FC Anzhi frá Makhachkala

Eignarhald á knattspyrnuliðum í nútímafótbolta er orðið ansi flókið og það sem stuðningsmenn geta helst vonast eftir er að þeirra lið verði í höndum sterkefnaðs heimamanns sem jafnframt er eldheitur stuðningsmaður liðsins. Svona hefur þetta a.m.k. verið hjá einhverjum stuðningsmönnum Liverpool.

Hvort þetta hafi líka átt við stuðningsmenn FC Anzhi frá Makhachkala höfuðborg Rússneska lýðveldisins Dagestan skal ósagt látið en Suleyman Kerimov eigandi félagsins er a.m.k. fæddur og uppalinn í Dagestan og gekk í háskóla í Makhachkala. Margt er hægt að segja um þann umdeilda kappa en hann verður í það allra minnsta aldrei sakaður um að styðja ekki kröftuglega við bakið á sínu liði og raunar lýðveldinu í heild því með fótboltaliðið í fararbroddi vinnur hann að því í samstarfi við stjórnvöld í Dagestan að breyta ímyndinni sem það hefur og laga ástandið í landinu.

Til að skilja aðeins betur aðstæður þessa félags er nauðsynlegt að skoða aðeins hvaðan þeir koma. Rússlandi er skipt í 89 stjórnsýslueiningar sem hafa mismunandi mikið sjálfræði í eigin málum. Mest sjálfstæði hafa lýðveldin sem eru 21 talsins. Þau hafa eigin stjórnarskrá, þing og forseta en lúta Moskvustjórninni í utanríkismálum. Dagestan (Fjallalandið) er eitt þessara lýðvelda og er eitt af sjö lýðveldum sem staðsett eru í Rússneska(norður) hluta Kákasus. Tsjetsjenía er við hliðina á Dagestan sem ætti að gefa smá hugmynd um ástandið á þessum slóðum en átök Tsjetsjena og Rússa hafa oft borist yfir til Dagestan sem er nú ekkert friðsælt heldur. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur hefur ófriðurinn innan Rússlands verið hvað mestur á þessu svæði enda þarna ríki sem vilja komast undan stjórn Rússa. Nútíma átök á svæðinu má auðveldlega rekja allt aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar að minnsta kosti.

Það búa a.m.k. 36 þjóðarbrot í Dagestan, flest með sitt eigið tungumál og fæst þeirra eru sammála um nokkurn skapaðan hlut og hafa borgarastríð og hryðjuverk verið algeng á svæðinu undanfarin ár og áratugi. Átök milli glæpagengja, lögreglu og öfgahópa hafa verið mjög tíð, valdhafar eru sakaðir um bullandi spillingu. Þetta er mikið lögregluríki og er löggæslan sögð vera mjög óvægin og grimm.

Ástandið hefur þó eitthvað lagast í Dagestan en ekki meira en svo að knattspyrnulið borgarinnar á enn sem komið er afskaplega litla tengingu við borgina utan þess að spila heimaleiki í henni. Árið 2001 komst liðið í fyrsta og eina skiptið (til þessa) í evrópukeppni þar sem mótherjarnir voru Rangers. Vegna borgarastyrjaldar var ekki gefið grænt á að halda heimaleikinn í Rússlandi og hann því leikinn á hlutlausum velli í Póllandi.

Núna 11 árum síðar búa allir leikmenn liðsins í Kratovo sem er bær rétt fyrir utan Moskvu þar sem þeir æfa. Það fer ekkert illa um leikmenn Anzhi í Moskvu eins og sjá má hér.  Þaðan fljúga þeir síðan allar 1.200 mílurnar sem þarf að fara í heimaleiki og skv. Christopher Samba sem kom frá Blackburn er þetta tveggja tíma flug á fyrsta farrími síður en svo eitthvað vandamál fyrir leikmenn liðsins. Þar keppir eitt best launaða lið í heiminum um meistaratitilinn í landi sem meiri hluti íbúanna vill ekki vera partur af.

