Young Boys 3 – Liverpool 5

Fyrsti leikur í snúnum Evrópudeildarriðli okkar fór fram í dag, þegar farið var til Sviss og leikið við UngDrengina frá Bern.
Brendan Rodgers stóð við það að stilla upp liði ungra manna í bland við þá sem vermt hafa bekkinn hingað til í vetur.

Fyrstu mínútur Wisdom, Suso, Pacheco og Assaidi í alvöru leik fyrir BR en í bland reynsluboltar í Carra, Enrique, Downing og Sahin.

Liðsskipanin var þessi:

Jones

Wisdom – Coates – Carragher – Enrique

Suso – Henderson – Sahin

Downing – Pacheco – Assaidi

BEKKUR: Gulacsi, Wilson, Robinson, Shelvey, Sterling, Borini, Yesil.

Eins og sést af bekknum er Flanagan frystur algerlega, held við getum staðfest það að hann hafi eitthvað til unnið sem leiðir það af sér að hann er úti. Wisdom er klárlega hafsent að upplagi en var settur út í bakvörðinn og Flanno ekki einu sinni í hóp. Markahæstur fyrir Liverpool í byrjunarliðinu? Jamie Carragher með fjögur mörk!!!

Eftir 4 mínútur fengum við fáránlegustu gjöf sem ég held einfaldlega að við höfum fengið. Sahin sendi upp í hægra hornið eftir fína hreyfingu á boltanum, Downing sendi hann inn í en þar var enginn LFC maður. Varnarlína Young Boys ákvað að við þyrftum mark og skoruðu sameiginlega skrýtnasta sjálfsmark lengi, annar hafsentinn skallaði í hinn, Ojala og í markið fót boltann með engan rauðan nálægt, 0-1. Downing greinilega elskar Europa League, eitt mark og ein stoðsending komin strax!

Í næstu sókn varði Brad Jones virkilega vel en svo náðu okkar menn afskaplega góðum kafla þar sem þeir einfaldlega héldu boltanum í drep án þess að heimamenn fengju að sjá mikið af honum en án þess þó að skapa okkur almennileg færi. Assaidi sá sem mest fór á vörnina en Suso, Pacheco og Downing ekki alveg tilbúnir þegar fram var komið.

En á 38.mínútu ákvað Enrique að jafna leikinn fyrir Bern. Hann að vísu gerði það ekki alveg sjálfur en lék á Jones áður en hann klúðraði hreinsun beint í fætur Nuzzolo sem sendi boltann beint í markið, 1-1 og Enrique átti það mark nærri skuldlaust með aðstoð frá Carra karlinum. Hafði rétt áður sloppið naumlega við að fá á sig víti fyrir annað megaklúður, sá spænski satt að segja ekki að garga á það að fá að spila stórleikinn um helgina! Orðið jafnt.

En tveimur mínútum síðar komumst við aftur yfir og nú með almennilegu marki. Nuri Sahin tók góða hornspyrnu frá vinstri sem hinn 19 ára Andre Wisdom skallaði af krafti í netið. Með því varð hann fyrsti varnarmaðurinn síðan Carra til að skora í sínum fyrsta opinbera leik fyrir félagið – vonandi bara verða ferlar þeirra tveggja samofnir áfram í takt við byrjunina, virkilega flott hjá stráknum sem auðvitað missti sig af gleði! Í næstu sókn voru Bern rétt búnir að jafna en skot Farnerud fór í stöngina og staðan 1-2 í hálfleik, sanngjörn staða í heild að mínu mati.

En forystan lifði ekki lengi í síðari hálfleik, á 53.mínútu skoraði Ojala aftur og nú fyrir sitt lið þegar hann jafnaði með skalla eftir fyrirgjöf. Varnarleikur okkar ansi hreint slakur þar, fengum færi til að hreinsa oft og vel áður en stoðsendingin kom inn í teiginn og dekkunin á Ojala döpur. Staðan orðin 2-2 og verkefni framundan. Tíu mínútum seinna versnaði þetta enn þegar við lentum undir. Sahin og Carra tóku nú að sér að verjast eins og kjánar uppúr því að við vorum í sóknarsetpiece, boltanum stungið í gegn og Zarate skoraði og breytti stöðunni í 3-2. Rétt áður hafði Borini komið inn í stað Pacheco en tólfan okkar átti þarna enn einn vonbrigðaleikinn, kom einfaldlega ekkert út úr honum!

Sjötta mark leiksins kom svo á 67.mínútu þegar Coates skoraði með skalla eftir horn, í kjölfar þess að markvörður Bern hafði varið flott frá Borini, fjörið áfram við völd, 3-3 og 25 mínútur eftir.

Shelvey hafði rétt áður komið inn fyrir Assaidi sem átti smá spretti en virkar ansi léttur og í litlum takti við leikkerfið, klárlega kaup hugsuð til framtíðar miðað við þennan leik. En hann er allavega kominn af stað!

