FC Zenit frá Saint Petersburg

FC Zenit, mótherjar Liverpool í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar koma frá St. Petersburg, næst stærstu borg Rússlands og einni sögufrægustu borg í heimi. Borgin er skýrð í höfuðið á dýrlingnum sankti Pétri og var byggð upp af nafna hans, Pétri mikla Rússlandskeisara sem lét byggja borgina frá 1703 er hann hafði náð völdum á svæðinu. Hann hafði þá nýlega verið á 18 mánaða ferðalagi um Evrópu og vildi byggja hafnarborg í Evrópskum stíl í tilraun sinni til að nútímavæða Rússland. Hún yrði gluggi Rússlands að Evrópu á vesturströnd landsins.

Það tókst honum og borgin er í ennþá í dag “vestrænasta” borg Rússlands og skipaði sér sess meðal helstu menningaborga álfunnar fyrir byltinguna 1917. Eins og flestir vita hefur sitthvað gengið á frá stofnun og til dagsins í dag. Pétur mikli gerði borgina að höfuðborg landsins sem og hún var allt til ársins 1917 er Bolsevikar náðu völdum í Rússlandi undir stjórn Vladimír Lenin. Nafni borgarinnar var breytt í Leníngrad árið 1924, fimm dögum eftir dauða Lenín og hélt því nafni til ársins 1991 er Sovétríkin féllu og upprunalega heitið var tekið upp að nýju. Þjóðverjar lögðu mikla áherslu á að ná borginni í seinni heimsstyjöldinni og héldu henni í 872 daga. Umsátur Þjóverja um Lenígrad var einn blóðugasti bardagi sögunnar þar sem um 1.250.þúsund manns féllu ýmist í bardögum eða úr hungri og pestum. Íbúafjöldinn fór úr 3 milljónum í u.þ.b. 600.þúsund á þessum tíma og borgin var nánast lögð í rúst.

Liverpool - Pétursborg

Íbúafjöldinn í dag er rétt tæplega 5 milljónir og er borgin nokkuð vel staðsett í Rússlandi upp á ferðalag að gera. Persónulega gef ég oft frekar lítið í tal um erfið ferðalög til A-Evrópu landa eins og Rússlands því þetta á bara alls ekkert við í dag. Það er kannski erfiðara að komast inn í þessi lönd sem flestir ná þó að afreka með vegabréf í lagi en ef við tökum bara mið af ferðalaginu frá Liverpool þá tekur flug frá Liverpool  til St. Pétursborgar um 2 tíma og 40 mínútur sem er svipað og flug frá Keflavík til London. Þó að þetta séu 2132 km sem þarf að fljúga er þetta svipað mikill tími og fer í lestarferð til London frá Liverpool og minni tími en ferðalag til margra annara staða bara innan Englands. Ferðalag til staða þar sem hægt er að fá beint flug er lítil afsökun. Fyrir þá sem lásu upphitun fyrir leikinn gegn FC Anzhi þá tekur það þá svipað mikinn tíma að koma sér í hvern einasta heimaleik sinn.

Pétursborg er rétt hjá landamærum Rússlands að Eistlandi, Lettlandi og Litháen og sem dæmi þá er styttra til Helsinki (443km) heldur en Moskvu (651km). Borgin er að mestu byggð á bökkum árinnar Nevu og eyjum hennar.  Skipgeng fljót og skurðir tengja hana við Kaspíahaf og Hvítahaf og líka við fljótin Dnepr og Volgu.

FC Zenit
Ef að okkur fannst eigandi Anzhi skrautlegur og rekstur þess félags skrítinn er óhætt að fullyrða að Zenit hefur úr engu minni pening að moða. Gazprom keypti félagið árið 2005 og dældi $100m í kaup á nýjum leikmönnum og endurbætur á heimavellinum (sem standa enn yfir). Gazprom er eitt stærsta fyrirtæki í heiminum og er aðal útflytjandi á olíu og gasi frá Rússlandi. Félagið er að stórum hluta í ríkiseigu en eignarhaldið á því eftir hrum Sovétríkjana er líklega efni í annan pistil. Gazprom er eigandi og aðal styrktaraðili FC Zenit en þeir eru einnig aðal styrktaraðilar Schalke í Þýskalandi og Rauðu Stjörnunnar í Serbíu.

Það er því óhætt að segja að síðustu ár hafi verið gullaldar tímabil FC Zenit þó saga félagsins nái tæplega öld aftur í tímann.