Það er óhætt að segja að FC Anzhi hafi sprottið upp úr þurru og komið á skítugum skónum inn á landakort knattspyrnuheimsins og líklega eru þeir ekkert að fara í bráð, þvert á móti ef eitthvað er. Suleyman Kerimov eignaðist liðið í janúar 2011 með því skilyrði að setja pening í það og byggja knattspyrnu á svæðinu upp. Hann er svo sannarlega að leggja sitt af mörkum við að hjálpa til heimavið og gefa íbúum svæðisins eitthvað annað til að hugsa um eins og lagt var upp með.

Kerimov er hagfræðingur sem var að vinna í verksmiðju í Dagestan fyrir 20 árum en efnaðist mjög fljótlega eftir hrun Sovétríkjanna. Hann keypti flugfélög, banka, námur og fleiri fyrirtæki sem hann átti í stuttan tíma og seldi með hagnaði. Hann er talin eiga mjög góð tengsl við Kreml þó hann þverneiti fyrir það sjálfur og átti greiða leið að lánsfjármagni hjá bönkum í eigu ríkisins sem hann náði að gera að pening mjög hratt. Löng saga stutt, hann nýtti tímann vel þegar Jeltsín var við völd og sala á ýmsum ríkiseignum var gerð frjáls.

Hann tapaði mjög miklu þegar rúblan hrundi árið 1998 og missti mikið af sínum auði þá. Hann dó þó ekki ráðalaus og vann sig í kjölfarið á þing. Margir telja það hafa verið frekar viðskiptalegs eðlis hjá honum til að styrkja tengsl við ráðamenn í Kreml heldur en vegna hugsjónar. Hann myndaði góð tengsl við (vafasama) stjórnmálamenn og fékk líka (að því er talið er) auðveldara aðgengi að arðbærum viðskiptasamningum í kjölfarið og var árið eftir m.a. búinn að eignast olíufyrirtæki sem kom honum aftur af stað.

Árið 2003 keypti hann hlut í Gazprom (með lánum frá ríkisbönkum) sem prentaði fyrir hann peninga og kom honum almennilega á kortið. Þá aura nýtti hann sér til að hasla sér meira völl á vestrænum markaði og var hann talinn eiga um $ 21 milljarða þegar hrunið varð árið 2008. Mestmegnis í vestrænum bönkum og er hann talinn hafa tapað um $17 milljörðum í hruninu! Hann hefur þó náð sér aftur á strik og er í dag talinn vera $7,8 milljarða virði sem gerir hann 19. ríkasta Rússann og þann 118.ríkasta í heiminum.

Það ríkir annars mikil dulúð yfir Kerimov, hann veitir nánast aldrei viðtöl en er virkur í samkvæmislífi þotuliðsins og heldur bestu partýin. Hann er týpan sem fær Beoncye og Amy Vínhús til að skutlast til Rússlands til að gaula fyrir sig í partýi…já og kaupir knattspyrnulið sem staðsett er (án gríns) milli Azerbaijan, Tjetjeníu, Georgíu og Kazakhstan  og ætlar að gera það að einu dýrasta knattspyrnuliði í heimi.

Það er margt hægt að lesa um Kerimov sem er eins og menn í hans stöðu eru jafnan, mjög umdeildur. Hann er a.m.k. klókur í viðskiptum eða nógu ógeðslega vel tengdur og ríkur til að standa af sér algjört hrun bæði heima fyrir og seinna í heiminum. Financial Times fór ágætlega yfir hans feril hérna.