Mínúta 76 og við komumst yfir með fallegu marki úr skyndiupphlaupi, Borini fékk langa sendingu á vinstri kantinn, hann átti flotta sendingu á fjærteig þar sem Henderson lagði boltann í fyrsta á vítapunktinn þar sem Jonjo Shelvey klíndi hann í netið. Klárlega flottasta upphlaup okkar í leiknum og við komnir yfir aftur, nú 3-4. Strax í kjölfarið fór Downing útaf, átti enn erfiðan leik en svei mér er ekki kominn tími á að prófa hann bara í vinstri bak og geyma Enrique? Sterling inná í hans stað síðasta kortérið.

Bobadilla fékk svo verðlaun fyrir lélegustu dýfu ársins áður en næsta mark kom, Henderson átti fína sendingu inn á miðjan vallarhelming Bern þar sem Jonjo Shelvey átti ýmislegt eftir. Einföld gabbhreyfing með efri skrokknum kom honum í skotfæri á vinstri og þaðan flaug boltinn í markið af vítalínu. Glæsileg afgreiðsla hjá Jonjo sem átti frábæra innkomu, staðan nú 3-5 og þannig lauk býsna fjörugum leik!

Leikir okkar í þessari keppni verða bara vonandi eins og þessir, margir ungir leikmenn en sama skipulag. Rodgers var með frosið bros síðustu 20 mínúturnar og flýgur glaður heim á Merseyside – liðsvalið hans var alveg réttlætanlegt í alla staði. Hvíldi marga en fékk þrjú stig.

Ef við lítum yfir frammistöðu leikmanna aðeins.

Brad Jones átti góðan leik milli stanganna, þó ég hefði viljað hafa hann aftar í þriðja marki Basel. Hann var góður í teignum og virkaði yfirvegaður í sínum aðgerðum. Hann mun örugglega fá að eiga þessi keppni að mestu og það er hið besta mál.

Varnarlínan batnaði frá vinstri til hægri. Enrique var slakasti maður liðsins, virðist bara eiginlega alveg týndur, varnar- og sóknarlega. Carra er að verða hálfgerður spilandi þjálfari held ég, hann var fyrirliðinn sem slíkur hafður inni fyrir ungu mennina. Carra hefur lært hvað á að gera við boltann en í marki 1 og 3 á hann að gera betur. Coates skoraði flott mark og átti fín upphlaup og sendingar, hann aftur á móti lét draga sig út úr stöðu og átti að standa betur af sér mark 2. Andre Wisdom fannst mér bestur okkar varnarmanna. Þessi strákur er hafsent að upplagi en þarna fékk hann tækifæri í bakverði og lék vel. Nautsterkur og fínn á boltann plús það að skora flott mark í fyrsta leik.

Zahin átti marga fína spretti á miðjunni en mér finnst hann eiga erfitt varnarlega og hef á tilfinningunni að hans staða eigi ekki að vera djúpt á vellinum. Hendo var virkilega sprækur fannst mér, sérstaklega eftir að Jonjo var kominn með honum, mjög duglegur að sópa upp, öruggur í sendingum og á fullu í kjaftinum við samherja sína. Suso átti erfitt í fyrri hálfleik en náði nokkrum fínum rispum í seinni hálfleik.

Assaidi, Pacheco og Downing áttu dapran dag, Assaidi auðvitað í fyrsta leik og ég hef áður minnst á hann. Pacheco er enn draumur í hugum margra en ekki neitt í kvöld breytti þeirri skoðun minni að hann er alls ekki nógu góður leikmaður til að spila fyrir LFC og húðlatur að auki.

Borini var sprækur þegar hann kom inná og hefði getað stolið marki Coates. Shelvey var algerlega frábær þær mínútur sem hann fékk. Fer bara ekki ofan af því að ég mun faðma Benitez þegar ég hitti hann fyrir að ná þessum strák frá London. Og auðvitað hinum sem kom inná, Sterling sem fékk síðasta á kortérið en kom lítið við sögu.

Mann leiksins vel ég Jordan Henderson því ég vill velja leikmann sem spilar lunga leiks, en Shelvey vissulega tryggði okkur sigurinn.

Ég vill sjá alla okkar Europa League riðlaleiki lagða svona upp, blöndu af varamönnum og unglingum með aðalliðsleikmenn á bekknum, vissulega kannski betri vörn en ánægjulegast í kvöld er að hafa skorað 5 mörk með engan Suarez eða Gerrard nálægt!

BRING ON SUNDAY!!!!!

63 Comments

  1. skemmtilegur leikur og margt mjög jákvætt sem hægt er að taka frá þessum degi

  2. Þeir fjórir sem mér finnst standa uppúr í þessum leik eru Wisdom, Coates, Henderson og Shelvey. Gaman að sjá hvað við virðumst eiga mikið af efnilegum leikmönnum sem koma til með að fá spilatíma í vetur.

