Um Manchester United

Ath.: Liverpool bloggið er á Facebook og Twitter. Endilega fylgist með okkur þar.


Það eru þrír dagar í stærsta leik tímabilsins hverju sinni á Englandi. Sumir mótmæla því, sérstaklega þegar annað þessara liða er í lægð, en sögulega séð eru tveir klúbbar afgerandi stærstir á Englandi og það vill svo til að þeir eru staðsettir í nágrannaborgum og bera hreint hatur til hvors annars. Þessir leikur eru eins og bikarleikir – það er alveg sama hvort liðið er ofar í deildinni eða hvoru liðinu gengur betur, það er allt undir og stuðningsmenn beggja liða hata það miklu, miklu meira að tapa fyrir hinu liðinu en nokkurn tímann að tapa fyrir Everton, Manchester City eða einhverju öðru liði.

Við hitum að sjálfsögðu almennilega upp fyrir stórleikinn þegar nær dregur en það er sjálfsagt að líta aðeins um öxl. Liverpool Bloggið er að verða níu ára gamalt og það hefur ýmislegt verið skrifað um Manchester United á þessari síðu í gegnum árin. Það er hægt að skoða færslusafnið hér til hægri eða einfaldlega að setja inn leitarorð eins og “manchester united”, “man utd” eða “ferguson” í leitargluggann efst á síðunni og skoða sig í gegnum sögu Liverpool Bloggsins. Ég hef hins vegar tekið saman nokkra helstu pistlana síðustu árin. Hér eru, í tímaröð, nýlegir pistlar okkar þar sem erkifjendurnir komu við sögu:

22. sept. 2012: Upphitun fyrir fyrri leik tímabilsins, á Anfield.
23. sept. 2012: Við 1 Þeir 2 – Leikskýrsla fyrir fyrri leikinn þar sem við vorum vægast sagt ósáttir.

31. júlí 2012: Kop.is Podcast, United-útgáfa.

Ef þið eruð haldin sjálfspíningarhvöt…
20. desember 2011: Suarez dæmdur í 8-leikja bann. Fyrsta af þremur færslum sem við skrifuðum um málið á þeim tíma.
22. desember 2011: Um Suarez-bannið. Við rituðum stuðningsyfirlýsingu eftir að dómurinn féll og stöndum í dag við hvert orð sem þarna var skrifað.
12. febrúar 2012: Suarez og Evra, eftirmáli. Einar Örn skrifaði síðasta pistilinn um málið eftir leik liðanna á Old Trafford í fyrra.

9. janúar 2011: Howard Webb 1 Liverpool 0. Þegar tilkynnt var í upphafi þessarar viku að Howard Webb eigi að dæma leikinn á sunnudaginn kemur brugðust margir Púllarar illa við, þar á meðal ég. Menn rakti minni til þess að Webb hefði oftar en ekki verið United hliðhollur í leikjum liðanna, sérstaklega á Old Trafford. Þessi grein á EPL Index, birt í gær, afsannaði þær kenningar og fyrir vikið spurðu menn sig hvernig stæði á því að okkur sé svona illa við Webb. Svarið er einfalt: hann eyðilagði endurkomu King Kenny fyrir tveimur árum þegar hann féll í gryfju leikarans Dimitar Berbatov (sem nota bene spilar fyrir Manchester United og var ekki fordæmdur af stjóra sínum fyrir leikaraskap) og gaf þeim sigurvítið, auk þess að reka Steven Gerrard út af á umdeildan hátt. Þannig að þótt Webb sé tölfræðilega mjög sanngjarn á milli liðanna hefur það gerst a.m.k. einu sinni að hann bregðist við pressunni á Old Trafford með röngum dómi. Við sjáum hvað setur á sunnudaginn kemur.

14. mars 2009: United 1 Liverpool 4. Einn besti sigur í sögu klúbbsins á Old Trafford og fyrir vikið misstum við okkur aðeins, bæði í leikskýrslu og ummælum. Enda er ekkert skemmtilegra en að vinna svona stórsigra á OT og ef það myndi gerast aftur á sunnudaginn kemur (líklega ekki, samt) myndi það hreinlega gleðja mann út árið.

15. janúar 2009: Us and Them. Fyrri pistillinn sem ég skrifaði fyrir FJÓRUM ÁRUM (tíminn flýgur) þegar ljóst var að við yrðum í tveggja liða titilbaráttu við erkifjendurna.
9. febrúar 2009: Us and Them, pt. 2. Seinni pistillinn sem ég skrifaði um þá titilbaráttu, áður en Liverpool rétti úr kútnum og fór á flug sem skilaði metárangri í stigum í Úrvalsdeild en dugði því miður ekki til.

20. maí 2008: Gullöld enskra liða í Evrópu. Pistill skrifaður þegar United og Chelsea voru að mætast í úrslitum Meistaradeildarinnar. Pælingar um stefnu enska boltans eftir að Abramovich kom inn í deildina.

Það eru margir fleiri pistlar sem vert er að skoða ef menn vilja hita sig vel upp. Þá mæli ég einnig með þessum pistli á The Kop-bloggsvæði opinberu síðunnar þar sem Ryan Levis skrifar vel um ríginn milli þessara tveggja liða.