Hver svo sem tilgangurinn var með kaupum og uppbyggingu FC Anzhi er þá er ljóst að hann er ekkert að grínast með þetta. Fyrsta verk hans var að kaupa hinn 38 ára gamla Roberto Carlos eftir að hafa séð hann skora glæsilegt mark í sjónvarpinu. Kappinn sá er núna yfirmaður knattspyrnumála hjá liðinu (hætti að spila í mars) og í þjálfarateymi Guus Hiddink sem var auðvitað fljótur að drífa sig til Kerimov og milljónana hans. Enda hatar Hiddink ekkert rússagullið. Reyndar tala leikmenn liðsins ekki mikið um peninga og segjast flestir vera þarna af hugsjón og til að taka þátt í spennandi uppbyggingu á svæðinu, ekki bara út af því að þeir fá svo vel borgað…einmitt.

Nokkrir misþekktir leikmenn úr boltanum í Evrópu og Braselíu hafa fylgt á eftir Carlos og flestir á fáránlegar upphæðir (kaupverð + laun), þeirra frægastur er auðvitað Samuel Eto´o sem er jafnframt sagður vera launahæsti leikmaður í heimi.

Hér má sjá þessa helstu sem hafa komið frá því í fyrra:

  • £23.7m Samuel Eto’o frá Inter
  • £15.8m Lacina Traore frá Kuban Krasnodar
  • £13.2m Yuri Zhirkov frá Chelsea
  • £12.3m Christopher Samba frá Blackburn
  • £12.3m Balazs Dzsudzsak frá PSV
  • £8.8m Jucilei frá Corinthians
  • £7m Mbark Boussoufa frá Anderlecht

Leikurinn gegn Liverpool verður spilaður í Moskvu en Kerimov vill auðvitað að liðið spili sína heimaleiki á heimavelli og er því að láta byggja nýjan 40.þús manna völl. Sá völlur verður rétt fyrir utan borgina en segja má að Kerimov leiði byggingu nýs borgarhluta og verður nýr völlur á því svæði með tilheyrandi aðstöðu, verslunum, hóteli og meðfylgjandi. Að auki opnaði á þessu ári fyrsta knattspyrnuakademían í Dagestan og er áætlað að opna mun fleiri á næstu árum ásamt því að gervigrasvellir spretta upp út um allt landið undir merkjum FC Anzhi.

Maður gæti ímyndað sér að heimavöllur Anzhi verði í framtíðinni fræg gryfja enda staðan hjá þeim núna þannig að leikmenn liðsins koma ekki til borgarinnar nema undir eftirliti ótrúlegrar gæslu.

Liðið er sem stendur í öðru sæti í deildinni heimafyrir eftir 14 umferðir stigi á eftir CSKA og tveimur stigum á undan Zenit. Þeir áttu heimaleik á sunnudaginn sem þeir unnu örugglega 3-0. Það er ljóst að uppgangur Anzhi litar Rússneska boltann verulega því að ef þið haldið að City og Chelsea séu óvinsæl á Englandi eftir þá leið sem þau lið komu sér á toppinn þá er það bara grín á við óvinsældir Anzhi.

Því það er ekki bara vegna skjótfengins gróða sem FC Anzhi er hatað af öðrum liðum í Rússlandi heldur líka vegna þess hvaðan þeir koma. Dagestan rétt eins og nágrannaríki þeirra í Kákasus eru langt frá því að vera ofarlega á vinsældarlista þjóðernissinna í Rússlandi enda skærur verið á milli í áraraðir. Það gerir val þeirra á heimavelli í Evrópu ennþá furðulegra enda líklegra að gestirnir fái meiri stuðning í Moskvu heldur en nokkurntíma leikmenn hins nýríka liðs Anzhi frá Kákasushéraðinu!

Þegar Anzhi mætti AZ á heimavelli Lokomotiv mættu stuðningsmenn Moskvu liðanna og bauluðu á leikmenn Anzhi og sungu níðsöngva um þá. Þegar Rússar mættu Serbum var baulað á Zhirkov allann leikinn en hann valdi að fara frekar til Anzhi heldur en til klúbbana í Moskvu.

