sópa upp og koma boltanum í spil. Svo með brottvarfi Konchesky var þetta búið.

    En hins vegar var það ekki bara taktíkin sem klikkaði, heldur leikmenn sem ekki þorðu fyrr en þeir voru lentir 1-2 undir fyrst og síðast. Held að það hafi ekki verið lagt þannig upp hjá stjórunum.

    Vonandi eignumst við leikmenn sem ná að spila demantinn með fullu hjarta…

  59. Ívar Örn (#67) – ég er sammála því að þetta virtist eiga að vera einhvers konar demantamiðja með Poulsen aftast, Meireles hægra megin, Cole vinstra megin og Gerrard fremstan en mér fannst sú miðja engan veginn ganga upp. Hvort sem Meireles var hægri “kantur” eða hægri “miðjumaður” skiptir ekki öllu máli, hann var hægra megin í miðjuuppstillingunni og hann sótti lítið sem ekkert þar því hann náði engum tengslum við Johnson upp hægri vænginn. Þetta var einfaldlega ekki að virka.

  60. Þetta dramb hjá Barcelona á eftir að verða þeim að falli.

    Hinsvegar finnst mér skrítið að Torres sé áfram hjá Liverpool sérstaklega í ljósi þess að Hodgson segir möguleika Liverpool á titlinum vera enga. Skyldi hann hafa sagt þetta við Torres þegar hann var að sannfæra hann um að vera áfram hjá Liverpool?

    Það var gaman að sjá hæfileika Joe Cole í gær. Hann er virkilega flottur leikmaður. Ég held að á einhverjum tímapunkti verðum við ánægðir með spilamennsku liðsins.

    Hvað finnst ykkur um Poulsen? Er hann betri eða verri en Lucas?

  61. Wernock og Heskey að vinna leikinn fyrir Houllier. En því miður ekki fyrir Liverpool,ég væri sko alveg til í Houllier í staðinn fyrir Turky neck eins og þeir eru farnir að kalla hann í Englandi.

  62. haha ummæli #72 lýsa því svo vel hvernig ástandið hjá Liverpool er. Menn eru farnir að biðja um Houllier aftur án þess að vera að fíflast.

  63. Sammála því að miðjan hjá okkur í gær átti að vera einhver útfærsla af tígulmiðju sem getur oft virkað vel en það var sorglegt að sjá okkur tekna í óæðri endan spilalega í gær. Cattermole og Hendry áttu miðjuna í 60 min eða þar til Ngog kom inn á en við það fengum við örlítið meiri kraft í pressuna framar á vellinum og það breytti flæðinu í leiknum talsvert til hins betra. Það er líka sorglegt að sjá hvernig við bregðumst við því að ná forystu, liðið bakkar niður og við erum að verjast frá miðju. Mér finnst uppleggið hjá RH einfaldlega vera það að tapa ekki og ummæli hans eftir leik segja sína sögu…jafntefli ásættanleg úrslit og allir leikir erfiðir!! Ég geri mér grein fyrir því að RH er örugglega að vinna í erfiðu umhverfi og að hann þarf tíma með liðið, sagðist ekki ætla að dæma hann út frá leikmannaglugganum í sumar og hann á sennilega skilið að fá nokkra leiki til viðbótar en mér finnst hryllilegt að sjá LFC spila algjörlega metnaðarlausan fótbolta og það er á ábyrgð stjórans að breyta því. Ef ekkert breytist í næstu 2 – 3 leikjum sé ég ekkert annað í spilunum en að skipta um stjóra því að frammistaða liðsins, uppleggið í leikjum og metnaðarlausar yfirlýsingar RH eru ekki boðlegar öllu lengur.

  64. Halli (#70) – þessi frétt er víst bara bull. Sky Sports hafa hana eftir Daily News Star eða einhverjum álíka eðalsnepli og það er þegar búið að staðfesta á Spáni að Pique á aldrei að hafa talað við þetta blað, hvað þá sagt þetta um Fernando. Þannig að við skulum anda rólega … í bili.

    Annars var markið hjá Heskey áðan týpískt fyrir hann. Gat ekki blautan í 88 mínútur og vann svo leikinn með einu flottasta skallamarki sem ég hef séð lengi. Þessi leikmaður er algjör ráðgáta.