Félagið var formlega stofnað árið 1939 er tvö lið voru sameinuð, þó stofnár félagsins sé skráð 1925. Fótbolti hafði þó verið spilaður í borginni frá aldarmótum. Annað af stofnliðunum var lið sem þá var kallað Bolshevik og stofnað 1914 og spilaði í lókal keppnum allt til ársins 1936 er þeir hófu leik í Sovésku deildinni og breyttu nafni félagsins í Zenit. Hitt félagið var stofnað árið 1925 af verkamönnum í stálverksmiðju og hét Stalinets fyrstu árin til heiðurs Josef Stalin. Árið 1938 komst Bolsheviks liðið í efstu deild og fyrsti leikur þeirra á því leveli var gegn Stakhonevets sem í dag er betur þekkt sem Shaktar Donetsk.

Stalín og félagar skipuðu þessum félögum að sameinast árið 1939 og var nafni félagsins  formlega var breytt í FC Zenit árið 1939 og hefur verið það síðan. Liðið náði einu tímabili áður en deildarkeppnin fór í 4 ára frí vegna seinni heimsstyrjaldarinnar.

Flestir leikmenn liðsins voru fluttir til Kazan (borg í Rússlandi) á meðan umsátri Þjóðverja stóð í heimsstyrjöldinni en þó ekki allir, nokkrir urðu eftir og spiluðu í borginni á stríðsárunum og tóku þátt í stríðinu. Átta leikmenn liðsins lifðu þá bardaga ekki af.

Þannig að frá því að þeir fóru að spila fótbolta með skipulögðum hætti í Pétursborg árið 1914 og til ársins 1944 höfðu þeir farið í gegnum fyrri heimsstyrjöldina 1914-18, byltingu Bolshevika í Pétursborg árið 1917, borgarastyrjöld í Rússlandi 1918–1922 og svo seinni heimsstyrjöldina. Í öllum tilvikum var borgin í brennidepli. Það var því kannski ekki skrítið að þetta hafi verið erfið fæðing hjá þeim.

Liðið fór aftur til Léningrad árið 1944 og náði ótrúlegt en satt að vinna sinn fyrsta stóra titil það ár er þeir unnu bikarkeppnina. Félagið náði ekki að byggja ofan á þann árangur og gekk upp og ofan næstu áratugi, var aldrei í toppbaráttu en heldur ekki fyrir utan topp 10. Árið 1967 var FC Zenit loks í neðsta sæti deildarinnar sem hefði allajafna þýtt fall. En þar sem þetta ár markaði 50 ára afmæli októberbyltingarinnar (er Kommúnistar náðu völdum í St.Petersburg) þótti ekki við hæfi að lið Léningrad borgar væri ekki meðal þeirra bestu á afmælisárinu. Þeir kipptu þessu snarlega í liðin með að fjölga liðum í deildinni tímabilið á eftir og þeir héldu því sæti sínu í deildinni. Eðlilega.

FC Zenit vann titilinn árið 1984 í Sovésku deildinni og árið 1990 losnaði félagið úr ríkiseigu en átti í kjölfarið í miklum fjárhagsvandræðum sem gerðu það að verkum að liðið féll um deild árið 1989 og var rétt fallið aftur árið eftir (úr 2.deildinni) er liðið lenti í þriðja neðsta sæti. Aftur var þó lukkan með þeim í liði þar sem þeir fengu sæti í efstu deild í Rússlandi er sú deild var sett á laggirnar eftir fall Sovétríkjana 1991. Þeir féllu þó strax árið eftir og voru í 2. deild til 1996. Enn á ný var “lukkan” með þeim í liði því þeir náðu aðeins 3.sæti í deildinni 1995 en komust upp þar sem ákveðið var að fjölga liðum í efstu deild í Rússlandi.

Félagið vann bikarinn í Rússlandi árið 1999 og var með sterkt lið árin á eftir en eftir 2005 hafa orðið mikil umskipti á liðinu. Líkt og með annað Rússneskt lið sem við höfum mætt á þessu tímabili má líkja þessu liði við Man City / Chelsea í Englandi.