  3. Gaman að horfa á ungu strákana vinna. Undir góðri leiðsögn Carra 🙂 Þurfum samt að fara að halda hreinu, en það er samt aðalatriðið að vinna 🙂

    GLÆSILEGT ! !

    YNWA

  4. Fyrir ykkur sem fannst Downing ekkert gera af viti…hann lagði upp 2 mörk, og var sæmilegur.

  5. Ánægður með evrópukeppnina. Guttarnir fá fína reynslu, flottur sigur í kaupbæti. Wisdom, hvaðan kom hann, flottur leikur hjá honum.
    Shelvey náttúrulega yfirburðamaður eftir að hann kom inn.
    Borini duglegur, Henderson gerði ágæta ankerisvinnu, var bara helvíti stöðugur.

    Sahin … hmmm pínu vonbrigði en hann á eftir að detta í form.
    Assaidi átti spretti. Suso efnilegur en þarf að vera duglegur á æfingum í vetur
    En vörnin my oh my … Enrique var slappur … Carra hmmm, Coates skoraði þó.

    Já Downing … vann sína vinnu.

    Fínir æfingaleikir framundan.
    YNWA

  6. Klassa sigur á útivelli hjá mjög ungu liði þar sem sumir voru að spila sína fyrstu leiki fyrir klúbbinn, mistökin voru nokkur og menn læra bara af þeim, það sem skiptir mestu er að þau kostuðu liðið ekki sigurinn og þetta er gott fyrir sjálfstraustið uppá framhaldið.

    Vonandi er þetta það sem við fáum að sjá í vetur, það er að unglingarnir fái mikin séns á að sýna sig og sanna.

    Vonandi er þetta líka feitt spark í rassgatið á þeim leikmönnum sem halda að þeir eigi bara fasta áskrift af byrjunarliðssæti. Þegar krakkarnir geta sett 5 á útivelli í evrópudeildinni þá eru það fín skilaboð!

  7. Segi nú hér bara eins og ég tísti strax eftir leik. Hvernig hefði þessi leikur farið ef við hefðum ekki vanmetið þá?

    Tek undir að það er margt jákvætt sem við getum tekið frá þessum leik. “Stóru” strákarnir okkar sem spila um helgina geta alveg horft á þennan leið og hugsað með sér að þeir þurfa að girða í brók og fara að setja hann. Verður fínt að fá Man Yoo um helgina.

    Er ekki Jonjo maður leiksins bara?

  8. Brad Jones átti slatta í 2 mörkum og þar af leiðandi er nú varla hægt að tala um að hann hafi átt góðan leik. Kallar ekki á boltann í fyrra markinu sem endar í rugli, og í seinna markinu hefði hann átt að ná boltanum ef hann hefði bara verið á tánum, en fyrst hann fór ekki í boltann þá átti hann aldrei að standa svona framarlega í markinu.

  9. Flottur leikur hjá ungu leikmönnunum okkar, og við eigum bara bjarta framtíð saman með þennan hóp + þá reynslu bolta sem við hvíld um í þessum leik, nú bíður maður bara spenntur eftir sunnudeginum og þá tökum við Man Utd og raskellum þá… Þá fer þetta allt að rúlla hjá okkur…

    Áfram LIVERPOOL… YNWA…

  10. Mér fannst þetta athyglisverður leikur. Tek undir flest sem kemur fram í skýrslunni. Fannst Assaidi og Suso eiga nokkra spretti en Pacheco er orðinn lost cause held ég. Mér finnst Downing og Enrique einhvern veginn ekki passa inn í þennan leikstíl. Ég veit að Downing lagði upp 2 en hann virkar hálf þunglamalegur innan um þessa litlu snöggu gutta sem mér sýnist Rodgers vilja leggja upp með. Þá hlýtur Enrique að þurfa að hugsa sinn gang. Það er eflaust erfitt að vera að stíga upp úr meiðslum en my oh my, hvað honum hefur farið aftur síðan fyrri hluta síðasta tímabils.

    Wisdom, Shelvey og Henderson fannst mér jákvæðustu punktarnir í kvöld. Ég fer ekki ofan af því að Henderson á mjög vel heima í þessu kerfi. Hann er mjög virkur, hreyfanlegur, með góðar sendingar, bæði sem key-sendingar og þessar stuttu. Hefur góðan fótboltaheila og skilur greinilega hvað Rodgers vill gera.

    Fyrst og fremst góð þrjú stig á útivelli og skemmtilegur leikur á að horfa.

  11. Er svo sammála þér Maggi. Èg var farinn að garga á skiptingu fljótlega eftir leikhlé. Ég vildi fá greyið hann Enrique útaf, Downing í bakvörðinn og Sterling sultuslakan á kantinn. Samt bara nokkuð hress með þennan leik.