  65. @ #70 – Halli:
    Þeir geta fengið Torres á 60m eins og hefur komið fram áður. Put up or shut the BLEEP up, Barca!

    Hvað Liverpool varðar þá veit maður ekki hvað skal halda. Það virkar eins og þjálfarinn og leikmenn liðsins séu ekki á sömu blaðsíðu hvað hlutina varðar.

    Miðað við reynslu RH sem þjálfara ætti hann að hafa reynsluna til að tækla vandamálið sem er til staðar á Anfield. Það virðist vera eins og hann beri of mikla virðingu fyrir leikmönnum sem virkar öfugt inn á vellinum. Svona svipað og gerðist undir Roy Evans. Þjálfarinn var ekki að eigna sér búningsklefann eins og alvöru þjálfarar gera. Svo virkar RH verulega varnarsinnaður og óskipulagður sem ég heimfæri yfir á leikmannakaup hans í sumar. Hann fyllir ekki upp í allar þær stöður sem vantaði í sem er að koma í bakið á honum núna.

    Mistök 1:
    Það sjá það allir að vinstri bakvarðarstaðan er hreint út sagt hlægileg eins og staðan er í dag. Að fá Aurelio aftur eftir hans meiðslasögu og Konshesky sem er álíka meiðslum hrjáður, hefur ekki fyllt neitt skarð. Báðir þessir leikmenn eru “óvænt” meiddir sem þýðir að Daniel Agger er látinn spila bakvörðinn sem hentar honum ekki. Er enginn úr varaliðinu sem spilar vinstri bakvörð sem hægt er að venja við????

    Mistök 2:
    Kaupin á Poulsen og Meireles í staðinn fyrir “Grenjandi Argentínumanninn” eru stærstu mistök RH, sem í raun veikir liðið meira en áður. Hann tekur við liðinu í þannig stöðu að hann hefur engu að tapa og þess í stað málar sig út í horn. Ef hann hefði fengið vinstri kantmann (t.d. Ashley Young) til að gefa miðjunni meira skapandi yfirbragð værum við ekki að tala um 6 stig eftir 6 leiki. Þess í stað fyllir hann liðið af backup-leikmönnum fyrir vörnina, og það sorglega er að hann spilar þeim öllum á sama tíma í sumum leikjum! Er furða að liðið sé að spila vandræðalegan fótbolta fyrir framan varnir andstæðinganna án þess að skapa neitt fyrir Torres?? Stórfurðuleg ákvörðun hreint út sagt.

    Mistök 3:
    Hans hugarfar varðandi taktík og skiptingar sem í raun eru í takt við sumarkaup hans, en er ekki að virka. Hann hefur engu að tapa og að fylla liðið af varnarsinnuðum leikmönnum gerir ekkert fyrir liðið fram á við. Það er ekkert nýtt fyrir mér að sjá Liverpool svona vandræðalegt í sókninni með svona gelda miðju. RH hefur verið þekktur fyrir sína 4-4-2 taktík en allt í einu farinn að spila taktík sem hann hefur ekki beitt að jafnaði. Einnig val hans á taktík eftir leikjum er dálítið furðulegt en gegn City spilar hann 4-4-2 og er hreinlega valtrað yfir miðjuna hjá LFC í þeim leik. Gegn Sunderland spilar hann 4-5-1 með tvo varnarsinnaða miðjumenn (ef ekki þrjá!!) en hefði átt að spila 4-4-2 og vera sókndjarfari sem sýndi sig þegar Ngog kom inná fyrir einhvern varnarsinnaðan miðjumann.

    Ég er ekki að negla neinn dauðadóm á RH en byrjunin lofar ekki góðu og er fyllilega á hans ábyrgð sem framkvæmdarstjóri. Hann kaupir leikmennina sem hann vill spila. Hann velur leikskipulagið. Hann þjálfar leikmennina og það er á hans ábyrgð að það komist til skila sem hann er að predika yfir þeim. Hingað til virkar liðið algjörlega “clueless” á leikvellinum og hans loforð til Torres, Gerrard og Reina um að bakka þá duglega upp virðist hafa verið brotið með varnarsinnuðum viðbrögðum á leikmannamarkaðnum sem endurspeglast inn á vellinum.

    Þjálfarinn verður sjálfur að átta sig á þessu áður en það verður um seinan. Miðað við leikmannakaup hans í sumar tel ég að hann verði ekki lengi hjá Liverpool.