Eftir slæma byrjun á tímabilinu 2006 gerðu nýjir eigendur sín fyrstu þjálfaraskipti og splæstu í Dick Advocaat fyrrum landsliðsþjálfara Hollands og PSV. Hann náði að púsla saman liði sem vann titilinn árið 2007 og komst þannig í Meistaradeildina í fyrsta skipti. Þeir féllu úr leik eftir riðlakeppnina og fóru í Evrópudeildina sem þeir unnu með glæsibrag. Bayern Leverkusen var slegið út í 8 liða úrslitum eftir 4-1 sigur á heimavelli. Í undanúrslitum gerðu Rússarnir jafntefli við FC Bayern í Munhen en gerðu sér svo lítið fyrir og rústuðu þeim 4-0 á heimavelli. Rangers var svo lagt af velli í úrslitum en þetta var á þeim tíma þegar Andrey Arshavin var frábær í fótbolta og potturinn og pannan í liði FC Zenit. Til að kóróna árið 2008 lagði FC Zenit lið Manchester United í árlegum leik meistara Evrópudeildarinnar og Meistaradeildarinnar.

Arshavin er einn af mörgum góðum uppöldum leikmönnum FC Zenit og lék með liðinu frá 2000 – 2009 og hefði ekkert átt að fara.

Þeir hafa ekki náð að leika þennan leik eftir í Evrópu síðan en hafa á móti unnið Rússnesku deildina sl. tvö  tímabil. Advocaat hætti með liðið í desember árið 2009 og hinn ítalski Luciano Spalletti fyrrum stjóri Roma m.a. tók við af honum og er hann stjóri liðsins í dag.

Heimavöllur
Gazprom/borgarstjórn St.Pétursborgar er að byggja nýjan heimavöll fyrir FC Zenit og því spilar félagið ennþá á Petrovsky Stadium. Sá völlur tekur einungis 21.400 manns í sæti og er partur af mjög stórri fjölnota íþróttaaðstöðu. Þarna eru einnig íþróttahallir og sem og annar fótboltaleikvangur sem hefur verið heimavöllur marga minni félaga frá borginni.

Glæsilegt vallarsvæði Petrovsky Stadium

Gamli heimavöllur félagsins var öllu virðulegri fyrir helsta lið stórborgar eins og Pétursborgar en sá völlur hét Kirov Stadium og var byggður eftir seinni heimsstyrjöldina og opnaður 1950. Það var fjölnota íþróttavöllur sem tók 84.þúsund manns í sæti og yfir 100.þúsund manns með stæðum. Kirov var stærsti völlur Rússlands og var notaður á Sumarólympíuleikunum í Pétursborg (eins og Petrovsky völlurinn) árið 1980. Þennan völl lét Gazprom rífa og er núna að byggja nýjan og glæsilegan völl sem á að taka um 62 þúsund manns í sæti.

Fyrst gerðu áætlanir ráð fyrir að völlurinn yrði opnaður 2008, síðan var því seinkað til 2011 og er núna áætlað að hann verði ekki opnaður fyrr en árið 2015. Gazprom hefur átt í útistöðum við borgarstjórn Pétursborgar um fjármögnun á vellinum sem nú sér fyrir endan á og eru þeir á fullu að byggja hann upp í dag eins og sjá má í frétt á heimasíðu Zenit.

Stuðningsmenn:

Það má því gera ráð fyrir að heimavöllur liðsins í dag sé langt frá því að vera nógu stór fyrir stuðningsmenn félagsins sem er líklega bara gott mál enda seint sagt að af þeim fari gott orð. Réttara sagt hafa þeir eitt versta orðspor í heiminum og eru m.a. þekktir fyrir kynþáttahatur sem og aðra fordóma og hafa komist í heimspressuna undanfarin ár af þeim sökum.  Leikmenn Marseille kvörtuðu undan aðdáendum FC Zenit árið 2008, félagið fékk 10.þús evra sekt árið 2011 eftir að stuðningsmenn félagsins buðu Roberto Carlos leikmanni Anzhi banana og í fyrra toppuðu þeir sig með eftirfarandi yfirlýsingu í opnu bréfi til fjölmiðla:

“We’re not racists but we see the absence of black players at Zenit as an important tradition.” They also don’t want any homosexual players.

Þessi yfirlýsing kom í kjölfar afleits gengis Brasilíumannsins Hulk hjá félaginu en fjölmargir svartir leikmenn hafa hafnað tilboðum frá FC Zenit eftir álíka hatursáróður og morðhótanir. Félagið eyddi gríðarlegum fjárhæðum í að kaupa Hulk og Alex Witsel sem báðir eru dökkir á hörund og skapaði koma þeirra óánægju innan sem utan vallar. Igor Denisov, fyrirliði landsliðs Rússa var settur í varaliðið þegar hann sagðist vilja fá sömu laun og Hulk (og setti þar með olíu á eldinn) og fékk ekki að koma aftur í aðalliðið fyrr en hann hafði beðist opinberlega afsökunar.