  12. Flottur sigur og frískt lið með fimm mörk á útivelli. Flott að sjá þennan leik og mér fannst menn virkilega hafa gaman af þessu. Rétt að gefum ákveðnum kóngum skilaboð um að það á enginn fast sæti í liðinu án framlags og baráttu.

  13. Sammála með Henderson.

    Glæsileg mörkin tvö hjá Gerrard en af hverju var hann eiginlega að krúnuraka sig?!

    Vörnin fyrirfram sterkasta og reynslumesta staðan í leiknum í dag og hálf óþarfi að fá á sig 3 mörk á móti Young Boys frá Sviss.

    Wisdom minnti mig á Micah Richards á ýmsa vegu.

  14. Minnist hrikalega lítið á hvar Enrique var staddur í þriðja marki YB, en hann var kominn þar vel inná miðjann völl rétt upp við carra og sahin. Hann er orðinn alveg skelfilegur karlgreyið..

  15. gerrard=shelvey smá djók hjá stráknum.. þarf sem inn komann hans minnti svolitið á gerrard á yngri áðum og sér í lagi á móti napoli:)

  16. Brad Jones átti stórann þátt í mörkum 1 og 3 átti að vera framar í markinu og hirða boltann í bæði skiptinn. Annars ánægður með sigurinn fótbolti snýst bara um að skora meira en andstæðingurinn. Í kvöld skoraði andstæðingurinn þrjú sem dugði ekki. Gamlir poolarar ættu að muna þannig tíma.

  17. Flottur sigur hjá kjúllunum okkar, en þar sem ég sá ekki leikinn þá verð ég að spyrja, kom Yesil ekkert við sögu?

  18. 21 Nei Yesil kom ekkert inná því miður. Hefði gjarnan viljað sjá hann koma inn og sýna takta 🙂

  19. Hvar er Joe Cole?

    Fimm mörk án Gerrard og Suarez…er það ekki bara einmitt það sem þarf. Það virðist vera einhver svakaleg pressa með þá í liðinu, þá sérstaklega Gerrard kannski. Eins og hinir séu eitthvað hræddir við að stíga upp eða vilja kannski bara láta þá um að klára leikina. Finnst það amk líta þannig út.

  20. Takk fyrir svarið Halldór, ég er viss um að Yesil á eftir að reynast okkur mikill happafengur og vil sjá hann spila sem fyrst.

  21. Wisdom er uppalinn og ef ég man rétt hefur hann gert eitthvað af því að vera fyrirliði unglingaliðanna okkar, flottur strákur.

  22. Sé bara ekki hvernig þið fenguð út að Assaidi átti dapran leik? Fannst hann einmitt virka mjög flottur, var að taka menn á fullu og ekkert það mikið af fail sendingum.. Það var kannski aðalega í seinni hálfleik sem hann hvarf smá, enda ekki í leikformi.

    Annars sammála með flest annað hjá ykkur, maður leiksins Henderson/Shelvey og Enrique laang lélegasti maður vallarins, alveg hrikalega var hann lélegur.
    En gaman að sjá fullt af “nýjum” nöfnum á vellinum í hörku leik.

  23. Henderson drepur mig úr leiðindum einn daginn. Og blindni ykkar margra gagnvart göllum í hans leik vekja hjá mér furðu.

    Hann var duglegur í dag og átti að mörgu leyti nokkuð góðan leik. Hann barðist og komst ágætlega frá sínu í þetta skiptið, einkum varnarlega, og í einföldu spili með boltann.

    Nema hvað hann er alveg hrikalega passívur í sóknarleiknum, það er oftar en ekki eins og hann vilji beinlínis ekki taka þátt í honum. Fylgist með honum án bolta í sóknarleiknum, hvernig hann reynir sárasjaldan að skapa eitthvað með óvæntu frumkvæði. Og það er alveg ferlega dapurlegt að fylgjast með drengnum og sjá hversu stóran hluta sinna sendinga hann sendir til baka á vellinum. Og hann gerir það oft þegar einfaldir og betri kostir eru í boði, framar á vellinum eða á svipaðri lengdargráðu.

    Er ég einn um þennan pirring? Er sérstaklega svekktur vegna þess að hann hefur getu til að verða leikmaður sem lyftir okkar leik, en því miður gerir hann oftast hið gagnstæða. Ég vil hann út úr liðinu með det samme, og vona að Rogers lesi yfir honum, þannig að hann geti vaknað upp úr þessum leiðindum og orðið leikmaður sem vit er í.

  24. Ég er því algerlega ósammála að Hendo hafi átt góðan leik! Mér fannst miðjan allt of veik og óþægilega oft komu sóknir frá ungdrengjum eftir vandræðagang á miðri miðjunni! Jújú! hann hljóp helling og reif kjaft…. en var vandræðalegur að öðru leiti! Maður leiksin?!?!? Tæplega.