  66. Ég skil ekki hvað menn eru að tala um vandamál í vinstri bakverði trekk í trekk. Það kemur málinu bara ekkert við. Vandamálið sem er mun stærra en getuleysi eða meiðsli ákveðnra leikmanna er taktíkin sem er verið að spila, eða lack there off. Leikmenn eru eins og hauslausir kjúklingar inná vellinum, hraðinn er engin og það er meira creativity í Íslenska landsliðinu en á Anfield. Það er eins og það sé valið í lið, mönnum hent inná völlinn og halda að það sé nóg.

    Það er engin pressa, hreyfing án bolta er til skammar og það kann ekki góðri lukku að stýra að vera með 10 menn fyrir aftan boltann leik eftir leik – sérstaklega þegar við mætum “minni” liðunum á heimavelli. Svo þegar við loksins vinnum boltann þá er Torres eini leikmaðurinn í rauðri treyju á vallarhelmingi andstæðingsins, dekkaður af 2+ varnarmönnum.

    Svo er stjórinn bara sáttur með jafntefli á heimavelli … gegn Sunderland. Hvenær fraus eiginlega í helvíti ? Þegar við spiluðum með Igor Biscan í miðverðinu, Traore í bakverði og Salif Diao á miðjunni var ekki einu sinni ásættanlegt að gera jafntefli við þetta lið á Anfield. RH er algjörlega að drulla uppá bak í þessum viðtölum – ef hann er að reyna að búa til eitthvað ýmundað sjálfstraust hjá leikmönnum með svona yfirlýsingum þá er hann ekki alveg með öllu mjalla. Ef þú hefur þann sannfæringarmátt til að sannfæra leikmann sem spilar í Liverpool treyjunnu að jafntefli (og nota bene, vera lakari aðilinn) á heimavelli gegn Sunderland sé allt í lagi, þá á sá leikmaður ekkert erindi í treyjuna og eflaust með IQ á við pappakassa.

    Það er alveg satt sem margir hverjir benda á – það er mikið ójafnvægi í okkar liði. En það afsakar samt sem áður ekki spilamennskuna það sem af er tímabili (og stóran hluta þess síðasta ef út í það er farið). Við erum með landsliðsmenn í hverri einustu stöðu og að vera slakari aðilinn gegn WBA, Bham, Sunderland og Northampton er bara too much. Ég er tilbúin að sætta mig við að tapa á OT og vera slakari aðilinn þar, ekki mörg lið sem sækja stig þangað – en að liggja í vörn gegn þessum liðum sem ég taldi upp og að geta talið færin í þessum leikjum á fingrum annarar handar (Öllum fjórum samanlagt!) er bara eitthvað sem mér finnst ekki boðlegt.

    Getur einhver, sem er betur að sér í fótboltafræðunum en ég, útskýrt þá logic fyrir mér að í stöðunni 1-2 á Anfield (og 2-2) gegn Sunderland þá spilar Gerrard sem djúpur miðjumaður, einhverskonar playmaker (ala-Alonso). Leikmaðurinn sem hefur bjargað fleiri stigum fyrir okkur en nokkur annar, einn besti skotmaður deildarinnar, einn bestu framliggjandi miðjumaður heims, einhver sem myndar ótrúlega hættulegt combo með Torres, einhver sem actually er líklegur til að skapa svona eins og eitt situation í kringum vítateig andstæðinganna svo ég taki mér orð RB í munn ?

  67. Svo ég vitni í Wikipedia um Brian Clough.

    “He lasted in the job only 44 days before he was sacked by the Leeds directors on 12 September 1974, after alienating many of Leeds’ star players, notably Johnny Giles, Norman Hunter and Billy Bremner. During one of the first training sessions he took for Leeds United, he reportedly said “You can all throw your medals in the bin because they were not won fairly.” He has the unenviable record of being Leeds United’s least successful permanent manager winning only one match from six games. Leeds were fourth from bottom in 19th position with only 4 points from a possible 12, their worst start in 15 years. His pay-off was estimated at £98,000, a huge amount at the time.”

    Sjá menn samlíkinguna?