Til að gera langa sögu stutta væri líklega hægt að lýsa FC Zenit sem nýríku liði sem gerði afar fátt til að verðskulda velgengni sína og er stutt af snarvitlausum rasistum upp til hópa (má þó ekki alveg alhæfa svona um þá alla). Þetta félag er ef eitthvað er meira óheillandi heldur en Anzhi.

Liðið
Liðið sjálft er hinsvegar mjög öflugt og öfugt við það sem maður hefði kannski haldið þá er ekkert rosaleg velta á leikmönnum milli ára hjá FC Zenit. Þeir eru með góða blöndu leikmanna sem margir hverjir eru á besta aldri og hafa spilað saman lengi.

Markmaðurinn Vyacheslav Malafeev er 33 ára og hefur verið hjá Zenit allann sinn feril og á að baki yfir 300 leiki fyrir Zenit og tæpa 30 fyrir Rússland.

Vörnin fyrir framan hann er ekkert slor heldur, hinn 31 árs gamli Aleksandr Anyukov á 73 lands leiki að baki fyrir Rússa og hefur verið hjá Zenit síðan 2005. Bruno Alves er 32 ára miðvörður og kom frá Porto árið 2010 og er landsliðsmaður Portúgala. Við hlið hans er Nicolas Lombaerts, 27 ára landsliðsmaður Belgíu og í vinstri bak er hinn 26 ára gamli landsliðsmaður ítala Domenico Criscito sem kom frá Genoa og var áður hjá Juventus.

Auk þeirra var félagið að kaupa tvo mjög efnilega varnarmenn í síðasta mánuði, Rodic frá Serbíu og Neto frá Portúgal og eiga fyrir Aleksandar Lukovi? 31 árs landsliðsmann Serbíu sem kom frá Udinese 2010.

Fyrirliði Zenit er hinn 29 ára Portúgalski landsliðsmaður Danny sem varð dýrasti leikmaður Rússnesku deildarinnar árið 2008 en hann var keyptur á  €30m. Hann er sóknarsinnaður miðjumaður og einn besti leikmaður liðsins. Igor Denisov er varafyrirliði en þessi 28 ára landsliðsfyrirliði Rússa hefur spilað hjá Zenit allann sinn feril. Alex Witsel, eitt mesta efni Belga kom til Zenit í fyrra fyrir €40m og hefur verið einn besti leikmaður liðsins á þessu tímabili. Hinn 32 ára landsliðsmaður Rússa Roman Shirokov er síðan djúpur á miðjunni.  Til vara eiga þeir tvo gamla jálka með mikla reynslu bæði frá félagsliði og landsliði í Sergei Semak og Konstantin Zyryanov.

Sóknarleikinn leiðir aðal sóknarmaður Rússneska landsliðsins, Aleksandr Kerzhakov. Hann er enn einn uppaldi leikmaðurinn þó hann hafi reyndar ekki spilað allann sinn feril hjá Zenit. Hann er 31 árs í dag og mörgum kunnur eftir misheppnaða dvöl hjá Sevilla á Spáni. Þessi duglegi sóknarmaður er sjóðandi heitur í kuldanum í Rússlandi og hefur t.a.m. skorað 13 mörk í 15 leikjum á þessu tímabili. Með Kerzhakov í sóknarleiknum er síðan hinn brasilíski Hulk sem hefur vægt til orða tekið átt erfitt uppdráttar í Pétursborg eftir að hann kom í fyrra. Hann kostaði €55m í sama glugga og Witsel kom sem sýnir vel hvaða rugl er í gangi þarna.

Nicolas Lombaerts, Vyacheslav Malafeev, Igor Denisov, Viktor Fayzulin og Roman Shirokov kynna nýjan búning í júlí sl.

Þetta eru svona þeir helstu í liði Zenit í dag og því ljóst að þetta er hörku lið og ekki hægt að mæta þeim með neitt varalið. Tímasetningin á þessum leik gæti þó unnið með okkur (og á móti). Rússneska deildin er í vetrarfríi um þessar mundir og Zenit fór bara á sína fyrstu æfingu í Pétursborg á árinu þann 9.febrúar enda hávetur þar. Þeir hafa verið í Tyrklandi í æfingabúðum og spilað þar æfingaleiki. Síðasti leikur þeirra var gegn BATE þann 4. Febrúar. Þeir eru því líklega ekki alveg í 100% leikæfingu, en eru á móti miklu ferskari heldur en leikmenn Liverpool sem eru í miklu prógrammi þessa dagana með ævintýralega vitlaust leikjaplan sem m.a. setur leik á mánudag í stað þess að klára hann á sunnudegi.