Til að komast í riðlakeppni Evrópu þurftu þeir að leggja Honved frá Ungverjalandi, Vitesse og AZ frá Hollandi og það gerðu þeir með samanlagðri markatölu 15-0 þannig að það virðist ekkert há þeim að spila í Moskvu.

Í riðlinum hafa þeir tapað gegn Liverpool, unnið Young Boys og gert jafntefli við Udinese. Eins og áður segir hafa þeir sankað að sér leikmönnum fyrir mikinn pening en hafa verður í huga að það er mikið erfiðara að fá leikmenn í svona aðstæður og því hafa þeir verið að borga mönnum töluvert mikið meira en var í boði annarsstaðar. Af þeim sem við gætum þekkt á skrá hjá þeim eru menn eins og Eto´o, Lassanna Diarra, Christopher Samba, Yuri Zhirkov, Lacina Traore, Ewerton og Mbark Boussoufa. Bjóst nú við fleiri þekktum nöfnum en það ljóst að þeim gæti fjölgað mikið í næstu leikmannagluggum. Að auki eru þeir búnir að fjárfesta í góðum Rússneskum leikmönnum sem eru ekki endilega þekktir utan Rússlands.

Guus Hiddink er stjórinn og liðið spilaði hans bolta í síðasta leik gegn Liverpool, agaður og góður taktískur varnarleikur, sátu til baka og reyndu að loka í svæði milli varnar og miðju með tveimur djúpum miðjumönnum. Býst við þeim öllu sókndjarfari í þessum leik enda bæði á heimavelli og gegn veikara Liverpool liði. Reyndar ætti þessi leikur eins og áður segir nánast að teljast vera á hlutlausum velli enda ljóst að það verða ekki margir af aðalstuðningsmönnum FC Anzhi á þessum leik.

Það er reyndar alveg spurning hvað íbúar Dagestan hafa miklar áhyggjur af fótbolta enda liðið (í núverandi mynd) bara stofnað árið 1993 og hefur flakkað milli deilda síðan þá. Það er verið að skrifa þeirra sögu núna en fyrir mitt leyti held ég að það yrði erfitt að halda mikið með liðið sem byggi og æfði á Akureyri en spilaði heimaleiki sína á Selfossi, hvað þá þegar um mun lengri vegalengdir er að ræða.

Svona voru liðin í síðasta leik, lið Liverpool verður ekki eins, það er ljóst en ég hef auðvitað ekki grænan Guðmund um Rússana

Mynd, Tomkins Times

Þá að okkar mönnum sem fara  loks að sjá fyrir endann á öðru hörmungar ári. Gengið eftir áramót á síðasta tímabili plús byrjun þessa tímabils er klárlega eitthvað sem enginn er ánægður með. Ljósi punkturinn er auðvitað sá að núna erum við aðallega að glíma við vandamál innan vallar og helsta áhyggjuefnið er hvaða leikmenn koma í næsta glugga. Ekki hvort liðið sé að fara á hausinn eða fjölmiðlaóveður í kringum klúbbinn líkt og á síðasta ári (og þessu). Mín tilfinning er sú að þrátt fyrir dapurt gengi er ekki svo gríðarlega margt sem þarf að gerast til að skútan rétti sig af aftur og m.v. undanfarin ár finnst mér eins og það sé aðeins að lægja í kringum Liverpool. Meira að segja búið að tilkynna að vinna við heimavöllinn sé í góðum farvegi og Hillsborough málið stefnir loksins í allt annan og betri farveg.

Nýr stjóri er búinn að vera með liðið í 3 mánuði (af tímabili) og fékk alls ekkert draumastart neitt en hefur blessunarlega ennþá stuðning langflestra stuðningsmanna Liverpool. Liðið er að glíma við nokkur af sömu vandamálum síðasta tímabils og það er ljóst, hvort sem það skrifast alfarið á Rodgers, eigendur eða báða að hann náði ekki að styrkja liðið í sumar. A.m.k. alls ekki nógu vel. Til lengri tíma gætu þessir mótunarmánuðir reynst okkur mjög vel og verið sá fórnarkostnaður sem við þurftum að taka til að losa út á einu bretti dýra menn sem skiluðu litlu fyrir unga leikmenn sem þurfa spilatíma og traust til að nýtast klúbbnum til framtíðar.