    Assaidi var ekki slæmur og ég veit að Höddi Magg er mér sammála (ekki að það sé endilega kostur) =P

  25. Rodgers liklega alsæll með að skilja aðalliðið eftir i Liverpool og vinna þennann leik a utivelli a unglingunum og skora 5 mork. Margt jakvætt i þessum leik.

    Fannst eins og Sahin væri svona eins og fullorðinn að spila með bornum þegar krakkarnir segja þu màtt vera með en matt ekki skora og ekki reyna a þig, allt sem sahin gerdi var auðvelt fyrirhann, hann dreifdi boltanum vel og gerdi fàa feila en var ekkert að reyna neitt mikið og a klarlega mikið inni.

    Held það se nokkuð ljost að við faum sama lið gegn United og gegn Sunderland siðustu helgi, hann hvildi það lið nanast alveg nema shelvey og sterling spiluðu sma i dag, maður var pinu að vona að sahin kæmi inn fyrir shelvey a sunnudag en það er ekki að fara gerast fyrst sahin spilaði 90min i dag, shelvey tok bara 20 min og setti auk þess 2 fràbær mork.

  26. Skil ekki alveg þessa setningu að Assadi hafi verið keyptur fyrir framtíðina, þetta er enginn strákpjakkur, maðurinn er orðinn 24 ára gamall!!

    Reyndar skil ég heldur ekki þessi kaup á honum fyrst að það er greinilega enginn peningur til í buddunni. Hefði frekar viljað nota þessar 3 millj. punda sem hann kostaði í það að borga mismuninn á hvað við vildum borga fyrir Dempsey og hvað Fulham vildi fá fyrir hann.

  27. Henderson var fínn síðustu 20 mínúturnar. Mér þótti hann jafn dapur og venjulega fram að því. Nú hefur hann misst Sahin og Shelvey fram fyrir sig í goggunarröðinni og mig grunar að einungis sé tímaspursmál hvenær Suso fer að hirða tækifærin hans.

  28. Rosalega flott hjá strákunum, fannst samt Shevley maður leiksins þó hann hafi bara verið inná í svona 20mín… He was like a man among young boys! pun intended

  29. Flottur leikur fram á við, sérstaklega í seinni hálfleik. Afskaplega dapur varnarleikur á köflum og fannst áberandi hvað vantaði almennilegan varnarsinnaðan miðjumann þarna inn á til að verja vörnina sem þurfti svo sannarlega á því að halda.

    Vil samt benda mönnum sem eru að gagnrýna Henderson fyrir að gefa of mikið af einföldum sendingum til hliðar eða til baka á það að það er að öllum líkindum algerlega samkvæmt því sem Rodgers vill gera. Hann vill frekar halda boltanum heldur en að vera alltaf að leita að úrslitasendingunni. Hann vill fyrst og fremst halda boltanum og bíða færis þar til andstæðingurinn gerir mistök og býður upp á að við sækjum hratt á þá. Það var alveg áreiðanlega það sem hann átti við með fílósófíunni sinni “death by football”. Hann er líka alltaf að predikera þetta “keep possession”. Það gerði Henderson fannst mér mjög vel í þessum leik. Einnig fannst mér Suso og Assaidi eiga mjög skemmtilega spretti en það er alveg eðlilegt að þeir haldi ekki út heilan leik enda ekki í miklu leikformi.

    Sammála því eins og margir hafa sagt að Shelvey átti besta leikinn per mínútu og sennilega sinn besta leik en ef við eigum að velja mann leiksins heilt yfir þá finnst mér Henderson mjög góður kandídat.

    Vonbrigði leiksins voru klárlega Enrique, Pacheco og því miður Carragher sem er greinilega á síðustu metrunum.

    Verkefni janúarmánaðar verður að finna sóknarmann og vinstri bakvörð.

  30. Ein spurning, er Doni ennþá hjá Liverpool, því þegar ég kíki á lfchistory.net stendur ekkert að við höfum losað okkur við hann en hann er samt ekki í leikmannahópi. Hann er með samning út árið 2013 og þetta er eitthvað rosalega skrýtið allt saman, einhver hérna sem veit eitthvað um þetta?

    Annars flottur leikur hjá Liverpool, smá aulamistök en samt sem áður ágætt að vinna þetta sáttur með það. Henderson alveg frábær og mér fannst Downing ágætur veit ekki af hverju en mér finnst hann allur vera koma til. Fannst svo Assaidi líta vel út sem og Suso en Pacheco var hrikalega slakur. Wisdom gefur svo góð fyrirheit um framtíðina. Er einhver sem veit hvað Flanno gerði af sér og hvers vegna hann var ekki í liðinu í kvöld?