Annað sem vinnur ekki með okkar mönnum er að hitastigið í Pétursborg er í dag svipað og við þekkjum hérna á Íslandi. Hiti er um og undir frostmarki og það hefur verið að snjóa undanfarið. Það er það sem maður hefur mestar áhyggjur af þó völlurinn geti varla verið verri en t.d. heimavöllur Oldham.

Leið Zenit í þennan leik er úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðið endaði á eftir AC Milan og Malaga í þriðja sæti síns riðils. Þeir eru að vanda í toppbaráttunni heimafyrir í 3 sæti. Fimm stigum á eftir toppliði CSKA Moskva.

Liverpool
Það er mikið púsluspil hjá Rodgers og hans mönnum að raða þessari viku saman. Liðið var að spila á miðvikudaginn fyrir viku, aftur núna á mánudaginn. Þar á undan var leikur á sunnudegi og alltaf með nánast sama byrjunarliði. Þessi leikur er á fimmtudegi (4 leikurinn á 12 dögum) og svo eigum við erfiðan og mikilvægan heimaleik á sunnudaginn áður en við fáum Zenit í heimsókn næsta fimmtudag. Það er ekki hægt að nota sömu 11 í allt þetta (6 leikir á 19 dögum) það er alveg ljóst og þar sem Coutinho og Sturridge eru ekki með leikheimild í Evrópu þrengist valið töluvert.

Rodgers er þó ekki mikið fyrir miklar breytingar milli leikja og því er mjög erfitt að rýna í þetta. Þetta Zenit lið er ekkert grín og allls ekki hægt að stilla upp B-liði gegn þeim, hvað þá á útivellli.

Ætla að tippa á að þetta verði eitthvað á þessa leið:

Reina

Wisdom – Skrtel – Agger – Johnson

Gerrard – Lucas

Downing – Henderson – Suarez

Borini

Tippa á að hann geri fáar breytingar og hef áhyggjur af því þegar liður á vikuna. Enrique var mjög dapur (sem og Johnson) í síðasta leik og var nýlega meiddur. Því spái ég að Wisdom komi aftur inn í þessum leik (er ekkert að vona það samt) og eins held ég að Borini komi núna inn fyrir Shelvey. Að lokum tippa ég á að Skrtel komi inn fyrir Carragher. Með réttu ætti Allen að leysa einn af miðjumönnunum af líka en ég efa að hann fái traustið.

Liðið er að hiksta í leikjum sem það á að klára og tapa stigum í leikjum sem það stjórnar frá A-Z. Þannig lið falla jafnan fljótt úr bikarkeppnum og höfum við sýnt það tvisvar í vetur með royal skitu.

Það þarf ekkert að koma á óvart að liðið hiksti þó það sé rosalega pirrandi. Nýju leikmennirnir hafa átt erfitt uppdráttar alveg eins og nýju leikmennirnir áttu í fyrra. Joe Allen er 22 ára, Borini er 21 árs,báðir hjá mun stærra félagi og með mun meiri pressu á sér en þeir eru vanir og þurfa augljóslega að fá tíma til að venjast eins og fjölmargir aðrir.

Á þessu tímabilið höfum við verið að stóla á (marga leiki í röð stundum) menn eins og Sterling (17 ára), Suso (18 ára), Shelvey (20 ára), Wisdom (19 ára), stráka sem hafa spilað mjög lítið með meistaraflokki áður. Ofan á þetta fórum við inn í tímabilið með einn sóknarmann og miðju/vörn sem bauð ekki upp á mörg mörk. Núna þegar þeir leikmenn sem keyptir voru á síðasta tímabili hafa stigið upp, menn eins og Lucas komið úr meiðslum og nýr sóknarmaður komið inn fór liðið upp um gír. Það er eðlilegt.

Hópurinn er líka á fjórða stjóranum á fjórum fjórum árum, með fjórða þjálfarateymið, fjórða nýja leikstílinn og leikmenn sem hafa verið keyptir inn af mismunandi mönnum á mismunandi forsendum. Þetta var aldrei að fara verða sársaukalaust og það er mjög eðlilegt að það taki meira en 12 mánuði að hræra eitthvað gáfulegt úr svona graut. Ekki að Rodgers hafi ekki gert það, bara ekki náð að halda stöðugleika nokkra leiki í röð.

