Newcastle eftir landsleikjahlé

Svei mér þá ef maður getur ekki bara vanist svona landsleikjahléum!

Meðan við sitjum í toppsætinu og önnur minni lið töluvert neðar er bara allt í lagi að “sörfa” fótboltasíður og villast “óvart” inn á stöðutöfluna í deildinni. Ólíkt því sem oftu hefur átt við á slíkum tímabilum þar sem leikmenn endasendast um alla heimsins króka og koppa.

Að þessu sinni ættu líka einhverjir að koma bara nokkuð kátir heim eftir öflugar landsliðsframmistöður. Captain Fantastic er þjóðhetja þessa dagana á Englandi eftir frábært mark og fína frammistöðu sem fleytti heimamönnum til Brasilíu…í leik þar sem Sturridge byrjaði og Sterling sat á bekknum. Suarez náði að fanga smá athygli í sigurleik gegn Argentínu, Toure var með landsliði Fílabeinsstrandarinnar sem vann Senegal 3-1 í fyrri leik Afríkuplayoffs og Mignolet fagnaði af bekknum með Belgum sem tryggðu S.Ameríkuferðina næsta sumar með góðum sigri gegn Króötum úti. Svo skoraði Agger fyrir Dani og Sakho er kominn aftur í franska landsliðið.

Að auki verða í leikmannahópnum fjórir leikmenn sem ekki voru í honum síðasta leik gegn Crystal Palace. Lucas Leiva snýr til baka úr banni (var svo líka að spila með sínu landsliði í fríinu) og meiðsli Aly Cissokho, Glen Johnson og Joe Allen heyra nú sögunni til. Einungis Coutinho er nú frá vegna meiðsla og vonir standa til að hann verði með í næsta verkefni.

Svo að öllu sögðu þá ætti bara okkar lið að labba á rósablöðum þessa dagana og prumpa blómailmi.

Andstæðingurinn okkar á laugardag er lið sem á að einhverju leyti líkindi í okkar klúbb. Stór hafnarborg þar sem aðdáendur liðsins styðja gríðarlega við bak þess, lið sem ætti að keppa reglulega um titla og bikara en hefur undanfarið verið töluvert frá því og meiri umræða verið um eigandann og umgjörðina en árangurinn inni á 110 x 68 metra svæðinu sem allt snýst um.

Já dömur mínar og herrar, St. James’ Park (Ekki lengur Sports Direct Stadium) er staðurinn og mótherjinn leikfangið hans Mike Ashley, Newcastle United.

Liðið átti ansi erfitt síðasta tímabil eftir gott þar á undan en byrjun þess í vetur hefur verið í lagi. Þeir sitja í dag í 11.sæti með 10 stig af 21 mögulegu. Það er þó enginn vafi að þeir ætla sér stærri hluti en það að vera að berjast um miðja deild og alls konar leikmanna- og stjórnendafarsi fer mikið í taugarnar á stuðningsmönnunum.

Liðið styrkti sig ekki mikið í sumar, náði þó í Loic Remy á láni frá QPR en mesta púðrið fór í að ná sér í Director of Football til að vinna með bjóraranum Ashley til að tengjast gleðipinnanum og stjóranum Alan Pardew. Ashley talaði um það sem lykilatriði fyrir klúbbinn að ná í mann í þá stöðu sem að myndi bæta við þekkingu á leikmannamarkaðnum og gæti gert það að verkum að Pardew gæti einbeitt sér að þjálfuninni. Eftir nokkurra mánuða leit fann Ashley slíkan mann….í JOE KINNEAR!!!!!

Sá hefur gert eintóm axarsköft og er meira PR-slys en Tom Hicks og kaffikrúsin hans góða. Á netinu er nú hvíslað um að stuðningsmenn ætli að vera með mótmæli fyrir leik á morgun til að mótmæla eignarhaldi Ashley og ráðningunni á Kinnear. Svei mér þá, ég bara skil Toon-herinn ágætlega!

Síðasta viðureign okkar þarna var leikur kattarins að músinni. Pardew ákvað að fara hátt í pressunni og sækja á okkur. Það gaf litla Brassanum okkar endalaust svæði til að vinna á og stór göt fyrir Sturridge að hlaupa inní. Afraksturinn varð 0-6 sigur okkar í apríl í leik sem hefði getað skilað okkur fleiri mörkum!