  31. downing og erique þurfa að skipta um stöður væri til í að sjá það hann er pott þétt góður kantmaður hann stönglast í geng en oft heppnast það en ef hann er í vörn þá er það hætta og svo spila þeir vel saman downing er góður varnarlega

  32. Þetta var fínt kvöld. Mjög jákvætt að ungu srákarnir fái séns og sérstaklega að þeir standi undir því að spila þennan leik. Þrátt fyrir að hafa skorað 5 mörk þá hef ég enn svolitlar áhyggjur af sóknarleiknum sem virðist algjörlega snúast um að halda boltanum, en ekki endilega að gera eitthvað að viti við hann. Varnarleikurinn er svo eitthvað sem veldur mér hausverk. Þessir 4 leikmenn hafa auðvitað aldrei spilað saman, en enn og aftur er varnarleikurinn slakur, og enn og aftur efum við að sjá varnarmann missa boltann á meðan hann er að reyna að spila boltanum þegar réttast væri að senda hann á sporbaug.
    En Shelvey er að mínu mati stóra málið í kvöld. Ég hef verið að bíða eftir því að hann sýni hvers hann er megnugur frá því hann var keyptur, en eftir að Rodgers var ráðinn efast ég ekki um að þessi strákur verði okkar stærsta stjarna þegar fram í sækir. Mig grunar að þessi leikur eigi eftir að verða einn af vendipunktum í mögnuðum ferli hans hjá Liverpool.

  33. Ég var að skoða meðalaldur liðsins í leiknum og þá kemur í ljós að byrjunarliðið er 24,5 ára og liðið sem endaði leikinn 23,1 árs, þetta er þrátt fyrir að í liðinu hafi verið Carragher (34), Jones (30) og Downing (28).

  34. Umræðan um Doni var mikil í sumar og þá fengust þau svör frá m.a. blaðamönnum og Anfield Wrap-gaurunum á Twitter að Doni væri enn á mála hjá Liverpool en væri staddur í heimalandi sínu, Brasilíu, af fjölskylduástæðum. Síðast þegar ég vissi var hann enn þar og er ekki einu sinni að æfa með Liverpool, hvað þá líklegur til að spila leiki.

    Ég veit ekkert hvaða fjölskylduástæður þetta eru, enda er það einkalíf mannsins. Brad Jones æfði t.d. ekkert í einhverja mánuði fyrir ári þegar hann missti son sinn en er nú kominn aftur og orðinn #2. Kannski kemur Doni aldrei aftur til Englands, kannski er þetta tímabundið og svo birtist hann aftur. Við verðum bara að bíða og sjá til. En á meðan ég heyri ekkert nýtt geri ég ráð fyrir að hann sé ekki í myndinni fyrir neina leiki.

    Svo vonar maður bara að það sé ekkert alvarlegt í gangi hjá honum.

  35. Mér fannst líka mjög gaman að fylgjast með umgjörðinni í kringum þennan leik og stemmingin var gríðarleg. Svissneskur fótbolti er í mikilli sókn og hefur verið í nokkur ár þannig að við getum bara verið nokkuð glaðir með þennan sigur 🙂

    Hlakka gríðarlega til að sjá leikinn á sunnudaginn og er bjartsýnn á gengi okkar manna í honum og í næstu leikjum. Auðvitað er ekki nóg að halda boltanum en það er alveg klárt að á meðan við höldum boltanum að þá skora hinir ekki. Þetta verður bara betra hjá okkur og tíminn vinnur með stjóranum okkar.

  36. Doni er í heimalandi sínu vegna fjölskyldumála og sem betur fer hefur hann fengið að vera með þau algjörlega í friði, en engu að síður er hann á þeim leikmannalista sem skilað var til bæði FA og UEFA þannig að menn búast við honum tilbaka.

    Varðandi leikinn sjálfan þá var þar margt mjög jákvætt en sumt neikvætt. Það neikvæða var að þeir 4 sem voru lengst frá því að kallast einhverjir kjúllar, stóðu sig verst. Enrique var hreint út sagt afleitur og hef ég verulegar áhyggjur af þessari stöðu hjá okkur svona almennt séð. Það er ekki hægt að kenna honum einum um mörkin, en hann var ákaflega ótraustur og allar hættulegar sóknir andstæðinganna komu hans megin.

    Brad Jones fannst mér alls ekki sannfærandi og ég er algjörlega ósammála Magga með það að hann hefði átt að vera aftar í þriðja markinu, hann átti að vera löngu kominn í þennan bolta og dúndra honum í burtu. Hvað var hann að gera límdur á línunni þangað til sóknarmaðurinn náði valdi á boltanum? Carra var svo sá þriðji sem var algjörlega ekki að standa fyrir sínu. Í fyrsta markinu er Enrique að bjarga hans klúðri, og klúðraði svo eftirminnilega sjálfur og í þriðja lagi hefði ég haldið að Jones hefði átt að gala betur á boltann. Þeir áttu þetta þrír saman, þó svo að mistök Jose hafi verið stærst. Fjórði gamlinginn, Downing, átti svo ekki neitt sérlega góðan dag og það er skrítið að segja það vegna þess að líklegast verða skráðar á hann 2 stoðsendingar. Það segir okkur nú bara það að sú tölfræði segir oft ekki meira en hálfa söguna því mér fannst hann sístur af miðjumönnum okkar þegar kom að þátttökunni í spilinu.