Mig grunar að það sé töluvert lagt upp úr góðum árangri í þessari keppni og að eigendur Liverpool meti hana meira en bikarkeppnirnar heimafyrir. Samt má ekki leggja allt kapp á að vinna leikina á EL og fara með hangandi haus í deildarleikina líkt og í fyrra, gerist það erum við að horfa upp á copy/paste næsta sumar og næsta tímabil. Allt nýtt enn á ný (þjálfari, þjálfarateymi, áherslur og leikmenn). Það vill ég ekki sjá.

Spá: 

Óttast að þetta verði mjög vond vika áfram og FC Zenit taki þennan leik 2-0. Ætla samt að spá 1-1 jafntefli gegn sannfæringu minni og set markið á Fabio Borini.

34 Comments

  1. Góð upphitun og gaman að lesa þetta, þú leggur góða vinnu í þessa pistla, smá sögu kennsla í leiðini hehe. En eins og oft áður er maður bara drullu stressaður fyrir þennan leik, á pappir ættu FC Zenit að vinna þennan leik á sínum heimavelli, en eins og Liverpool hefur oft sannað að þegar maður er næstum öruggur með sig og heldur að leikurinn sé unnin of okkar mönnum fyrirfram kemur annað í ljós, svo þegar maður á ekki von á góðu standa þeir sig eins og hetjur. Þannig ég ætla að veðja á spennandi fjörugan leik og 1-1 með marki frá Gerrard gamla, og markið sem við fáum á okkur verður tipical klaufagangur og boltin slysast inn.

  2. Frábær upphitun og skemmtileg viðureign framundan!

    Upp með jákvæðnina og nú mæta okkar strákar trylltir eftir vonbrigðin í gær.

    YNWA!!

  3. þeir rústa þessum leik .. sannfærandi og öruggt. Þeir þurfa að sanna eitthvað fyrir fólkið sem elskar þá !

  4. Frábær upphitun. Mig grunar að hún sé mun betri en leikurinn verði nokkurntíma. En vonandi náum við góðum úrslitum þarna úti. En alveg ljóst að þetta Zenit lið er vel skipað og það verður erfitt að slá það út.

  5. Hrikalega vel að þessari upphitun staðið! Þú átt hrós skilið Babu!

    Annars má ekki gleyma því að okkar eigin Martin Skrtel kom frá Zenit á sínum tíma og auðvitað spila menn alltaf best á móti sínum gömlu félögum (að Torres undanskildum, hann spilar bara almennt ekki vel).

    Ég var nokkuð slakur fyrir þessum leik þegar dregið var þar sem að maður hélt að áherslan ætti að vera öll á deildina en þar sem liðið hefur enganveginn staðið undir væntingum þar (enda 9. sæti það lélegasta sem sést hefur í mörg ár) held ég að Rodgers setji svolítið kapp í að standa sig vel í þessari keppni. Þannig að þetta byrjunarlið er ekki ólíklegt.

    Vonum nú að þessir drengir stígi upp og sýni að þeir eigi skilið að fá að klæðast rauðu treyjunni!

  6. HRÓÓÓÓÓÓÓÓÓÓÓÓÓÓÓS TIL BABU ;c) þú er þvilíkur meistari í pistlagerð… á ekki orð yfir þessu, ég er allavegana þvílíkt ánægður og bjartsýnn :c)

    Y N W A – I N – B R E N D A N – W E – T R U S T –

  7. Erlingur Brynjólfsson yrði stoltur.

    Skemmtileg lesning, en hræddur um að þetta verði erfiður leikur. Ef við höngum á jafntefli getur allt gerst á Anfield.

  8. Flott upphitun Babu.

    Ég er ákveðinn að gefa Rodgers séns þangað til í byrjun næsta tímabils en það er spurning hversu ánægðir FSG eru. Ef við föllum út gegn Zenit þá er tímabilið de facto búið hjá Liverpool. Dottnir úr öllum bikarkeppnum og deildinni í byrjun febrúar með þennan mannskap sem á að geta betur og hafa eytt c.a. 50m punda í leikmannakaup á þessu tímabili.
    Það er actually smá möguleiki að við verðum ekki í neinni evrópukeppni næsta tímabil sem er hálf hryllileg tilhugsun fyrir klúbb eins og okkar. (plís ekki reyna segja að það sé frábært fyrir árangurinn í deildinni að Liverpool sé laust við Evrópu, slíkt hefur ekkert hjálpað undafarin ár)

    Kanarnir sögðust ætla að vera þolinmóðir en þetta er kannski ekki beint það sem þeir bjuggust við í ár.