Þess vegna held ég að Pardew leggi leikinn á allt annan hátt upp en þá. Hann mun sitja aftar en hann gerði og reyna að nýta sér hraða Remy og Papiss Cissé í skyndisóknunum. Coloccini, þeirra besti hafsent er ekki með og því tippa ég enn frekar á afturliggjandi vörn og þetta lið þeirra:

Krul

Debuchy – Williamson – Mbiwa – Santon
Cabaye – Sissoko
Gouffran – Cissé – Ben Arfa
Remy

Eitthvað ca. svona.

Þá að okkar liði, blómprumpandi drengjunum frá Merseyside. Þeir koma úr fríinu eftir sigur á Crystal Palace í leik sem að hefur nú þann heiður að hafa verið ryrsti kop.is hópferðarleikurinn.

Rodgers hefur undanfarna leiki verið að spila 3-5-2 (eða 3-4-1-2) kerfi til að bregðast við þeim skörðum sem verið hafa í leikmannahópnum og stóra spurningin fyrir morgundaginn er hvort hann heldur sig við þá uppstillingu um sinn eða hvort hann færir aftur til 4-1-4-1 kerfisins sem við byrjuðum með í haust og vorum að spila í fyrra.

Ég satt að segja bara hef ekki hugmynd um það. Ég myndi að sjálfsögðu sjálfur vilja færa aftur í fjögurra manna vörn því ég fíla illa þetta leikkerfi sem þó hefur nýst okkur vel undanfarið. En þar sem ég er ekki þessa stundina í rútunni á leið til norðausturhluta Englands þá ætla ég að leyfa mér að setja upp tvær hugmyndir að byrjunarliði, annars vegar ef að Rodgers ákveður að spila áfram með þriggja manna vörn og hins vegar ef hann fer aftur í fjögurra mann línu.

Fyrst þriggja manna vörn.

Mignolet

Touré – Skrtel – Sakho
Johnson – Gerrard – Lucas – Enrique
Moses
Suarez – Sturridge

Svo ef að okkar maður fer aftur í uppáhalds kerfið sitt hingað til.

Mignolet

Johnson – Touré – Sakho – Enrique
Lucas
Moses – Gerrard – Henderson – Suarez
Sturridge

Þarna set ég Hendo á miðjuna en vel gæti verið að hann yrði hafður úti á kanti og Moses undir Sturridge…sjáum til.

Þó að við leyfum okkur að vera bjartsýn, þá er ennþá alveg klárlega smá uggur í manns brjósti yfir því hvernig liðið okkar mun spjara sig. Maður fann það vel úti í Liverpool þarna um Palace helgina að menn eru enn ekki orðnir sannfærðir og fullir sjálfstrausts. Til þess hefur einfaldlega of lítið vatn runnið til sjávar.

Og digurbarkalegar yfirlýsingar aðdáenda sumra annarra liða (lesist mest United) um að við séum öll farin að fagna því að vera orðnir meistarar eru í besta falli kjánalegur vitnisburður um það að allur heimurinn annar en við bíður eftir því að nefin á okkur liggi flöt í götunni. Sem er helbert bull, ég hef enn ENGAN Liverpoolaðdáenda hitt sem er farinn að telja titil nr. 19 mættan í hús eða panta sér miða á Meistaradeildarleik næsta haust. Ekki einn.

En á sama hátt þá erum við glöð með gengið og leyfum okkur að bíða spennt eftir hverjum leik. Það á algerlega við um helgina. Leikir Newcastle og Liverpool hafa í gegnum tíðina verið alveg hörkuskemmtilegir með fullt af mörkum og miklum látum.

Ég er enda á því að eins fari núna og að við sjáum mikinn hasar fram og til baka. Að lokum munu svo okkar drengir standa uppi sem sigurvegarar í hörkuleik sem endar 2-3. Gerrard og Suarez skora og koma okkur í 0-2, Newcastle jafnar en Sturridge skorar sigurmark í lokin.

KOMA SVO!!!!!!!!!!!!!!