Það styttist í stóra leikinn og þótt maður sé ekkert sérstaklega bjartsýnn þetta árið er alltaf gaman að láta sig dreyma. Vonandi verður þetta eftirminnilega óvænt á sunnudag. Þeir hata ekkert meira en að tapa fyrir okkur og að sama skapi eigum við eftir að fela okkur fyrir United-mönnum næstu vikurnar ef þeir vinna þennan leik.

Krossleggjum fingur og tær.

16 Comments

  1. Ég ákvað að kickstarta upphituninni fyrir þennan leik. Ég býst við tapi en er samt einhvern veginn undarlega spenntur fyrir þessum leik. Skil ekkert í sjálfum mér. 😉

  2. Maður verður nú bara sorgmæddur við að lesa pistilinn Us and them nr. 2.

    Þetta sumar sem fylgdi í kjölfarið varð upphafið að endinum hjá Benítez enda ljóst að loforð þessara andskota Hicks og Gillett stóðust ekki varðandi leikmannakaup. Peningarnir fyrir Keane voru ekki til staðar þegar Benítez bankaði á dyrnar til að fá þá ávísun afhenta…

  3. Þetta er stórskemmtilegt Kristján Atli. Ég rúllaði yfir sumar af þessum greinum og sérstaklega yfir leikskýrsluna eftir 4-1 sigurinn. Best var samt þegar ég skrollaði létt yfir kommentin að þar kom í alvöru fram einstaklingur sem vildi ræða það hvort þyrfti ekki að reka Rafa 🙂 við á þessum tímapunkti 4 stigum á eftir utd í deildinni ef ég skildi þetta rétt. Tímarnir hafa svo sannarlega breyst og þessi “semi gullöld” sem Rafa færði okkur með raunhæfum titla möguleika, meistaradeildartitli, bikartitli og áskrift að meistaradeildinni eingöngu fjarlægur draumur í dag.
    Það hlýtur að breytast á sunnudaginn og við grísum einum helvítis sigri á þetta helv. utd. lið. Sætti mig við 1-0 eftir sjálfsmark frá De Gea.

  4. Frábær samantekt hjá þér… Og mikið svakalega var gaman að lesa skýrsluna eftir 1-4 leikinn…. Það var stórkosleg ölfun i gangi þegar leikskýrslan var samin 😉 good times 😉

  5. Ég frétti af þessari síðu fyrir ca 2 árum og hafði því ekki lesið leikskýrsluna eftir 1-4 leikinn. Hún er náttúrulega alger snilld og ætti í raun að vera útprentuð og í ramma hjá öllum púllurum.

  6. Er samt ekki alveg pottþétt að KAR skrifi ekki skýrsluna??? Verðum að nota allt sem við getum til þess að vinna tyggjókallinn og liða hans og ætla ég að koma með uppástungu að KAR skrifi ekki þessa skýrslu (ekki það að ég hafi neitt á móti þér elsku kallinn) en það hefur loðað doldið við þig að skýrslur þínar enda alltof oft með tapi 😉

    Mitt glas er samt stútfullt og held ég að Suarez setji eitt ef ekki fleiri í öruggum sigri !

  7. 1

    Skilurðu ekkert í þér að vera spenntur fyrir Utd einvíginu? 🙂

    Ekki lagi með þig, maður!?! 🙂
    Ekkert skemmtilegra á tímabilinu en leikirnir við Utd og maður er alltaf spenntur fyrir þeim. Þó maður sé ekki eins bjartsýnn og áður þá veit maður aldrei. Liverpool er allt eins líklegt að koma með “óvænt úrslit” núna um helgina. Það er bara ekkert pláss fyrir andleysi í þessum einvígjum og því getum við alveg náð jafntefli, jafnvel sigri, á sunnudaginn.

    Koma svo! Það eru þessir leikir sem maður er spenntur fyrir. Ekki heimaleikur gegn Reading. 😀

  8. Vitanlega er líklegra en ekki að ManU vinni leikinn ef litið er á hreina tölfræði. Bæði lið hafa spilað 21 leik. Ef miðað er við alla unna leiki eru vinningslíkur ManU 83% en LFC aðeins 38%. ManU hefur leikið 10 leiki heima og unnið 9 þeirra eða 90%. LFC spilað 10 leiki úti og unnið 3 þeirra eða 30%. Væntigildið er s.s.ekki með okkur dömur og herramenn.

    En bjútíið er að þetta skiptir engu máli. Þessi tölfræði segir nákvæmlega ekkert um hvernig leikurinn á sunnudaginn fer. Klárlega eru líkurnar ManU í hag það vita allir. Þversögnin er samt sú að ef leikmenn ManU fara að hugsa eins og almenningur eru þeir jafnframt að minnka líkurnar á sigri. Vanmat á andstæðingnum er hugsanlega algengasta ástæða óvænts ósigurs.