    En Zenit já, þetta verður erfiður leikur. Kæmi mér ekkert á óvart að þetta fari 1-1, Gerrard með víti. Er á móti ekkert bjartsýnn að við séum að fara slátra þessu liði á Anfield. Held að þessi rimma verði bara stál í stál til síðustu mínútu.

  9. Frábær upphitun.

    Erum vel settir með jafntefli þarna ytra, tippa á 1-1 og við klárum þá heima.

  10. Stórgóður pistill þó svo borgir séu aldrei skírðar, hvað þá skýrðar eftir einhverju/m. Þær eru nefndar

  11. Babú ein villa hjá þér sem kemur ekki á óvart í svona langlokum. Liverpool var ekki að spila á miðvikudag fyrir viku, en flestir leikmenn voru að spila með landsliðum sínum.

    Frábær upphitun samt sem áður og átt hrós skilið að nenna að fræða mann aðeins í sögu um þessa félagslið.

    Að leiknum þá er ég ekkert voðalega bjartsýn en spái 1-1 jafntefli annað kvöld sem tryggir okkur væntanlega áfram á Anfield

  12. Plís setja Jones í markið. Að horfa á leiki annarra liða og sjá markmenn verja skot er skemmtileg tilbreytni.

  13. Það er gott að lesa að fólk ætlar að hætta sér að horfa á leikinn þrátt fyrir mikil vonbrigði í síðasta leik. Ég get ekki horft en auðvitað tökum við þetta, jó jó systemið sem við fylgjum tryggir það.

  14. Ekki hægt að spá. Liverpool er jo jo lið um þessar mundir og merkilegt nokk, standa sig vel á móti stærri liðum en gera svo á sig á móti þeim smærri, bara skil þetta ekki en vonum alltaf hið besta. Góð upphitun að vanda, tökum þetta óvænt eða hvað veit maður?

  15. Bíddu erum við betri gegn stóru liðunum en getum ekkert gegn litlu? Við erum ekki búnir að vinna einn leik á þessari leiktíð gegn liði sem er fyrir ofan miðju, á meðan við erum með næst besta árangurinn gegn liðum í neðri helming deildarinnar. Menn leggja sig oftast meira fram í leikjum gegn toppliðunum og stundum geta menn verið svekktir með jafntefli í þeim leikjum, en það á alveg jafnt við botnlið og önnur lið. Wigan hefur t.d. náð fínum árangri gegn Chelsea, Fulham nær oft góðum úrslitum gegn United o.s.frv.

    Staðreindin er sú að við erum með 4 stig í 6 leikjum gegn efstu 4 liðunum og ef menn kalla það að standa sig vel þá veit ég ekki hvað menn kalla það að standa sig illa, sérstaklega þegar það eru menn sem vilja meina að við séum með svipaðan leikmannahóp og efstu liðin.

  16. Ég kalla það að standa sig vel þegar er gert Jafntefli á útivelli á móti Ars og City, en tapa svo á móti WBA á heima velli, A Villa og fl, en ég nenni ekki að fletta þessu upp og ég er ekki einn um þessa skoðun, LFC verður bara að vera meira jafnara lið en ekki jo jo, og havð gerðu þeir í bikarnum töpuðu á móti liði í 1eða 2 deild, sem hafði ekki unnið 7 sl, leiki, kalla það ekki að standa sig enda segir stigataflan allt, eru í 9 sæti sem er ósættanlegt, fokking fokk.

  17. Ég gleymdi auðvitað að þakka Babu fyrir frábæra upphitun. Við erum lánsöm að hafa svona góða Púlara sem halda úti þessari síðu og leggja á sig ómælda vinnu og vanda vel til verka! Takk fyrir kærlega!

  18. Glæsileg upphitun. Báðir þumlar upp fyrir Babú.

    Aðalmálið er að ná a.m.k. einu útivallarmarki. 1-1 eru úrslit sem ég þigg með opnum örmum.