19 Comments

  1. Þessi leikur fer 3-7 fyrir Liverpool. Suarez með hat trick og Sturridge líka, THE Captain setur síðan sitt hundraðasta mark til þess að toppa daginn. Svo verður dagurinn fullkomnaður með sigri Southamton á manutta 🙂

    Góður draumur maður 🙂

  2. Þið sáuð væntanlega að Aspas var að bætast á meiðslalistann. Kostulegast í því máli er samt að einhverjir miðlar skildu spænska tístið hans ekki rétt og útkoman varð meira en lítið meinleg. Ég náði skjáskoti af einu dæmi: http://i.imgur.com/n78x3Er.jpg

    Upprunalega slóðin virkar enn, þótt hún redirecti á lagfærða frétt: http://www.sportsmole.co.uk/football/liverpool/news/aspas-suffers-ruptured-rectum_111957.html

    En afsakið þetta hliðarspor!

    Við eigum hiklaust að vinna Newcastle – sér í lagi án Coloccini – með hvaða leikkerfi sem er nánast. Vona að okkur takist að halda hreinu og spái 0-3 sigri.

  3. Góð upphitun.

    Vona að við fáum að sjá Henderson á miðjunni, hann á ekkert annað skilið en að halda stöðu sinni þar eftir síðasta leik!

    En er varafyrirliðinn okkar bara búinn að missa sæti sitt í liðinu?

  4. Hehe skemmtilegt að ruglast lærvöðvanum rectus (femoris) og rectum (endaþarmi).

  5. Loksins loksins …þessu landsleikjahléi lokið. Í síðustu hléum hefur maður getað setið slakur með prjónana og horft á sjónvarpið t.d Guiding Light eða eitthvað annað léttmeti en núna í þessu hléi var það ekki í boði, því strákarnir okkar sáu um að halda manni ekki létt spenntum heldur ótrúlega spenntum og því er ég ekki sultuslök þegar mínir menn mæta til leiks.
    Eftir stórkostlega frammistöðu minna í síðasta leik gegn Newcastle fengu vinnufélagarnir rauða flauelsköku með hvítu kremi með áletruninni NEW 0- LIV 6 og nú bíða þau eftir annarri slíkri. Allir Man. Utd. vinir mínir eru horfnir og engin setur status á feisið ” erum með aðra höndina á 21. tiltlinum” Líklega er það vegna þess að þeir eru núna með aðra löppina í næstu deild og það kunna þeir bara ekki.

    Ég tel að rauðklæddu drengirnir mínir mæti fullir sjálfstrausts og spili eins og þeir séu flottastir ( enda eru þeir það) þetta verður engin auðveldur sigur en sigur samt og mínir menn skora fleiri mörk en andstæðingarnir. Mikið djö….er alltaf gaman að vera Poolari en að vera Íslenskur Poolari það bara gerist ekki mikið betra þessa dagana.

    Þangað til næst
    YNWA

  6. við eigum að vinna þennan leik og halda okkur við toppinn
    erum með gott lið í dag sem getur unnið öll lið á góðum degi 🙂
    svo er eg ekki að sjá Agger komast í liðið meðan vörnin er að
    virka svona vél

  7. eg tek 0-1 alsæll þarna en spái 1-3… suarez tvö og sturridge eitt…

    megum bara alls ekki klikka a morgun.. eg vil sjá seinna liðið a morgun með Hederson inni a kostnað Skrtel…

  8. Er Cissokho tilbúinn? Væri gaman að sjá smá power á vinstri vænginn og Moses á hægri.

  9. Frabær upphitun ad vanda og yndislegir timar. Liverpool i toppslagnum, landslidid okkar ad gera flotta hluti og manhu i ruglinu. Er pinu smeykur vid thennan leik en a medan okkar menn spila sinn edlilega leik tha eigum vid ad klara thetta!

    Spai 1-2 i enn einum vinnusigrinum. Eg fagna gridarlega endurkomu Glen’s OG svo verdur svakalega spennandi ad sja hvernig BR stillir thessu upp. Likar betur vid seinna lidid okkar enda Moses i sinni stødu sem og Hendo. Menn geta sett Suarez i hvada framherjastødu sem er tharna uppi, hann er hvort ed er eins og myfluga, alltaf a fleygiferd og stingur!

    Get ekki fo… bedid!!