    Ekki svo að skilja að ég telji að jafn leikreynt lið og ManU geri slík byrjendamistök en maður veit þó aldrei. Það er mikill hroki í leikmönnum eins og Evra og RVP sem getur slegið til baka í svona leik. Þá er X faktor í þessu spennan á milli Suarez og Evra. Hvort liðið tæklar þá spennu betur? Suarez er ekki að fara að vinna nein háttprýðisverðlaun en flestir viðurkenna að allt of langt var gengið á hans hlut. May the Force be with you Mr. Suarez!

    En vitanlega er það frammistaðan inni á vellinum á sunnudaginn það sem skiptir mestu máli. Ég hef horft á nokkra leiki með ManU og fullyrði að þeir eiga litla möguleika á móti t.d. Real Madrid yfir 10 leiki. Sálræna hliðin er hins vegar sterk þegar á reynir og gott dæmi um það var leikurinn við West Ham í FA. Hamrarnir voru fínir í 85 mínútur en hættu að hlaupa og svo kláraði RVP þá í blárestina. ManU er að knýja fram úrslit á síðustu 10 mínútunum gang paa gang sem er vitanlega bull og óþarfi.

    Kalt mat; ég tel líklegra að ManU vinni en ég tel samt að LFC eigi töluverða möguleika. Margir óvissuþættir spila inn í þennan leik umfram hefðbundin leik og margir þeirra geta gagnast okkur. M.a.s. Howard Webb veit að umdeildar ákvarðanir í garð LFC munu elta hann uppi um árabil.

    Alla vega ég ætla að leyfa mér töluverða bjartsýni uns annað kemur í ljós (þessu fylgja 3 högg á tré).

  9. Skemmtileg upprifjun að lesa yfir þessa pistla og commentin, maður man vel eftir hverjum og einum þeirra á sínum tíma. Ykkur verður þá seint hrósað nóg fyrir skrif ykkar í gegnum tíðina, algjörlega magnað að hafa þetta blogg.

  10. Sæl öll.

    Vanalega verð ég óróleg 1-2 dögum fyrir leik en núna hef ég ekki getað hugsað skýrt frá því við unnum Mansfield. Ég les og leita að einhverju bara einhverju sem gæti haft áhrif á gang mála. En ég ætla að treysta mínum mönnum og eins og alltaf trúi ég á sigur okkar manna. EN ég ætla samt að heita á mína kirkju, alla þá dýrlinga sem ég get grafið upp, ég ætla að byrja að drekka kók í dag svo ég geti lofað að hætta ( ég hætti þegar við unnum síðasta deildarleik) ég ætla að gera allt eins og vanalega fyrir sigurleik og leggja þannig mitt af mörkum.

    Ég las allan pistilinn og alla pistlana inni í pistlinum og fór upp og niður allan skalann þessar upphitanir eru alveg dásemdin ein og engin sannur Poolari getur lifað án þeirra.

    Kæru félagar sendum stuðningkveðjur til okkar stráka og allra góðra vætta.

    Að venju vinnum við leikinn með fleiri mörkum en andstæðingurinn.

    Þangað til næst YNWA

  11. Vidic fær rautt að vanda og við vinnum naumann 1-0 sigur með marki frá Gerrard úr víti.

  12. Voðalega eru allir neikvæðir fyrir þennan leik. Ef við spilum eins og við gerðum á móti Arsenal eða Tottenham þá eigum við ekki von á góðu en ef drengirnir mæta á Old Trafford Spila eins og þeir gerðu á móti City eða með ManU (fyrstu 40 mín) Fullir sjálfstrausts og halda einbeitningu í 90+5 mín þá geta þeir valdið usla. Fínn tími til að mæta þeim. Liverpool eru á rönni og vilja sýna hvað býr í þessu liði og setja í leiðinni tóninn fyrir restina af þessu tímabili. Shrek meiddur og Vidic ekki kominn í form. Hann fær að sjálfsögðu rautt spjald og við við tökum þetta 0-2. Sturridge og Suarez.

  13. Ég verð að segja ég er steinhissa á því hversu stór hluti Liverpool aðdáenda er svartsýnn fyrir þennan leik. Persónulega er ég mun svartsýnni fyrir leiki á móti Stoke en á móti nokkru öðru liði í EPL.

    Liverpool-Mutd er baráttuleikur þar sem leikmenn þurfa að sýna sínar bestu hliðar en oftar en ekki sýna leikmenn Liverpool sýnar bestu hliðar í leikjum sem þessum.

    Leikurinn fer 1-3 fyrir Liverpool enda hefur verið vaxandi í vörninni (og spilamennsku heilt yfir) hjá okkur en utd verið að leka inn of mörgum mörkum.

  14. Glasið er bara fullt fyrir þennan leik takk fyrir. Verður hörkuleikur sem fer 1-2 fyrir okkur ! Gerrard með 1 Suarez með hitt takk fyrir !

  15. Já mér líst mun betur á þennan leik heldur en stók leikinn um daginn. Það er líka öll pressan á manjú og þeir eru bara aumingjar ef þeir vinna ekki liðið sem þeir gera óspart grín að… Ekki satt? 🙂

U-19 áfram í NextGen

Að metast við United-menn