  19. Evrópuupphitun er góð lesning með morgunkaffinu – minni á að leikurinn er KLUKKAN FIMM

  20. Arsenal er ekki í top 5, ef við tökum þá með erum við með 4 stig í 8 leikjum gegn top 5 liðunum, þú kallar það að standa sig vel gegn stóru liðunum, þurfum við að tapa öllum leikjunum 3-0 til þess að þú kallir það að standa sig illa? Arsenal voru á svipuðum stað og við í deildinni þar til núna nýlega og voru í mikilli lægð, jafntefli á Emirates og 2-0 tap á Anfield finnst mér bara alls ekkert góður árangur. Ég tek Villa og WBA ekki sem eitt af stóru liðunum.

    Við höfum tapað 7 leikjum og gert 7 jafntefli við lið í top 10 og með markatöluna -12, aðeins 2 lið eru með verri árangur og það eru Wigan og QPR (sem eru með jafn mörg stig en verri markatölu).
    Ætlaru svo í alvörunni að segja mér að við séum að standa okkur vel gegn stóru liðunum?

  21. Liverpool verður ekki í vanda með gott lið Zenit ef leikur liðsins verður í sömu gæðum og upphitunin!

  22. Er nu nokkuð viss um það að afþreyingin við að lesa þessa snilldarupphitum hafi verið meiri en leikurinn sjalfur kemur til með að verða. Spaði samt i þvi allan timann a meðan eg las hvernig babu nennti þessu eigilega ? Það hlytur að fara ansi mikil vinna i þessar upphitanir hja þer babu ? Samt bara frabært að fa þennan froðleik reglulega.

    Við verðum að na allavega utivallarmarki i dag og eg ætla að spa 1-1 þar sem downing setur mark okkar manna

  23. Veit ekki með ykkur, en eftir að ég var búinn að jafna mig eftir hryllinginn sl. mánudagskvöld (sem tók a.m.k. einn sólarhring) þá er ég einhvern veginn óvenju afslappaður varðandi restina af tímabilinu. Höfum litlu að keppa að í deildinni annað en að bjarga ærunni og auðvitað berjast fyrir því að BR haldi starfinu sínu.

    Ef mér skjátlast ekki þá mun einungis 5. sætið í deildinni gefa sæti í EURO-league, kannski 6. sætið, fer eftir því hvaða lið verða í úrslitaleiknum í FA-cup, en Englendingar eiga 3 sæti í EURO-league á næsta keppnistímabili (2013 – 2014). Eitt sætið er þegar frátekið fyrir Swansea eða Bradford (spáið í það!)

    Væri frábært að ná jafntefli á móti Rússunum í kvöld. Það ætti að koma okkur til góða að þeir eru í vetrarfríi um þessar mundir. Verður samt drulluerfiður leikur, en ég er sannfærður um að BR muni stilla upp mjög sterku liði í kvöld. Spái 1-1, Suarez (hver annar) skorar fyrra mark leiksins.

  24. Ef Manchester United vinnur Meistaradeildina þýðir það ekki að liðið sem er í fimmta sæti fær inngöngu í meistaradeildina?

  25. Nei, það var sérstaklega tekið á þessu. Löndin fá max 4 liði í CL.

  26. Skemmtileg lesning og gaman að sjá hvað þú leggur í mikla rannsóknarvinnu í gerð pistlanna.

    Væntingar manns til þessa leiks er að halda jöfnu og að ná útivallarmarki. Eins og með önnur svona sugahdaddy lið þá óska ég þeim alls ills og vona að við stútum þeim.

  27. það var svo sem alltaf vitað að liðið myndi taka tvö skref áfram og eitt afturábak,nýjar áherslur og menn að spila sig saman í nýju kerfi.Það sem er jákvætt við þennan leik er að við eru búnir að taka eitt skref afturábak þannig að við vinnum þennan leik.Ánægður að Agger er bara heima og hugsa sinn gang.Eftir að Kenwyne jones gerði lítið úr honum er hann búinn að kosta liðið ansi marga ósigra.Vona samt að hann komi til baka fullur sjálfstrausts enda frábær leikmaður.

  28. No 25 ég er að tala um síðustuu leiki, og ég er ekki að segjja að WBA og A Villa séu stór lið, að tapa 2-0 eða 3-0 fyrir þessuum svokölluðu litlu liðum er að gerast alltof oft en að halda haus við stærri lið er að gerast ansi oft. Stærri lið kalla ég Chel$$$, Ars, MU, MC, en svona hefur þetta verið undanfarin 2-3 ár, kemur ekki við stigin úr þessum leikjum enda eru smærri liðin fleiri en þau stóru, en eflaust erum við ósáttir með okkar ástsæla lið og sammála um það. 🙂

Liverpool 0 WBA 2

Liðið gegn FC Zenit