Það er ljóst að fyrir leiki eins og gegn FC Anzhi þá saknar maður að hafa ekki Dirk Kuyt, Bellamy, Maxi, Adam og Carroll. Auðvitað vegna þess að maður missir ekkert svefn yfir Europa League, vill ekki að lykilmenn meiðist í þessari keppni og sá þessa leikmenn sem kosti þarna. Enginn af þessum mönnum hefði samt verið að spila mikið í aðal byrjunarliði Liverpool núna. Þetta er töluverð pollýönnu hugsun en vonandi skila þessir mánuðir okkur mönnum eins og Shelvey, Suso, Sterling, Wisdom og fleirum mun fyrr heldur en ella sem alvöru byrjunarliðsmönnum. Þó ekki væri nema 2-3 af þessum kjúklinum.

Reyndar eigum við svosem alveg tiltölulega sambærilega menn og þá sem ég taldi upp á lager. Henderson er í það minnsta alls ekki verri heldur en Adam og ætti að koma inn í þennan leik (Sahin er vanalega í byrjunarliði og tel ég hann ekki með í þessu tilviki). Shelvey kemur líklega líka inn ofarlega á miðjuna sem gæti þá verið í stað Maxi. Downing, Cole og Assaidi eru til á lager núna í stað Kuyt og Bellamy áður sem segir kannski bara mest um kantspilið hjá Liverpool undanfarin ár. Aðal höggið er frammi en þar er það Borini sem kom inn í stað Carroll og það hjálpar okkur ekkert á morgun.

Það verður engu að síður að fara horfast í augu við það að staðan í deildinni er ekki ásættanleg. Ef Rodgers vill halda stuðningsmönnum góðum og hvað þá eigendum þá þarf liðið vera ofar en í 12.sæti eftir næstu 10 leiki í deildinni og það gerist ekki ef við ætlum að nota lykilmenn í Rússlandsferðir skömmu fyrir (og reyndar eftir) stórleik í deildinni. Þeir sem segja að þeir vilji bara vinna allar keppnir og nota besta liðið alltaf eru nákvæmlega þeir sömu og röfla svo yfir meiðslum lykilmanna í svona leikjum.

Glen Johnson sem verið hefur einn besti leikmaður Liverpool í vetur fór útaf í hálfleik gegn FC Anzhi í síðasta leik og hefur ekki spilað síðan. Hans var mjög sárt saknað gegn Everton og Newcastle, bæði leikir sem mjög gott hefði verið að geta hvílt Wisdom sem átti í miklu basli á köflum, sérstaklega gegn Everton þar sem hann fór að lokum útaf fyrir Henderson.

Reina meiðist á sama tíma með landsliðinu sem er mögnuð óheppni enda bara varamarkmaður þar, en það breytir því ekki að þarna er búið að fokka laglega upp varnarlínu Liverpool sem var rétt svo farin að ná sér á strik og halda hreinu. Við megum einfaldlega ekki meiru af slíku og síðustu leikir eru fínt dæmi um glötuð stig, vantaði herslumuninn upp á að fá 4 í viðbót.

Fyrir utan Reina myndi ég segja að þeir leikmenn sem við mættum allra síst við því að missa núna eru Agger, Allen og auðvitað Suarez. Gerrard er klárlega ennþá gríðarlega mikilvægur líka en hann hefur ekkert verið að taka leiki yfir eins og hann er þekktur fyrir og að mínu mati værum við í verri málum akkurat núna ef einhver hinna þriggja myndi bætast við meiðslalistann. A.m.k. vill ég ekki sjá neinn þeirra í leiknum á morgun. Reyndar vona ég að þeir 11 sem byrja gegn Chelsea á sunnudaginn verði eftir á Melwood en svo hressilegan skít gefur Rodgers líklega ekki í þessa keppni.