  68. djöfull sem ég hata Barcelona. Leikmennirnir þeirra eru pottþétt á launum við að koma með e-ð rugl í fjölmiðlum sem tengist leikmönnum sem Barcelona vilja fá! Legg til að Liverpool borgi Reina smá summu fyrir að koma fram í fjölmiðlum og tjá sig um það að Puyol hafi sagt honum að hann vildi fara frá Barcelona. Nota þeirra eigin brögð.

    http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=98029

  69. Sammála Kristján

    Óþolandi apakettir þarna. Gera ekki annað en að tala um leikmenn annarra liða og hvað þeir eiga bágt með að þurfa að spila fyrir Arsenal, Liverpool osfrv.

    Fari þetta lið til fjandans

  70. Að maður skuli leggja það á sig að halda með þessu liði. Endalaus vonbrigði. Maður ætti auðvitað að taka sér alvöru hvíld frá þessu en maður heldur örugglega áfram sömu sjálfspíningunni. Ég skil ekki hvernig þessir gaurar geta verið svona slakir! Þarna eru leikmenn eins og Torres, Gerrard, Johnson, Reina og Cole. Allt eru þetta hátt ,,reitaðir” leikmenn. Hópurinn er langt frá því að vera svona slakur. Samt erum við í fokking 16. sæti og stjórinn lætur bara eins og allt sé í lagi!! Það þarf að troða þeirri hugsun í kollinn á þessum gaurum að Liverpool sættir sig aldrei við annað en toppbaráttu, aldrei. Djöfuls aumingjaskapur! Ef það breytist ekki mjög fljótt þarf að henda RH á elliheimili og fá King Kenny inn. Get ómögulega séð að við höfum einhverju að tapa á því.

  71. Sælir félagar

    Fyrir mér er málið einfalt. Stjórinn sem á að vera að stjórna þessu liði sat upp í stúkunni ú gær. Hér með kveð ég RH. Ég lít ekki á hann sem stjóra LFC. Hann er sombie eða eitthvað, ég veit það ekki. En hann er ekki knattspyrnustjóri sem hæfir þessum klúbbi.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  72. Það er enginn hræddur við að spila við Liverpool lengur, ekki einu sinni á Anfield!
    Meira að segja Northampton kemur og sækir til sigurs.
    Að tapa “fear factornum” er gríðarlega alvarlegt því þessi íþrótt vinnst og tapast oft á sálfræðinni.
    Lið voru oft bara búin að tapa leiknum á leiðinni inn á völlinn.

    Liverpool liðið í dag er ekkert verra á pappírnum en þau lið síðustu ára sem hefur verið í baráttu um meistaradeildasæti og komist langt í Meistaradeild, en hugarfarið er bara allt annað og kröfurnar einnig.

  73. Í þessu Liverpool liði eru leikmenn sem eru að spila illa. Þeir eru algjörlega steingeldir inná vellinum frá upphafi til enda, áhugalausir og vanfærir um einhvern frama inná fótboltavellinum.

    Ég veit ekki hvaða fótbolta þið hafið verið að horfa á en þeir leikmenn sem hann hefur keypt hafa einmitt verið þarna inná vellinum í okkar heittelskuðu Liverpool búningum að berjast um hvern einasta bolta, gefandi 100% allan leikinn. Hvort sem ykkur líkar betur eða verr þá eru þessir “lykilmenn” í liðinu þeir sem hafa það stærsta bremsufar í brókinni, ekki hinir nýju. Einnig held ég að fólk ætti að átta sig á því að leikmaður eins og t.d. Jovanovic er enginn Messi, hann mun aldrei gera sömu frábæru hluti og Messi, hins vegar er Jovanovic inná vellinum að gefa sig 100% allar þær mínutur sem hann spilar, þegar þú gerir þetta á ertu þess virði að klæðast hinum rauðu búningum, hvort sem niðurstaðan er tap eða sigur. Ef 11 leikmenn í rauða liðinu gefa sig alla í leikinn og það sést að það sé baráttugleði, áhugi, samvirkni og vinnusemi í liðinu, þá sætti ég mig vel við tap hverja helgi.

    Einnig neita ég að dauðadæma framkvæmdastjóra í hvert skipti sem leikmennirnir spila illa. Það eru leikmennirnir sem eru inná vellinum, ekki framkvæmdastjórinn og að skella skuldinni á amerísku eigendurna um lélegt gengi er léleg afsökun fyrir því að leikmennirnir geti ekki mannast up og skafið skituna af bakinu.

Liðið komið!

Kop-gjörið í leikviku 6