    Frammi fannst mér Pacheco afleitur og er ég áður búinn að koma þeirri skoðun minni á framfæri að þessi strákur á ekki framtíð fyrir sér í topp level fótbolta, eins efnilegur og hann var nú. Það varð miklu meira líf í framlínunni þegar Borini kom inná.

    En það var mun meira jákvætt en neikvætt í leiknum. Ég er ósammála nokkrum hér fyrir ofan með Henderson, fannst hann verulega góður í leiknum og ég hugsa að Brendan sé yfir sig ánægður með hann. Hann var í holding hlutverki og gerði (að ég held) bara nákvæmlega það sem BR vildi að hann gerði, spila einfalt og ekkert vera í neinum Hollywood gír. Það gerði hann svo sannarlega og ég hef áður kallað eftir því að hann sé direct replacement fyrir Lucas í stöðu aftasta miðjumanns. Þar held ég að framtíð hans liggi.

    Sahin var flottur í leiknum og ég var líka ánægður með Suso. Maður er alltaf hræddur þegar svona efnilegir guttar koma á stóra sviðið, þ.e. hvernig þeir bregðast við, en hann gerði það afar vel. Sömu sögu er að segja um Wisdom. Ég er sannfærður um það að hann er búinn að klára möguleika Flanno um framtíð á Anfield og ég er einnig á því að það sé ekki langt í það að hann slái út Kelly. Þá er ég ekki bara að byggja á þessum eina leik sem fram fór í gær, Wisdom er búinn að vera að vaxa mikið sem leikmaður undanfarin ár.

    Svo verð ég að vera ósammála Magga með Assaidi. Fannst hann vera bara oft á tíðum mjög ógnandi og held að hann geti komið með gott impact fljótlega. Kemur inn með hraða sem okkur sárlega vantar á köflum og ég held að hann eigi eftir að valda miklum usla hjá bakvörðum í deildinni. Hann koðnaði aðeins niður þegar hann var færður yfir á hægri vænginn og Downing fór yfir á þann vinstri, en ég var mjög hrifinn af honum í sínum fyrsta leik.

    Varamennirnir komu svo með aukin gæði inn á völlinn, um það er enginn vafi. Shelvey á eftir að verða gríðarlega flottur fótboltamaður og ég minni menn bara á það að hann er einungis tvítugur að aldri.

    Flottur sigur og ánægðastur er ég með að þessir ungu strákar stungu sokknum rækilega upp í þjálfara Young Boys.

  37. Framtidin er bjort drengir minir. Hrikalga eiga Sterling og Shelvey eftir ad vera godir leikmenn fyrir okkur

  38. Sammála leikskýrslunni og að Pachecho hafi ekki verið að virka vel á mann í leiknum. Ég er þó á því að hann geti reynst liðinu vel, sérstaklega ef hann spilar sem supporting striker eða winger. Sést í u21 leiknum á móti chelsea fyrir viku að þar er hann miklu sterkari og meira ógnandi.
    http://www.footylounge.com/films//milankakabaros/dani-pacheco-v-chelsea-u21-14-09-2012-video_dae0b2dc7.html

    Þessi leikur eflaust ástæðan fyrir að hann fékk sénsinn í gær ogég væri til í að sjá hann í næsta evrópuleik en þá með borini eða yesil á toppnum.

  39. Fín umræða, langar að ræða tvo leikmenn.

    Annars vegar Jones, veit að hann er í miklu uppáhaldi hjá Steina vini mínum! Vissulega gerir Carra ekki vel, en við skulum átta okkur á því að sendingin fer innfyrir. Jones er ekki á vitlausum stað því þetta gerist snöggt. Reglan er einfaldlega sú hjá markmanni að ef að varnarmaður er með hlutina á sinni könnu, ekki hlaupa inn í þá. Enrique á tvo góða kosti. Annað hvort að dúndra í horn eða leggja boltann á markmanninn sinn. Í fyrstu snertingu auðvitað. Því klúðrar hann all hressilega og svo frekar en að reyna að pikka boltanum til hliðar og frá markinu þá reynir hann að snúa sér – og hvert? Inn í teiginn takk!!! Skelfileg ákvörðun eins og hægt er, skilur markmanninn sinn eftir í skít og lítandi illa út. Enrique er sökudólgurinn algerlega frá a-ö. Gordon Strachan reif hann í sig í hálfleik fyrir þetta mark og ég er algerlega sammála því. Í marki þrjú snúast svo mistökin við. Fyrst á Zahin að stoppa manninn á miðjunni og svo Carra. Þeir stinga innfyrir og Enrique er í eltingaleik (bendir meira að segja Jones aftar) og sóknarmaðurinn á ýmislegt eftir, Carra á siglingu inn að marki og meiningin þarna á að vera að þröngva sóknarmanni fjær markinu þannig að hægt sé að þrengja skothorn. Jones er vissulega sennilega of aftarlega í byrjun en þarna var Enrique ekki langt frá sóknarmanninum, en þar sem keeperinn var svo framarlega var málið klárað létt. En Jones átti svo fínar vörslur þar sem hann sló boltann langt frá marki og hirti marga krossa.