Hef ekki séð hópinn sem fer út þegar þetta er skrifað og giska á þetta byrjunarlið:

Jones

Wisdom – Carragher – Coates – Enrique

Henderson – Sahin

Downing – Shelvey – Assaidi

Morgan

Vona að Johnson verði kominn í næsta leik og m.v. þetta lið væru það bara Sahin og Enrique sem ég myndi sjá fyrir mér spila líka þann leik. Reyndar er ég alveg 50/50 hvort heill Enrique slái Wisdom úr liðinu.

Spá: 
Núna held ég að það liðið sem hefur betri sóknarmann vinni og með Suarez á Melwood er ljóst að það er ekki Liverpool. Segi 2-0 fyrir “heimamenn” og Eto´o skorar bæði.

30 Comments

  1. Afsaka ef þið rambið á mikið af stafsetningar og/eða málfræðivillum, náði ekki að lesa þetta yfir. Hressilegt lið þetta Anzhi lið!

    Annars valtaði þessi upphitun yfir opin þráð hér að neðan og þetta komment sem var að finna þar, endilega kíkið á það.

  2. Risa þumall á frábæra upphitun og einnig á frábært comment frá Hafsteini!!

  3. Frábær upphitun eins og vanalega, kúdos á þig Babu.
    Mín spá: 1-2, Sahin og Shelvey skora.

  4. Ég ætla að vera sammála spánni hjá Babú og kvitta undir 2-0 tap.

    En góðu fréttirnar eru þær að Glen Johnson er kominn aftur til æfinga skv. Twitter og hann, Agger, Skrtel, Gerrard, Suarez og Sterling voru allir hafðir í sér hóp á æfingu í morgun þannig það er klárt að þeir eru ekki að fara til Rússlands.

  5. Sælir félagar

    Frábær upphitun og engu við hana að bæta. Spáin raunsæ og geri ekki athugasemd við hana heldur.

    Ljóst er að lykilmenn verða hvíldir og því bíður okkar manna erfitt verkefni sem þeir verða að komast frá með sæmd þó allar líkur hnígi að því að leikurinn tapist nokkuð örugglega.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  6. haha þetta var nú meiri upphitunin 😀 Takk Babu

    Einn sem ekki veit en er gervigras á þessum velli ?

  7. Nr. 7

    Nei þetta á að vera fínasti grasvöllur bara. Nokkuð flottur völlur held ég. ![][1]

  8. Hópurinn samkvæmt mbl.is:
    Jones, Wisdom, Carragher, Coates, Robinson, Shelvey, Henderson, Cole, Downing, Yesil, Assaidi, Gulacsi, Ward, Flanagan, Sama, Wilson, Coady, Suso, Morgan.

  9. Ef þetta er réttur hópur þá er ljóst að U-21s árs liðið hefur lítil tengsl við aðalliðið.

    Wilson var arfaslakur gegn Wolves og ég skil ekki hvers vegna Pacheco og/eða Ngoo fá ekki að fara með í kjölfar frammistöðu sinnar.

    Hundósáttur við að sjá Cole fara með…en glaður að sjá að byssurnar eru geymdar heima.

  10. Frábær upphitun… er þetta sú lengsta í sögu kop.is?? Eruð þið ekki örugglega með svona á hreinu? 🙂

    Spái 2:1 fyrir heimamenn og við skorum ekkert af mörkunum…

  11. Ngoo fékk ekki landvistarleyfi í tækjatíð.. Pacheco var að vissulega góður á móti wolwes u21 en finnst hann ekki búinn að vekja of mikla lukku með aðalliðinnu.. ´tti kannski að nýtast með hraðan hans á móti CS.. en annars frábær upphitun að vanta..