  10. Gerrard hefur spilað djúpt við hlið Lucas í öllum leikjum svo miðjan breytist ekki við kerfisbreytinguna, tveir djúpir miðjumenn og einn fyrir framan. Það er athyglisvert að þriggja manna vörnin var upphaflega lausn á meiðslavandræðum Johnson en í raun ætti “wingback” hlutverkið að henta honum vel. Sömuleiðis held ég að Coutinho passi vel í holuna fyrir aftan Sturridge og Suarez þegar hann snýr aftur. Þetta kerfi, sem fengið hefur endurnýjun lífdaga á Ítalíu síðustu ár, gæti því verið meira en bara skammtímalausn fyrir Liverpool.

  11. Jæja,

    Enrique víst frá og Lucas á fæðingardeildinni.

    Ég held að Rodgers verði áfram með þriggja manna varnarlínu, óbreytta, Cissokho kemur þá inn í stað Enrique og Glen í stað Sterling. Moses, Suarez og Sturridge þá fremstu þrír.

    Held að með komu Glen þá breytist leikur liðsins til hins betra, bæði hvað varðar sókn og vörn. Það væri auðvitað hægt að smella Allen inn í liðið á kostnað Moses og færa Henderson framar, þar sem að það er nokkuð ljóst að Brendan ætlar aldrei að spila Gerrard í tíunni. Væri amk til í að sjá Allen fá einhverjar mínútur.

    Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir þessum leik, sem hræðir mig. Collucini ekki með sem veikir þá klárlega. Remy er aftur á móti stórhættulegur, skoraði frábær mörk gegn Cardiff fyrir tveimur vikum síðan. Ég spái þessu engu að síður 1-3 fyrir okkar mönnum!

  12. Það verður fróðlegt að sjá liðið hjá Rodgers næstu daga þegar menn koma til baka úr meiðslum. Reyndar misstum við núna Enrique og Aspas í meiðsli og Lucas í barneignafrí.

    Ég ætla að setja upp þrjár útgáfur

    Svona held ég að Rodgers leggji þennan leik upp, Cissokho kemur bara inn fyrir Enrique og Johnson fyrir Sterling. Á pappír er þetta mikil styrking á liðinu en á móti er alveg óvíst hvernig standið er á Johnson og Cissokho og hvort þeir byrji inná yfir höfuð.

    Ég tippa á að Pardew þétti hjá sér miðjuna með Tiote, Sissoko og Cabaye alla inná og hafi svo Remy og Ben Arfa á vængjunum til að nýta svæðið fyrir aftan væng bakverði okkar. Ég vona að hann sé með 4-4-2 með Cisse og Remy frammi en ég efast um að hann fari þannig inn í leikinn.

    Meira langar mig samt að sjá þetta einhvernvegin svona. Leggja upp á svipaðan hátt og Newcastle og fara aftur í fjögurra manna varnarlínu. Hef Sakho þarna en er nokkuð sama hver af Sakho, Agger eða Skrtel væri með Toure í vörninni.

    Þetta væri þá með þriggja manna miðju. Allen í leikstjórnandanum, Gerrard akkerið og Henderson fremstur af þeim sem nokkurskonar box to box miðjumaður. Þeir gætu skipt um stöður þegar það hentar.

    Þrír frammi þar sem Suarez og Moses draga sig aðeins til hliðar.

    Þetta er svo einn kostur enn sem er möguleiki ef Cissokho er ekki klár í slaginn (á ekki von á því þar sem hann spilaði æfingaleik um daginn).

    Johnson þarna á röngum kanti og Henderson áfram á hægri vængnum með Gerrard og Allen á miðjunni.

    Ég er ekkert of bjartsýnn fyrir þennan leik, þetta verður ekkert í ætt við síðasta leik okkar á þessum velli. Held að þetta verði nær heimaleiknum á síðasta tímabili og fari 1-1.

    Liverpool með Suarez og Sturridge í fantaformi á samt að skora meira á þessa vörn Newcastle.

    Annað sem hefur áhrif (á bæði lið reyndar) er að hópurinn var ekki mikið saman í vikunni. Ferðalögin taka orku frá leikmönnum þó þeir séu ekki allir að spila. Liðið hefur oft átt erfitt með að ná sér á strik eftir landsleikjahlé.

    Mignolet var með Belgum en spilaði ekki

    Skrtel átti stórleik með Slóvökum þar sem hann fékk rautt og skoraði sjálfsmark,
    var í banni í seinni leiknum í landsleikjahlénu

    Toure var að spila með Fílabeinsströndinni play off leik við Senegal

    Sakho var á bekknum þegar Frakkar unnu Finna

    (Agger) var að spila tvo leiki með Dönum

    Cissokho var á Melwood enda enn að ná sér og ekki alltaf í landsliðinu.