    Henderson fékk svo sérstakt hrós í hálfleik hjá Fowler og Strachan. Hann var dýpstur á miðjunni og stjórnaði spilinu þar. Sýndu nokkur innskot af því og svo þegar hann braut upp sóknir YB. Eftir leik töluðu þeir afar stutt en hrósuðu honum fyrir frábæra frammistöðu, hann væri með sendingahlutfall nálægt 95%, hefði sópað upp fyrir Coates þegar hann fór upp og svo væri hann með svo mikla yfirferð að DM-C hjá Liverpool hafi átt tvær stoðsendingar. Síðast gerðist það hvenær. Zahin töldu þeir enn vera að koma í gang en varnarvinnan hans væri ekki eins góð og hjá Hendo og hann ætti því að vera kostur í fjarveru Lucasar á undan Zahin.

    Ég veit ekkert með það, Hendo hefur átt afar misjafna leiki og ég ekki alltaf glaður með hann. En í gær átti hann klárlega mjög góðan leik, neita að skrifa uppá annað. Einhvern veginn virðist hann ætla að verða næsta útgáfa af leikmanni sem fer í taugar fólks og þá er honum ekki hrósað. Þó hann eigi góðan leik, ég er hérna ekki að tala um mína skoðun bara heldur Fowler og Strachan sem voru í settinu hjá ITV og Jim Beglin sem var að lýsa leiknum.

    En þá það…

  40. Þvílíkur sigur og ég bara get ekki annað en glaðst 5 mörk….5 mörk! Hvað er langt sían maður sá svona tölur í Liverpool leik og svo hef ég séð “besta” liðið okkar spilla miklu verr á móti liði í svipuðu styrleika flokk nú mega stóru strákarnir fara að passa sig nokkrir að banka fast á sæti í byrjunarliðinu 🙂

  41. Ég náði því miður bara seinustu 10 mínútum af leiknum en ég glotti þegar að lýsendurnir hjá mér komu með smá brandara um aldurinn á liðinu hjá okkur.

    ,,BR wanted to bring on Jonjo Shelvey to get a little more experience in to the team. He’s 20 years old!”

  42. Í marki nr 1 þá Á markmaðurinn að vera miklu aggressífari í því að kalla á boltann, sem hann augljóslega gerði ekki og í því að ná til boltans, hann leyfði boltanum bara að fara framhjá sér þegar að hann hefði getað gert árás á hann. Í 3 markinu þá stendur hann allt allt of aftarlega, hann er týpan sem er oftar á “hælunum” og bíður eftir boltanum, frekar en týpan sem er á “tánum” og sópar. Stærstu mistökin hans í marki nr 3 voru síðan þau að fyrst hann fór ekki og sópaði boltann, þá átti hann ekki að fara svona framarlega í manninn.

  43. Heyrdu vid unnum , skiptir ekki mali hvad hver atti ad gera og ekki ad gera
    Skorudum 5 mork 🙂 flottur leikur , hlakka til sunnudags held ad se stutt i ad allt smelli saman .

  44. Eru menn með eitthvað inside info á enska boltann um helgina?
    Ætla að sporðrenna einum 13 réttum og skella mér til Aruba.

    Hvernig væri svo að skella límbandinu á Gary Neville og vinna liðið 5-0 um helgina 🙂

  45. @ momo 58

    Ég get svo svarið fyrir það, ég skoðaði myndir af Shelvey á netinu til að vera viss um að þetta væri ekki hann 😛

  46. Það er staðfest að Classix Nouvveaux héldu heljarinnar hljómleika í London í maí 1991 c”,)

  47. Ég vil nú meina að Brad Jones hafi allan tímann ætlað að taka boltann í fyrsta markinu þangað til Erique snertir boltann mjög kjánalega og gæti talist sem sending ef Jones tekur hann upp. Þriðja markið lítur reyndar klaufalega út en þetta eru svo sem ekki það alvarleg mistök að það sé hægt að kenna honum um markið, langt frá því!

    Er að hugsa um að hella aðeins í mig… og vakna uppúr hádegi á sunnudag! Góðar stundir þangað til.

Liðið gegn Young Boys

Opinn þráður – Man Utd spjall