  12. Hlaut að vera, Pacheco í hópnum og klúður með passann hjá Ngoo. Auðvitað á að skoða þetta U-21s árs lið, allavega ekki velja þá sem leika ekki vel en geyma þá sem leika vel.

    Vill svo heldur betur fara að sjá Ngoo í einhverjum stærri leikjum…og Pacheco var að spila efst uppi á toppi í seinni hálfleik gegn Úlfunum, þar á að prófa hann. Ekki á vængjum eða á miðjunni. Þar virkar hann ekki, en uppi á topp hefur hann ekki enn verið prufaður….

  13. Babu, ef ég væri með hatt á mér meðan ég skrifa þetta myndi ég taka hann ofan fyrir þér.

    Svona metnaður við skrif á bloggsíðu er aðdáunarvert.

    áfram Liverpool og áfram Kop.is.

  14. Samkvæmt **@Alan_LFC1** á Twitter sem er *alltaf* með rétt byrjunarlið er þetta byrjunarliðið á morgun:

    Jones

    Flanno – Wisdom – Carra – Coates – Downing

    Shelvey – Henderson – Coady – Cole

    Morgan

    Gríðarlega varnarsinnað lið og nánast engin sókn í boði. Ég held að Rodgers sé að meta þetta hárrétt, í ljósi þess hverjir voru skildir eftir heima til að gefa Chelsea-leiknum forgang þá erum við bara aldrei neitt annað en miklir underdogs í þessum leik. Spilað upp á jafnteflið. Ekki það sem maður vildi helst sjá en rétt mat á stöðunni held ég.

  15. Vonumst til að Lucky Leiva komi sem fyrst til baka þá á margt eftir að breytast.
    Ég spái stöðunni í leiknum 2-1 fyrir Liverpool
    YNWA

  16. Snilldar upphitun, það er einfaldlega lúxus að hafa aðgang að svona frábærum pennum.
    Mér finnst þessi leikur vera algjört aukaatriði og er sáttur að skilja lykilmenn eftir þar sem að leikurinn um helgina er einfaldlega miklu mikilvægari.

  17. maggi #14
    Hann var notaður upp á toppi í 5-3 sigrinum á Young Boys og gat ekki neitt og var skift útaf á 61 mín fyrir Fabio Borini… en aðsjálfsögðu á hann að fá sjéns meira upp á toppi eins og Morgan og Yesil..
    http://liverpool.is/Season/MatchReport/3801

    tekkið úr skýrslunni sem þú skrifaðir sjálfur eftir þennan leik hans á toppnum..

    Assaidi, Pacheco og Downing áttu dapran dag, Assaidi auðvitað í fyrsta leik og ég hef áður minnst á hann. Pacheco er enn draumur í hugum margra en ekki neitt í kvöld breytti þeirri skoðun minni að hann er alls ekki nógu góður leikmaður til að spila fyrir LFC og húðlatur að auki.

    http://www.kop.is/2012/09/

  18. Ég kom heim úr vinnu og um klukkan 17:00 hrekk ég í kút og kveiki á sjónvarpinu og finn leik Liverpool og Anzi og vá staðan var 1:0 ég hringi í manninn minn og segi honum (garga) í símann að við séum búin að skora og staðan sé 1:0. Það var löng þögn svo segir hann ” leikurinn er á morgun, horfðu aðeins betur á myndina stendur ekki Liverpool á undan?” Jú mikið rétt ég var að horfa á fyrri leikinn en mikið djö…var ég ánægð á meðan ég vissi ekki betur.

    Frábær upphitun sem boðið er uppá eins og alltaf. Að sjálfsögðu vinna mínir menn held því fram þar til annað kemur í ljós. Kannski var þetta fyrirboði í dag.