    Henderson var á Melwood en t.d. Raheem Sterling var með landsliðinu. Afhverju skilja fáir sem hafa séð meira en 20 mín af Liverpool á þessu ári.

    Gerrard var í aðal hlutverki fyrir England í tveimur leikjum.

    Moses var að spila með Nígeríu í play off leik

    Sturridge var að spila með Enska landsliðinu

    Suarez var að spila með Uruguay.

    (Lucas) var svo aftur valinn í lið Brasilíu, en er off í þessum leik eins og áður segir

    Newcastle áttu svo fjóra leikmenn í hóp hjá Frökkum. Einn (Debuchy) var í byrjunarliðinu, tveir (Cabaye og Remy) komu inná sem varamenn og Sissoko var með Sakho okkar á bekknum. Krul var á bekknum hjá Hollandi, Cisse spilaði með Senegal.

  13. Góð upphitun hjá Magga. Við ræddum þetta svo sem í síðasta Podcast-þætti, þótt Maggi missti af megninu af þeirri umræðu, en ég endurtek mína skoðun nú: ég sé nákvæmlega enga ástæðu fyrir því að hætta með 3-4-1-2 leikkerfið sem við höfum verið að nota með góðum árangri. Og miðað við meiðsla- og fjarverufréttirnar (Lucas, Enrique, Aspas, Coutinho) þá er nánast sjálfvalið í liðið. Ef Cissokho og Johnson geta byrjað verður liðið svona á morgun:

    Mignolet

    Touré – Skrtel – Sakho
    Johnson – Henderson – Gerrard – Cissokho
    Moses
    Suarez – Sturridge

    Eins og ég sagði, einu vafaatriðin eru hvort Johnson og/eða Cissokho eru heilir til að byrja og svo kannski hvort Joe Allen laumist beint inn í byrjunarliðið (þá væntanlega á kostnað Moses, þótt ég stórefi það).

    Þetta lið á að vinna Newcastle, án Coloccini. Þó vitum við öll hvernig St James’ Park getur verið – ef þeir skora t.d. snemma getur allt gerst á þessum velli hjá liði sem er annað hvort ömurlegt eða stórgott þessa dagana.

    Spái þó sigri. Er bjartsýnn. Komaso.

  14. Takk fyrir þessa flottu umfjöllun og ég deili gleði skríbenta með að boltinn skuli aftur vera farinn að “rúlla”.

    Stórsigurinn í vor lifir í fersku minni. Skrýtið samt, en ég hafði það lengi vel á tilfinningunni í þeim leik að þetta gæti farið á hvorn veg sem var. Gæfan féll með okkur tvö-þrjú skipti og svo opnuðust flóðgáttirnar. Ef við hefðum ekki haft lukkudísir með okkur í liði er aldrei að vita hvernig þetta hefði farið.

    Nú mætir Hnjúkaselið til leiks í hefndarhug og okkar menn eiga eftir að finna fyrir næðingnum á tindinum. Ef okkur tekst að halda út fyrsta hálftímann og ná svo smám saman stjórninni á leiknum er framtíðin björt. Annars óttast ég hið versta.

  15. Vill sjá Hendo halda sætinu sínu, var frábær í þessari stöðu.

    Smá þráðrán, það verður tombóla/uppboð til styrktar Kattholti við Melabúðina á morgun ( 19.10 ) þar sem meðal annars verða á uppboði AZ Alkmaar treyjur frá Jóhanni Berg á uppboði!

  16. Lucas eignaðist barn núna í morgunsárið. Hann kemur væntanlega á sínum bíl; SAAB 96 “72 módel.

  17. Spái 2-2 jafntefli. Erfitt að spila hádegisleik strax eftir landsleikjahlé, lítill undirbúnings- og recoverytími.

  18. Miðað við fréttir af Lucas og Enrique verður 3-4-1-2 líklega málið.

    Þá koma Johnson og Cissokho inn á vængina og Gerrard og Hendo fyrir aftan Moses. Velti fyrir mér hvort að Skrtel fær að halda sweepernum eða Rodgers reyni að koma Agger inn í dæmið….

Kop.is Podcast #45

Liðið gegn Newcastle