    Þangað til næst
    YNWA

  19. @ Kristján Atli #17

    Gaf hann nokkuð upp í hvaða stöðum menn væru? Ég myndi frekar gera ráð fyrir að annaðhvort Wisdom eða Flanno yrði fórnað í vinstri bakvörðinn og Cole og Downing væru á sitthvorum vængjunum þó ég vilji ekkert fullyrða neitt. Gæti líka virkað að hafa þessa fimm manna vörn og Downing og Flanno með “license” til að sækja. Ég hélt að Rodgers vildi vinna eftir ákveðnu kerfi, hefur hann nokkuð spilað eitthvað annað en þetta klassíska 4-3-3 (4-5-1)?

  20. Ég er sammála Sigmundi Davíð, reikna með að hann haldi sig við að byrja með sitt 4-3-3 kerfi með Wisdom í hægri bak og Flanno í vinstri bak, Cole og Downing á köntunum, Coady djúpur á miðjunni og Henderson og Shelvey þar fyrir framan.

    En til að svara spurningu Sigmundar þá notaði Brendan 5-3-2 eða 3-5-2 í seinni hálfleik á móti Everton og gekk það ágætlega þó að Everton hafi vissulega fengið að hafa boltann meira en við.

    En miðað við þá sem hann virðist ætla að stilla þarna upp reikna ég með 10-11 breytingum fyrir Chelsea leikinn. Eina spurningin verður væntanlega hvort Reina og/eða Johnson verði orðnir heilir.

  21. Verður áhugavert að fygjast með hvernig Rodgers nálgast leikinn og hvernig hann vill að leikmennirnir spili. Að fara með þennan hóp til Moskvu og spila í miklum kulda á móti hörðu Anzhi liði, þá hlýtur hann að vera sáttur við varnarbolta og að ná jafntefli.
    En ef hann sleppir strákunum bara lausum og segir þeim að spila þann bolta sem búið er að æfa, sama hvað, þá fær hann mitt ‘respect’.
    Kæmi mér þá ekki á óvart að við myndum tapa leiknum en ég vil sjá þetta hugarfar sem maður hefur ekki séð hjá Liverpool í áratugi að fara í alla leiki sem lið sem “á” vinna og vera með þetta ‘swagger’ að óttast ekki neinn andstæðing og neinn útivöll.
    Þetta er hugarfarið sem við sjáum öll topplið hafa og er nauðsynlegt til að ná árangri í boltanum í dag.

  22. Hvar hefur Flanno verið ? Gaman að sjá hann aftur koma inn í liðið og verður forvitnilegt að fá að sjá Wisdom loksins í sinni stöðu með Carra sér við hlið. Gæti orðið áhugaverður leikur í dag en ég efast um að ég horfi á hann allan, fer eftir hvernig gengur.
    En jafntefli yrðu góð úrslit, sigur yrðu frábær úrslit en ég býst ekki við miklu. 0-0 segi ég og það fer langt með fleyta okkur áfram.

  23. @25 Örn (Fuglinn)

    Mig minnir að BR hafi verið óánægður með hugarfar Flanagan frysti hann útaf því. Wisdom líka 10x betri en hann að mínu mati, rugl hvað við erum með marga leikmenn sem geta spilað hægri bakvörðinn, tveir bestu ungu eru samt upphaflega CB.

  24. Jón Bragi, það er ekkert rugl hvað við eigum marga, ef ég skil fótbolta rétt þá er bakvörður einfaldasta staðan á vellinum og allir geta leikið hana eiginlega 😉 Svona svipað og með hornamann í handbolta, skít létt staða 🙂

  25. Örn, það er örugglega ekkert létt að dekka marga af þessum leikmönnum sem spila á köntunum. Maður þarf líka helst að vera snöggur eða öruggur sem varnarmaður og ekki skemmir fyrir að geta gefið fyrirgjafir.

    Það skiptir ekki máli hvort að staðan sé létt, þú þarft samt að vera góður til að geta ‘meikað’ það í fótboltanum. 😉

  26. Ætla nú að vona að Assaidi byrji frekar en vinur minn og drykkjufélagi, Joe Cole

Beðið eftir flugi og U-21 – opinn þráður

Liðið gegn Anzhi Makachkala